Færslur: 2011 Nóvember

30.11.2011 23:04

Tíðarfarið á Bakkanum í nóvember

Mánuðurinn var yfirleitt hlýr en vindasamt á köflum. Hitinn var lengi framan af um 10°C. þann 7. gekk á með skruggum og hvassviðri. Hvasst var næstu daga, súldar og brimasamt. Þann 11. gekk yfir ströndina mikið haglveður með þrumum og vöknuðu margir við ósköpin. Næstu dagar einkenndust af hlýndum en fór síðan hægt kólnandi og fjöllin gránuðu smám saman. Á nýju tungli þann 24. féll fyrsti snjór vetrarins hér við ströndina og gekk svo upp í frosthörkur næstu daga og meiri snjó. Mest var frostið -10 stig aðfararnótt 26. og að kveldi 30. en 11 cm jafnfallinn snjór var þann 28.

24.11.2011 22:47

Viðurnefni fyrr og nú

Það hefur löngum tíðkast hér við ströndina sem og víðar að gefa mönnum viðurnefni og eða gælunöfn og jafnvel stundum uppnefni. Sumir eru kenndir við húsin, starfið, mæður, maka eða önnur einkenni. Þannig voru menn þekktir sem t.d. Siggi-skó, Jón-kaldi, Jón-halti, Gunnsi í Gistihúsinu, Sæmi á Sandi, Kalli á Borg, Bjadda á Sæfelli, Tóta Kristins, Inga Lalla, Reinsi Bö, o.s.fr.v. Til forna þótti mikil upphefð í viðurnefnum eins og alkunna er, t.d. Skalla-Grímur, Eiríkur-rauði o.s.frv. En allt frá þjóðveldisöld hafa nafngiftir af þessum toga verið bannaðar samkvæmt Íslenskum lögum. Um það mál segir svo í Grágás: "Ef maður gefur manni nafn annað en hann eigi áður, og varðar það fjörbaugsgarð,(3 ára útlegð) ef hinn vill reiðast við.

Á héraðsþingi sem haldið var á Stokkseyri 19. júní  1704 kom upp slíkt mál. Þannig hafði sr. Halldór Torfason verið kallaður Brúsi, en kona hans Þuríður Sæmundsdóttir, kölluð Lúpa; lögréttumaðurinn Jón Gíslason nefndur Harðhaus; lögréttumaðurinn Brynjólfur Hannesson kallaður Stúfur; Kvinna Jóns Guðmundssonar í Hólum, Guðný Sigurðardóttir, Langatrjóna; Þorlákur Bergsson á Hrauni Snarkjaftur; Helga Benediktsdóttir á Hrauni Ígrá; Jón Guðmundsson á Skipum Rosi; hans kvinna, Ingiríður Magnúsdóttir, Svingla; hans sonur, Hafliði, Stóri-Blesi; hans sonur annar, Páll, Minnavíti; Sigurður Bergsson á Hrauni Merarson; kona lögréttumannsins Þorsteins Eyjólfssonar, Svanhildur Sigurðardóttir, Lóðabytta; kvinna Þorláks Bergssonar á Hrauni, Guðný Þórðardóttir, Langvía; kvinna Sigurðar Jónssonar í Einarshöfn, Ingunn Brynjólfsdóttir,Ígrá.

Þeir sem voru kallaðir fyrir þingið vegna þessara uppnefna voru: Gísli Pálsson umferðardrengur í  Stokkseyrarhreppi  19 ára, Ófeigur Jónsson í Skúmsstaðahverfi, Kári Jónsson í Einarshöfn, Brandur Sveinsson í Skúmsstaðahverfi, (Jón Eyjólfsson í Stokkseyrarhverfi, var fjarverandi) og Ormur Þórðarson í Traðarholti, en þeir neituðu að hafa fundið upp þessi viðurnefni. En fyrrnefndur Gísli Pálsson sagðist hafa heyrt úti á Eyrarbakka í nálægð kaupmannanna beggja, Páls Christianssonar Birck og Rasmusar Hanssonar Munch, ásamt velbyrðugs herra amtmannsins fullmegtugs, Seigr Pauls Beyer, framsagt hafa eftir þeirra spurn og eftirleitni, að yfirkaupmaðurinn Páll Christiansson hefði verið kallaður Ólöfarstreðill, en undirkaupmaðurinn Rasmus Munch Halldórustreðill. Frambar þá Gísli opinberlega, að haustið áður, 1703, þá Eyrarbakkaskip hafi verið afsiglt, hafi Kári Jónsson, Ófeigur Jónsson, Brandur Sveinsson og hann sjálfur verið allir til samans við stofugluggann á Skúmsstöðum, og sagðist  hann þá heyrt hafa, að þeir hafi þar um hönd haft nafnagiftur nokkrar af þeim, sem hér eru nefndar.

Einginn hlaut dóm svo vitað sé en tilkallaðir látnir sverja eiðstaf fyrir utan Gísla Pálsson sem þótti ekki eiðtækur sökum óknittasögu.
Heimild: Blanda 1944/Guðni Jónsson

21.11.2011 23:25

Sundtrén

Sundtrén eða sundvörðurnar á Eyrarbakka eru gömul leiðarmerki  fyrir sjófarendur inn sundin, sem einkum eru tvö. Einarshafnarsund og Bússusund. Á Einarshafnarsundi voru miðin þannig 1917:

1. Sundtré (mið þessi eru næstum mitt á milli Eyrarbakka og Óseyrarness).
2. Eystri varðan (vörðurnar standa nær sjónum en tréð).

Þvermið:

3. Barnaskólahúsið (austasta húsið í þorpinu).
4. Þríhyrningur (fjall sem flestir þekkja í Rangárvallasýslu).
5. Kirkjuturninn.
6. Einarshafnar-verslunarhús.

Þegar að sundinu er komið að utan má ekki fara grynra, ef brim er, en að merkin 3 og 4 beri saman og sömuleiðis 1 og 2 og eiga þau að bera austan til við Ingólfsfjall, þeim merkjum á að halda ef inn er farið, þangað til merkið 5 gengur inn í síðasta hornið á Einarshafnar- verslunarhúsum, og er þá komið inn úr sundinu, þá er haldið austur lónið og er stefnan sem næst á mitt þorpið, en ef lágsjávað er, segja skerin til. Dýpið i sundinu um stórstraumsfjöru er 1,7 metir þar sem grynst er.

Á Bússusundi voru miðin þannig 1917:
1. Sundtré (sama sundtré og á Einarshafnarsundi).
2. Vestri varðan.

Þvermerki:

3. Skálafell.
4. Tanginn vestan við Ölfusá.
5. Tré með þrihyrnu og veit eitt hornið upp skamt fyrir austan Einarshafnar verslunarhús.
6. Tré með þríhyrnu og veit einn flöturinn upp. Það tré er skamt austar en 5 og er nokkuð hærra.

Þegar að sundinu er komið að utan, má ekki fara grynra, ef brim er, en merkin 3 og 4 beri saman og sömaleiðis merkin 1 og 2, og þeim merkjum er haldið ef inn er farið þangað til merkin 5 og 6 bera saman og þeim merkjum, nefnilega 5 og 6, á að halda austur fyrir Einarshafnarsundmerki (þómá vera heldur innan við merkin), úr því er haldin sama leið og af Einarshafnarsundi. Dýpið í Bússu um stórstraumsfjöru er 2,8 metir þar sem grynst er.

1923 voru sett ljósker (50W perur) á sundtrén rauð  á Bússu -vörður og græn á Innri -hafnartrén, en engin ljós voru höfð á Einarshafnarsundtrjám þar sem sjaldan var farið um það á mótorbátum

15.11.2011 21:57

Frá Eyrarbakka, út í Vog

Guðmundur Ísleifsson í sjóklæðumSumarið 1919 kom Bjarni Sæmundsson til fiskiransókna á Eyrarbakka og Stokkseyri.  Hér dvaldi hann  frá 9-23. júlí og notaði hann ferðina m.a. til að kynna sér mótorbátaútgerð sem þá var mjög að ryðja sér til rúms hér um slóðir en einig skipalegur þær er hér voru notaðar. þá var starfandi hér fiskifélagsdeildin "Framtíðin", en í stjórn hennar voru árið 1919: Guðmundur Ísleifsson, Sigurjón Jónsson og Einar Jónsson, en félagsmenn munu hafa verðið um 50. Heimamenn fræddu Bjarna um erlenda botnvörpunga sem stunduðu veiðar við landhelgismörkin (4 sj.m.) á árunum áður og fram til 1915, en oft voru 20 erlend skip á miðunum samtímis sem leiddi til aflasamdráttar hjá heimamönnum. Sérstakann áhuga hafði Bjarni á ýsu og lýsuafla á Eyrarbakkamiðum og varð hann margs vísari, en það var aðal fiskaflinn yfir sumarið og einkum veiddur til heimabrúks fram að slætti. Með tilkomu mótorbáta var unt að sækja á dýpri mið, svo sem "Gullkistuna" í Selvogsbanka ef vel viðraði að sumarlagi, en áður höfðu aðeins stærri skip sótt þangað í sumarveiði. - í ágúst 1893 fiskaði kúttarinn "Tojler" úr Reykjavík, skipstj. Sigurður Jónsson, á 60 faðma dýpi, 16 sjómílur SV. af Selvogstöngum þorsk og stútung (legufisk) og um 200 lúður. Í júnímán. 1897 reyndi kúttarinn "Kastor" úr Reykjavík, skipstj. Sölvi Víglundarson, á 56-78 faðma dýpi, 16-19 sjómílur SSV. af Selvogstöngum og fékk þar vænan göngufisk, með síld í maga, og mikið af heilagfiski. í ágúst 1898 fékk sama skip á annað þúsund af þorski á 60-70 faðma dýpi, 12-18 sjómílur SV. af Selvogstöngum. Það var legufiskur, með ýmiskonar fæðu í maga.- Sá sem fyrstur lagði á djúpið  á mótorbát  frá Eyrarbakka og varð þar af leiðandi brautryðjandi í þessu tilliti, var Árni Helgason í Akri, sem þá var einn af ötulustu yngri formönnum á Eyrarbakka. Það var sumarið 1912. Næsta sumar bættust fleiri við, bæði frá Stokkseyri og Eyrarbakka og voru veiðar á þessu svæði  stundaðar ætíð síðan. Stundum fóru bátarnir út í Selvogssjó, Herdísarvíkursjó, og út fyrir Krísuvíkurberg, alt út i Grindavíkursjó (Hælsvík) og brúkuðu lóð eða færi.

Heimild: Andvari 1919 - Ægir 1919

13.11.2011 17:46

Verslun hefst á Sokkseyri.

Stokkseyri um 1900Eyrarbakkaverslun var á sínum tíma stórveldi í verslunarrekstri, en til hennar sóttu bæði Árnesingar, Rangæingar og Vestur-Skaptfellingar. Þá höfðu nokkrir einstaklingar verslun á Eyrarbakka með misjöfnum árangri og eru Einar borgari Jónsson og Þorleifur ríki Kolbeinsson kunnastir. Um 1880 bjó ungur maður, Bjarni Pálsson  í Götu í bæjarhverfinu á Stokkseyri og hafði hann starfað um skeið hjá Eyrarbakkaverslun. Hann sá hagnaðarvon í því að setja á fót  verslun á Stokkseyri, en lestirnar austan úr sýslum runnu þar hjá á leið sinni út á Bakka. Að vísu hafði hann ekki  verslunarleyfi, en það sem verra var, að á Stokkseyri  var engin löggilt höfn. Þá bar það til eitt vor, að sr. Stefán Stephenson  prestur á Ólafsvöllum  kemur að Götu og biður Bjarni hann að hefja máls á því  á þingmálafundi, að löggilt verði höfn á Stokkseyri. Prestur gerir svo  og hafði sitt mál fram á fundinum, þrátt fyrir nokkur andmæli. Um þingtímann var Bjarni í Reykjavík, til þess að útskýra  málið, því talsverður andróður var gegn því, en svo lauk, að höfnin var löggilt 1. apríl 1884. Ekkert varð þó úr verslun á Stokkseyri, að sinni, og drukknaði Bjarni á þrítugasta aldursári, árið 1887 er sexmannafar er hann var formaður fyrir, fórst við sjöunda mann í þrautalendingu við Þorlákshöfn.

Skúli Þorvarðsson /mynd:althingi.isUm þessar mundir var í bígerð að stofna pöntunarfélag í Árnessýslu. Gekkst Skúli alþingismaður Þorvarðsson á Berghyl fyrir því að nokkru. Sóttist hann eftir liðsinni Rangæinga. Var einn þeirra Þórður alþingismaður Guðmundsson á Hala, og boðaði hann til fundar á Stórólfshvoli árið 1888. Var þar pöntunardeild stofnuð, og Þórður kosinn deildarstjóri. Fjelagið var nefnt "Kaupfjelag Árnesinga". Tilgangur þess var að útvega "betri vörur og betra verð". Á þessum tímum voru allar ár í austursýslunum óbrúaðar, og olli það félaginu miklum erviðleikum. Félagið sótti og sendi vörur sínar til Reykjavíkur, og þótti þeim örðugt, sem lengsta áttu leiðina, eins og von var. Talsverður hagur þótti mönnum að því að versla við félagið, bæði með útlendar vörur og innlendar. Þeir sem ekki áttu mjög langa leið á »Bakkann«, en langt til Reykjavíkur, treystu sér ekki til að halda áfram viðskiptum við félagið, sökum erviðra ferðalaga. Var þetta til umræðu á fundi á Húsatóftum haustið 1889. Börðust þeir Þórður á Hala og síra Jón Steingrímsson í Þórður Guðmundsson frá Hala/mynd: althingi.isGaulverjabæ einna mest fyrir því, að skipta félaginu. Vildu uppsveitamenn í Árnessýslu versla áfram í Reykjavík, en Rangæingar og sumir Ámesingar mynduðu nýtt félag, sem kallað var "Stokkseyrarfélagið". Var ákveðið að fá vöruskip að Stokkseyri og kom fyrsta skipið 1891. Þetta skip kom tvisvar um sumarið, en sigldi nær því tómt til baka, í bæði skiptin. Aðalframkvæmdarmaðurinn í öllu þessu mun hafa verið Páll Briem, þá sýslumaður, en síðar amtmaður, fyrir norðan. Hann var formaður Stokkseyrarfélagsins, þangað til hann flutti norður.

Fyrsta verslunarskipið  sem kom til Stokkseyrar fór ekki inn á höfnina, en  árið eftir (11. Júlí 1892, ) kom Þýska skonnortan"Tankea", rúmlega 90 tonn að stærð og var það fyrsta skipið sem lagðist inn á Stokkseyrarhöfn. Þá var farið að versla með sauði til Englands, og námu viðskiptin 50 þús. kr. fyrsta árið. Verð á sauðum var 16-24 kr. Litlu síðar komust viðskiptin upp í 90 þús. kr. og urðu aldrei hærri síðan. Mestan hnekkir beið Stokkseyrarfæelagsins, þegar innflutningur á lifandi sauðfjé til Englands var bannaður. Komst félagið þá í 27 þús. kr. skuld við umboðsmann sinn, L. Zöllner.

Fyrsti afgreiðslumaður félagsins var ívar Sigurðsson, en hann varð fyrstur til að fá borgarabréf á Stokkeyri árið 1889. Hann hafði byrjað að versla í mars það ár í smábúð á Stokkseyri í litlu húsi, sem Grímur Gíslason í Óseyrarnesi átti þar. Hafði verið svo til ætlast, að þeir Grímur og Bjarni í Götu hefðu þar smáverslun, en það fórst fyrir við fráfall Bjarna sem fyrr er getið.

Grímur Gíslason í NesiÞað stóð verslun á Stokkseyri talsvert fyrir þrifum að þar var engin vörugeymsla fyrir hið nýja félag og rættist ekki úr því fyr en 1894, að Grímur í Nesi réðst í að byggja tvílyft geymsluhús, sem var 40 álna langt, 12 álna breitt. (brann til kaldra kola 1927) Ólafur Árnason var umsvifamikill kaupmaður á Stokkseyri um langt skeið. Hann stofnaði verslun árið 1894 í skjóli Stokkseyrarfélagsins í fyrstu en sá svo um pantanir þess síðustu árin. Árið 1907 stóð Ólafur að stofnun kaupfélagsins Ingólfs ásamt bændum einkum úr Rangárvallasýslu. Formaður fjelagsins var kosinn Eyjólfur Guðmundsson í Hvammi. Kaupfélagið Ingólfur rak mikla verslun fram yfir 1918 með útibúi á Eyrarbakka en starfsemin lognaðist útaf 1923.

Við manntalið 1890 voru á Stokkseyri 269 menn, þar af örfáir þurrabúðarmenn, en 1914 bjuggu þar 658 manns (allt þurrabúðarmenn) en þá var Stokkseyri  í mestum blóma. Á þessum árum voru flest allir torfbæirnir rifnir og timburhús byggð.

Aðrir verslanarekendur á Stokkseyri undir lok 19. aldar: Árið 1896 byrjaði Jón Þórðarson, kaupmaður í Reykjavík, með  verslun á Stokkseyri, en Björn Kristjánsson flutti þangað vörur um tveggja ára skeið. Árið 1898, keypti Edínaborgarverslunin í Reykjavík reksturinn og hafði hún þarna útibú í nokkur ár en þá tók Jón Jónsson & Co við henni. Umsvifamikil vínsala var í þessum verslunum og drykkjuskapur óhóflegur á þessum árum. Verslunarfélagið "Ingólfur" tók síðan þessa verslun yfir. Þá má geta þess að Lefolisverslun á Eyrarbakka hafði útibú á Stokkseyri um nokkur ár, til saltgeymslu og fisktöku, m. fl. Um 1928 var rekin verslun á Stokkseyri undir nafninu "Brávellir" en síðan var Kaupfélag Árnesinga lengst af með útibú á Stokkseyri.

StokkseyrarhöfnStokkseyrarhöfn: Eins og fyrr er getið hafði Bjarni Pálsson haft orð fyrir löggildingu hafnar á Stokkseyri skömmu eftir 1880. Grímur Gíslason í Óseyrarnesi lét síðan setja þar landfestar. Ólafur Árnason kaupmaður, hafði forgöngu um, að fengnir voru kafarar frá Danmörku, til að dýpka skipaleiðina og víkka höfnina. Var unnið að þessu í þrjú sumur og mun verkið hafa kostað um 24 þús. krónur. Lagði landssjóður til 16 þús., en Rangárvallasýsla, Árnessýsla og Ólafur Árnason afganginn. Höfnin var þó aldrei hættulaus, því alls hafa slitnað upp á höfninni fjögur verslunarskip, og þrjú hafa strandað annarstaðar, áður en þau næðu höfn. Af þessum 7 skipum strönduðu þrjú, sumarið 1906. Ekkert gufuskip komst inn á sjálfa höfnina, en fyrsta gufuskipið sem sigdi til Stokkseyrar var sænska skonortan "Toncea".

Heimildir: Páll Bjarnason /Tímarit kaupfjelaga og samvinnufélaga 1914. http://www.landogsaga.is/section.php?id=9&id_art=141&id_sec=172

http://www.heimaslod.is/index.php/Blik_1971/P%C3%A1ll_Bjarnason,_sk%C3%B3lastj%C3%B3ri,_fyrri_hluti

http://eyrbekkingur.blogspot.com/2011/03/sjoslys-i-rorum-vi-eyrarbakka.html

http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2172714

http://brim.123.is/page/7811/

09.11.2011 23:01

Vertíðin 1915

Frá Eyrarbakka voru 10 bátar gerðir út en 17 á Stokkseyri en allnokkrir Eyrbekkingar gerðu út báta frá Þorlákshöfn og verða þeir taldir hér síðar. Formenn á Eyrarbakka vertíðina 1915 voru þessir; Árni Helgason í Akri með motorbát, Guðjón Jónsson á Litlu Háeyri með áraskip Guðm. Ísleifsson á Stóru Háeyri með áraskip, Haraldur Jónsson á Stóru-Háeyri með áraskip  Jón Bjarnason í Eyfakoti með áraskip, Jón Einarsson í Mundakoti með áraskip, Jón Jakopsson í Einarshöfn með áraskip, Loftur Jónsson í Sölkutóft með mótorbát, Magnús Arnason á Búðarstíg með áraskip, Sigurður Gíslason í Suðurgötu með mótorbát.

Öll áraskipin á Eyrarbakka voru tíróin á þessum tíma. Aflanum af vélabátunum var skift í 2 parta, fékk Þá sinn helminginn hver útgerðarmaður bátsins, og hásetar, sem allir áttu hlut sinn sjálfir, en mótorbátarnir öfluðu jafnan meira en áraskipin. Á mótorbátunum voru 7-8 menn en 12-13 menn á áraskipunum. Fyrst var róið á vertíðina með línur, sem voru svo notaðar jöfnum höndum með netum. - í byrjun febrúar aflaðist ekkert nema lítið af smárri Guðmundur Ísleifssonýsu. Net voru lögð 14. s. m. og aflaðist þá dálítið. Annars mjög lítill afli yfir höfuð allan mánuðinn. Heidarafli vertíðarinnar 2.febr.-11. maí voru 26.589 þorskar, 6.707 ýsur og 175 ufsar. Annar slæðingur svo sem hnísur ótalið. Aflahæstir á vertíðinni var Árni Helgason með 6.315 fiska og Loftur Jónsson með 5.925 fiska

Eyrbekkingar sem gerðu út í Þorlákshöfn voru þessir: Guðfinnur Þórarinsson, Eyrarbakka, Ívar Geirsson, Eyrarbakka. Jón Jónsson, (Norðurkoti) Eyrarbakka. Jón Jónsson, Skúmstöðum. Jón Helgason, Eyrarbakka. Jón Sigurðsson, Eyrarbakka. Jón Stefánsson (Brennu) Eyrarbakka. Jóhann Gíslason, Hofi. Jóhann Guðmundsson. Kristinn Þórarinsson, Eyrarbakka. Sigurður Isleifsson, Eyrarbakka. Tómas Vigfússon, Eyrarbakka. Þórarinn Einarsson, Eyrarbakka.


Formannsvísur 1915

Eyrarbakki: a. Róðrarskip.

Guðm. ísleifsson, Stóru Háeyri.

Guðmund arfa ísleifs má
oft á karfa hlöðnum sjá,
hönd með djarfa, hár með grá,
Hlés ber starfið gott skyn á.
                              
Úlfur.

Lætur flakka formaður
fokku-rakka ótrauður,
eiðir stakka alkunnur,
austur- »Bakka« víkingur.

Þótt að hára hvítni krans,
hlýðir »Ársæll« boði manns,
enn þá knár við Drafnar-dans,
drengur fár er maki hans.

Guðjón Jónsson, Litlu-Háeyri.

Guðjón sjáinn ýtir á
oft, þó láin rjúki blá,
hræðast má ei maður sá
marar fláu öskrin há.

Drafnar-ála kannar knör,
klýfur þjála Ægis-skör,
Hönd úr stáli heim í vör
honum »Njáli« beinir för.

Heimild: Guðm. Ísleifss./Ægir 1915

08.11.2011 21:46

Eyrarbakkaþjófnaðurinn 1886

VesturbúðirnarTil sögunnar eru nefndir Þorfinnur Jónsson (f. 10. júní 1867), Magnús þorláksson (f.18. september 1866), Jón Magnússon í Svarfhóli (f. 24. marz 1852), Eyjúlfur Símonarson á Reykjavöllum (f.6. febrúar 1857) og Loptur Hansson (f.2. júní 1824). Voru þeir Þorfinnur og Magnús vinnumenn að Laugardælum í Flóa hjá Guðmundi lækni Guðmundssyni,  veturinn 1886. Þorfinnur, Magnús og Jón stunduðu á árunum áður sauðaþjófnað og ýmiskonar gripdeildir, en Eyjúlfur og Loptur nutu yfirleitt góðs af með þeim félögum.  Að kvöldi dags hinn 2. febrúar ákváðu þeir félagar  Þorfinnur og Magnús að fara fótgangandi í ránsferð niður á Eyrarbakka og höfðu þeir með sér skaröxi eina til verksins. Smá föl og svellalög voru yfir allri mýrinni og tunglbjart  sem gerði þeim gönguna léttari. Undir miðnætti voru þeir komnir í þorpið og brutust þeir fljótlega  inn um glugga í Lefolii-verslun, (Guðmundur Thorgrímsen var þá verslunarstjóri)  kveiktu þar ljós og stálu ýmsum búðarvarningi, svo sem dúkum, tóbaki, sykri, talsverðu af brauði, hnífum sem þeir prófuðu bitið á með því að skera gólfteppi í lengjur, speglum, þjölum, treflum, lérefti, sjölum, stígvélum, skyrtum, klútum, sápu, smjöri, vínflösku o. fl. matarkyns, sem þeir létu ofan í 2 poka, er þeir einnig tóku í búðinni. Þeir fóru því næst út úr húsinu sömu leið og þeir komu inn í það, og höfðu pokana með sér; tók þá Þorfinnur skíðasleða, er hann fann í bæjarþorpinu á Eyrarbakka  og óku þeir þýfinu um nóttina á sleða Þessum heim að Laugardælum og fólu Það í heyi í heygarðinum en komu sleðanum niður um vök í Ölfusá. Síðar tóku þeir þýfið Þaðan og geymdu það um stund í Coghillsrétt (John Coghill sauðakaupmanns )og víðar, allt  þar til eftirhreitur þýfisins fannst og málið komst upp. Höfðu þá allir fyrnefndir félagar hagnýtt sér hluta þýfisins á einhvern hátt.  En þetta var ekki fyrsta ránsferðin  niður á Bakka; Á þorra 1885 stálu þeir félagar, Þorfinnur, Jón og Eyjúlfur, jakka á Eyrarbakka, tilheyrandi Jóni í Norðurkoti, og lenti hann hjá þorfinni á endanum. Þá stálu þeir ýmsu lauslegu frá Guðmundi bókbindara Guðmundssonar sem og húsbónda sínum að Laugardælum.

Sýslumaður og lögreglustjóri var þá Þórður Guðmundsson í Gerðiskoti. Daginn eftir fyrrgreinda ránsferð voru sleðaförin eftir þjófanna rakin allar götur upp í Laugardælahverfi, en þá var orðið svo dimt að ekki var rakið lengra þennan daginn, en um nóttina snjóaði og huldi fönnin allar slóðir næsta morgun. Leitarmenn höfðu fundið í sleðaförunum sykurmolar, kaffibaunir og tvíbökur. Þeir töldu því ranglega í fyrstu að slóðin hefði verið gerð til að villa um fyrir leitarmönnum.

Í þessu máli voru átta manns lögsóttir, tvær konur sýknaðar og 6 dæmdir.

Þorfinnur og Magnús voru dæmdir í landsyfirréttardómi  1887 til 3 ára betrunarhúsavinnu. Jón og Eyjúlfur voru dæmdir til 4 ára betrunarhúsavinnu, en Loptur fékk 20 daga fangelsi við vatn og brauð. Þá var Hólmfríður Loptsdóttir (f. 18. nóvember 1837), vinnukona Lopts 5 daga fangelsi við vatn og brauð fyrir að matreiða hin stolnu matvæli úr Eyrarbakkabúð.

Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenzkum málum

Þjóðólfur 1886 og 1887.

08.11.2011 20:29

Skruggur og skýfall

36 mmHvassviðrið í gær hófst með þrumum og eldingum og mikilli rigningu um hádegisbil, en þá snerist vindur úr NA til SA áttar og bætti stöðugt í. Hús á Selfossi nötruðu og skulfu undan þrumunum, en hávaðinn frá skruggunum var geigvænlegur. Þá hlýnaði hratt frá 4 gráðum upp í 10 gráður á örfáum klukkutímum. Lægst stóð loftvog í 986.4 mb. um miðnætti, en þá var líka hvassast hér við ströndina 16 m/s og tæplega 24 m/s í hviðum. Mun hvassara var austan Þjórsár og inn til landsins sem og í öðrum landshlutum. Á síðasta sólarhring var úrkoma á Eyrarbakka um 36 mm.

02.11.2011 21:45

Tíðarfarið á Bakkanum í oktober.


Veðrið á Bakkanum þennan mánuð hefur einkennst af NA -SA lægum áttum, næturfrost nokkur en fátítt yfir daginn. Hæsta hitastig í mánuðinum var 12,3°C þann 3. en mest fór frostið í -2.2°C þann 7. Mesta úrkoma á sólarhring voru 16mm annan dag mánaðarins. Enginn snjór féll á láglendi í mánuðinum. Stormur var þann 8. meðalvindur 22 m/s og mest  29 m/s í hviðum. Þá gerði suðaustan hvassviðri þann 12. Þann 17 gerði norðan hvassviðri. Þrumuveður gerði þann 14. með stormhviðum, 23,5 m/s  Sérstakt góðviðri gerði þann 10 og á fyrsta vetrardegi þann 22.

01.11.2011 23:14

Vertíðin 1923

mb. Freyr, skip Jóns HelgasonarTólf mótorbátar voru gerðir út frá Eyrarbakka vetrarvertíðina febrúar og mars 1923. Voru þessir formenn: 1.Árni Helgason, Akri. 2.Guðfinnur Þórarinsson, Eyri. 3. Jóhann Bjarnason, Einarshöfn. 4.Jóhann Jóhannsson, Brennu. 5.Jóhann Loftsson, Sölkutóft. 6.Jón Bjarnason, Björgvin. 7. Jón Helgason, Bergi. 8.Jón Jakobsson, Einarshöfn. 9.Kristinn Vigfússon, Frambæ. 10.Kristján Guðmundsson, Stighús. 11.Páll Guðmundsson, Hjörleifseyri. 12.Vilbergur Jóhannesson, Haga. Þá voru gerð út tvö áraskip og voru formenn þeirra; Sigurður Ísleifsson, frá Gróubæ Eyrarbakka og Tómas Vigfússon, Garðbæ.

  Aflahæstur var Árni Helgason í Akri. 8.574 þorskar, 486 ýsur og 20 löngur. Aflahæstur formaður áraskipa var Sigurður Ísleifsson með 1200 þorska, 100 ýsur, 2 löngur og 4 ufsa. Heildarafli vertíðarinnar voru 65.255 þorskar, 5.646 ýsur og 214 ýmsar tegundir.


Heimild: Ægir 1923 (Tímarit.is)

  • 1
Flettingar í dag: 92
Gestir í dag: 44
Flettingar í gær: 193
Gestir í gær: 35
Samtals flettingar: 273247
Samtals gestir: 35394
Tölur uppfærðar: 9.12.2024 13:05:23