27.07.2010 12:00
Aldamótahátíð Eyrbekkinga
Aldamótahátíðin verður haldin 14-16 ágúst næstkomandi og verður sjálfsagt engu til sparað við að gera hana sem glæsilegasta. Sambærileg hátíð var sennilega haldi í fyrsta sinn á Eyrarbakka árið 1901 þann 2. janúar. Það var fyrir tilstuðlan P.Nielsen verslunarstjóra á Eyrarbakka. Þá voru Kirkjan, Goottemplarahúsið (Fjölnir)og flest öll verslunarhúsin skrautlýst ásamt ártölunum 1900-1901. Guðmundur Guðmundsson yngri bjó til glærur með ýmsum skemtilegum táknum og orðum sem höfð voru í búðargluggum. Lúðrasveit Gísla Jónssonar lék m.a. lagið "Kong Christian stod ved höj en Mast" á svölum samkomuhússins. Um miðnætti var kirkjuklukkum hringt og á sama tíma lét P. Níelsen þrjú fallbyssuskot dynja. Síðan tók söngfélagið lagið á svölum samkomuhússins, aldamótakvæði eftir Brynjúlf Jónsson dannebromanns frá Minna-Núpi. sem er eftirfarandi:
Stundin mikla stendur yfir,
stutt, en merk og tignarhá:
aðra slíka enginn lifir,
er nú þessa fær að sjá.
Eins og hverfur augnablikið
er hún raunar fram hjá skjót.
:,: En hún þýðir þó svo mikið
:,þessa,: stund eru' aldamót. :,:
Öldin, sem oss alið hefur,
eilífðar í djúp nú hvarf.
Hana munum! Hún oss gefur.
helgra menja dýran arf.
Framfara hún sáði sæði.
sendi not frá margri hlið.
:,: Þökkum fyrir þegin gæði,
:,Þökkum,: Drottins hjálp og lið. :,:
Straumur alda stanzar eigi:
Strax er byrjuð öld á ný.
Hver af oss þó henni deyi
hana blessum fyrir því:
Framfaranna blóm hún beri,
bæti' og auki notin góð,
:,: farsæla með guðs hjálp geri,
:,góða',: og nýta vora þjóð. :,:
Sönginum stýrði hr. Jón Pálsson organleikari. Veðrið var hið ákjósanlegasta: logn og bjartviðri, með ysjuskúrum við og við, og var minningarstund þessi öllum viðstöddum hin ánægjusamasta og hátíðlegasta.
Heimild:Þjóðólfur 1901
26.07.2010 10:14
Tundurdufl gert óvirkt á Eyrarbakka
Í sunnanátt og nokkru hafróti að kvöldi hins 29. oktober 1946 rak tundurdufl upp í fjöru inni í kauptúninu á Eyrarbakka, og var mkil vá fyrir dyrum af þessum ástæðum. En um kvöldið á fyrstu fjöru, sem duflið kenndi grunns, kom á vettvang kunnáttumaðurinn Árni SigurJónsson frá Vík í Mýrdal og gerði duflið óvirkt. Duflið var breskt seguldufl. Sami Árni Sigurjónsson hafði auk þessa dufls í þessum sama mánuði gert óvlrk tvö samskonar tundurdufl, annað á Bryggnafjöru í Landeyjum og hitt á Klaustursfjöru undan Alviðruhömrum.
Ekki er ósennilegt að hér sé um að ræða duflið sem síðar var notað sem olíutankur á Símstöðinni á Eyrarbakka (Mörk) og er nú í eigu byggðasafns Árnesinga. Duflið er nú til sýnis við Sjóminnjasafnið á Eyrarbakka. Duflið svipar mjög til dufla sem notuð voru í fyrri heimstyrjöldinni, en sennilegast er að því hafi verið plantað í byrjun seinni heimstyrjaldarinnar 1939 eða 1940.
Um líkt leiti, eða miðja síðustu öld rak tundurdufl á Gamlahraunsfjörur. Helgi Þorvaldsson á Gamla -Hrauni ( í vestur bænum) gerði duflið óvirkt og nýtti það sem olíutank.
Í byrjun september 1946 rak tundurdufl upp í sker á Stokkseyri, það var einnig breskt seguldufl eins og duflið sem rak upp á Bakkanum. Haraldur Guðjónsson duflabani úr Reykjavík gerði það dufl óvirkt.
Tundurdufl eða hlutir úr þeim hafa stundum komið upp í dragnót skipa. Þannig kom sprengitunna úr tundurdufli í dragnót Aðalbjörgu RE-5 út af Þorlákshöfn sumarið 2005 og Ævarr Erlingsson á Eyrúnu ÁR 66 fekk eitt dufl í nótina suður af Krísuvíkurbjargi 1997. Bendir það til þess að fjöldi tundurdufla hafi verið lögð á siglingaleiðum á þessum slóðum í heimstyrjöldinni síðari.
Í tundurdufli geta verið meira en 200 kg. af sprengiefni. Áætlað er að á fyrstu 3 árum styrjaldarinnar hafi bretar lagt um 110.000 tundurdufl á siglingaleiðum umhverfis Færeyjar og Ísland.
Heimild Tíminn 209.tbl.1947. Ársæll Þórðarson frá Borg.
Fréttablaðið 168.tbl.2005 ofl.
23.07.2010 13:58
Sólarlítið Sunnanlands
Það verður ekki mikið um sól á Suðurlandinu um helgina eða næstu daga segir veðurspáin. Suðaustan leiðindi í dag en kanski þurrari á morgun laugardag. Sunnudagurinn kemur með súld og sudda sem er svo sem gott fyrir gróðurinn. Þetta veðurlag heldur svo áfram með köflum fram eftir næstu viku. En við tökum þá bara lagið og syngjum í rigningunni. Söngur í regni
21.07.2010 10:20
Stundum gerir bakkabrim
Það bætist senn við veitingahúsaflóruna á Eyrarbakka, því innan skams mun opna nýtt kaffihús "Bakkabrim" sem staðsett er í fjörunni við höfnina. Það er Arna Ösp Magnúsdóttir sem mun bjóða ferðalöngum og heimamönnum upp á kaffisopa og meðlæti eftir göngutúrinn í fjörunni. Fjaran á Eyrarbakka er vinsælt útivistarsvæði með brimsvorfnum skerjum og ríkt af fuglalífi. Algengt er að fólk komi í fjöruna til þess að tína skeljar og kuðunga sem hægt er að nota í alskonar punt heimafyrir og njóta sjávarlofts og brimóms um leið.
21.07.2010 09:16
Kirkjan í viðhaldi
Þessa daganna standa yfir endurbætur á Eyrarbakkakirkju, en smiðir vinna nú að nýrri þakklæðningu.
Eyrarbakkakirkja vígð 14. desember 1890 af Hallgrími Sveinssyni biskup. Kirkjan var teiknuð af Jóhanni Fr. Jónssyni húsasmið.
Altaristafla kirkjunar er eftir Lovísu Danadrottningu, máluð árið 1891. Nýtt pípuorgel var tekið í notkun 7. september 1948. Í stað krossins sem nú trónir á turninum var vindflagg slegið úr járni og nefndist "Járnblómið". Kristinn Jónasson í Garðhúsum smíðaði klukkuskifuna sem snýr að austurbekkingum, en auk þess smíðaði hann líkanið af teinæringi þeim sem hangir í kirkjuloftinu. Hann var auk þess organisti kirkjunar í 40 ár. sr. Jón Björnsson var fyrsti presturinn sem þjónaði Eyrarbakkakirkju, en í dag þjónar sr. Sveinn Valgeirson og er hann 8.presturinn sem þjónað hefur kirkjunni.
19.07.2010 22:31
Híf og hoy!
Þetta hús sem híft var af stalli í dag og flutt burt, þjónaði síðast sem heilsugæslustöð á Eyrarbakka. Áður var það trésmíðaverkstæði Guðmundar Einarssonar smiðs, en hann byggði húsið einhverntíman á áttunda áratug síðustu aldar. Á þessari lóð stóð eitt sinn lítill bær sem hét Vegamót. Þar bjuggu Þórarinn Jónsson (f.6.3.1853) og kona hans Rannveig Sigurðardóttir (. f.10.júlí1859), en þau voru langafi og langamma undirritaðs og bjuggu áður að Grímsstöðum sem stóð rétt sunnan við bæinn Ós á Eyrarbakka.
Vegamót var upphaflega Þurrabúð, torfbær með tveim hálfþilum og einu hálfþili og taldi tvö herbergi.Veggir hlaðnir grjóti en rekaviður notaður í sperrur og klæðningu,Þak og veggir klæddir torfi. Lítill gluggi á suðurstafni.Gólfið var moldargólf og rúmstokkur með vegg. Eina mublan var trékista til að geima í föt og aðra muni. Eldað var við hlóðir eða eldstó og var það eini hitagjafinn. Hvorki var rennandi vatn né hreinlætisaðstaða innan dyra. Við þesskonar aðstæður bjó fjöldi fólks á Eyrarbakka um aldamótin 1900.
Seinna byggir Þórarin bæ á tóftinni klæddan bárujárni og einangraðan með reiðingi eins og farið var að tíðkast um 1920. Vegamót stóðu sem áður segir á þessum stað fyrir austan Skjaldbreið við hlið Ásheima en alveg framm í götu og var bærinn rifinn 29.ágúst 1983.
19.07.2010 10:36
Hafrún ÁR 28
Árið 1975 keypti Valdimar nýjan bát sem bar sama nafn. Báturinn var smíðaður í Þýskalandi 1957 og var 73.tn. stálbátur.Upphaflega hét báturinn Húni HU- 1, síðan Ólafur 2. KE-149 Báturinn fórst 2.mars 1976 út af Hópsnesi með allri áhöfn 8 mönnum. Voru 5 þeirra búsettir á Eyrarbakka.
18.07.2010 23:58
Blíðviðrisdagur
Það var enn einn blíðviðrisdagurinn í dag og komst hitinn í 22,9°C kl 18:00 í kvöld á veðurathugunarstöð VÍ. Það má því segja að veðrið hafi leikið við ferðamennina sem voru ófáir á Bakkanum um þessa helgi. Þennan dag 18.júlí var heitast árið 2003, en þá fór hitinn í 25°C
18.07.2010 23:30
Gróðursælt sumar
Á síðustu 30 árum hefur gróðurfar tekið stakkaskiptum á Bakkanum og núorðið er algengt að húsagarðar séu prýddir limgerði eða trjám. Um aldamótin 1900 var sumstaðar ekki stingandi strá því sandfok var stöðugt af fjörunni og eirði engum gróðri. Lengst af 20. öldinni voru aðeins fáir húsagarðar þar sem reynt var að rækta einhvern trjágróður og þótti sumum það hin mesta firra. Nú er öldin önnur og allflestar íslenskar trjátegundir eru ræktaðar í húsagörðum Eyrbekkinga. Síðasta vor var einstaklega gott og tók allur gróður snemma við sér og áfallalaust. Þannig hefur hefur t.d. toppurinn á litla genitrénu hér á myndinni vaxið um 44 sentimetra frá því í vor og hefur annar eins vöxtur ekki orðið á líftíma þess sem gæti verið um 6-7 ár.
17.07.2010 19:55
Frábært veður á Bakkanum
Það var veðurblíða á Bakkanum í dag með heiðum himni en nokkurri golu eins og víða á suðvestur horninu. Hæst komst hitinn í 21.2 °C á Brimstöðinni kl.14:30. Mælir VÍ sýndi hámarkshita kl 15:00 21.3 °C og þýðir það nýtt dagsmet. Eldra dagsmetið var 21,2°C á þessum degi 2007. Mesti hiti í júlí var 27,5°C þann 30. árið 2008 ef frá er talið gildið 29,9°C frá 25. júlí 1924 sem er talið vafasamt. Heitast var á Þingvöllum í dag 24,1°C
17.07.2010 16:31
Askur ÁR 13
Sjá nánar: http://brimbarinn.123.is
17.07.2010 14:19
Sólborg ÁR 15
Stálbátur smíðaður í Noregi 1960. Bátinn átti Hraðfrystistöð Eb 1975. Báturinn slitnaði frá bryggju í óveðri og skemdist nokkuð. Hann var seldur 1977.
Nokkrar breytingar voru gerðar á skipinu og m.a. sett nýtt stýrishús og leit það þannig út þegar skipið var gert út á Bakkanum.
01.07.2010 13:32
Veðráttan í júní
Ekki verður hægt að segja að júní mánuður hafi verið hlýr, fremur volgir dagar, því hitinn fór sjaldan yfir 15 gráður. Mesti hiti var 20,5 °C á Brimsstöðinni þann 23. júní. (Sama dag mældist á athugunarstöð VÍ á Eyrarbakka 21.9°C) Það byrjaði að rigna 10. júní og var væta flesta daga eftir það. Mesta 24. tíma úrkoma á Bakkanum var 13,8 mm þann 13. júní, en í heild 38.4 mm í mánuðinum. Vindar voru hægir og aðalega suðlægir. mesti vindur var þann 16. júni með 6.1 m/s. Á Jónsmessuhátíðinni 25.-27. var ágætis veður um 15°C og andvari og þurt eins og ætíð svo lengi sem hátíðin hefur verið við lýði.
24.06.2010 16:04
Þorlákur Helgi ÁR 11
Árið 1980 var keyptur nýr bátur undir sama nafni, smíðaður í Noregi 1960. Bátinn átti Einarshöfn h/f. Hann var seldur til Siglufjarðar 1986.
24.06.2010 14:56
Sæbjörn ÁR 15
Báturinn var smíðaður í danmörku 1956. Árið 1980 átti Hörður Jóhannsson á Eyrarbakka bátinn. Sæbjörn var tekinn af skrá og brendur í Helguvík 26.3.1982. Báturinn hét upphaflega Helga Björg HU 7.