Færslur: 2022 September

26.09.2022 23:11

Í kaffi hjá Geira biskup

Geiri var kokkur á einum Bakkabátanna þá er útgerð var í hvað mestum blóma á Eyrarbakka um 1970. Hann hét fullu nafni Sigurgeir Sigurðsson, en var ávallt kallaður Geiri biskup, en það kemur til að hann var alnafni Eyrbekksings Sigurgeirs biskups þjóðkirkjunnar (1939-1953)
Við strákarnir höfðum það fyrir sið að taka á móti bátunum þegar þeir komu í land seinnipart dags. Þegar kalt var úti var gott að fá að fara um borð og hlýja sér í kokkhúsinu. Ég var aufúsugestur hjá Geira biskup. -villtu molakaffi, taktu þér krús þarna af króknum-  Kaffið sauð á könnunni á olíueldavélinni og ilmandi kaffilyktin fyllti loftið í káetunni. Kaffi með sykurmola voru bestu veitingar fyrir okkur 10 ára guttanna. Raggi Run renndi á kaffilyktina og kom í lúgkarið - Alla Badda Rí Fransjí, svart kaffi og biskví- glettið viðkvæði Ragga vörubílstjóra sem enginn skildi en fékk okkur til að brosa að. Geiri var grannvaxinn og kominn vel yfir miðjan aldur, ávallt klæddur hlýrabol með tattó á upphandlegg.  - það voru bara sigldir menn sem höfðu tattó á þessum tíma.-
Um sumarið bar ég út póstinn á Austurbakkanum. Geiri bjó í Bjarghúsum og þegar póstur var til hans stóð ekki á því að bjóða upp á molakaffi. Hann átti hund sem hét Neró, ekta Collie. Við urðum miklir vinir ég og Neró, þó sjaldnast fari vel á með póstmanni og hundi, - var einu sinni bitinn illa af öðrum hundi í þessu sumarstarfi-.

Ekki veit ég hverra manna Geiri var eða konan sem hann bjó með, en hann hafði verið sjúklingur framan af æfi og líklega þau bæði. Höfðu verið á Vifilstöðum sennilega samtíða Lalla bakara frænda mínum þegar hann lá þar berklaveikur. Það var einmitt hann sem hafði reddað Geira húsnæði og vinnu á Bakkanum.
Um haustið dó Lalli frændi 54 ára að aldri. Hann hafði aldrei náð sér af sjúkdómnum. Smám saman fjaraði undan útgerðinni og bátunum fækkaði og þeir síðustu lögðu upp í Þorlákshöfn. Ekki hafði ég frekari kynni af Geira biskup eftir þetta en með þessari kynslóð fór líka ákveðinn sjarmör og kúltúr af þorpslífinu.

20.09.2022 22:31

Hannes Andrésson

Hannes Andrésson frá Litlu Háeyri hlaut Íslensku fálkaorðuna (Riddarakrossinn) árið 1971 fyrir rafvæðingu í sveitum. Hannes hóf störf hjá Rafmagnsveitu ríkisins árið 1946 og starfaði víða um land við lagningu háspennulína og síðar verkstjóri hjá Rarík.
Hannes var fæddur 22.  september 1892 sonur Andrésar Guðmundssonar og Guðbjargar Guðmundsdóttir og bjuggu þau að Skúmstöðum. Kona Hannesar var Jóhanna Bernharðsdóttir frá Keldnakoti á Stokkseyri. Þau hófu búskap í gamla bænum að Litlu Háeyri og ólu þar upp 9 börn.10.09.2022 22:51

Steinskot

https://flic.kr/p/bbngJ


Hópið og Steinskotsbæir eru áberandi kennileiti á Austurbakkanum. Hópið, gamalt sjávarlón, sennilega hluti af sömu láginni og Háeyrarlónið. Háeyrará rann úr því á fornum tíma til sjávar austan við er barnaskólinn stendur núna. Hópið var eitt aðal leiksvæði barna á Háeyrarvöllum er nýttu það til siglinga á allskyns fleytum, en á vetrum aðal skautasvell þeirra Austubekkinga. Nú er Hópið næsta þurt mestan part ársins. Steinskot, var fyrsta hjáleiga Háeyrar og tvíbýlt. Torfkofar eða fjárhúsin sem stóðu innan garðshleðslunar eru nú löngu horfin. Síðustu ábúendur í vestari bænum voru Guðmundur Jónsson, Sigurðssonar frá Neistakoti og Ragnheiður Sigurðardóttir.  Þarna fæddist Guðni Jónsson fyrsti formaður V.lf. Bárunnar. Guðni-sterki nefndur. Ein sagan segir að hann hafi oft lyft fullri lagertunnu upp á brjóst sér og síðan brugðið neglunni úr með tönnunum og drukkið af eins og um hálf anker væri að ræða. Margir sáu hann einnig tæma fulla brennivínsflösku í einum teig. Vestri bærinn er nú gistihús. Í Eystri bænum bjó samtíða þeim  Águstínus Daníelsson og Ingileif Eyjólfsdóttir og síðar sonur þeirra Eyjólfur, ávallt nefndur Eyfi í Steinskoti, maður þéttur á velli og gekk alltaf í gúmmiskóm, klæddur grænni úlpu af þeirri gerð sem tíðkuðust um 1950 og oft með hjólið sitt í taumi, fremur en hjólandi. Hann var handstór að mætti líkja við bjarnarhramma. Eyfi stundaði sauðfjárbúskap og ræktaði eitthvað af kartöflum.  Allt bar hann heim á hjólinu sem var hans eina farartæki. Í þá tíð þurftu menn stundum Eyfa heim að sækja er skemtun stóð fyrir dyrum. Hann átti þá gjarnan eitthvað sterkt og gott til að létta lundina. 

Sjá einig: https://www.flickr.com/photos/[email protected]/115187636/

10.09.2022 22:46

06.09.2022 20:31

Álfkonan í Skollhól

slenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjóri Jón Árnason
 
 

Á Eyrarbakka í Árnessýslu er kot nokkurt sem kallað er Eyfakot. Kot þetta er skammt fyrir sunnan og austan íbúðarhús Bakkakaupmannsins þar sem það er nú, en fyrir norðan það og þó heldur til austurs er dæl ein sem kölluð er Hjalladæl. Hún verður svo lítil á sumrum að hana þurrkar því nær upp ef þerrar ganga lengi með sólbakstri. Norðan- og austanvert við dæl þessa er hraunbelti lítið sem nefnt er Hjallahraun. Í hrauni þessu er hóll einn grasi vaxinn að mestu og heitir hann Skollhóll.

Í elztu manna minnum sem nú lifa bjó kona ein öldruð mjög í Eyfakoti er Guðrún hét. Hún átti son einn stálpaðan hér um bil tólf eða fjórtán vetra. Drengur þessi var mikill fyrir sér, ódæll og ógegninn móður sinni. Hann tamdi sér það eitthvert sumar að ganga norður fyrir Hjalladæl og norður á Skollhól; lét hann þar öllum illum látum, hafði í frammi galsa mikinn, hark og háreysti eða hann henti steinum ýmist ofan af hólnum eða upp á hann og utan í hann. Það var og stundum að hann fleygði sér niður í hraungjóturnar utan í hólnum þegar hann var orðinn þreyttur á þessum ógangi og óraspreng.

Þegar þessu hafði fram farið um hríð dreymir móður hans einhverja nótt um sumarið að henni þykir kona koma til sín og biðja sig að hamla syni sínum frá að leggja leiðir sínar norður á Skollhól og enn heldur að sjá svo fyrir að hann hafi þar ekki í frammi ógang þann er hann hafi tamið sér þar um hríð þar sem hann hafi bæði brotið fyrir sér glugga og mölvað fyrir sér klápa og kirnur með grjótkasti og þar á ofan gagnist sér ekki að elda neitt fyrir moldkastinu úr honum. Hún lyktar með því ræðu sína að ef drengurinn haldi teknum hætti um athæfi sitt skuli hann sjálfan sig fyrir hitta. Að svo mæltu hverfur hún frá Guðrúnu.

Um morguninn vandar Guðrún við son sinn um athæfi hans að undanförnu á Skollhól og leggur ríkt á við hann að koma þar ekki framar þar eð mikið muni við liggja og þó mest fyrir sjálfan hann ef hann hlýddi ekki boði sínu. Ekki er þess getið að hann héti móður sinni neinu góðu um það, en hitt er víst að hann mundi skamma stund skipan hennar því fám dögum síðar en Guðrún hafði vandað um þetta við hann fannst hann dauður norður á Skollhól og var nálega brotið í honum hvert bein, og er það trú manna að kona sú er móður hans dreymdi litlu áður hafi átt byggð í hólnum og látið nú drenginn grimmilega gjalda gáska síns.

Wikiheimild.

06.09.2022 16:59

Jónsi Jak

Jón Jakopsson, (f 1888) ávallt kallaður Jónsi Jak. Hann bjó ásamt systrum sinni Jakobínu og Ingibjörgu í Jakopshúsi í Einarshafnarhverfi. Bóndi og formaður til sjós um árabil, fyrst á teinæringi sem hann átti hlut í um 1910 og á mótorbát á árunum í kringum 1920. Hreppsnefndarmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn var hann um 1930. Jónsi var fróður mjög en forn í fari og lifðu þau systkini aðalega á sjálfsþurftarbúskap seinni árin en öflugur bóndi var hann hin fyrri. Kýr voru í öldnu fjósi norðan við Jakobshús, kindur í kofa þar norður af og hlaða. Hross nokkur er gengu laus þar í hverfinu og bitu hvar sem eitthvað var að hafa og jafnvel rótuðu í ruslatunnum hjá fólki þar í hverfinu. Fornleg sláttuvél gerð fyrir dráttarhesta og heyvagn sömu leiðis voru einu tækin á búinu, en annars var allt unnið í höndum. Kolakynding var lengst af í Jakopshúsi sem og nokkrum öðrum þarna á Vesturbakkanum langt fram eftir 20. öldinni. 

 

Jakopshús (Einarshöfn) var hálfgerð "umferðamiðstöð" í lok 19. aldar, en þangað komu fjöldi ferðamanna ofan úr sveitunum í Árnes og Rangárvallasýslu til að þyggja gistingu í kaupstaðaferðum sínum, eða voru að fara eða koma úr verinu eins og það var kallað að halda til á vertíðum. Þar réðu húsum Jakop Jónsson og Ragnheiður Jónsdóttir ásamt fjórum dætrum og einum syni. 

Jónsi Jak var ógiftur og barnlaus.

Mynd: https:///Adfang.aspx http://content://media/external/downloads/518

05.09.2022 19:42

Brim á Bakkanum aftur í loftinu

 

Vefsíðan Brim.123.is hefur opnað aftur eftir nokkuð langt hlé. Allt gamalt og gott af Bakkamönnum verður því haldið til haga enn um sinn. Vefsíðan er óháð og þiggur enga opinberra styrkja eða ívilnunar og öll efnisöflun hefur verið unninn af áhugasemi einni saman. Ef lesendur lauma á skemmtilegum sögum af Bakkanum, helst frá 1970 og þaðan af eldra, þá þætti okkur vænt um að fá að birta þær hér hvort sem þær eru sannar eða lognar.  Senda má á netfangið [email protected] 

Allt það nýjasta sem fréttist úr hinu daglega lífi í Árborg kemur með Sunnanpóstinum. Ekki missa af því. https://sunnanpost.blogspot.com/?m=1

  • 1
Flettingar í dag: 263
Gestir í dag: 32
Flettingar í gær: 550
Gestir í gær: 56
Samtals flettingar: 121567
Samtals gestir: 11111
Tölur uppfærðar: 23.3.2023 09:43:50