Færslur: 2012 Maí

26.05.2012 00:32

Vélbáturinn " Íslendingur" frá Stokkseyri

Um hádegisbil 2. maí 1931 var Línuveiðarinn "Pétursey " stödd um eina sjómílu frá Krísuvíkurbjargi. Heyra bátsmenn hvar blásið er í þokulúður uppi á bjarginu og bregður Guðjón Jónsson skipstjóri sjónauka sínum á loft. Verður hann þá var við vélbát í klettaskoru framan í bjarginu og sex menn á bjargsillu þar fyrir ofan veifandi þjóðfánanum. Var um að ræða vélbátinn Íslending frá Stokkseyri, en vökumaðurinn hafði sofnað á verðinum og bátinn rekið upp í klettana og brotnað. Guðjón sendi léttbát til þeirra undir bjargið og sigu mennirnir af Íslendingi niður í hann í tveimur hollum, þeir voru síðan selfluttir um borð í vélbátinn "Muninn" er þá kom að björgunaraðgerðum. Mennirnir, sem í skipreikanum lentu,  voru  Ingimundur  Jónsson  formaður, eigandi bátsins, Bjarni Sigurðsson, Kristján  og Sigurður  bræður, Hreinssynir, og Einar Vilhjálmsson, en þeir höfðu þá allir hangið á sillunni í 12 stundir.

Íslendingur II var 12 tn. 15 ha. Alpha motor. Smíðaður í Vestmannaeyjum 1915, (hét "Lára")

15.05.2012 22:22

Skýrsla um sjóslys á Eyrarbakka 1898

Þann 19. ágúst 1898 vildi svo til, að skip lá, fyrir utan Einarshafnarsund, sem var á leið í land, úr gufubátnum "Reykjavik". Þoka var, lágsjávað og brim, álitu þvi þeir sem í landi voru, að skipið sem úti fyrir lá, þyrfti 2 menn til viðbótar til að geta lent, svo afráðið var að senda skip út, með 11 mönnum, til hjálpar, og færu því þessir 2 menn [yfir], sem álitið var að skipið hefði vantað.

Þetta var gjört, og fór Jón Sigurðsson (formaður) af Eyrarbakka út með skipið. Skipinu gekk vel út úr sundinu, og lét hann 2 menn af þessum 11 í skipið, sem úti fyrir lá. Þegar það var gjört tók hann 3 bagga af harðfiski úr skipinu, sem hann lét mennina í, til að rýma til í því, því i þvi var töluvert af ýmsum munum, sem órýmindi gjörðu; að því búnu sneri áðurnefndur formaður Jón Sigurðsson frá skipinu, og með samráði við hásetana lagði hann á sundið aftur og komst tafarlaust inn i það mitt, þangað til alt í einu kom stór brimsjór, sem hvolfdi skipinu á augnabliki; strax komust 2 mennirnir á kjöl, en þá hvoldi því strax upp í loft, og komust þá þessir tveir menn, sem á kjöl komust, upp i það; smátt og smátt komust svo 7 alls upp í það, hinir 2 af þessum 9 mönnum, sem voru á skipinu, komust aldrei í skipið, annar hélt sér á sundi, en straumur bar hann frá skipinu, þar til að hann sökk, ,hinn sást aldrei frá því fyrst að skipinu hvolfdi.

Menn voru allir í landi, og skip ekki við hendina, nema vestur á skipalegunni lá hlaðinn áttæringur af salti, sem búið var að ferma úr saltskipi frá Lefolis- verslun, sem á höfninni Iá. Þegar sást úr landi, að skipinu hvolfdi, brá ég undirritaður Jónas Einarsson (form.) á Eyrarbakka, fljótt við, ásamt nokkrum mönnum sem við hendina voru, og hlupum sem við gátum niður í fjöruborð og að kletti neðst við sjóinn, þar sem fyrnefndur áttræðingur lá fullur af saltinu; við ruddum úr honum saltinu, og með sama á stað og vestur að sundi; voru þá komnir 2 bátar að sundinu, annar frá gufubátnum "Oddur" og hinn frá skipinu Thor.

Christensen skipstjóri af "Oddi" var á öðrum bátnum með háseta sinum, en stýrimaður og háseti af Thor á hinum. Bátarnir treystu sér ekki að leggja á sundið, til að gjöra björgunartilraun, því jafnt og þétt gekk fallandi brimsjór yfir það; ég lagði þó tafarlaust á sundið, og komst með illan leik út að skipinu, var það þá á réttum kili þversum í sundinu og mennirnir 7 í þvi. Gerðum við þá strax tilrunir að bjarga, og gekk það vel, því einmitt þá var sjórinn að miklu leyti kyrr. Björguðum við því að heita á samri stund þessum 7 mönnum, sem í skipinu voru; voru þeir þá nær dauða en lífi áður en við höfðum flutt þá í land. Var þeim veitt hin besta aðhlynning, sem mögulegt var að hafa, með læknisráði, enda eru þeir nú búnir að fá heilsu, utan einn af þeim, sem dó nokkru síðar. -

Að þessi skýrsla sé svo rétt að öllu, sem hægt er, vottum vér undirritaðir upp á æru og samvisku.

Eyrarbakka 1898. (Undirskriftir vanta).

Þetta er bókað í sýslubókum Árnessýslu 1898.

Formaðuraður fyrir þessari björgun var það Jónas Einarsson i Garðhúsum á Eyrarbakka; druknaði hann á "Sæfaranum" (Framtíðin), sem fórst utast á Bússusundi 5. apríl 1927. Einn af þeim, sem best gengu fram við björgunina, var Jóhann Gíslason frá Steinskoti á Eyrarbakka, síðar fiskimatsmaður í Reykjavik, og einn af þeim, sem var bjargað var Þorsteinn Þorsteinsson síðar kaupmaður í Keflavík.

Heimild: Ægir 1908

13.05.2012 23:00

Krían kominn

Þá er hún kominn, blessuð Bakkakrían, en það sást til kríuhópa um miðjan dag í gær 12.maí. Heldur fær hún óblíðar móttökur hjá veðurguðunum í norðan rokinu sem brast á í dag, en vindhviður allt að 26 m/s hafa mælst hér við ströndina. Það er svo spurning hvort krían finnur síli á næstu dögum og vikum, en ef ekki, þá er hætt við að hún ungi ekki út frekar en hin fyrri ár og kveðji okkur snemma þetta sumarið. Í fyrra kom krían 16. maí og það gerði hún líka 2006 en vorið 2010 og 2009 kom hún á sama tíma og nú eða 12.maí og 2008 þann 10. og 2007 þann 15. 

Kríukoman er ávalt fagnaðarefni á Bakkanum enda telst þá sumar komið hér við ströndina.

01.05.2012 22:20

Bátsmerki Stokkseyringa

Þann 10. febrúar 1926 var eftirfarandi merking veiðafæra samþykt fyrir Stokkseyrarbáta:

"Sylla", Ijósgrænt. "Björgvin", 2 Ijósgræn. "Baldur", blátt.  "Svanur", brúnt. "Fortúna", hvítt. "Aldan", dökkgrænt. "Friður", 2 dökkgræn. "Íslendingur"; svart. "Stakkur", 2 svört. "Heppnin", grænt, rautt. "Inga", hvítt, grænt. Var bátsmerkið nær ás (á linu) og fjær nethálsi.  

Sýslumerkið  var rautt.

Ægir 1927.

  • 1
Flettingar í dag: 1053
Gestir í dag: 179
Flettingar í gær: 1098
Gestir í gær: 106
Samtals flettingar: 207422
Samtals gestir: 26850
Tölur uppfærðar: 16.9.2024 10:55:53