29.03.2009 21:42

Frá Eyrarbakka út í vog

Götumynd Eyrarbakki 1964
Hef bætt við nokkrum gömlum myndum í albúmið, en það eru úrklippur úr gömlum blöðum, einkum Alþýðublaðinu, en þessi mynd birtist þar 1964 og höfundur hennar er Georg Oddson ljósm. á sama blaði. Hún sýnir aðalgötuna í vestur og er tekin við Nýjabæ. Takið eftir bensíndælunum við Ólabúð og konunnni sem gengur eftir miðri götunni. Það voru nefnilega engar gangstéttir í þá daga.
Albúm

18.03.2009 22:22

Tóta gamla Gests í Garðbæ

Þórunn við brunnin hjá HúsinuÞórunn Gestsdóttir var fædd 17.mars 1872 að Króki í Meðallandi. Foreldrar hennar voru Gestur Þorsteinsson (Sverrissonar) og Guðrún Pétursdóttir frá Hrútafelli undir Austur Eyjafjöllum. Þórunn ólst upp hjá ömmu sinni og nöfnu Þórunni Jónsdóttur á Kirkjubæjarklaustri. Árið 1883 á 11. ári Þórunnar flutti hún búferlum með ömmu sinni úr V-Skaftafellssýslu og að Valdastöðum í Kaldaðarneshverfi til Olgeirs sonar síns, en Olgeir flutti ári síðar út í Selvog og fór þá gamla konan aftur að basla við búskap.

  Þarna var Þórunn hjá ömmu sinni ásamt mállausum föðurbróðir sínum þangað til kaldaðarneskotin (Valdastaðir, Lambastaðir og Móakot) voru sameinuð í eina jörð og Kaldaðarnes (Kallaðarnes) gert að stórbýli af Sigurði sýslumanni Ólafssyni.

             Á vetrum fór föðurbróðir Þórunnar til sjáróðra á Eyrarbakka en nöfnunar tvær gengdu húsverkunum á Valdastöðum. Bústofninn var 30 kindur, 3 kýr og 6 hross. Það gat komið fyrir á vetrum að Ölfusá gerði óskunda þegar hún flæddi yfir bakka sína með jakaburði og skildi tún eftir í sárum full af sandi og grjóti. Ölfusá átti það líka til að flæða inn í fjárhúsin án þess að nokkrum vörnum yrði við komið og verða skepnum þar að fjörtjóni.

 

Þegar amma Þórunnar hætti búskap fóru þau öll til vinnu hjá sýslumanninum og voru þar til gamla konan dó. Næstu fimm árin eftir lát ömmu sinnar var Þórunn vinnukona á Valdastöðum, en þaðan fór hún svo til Eyrarbakka og gerðist lausakona. Þá fór hún í kaupavinnu á sumrin og var lengst af á Bjóluhjáleigu. Á vetrum var hún oftast hjá Jóni Árnasyni kaupmanni í Þorlákshöfn og kyntist hún þar tilvonandi manni sínum, Ólafi í Garðbæ á Eyrarbakka, en hann var þá sendisveinn Guðlaugs Pálssonar kaupmanns á Eyrarbakka. Ólafur var maður stór, þrekinn, prúðmenni, hæglátur og góðgjarn í tali, en Þórunn aftur fjörug og hláturmild. Árin 1902 til 1903 vann Þórunn í eldhúsinu hjá frú Guðmundu Nilsen í Húsinu og lærði þar matreiðslu. Þórunn og Ólafur eignuðust tvær dætur, Ragnheiði og Karen en hún dó um tvítugt.

 

Þórunn fékk vinnu við verslunina á Eyrarbakka en féll ekki við að troða ull í poka allt sumarið. Hún var vön á sumrin við að vinna úti í hinni lifandi náttúru við grös og skepnur. Hún braut heilan um það hvernig hún gæti eignast kind, bara eitt lítið lamb. Og svo kom að því að hún keypti lamb. En Ólafi leist ekki á þetta framtak og sagði: "Tja, hvað ætlar þú nú að gera við þetta?

  

Þórunn dró af kaupinu sínu 4 krónur og fyrir það fékk hún fallega svarta gimbur. Þetta gerði hún á hverju ári þar til hún hafði eignast 7 kindur. Kindunum fjölgaði og hún hætti að troða ull í poka og fór að heyja á engjunum handa kindunum sínum. Þegar fyrra stríðið skall á þá sagði Ólafur" Tja, nú er gott að þurfa ekki að kaupa kjöt"

 

Þórunn hafði rétt á engjastykki í Straumnesi, en tjald sitt hafði hún á Stakkhól og dvaldi þar 6 vikur á sumri og heyjaði 100 til 114 hesta af stör. Á engjunum heyjuðu flestir Eyrbekkingar og lágu þar við yfir sláttin en komu aðeins heim um helgar. Allir hjálpuðust að við heybindingar og flutning niður á Bakka.

 

Þórunn ann kindunum sínum af lífi og sál. Á vorin vaknaði hún snemma morguns til að fara út á mýri, til þess að líta eftir blessuðum kindunum,og lét ekki aftra sér þó oft væri þar kalsamt og blautt. Engu skipti hvort var dagur eða nótt þegar kindurnar voru annars vegar. Stundum var henni ekki svefnsamt fyrir áhyggjum af litlu lömbunum og dreif hún sig þá út á mýri um miðjar nætur. En svo kom mæðuveikin og varð Þórunn að fella sínar 30 kindur vegna þess. En Tóta ætlar ekki að troða ull, og því  tók hún það til bragðs að kaupa kú sem *Búkolla hét og eina kvígu og nokkrar hænur, auk þess sem hún ræktaði kartöflur og gulrætur. Lifði hún á þessu eftir að Ólafur hennar féll frá og var hún enn að þó kominn væri á tíræðis aldur. Eflaust muna margir Eyrbekkingar enn þann dag í dag eftir henni Tótu Gests. Þórunn dó 19. júní 1967 þá 95 ára gömul.

 

Heimild: Morgunblaðið 63.tbl.1952
*Kýrin hét "Gulrót" og hana keypti Þórunn af Lýð Pálssyni í Litlu Sandvík fyrir gulrætur sbr. blogg Lýðs yngri.

14.03.2009 16:01

Aftur til fortíðar

Trönur á EyrarbakkaÞað eru nú all mörg ár síðan útgerð var og hét á Bakkanum og enn lengra síðan bændur á Suðurlandi hættu að sækja verslun sína á Eyrarbakka. Uppvaxandi kynslóð þekkir því aðeins þetta gamla verslunar og fiskveiðiþorp af  frásögn. En það er einmitt sú mikla saga sem er verðmætur menningararfur til næstu kynslóða. Þessa sögu er hvergi hægt að endurskapa nema hér á Eyrarbakka og gera hana þannig enn verðmætari.

 

Það yrði örugglega stórkostleg upplifun fyrir bæði innlenda sem erlenda ferðamenn, er þeir gengu um götur þorpsinns og findu angan af ilmandi engjaheyi þar sem sett yrði upp eftirliking engjaheyskapar með heysátum og lítilli tjaldborg, hrífum og ljáum og heyvögnum. Þá gætu kindur og kýr verið á beit og sett svip sinn á þorpið eins og forðum daga.

 

Fiskihjallar og árabátar myndu bera fyrir augu ferðamannsins og minnir hann á langa sögu fiskveiða frá Eyrarbakka. Þá kæmi hann að iðandi markaðstorginu þar sem bændur og handverksmenn væru með vörur sínar á boðstólnum og þar með endulífga forna verslunarhætti þar sem menn gætu prangað dálítið um verðið.

 

Að endurskapa sögu þorpsins er stórt tækifæri fyrir ferðaþjónustuaðila og menntastofnanir til að gera íslenskri menningararfleið hærra undir höfði en áður hefur tíðkast.

11.03.2009 23:23

Eyrbekkingar líklegir til að krefjast sambandsslita við Árborg

EyrarbakkiTil stendur að breyta afgreiðslutíma þjónustuskrifstofu Árborgar á Eyrarbakka að því er fram kemur í Sunnlenska fréttablaðinu í dag. Þannig verður skrifstofan lokuð yfir sumarmánuðina, en frá 1. september verður einungis opið einn dag í viku. Samliða mun eitt ársstarf færast frá Eyrarbakka til Selfoss. Það er mat manna að með þessu sé bæjarstjórn Árborgar að svíkja samning sem gerður var við stofnun sveitarfélagsins Árborgar um að það yrði þjónustuskrifstofa í öllum byggðarlögunum.

 

Þorvaldur Guðmundsson formaður bæjarstjórnar segir m.a. í samtali við Sunnlenska fréttablaðið að verið sé að hagræða í rekstri og bendir á að skrifstofunni á Stokkseyri hafi verið lokað fyrir mörgum árum.

 

Mikill urgur er í Bakkamönnum vegna þessarar ákvörðunar og hafa heyrst háværar raddir um sambandsslit, en fordæmi eru fyrir slíku, þegar Eyrbekkingar klufu sig frá Stokkseyrarhreppi árið 1897 og stofnuðu Eyrarbakkahrepp.

Hinsvegar er það ótrúlegt markmið sveitarfélags að færa þjónustuna frá fólkinu í stað þess að að vera þeim sem næst og styðja við það á þessum umbrotatímum. Sveitastjórnarmenn sem hafa aðra hugsun en þá að vera íbúunum bakhjarl,skjól og skjöldur ættu umsvifalaust að segja af sér!

Það einkennilega er að bæjarstjórn Árborgar er sjálf að berjast við ríkið gegn sömu rökum og formaður bæjarstjórnar notar hér (Hagræðinu í rekstri) til að koma í veg fyrir skerta þjónustu á fæðingardeild HSU. Að nota þessa sömu rökleysu gegn Eyrbekkingum er því í hæsta máta skammarleg fyrir formann bæjarstjórnar.

09.03.2009 12:39

Framtíðarsýn Eyrbekkinga byggir á ferðaþjónustu.

BúðarstígurÁ íbúafundi sem haldinn var í Gónhól sl. Laugardag kom fram sterkur vilji til að byggja upp ferðaþjónustutengdann atvinnuveg. Hið gamla 19.aldar söguþorp er sú umgjörð sem er aðlaðandi fyrir ferðamenn auk ósnortinnar náttúru í nágreni þorpsinns. Hinn sérstæði skerjagarður, brimið og fjölskrúðugt fuglalíf ásamt einstaklega fallegri götumynd með gömlum húsum til beggja hliða er það aðdráttarafl sem unnt er að virkja ásamt minjasöfnunum og hinni miklu sögu og listsköpun sem byggðinni tengist. Rauða húsið og Gallery Gónhóll hafa nú þegar skapað sér traustan sess á Eyrarbakka sem hluti af þeirri upplifun sem ferðamenn njóta í þessu sérstæða þorpi.

Til þess að styðja við þessa uppbyggingu og nýsköpun í atvinnumálum sveitarfélagsins þarf bæjarstjórn Árborgar að tryggja greiðan aðgang að opinberri þjónustu og upplýsingum fyrir heimamenn,sumardvalargesti og ferðafólk. Þá er nauðsynlegt að hefja þá göngustígagerð sem lofuð hafði verið fyrir síðustu kosningar nú þegar á þessu vori. Bæta þarf aðstöðu fyrir húsbílafólk á tjaldstæði og koma fyrir snyrtiaðstöðu á fleiri stöðum ásamt bekkjum og borðum. Til lengri tíma þarf að huga að holræsamálum svo hægt sé að nýta ávaxta fjörunnar og gera hana aðlaðandi.

Þá liggja tækifæri einkaaðila í að koma upp gistiaðstöðu, fræðslu og menningarsetrum í tengslum við söfnin, strandmenninguna og fuglafriðlandið. Þá eru hugmyndir uppi um að halda festival á komandi sumri sem byggir á að færa þorpið í búning þess tíma þegar þorpið var höfuðstaður menningar og viðskipta. Tækifærin liggja víða og vonir manna standa til þess að unnt verði að byggja upp gömlu vesturbúðirnar og bryggjurnar. Þá gætu klappaveiðar skapað sérstöðu sem aðdráttarafl fyrir stangveiðimenn, en slíkar veiðar voru talsvert stundaðar á árunum áður.

Það er ljóst að mikill hugur býr í Eyrbekkingum sem láta nú engann bilbug á sér finna þrátt fyrir kreppu og þrengingar í efnahagslífinu, enda hafa Bakkamenn marga fjöruna sopið í þeim efnum.

03.03.2009 23:35

Tvö hús jöfnuð við jörðu í dag

Smáravellir
Tvö sjálftahús voru jöfnuð við jörðu í dag með stórvirkum vinnuvélum. Það eru húsin Smáravellir sem hér sést á efri myndinni og Mundakot II, neðri mynd. Þá eru fjögur hús horfinn af Bakkanum og þykir Eyrbekkingum það sorgleg sjón að sjá á eftir þessum reisulegum húsum.
Mundakot II
Eins og áður hefur komið fram hér á síðunni, þá voru öll þau hús sem þegar er búið að brjóta niður byggð úr holsteini, en það er hleðslusteinn úr vikurblöndu. Sá byggingarmáti var mjög til siðs á sjötta áratug síðustu aldar. Allnokkur hús voru þannig byggð á Eyrarbakka sem og víðar.

Enn eru einhver hús sem bíða sömu örlaga og sjónarsviptir verður af. En sem betur fer eru Eyrbekkingar ekki af baki dottnir og byggja ný falleg og reisuleg hús sem falla vel við gamla þorpið.

01.03.2009 01:06

Hugleiðing um perlur Árborgar

Úr HraunsfjöruFjörurnar á Eyrarbakka og Stokkseyri eru einstakar náttúruperlur á margvíslegan hátt. Þar má nefna hin sérstæða skerjagarð sem varð til fyrir 8.700 árum þegar Þjórsárhraun, mesta hraun sem runnið hefur á jörðinni í einu gosi frá því að ísöld lauk, rann í sjó fram, og er hraunjaðarinn nú marbakki undan Stokkseyri og Eyrarbakka, um 140 km frá eldstöðvunum, þar sem hver klettur á nú sitt örnefni. Fjölskrúðugt fuglalíf þrífst í fjörunni svo til árið um kring. Seli má oft sjá kúra á skerjunum og svo að sjálfsögðu heillar brimið sem getur oft orðið stórkostlegt á að líta. Á vorin bætast svo hin ýmsu fjörugrös og fjöruarfi í þessa undraverðu flóru. Fjaran er líka merk fyrir það að vera hluti af sögu þessarar þjóðar í margar aldir. Úr þessari fjöru stigu menn á skipsfjöl og héldu út í heim og komu að landi aftur í þessari sömu fjöru.

 

Það er því nokkuð leitt að þessar perlur skuli enn vera sóðaðar út með holræsum sem ná rétt út fyrir flæðarmálið og telst mér þau vera ein sex slík á Eyrarbakka. Holræsin eru að stofni til frá árinu 1929 og þótti þá ekki tiltökumál að henda öllu í sjóinn, hverju nafni sem það nefnist. Nú 80 árum síðar ráða önnur gildi og er umverfisvernd oft á tíðum það leiðarljós sem menn vilja fylgja inn í framtíðina og því væri vert að leita annara lausna í frárenslismálum við ströndina.

 

Það mætti til að mynda fækka ræsunum úr sex í eitt og leiða það langt í sjó fram með dælingu og væri sú lausn ekki svo ýkja dýr í framakvæmd. Önnur leið væri að leiða allt frárensli vestur í Ölfusá sem er hvort sem er menguð á þennan hátt. Báðar þessar lausnir hafa þó þann galla að allt endar þetta á sama stað hvort sem er, þ.e. í hafinu. Hagkvæmasta leiðin til lengri tíma út frá umverfissjónarmiðum er sú snildarhugmynd sem ég heyrði af á dögunum sem gengur út á það að virkja frárensli í þró og framleiða metangas til eldsneytis. Þannig gætu sveitarfélög með nokkurskonar sjálfbærri þróun aflað sér tekna með öðrum hætti en með holræsagjaldinu.

26.02.2009 18:00

Mundakot mulið undir tönn

Mið Mundakot

Mundakot undir tönn
Mið-Mundakot er þriðja skjálftahúsið sem hefur orðið vinnuvélum að bráð. Húsið er holsteinshús, en hús sem þannig eru byggð þola síður öfluga jarðskjálfta en timbur og steinhús.

22.02.2009 18:30

Árborg vill selja lönd.

Hraunsfjara
Bæjarstjórn Árborgar hyggst selja landspildur í eigu sveitarfélagsins. Um er að ræða Borg og Stóra- Hraun sem eru fornar jarðir í Eyrarbakkahreppi. Stóra-Hraun var til forna prestsetur og höfuðból. Síðustu ábúendur á Borg voru Ársæll þórðarson og bróðir hans Karl Þórðarson. Íbúðarhúsið að Borg var rifið fyrir nokkrum árum og var það vilji margra að þar yrði reistur sameiginlegur barnaskóli fyrir Eyrarbakka og Stokkseyri.

16.02.2009 17:17

Skjálftavirkni við Kaldaðarnes

Skjálftakort VÍNokkuð hefur borið á skjálftavirkni á Kaldaðarnessprungunni nú síðasta sólarhringinn og eru flestir kippirnir á bilinu 1-2 stig. Sterkasti kippurinn kom um kl.16:00 og var um 2,5 stig. Hann fannst vel á Bakkanum og hefur sennilega rifjast upp fyrir mörgum skjálftabylgjurnar síðasta sumar.

Þessi skjálftahrina hófst seint á laugardagskvöld norður og suður eftir sprungunni eins og sjá má á korti Veðurstofu Íslands  hér til hliðar.

Nokkur hreifing hefur verið á þessum slóðum allt frá stóraskjálftanum 29. maí á síðasta ári.

15.02.2009 23:55

Snjóinn tekinn upp

HópiðAllan snjó hefur tekið upp við ströndina eftir rigningar og hlýindum í lofti og kemur grasið víða grænt undan. Dálítið brim hefur verið í dag og súldarvottur. Áfram er spáð hlýju veðri og vætutíð með ströndinni fram á næstu helgi.

08.02.2009 14:54

Vesturbúð opnar.

Bakkabúð opnar á ný.Bakkabúðin hefur nú opnað undir nafninu Vesturbúð en undir því gælunafni gekk ein stæðsta verslun landsins á Eyrarbakka á sínum tíma. Eingin verslun hefur verið á þessum forna verslunarstað síðan Merkisteinn hætti rekstri í október á síðasta ári og er því þetta framtak kærkomið fyrir íbúa þorpsins. Það eru þeir Agnar og Finnur Kristjáns sem hafa reksturinn með höndum.

05.02.2009 23:36

Þyrnirós

þessi frétt birtist í Ísafold 11 nóvember 1899









Ung stúlka á Eyrarbakka, vinnu-
kona hjá héraðslækninum þar, var
fyrir nokkrum dögum búin að sofa á
aðra viku samfleytt, og tókst ekki að
vekja hana, hverra ráða sem i var
leitað.


03.02.2009 13:13

Athyglisverð nýsköpun í Hraungerði.

Mynd: Af blogsíðu GuðmundarFeðgarnir Guðmundur Stefánsson og Jón Tryggvi Guðmundsson frá Hraungerði í Flóa standa í athyglisverðri nýsköpun í orkubúskap um þessar mundir. Það kom fram í sjónvarpsfréttum í gær að þeir feðgar framleiða metangas úr kúamykju og þykir mörgum athyglisvert að eitt kúabú geti framleitt eldsneyti fyrir 200 bíla. Búið getur verið sjálfu sér nægt um eldsneyti sem ætti að koma sér vel á þessum kreppu tímum.

Sjá nánar um gasstöðina heimasíðu Guðmundar.

Flettingar í dag: 771
Gestir í dag: 89
Flettingar í gær: 1098
Gestir í gær: 106
Samtals flettingar: 207140
Samtals gestir: 26760
Tölur uppfærðar: 16.9.2024 10:34:49