13.02.2011 23:45

Gömul veðurmerki

Hér mun getið algengara veðurmerkja og veðurheita sem tíðkuðust á Eyrarbakka og Stokkseyri fyrir aldamótin 1900:

Útræna: Er vestanstæð hafgola og ber mest á henni á heitum dögum að sumri (Sólfarsvindar), dragast þá ský yfir austurfjöllin og nefnast þau "Útrænuský". Útrænan er vægari í smástreymi, en oft köld. Þá má vænta þerris góðan, en áfalls að nóttu þegar lyngt er orðið. Áfall að nóttu var talið boða langvarandi þurk og norðanátt.

Bræla: Hvöss útræna (suðvestannátt). Hvítnar þá í báru ("Það er farið að skjóta fuglsbringum") og skúrir færast yfir Kambana , Fljótshlíð og Þórsmörk. Þá má vænta dembuskúra í neðri Flóa.

Landnyrðingur: (Land-norðanátt) Ef skýjastrók setur til norðurs frá Heklu og Eyjafjallajökli er þurkur í vændum, (kuldaþræsingur). Ef skýjastrókinn leggur til suðurs, þá er úrkomu að vænta.

Austantórur: Oft á haustin í þurrviðri þekja háir hvítir skýjabólstrar austurfjöllin með úrkomu undir Eyjafjöllum og er það kallað "Austantórur", en það er undanfari hellirigningar um allt suðurlands undirlendið með SA átt. Þá er kominn "Hornriði"

Hornriði: Suðaustan strekkingur og rigningartíð.

Fjallasperringur: Stíf norðaustanátt. Ef snjóar í vesturfjöllin á undan austurfjöllunum þá er að vænta mildari veturs.

Stálbellir: Skýjaklakkar með lögun líkt og gosstrókur sem ber við heiðríkju í SV boðar hrakviðri og harðindi. Venjulegir skýjaklakkar út við hafsbrún veit á úrkomu.

Svartaþykkni: Þykk skýjahula. Sjáist hún í austri eða suðaustri, boðar það hláku. Sé "Svartaþykkni" í suðri frá Vestmannaeyjum og að Hlíðartá með andvara af NA og "Hrein fjöll" (Hiðríkja yfir Heklu og norður fyrir til vesturfjalla) var það talið fyrirboði fárvirðis innan fárra stunda.

Bakki: Lágur þokubakki milli Eyjafjallajökuls og Vestmannaeyja fyrri hluta vetrar, boðar brim.

Blikur: Þunn skýjaslæða, (undanfari lægða). Sé blikan með klósiga (ský eins og klær) sem sveigjast saman frá SV til NA boðar það hvassviðri af suðaustri, enda leist mönnum þá ekki á blikuna.

Hafgall: Regnbogalitaður glampi við hafsbrún skömmu fyrir sólarlag, veit á betra veður og þurrk.

Rosabaugur: Bjartur baugur um túngl á vetrum veit á illviðri.


Heimild: Austantórur 1.

12.02.2011 23:48

Þrumu Þór

Miklir skúraklakkar sunnan við lægðaraugaðÞað var engu líkara en Þór gamli hafi rekið hamarinn sinn hastarlega í á ferð sinni um Suðurland nú í kvöld. Eldingu laust niður eihverstaðar í grendinni og á eftir fylgdi svo öflug þruma að rúður skulfu í húsum og stóðu þessar drunur yfir um allnokkur andartök og urðu heimilisdýr óróleg á meðan ósköpin dundu yfir og eins er víst að mannfólkið hafi ekki staðið á sama.

12.02.2011 17:27

Ísafjarðarskipið

HafnarskeiðSlúpan "María" var á leið til Kaupmannahafnar haustið 1865, en skipið átti  Ásgeir Ásgeirsson kaupmaður á Ísafirði og var hann sjálfur við stjórnvölinn. Með honum var konan hans (Sigríður Jónsdóttir Sandholt)  og börnin þeirra 4 ásamt nokkrum hásetum. Er skipið var statt fyrir sunnan land missti það segl í slæmu veðri og rak inn á Bakkabugt. Ásgeir brá á það gamalkunna sjómannsráð að hella út lýsi úr þrem tunnum og lægja þannig sjóina. Rak skipið heilt upp á Hraunskeið og fólk bjargaðist.

Ásgeir var síðan mikill skipakóngur. Hann keypti fyrstur íslendinga gufuskip, er hét í höfiðið á honum sjálfum.

11.02.2011 23:26

"Illviðrið" gert upp

Ekki verður sagt að mikið hafi látið af veðrinu á Bakkanum á meðan meint ofsaveður gekk yfir sumstaðar. Mesti vindhraði var 22 m/s og mátti heita stormur frá því laust eftir miðnætti til miðmorguns. Mestu hviður náðu þó upp undir 30 m/s. Það voru þá helst Stórhöfði, Búrfell, Tindafjöll og e.t.v. Miðdalsheiði sem gátu státað af "Ofsaveðri" á svæðinu hér sunnan jökla.

11.02.2011 00:38

Búist er við ofsaveðri!

Andvari Veðurstofan varar við ofsaveðri (30 m/s) í nótt. Það er langt síðan að svo kröftug veðurspá hafi borið fyrir augu, en fullt tilefni til að taka mark á því. Þá má til gamans rifja upp illviðraheitin sem notuð voru í "vindstigaskalanum": Hvassviðri 8 vindstig, Stormur 9 vindstig, Rok 10 vindstig, Ofsaveður 11 vindstig og Fárviðri 12 vindstig.

Annars er fjallað meira um væntanlegt illviðri á veðurbloggum, t.d. http://esv.blog.is/blog/esv/ og http://trj.blog.is/blog/trj/ 

09.02.2011 22:34

Póstjaktin

Gufubátar á Einarshöfn um aldamótin 1900Póstjaktin "Sílden" átti að hafa viðkomu á Eyrarbakka í utnaferð sinni haustið 1781 til að taka kaupmann með heim (Cristian Hartmann). Í áhöfn skútunnar voru sex menn og skipstjóri þar  með talinn. Þegar skipið var komið í námunda þann 17. september var róið að skipinu á slúppunni (lítið róðraskip með skútulagi, er gat borið eitt mastur og segl) til að lóðsa hana inn á höfnina og voru þar 10 Eyrbekkingar undir árum. Brast þá á mikið veður og sjór varð ófær, en Eyrbekkingarnir komust þó um borð í jaktina og héldu þar kyrru fyrir. Brátt hvarf skútan í særokið og urðu afdrif hennar ekki ljós fyrr en 19. september er skútan fannst sundur moluð á Hafnarskeiði, hafði hún þá farið þar upp um nóttina og enginn komist lífs af.  Sagt er að sömu nótt hafi kaupmaðurinn tekið hastalega flogaveiki sem dró hann til dauða eftir nýárið.

Heimild: Saga Eyrarbakka

08.02.2011 23:16

Stormur

28 m/sAustan stormur ræður nú ríkjum hér sunnanlands með slyddurokum. Á bakkanum náði vindhraðinn í 28 m/s sem kallast Stormur (ROK á vindstigaskalanum , þ.e. 10 vindstig) með hviðum allt að 35 m/s og var svo vítt og breytt um Suðurland og út með Reykjanesinu. Hvassara var þó á Hvammi og Steinum undir Eyjafjöllum þar sem hviður fóru upp í 50 m/s. Sumstaðar í uppsveitum var heldur meiri vindur en niðri við stöndina.

07.02.2011 22:16

Briggskipið "Anna et Christense"

Höfnin (Mynd: Saga Eyrarbakka)Briggskipið "Anna et Christense" var hlaðið Sunnlenskum varningi og klár til utanfarar þá er hún beið byrjar á höfninni á Eyrarbakka síðla sumars 1789. Þann 25. ágúst fór veður versnandi og síðar um daginn var kominn stormur af sunnan og síðan útsunnan með allmiklu brimi. Daginn eftir færðist brimið heldur í aukanna og gekk yfir skipið í miklum loftköstum, með þeim afleiðingum að ein landfesting slitnaði. Menn voru þá kallaðir úr landi og var allt gert sem mætti verða til bjargar verðmætum útflutningsvörum af skipinu. Þær tilraunir báru hinsvegar lítinn árangur vegna stöðugs sjógangs. Þann 27. fór skipsöfnin í land fyrir egin ráð, en síðar um daginn var aftur farið um borð og reint að bjarga varningi. Þær tilraunir runnu út um þúfur, þar sem enn var of mikill öldugangur.

Um kvöldið var aðeins ein taug eftir sem hélt skipinu við festar, en sjógangurinn hægðist nægjanlega til að hægt væri að hefja björgunaraðgerðir. Varningur var þá fluttar af skipinu af miklu kappi fram á nótt. Þá gerðist það kl. 2 um nóttina að skipið fór á hliðina og sökk, þar sem barlestin var orðin mjög óstöðug, enda var þá mestmegnið af varningnum komið á land. Ekki var hirt um að bera barlest í skipið, þar sem viðbúið þótti að það mundi slitna af festunni.


Farmur skipsinns: Selslýsi 7 tunnur. Þorskalýsi 3 tunnur. Tólg 10.186 pund (48 tunnur). Tólgarskyldir 32.798 pund. Prjónels: 240 pör sokkar. 1.450 pör vettlingar. 105 peysur. Ull: hvít 8.242 pund. mislit 3.211 pund. Seldist allt á uppboði á ca. 1/3 af kosnaði.             

Heimild. Saga Eyrarbakka.

 

06.02.2011 00:27

"Resolution"- strandið

Frá strandi "Hertu" [Mynd:S.E]Skonnortan "Resolution" hóf siglingar til Eyrarbakka vorið 1795 og kom í staðinn fyrir "Forellen" (hún hóf siglingar á Eyrarbakka 1788) sem fórst við Vestmannaeyjar í svarta þoku vorið áður (23.04.1794) og var "Resolution"í reglulegum siglingum til Eyrarbakka næstu 18. árin, eða þar til hún fór í sína hinstu för. Skipstjórinn Niels Bierun lagði upp frá Kristiansand í Noregi 9. maí 1813 og viku síðar var skipið komið í landsýn (16.maí). Það var brim á Bakkanum þann 18. maí þegar skonnortan kom til Eyrarbakka og sundin þá ófær. "Resolution" lagðist því fyrir akkeri á 16 faðma dýpi úti fyrir Þorlákshöfn og beið þess að brimið lægði. Heldur gekk brimið niður næsta dag og þann 20. maí komst lóðsinn um borð í skipið og færði það á leguna fyrir utan höfnna, (Ytri leguna) og fór að því búnu aftur til lands. Næstu daga var unnið af kappi við að afferma skipið um borð í ferjurnar. Þann 27. hófst svo útskipun á varningi til útflutnings, en þann dag fóru fjórir bátsfarmar af ull (45 stórsekkir) um borð í skonnortuna. Þá var komið gott lag til að færa skipið inn á hafnarleguna í meira öryggi, en af einhverjum ástæðum fórst sú ráðstöfun fyrir. Þess hefndi nú "Kári" með suðaustan hvassviðri og sneri síðan fljótlega í suðvestan rosa og var þá orðið um seinan að færa skipið inn á höfnina. Skipið barðist nú um í brimköstunum og brátt slitnaði annað haldreipið.

Þá var skipverjum ljóst að snör handtök þyrfti til að forða skipinu frá því að hrekjast upp í skerjagarðinn, þar sem öllum væri mikil hætta búin ef seinna haldið gæfi sig. Var þá skipið undirbúið fyrir sína hinstu siglingu og síðan höggvið á seinna haldreipið. Skipinu var svo stýrt upp í Hafnarskeið við Ölfusárósa þar sem það lagðist í sandinn og var öllum bjargað þar. Varningurinn og skipsflakið var síðan selt á uppboði.

Heimild: Saga Eyrarbakka.

04.02.2011 23:48

Vetrarlegt

Mikill snjór er nú á Bakkanum. Í morgun var þegar kominn 20 cm jafnfallinn snjór og í dag hefur bæst við ríflega það og má segja að það sé orðið gott skíðafæri í þorpinu.

04.02.2011 01:05

Ólafsvíkurskipið

Þessi mynd er af "Hertu" á strandstað á Eyrarbakka"Fru Elisabet" var tvímastra seglskip, eða svokallað "briggskip" og var eigandi og skipstjóri þess Fredrik Feddersen. Vorið 1801 var skipið hlaðið matvörum og öðrum varningi  frá Johannes Kellnes kaupmanni, við höfnina í Altona (Hamborg) og sigldi svo þaðan fullfermt áleiðis til Ólafsvíkur, en áður með viðkomu á Eyrarbakka.

Skipið lagðist fyrir akkerum fyrir utan Bússusund á Eyrarbakka að kvöldi 20.júlí, en þá var veltubrim svo skipið gat ekki athafnað sig inn sundið og beið því átekta. Briminu slotaði ekkert daginn eftir og þann 22. júli brast á stormur og slitnuðu þá festar skipsinns. Þegar skipið tók að reka, gerði áhöfnin þau mistök að yfirgefa skútuna og fóru í skipsbátinn. Aðeins sást til þeirra af Bakkanum stutta stund og voru þeir þá fyrir utan brimgarðinn. Skútan hraktist fyrst á sker en dreif svo að landi. Þegar heimamenn komu á strandstað var skútan mannlaus, en fljótlega barst eitthvað af líkum skipverja á land.

Lambertsen kaupmaður á Eyrarbakka stýrði björgunaraðgerðum á strandstað og náðist mestmegnis af varningi úr skipinu en matföng (korn og mjöl) eiðilögðust mestmegnis af sjó. Allt strandgóss sem til náðist var selt á uppboði.


Stykkishólmsskipið:

Samskonar atvik átti sér stað árið 1806 þegar "Anna"  lítið verslunarseglskip (galeiða) strandaði á Hafnarskeiði við Þorlákshöfn 18. maí það ár. Skipstjórinn Kristinn Andersen Knöe hélt til hafs frá Danmörku 12. apríl 1806 áleiðis til Stykkishólms með viðkomu á Eyrarbakka, og lagði úti fyrir sundum vegna brims, en sennilega hafa akkeri ekki náð festu og dreif skipið upp í Skötubót. Allir bjöguðust í land nema kaupmaðurinn í Stykkishólmi Peter Holter, og var hann jarðsettur á Hjalla í Ölfusi.

Heimild: Saga Eyrarbakka

02.02.2011 21:50

Göteborg-strandið

Samskonar herskipÁ árunum í kringum 1718 áttu Danir í stríði við Svía. Vegna stríðsins var kaupförum, er til íslands sigldu, raðað í skipalestir og herskip látið fylgja þeim. (Þó tókst Svíum að hertaka Hofsósskipið á útsiglingu árið1717). Seint í ágúst 1718 kom kaupfaraflotinn hingað frá Noregi og með honum stórt herskip, sem Göteborg ("Giötheborg") hét. Höfðu Danir náð þessu skipi af Svíum nokkrum árum áður. Skipherrann hét Jochum Friis, en áhöfnin 190 norskir sjóliðar. Göteborg lá í Hafnafirði það sem eftir lifði þetta sumar og ætlaði herskipið að fylgja kaupskipunum út um haustið. Sunnudaginn 23. okt var herskipið ferðbúið og kvaddi Hafnarfjörð með þremur fallbyssuskotum.

Herskipið sigldi suður með Reykjanesi og "tíndi upp" kaupskipin í leiðinni. Í Keflavík lá "Hvalfisken" og fylgdi það þegar eftir, þegar herskipið hafði gefið því merki. Síðan var förinni heitið til Eyrarbakka þar sem haustskipin biðu brottfarar. Þegar herskipið var statt djúpt vestur af Reykjanesi lenti það í stormi og varð "Hvalfisken" þá viðskila. Herskipið barðist áfram við illan leik næstu daga í mislyndu veðri og snjókomu. Föstudaginn 2. nóvember var skipið statt á Eyrarbakkabugt, skammt undan landi í snjókomu, illviðri og stórsjó og vörpuðu þar tveim akkerum. Daginn eftir gerði mikið brimrót og stórsjóir gengu yfir herskipið. Var það að bjargráði að högva niður möstrin þrjú og varpa í sjóinn með rá og reiða til að hlífa skipbroti og bíða þess síðan að lægði og hleypa þá upp í fjöru. Um kvöldið lægði, en brim var enn mikið. Þá var skotið þrisvar úr fallbyssum í von um eftirtekt úr landi og heyrðist það m.a. að Hrauni í Ölfusi. Síðan var efstu fallbyssuröðinni (9 stk) varpað í sjóinn til að létta skipið.

Sunnudaginn 7. nóvember voru 6 menn undir stjórn Brynjólfs Jónssonar frá Hrauni mættir í fjöruna og sáu hvers kyns var. Tunna ein í flæðarmálinu vakti strax athygli komumanna, en á hana var ritað stórum stöfum "Slaa mig op og læs Brevet" (Brjótið mig upp og lesið bréfið) en það var leiðarvísir um hvernig til ætti að haga björguninni frá landi. Það var svo mánudaginn 8. nóvember sem höggvið var á akkerisfestar og skipinu hleypt upp í strand. Af skipinu var sendur fleki í land með 8 menn ásamt björgunarkaðli. Flekanum hvolfdi hinsvegar í briminu og þeir sem á honum voru fórust allir, en flekinn barst á land ásamt kaðlinum og hófst þá björgunin og komust 170 manns lífs frá strandinu. (Nokkrir sjóliðar höfðu tínst á leiðinni)

Skipið braut svo í hluta 22. nóv, sumt sökk en annað rak á land og rifið þar næstu tvö árin og selt á uppboði. Talið er að aldrei hafi náðst í allar fallbyssurnar, en þær voru steyptar úr kopar. Skipverjar dvöldu svo víðsvegar um veturinn og hlutust af því margar barneignir að sagt var.


Heimild: Lesb.Morgunbl 7.tbl. 1953 og Saga Eyrarbakka.

31.01.2011 23:11

Mildur janúar

Hitafar í janúar 2011Þurrviðri var framanaf og nokkuð frost mældist fyrri hluta mánaðarins, mest -10,7°C þann 6. Síðari hlutinn var mildur, en ekkert frost mældist eftir 19. Fór hitinn hæst í 8°C þann 21. Síðari hlutinn var einnig nokkuð vætusamur. Allhvasst var af norðri þann 3-4. og stormur á þrettándanum (7.) með talsverðum vindhviðum, en yfirleitt gola eða blástur og stöku sinnum kaldi. Brim hefur verið alla daga frá 19. Engan snjó festi í mánuðinum.

31.01.2011 01:24

Draugaskipið "Rósa"

Oft í sögunni hafa sjómenn svarið þess dýran eið upp á æru og trú að hafa séð draugaskip siglandi fyrir fullum seglum einhverstaðar á víðáttum heimshafana og oft hafa spunnist ótrúlegar sögur af þessum mannlausu farkostum sem væru dæmd til að sigla um regin höf til eilífðar nóns. Það var því engu líkara en eitt slíkt draugaskip hefði verið sært upp af illum öndum síðla dags þann 6. mars 1847, því þennan dag sáu menn úr Þorlákshöfn dularfullt skip í hafi, reiðalaust og á reki 4-5 mílur undan landi.

Það var brim og stormur á Bakkanum og úti fyrir Þorlákshöfn þennan dag og því ekki hægt að kanna þetta ókunna skip nánar og brátt hvarf það út í myrkrið og sortann. Daginn eftir (7. mars) sást skipið enn á ný á þeim sama stað og fyrri daginn, en nú var sjóveður betra og lögðu 4 teinæringar út frá Þorlákshöfn og tókst þeim að komast að skipinu og kanna það nánar. Skipið sem hét "Rose" reindist vera mannlaust og augljóslega yfirgefið, því skipsbátinn vantaði. Farmur þess var eðal timbur, líklega mahony frá Ameríku, en engin skipskjöl fundust önnur en hafnarkort af Liverpool, en þangað átti skipið trúlega að fara. Tóku þeir nokkuð lauslegt og settu í báta sína.

Nú vildu menn draga skipið að landi, enda mikil verðmæti, fólgin í skipi og farmi. En það var sama hvað á árarnar reyndi, skipið dró þá í þveröfuga átt, vestur með landi og út á haf svo senn mundi mönnum landsýn hverfa. Urðu þeir nú að sleppa skipinu svo heim næðist fyrir myrkur og réru þeir að því búnu nokkuð vonsviknir til Þorlákshafnar. Það var svo tveim dögum síðar, (9.mars) eins og fyrir hendi hinna ófyrirleitu anda þessa draugalega skips, að borið hafði á sama stað og þegar til þess sást fyrst. Réru nú öll róðraskip sem á flot varð komið frá Elliðahöfn 16 að tölu undir stjórn Eyjólfs Björnssonar hreppstjóra í Þorlákshöfn út að draugaskipinu og festu í það taugar og tóku menn á árum hvað þeir gátu á öllum 16 skipunum. Með miklu erfiði og útsjónarsemi tókst þeim smátt og smátt að þoka draugaskipinu nær og nær landi, þar til að lokum náðu skipinu til hafnar og festu þar tryggilega.

Þá var tekið til ráðs að sækja sýslumann, sem svo kvað upp úr með það að best væri að rífa þetta andskotans skip, og bera viði þess og farm á land. Yfir þetta verk setti hann bræðurna Magnús á Hrauni, Árna á Ármóti og Halldór Guðmundsson á Torfastöðum og gekk það verk furðu vel og áfallalaust. Seldi svo sýslumaður allt góssið á uppboði, og rann helmingur til Kóngsins í Kaupmannahöfn, sem einhverjum þætti mikill skattur í dag og helmingur í björgunarlaun að frádregnum kosnaði, en góssið seldist á 2.883 ríkisdali og skipsviðir og járn á 698 rd.

Byggt á heimildum: Saga Eyrarbakka, Vigfús Guðmundsson.

30.01.2011 01:23

Bakkaskipin á 20. öld

Gufuskipið "Nordlysed"  (á vegum "Gestsfélagsins" KF Heklu) "Modest" (stórt gufuskip). "Elegance" (til " Gestsfélagsinns"). "Svend" (skip Lefolii, en það rak upp í landsteina við Þorlákshöfn 1911). "Thor" (skip Lefolii, en það fórst árið 1900 ). "Soldes" (Stokkseyrarskip) "Christian" (Stokkseyrarskip frá Mastal, strandaði við Vestmannaeyjar 1904) "Guðrún" (vöruskip Ólafs kaupmanns á Stokkseyri, strandaði þar 13. sept. 1906). "Herta" 200 tn. (Hún var frá Marstal,en á vegum Kaupfélags Árnsinga og sleit upp með timurfarm 1937) "Kong Helge" "Perwie"  "Vonin" "Hólar" og "Henry" (Komu reglulega). Síðasta skonnortan sigldi héðan árið 1931. Síðustu tvö gufuskipin sigldu frá Bakkanum 1939 og einnig þau 4 vélskip sem hingað komu með vörur erlendis frá. Þá hafði heimstyrjöldin skollið á og Eimskipafélag Íslands því eitt um að flytja vörur til og frá landinu, auk þess sem millilandaverslunin á Suðurlandi var þá liðin undir lok eftir rúmlega 600 ára verslunarsögu og 1000 ára siglingasögu hafskipa.

Flettingar í dag: 14
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 1294
Gestir í gær: 649
Samtals flettingar: 204440
Samtals gestir: 26415
Tölur uppfærðar: 14.9.2024 00:09:26