11.10.2008 23:19
Þjóðin eignast Ísland aftur
Nú þegar kardínálar bankanna og aðrir útrásarvíkingar eru flúnir land eftir að hafa ekki bara selt ömmu sína, heldur og mömmu sína, börn og barnabörn í áralanga skuldafjötra, þá hefur þjóðin í þessu alsherjar hruni þó eignast landið sitt aftur og við getum vissulega óskað okkur til hamingju með það. En þjóðin þarf líka að eignast fiskimiðin á ný til að tryggja framfærslu sína þrátt fyrir ógnvænlegar skuldir þjóðarbúsins. Ekki er lengur boðlegt að fiskurinn í sjónum sé í höndum fárra útvalinna einkaaðila því nú er of mikið í húfi.
Við getum nú byrjað upp á nýtt rétt eins og við gerðum þann 17. júní árið 1944 þegar við tókum okkar fyrstu skref sem fullvalda þjóð. Þá var haldin mikil hátíð á Eyrarbakka. Þennan dag var Eyrabakki ekki lengur undir dönskum fána því hinn Íslenski bláhvíti fáni hafði verið dreginn að húni í fyrsta sinn. Ísland hafði nú hlotið sjálfstæði á ný. Hvarvetna blöktu fánar í þorpinu, hús og garðar víða skreyttir blómum. Samkomusalurinn í Fjölni allur vafin blómafléttum og lyngsveigum.
Dagskráin hófst með skrúðgöngu kl.1.30 eh. Gengið var frá barnaskólanum til kirkju. fremst gengu fánaberar, stúlka á íslenskum búningi og piltur í búningi með íslensku fánalitunum. Næst gekk yngsta kynslóðin allt niður í 3 ára börn. Kynslóðin sem erfa skildi landið og verja sjálfstæði hennar alla sína æfidaga. Öll héldu þau á fánum, og voru hvítklædd með bláum skrautböndum. Þannig voru nálæga 50 börn búinn litum okkar frjálsu þjóðar og litum okkar Eyrarbekkinga. Síðan komu eldri börn og unglingar og svo fullorðnir. Alls tóku 400 manns þátt í skrúðgöngunni eða 2/3 íbúa þorpsins.
Kirkjan okkar var skreytt á hinn virðulegasta hátt með íslenskum blómum en þar messaði sr. Árelíus Níelsson fyrir fullu húsi sem lauk með því að kirkjukórinn söng íslenska þjóðsönginn. Úr kirkju var gengið á samkomusvæði Bakkamanna, en þar hafði verið gert hið fegursta skrauthlið með yfirskriftinni "Ísland lýðveldi 17.júní 1944" Þar hófst skemtun með ávarpi Ólafs Helgasonar oddvita. Ræður héldu Kjartan Ólafsson form. UMFE og Sigurður Kristjánsson kaupmaður og kirkjukórinn söng ættjarðarljóð undir stjórn Kristins Jónassonar organista.
Síðdegis var svo dagskránni framhaldið í Samkomuhúsinu Fjölni, en þar flutti fjallkonan ávarp í ljóðum sem ort voru í tilefni dagsins. Síðan komu fram sögupersónur í búningum síns tíma. Fyrstur var Þorgeir ljósvetningagoði, þá Snorri Sturluson, svo Jón biskup Vidalín o.s.fr. Lásu þeir upp viðeigandi kafla úr egin ritum. Þætti þessum lauk með upplestri sr. Árelíusar úr Fjallræðunni og nýrri bók um og eftir Jón Sigurðsson forseta hins nýstofnaða lýðveldis. Lúðvík Nordal læknir fór með hátíðarljóð sem hann hafði sjálfur samið í tilefni dagsins. Að endingu söng kirkjukórinn "Ó guðs vors lands"
Margt annað var til skemmtunar gert, t.d. skrautsýning sem nefndist "Jónsmessunóttin" en það var ung stúlka íklædd búningi áþekk brúðarslæðum, skreyttum lifandi blómum sem fór með þetta atriði. Hún studdist við blómaskreyttan sprota, en á meðan hún sveif um sviðið í ljósaskrúði, var flutt hið draumfagra kvæði Jóhannesar úr Kötlum: Jónsmessunótt, en það er einmitt sú nótt sem Eyrbekkingar hafa haldið hvað hátíðlegastan, bæði fyrr og síðar.
Nú höfðu Eyrbekkingar sem og aðrir landsmenn eignast nýjan hátíðisdag, þjóðhátíðardaginn 17.júní. Á þessi merku tímamót var rækilega minnt í búðarglugga Sigurðar Kristjánssonar kaupmanns, en þar hafði hann sett upp myndasýningu þar sem saga stjórnarfars á Íslandi var rakin með hinn bláhvíta fána í bakgrunni.
Þó okkar kynslóð hafi klúðrað málunum þá megi næsta kynslóð vonandi vera frelsinu jafn fegin og glöð og sú sem gekk undir bláhvíta fánanum niður Búðarstiginn á 17.júní 1944.
En fyrst þarf almenningur að taka til og skipta um mennina í brúnni sem áttu að vaka yfir velferð þjóðarinnar, en þess í stað flut þetta lið sofandi að feigðar ósi. Þeir vöknuðu ekki upp við vondan draum, nei þeir vöknuðu upp við ömurlegan veruleika. Veruleika sem ekki verður afmáður úr Íslandsögunni.
Nú er það í vorum höndum að gera það sem gera þarf. Að byrja upp á nýtt af miklum þrótti í betra landi vonandi og reynslunni ríkari. Svo lengi sem Íslenski fáninn fær að blakta á björtum himni verður hinn almenni borgari að halda vöku sinni.
08.10.2008 11:34
Engin kreppa á Eyrarbakka.
Á Bakkanum gengur lífið sinn vanagang í kyrð og ró. Ekki þurfum við að óttast bankahrun því hér er engin banki. Bankinn fór héðan árið 2001 til þess að taka þátt í Matador í útlöndum og nú er spilið tapað eins og alþjóð veit. Við þurfum heldur ekki að óttast vöruskort í kaupfélaginu, því kaupfélagið fór í leiðangur árið 2002 og hefur ekki sést hér síðan. Ekki þurfum við að óttast atvinnuleysi í plássinu því hér hefur enga atvinnu verið að hafa síðan iðnaður og sjávarútvegur lagðist af árið 2006. Það voru engin rússnesk lán tekin til að bjarga hreppssjóðnum því hreppurinn hefur ekki verið til síðan árið 1998.
Við erum þrátt fyrir þetta bjartsýn og horfum fram á veginn því héðan liggur leiðin bara upp.
06.10.2008 11:10
Við sáum það svart 1914 og 1927
Þá var dýrtíð og kreppa hjá okkur rétt eins og nú. Á þeim kreppuárum lögðust millilandasiglingar að mestu af frá Eyrarbakka, vöruskortur var algengur og atvinnuleysi tók að skjóta rótum. Eyrbekkingar lögðu þó ekki árar í bát því fiskveiðar voru stundaðar af mikilli elju, söltuðu og hertu í miklu magni, kartöflur og kál var ræktað í hverjum garði. Sjálfsþurftarbúskapurinn ásamt fiskveiðum voru þau bjargráð sem heimamenn áttu í hendi. Margir áttu kindur og nokkrir ráku kúabú. Flestir áttu einhverjar varphænur og hver og einn reyndi að vera sjálfum sér nógur. Vöruskipti meðal heimamanna voru algeng. t.d. hrossakjöt fyrir fisk, kartöflur fyrir egg o.s.frv. Fjaran okkar var líka bjargvættur því á hana var suðfénu beitt. Sölvatekja og skelfiskur kom sér líka vel. Þang og mór nýttur til upphitunar þegar kol skorti. En nú er öldin önnur og þessum bjargráðum ekki til að dreifa í nútímanum þó svo að kreppan harðni frá því sem nú er.Því verða allir að leggja sitt af mörkum til að jafna stöðuna. Fjármálastofnanir verða að slá verulega af skuldum almennings. Stjórnvöld verða að aftengja verðtrygginguna. Styrkja verðgildi krónunar með því að tryggja auðlyndir landsins í þjóðareign. Verja velferðarkerfið og sólunda ekki peningum skefjalaust.
02.10.2008 22:58
Fyrstu snjóar falla.
Kalt er það fannars lín sem færir nú allt á kaf. Það harðnar á dalnum og morgunverkin verða unninn með rúðusköfum og skóflum. Vetur konungur er genginn í garð og víst er að smáfólkið mun fagna komu hans og færa honum heilan her af snjókörlum og snjókerlingum.
Í fyrra féll fyrsti snjórinn á Eyrarbakka þann 28. oktober og árið þar á undan þann 8. nóvember. Veturkoma er því með fyrra fallinu nú, en eftir helgi er spáð rauðum tölum og rignigu þannig að ævintýri snjókarlanna verður ekki langt að sinni.
02.10.2008 21:58
Margur vill messa yfir Bakkamönnum
Níu prestar viðsvegar af landinu hafa sótt um embætti sóknarprests í Eyrarbakkaprestakalli, þar af fjórar konur. Biskup Íslands skipar í embættið eftir umsögn níu manna valnefndar úr prestakallinu. Embættið veitist frá 1.nóvember nk.
Nú hafa Eyrbekkingar og grannar þeirra verið prestlausir í rúmann mánuð og því orðið afar brýnt að messa duglega yfir Bakkamönnum sem eru farnir að blóta í miklu óhófi þessa dagana yfir brimum, stórsjóum, fárviðrum og brælum efnahagslífsinns.
01.10.2008 13:34
Seint mun hrafninn hvítur verða.
Krummi er kominn og með krúnki sínu boðar hann til vetrar og segir að brátt muni snjóa í heiði. Nátthrafnar íslands krúnka sig líka saman fjarri kastljósi fjölmiðlanna og reyna að bjarga útrásinni sem virðist vera farinn í hundana. Fyrsta frostnóttin liðin og blessuð sólin skín hér á Bakkann og blessar mannana börn sem ekki þurfa að fóðra hunda sína á verðbréfum. Bæði veður og efnahagsspár gera ráð fyrir að það andi köldu enn um sinn og einkum um nætur. Á meðan situr krummi hátt og bíður síns hrútshaus og gæru skinns.
29.09.2008 11:10
Haust
Það er komið haust, hitastigið lækkar með hverjum deginum. Trén fella laufin hvert af öðru í takt við gengi krónunar íslensku og maríuerlunar á Bakkanum eru nú flognar suður eins og aðrir farfuglar sem dvöldu hér í sumar. Kaupmennirnir í Gónhól taka saman pjökkur sínar eins og kaupmennirnir í Rauðubúðum fyrir nokkrum öldum síðan. Þorpsbúar búa sig undir veturinn og kreppuna miklu. Taka sumarhýruna úr bankanum áður en hún brennur upp í óðaverðbólgunni og hamstra slátur, sulta ber og rabbabara, koma kálinu og kartöflunum og öllu grænmetinu sem þeir keyptu í Gónhól vel fyrir í búrinu. Söl og fjallgrösum troðið í tunnur og móinum staflað í stæður. Það vantar bara fiskinn sem eitt sinn var nóg til af og var alltaf til bjargráða í gengisfellingum og kreppum liðins tíma. Nú fer enginn á sjó því það má engin gera nema hafa verið gefið, keypt eða leigt kvóta og útgerð héðan er nú bara eitt af því sem menn lesa um í gömlum sögum og æfintýrum. Nú þarf bara að þreyja Þorran og Góuna og alla hina mánuðina líka. Annars var þjóðin að eignast fjárfestingabanka í dag og borgaði fyrir með heilum helling af evrum, nema hvað?
26.09.2008 11:03
Rigning,rigning,rigning.
Ekkert lát er á rigningartíðinni og fólk er orðið hundleitt á veðurlaginu þessar vikurnar og víst að tíðarfarið leggst illa í sálina á fólki, svona til viðbótar við óhuggulegt efnahagsástandið. Dumbungur í lofti alla daga svo vart sést sólarglæta svo vikum skipti. þó má búast við smá sólarglætu snemma á laugardagsmorgun segja spárnar en aðeins litla stund því skjótt mun aftur draga fyrir og sama veðurlagið tekur við langt fram í næstu viku. Það sem verra er að með hverjum deginum sígur hitamælirinn nær og nær bláu tölunum þannig að um miðja vikuna gæti farið að grána í fjöllin. Já vetur konungur er að læðast að okkur með sinn hvíta her.
23.09.2008 13:15
Svartur september!
September er búinn að verða ansi blautur, svona rétt eins og í fyrra og lítil von um uppstyttu það sem eftir er mánaðarins. Einhver sagði að rigningin væri góð en víst er nú að þetta er orðið fullmikið af hinu góða. Sunnan rokið að undanförnu hefur auk þess dempt yfir okkur óhemju mikilli sjávarseltu með þeim afleiðingum að haustlitirnir á Bakkanum verða nú svartir þetta árið.
18.09.2008 22:39
Loksins hraðahindrun á Túngötu
Nú eru hafnar framkvæmdir við gerð hraðahindrunar við Túngötu á Eyrarbakka en rúmt ár er síðan íbúar við götuna afhentu sveitarfélaginu undirskriftalista þar sem óskað var eftir að gerðar yrðu a.m.k. tvær hraðahindranir á götunni. Sveitarstjórn Árborgar brást vel við og lofaði að koma þessu verki af stað svo fljótt sem verða má. Viðbragðsflýtir framkvæmdaraðila hefur hinsvegar orðið ansi langur. Ef við hugsum okkur að brekkusnígill sem ferðast á 1mm hraða á sekúntu hafi lagt af stað frá Selfossi til Eyrarbakka á sama tíma og sveitarstjórnin samþykkti framkvæmdina og ekki unt sér hvíldar alla leið, þá hafi snígillinn komist á Bakkann eftir fjóra mánuði en framkvæmdaraðilinn þurfti hinsvegar 12 mánuði til að komast á Bakkann. Þó má segja að betra sé seint en aldrei