26.05.2010 22:54

Jón Helgason ÁR 150

Jón Helgason ÁR 150Smíðaður í Danmörku 1944 og keyptur frá Vestmannaeyjum 1964 af Eyrar h/f. Báturinn strandaði við Eyrarbakka 20.janúar 1965 og eyðilagðist.

26.05.2010 22:31

Öðlingur ÁR 10

Öðlingur ÁR 10Báturinn var smíðaður í Svíþjóð 1946. Árið 1962 áttu hann Sverrir Bjarnfinnsson og Vigfús Jónsson á Eyrarbakka og hét þá Öðlingur ÁR 10. Báturinn talinn ónýtur 1965. Árið 1926 var smíðaður á Eyrarbakka bátur með þessu nafni og bar hann einkennisnúmerið ÁR 183 og átti hann Árni Helgason. Sá bátur var seldur til Keflavíkur 1933 og rak hann á land þar árið 1941 og brotnaði í spón. Árið 1916 var smíðaður bátur á Eyrarbakka sem bar einnig þetta nafn og sama númer og áttu bátin saman þeir Árni Helgason, Sigurður Guðmundsson og Guðmundur Guðmundsson. Slitnaði hann aftan úr togaranum Skallagrími RE og rak á land í Grindavík 14.apríl 1926. Áhöfnin hafði áður lent í sjóhrakningum í vonsku veðri og var bjargað um borð í Skallagrím. Þar hittu þeir fyrir Eyrbekkinginn Sigurð skipstjóra Guðjónsson á Litlu Háeyri.

22.05.2010 23:51

Rimmugýgur í Reykholti

Skytturnar 3
Rimmugýgur
 var stofnað árið 1997 og er félag áhugamanna um menningu og bardagalist víkinga.

22.05.2010 15:22

Í minningu Vesturbúðanna


Mánudagurinn 22 maí 1950 var mikill sorgardagur á Eyrarbakka, því þá fyrir nákvæmlega 60 árum var hafist handa við að rífa  merkustu minjar íslandssögunnar.

Eitt sinn voru Vesturbúðirnar á Eyrarbakka mestu verslunarhús á Suður- og Vesturlandi og jafn vel þótt allt landið væri tekið til samanburðar. Til þeirra leituðu bændur og búalið með afurðir sínar alla leið austan úr Skaftafellssýslum og vestan af Breiðafjarðareyjum.



Það var  því sannarlega mikil saga tengd við þennan stað eins og hér hefur oftlega verið minst á og því hörmulegt að þessi fornu hús skildu rifin vorið 1950. Þarna var ráðist á merkar fornminjar þvert ofan í vilja þorpsbúa, í trássi við lög um verndun fornminja og í algerri andstöðu við skoðanir landsmanna yfirleitt á því, hvernig við eigum að búa að fornminjum okkar og hefur það æ síðan átt að vera víti til varnaðar, en þrátt fyrir það urðu rústir gamalla sjóbúða, og þurrabúða eiðingaröflum að bráð eftir miðja  síðustu öld. Niðurrif vesturbúðanna var algjört, svo meira að segja tröppur og hestasteinar voru fjarlægðir og að lokum beitt jarðítu á það sem eftir stóð.


Það var  Egill Thorarensen kaupmaður í Sigtúnum og kaupfélagsstjóri KÁ sem framdi þetta mikla voðaverk á þessum sögulegu minjum íslendinga, með þöglu samþykki ráðamanna þess tíma í landinu. Eyrbekkingar börðust fyrir verndun húsanna, sem þóttu mikil staðarpríði, þó svo húsin væru rúinn öllu innanstokks, eftir að búðirnar komust í hendur Kaupfélags Árnesinga, en allt kom fyrir ekki. Þar fór forgörðum margra alda verslunarsaga á íslenskri grund og þjóðar gersemar.


Oft hafa vaknað hugmyndir um endurbyggingu Vesturbúðanna að hluta eða öllu leiti til minningar um þennan sögulega arf íslenskrar þjóðar, en þá jafnan birtast einhver ljón í veginum, sem ekki er unt fyrir áhugafólk að yfirstíga. Svo er víst að þjóðarátak þyrfti til svo að endurbyggja mætti þessi hús.

20.05.2010 21:24

Gullfoss ÁR 204

Gullfoss ÁR 204Gullfoss var 11 tn. smíðaður á Akureyri 1930 úr eik og beyki. Árið 1943 keyptu Árni Helgason í Akri og sonur hans Sveinn Árnason bátinn og gerðu út frá Eyrarbakka. 1955 var báturinn seldur til Ytri Njarðvíkur og hét þá Sigríður GK 78. Báturinn sökk við Ólafsvík 1959 og hét þá Sigríður RE 350.

15.05.2010 22:22

Emma II ÁR 19

Emma II ÁR 19Báturinn var smíðaður í Danmörku 1916 40tn. með 60 ha.Thuxham vél. Keypt hingað frá Vestmannaeyjum, þá með 150 ha. Hundsded vél. Eigandi Reynir Böðvarsson. Báturinn ónýttist og tekinn af skrá 1970. Rifinn í slippnum á Eyrarbakka.

14.05.2010 23:42

Öskufall





Þegar menn risu úr rekkju í morgunsárið brá mörgum í brún hér á Bakkanum, því mikið öskuský lá yfir og ringdi úr því drullug askan. Þetta voru þó smámunir miðað við það sem íbúar og bændur undir Eyjafjöllum þurfa að búa við. Þessar myndir voru teknar í gær undir Eyjafjöllum við Steina og bæinn Þorvaldseyri sem vart grillir í vegna öskufalls.

13.05.2010 22:44

Öldungur ÁR 173

Öldungur ÁR 173Báturinn var smíðaður á Eyrarbakka 1923 úr eik. 10 tonn með Hansa vél. Guðmundur Guðmundsson á Eyrarbakka átti bátinn upphaflega. 1931 var Öldungur seldur til Stokkseyrar. Báturinn kom aftur á Bakkann 14.maí 1938 þegar Sigurður Kristjánsson, Kristinn Jónsson, Sveinn Árnason og Árni Helgason keyptu hann. 1943 var Öldungur seldur til Suðureyrar við Súgandafjörð. Báturinn var afskráður 1953.

Heimild: Íslensk skip

12.05.2010 22:46

Bakkakrían kominn

Í morgun voru kríurnar komnar í varplöndin og mikið um að vera.

12.05.2010 22:33

Ægir ÁR 183

Ægir ÁR 183Smíðaður á Eyrarbakka 1940 úr eik. 15 br.l. Eigendur voru Magnús Magnússon og Jón Guðjónsson á Eyrarbakka. Báturinn var lengdur 1958 (21 br.l.) 1952 eignuðust Guðmundur Einarsson og Guðmann Valdimarsson á Eyrarbakka bátinn. Seldur 1960 til Hafnafjarðar.

12.05.2010 22:22

Freyr ÁR 150

freyr ÁR 150Smíðaður í Reykjavík 1916 úr eik. 12 br.l. Eigendur af bátnum voru Jón Helgason, Kristinn Gíslason og Guðmundur Jónsson á Eyrarbakka. Báturinn strandaði og sökk í Þorlákshöfn 28.mars 1940.

Jón Helgason frá Bergi ()

11.05.2010 22:15

Freyja ÁR 149

Freyja ÁR 149Báturinn var smiðaður á Eyrarbakka 1916 úr eik 9.br.l. með 10 ha.Dan vél. Eigendur af Freyju voru Jóhann E Bjarnasson o.fl. Eyrbekkingar. Báturinn slitnaði af legu á Eyrarbakka í des. 1936 og sökk. Engan sakaði.


Heimild Íslensk skip.

10.05.2010 23:55

Björgvin ÁR 55

Björgvin ÁR 55Báturinn var smíðaður á Eyrarbakka 1916 og voru eigendur Jóhannes Sigurjónsson, Þorkell Þorkellsson og Guðmundur Sigurjónsson á Stokkseyri.1942 var Báturinn seldur til Bolungarvíkur. Hét þá Björgvin ÍS 48. Báturinn slitnaði upp af festingum í illviðri og brotnaqði í spón.

07.05.2010 22:47

Þoka á heiðinni, sól í leiðinni

Þokan á heiðinni
Í dag komst hitinn á Bakkanum upp fyrir 15°múrinn í fyrsta sinn á þessu ári og lofar það góðu um framhaldið.Kl. 13:30 mældist hvorki meira né minna en 16.5°C í miðbæ Eyrarbakka, en 15.8 °C á veðurstöð VÍ.

06.05.2010 21:02

Það er komið sumar


Það hlýnar með hverjum deginum og hver dagur toppar þann næsta eins og sést á þessu línuriti sem spannar síðustu 7 daga. Grasið grænkar og brum trjánna springur út. Sumarið gæti orðið gott, nema ef svo fer að móðuharðindi bresti á. Fingerð aska í háloftunum getur temprað sólarljós nái hún ákveðnum þéttleika og útbreiðslu. Nú fer senn að hægjast um vinda á norðurhveli og ösku móða berst því hægar yfir og þéttist þar sem hún ferðast um loftin blá. En vonandi fáum við hlé á þessu yfir blá sumarið.

Flettingar í dag: 1229
Gestir í dag: 649
Flettingar í gær: 492
Gestir í gær: 129
Samtals flettingar: 204361
Samtals gestir: 26412
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 23:03:44