11.09.2012 20:12
A. Therkelsens Minde
Á Eyrarbakka strandaði 3. september 1875 danskt kaupskip
(Skonnorta) við innsiglinguna í höfnina. Það var hlaðið salti og korni, og fór
megnið af því í sjóinn, en menn komust allir af. Skipið hét A. Therkelsens
Minde, og var 81 tonn að stærð, skipstjóri þess hét Laurentzen, danskur maður,
en skipið var gert út af Lefolii kaupmanni. Botninn fór alveg undan skipinu, og
var rekaldið selt á uppboði.
Heimild: Ísafold 1875
Haustskipin komu
venjulega síðla í ágústmánuði og voru að öllu jöfnu farin áður en veður
versnuðu þegar leið á september. Nokkur kaupskip fórust á Eyrarbakka á
skútuöldinni þegar óvanaleg stórbrim gerði að vori eða hausti og skipin
slitnuðu upp af festingum sínum, en sjaldan var mannskaði af þessum völdum, þar
sem áhafnir kaupskipana héldu að mestu til í landi á meðan legið var á höfninni
og hlé var á löndun eða útskipun.
Flokkur: Sjóslys
06.09.2012 21:37
Þurkasumarið 2012/1907
Þurkasumur koma öðru hverju og eflaust mörgum bóndanum þótt
nóg um þurkana hér sunnanlands þetta sumarið þó allur almenningur og ferðamenn láti
sér vel líka sólskínið og góða veðrið. Kartöfluuppskera er frekar rír og
grasvöxtur víðast sunnanlands í lágmarki af völdum þurka. Sumarið 1907 var
einnig mikið þurkasumar hér sunnanlands, þornuðu upp lækir og lindir sem og
vatnsbrunnar svo að vatnslaust mátti heita á öðruhverju heimili. Sumstaðar
þurftu smjör og rjómabú að hætta starfsemi þegar lækir þornuðu með öllu. Í
Reykjavík þornaði lækurinn sem og flestir brunnar. Var því oft að flytja vatn
um langann veg þá um sumarið, en í september tók loks að rigna rétt eins og nú.
Heimild: Veðurklúbburinn Andvari / Huginn 1907.
02.09.2012 20:10
Fallegustu garðarnir á Eyrarbakka 2012






29.08.2012 21:51
Ýmislegt smálegt
Staður. Húsið "Staður" stóð rétt við verslunarhúsin gömlu, þar sem samkomuhúsið "Staður" er nú, og hafði Ólafur faðir Sigurðar Óla alþingismanns reist það. Húsið "Staður" var síðar flutt til Selfoss.
Eyrbekkingur nokkur segir svo frá: "Til skamms tíma var vindhani á turni kirkjunnar á Eyrarbakka. Var vindhaninn annað mesta stolt Eyrbekkinga á eftir "Húsinu". Illu heilli flutti svo hingað Snæfellingur af alkunnu Axlarætt. Var þá vindrhaninn tekinn niður af kirkjuturninum og upp settur kross byggðarlaginu til sáluhjálpar. - Voru það slæm skipti á vindhönum".
Efnabóndi: Þorkell Jónsson skipasmiður á Gamla-Hrauni á Eyrarbakka bjó
í Simbakoti á Eyrarbakka 1798-1802, á Stóru-Háeyri 1802-1812 og síðan á Gamla-Hrauni
til dauðadags 28. des. 1820. Þorkell eignaðist 5 jarðir, Gamla-Hraun, Salthól,
Syðsta-Kökk, Dvergasteina og Hárlaugsstaði í Holtum, var og allauðugur að
lausafé, svo að hann var með efnuðustu bændum á þeim tímum. Hann var
hreppstjóri um skeið með Jóni ríka í Móhúsum og fleiri trúnaðarstörf voru honum
falin. Kona Þorkels var Valgerður Aradóttir frá Neistakoti.
Kindin: Jóhanna Sigríður Hannesdóttir frá Stóru-Sandvík í Flóa, f. 4.5. 1897, d. 26.12. 1971 og Ketill Finnbogi Sigurðsson frá Garði í Dýrafirði, f. 7.12. 1898, d. 19.7. 1959, sýsluskrifari, síðar bankafulltrúi.
Þau bjuggu í Suðurgötu á Eyrarbakka til skams tíma í kringum
1935. Jóhanna átti eina kind sem alltaf var kölluð "Kindin" og ekkert annað.
Boðaði komu rafmagnsaldar. Guðmundur Þorvaldsson bóndi á Bíldsfelli í Grafningi, virkjaði bæjarlækinn. Þar hlóð hann neðst í gilinu í hefðbundnum íslenskum byggingarstíl húskofa úr torfi og grjóti. Fór Guðmundur þar að ráðum Dana nokkurs, Rostgaard að nafni, sem einnig vildi selja honum efni í rafstöðina. Rafstöðin var svo gangsett í febrúar 1912, lýsti hann upp öll bæjarhúsin og auk þess útihús. Var það fyrsta bændabýlið sem rafvæddist á íslandi.
Kartöflubransinn: Seint á sjöunda áratugnum ætluðu tveir
ungir menn að gerast hinir stórtækustu kartöflubændur hér sunnanlands og létu plægja
mikinn kartöflugarð á Eyrarbakka. Höfðu þeir keypt 50 tonn af útsæði sem öllu
var potað niður. Svo var beðið uppskerunnar, en áætlanir gerðu ráð fyrir að upp
úr garðinum fengjust 500 tonn af fyrsta flokks matarkartöflum sem selja mátti með
góðum hagnaði í helstu matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu. Þegar grös féllu
þá um haustið var hafist handa við úppúrtektina en heldur reindist hún rýr uppskeran.
Þegar allt var talið og vegið, skilaði garðurinn aðeins 40 tonnum af kartöflum.
22.08.2012 23:21
Dáðadrengir
Að morgni 13.apríl 1926 reru 17 bátar
af Eyrarbakka og Stokkseyri. Þegar á daginn leið gerði landsynningsrok og brim svo mikið, að aðeins nokkrir
bátar gátu lent heima, (aðeins 5 bátar náðu höfn á Stokkseyri og 4 á
Eyrarbakka) en hinir urðu að láta
fyrirberast úti á rúmsjó. Þegar heimamönnum þótti sýnt, að bátarnir gátu
ekki náð landi var símað til stjórnarráðsins og það beðið að hlutast til um það,
að varðskipið Fylla og önnur skip, sem til næðist væru beðin að koma bátunum
til hjálpar. Var þá strax sent skeyti til allra skipa á þessu svæði og þau
beðin að líta eftir bátunum. Strax um kvöldið voru fimm íslenskir togarar
komnir á vettvang til hjálpar, þeir Skallagrímur, Belgaum, Hannes ráðherra,
Earl Kitchener og Gyllir. Tók Gyllir einn bátinn "Trausta" og dróg hann
til Reykjavíkur, en Skallagrímur bjargaði áhöfninni af "Öðlingi", bát frá
Eyrarbakka (ÁR 148 vélbátur Árna Helgasonar í
Akri). Liðaðist hann sundur og sökk, (skipsflakið rak á land við
Grindavík) en skipverjar komu með Skallagrími til Reykjavíkur. Belgaum, Hannes
ráðherra og Earl Kitchener fylgdu hinum 7 bátunum, sem eftir voru til
Vestmannaeyja.
Sveinn Árnason fyrrum nágranni minn í Nýjabæ minntist eitt sinn á
þennan atburð, en hann mun þá hafa verið 13 ára er faðir hans var með Öðling.
Eftir barning allan daginn berandi ótta og kvíða í brjósti á lítilli bátskel í
aftaka veðri handan við brimgarðinn, varð það þeim mikill léttir þegar þeir sáu
togarann Skallagrím sér við hlið. En þó höfðu þeir aldrei orðið eins hissa og
þakklátir þegar þeir þekktu manninn sem rétti fram höndina og kippti þeim um
borð, en það reindist vera nágranni þeirra feðga, Sigurður Guðjónsson frá
Litlu-Háeyri sem þá var háseti á Skallagrími, en átti síðar eftir að stýra því
skipi farsællega öll heimstyrjaldarárin. Við annað tækifæri átti þessi frækni
togaraskipstjóri eftir að fylgja þeim feðgum fyrir Reykjanesið, en þeir höfðu
þá keypt bát frá Akranesi og lentu í miklum barningi á hemleið.
Heimild: Aldan 1926
Mynd-Skallagrímur RE:http://www.mikes-place.connectfree.co.uk/icegal/skallagrimur.html
Eldri frásögn Brimið á Bakkanum: Hrakningar á miðunum
15.08.2012 23:02
Heiti vindstiga
Eftirfarandi er heiti vindstiga samkv. gamla Beaufort kvarðanum.
5 vindstig eru 8-10 m/s (1 meter á sekúndu er 3,6 kílómetrar, 1,9 hnútar og 2,2 mílur á klukkustund)
Vindstig íslenska Beaufort | Færeyska | Danska |
0 Logn | Logn | Stille |
1 Andvari | Fleyr | Svag luftning |
2 Kul | Lot | Svag brise |
3 Gola | Gul | Let brise |
4 Kaldi | Andövsgul | Jævn brise |
5 Stinningsgola | Stívt andövsgul | Frisk brise |
6 Stinningskaldi | Strúkur í vindi | Kuling |
7 Allhvass vindur | Hvassur vindur | Stiv kuling |
8 Hvassviðri | Skrið | Haard kuling |
9 Stormur | Stormur | Storm |
10 Rok | Hvassur stormur | Stork storm |
11 Ofsaveður | Kolandi stormur | Orkanagtig storm |
12 Fárviðri | Ódn | Orkan |
Heimild: Veðurklúbburinn Andvari Eyrarbakka
13.08.2012 18:41
Aldamótahátíð 2012


22.07.2012 22:50
Brim

20.07.2012 00:32
Svíar mynda á Bakkanum

20.07.2012 00:13
Gangstéttaframkvæmdir

15.07.2012 22:37
Brynjólfur Guðjónsson
Brynjólfur [Sonur Guðjóns Jónssonar bónda og formanns á Litlu-Háeyri (1865-1945), og Jóhönnu Jónsdóttur frá Minna-Núpi (1879-1957)] var fæddur að
Litlu-Háeyri á Eyrarbakka 19. nóvember 1915 og bróðir Sigurðar Guðjónssonar á
Litlu-Háeyri er lengi var þjóðkunnur skipstjóri á Kveldúlfstogaranum Skallagrími. Brynjólfur
var kornungur, er hann réðist á togara. Fyrst fór hann á Þórólf, til Kolbeins
föðurbróður síns, en er Sigurður bróðir hans varð skipstjóri á Skallagrimi árið
1936, réðist hann þangað og var þar æ síðan. Brynjólfur átti hlut í litlum bát
á Eyrarbakka, Hafsteinn ÁR-201 sem róið var á í frístundum og var hann formaður fyrir honum. Brynjólfur,
kvæntist 1945 Fanneyju Hannesdóttur og áttu þau eitt barn. Togarinn
Skallagrímur, fór í eina af sínum hefðbundnu veiðiferðum sumarið 1946. Í
þessari ferð var komið við á Patreksfirði og var settur þar í land maður er
fengið hafði blóðeitrun, en skipið hélt svo áfram og byrjaði að toga út af
Önundarfirði. Laugardagsmorguninn 6. júlí var Skallagrimur að veiðum
undan Barða. Um hálf ellefu leytið festist varpan skyndilega í botni og rifu vírarnir
upp síðupollann stjórnborðsmegin. Fjórir háseta, er við vinnu voru á þilfari,
urðu fyrir vírunum og stórslösuðust, en Brynjólfur var einn þeirra. Reynt var að
hjúkra þeim, svo sem kostur var á um borð. Jafnskjótt og pollinn hafði losnað
var höggvið á vírana og stefnt með fullri ferð til Flateyrar og var komið
þangað rétt fyrir hádegi. Um það bil, er skipið var að koma i höfn, andaðist
Brynjólfur, en hann hafði aldrei komist til meðvitundar frá því hann
slasaðist, en annar hinna slösuðu háseta lést einnig skömmu síðar.
01.07.2012 22:51
Knarrarósviti/ Baugstaðarviti
Loftstaðahóll var talinn
heppilegasta vitastæðið á standlengjunni milli Ölfusár og Þjórsár. En þegar farið
var að bora í hólinn, reyndist
þar ekki fáanleg nógu traust undirstaða og
var þá horfið að því ráði, að
reisa vitann við Knararós á Baugstaðakampi. Var byrjað á byggingunni
í september 1938 og lokið við að koma
henni upp í nóv. sama ár. Sumarið 1939 var unnið að því að setja
ljóstæki í vitann og ganga frá honum að
öðru leyti. - Þann 31. ágúst það sama ár var vitinn vígður og tók hann
samdægurs til starfa.
27.06.2012 22:22
Fórust með "Víði"
Sunnudagsmorguninn 6. f ebr. 1938 reru flestir bátar úr Eyjum. Um k l. 10 skall á versta veður og rofaði ekki til fyrr en kl. hálf fjögur e.h. Í þessu veðri fórst " Víðir" úr Vestmannaeyjum, með 5 manna áhöfn. Skipverjar voru allir ungir menn og ókvæntir, en meðal þeirra voru tveir Eyrbekkingar.
Formaðurinn var Gunnar Guðjónsson úr Vestmannaeyjum. Vélstjóri var bróðir hans, Gísli Guðjónsson. Móðir þeirra, Halla Guðmundsdóttir, hafði þá misst fjóra syni sína í sjóinn. Hásetar á " Víði" voru Jón Markússon úr Eyjum. Jón Árni Bjarnason frá Tjörn á Eyrarbakka og Hallur Þorleifsson frá Eyrarbakka.
Ægir 1938. Mynd frá höfninni í Vestmannaeyjum.
21.06.2012 22:43
Ófarir "Ingu"
Á vetrarvertíð 1938 vildi það slys
til í lendingunni á Stokkseyri, að ólag reið á
bátinn "Ingu", er hún
var að fara
inn sundið, og lenti
það á stýrishúsinu og braut það og
tók út tvo menn, er
þar voru, og drukknuðu
þeir báðir. Mennirnir voru: Guðni Eyjólfsson frá Björgvin á
Stokkseyri, formaður bátsins, og vélamaðurinn Magnús Karlsson, báðir ungir menn og ókvæntir.
Fjórir bátar frá
Stokkseyri, sem áttu eftir að lenda, hættu við lendingu,er skipverjar sáu ófarir Ingu, og héldu til hafs. Bátar þessir náðu síðar heilir í höfn.
Heimild: Ægir 1938 Mynd/Stokkseyrarbryggja: Sjómannadagsblaðið 1982