05.11.2008 20:56

Róið til fiskjar um aldamótin 1900

Sunnlenskt áraskip seglbúiðÞá voru allir bátar á Eyrarbakka róðrabátar og veitt var á línu. Beitan var fjörumaðkur í vertíðarbyrjun en síðan altaf hrogn eða þar til síðar að farið var að nota síld. Því grynnra sem fiskurinn gekk því betur aflaðist.  Fatnaðurinn var úr skinni og skórnir líka. Þá var róið í þriggja tíma túra og myrkrana á milli ef vel fiskaðist. Fiskurinn var seilaður á grunnenda bátsinns, en þar tók landmaðurinn við honum og dró frá skerjum til lands þar sem heimafólk, konur og krakkar tóku við honum. Í stórstraumsfjöru var það stundum langur vegur sem landmaður þurfti að draga seilina og þótti það íllt verk.

 

Formenn báru sig saman um það hvort væri sjófært og var þá flaggað ef svo var. En þar til flaggið var komið upp mátti enginn halda til sjós, því svo fljótt gat brimað á Bakkanum.

 

Vertíðarnar voru þannig að byrjað var að róa seint í september og róið til jóla. Haustvertíðinni lauk á Þorláksmessu. Stundum var róið milli jóla og nýárs. Vetrarvertíð byrjaði á kyndilmessu en venjulega tók ekki að fiska fyrr en seint í febrúar. Aðkomumenn voru einungis til sjós á vetrarvertíðum, en á vorin reru aðeins fáir bátar.

 

Þegar vorvertíð lauk tók við svokölluð eyrarvinna hjá sjómönnunum, en það var uppskipunarvinna fyrir verslunina. Í þann tíma var fjölmennt á Bakkanum þegar bændur komu hvaðanæfa af Suðurlandi til innkaupa. Þá fóru einnig fram vöruskipti mill bænda og þorpsbúa. Bændurnir fengu söl, fisk og herta þorskhausa, en létu í staðinn smjör, tólg, kjöt og skinn. Þá jafngiltu 20 fiskar 4 krónum.

Heimild: Byggt á viðtali Þjóðviljans við Ólaf Sigurðsson frá Naustakoti á Eyrarbakka. Þjóðviljinn 4.júní 1950.

Ps. Fékk þessa vísu hjá bloggvini http://gummiste.blogcentral.is/

Frá Eyrarbakka út í [Sel] vog.
Sumar útgáfur vísunar eru með eftirfarandi hætti:

 

Frá Eyrarbakka út í Vog

er svo mældur vegur

átján þúsund áratog

áttatíu og fjegur.

Rétta útgáfan er svona:

           
Frá Eyrarbakka út í Vog
er svo mældur vegur
átján hundruð áratog
áttatíu og fjegur.


Vegalengdin  á sjó, frá Eyrarbakka  út í Selvog, mun vera 25-30  km. og í logni 4-5 kl. stunda
róður. Þegar tekið var langræði  höfðu menn, að öllum jafnaði,  langdregin áratog, 7 áratog á  mínútu, og það eru 420 áratog  á klukkustund, en 1890 áratog á  4.5 kl. stund.

Flettingar í dag: 99
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 70
Gestir í gær: 27
Samtals flettingar: 219589
Samtals gestir: 28925
Tölur uppfærðar: 3.10.2024 18:19:47