14.11.2009 21:59

Saga um verkamann í litlu þorpi

Kristján GuðmundssonHann gerðist ungur einn af stofnendum Bárufélagsdeildar og varð einn fremsti forustumaður alþýðufólksins í þorpinu og um leið einn af merkustu brautryðjendum íslenskrar verkalýðshreyfingar. Þorpið er Eyrarbakki og maðurinn Krisján Guðmundsson. Þegar hann var að alast upp á Bakkanum á árunum 1908-1920 var stéttskiptingin aðalega fólgin í því að stór hópur fólks hafði mjög lítið eða alls ekkert að borða, en hinn hópurinn sem var lítill hafði nóg en þó ekkert umfram það. Oft voru hörð átök milli þessara tveggja hópa, mikil tortryggni og jafnvel hatur sem stafaði öðrum þræði af ótta en annars af skorti.


Forustumennirnir voru fáir, en þeir voru harðir í horn að taka og það kom sjaldan fyrir að þeir væru sömu skoðunar í nokkru máli, enda áttu þessi átök sér djúpar rætur í langri þróun sem enginn skildi þó til fulls, en helgaðist af því að sumir vildu engar breytingar sem raskað gætu því öryggi sem þó var til staðar fyrir þann hóp, en aðrir kusu að feta nýjar slóðir og jafnvel umbylta því kerfi sem fyrir var, en sá hópur bjó við viðvarandi öryggisleysi. Þessar tvær fylkingar voru annarsvegar verslunarmenn og landeigendur, en hinsvegar Verkamannafélagið Báran.


Eyrarbakki um 1960Kristján Guðmundsson fæddist á Iðu í Biskupstungum 1.júní 1885. Þar ólst hann upp við fábrotið nám. Um aldamótin var jörðinni sagt lausri og allt selt, því foreldrar hans Guðmundur Guðmundsson og Jónína Jónsdóttir hugðust flytja til vesturheims. Þegar búið var að greiða allar skuldir, þá var ekki lengur til fyrir fargjaldinu og lentu þau því á Bakkanum. Á Eyrarbakka var mikið líf á þessum árum. Þar starfaði leikfélag, lestrarfélag, hornafélag, söngfélag, fimleikafélag og skautafélag svo eitthvað sé nefnt. Ljósker lýstu upp götur og þegar einhvern viðburður var á dagskrá, gengu drengir í hvítum strigafötum götuna á enda og börðu trumbur. Það voru faktorarnir og assistentarnir í Húsinu sem voru helstu menningarfrömuðir á Bakkanum í þá tíð og driffjaðrirnar í þessum félögum.

Saga verkamannsins á Eyrarbakka hófst með Lefolii versluninni, sem var þá og lengi síðan aðal vinnuveitandinn. Karlmenn unnu aðalega við uppskipunina en konur á ullarloftinu um og eftir lestarferðirnar. Oft kom til árekstra er menn vildu hækka kaupið um svo sem einn aur á tímann. Tildæmis eitt sinn þegar tókst að fá kaupið hækkað um þrjá aura á tímann var hætt að láta fólkið fá ókeypis skonrokskökur, sem það hafði fengið eftir hvern vinnudag.


Kristján Guðmundsson ÁRKristján stundaði þá vinnu sem til féll á Bakkanum og fór á sjóinn á vertíðum og í kaupavinnu um sláttinn eða vegavinnu út á land. Kristján var enn kornungur þegar Sigurður regluboði stofnaði deild árið 1904 úr sjómannafélaginu Báran og var Kristján á meðal stofnenda, en það má heita að allur almenningur á Bakkanum hafi verið stofnfélagar að deildinni, en hún var sú fjórða í röð þeirra Bárudeilda sem sem stofnaðar voru á Íslandi. Félagið hóf þegar kraftmikið og öflugt starf  fyrir hagsmuni almennings á Eyrarbakka og stöðugt urðu afskipti félagsins víðtækari í bæjar og atvinnumálum. Fyrr en varði var þetta félag komið með öll völd í málefnum byggðarlagsins. Kristján lá ekki á skoðunum sínum á fundum félagsins og fljótlega naut hann fulls trausts félagsmanna og var kosinn í ráð og nefndir. Hann var síðan kosinn formaður félagsins og gengdi því í áratugi en þó ekki samfellt. Með honum starfaði eldhuginn og hugsjónamaðurinn Bjarni Eggertsson og samann voru þeir máttarstólpar félagsins um langa hríð. Þeir stjórnuðu hvor sínu skipi, hver með sinni áhöfn og hver með sínu lagi, en saman höfðu þeir það afl sem þurti til að sækja fram. Kristján fékk að reyna fátækt og alsleysi þegar hann stofnaði sína fjölskyldu á Bakkanum eins og var um flesta og oft kárnaði gamanið þegar ekkert var til svo halda mætti jól. Kaupmenn lánuðu oft upp á krít, en ekki var endalaust hægt að bæta á þann reikning, ef vertíðir brugðust. Kristján var virkur í leikfélaginu og lék þar ýmis hlutverk, en jafnaðarstefnan og Alþýðuflokkurinn áttu þó hug hans mestann.


Það má skipta sögu Bárunnar upp í tímabil eins og Kristján nefnir sjálfur í einu viðtali og líkir félaginu við akuryrkju. "Fyrstu árin ruddum við jörðina, undirbjuggum sáningu,

svo sáðum við og hlúðum að fræjunum í fjölda mörg ár og loks fórum við að skera upp"

Þegar aldurinn færðist yfir tók Kristján að þjást af gigt og varð hann að hætta sínu daglega striti. Hann kom sér upp kindastofni og gerðist nokkurskonar fjárbóndi hér í þorpinu.


Heimild: Alþýðublaðið 122 tbl.1960


Kristján líkti verkalýðsbaráttu við akuryrkju og nú er þörf á að ryðja akurinn að nýju. Flokkur alþýðunnar er löngu horfinn til feðra sinna og nú ráða jafnaðarstefnunni menntaklíkur ættaðar úr háskólanum og sjálfri verkalýðshreyfingunni hefur verið stolið af sömu klíku þori ég að fullyrða. Það er kominn tími til að taka fram plóginn að nýju og herfa og sá. Til þess þurfum við frumkvöðla eins og Kristján Guðmundsson og eldhuga eins og Bjarna Eggerts sem voru foringjar sprottnir úr jarðvegi alþýðunnar.
Ráðning í vegavinnu! () Enn lifir bára. (30.4.2008 23:21:39) Róið til fiskjar um aldamótin 1900 () 

Flettingar í dag: 129
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 70
Gestir í gær: 27
Samtals flettingar: 219619
Samtals gestir: 28925
Tölur uppfærðar: 3.10.2024 18:41:14