25.11.2009 22:45
Svaðilför á Jóni Krók
Þrír ungir menn kvöddu dyra á húsi einu á Eyrarbakka kl 5 aðfaranótt mánudagsins 11 oktober 1965. Þegar húsráðandi kom til dyra spurðu þeir hann hvar á landinu þeir væru staddir. Piltarnir sem voru allir úr Vestmannaeyjum höfðu komist í hann krappann í brimgarðinum á vélarvana bát sínum og hrakist upp í fjörusandinn í þoku og svarta myrkri. Þeir höfðu lagt upp á sunnudagsmorgni frá Vestmannaeyjum á litlum bát og ætlað út í Surtsey. Á leiðinni skall á svarta þoka svo þeir viltust af leið, enda voru engin siglingatæki um borð í kænunni, eða nokkuð annað til að gera vart við sig. Síðar um daginn bilaði vélin í bátnum og tók þá að reka undan vindum og straumi.
Á sunnudagskvöldinu var gerð mikil leit að þeim frá Vestmannaeyjum. Björgunarsveitir gengu fjörur og allur síldveiðiflotinn í eyjum tók þátt í leitinni. Bátarnir sigldu vítt og breitt umhverfis eyjarnar í niða þoku og lýstu upp fjörurnar með ljóskösturum. Lóðsinn fór út í Surtsey en urðu þar einskins varir og líklegt að menn hafi verið farnir að óttast um afdrif piltanna.
Báturinn sem piltarnir voru á var frambyggður álbátur og hét Jón Krókur. Eigandi hans var Páll Helgason sem fyrstur sté á land á Syrtlingi, en eyjan kom upp í gosi þetta sama ár en hvarf síðan í hafið um það leiti sem þessi saga gerist. Þessa ferð fór Páll á Jóni Krók. -Þegar piltarnir þrír þeir Kristján Laxfoss, Gretar Skaftason og Helgi Leifsson voru komnir inn á Eyrarbakkabaug var talsverður sjór og ekkert skyggni. Þeir gátu ekkert aðhafst þegar þeir ráku inn í brimgarðinn en gátu skýlt sér með segldúk, en það var þeim til happs að háflóð var og skolaði þeim alla leið upp í sand óskaddaðir. Strax og þeir voru komnir í hús á Bakkanum voru þeir háttaðir upp í rúm og veitt hin besta aðhlynning. Daginn eftir fóru skipbrotsmennirnir með Herjólfi til Eyja og hafa eflaust fengið þar góðar móttökur.
Heimild:Alþýðubl.1965 229tbl ofl.
Bátsnafnið er líklega í höfuðið á Jóni Krók Þorleifssyni d. 1229. Prestur í Gufudal.