10.03.2011 00:47

Skipasmiðir

Fyrsta hafskipið sem smíðað var á Eyrarbakka svo vitað sé, var kaupskip smíðað árið 1338 og gekk það til Noregs það sama sumar. Ekki er vitað um önnur farmskip smíðuð á Eyrarbakka, þar til Brynjólfur biskup Sveinsson lét smíða stórt skip árið1652 á Bakkanum. Var það farmskip, 20 álnir um kjöl. Ormur Indriðason, (d.1661) sem kenndur var við Skúmstaði á Eyrarbakka var sagður skipasmiður og má leiða líkum að því að hann hafi komið að smíði þess ásamt Brynjólfi skipasmið á Rekstokki, Sveinbjarnarsonar, bónda á Skúmstöðum, en Brynjólfur var samtíða Ormi.

Klemenz Jónsson (1687-1746) frá Einarshöfn var formaður í Þorlákshöfn og umsjónarmaður með fiski biskups á Eyrarbakka. Hann var einnig sagður skipasmiður og hefur eflaust smíðað skip það er hann var formaður fyrir.


Tómas Þorsteinsson (1699-1754) frá Skúmstöðum var sagður skipasmiður.

Brandur Magnússon (1727-1821) í Roðgúl á Stokkseyri var hagleikssmiður á járn og tré og afar uppfyndingasamur. Hann var einnig rammur að afli svo af var látið. Hann smíðaði mörg skip, en sjálfur var hann formaður í 60 ár  á "Bæringi" er hann smíðaði með sínu sérstaka lagi og þótti það betra sjóskip en önnur á þeim tíma. (Stærð þess var 9.5 X 4,5 alin). Hann tók upp á því að járnslá árahlumma og stafn og var skip hans kallað "Járnnefur" upp frá því. Smíðahamar hans var tvískallaður og vóg 3 pund, en þennan hamar eignaðist Helgi Jónsson (1810-1867) á Ásgautsstöðum. Jón Snorrason (1764-1846) skipasmiður í Nesi, nam skipslagið af Brandi og hafði öll skip sín með "Brandslagi". Samtíða honum var Þorkell Jónsson (1766-1820) á Háeyri, en hann smíðaði mörg skip og sauminn sló hann sjálfur í smiðju sinni, enda jafn hagur á járn og tré.

Jón Gíslason frá Kalastöðum var skipasmiður en auk þess listasmiður á járn og kopar. Árið 1859 smíðaði hann skipið "Fortúna" úr viðjum kaupskipsins "Absalon" sem strandaði á Eyrarbakka 15. maí 1859 og átti Grímur bróðir hans þann bát. Um 1860 smíðaði hann áttróinn sexæring fyrir Guðmund Þorkellsson á Gamla-Hrauni. Hét sá bátur "Bifur" og var mjórri og í minna lagi en gerðist með sexæringa á þeim tíma. Báturinn þótti hinsvegar einstök gangstroka og léttur undir árum.

Stinn Guðmundsson SteinsbæSteinn Guðmundsson í Einarshöfn var skipasmiður góður. Skip hans voru með nýju lagi er kallaðist "Steinslag" og tóku öðrum skipum fram í brimsiglingu og voru vönduð og góð sjóskip. Fyrir það var hann heiðraður af konungi Christian IX. Þá hafði hann smíðað 138 skip með þessu nýja lagi, en í allt smíðaði Steinn 300 skip. Hann var það afkastamikill að hann gat smíðað eitt skip á 12 dögum. Á Sjóminjasafninu er eina eintakið sem eftir er af skipum Steins, en það er "Farsæll" sem Steinn smíðaði fyrir Pál hreppstjóra Grímssonar í Nesi, en þessu skipi var bjargað á elleftu stundu frá eyðileggingu af Sigurði Guðjónssyni á Litlu-Háeyri. "Farsæll" er seglbúið skip, en Steinn var fyrstur skipasmiða sunnanlands til að búa áraskip seglum. Skip hans þóttu happafleytur, en aðeins er vitað um eitt skip frá honum sem farist hefur.

Samtíða Steini Guðmundssyni var Jóhannes Árnason (1840-1923) á Stéttum. Skip hans voru einnig með hinu nýja "Steinslagi" en þau þóttu öruggari og viðtaksbetri á brimsundunum og svipurinn fallegur með skásett stefni. Meðal skipa hans var "Svanur" er áttu Gamla-Hraunsfeðgar. Síðasta skipið smíðaði hann árið 1916 og voru smiðslaun þá 70 kr fyrir Sunnlanskt áraskip, seglbúið með "Steinslagi"skipið.


Hallgrímur Jóhannesson (1851-1912) skipasmiður frá Borg í Hraunshvefi (Síðar Kalastöðum og brimvörður á Stokkseyri) tók einnig upp nýja skipslagið hans Steins, en Hallgrímur var einnig hagur járnsmiður og voru skautar hans annálaðir og eftirsóttir af skautaunnendum, en þeir voru ófáir í þá tíð.

Sigurjón Jóhannesson (1865-1946) á Gamla-Hrauni var meðal síðustu skipasmiða á skútuöld ásamt Einari syni sínum (1889-1948) frá Sunnuhvoli á Stokkseyri. Einar var hinsvegar með fyrstu vélbátasmiðum Sunnlendinga, en hann smíðaði vélbátinn "Björgvin" ásamt Jóhannesi bróður sínum og Þorkeli þorkellssyni á Gamla-Hrauni. Bát þennan gerðu þeir út frá Stokkseyri.

Heimildir: Saga Stokkseyrar,Saga Eyrarbakka, Austantórur.

Flettingar í dag: 208
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 70
Gestir í gær: 27
Samtals flettingar: 219698
Samtals gestir: 28926
Tölur uppfærðar: 3.10.2024 19:45:27