27.03.2010 00:28

Fer Katla á kreik ?

Elstöðin á Fimmvörðuhálsi, Höfundur myndar Steinþór GíslasonKötlugosið 1625 mun vera það sem glöggar sagnir eru um, en af heimildum má ráða, að Katla hafi oft gosið áður eftir að land var numið. Fyrsta hlaupið niður Mýrdalssand eftir að land byggðist hefur trúlega orðið árið 1000. Sigurður Þórarinsson hefur i ritinu Jökli 1959 gert yfírlit yfir þau Kötlugos, sem sennilegt er að hafi orðið en tiltekur þó ekki gos árið 1000.
Fyrsta hlaupið, sem söguleg vissa er fyrir að farið hafi niður Mýrdalssand, mun hafa orðið laust fyrir árið 1179. Eitt þeirra Kötlugosa, sem óglögglegar heimildir eru um, er gos sem olli svonefndu "Sturluhlaupi" árið 1311. Um það segir m.a.: "að tók af alla byggðina, sem eftir var á Mýrdalssandi. Það svæði var kallað Lágeyjarhverfi". "Um vorið var farið að leita, þar sem bæirnir höfðu staðið, því að hlaupið hafði svo gersamlega sópað burtu bæjum, húsum, engjum og högum, mönnum og öllum fénaði, að það sást ekki að þar hefði nokkurntíma byggð verið, heldur aðeins eyðimörk, hulin sandi og vikri, marga faðma djúpt niður".


Kötlugosið 1918 er líklega eitt mesta eldgos, sem orðið hefir hér á landi síðan 1875. Laust eftir hádegi laugardaginn 12. okt. 1918 fundust snarpir jarðskjálftakippir í Mýrdal, og litlu síðar sást mökkur yfir Mýrdalsjökli. Var hann hvítleitur í fyrstu, en sortnaði síðan, og þótti mönnum þá augljóst, að Katla væri komin á stúfana. Um nónbil hljóp jökullinn. Kom vatnið fram í tveim stöðum: austast og vestast á sandinum. Vestara hlaupið braust fram milli Hafurseyjar og Höfðabrekkuafréttar, uns það skall á Selfjalli. Féll þá nokkur hluti þess yfir í farveg Múlakvíslar og eftir honum til sjávar, en meginfóðið ruddist suður sandinn, milli Selfjalls og Hafurseyjar, og á haf út beggja megin við Hjörleifshöfða. Náði það, að sögn, frá hæð þeirri á sandinum, sem Lambajökull nefnist, og vestur undir Múlakvísl, svo að þessi hluti hlaupsins hefir verið um 12 km. á breidd við fjörur frammi. Austara hlaupið féll fram úr jöklinum nálægt Sandfelli. Lagði það undir sig austanverðan sandinn og klofnaði í ýmsar kvíslar um öldur og fell. Nyrsta kvíslin féll í Hólmsá, fyllti gljúfur hennar og svipti burt brúnni, en aðalvatnið tók stefnu á Álftaverið, og féll sumt fram yfir það og út í Kúðafljót, einkum eftir farvegum Skálmar og Landbrotsár, en sumt rann beint út í sjó vesur af Álftaveri, og er talið, að það hafi náð vestur að svonefndu Dýralækjarskeri.


Sagan kennir okkur að gos í Kötlu koma jafnan eftir gos í Eyjafjallajökli. En hvort gosið á Fimmvörðuhálsi sé undantekning er alveg óvíst.

Heimild: Tíminn Sunnudagsblað , 5. tölublað 1969- Náttúrufræðingurinn 1-3 tbl 1934

Flettingar í dag: 135
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 2887
Gestir í gær: 206
Samtals flettingar: 229408
Samtals gestir: 29867
Tölur uppfærðar: 14.10.2024 03:49:09