11.03.2010 23:33

Kaupfélagið Hekla

Skip á sundinuVerslunarfélagið Hekla var í upphafi hlutafélag stofnað af Gesti Einarssyni (1880-1918) á Hæli, en samvinnufélag var stofnað 26.janúar 1907 og keypti það verslunina sem þá fékk nafnið Kaupfélagið Hekla. Með Gesti voru 15 bændur af Suðurlandi. Framkvæmdarstjóri félagsins var Guðmundur Guðmundsson glímukappi. Ársvelta félagsins var rúm 184 þúsund krónur og skilaði umtalsverðum hagnaði fyrstu árin. Árið 1913 greiddi félagið 11% arð til skuldlausra félagsmanna. Samkeppni á Eyrarbakka var enn nokkuð mikil, en áður hafði Lefolii verslun verið ein og ráðið lögum og lofum í verslunarviðskiptum, en 1.sept.1909 hafði þeirri verslun verið breytt í hlutafélagið Einarshöfn hf til þess aðalega að fríska upp á ímyndina. Árið 1919 keypti kaupfélagið Hekla allar eignir Einarshafnarverslunar hf, þar með talið jarðirnar Einarshöfn og Skúmstaði á 80 þúsund krónur. Þá fluttu samvinnumenn stöðvar sínar í vesturbúðirnar, en aðstaða Kf. Heklu austan Gónhóls var seld.

 Skonortunum var lagt eftir fyrri heimstyrjöld og stærri gufuskip hófu vöruflutninga á milli landa. Höfnin var orðin of lítil.    Það var margt sem var farið að hamla gegn stóru versluninni á Bakkanum og var það ekki síst fyrri heimstyrjöldin, en á styrjaldarárunum voru skipaferðir á Bakkann orðnar strjálar vegna víðsjár stríðsins og vörur af skornum skamti. Eftir stríð voru skipin orðin stærri og flest of stór fyrir hafnarlægið á Eyrarbakka. Þá voru samgöngur orðnar betri til Reykjavíkur og höfn þar í byggingu. Vaxandi samkeppni við smá kaupmennina og samvinnuverslunina varð til þess að draga máttinn úr verslunarrisanum. Danir höfðu séð sæng sína útbreidda, þróun verslunar til framtíðar  yrði ekki umflúin. Heklumenn sem sátu nú einir að bændamarkaðnum austanfjalls hugðu því gott til glóðarinnar.

  Dönsku verslunarhúsin komust í eigu Kaupfélagsmanna  Kaupfélagsmenn áttuðu sig of seint á aðstæðum og sátu nú fastir eins og mús í gildru. Árið 1920 varð mikið verðfall á vörum og fasteignum og sat því félagið uppi með óvinnandi skuldir. Það varð ekki til að bæta stöðuna að bændur fóru í æ meira mæli að sækja til Reykjavíkur sem var í örum vexti með tilkomu hafnar og aukinnar verslunar. Á meðan kaupfélagsmenn börðust í bökkum setti Egill Thorarensen í Sigtúnum upp verslun við Ölfusá (Selfoss) sem var í vegi bænda er komu austan úr héraðinu og gerði það útslagið. Bændaverslunin á Eyrarbakka hrundi síðla árs 1925 þegar Kf Hekla hætti starfsemi. Aftur kom það Reykvíkingum til góða, því þangað urðu sunnlenskir bændur að fara með afurðir sínar fyrst um sinn.

 

Heimild: Árnesingur II Lýður Pálsson  Morgunb. 91 tbl 1914  Þjóðólfur 1-2. tbl 1919

Flettingar í dag: 135
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 2887
Gestir í gær: 206
Samtals flettingar: 229408
Samtals gestir: 29867
Tölur uppfærðar: 14.10.2024 03:49:09