21.03.2010 00:42

Bakka-Oddur

Einarshöfn Eyrarbakka
Strandferðabátar Lefolii verslunar voru í þessari röð: "Skjöldur" gufubátur í notkun um og eftir 1884. "Den Lille"  frá 1889 og var skipstjóri á honum Bjarni Elíasson. "Oddur" gufubátur um og eftir 1895 og var dani
Theilland Hansen að nafni skipstjóri á Oddi. "Njáll" einig gufubátur í notkun frá 1905 og til ársins 1906 er hann strandaði á Eyrarbakka. "Hjálparinn" vélbátur tekinn í notkun 1907 og var skipstjóri lengst af Jón Sigurðsson í Túni. Þessir bátar sigldu á flestar nálægar hafnir, svo sem  til Þorlákshafnar, Grindavíkur, Hafnarfjarðar, Keflavíkur, Þórshafnar, Sandgerði og Reykjavíkur venjulega einu sinni í mánuði yfir sumarið. Þess utan var siglt til Stokkseyrar, Landeyjar (Hallgeirseyjar), Vestmannaeyja, Þorlákshafnar, Selvogs og Grindavíkur þegar svo bar undir. Stundum var siglt undir Eyjafjallasand (Holltsvör) Víkur í Mýrdal, Loftstaða, Gaðs, Hafnarleirs og jafnvel til Borgarness. Voru ferðir þessar eftir samningi við Sýslunefndir og jafnan auglýstar í dagblöðum. Ferðir þessar hafa örugglega skipt miklu máli fyrir veglausar byggðir Suðurlands á sínum tíma.

Gufubátnum Oddi á

ég mun héðan flakka,

þegar kæri knörrinn sá

kemur frá Eyrarbakka.

(Jón Þórðarson Fljótshlíðarskáld)

Oddur LBHCOddur var 35-40 tonn að stærð. Hann var talinn ágætis sjóskip og vel gerður að lagi. Skipstjóri á Oddi var danskur maður, Theilland Hansen, sömuleiðis vélstjórinn. Hásetar voru fjórir, allt íslendingar. Helsta verkefni bátsins var að aðstoða seglskipin sem athöfnuðu sig á Einarshöfn. Ferðalög með Oddi þóttu spennandi fyrir almenning sem gáfu sig oft til vinnu við uppskipun á salti út á verstöðvarnar. Eitt af mörgum verkefnum bátsins var að sækja skreið og herta þorskhausa til umboðsmanns verslunarinnar í Grindavík. Lefolii átti hús í Grindavík sem kallað var "Anleggshús" sem var vörugeymsla þar, en auk þess flutti báturinn salt og matvæli til vertíðarmanna. Í þessa ferð fór Oddur venjulega um lokin (Vertíðarlok 11. maí) og svo aftur á haustin. Með Oddi fóru einnig vertíðarmenn austan úr Árnessýslu. Í síðustu strandferð sinni haustið (9. nóvember) 1904 var Oddur á leið til Hafnafjarðar með viðkomu í Grindavík, en um þá ferð ritaði sr. Gísli Brynjólfsson frá Járngerðarstöðum í sjómannablaðið Víking:
 

"Veður var gott þegar báturinn kom, en þegar hann var nýlagstur gerði suðaustan rok og svo vondan sjó að báðar akkeriskeðjurnar slitnuðu. Var þá ekki að sökum að spyrja. Odd rak á land. En svo happalega vildi til, að hann komst yfir alla fjöru og lenti uppí kampi lítið brotinn og allir mennirnir komust í land óhraktir. En svo fór, að sjórinn braut hann að nokkru. Var hann svo rifinn og fluttur um borð í þýzka skonnortu, sem "Minna" hét, sem var að taka annað brotajárn til útflutnings. En nú tókst svo illa til, að nokkru eftir að Oddur var allur kominn þar í lest sem brotajárn, að aftur gerði versta veður. Þá sleit "Minnu upp og rak hana á land, einmitt í lendingunni í Járngerðarstaðahverfi. Varð þá Odddur strand í annað sinn. Og enn var hann fluttur út ásamt því skipi, sem áður hafði hann í lest sinni. Svo að ekki verður annað sagt en að örlög Bakka-Odds hafi orðið allsöguleg áður en lauk".

Heimild: Sjómannablaðið Vikingur 6.tbl.1972 sr.Gísli Brynjólfsson. -10.tbl 1972 Sigurður Guðjónsson Litlu Háeyri. Þjóðólfur 22.tbl. 1895

Flettingar í dag: 72
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 2887
Gestir í gær: 206
Samtals flettingar: 229345
Samtals gestir: 29867
Tölur uppfærðar: 14.10.2024 03:06:42