12.10.2012 00:01

Prentsmiðja Suðurlands á Eyrarbakka

Það voru nokkrir Árnesingar sem keyptu prentsmiðju árið 1910 og stofnuðu í framhaldi þess, Prentfélag Árnesinga og blaðið "Suðurland", sem þeir gáfu út á Eyrarbakka, og kom fyrsta blaðið út 13.júní 1910 og taldi 4 síður. Ritstjórar voru Oddur Oddson í Regin og Karl H. Bjarnason, en gjaldkeri var sr. Gísli Skúlason á Stóra-Hrauni. Kom blaðið út nokkur ár en síðar var keypt annað blað, "þjóðólfur" hinn gamli og gefinn út um tíma hér á Bakkanum. Hann hætti að koma út 1918 og var prentsmiðjan síðan flutt til Reykjavíkur. Prentsmiðjan á Bakkanum var til húsa í kjallara í Nýjabæ (Vestara húsi). Oft var ekki hægt að prenta ef gerði mikið frost, því hitunarbúnaður var ekki fyrir hendi í fyrstu, þá háði starfseminni stundum pappírsskortur á stríðsárunum fyrri. Heimilisblaðið var einnig prentað og gefið út á Eyrarbakka auk bóka, bæklinga og rita ýmiskonar. Prentarar voru þeir Jón Helgason og Karl H Bjarnason. Í stjórn Prentfélags Árnesinga voru: sr. Gísli Skúlason á Stórahrauni, Guðmundur Þorvarðarson hreppstjóri í Sandvík, og Oddur Oddson gullsmiður í Regin. Í ritnefnd voru Gísli Skúlason áður nefndur, Guðmundur Sigurðsson sýslunefndarmaður, Helgi Jónsson sölustjóri, Jón Jónsson búfræðingur og Oddur Oddson áður nefndur.

Heimild: Suðurland 1910, Þjóðþólfur 1917, Skeggi 1919

Flettingar í dag: 97
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 2887
Gestir í gær: 206
Samtals flettingar: 229370
Samtals gestir: 29867
Tölur uppfærðar: 14.10.2024 03:28:05