23.09.2010 22:34
Haust
þegar síðdegis skúrirnar liðu hjá og sólin tók að skína að nýju, myndaði hún þennan fallega regnboga eins og geislabaug yfir sjóminjasafninu. Þrátt fyrir glaða sól og þá einkum í gær hefur hitinn aðeins náð 11 gráðum, enda er nú komið haust samkvæmt almanakinu því í dag er haustjafndægur. Hér er hægt að fræðast nánar um árstíðirnar.
Utan við brimgarðinn geystist björgunar hraðbáturinn í átt til lands. Nú er stórstreymt á fullu haust tunglinu og dálítið tekið að brima að nýju eftir nokkurt hlé, einkum vestan til. Búast má við að brimið vari fram yfir helgi.
23.09.2010 00:45
Sendu flöskupóst og báðu um olíu
Einhverju sinni löngu fyrir tíma ritsímans bar svo við að olíulaust var í Vestmannaeyjum, en í þá tíð var steinolía notuð til lýsingar. Var þá brugðið á það ráð að senda flöskupóst til Sigurðar bónda á Skúmstöðum á Eyrarbakka og biðja hann um að útvega Bryde versluninni í Eyjum þessar nauðþurftir. Þetta fór þannig fram að bréfið var sett í flösku og alinn að munntópaki með handa þeim sem fyndi flöskuna. Flöskuskeytinu var svo kastað í sjó í austan stormi og með réttu falli. Þannig var oft komið boðum milli lands og Eyja og gekk það furðu fljótt. Það er skemmst frá því að segja að að bréfið komst til skila og Eyjamenn fengu olíuna.
Heimild: Frjáls Verslun 12.tbl 1940
19.09.2010 01:46
Einn liður í Concorde ævintýrinu gerðist á Eyrarbakka.
Í júní árið 1967 var hafist handa við að reisa Dectravita á Eyrarbakka með mestu leynd og um tveggja ára skeið var þetta eitt best varðveitta leyndarmál Póst og fjarskiptastofnunar. Í þá tíð þótti ekki æskilegt að veita of miklar upplýsingar vegna þeirra tækni nýjunga sem í þessu kerfi fólust. Dectravitinn á Eyrarbakka var annað tveggja staðarákvörðunarkerfa sem Decca Navigator Company LW í Bretlandi kom upp, en það fyrirtæki rak fjölda Decca staðsetningarkerfa víðsvegar um heiminn, en þau voru þó ekki nærri eins fullkomin og Dectrakerfið sem sérstaklega var hannað fyrir breska flugherinn en einnig fyrir Concorde þoturnar sem gátu flogið í 40-80 þúsund fetum, en fram að því gátu þotur aðeins flogið upp í 35 þúsund fet. Dectravitinn saman stóð af tveim möstrum ca 80 metra háum og einu stöðvarhúsi sem stóðu á flötunum fyrir austan Borg. Höfðu tveir menn á Eyrarbakka eftirlit með þessu merkilega hernaðarleyndarmáli. Einhverju sinni þurfti að mála möstrin og voru þá fengnir til þess Indíánar, en þeir þóttu alveg lausir við lofthræðslu. Möstrin voru síðan felld einhverntíman á 7.áratugnum þegar betri staðsetningatækni (GPS) var komin til sögunar. Verst er þó að eiga ekki mynd af þessu fyrirbæri en hér til hliðar er mynd af litlu (18m) Dectramastri í Bretlandi.
15.09.2010 23:52
Horft til himinns
Á stjörnubjörtum himni eins og nú þarf maður ekki lengi að góna upp í himininn til þess að verða var við gervihnetti sem þeysa um himinhvolfið eins og fljúgandi furðuhlutir eða geimskip frá öðrum hnöttum. Gervihnettir á braut um jörðina skipta hundruðum og hafa mismunandi hlutverki að gegna. Sum fylgja jarðarhraða og eru því ávalt á sama stað, en önnur þeysast eftir sporbaug sínum rangsælis eða réttsælis í hring um jörðina. Sum eru hönnuð til veðurathuguna og eru þá kölluð veðurtungl. Eitt slíkt er t.d. veðurtunglið EUMETSAT.
Fyrsta gervitunglið sem komst á sporbaug var hinn Sovéski "Spúttnik" sem Rússar skutu á loft 4.oktober 1957. Fyrir tíma veðurtunglanna var notast við veðurskip til að vara við vondu veðri. Á norður Atlantshafi voru starfrækt þrjú veðurskip og eitt þekktast þeirra var norska veðurskipið Mike (Metró í íslenskum veðurfregnum) sem gert var út milli Íslands og Noregs frá árinu 1948 og allt til dagsins í dag. Veðurskipin voru ekki síður mikilvæg til leitar og björgunarstarfa á hafi úti en til veðurathuguna og flugleiðsagnar auk ýmissa rannsóknarstarfa á hafinu. Gervitunglin hafa nú tekið við þessu hlutverki að stæstum hluta og veita jafnvel mikilvæga aðstoð við björgunarstörf á hafinu.
Stjörnuhröp er ekki óalgengt að sjá á heiðskýrum næturhimni og falla margir loftsteinar í hafið eða í óbyggðum og valda því engum skaða, en flestir brenna þó upp til agna áður en þeir ná yfirborði jarðar. Loftsteinar voru þó mikil verðmæti fyrir eskimóa í upphafi landnáms þeirra á Grænlandi. Grænlandsjökull er stór og hefur tekið við mörgum slíkum steinum í gegnum árþúsundin og borið þá með skriðjöklum sínum til strandar, en eskimóarnir klufu þessa steina og notuðu þá í hnífsblöð allar götur þar til vestrænir menn hófu að versla við þá skinn og seldu þeim stálhnífa í staðinn.
14.09.2010 23:20
Hávarok
Norðan hvassviðri gekk yfir land og þjóð síðdegis í dag og náði meðalvindur hér 20 m/s, en það teljast 8 gömul vindstig. Hvassara var í sumum hviðum eða allt að 28 m/s (11 vindstig) sem táknar ofsaveður, enda ruddust laufin af tránum í mestu rokunum. Þetta fyrsta illviðri haustsins er nú að mestu gengið yfir. Nú má fara að vænta kaldra nátta og jafnvel næturfrosta til fjalla, enda er krummi kominn til að hafa hér vetursetu og svo aldrei að vita nema að fyrstu frostin á láglendi verði um eða eftir næstu helgi.
11.09.2010 23:29
Björgunarbátur vígður
Björgunarbáturinn Atlantic75 sem björgunarsveitin Björg keypti nýlega að utan var vígður í dag með viðhöfn á Vesturbúðarhól og hlaut báturinn nafnið "Gaui Páls" eftir Guðjóni Pálssyni er lengi var formaður sveitarinnar. En það voru þeir heiðursmenn Jóhann Jóhannsson og Hlöðver Þorsteinsson sem afhjúpuðu nafn bátsins. Núverandi formaður sveitarinnar Guðjón Guðmundsson hélt tölu, en síðan blessaði sr. Sveinn Valgeirsson bátinn. Að lokinni athöfn var boðið upp á veitingar í Skýlinu. Björgunarsveitin Björg var stofnuð 21.desember 1928 en áður hafði Bergsteinn Sveinsson í Brennu verið skipaður umboðsmaður SVFÍ á Eyrarbakka.
11.09.2010 23:12
Réttað í rjómablíðu
Það var réttað í Tungunum í dag og fjölmenntu bæði fé og fólk, en það eru ekki bara bændur og heimafólk sem sækir réttirnar, heldur ekki síður ferðamenn víða að. Eins og sjá má kemur fé vænt af fjalli eftir sumarbeitina. En það var líka sumar og sól í réttunum og 15 stiga hiti, sem varð til þess að menn urðu að láta af þeim þjóðlega sið að mæta í réttir í íslenskum lopapeysum.
08.09.2010 23:01
Óvenjuleg hlýindi
Það hefur verið óvenju hlýtt á landinu síðustu daga miðað við árstíma. Í dag komst hitinn hér í 15.4°C sem ætti að þykja ansi gott í september, en fyrir nákvæmlega ári fór hitinn í 16°C og stendur það dagsmet. Í dag var stórstreymi með nýju tungli, en ekkert brim var á Bakkanum í dag. Fullt tungl verður næst 23.september og nýtt tungl 7.oktober.
07.09.2010 23:46
Á þjóðvegi hafsins
Nú mun Eyjaskipið Herjólfur III sigla aftur hér framhjá til og frá Þorlákshöfn um einhverja hríð, þar sem hin nýja Landeyjahöfn er alsendis ófær vegna sandburðar. Eitt sinn var vel hægt að stilla klukkuna eftir ferðum Herjólfs milli lands og Eyja, en nú er ekki einu sinni hægt að stilla dagatalið eftir ferðum þessa frækna skips, þar sem það hefur hvorki komist lönd né strönd.
Herjólfur I. fyrsta ferja eyjamanna kom til landsins 12 desember1959. Skipið var smíðað í Martenshock í Hollandi, og var um 500 tonn brúttó og ganghraði 12-13 sjómílur. Það átti að geta tekið allt að 40 farþegum í rúm, og þessvegna var lögð alveg sérstök áhersla á að skipið færi einkum að næturþeli milli Reykjavíkur og Eyja. Herjólfur er nefndur eftir Herjólfi Bárðarssyni landnámsmanni í Vestmannaeyjum.
Hér má svo sjá Herjólf II eins og hann lítur út nú.
04.09.2010 16:58
Öskudagar
Töluvert öskurok hefur gengið hér yfir öðru hvoru síðan í gær, en stíf austanáttin ber þennan ófögnuð yfir suðvesturlandið. Ekkert hefur sést til fjalla vegna ryksins, sem sest svo á bíla og annað sem fyrir verður með rigningaskúrm. Við höfum verið laus við þetta að mestu í sumar, en búast má við að þetta vandamál vari fram að fyrstu snjóum.
Það hefur brimað á Bakkanum síðustu daga og verður svo fram yfir hegina a.m.k.
01.09.2010 22:06
Veðrið í ágúst
Hlýjustu dagarnir í ágúst voru þann 4.og 8. en þessa daga komst hitinn mest i 19,9°C, Þann 10 komst hitinn í 20°C. þann 18 í 19,8°C og þann 19. í 20,5°C.
Mesti vindur var af NNV 10,9 m/s eða 6 gömul vindstig þann 22. ágúst en annars var mánuðurinn hlýr og hægviðrasamur. Úrkoma í mánuðinum mældist 97.5 mm
Brimstöðin
30.08.2010 10:40
Bakkabrims að vænta
Nú er spáð bakkabrimi á fimmtudag og er gert ráð fyrir allt að 3 m háum öldum og að aflið verði mest um hádegi á fimmtudaginn, en þá munu öldurnar stefna beint að landi. Það er stormurinn"Danielle" sem mun valda þessum öldugangi, en hann er nú 1. stigs fellibylur norðan 51°W. Þá er gert ráð fyrir stífri suðaustanátt, en að öðru leiti kemur stormurinn lítt við sögu hjá okkur, nema hvað þessu fylgja töluverð hlýindi, eða 17-18°C.
29.08.2010 23:48
Uppskeran með besta móti
Kartöflu uppskeran er með besta móti í ár, enda hefur tíðarfarið verið með ágætum í sumar til hverskonar ræktunar og ekki er ósennilegt að aska frá Eyjafjallajökkli hafi auk þess bætt jarðveginn hér sunnanlands. Þó ekki sé lengur stunduð jafn stórtæk kartöflurækt og áður fyrr, þá eru enn ræktaðar kartöflur víða í görðum hér á Bakkanum og þykir mikil búbót af því. Saga kartöflunar á Eyrarbakka er líklega orðin 166 ára gömul, en það var Hafliði Guðmundsson, einn Kambránsmanna sem sat af sér dóm á Brimarhólmi og kom hann að utan með kartöflur í farteskinu árið 1844 og hóf að rækta þær í garði sínum á Eyrarbakka eftir heimkomuna. Nefdist sá garður "Hafliðagarður" Sagt er að refsifangar á Brimarhólmi hafi ekki fengið annað að éta en kartöflur, en þær þykja nú sjálfsagðar í hvert mál. Það var svo í kreppu millistríðsáranna sem stórtæk karöfluræktun hófst á Eyrarbakka og ekki síst fyrir tilstuðlan Bjarna Eggertssonar búfræðings.
Best er að geyma kartöflur á þurrum og dimmum stað, því þær þola illa dagsbirtu eða sterkt rafljós. Kartöflur þurfa góða öndun, þannig að forðast ætti að geima kartöflur í plasti eða lokuðum ílátum. kartöflur þola ekki að frjósa, en ekki er heldur gott að hafa þær í miklum hita, því þá er þeim hætt við að ofþorna. Hiti á bilinu 5-10° er ágætur geimsluhiti.
27.08.2010 15:27
Brim í næstu viku
Búast má við allnokru brimi í næstu viku. Það byrjar að brima á þriðjudag og verður svo vaxandi fram í vikuna, einkum miðvikudag og fimmtudag. Þá er gert ráð fyrir djúpri lægð suður af Hvarfi sem kemur til með að valda fyrsta haustbriminu. Gera má ráð fyrir 2.5m öldum við brimgarðinn síðdegis á miðvikudag.
Í morgun var ládauður sjór og "sjóreykur". Sjóreykur myndast þegar köld Ölfusáin blandast hlýjum sjónum út og austur með Ölfusárósum. Svalt var í morgunsárið og frost mældist á Þingvöllum.
26.08.2010 10:37
Lá við næturfrosti
Næturhitinn hefur farið ört lækkandi síðustu daga og í nótt lá við næturfrosti þegar hitastigið fór niður í 0.8°C og er það líkast til kaldasta nóttinn hér í sumar. Á Þingvöllum fór hitinn niður í frostmark í nótt og sennilegt að kartöflugrös hafi fallið víða Þingvallasveit. Hádegishitinn hefur einnig verið í lægri kantinum síðustu daga 12-13°C. Næstu daga er spáð hlýrra lofti með skúrum þannig að ekki eru miklar líkur á næturfrosti á láglendi það sem af er mánuðinum.