11.09.2010 23:12

Réttað í rjómablíðu

Túngnaréttir
Það var réttað í Tungunum í dag og fjölmenntu bæði fé og fólk, en það eru ekki bara bændur og heimafólk sem sækir réttirnar, heldur ekki síður ferðamenn víða að. Eins og sjá má kemur fé vænt af fjalli eftir sumarbeitina. En það var líka sumar og sól í réttunum og 15 stiga hiti, sem varð til þess að menn urðu að láta af þeim þjóðlega sið að mæta í réttir í íslenskum lopapeysum.

08.09.2010 23:01

Óvenjuleg hlýindi

Það hefur verið óvenju hlýtt á landinu síðustu daga miðað við árstíma. Í dag komst hitinn hér í 15.4°C  sem ætti að þykja ansi gott í september, en fyrir nákvæmlega ári fór hitinn í 16°C og stendur það dagsmet. Í dag var stórstreymi með nýju tungli, en ekkert brim var á Bakkanum í dag. Fullt tungl verður næst 23.september og nýtt tungl 7.oktober.

07.09.2010 23:46

Á þjóðvegi hafsins


Herjólfur 3
Nú mun Eyjaskipið Herjólfur III sigla aftur hér framhjá til og frá Þorlákshöfn um einhverja hríð, þar sem hin nýja Landeyjahöfn er alsendis ófær vegna sandburðar. Eitt sinn var vel hægt að stilla klukkuna eftir ferðum Herjólfs milli lands og Eyja, en nú er ekki einu sinni hægt að stilla dagatalið eftir ferðum þessa frækna skips, þar sem það hefur hvorki komist lönd né strönd.


Herjólfur 1Herjólfur I. fyrsta ferja eyjamanna kom til landsins 12 desember1959. Skipið var smíðað í Martenshock í Hollandi, og var um 500 tonn brúttó og ganghraði 12-13 sjómílur. Það átti að geta tekið allt að 40 farþegum í rúm, og þessvegna var lögð alveg sérstök áhersla  á að skipið færi einkum að næturþeli milli Reykjavíkur og Eyja. Herjólfur er nefndur eftir Herjólfi Bárðarssyni landnámsmanni í Vestmannaeyjum.
Hér má svo sjá Herjólf II eins og hann lítur út nú.

04.09.2010 16:58

Öskudagar

Töluvert öskurok hefur gengið hér yfir öðru hvoru síðan í gær, en stíf austanáttin ber þennan ófögnuð yfir suðvesturlandið. Ekkert hefur sést til fjalla vegna ryksins, sem sest svo á bíla og annað sem fyrir verður með rigningaskúrm. Við höfum verið laus við þetta að mestu í sumar, en búast má við að þetta vandamál vari fram að fyrstu snjóum.
Það hefur brimað á Bakkanum síðustu daga og verður svo fram yfir hegina a.m.k.

01.09.2010 22:06

Veðrið í ágúst

Netjuský-altocumulus undulatus
Hlýjustu dagarnir í ágúst voru þann 4.og 8. en þessa daga komst hitinn mest i 19,9°C, Þann 10 komst hitinn í 20°C. þann 18 í 19,8°C og þann 19. í 20,5°C.


Mesti vindur var af NNV 10,9 m/s eða 6 gömul vindstig þann 22. ágúst en annars var mánuðurinn hlýr og hægviðrasamur. Úrkoma í mánuðinum mældist 97.5 mm
Hiti í ágústLoftþrýstingur vindur Uppsöfnuð úrkomaBrimstöðin

30.08.2010 10:40

Bakkabrims að vænta


Nú er spáð bakkabrimi á fimmtudag og er gert ráð fyrir allt að 3 m háum öldum og að aflið verði mest um hádegi á fimmtudaginn, en þá munu öldurnar stefna beint að landi. Það er stormurinn"Danielle" sem mun valda þessum öldugangi, en hann er nú 1. stigs fellibylur norðan 51°W. Þá er gert ráð fyrir stífri suðaustanátt, en að öðru leiti kemur stormurinn lítt við sögu hjá okkur, nema hvað þessu fylgja töluverð hlýindi, eða 17-18°C.

29.08.2010 23:48

Uppskeran með besta móti

Ingibjörg Jónsdóttir kaupmannsfú með nýuppteknar kartöflurKartöflu uppskeran er með besta móti í ár, enda hefur tíðarfarið verið með ágætum í sumar til hverskonar ræktunar og ekki er ósennilegt að aska frá Eyjafjallajökkli hafi auk þess bætt jarðveginn hér sunnanlands. Þó ekki sé lengur stunduð jafn stórtæk kartöflurækt og áður fyrr, þá eru enn ræktaðar kartöflur víða í görðum hér á Bakkanum og þykir mikil búbót af því. Saga kartöflunar á Eyrarbakka er líklega orðin 166 ára gömul, en það var Hafliði Guðmundsson, einn Kambránsmanna sem sat af sér dóm á Brimarhólmi og kom hann að utan með kartöflur í farteskinu árið 1844 og hóf að rækta þær í garði sínum á Eyrarbakka eftir heimkomuna. Nefdist sá garður "Hafliðagarður" Sagt er að refsifangar á Brimarhólmi hafi ekki fengið annað að éta en kartöflur, en þær þykja nú sjálfsagðar í hvert mál. Það var svo í kreppu millistríðsáranna sem stórtæk karöfluræktun hófst á Eyrarbakka og ekki síst fyrir tilstuðlan Bjarna Eggertssonar búfræðings.

Best er að geyma kartöflur á þurrum og dimmum stað, því þær þola illa dagsbirtu eða sterkt rafljós. Kartöflur þurfa góða öndun, þannig að forðast ætti að geima kartöflur í plasti eða lokuðum ílátum. kartöflur þola ekki að frjósa, en ekki er heldur gott að hafa þær í miklum hita, því þá er þeim hætt við að ofþorna. Hiti á bilinu 5-10° er ágætur geimsluhiti.

27.08.2010 15:27

Brim í næstu viku

SurfforecastBúast má við allnokru brimi í næstu viku. Það byrjar að brima á þriðjudag og verður svo vaxandi fram í vikuna, einkum miðvikudag og fimmtudag. Þá er gert ráð fyrir djúpri lægð suður af Hvarfi sem kemur til með að valda fyrsta haustbriminu. Gera má ráð fyrir 2.5m öldum við brimgarðinn síðdegis á miðvikudag.
Í morgun var ládauður sjór og "sjóreykur". Sjóreykur myndast þegar köld Ölfusáin blandast hlýjum sjónum út og austur með Ölfusárósum. Svalt var í morgunsárið og frost mældist á Þingvöllum.

26.08.2010 10:37

Lá við næturfrosti

Næturhitinn hefur farið ört lækkandi síðustu daga og í nótt lá við næturfrosti þegar hitastigið fór niður í 0.8°C og er það líkast til kaldasta nóttinn hér í sumar. Á Þingvöllum fór hitinn niður í frostmark í nótt og sennilegt að kartöflugrös hafi fallið víða  Þingvallasveit. Hádegishitinn hefur einnig verið í lægri kantinum síðustu daga 12-13°C. Næstu daga er spáð hlýrra lofti með skúrum þannig að ekki eru miklar líkur á næturfrosti á láglendi það sem af er mánuðinum.

23.08.2010 15:44

Verður "Danille" fyrsta haustlægðin?

http://midatlanticwx.com/hw3/hw3.php?config=tropimap&forecast=tropsystems&year=2010&region=NT&hwvstormid=6&alt=tropsystempage&hwvmetric=
Vel er mögulegt að hitabeltisstormurinn "Danielle"  sem er nú nýskapaður á sunnanverðu N-Atlantshafi verði að fyrstu haustlægðinni eftir einhverja daga, þegar og ef stormurinn heldur norður á bóginn.

Hér verður hægt að fylgjast með ferðum stormsins um tíma.

22.08.2010 16:10

Alda hafsins

Hvítfext og rjúkandi brimaldan á BakkanumSjómenn og þeir sem búa við sjóinn þekkja vel ölduna. Vegalengd frá þeim stað sem alda verður til og þar til hún skellur á ströndinni, getur skipt þúsundum kílómetra þar sem strönd liggur að úthafi, eins og suðurströnd Íslands. Öldur sem verða til fyrir tilstyrk vindsins sem þrýstir á yfirborð sjávar, nefnast vindöldur. Flóðöldur eða "Tsunami" verða af völdum jarðskjálfta eða eldsumbrota neðansjávar. Slíkar öldur geta náð ótrúlegum hraða (700-800 km/klst) og ferðast þúsundir kílómetra. Hæð þeirra er aðeins nokkur fet, en þegar kemur að landi rísa þær allt upp í 9 metra hæð. Aðrar öldur verða til vegna skriðufalla eða jökulhlaupa í sjó fram sem mynda gríðar þrýsting á yfirborð vatns eða sjávar.

Vindaldan hækkar að vissu marki í samræmi við veðurhæðina sem myndaði hana, en hún brotnar og faldar hvítu þegar hún hefur náð  1/7 af lengd sinni. Þegar aldan kemst inn á grynningar, rís hún þar til að hún brotnar með brimi og brambolti eins og vel þekkt er t.d. á Eyrarbakka.  Þegar veður lægir eftir storm, getur öldugangur vaxið og myndað undiröldu og eru sjómenn ævinlega í nöp við hana. Öldudufl eru viða með ströndum landsins og mæla tíðni milli öldufalda í sekúntum og hæð í metrum. Meðalhæð öldu í fárviðri er um 20-22 metrar. Það er stundum sagt að sjönda hver alda sé hærri en næstu sex á undan hvað svo sem til er í því, þá geta öldur verið misháar þó þær komi að landi hver á eftir annari. Hraði vindöldunnar getur verið mismunandi  og ræður vindhraði þar mestu en undiraldan þokast áfram á um það bil15 mílna hraða. Sjaldgæft er að vindöldur nái 30 metra hæð úti á rúmsjó, en 6. febrúar árið 1933 var mæld 33 m há alda á bandaríska herskipinu "Ramapo" sem statt var á kyrrahafi í illviðri þar sem vindhraðinn mældist 68 hnútar.

Líklega er ekki auðhlaupið að þvi að mæla afl brimöldunnar í brimgarðinum á Eyrarbakka, en ekki er ólíklegt að aflið geti verið 6000 kg á fersentimetir eins og við svipaðar aðstæður erlendis. Tignarlegust er brimaldan þegar hún æðir hvítfext og rjúkandi á móti hvössum vindinum. Yfir vetrartíman getur brimið varað dögum saman í öllum sínum myndugleik, en á sumrin er brim fátíðara, enda veður stilltara á hafinu umhverfis landið.


Siglingastofnun sér um rekstur öldudufla við Íslandsstrendur og gerð ölduspáa sem hægt er að nálgast á vefnum http://vs.sigling.is/ . Hér má einnig nálgast ölduspá  frá surf-forecast.com
Heimild m.a.:Bók Peters Freuchens of the seven seas.

22.08.2010 12:59

Norðvestan Kaldi

Það hefur verið haustlegt í lofti síðasta sólarhringinn með NV kalda, eða 5 gömul vindstig og öðru hvoru hefur rokið upp í stinningskalda. Eins stafs hitatölur sjást nú um allt land um miðjan daginn og sumarið virðist vera að renna sitt skeið. Það var kaldranalegt fyrir norðan í dag eins og sjá má hér.
Árið 1805 útbjó Francis Beaufort  vindgreinitöflu um veðurhæð á sjó. Hann var þá kortagerðamaður breska flotans. Vindstiga taflan var fljótlega tekinn í notkun um allann heim:

Beufort skali

Vindlýsing

Hraði m/s

Vindstig

Logn

 0,2

0

Andvari

 0,3  -  1,5

1

Kul

 1,6  -  3,3

2

Gola

 3,4  -  5,4

3

Stinningsgola

 5,5  -  7,9

4

Kaldi

 8,0  - 10,7

5

Stinningskaldi

10,8 - 13,8

6

Allhvasst

13,9 - 17,1

7

Hvassviðri

17,2 - 20,7

8

Stormur

20,8 - 24,4

9

Rok

24,5 - 28,4

10

Ofsaveður

28,5 - 32,6

11

Fárviðri

32,7 - 36,9

12

19.08.2010 23:47

Hitamet falla

Sigurður Andersen var lengi veðurathugunarmaður á BakkanumDagsmet í hitastigi hefur fallið þrjá daga í röð á Eyrarbakka. Á þriðjudag féll metið frá 2000 þegar hitinn komst í 18,6°C VÍ (18,8 brimstöð). Í gær miðvikudag féll metið frá 2005 þegar hitastigið komst í 18,8°C VÍ (18,9 brimstöð) og í dag féll metið frá 1988 þegar hitastigið komst í 20,7°C VÍ (20,5 brimstöð). Það er því sannkölluð hitabylgja á Bakkanum þessa daganna.

19.08.2010 11:01

Kirkjuviðgerð þokast



Stundaklukkan frá 1918 fyrir ofan höfuðið á Ingólfi kirkjusmiðKirkjusmiðirnir á Bakkanum eru þessa dagana að leggja lokahönd á viðgerðir á kirkjuturninum, sem er mikil listasmíð. Á innfeldu myndinni má sjá glitta í Stundaklukku sem var sett upp í turni kirkjunnar árið 1918 og slær á heilum og hálfum tíma.  Jakob A. Lefolii, kaupmaður gaf hana. Árið 1977 til 1979 var kirkjan endurbætt að stórum hluta.

Meira um Eyrarbakkakirkju.
http://brim.123.is/blog/record/419244/
http://brim.123.is/blog/record/306544/
http://brim.123.is/blog/record/298889/

Flettingar í dag: 78
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 444
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 378473
Samtals gestir: 42916
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 08:30:26