06.07.2011 23:32

Hreppstjórarnir sögðu allir af sér.

Verslunarhúsin á EyrarbakkaSvo bar við á manntalsþinginu 1768 að allir fimm hreppstjórar hreppsins (Eyrarbakka og Stokkseyrar er þá hét Stokkseyrarhreppur) sögðu af sér embætti. Liðinn vetur  hafði verið mörgum erfiður og fátækt var landlæg í hreppnum. Um helmingur íbúa lifði naumlega á styrkjum og gjöfum en hinn helmingurinn skrimti upp á krít hjá versluninni þennan hallæris vetur. Hreppstjórarnir höfðu þá farið fram á það við Jens Lassen kaupmann á Eyrarbakka (Fyrsti vetursetukaupmaðurinn) að verslunin lánaði fátækum matvörur fram til vors. Sýslumaður í Árnessýslu var þá Brynjólfur Sigurðsson og góður kunningi Lassens. Brást hann illa við og ávítaði ítrekað hreppstjórnina fyrir heimtufrekju og sakaði þá um óhlýðni við yfirvöld og kóng. Meðal þeirra hreppstjóra sem sögðu af sér embætti voru þeir Jón Ketilsson í Nesi (hrstj. 1761-1768), en hann var endurkjörinn 1773. Jón Jónsson á Háeyri (hrstj. 1761-1768), Þóður Gunnarsson á Hrauni (hrstj. 1763-1768). Bjarni Magnússon hafnsögumaður frá Litlu-Háeyri var hreppstjóri þetta ár.

Fram til 21. júlí 1808 voru jafnan fimm hreppstjórar í hreppnum og voru þeir kosnir af bændum, en nú var þeim fækkað í tvo með konungsúrskurði og sjálfstæði hreppsins afnumið. Hreppurinn lagður undir umboðsstjórn konungs og kosningar afnumdar. Hreppstjórarnir voru þá skipaðir af Amtmanni eftir tillögu sýslumanns. Fyrstu hreppstjórarnir í Stokkseyrarhreppi hinum forna til að sverja þannig konungi hollustu voru þeir Jón Einarsson á Baugsstöðum og Jón Þórðarsson í Móhúsum.

Heimild m.a. Saga Stokkseyrar.

Flettingar í dag: 326
Gestir í dag: 33
Flettingar í gær: 2887
Gestir í gær: 206
Samtals flettingar: 229599
Samtals gestir: 29878
Tölur uppfærðar: 14.10.2024 04:31:26