20.01.2015 01:29
Bergsteinn kraftaskáld
Bergsteinn blindi Þorvaldsson var kallaður kraftaskáld, og heldur en ekki
þótti honum góður sopinn. Eitt sinn var það, að hann kom í búðina á Eyrarbakka
og bað kaupmanninn að gefa sér í staupinu. Kaupmaður tók því fjarri, því að
hann væri alveg brennivínslaus. Kvað hann andskotann mega eiga þann dropann, sem
hann ætti eftir af brennivíni. Ekki lagði Bergsteinn mikinn trúnað á það og
kvað vísu þessa við búðarborðið:
Eg krefst þess af þér,
sem kaupmaðurinn gaf þér,
þinn kölski og
fjandi
í ámuna farðu
óstjórnandi
og af henni
sviptu hverju bandi.
Brá þá svo við, að braka tók heldur óþyrmilega í brennivínstunnu kaupmanns, svo að við var búið að bresta mundu af henni öll bönd. Þorði kaupmaður þá ekki annað en gefa Bergsteini neðan í því og varð feginn að sleppa, áður en verra yrði úr.
Sagt er, að þau yrðu æfilok flökkuskáldsins Bergsteins blinda, að hann kvæði
sig sjálfur drukkinn í hel eftir boði annarra, og hafi hann þá verið æfa
gamall. En með vissu vita menn það um endalykt Bergsteins, að hann dó á Eyrarbakka
út úr drykkjuskap 17. júlí 1635, og þótti þá svo ískyggilegt um dauða hans, að hann
fékk ekki kirkjuleg, heldur var hann grafinn utan kirkjugarðs á Stokkseyri.
Getur Gísli biskup Oddsson þess í bréfabók sinni, að ekkja Bergsteins hafi "klagað
sárlega" fyrir sér, að maður sinn lægi utan garðs, og hafi "séra Oddur Stephánsson
helst gengist fyrir því, að hann skyldi ekki innan kirkjugarðs grafinn
vera".
(Eftir Jóni Þorkelssyni)
02.12.2014 20:15
Óveðrið 2014 og 1991
Mikið hvassviðri gekk yfir landið sunnan og vestanvert á sunnudagskvöldið,
30 nóvember sl. þegar djúp lægð fór norður með vesturströndinni. Á Eyrarbakka
fuku Þakplötur af húsum við sjávarkambinn, (Merkigil og Hlið), grindverk létu
undan sumstaðar. Á Stokkseyri féll jólatréð um koll þegar stag gaf sig.
Björgunarsveitin vann að forvörnum áður en veðrið brast á og sinnti útköllum á
meðan óveðrið var í sínum versta ham. Það gekk á með SA stormi um hádegi, en
dró fljótt úr þar til um kvöldmatarleytið að gerði SV hvell, en þá fór vindur
mest upp í 28 m/s og allt upp í 39 m/s í hviðum. Það tók svo að draga úr
veðrinu um miðnætti.
Þetta veður er talið eitt versta sem komið hefur síðan í sunnudagsveðrinu
3. febrúar 1991, en þá gekk fárviðri yfir landið með meiri veðurhæð en áður
hafði mælst hér á landi. Á Stórhöfða mældist þá 110 hnútar eða sem svarar 57
m/s, en slíkur vindhraði hafði ekki mælst þar síðan 1968. Í því veðri fauk
langbylgjumastur Ríkisútvarpsins á vatnsenda um koll. Á Eyrarbakka varð
talsvert tjón vegna foks, Þar fauk þak af gamalli hlöðu og hesthús í miðju
þorpinu eyðilagðist. Veðurhamurinn náði hámarki milli flóða þannig að aldrei
var nein hætta af sjávarflóðum. Ruslagámur tókst á loft en olli engum i skemmdum,
járnplötur losnuðu af húsum og ollu skemmdum. Viðbúnaður manna var annars
mikill og forðaði það miklu tjóni á húseignum. Á Stokkseyri fuku hesthús og
fjárhús. í Þorlákshöfn fauk þak af byggingu Meitilsins skemmum þar hjá og hluti
af þaki íbúðarhúss. Í Hveragerði varð gífurlegt tjón á gróðurhúsum. Turninn af
tívolíinu fauk að hluta. Stór hluti af þakinu á veitingasalnum Eden fauk. Á Selfossi
fuku járnplötur af húsum og rúður brotnuðu, og svona var það víðast hvar um
Suðvesturland.
25.11.2014 20:52
Sú var tíðin, 1943
Eyrbekkingar
blása til stórsóknar í atvinnusköpun!
Endurreisn útgerðar og sjósóknar standa fyrir dyrum. Eyrbekkingar stofna
hlutafélag til kaupa á vélbátum. Eyrarbakkahreppur og almennir þorpsbúar taka
höndum saman um hlutafjársöfnun og á haustmánuðum hafði þegar safnast 75 þús.
kr. í hlutafé. Markmiðið var að kaupa báta 15-26 tonn að stærð um leið og fært
þætti að styrjöldinni lokinni, og huga að sem bestri nýtingu sjávarafurða og
störfum sem við það kunna að skapast. Að undirbúningi þessa máls stóðu Magnús
Magnússon í Laufási, Vigfús Jónsson, Guðmundur Jónatan Guðmundsson, Jón
Guðjónsson og Jón Helgason. [Félagið sem
hér um ræðir var Óðinn h/f, en við það er "Óðinshús" kennt]
Verkalýðsbarátta: Báran á Eyrarbakka mótmælir ríkisstjórninni með svo hljóðandi tillögu: "Fundurinn mótmælir harðlega frumvarpi ríkisstjórnarinnar um dýrtíðarráðstafanir, þar sem í því felst stórfeld skerðing [20%] á kaupi launþega í landinu og skorar á alþingi að fella það." Samskonar mótmæli bárust frá V.l.f. Bjarma á Stokkseyri og "Snót" í Eyjum.
Flokkur verkamanna frá Eyrarbakka og Stokkseyri voru kallaðir til starfa í
Reykjavík við lagningu hitaveitunar þar.
Hjónaefni:
Trúlofun Ingibjörgu Jónsdóttur frá Hofi og Hjalta Þórðarsonar frá Reykjum á
Skeiðum. [Ingibjörg var dóttir Jóns b
Stefánssonar verslunarmanns í Merkigarði].
Eyrbekkingurinn Sigurður Ólafsson frá
Þorvaldseyri Eb, gekk að eiga Málfríði Matthíasdóttir frá Patreksfirði. Ólafur
Ólafsson frá Þorvaldseyri Eb, lögregluþjónn í Rvík og síðar húsasmíðameistari
giftist Guðbjörgu M Þórarinsdóttur [fyrri
kona].
Margrét Guðjónsdóttir frá Litlu-Háeyri og Ragnar Jónsson frá Árnanesi, Hornafirði
gengu í hjónaband. [Foreldrar Margrétar voru Guðjón Jónsson formaður á Litlu-Háeyri og
Jóhanna Jónsdóttir frá Minna-Núpi.]
Eggert Ólafsson frá Þorvaldseyri trúlofaðist Helgu Ólafsdóttur úr
Vestmannaeyjum.
Anna Sigríður Lúðvíksdóttir, læknis Norðdahl gafst Ólafi Tryggvasyni lækni.
Þau settust að á Breiðabólstað á Síðu.
Ólafur Magnússon [símaverkstjóri] trúlofaðist
Sigrúnu Runólfsdóttur frá Fáskrúðsfirði.
[ Magnúsar Árnasonar og
Sigurborgu Steingrímsdóttur]
Afmæli:
90 ára, Þórey Hinriksdóttir í Einkofa, en hún var ættuð frá Eyri í Kjós.
80 ára, Jón hómópati Ásgrímsson. Hann stundaði einkum smáskamtalækningar og
kartöflurækt á Eyrarbakka.
73. ára afmæli átti Jónína Guðmundsdóttir.
65 ára Þóra Jóhannsdóttir Jónssonar trésmiðs frá Eyrarbakka og Ingunnar
Einarsdóttur.
50 ára, Ólafur Bjarnason verkstjóri að Þorvaldseyri Eyrarbakka. [Ólafur var verkstjóri hjá Vegagerðinni.
Með konu sinni Jenny Jensdóttur átti hann 12 börn.] Guðjón Jónsson
vélstjóri og verkstjóri. [Hann starfaði
sem verkstjóri hjá síldarverksmiðju dr. Paul á Siglufirði.] Ásgeir
Guðmundsson prentari í Rvík. [ Guðmundar
Höskuldssonar bókbindara á Eb.]
Látnir: Eiríkur Árnason (88) b. frá Þórðarkoti. Guðrún
Guðmundsdóttir (84) frá Eyfakoti. Guðbjörg Pálsdóttir (74) Steinskoti. Sigurður
Erlendsson (73) frá Traðarhúsum Guðný J Jóhansdóttir (69) á Austurvelli. Kristín
Jónsdóttir (61) frá Merkigarði (Hofi). Sigurður Bjarni Ólafsson (18) frá
Þorvaldseyri. [Sonur Ólafs Bjarnasonar og
Jennyar Jensdóttur]
Fjarri heimahögum: Aðalsteinn Sigmundsson sem um áratug var
skólastjóri á Eyrarbakka og stofnandi U.M.F.E. féll útbyrðis af björgunarskipinu
"Sæbjörgu" í hauga sjó. Hann fékk hjartaslag, er hann reindi að bjarga sér á
sundi.
Sigurður Guðbrandsson frá Flóagafli. Hann féll milli skips og bryggju. Sigurður
var skipstjóri á "Skálafelli" frá Hafnafirði. Hann var sonur Guðbrands
Guðbrandssonar og Katrínar Einarsdóttur í Flóagafli, síðar Eyrarbakka.
Sigurjón Jónsson (54) skipstjóri, sonur Jóns Sigurðssonar í Túni og konu hans Guðrúnar Magnúsdóttur frá Sölkutóft. Sigurjón var síðast stýrimaður á varðskipinu "Ægi", en banamein hans var krabbamein.
Sandkorn:
Jónatan Jónsson 21. árs gamall Eyrbekkingur slapp með naumindum úr vélarúmi "Stíganda RE" þegar eldsprenging varð út frá steinolíugufu. Hann brendist illa á höndum og andliti.
Haraldur Guðmundsson á Háeyri stendur fyrir kolavinnslu í Tindafjalli á Skarðsströnd.
Vilborg Sæmundsdóttir tók við útsölu barnablaðsins
Æskunnar á Eyrarbakka og jók hún sölu blaðsins um 125% á fyrsta árinu.
Úrvals leikfimiflokki U.M.F.E. stjórnaði Sigríður Guðjónsdóttir.
Sigurður Guðmundsson í Breiðabliki taldi ráðlegast að hafa aðeins tvo
stjórnmálaflokka í landinu, einn til hægri og hinn til vinstri.
Uppfinningamaðurinn Hjörtur Thordarson og einn efnaðasti íslendingurinn vestanhafs
var giftur Júlíönnu Hinriksdóttur frá Eyrarbakka.
Tveir Eyrbekkingar á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum drukku af hinum eitraða
tréspíra sem vélbátur þar bar á land, en fjöldi manna í Eyjum lést af völdum
drykkjarins. Annar Eyrbekkingurinn veiktist, en hinn kenndi sér ekki meins.
Guðmundur Daníelsson ræðst til kennarastarfa við barnaskólann á Eyrarbakka.
Félagar úr U.M.F.E. hófu að æfa leikritið "Ævintýri á Gönguför".
Jónsmessuhátíðin nr.3 var haldin 26. og 27. júní 1943 fyrir forgöngu
Eyrbekkingafélagsins.
Vélbátaferðir milli Vestmannaeyja, Stokkseyrar og Eyrarbakka voru farnar
þetta sumar.
Þorpsbúar voru um 580 manns 1943.
Finnur Jónsson listmálari leitaðist við að fanga fegurðina á Eyrarbakka.
Pétur Gíslason veðurathugunarmaður á Eyrarbakka hóf sendingar veðurskeyta
tvisvar á dag.
[ Áður voru veðurskýrslur
sendar nánaðarlega.]
Pétur Pétursson þulur í útvarpinu var fæddur á Eyrarbakka, Péturs
Guðmundssonar barnakennara og Elísabetar Jónssdóttur, en hún fluttist til
Reykjavíkur með sín 11 börn eftir fráfall hans.
Úr grendinni:
Tveir Sunnlendingar létust úr fossforeitrun, Verslunarmaður hjá KÁ á Selfossi [Þorsteinn Guðmundsson] og ung stúlka [Lilja Sveinsdóttir] frá Ósabakka á Skeiðum. Talið var fullvíst að eitrunin stafaði af tilteknu rottueitri í túbum sem seldar voru í verslunum sunnanlands m.a. á Eyrarbakka og Selfossi. [Lúðvík Norðdahl héraðslæknir taldi að hver 90 gr. nægði til að drepa 50 manns. Hver túpa innihélt 37gr. af fossfór]
Hressingarhæli fyrir drykkjumenn var formlega tekið í notkun á Kumbaravogi við Stokkseyri.Frá Stokkseyri gengu 6 þilfarsbátar 1942 og 1943, gerðu út á reknet og öfluðu allmikla síld. Áhugamenn um gistihús á Stokkseyri [Pétur Daníelsson, Páll Guðjónsson og Jón Magnússon.] stofna þar til reksturs hótels í nýreistu 8 herb, húsi "Hótel Stokkseyri" með 100 manna veitngasal [Nú félagsheimilið Gimli]. Axel Björnsson var ráðinn hótelstjóri. Siglingar milli lands og Eyja voru nú aðalega frá Stokkseyri yfir sumarið, en einnig einhverjar frá Eyrarbakka. [ Um 4000 manns fóru milli lands og Eyja þetta sumar á litlum bátum] Stokkseyringafélagið var stofnað í Reykjavík og voru stofnendur vestan heiðar 176. Formaður var Sturlaugur Jónsson. Í Tryggvagarði á Selfossi voru nú komnar 5000 plöntur. Gufuketill sprakk í Mjólkurbúi Flóamanna og einn danskur maður skaðbrendist [Malling Andreasen var kyndari í M.B.F og var honum tjaslað saman af hersetulæknum]. Ölfusárbrú liggur undir skemdum sökum umferðarþunga og uppistöðuteinar slitnað. Þegar er farið að huga að hönnun nýrrar brúar. Egill Thorarensen var ókrýndur konungur Selfyssinga, að mati heimamanna. Kaupfélagstjóri var hann og útgerðarstjóri, sem og pólitískur leiðtogi. Nú bætti hann enn einni rós í hnappagatið, með því að hefja bíórekstur á Selfossi. Kaupfélagið undir hans stjórn, rak útibú á Eyrarbakka og Stokkseyri, verslun, saumastofu, bifreiðaverkstæði og íshús á Selfossi, ásamt útgerð í Þorlákshöfn.
Tíðin: Hellisheiði var ófær um tíma í byrjun árs, en fært var um Þingvallaveg til Reykjavíkur. Umhleypingar og hríðarveður síðari hluta febrúar með snjóþyngslum, en veður fór batnandi um miðjan mars. Vorið var kalt og umhleypingasamt. Kartöfluuppskera var góð þetta árið. Úrkomusamt haust og umhleypingar fram á vetur.
Heimild: Alþýðubl. Eining, Fálkinn, Jörð, Morgunbl, Útvarpstíðindi, Veðráttan, Vísir, Þjóðviljinn, Ægir.
21.11.2014 17:14
Annáll drukknaðra í Ölfusá
1508, eða nálægt
því ári, eftir messu við krossinn í Kallaðarnesi var ferjubáturinn, teinæringur
ofhlaðin fólki og sökk með öllu. Um 40 manns druknuðu. Á meðal þeirra var
sr.Böðvar Jónsson að Görðum á Álftanesi.
1516, drukna í
einu 5 menn í Ölfusá við Arnarbæli.
1521, eða síðar á
dögum Ögmundar biskups drukna í einu 5 menn á Fossferju.
1542, sigldu menn
úr Þorlákshöfn fyrir Óseyri hlöðnu skipi, mjöli og skreið að Hrauni í Ölfusi.
Kom til áfloga svo skipinu hvolfdi og með 11 menn er druknuðu allir. Var þar á
meðal Hrafn prestur Ölfusinga.
1571, Erlendur
Erlendsson í Kallaðarnesi druknar á ferjuleið að Arnarbæli.
1584, Jón
Sigurðsson í Kallaðarnesi drukknar á ferjustaðnum með mönnum sínum. Þá druknuð
3 feðgar á Fossferju í Flóa (Selfossi). Fluttu þeir eitt naut og klofnaði
skipið.
1625, Sigurður
Árnason í Ölfusi druknar í Ölfusá.
1627, drukna 10
menn á Kotferju í Ölfusá. [Mesta
ferjuslys á íslandi]
1645, drukna af
veikum ís á Ölfusá, Jón Halldórsson ráðsm. í Skálholti ásamt mági sínum og
Böðvari Steinþórssyni nema í Skálholti.
1654, druknar
Gísli Jónsson aðstoðarprestur í Arnarbæli í svokölluðu "díki" með undarlegum
atburðum.
1657. Skip Kotferju sökk fyrir ofhleðslu og
druknuðu 3 en 1 komst af.
1660, druknar
Hákon Bjarnason í ánni við Þorleifslæk í Ölfusi. Fór á hestbak úr bát og sukku
báðir.
1678. Einar
Klemensson druknar í Þorleifslæk við Ölfusá.
1686. Maður
druknar af ís skamt frá Arnarbæli.
1687. Piltur 8
ára Jón Oddsson prests í Arnarbæli druknar í Ölfusá af ís er hann ráfaði á
eftir föður sínum er fór ríðandi.
1693. Maður
druknar í Ölfusá, en sá hét Erlendur Filippusson.
1697. Menn ætluðu
að tvímenna hest á ísi yfir Ölfusá. Féll sá aftari af og niður um ísinn og
druknaði.
1704. Tveir
hrísmenn úr Öndverðanesskógi fórust með bát sínum á Ölfusá.
1709. Karl og
tvær konur ungar úr Kallaðarnessókn vildu til kirkju í Laugardælum. Gengu þau
upp Ölfusá á ís sem féll undan og druknuðu þau.
1725. Maður vildi
ríða eftir eggjum út í hólma í Ölfusá við Langholt og druknaði hann.
1734. Tveir menn
drukna í Ölfusá.
1744. Árni próf.
Þorleifsson í Arnarbæli féll af baki í læk í Ölfusi og druknar.
1750 eða þar um
bil, druknar í Ölfusá strokufangi úr járnum á stolnum hesti.
1793. Einar
Brynjólfsson sýslumanns druknar í Hólmsós í Ölfusi.
1800. Í Óseyrarnesi
sökk skip af ofhleðslu og druknuðu 7 manns, aðalega Skaptfellingar í
kaupstaðarferð. Þar á meðal var Snorri Ögmundsson ferjumaður í Nesi. 4 mönnum
var bjargað.
Í Óseyri Óms- við
-kvon
áin tók sjö manna
líf.
Markús prestur
Sigurðsson
sínu hélt, en
missti víf.
1820, druknar
farandkona í Ölfusá.
1831. Maður frá
Oddgeirshólum ferst í Ölfusá.
1842. Hannes frá
Sandvík druknar í Ölfusá.
1844. Bát með 5
mönnum hvolfdi við hólma í Ölfusá nærri Ármóti í Flóa. Druknuðu tveir, en einn
bjargaði sér á undarlegu sundi. Tveir héldu dauðahaldi í grjótnibbur og var
þeim bjargað.
1853. Ferjubát er
flutti kú og 3 menn hvolfti í Ölfusá er kýrin braust um. Druknuðu þar sr. Gísli
Jónsson í Kálfhaga og Guðni Símonarsson hreppstjóra í Laugardælum. Þriðji maður
komst á kjöl og var bjargað.
1858. Sigurður
frá Litlabæ á Álftarnesi var ferjaður yfir Ölfusá með Óseyrarnesferju ásamt
kindum og tveim hundum. Ferðinni var heitið austur í Hraunshverfi. Hundarnir báðir og kindur fundust síðar reknar
upp úr ánni. Er talið að hann hafi rekið féð um flæðileirurnar og talið að
maðurinn hafi tínst þar.
1869. Runólfur
Runólfsson vegaverkstjóri í Reykjavík hafði sótt verkalaun sín og undirmanna til
sýslumanns út á Eyrarbakka. Hann ætlaði svo aftur yfir Ölfusá við
Laugardælaferju. Reið hann gæðing, ölvaður og lagði út á ána á hestinum. Fórst
þar bæði maður og hestur. 9 mánuðum síðar fanst lík hans rekið við Óseyrarnes
og með því peningar allir.
1873. sr.
Guðmundur E Johnsen í Arnarbæli skírði barn í Hraunshól, [Eyleif, son Ólafs Eyjólfssonar og Guðrúnar Hermannsdóttur.] Jón
Halldórsson á Hrauni fylgdi presti heim og fóru ríðandi á veikum ís og hurfu
báðir um vök á áni vestan við Arnarbæli.
1877. Gamall
maður bilaður á geði fórst í Ölfusá af ísi.
1887. Arnbjörg
Magnúsdóttir frá Tannastöðum fanst örend í ánni. Hafði verið veik á geði.
1890. Maður er
sundreið Ölfusá til að sækja ferju, druknaði í áni.
1891. Við smíði
Ölfusárbrúar druknaði þar maður enskur af slysförum.[ Arthur
Wedgwood
Jacksons]
1895 Páll Pálsson
vinnupiltur á Kotströnd hélt heimleiðis frá Kirkjuferju eftir erindi þar.
Villtist út á ána í frosti og byl. Tapaði hestum sínum niður um ísin og vöknaði
svo að sjálfur fraus í hel á ísnum. Á sama ári fyrirfór sér í Ölfusá, Sigríður
Þorðvarðstóttir á Egilstöðum í Ölfusi.
1917. Filippus
Gíslason á Stekkum druknar í Ölfusá við laxavitjun.
1919. Helgi
Ólafsson prests Helgasonar á Stóra-Hrauni var á austurleið í brúðkaup systur
sinnar. Lík hans fanst og hesturinn dauður í sandbleytu (við Hólmsós).
1922. Tómas
Stefáns skrifstofustjóri við Landsímann í Reykjavík, var að klifra upp
vírstrengi Ölfusárbrúar, en féll í ána
og druknaði.
1933. Maður frá
Oddgeirshólum fórst í Ölfusá.
1942. Baldvin
Lárusson bílstjóri steyptist í ána af Ölfusárbrú og druknaði. Sama ár druknar
setuliðsmaður í áni. [Er nú komið fullt 100 manna er sögur fara af að farist
hafa í eða við ána.]
1944. (Þegar
Ölfusárbrú brast, féll mjólkurbíll með henni í ána, en bílstjórinn bjargaðist á
varadekkinu.)
1947. ( Sjómaður,
Reykjalín Valdimarsson á togaranum Kára synti yfir Ölfusá undan Kaldaðarnesi.
Hann komst heill yfir á 20 mínútum.)
1963. Lárus
Gíslason á Stekkum druknar í Ölfusá við laxveiðar. Hann var ósyndur.
1964. Gísli
Jóhannsson skrifstofustjóri sídarútvegsnefndar druknar í Ölfusá við stangveiði
á Kaldaðarnesengjum ("Straumnesi").
1975. Maður
talinn hafa fallið í Ölfusá og druknað. Lík Hallgríms G Guðbjörnssonar fannst
þar árið eftir.
1976. Ungur maður
vatt sér út á brúarstengi Ölfusárbrúar og féll í ána og druknaði. [Þórarinn Gestson frá Forsæti II]
1979. Kajak
hvolfdi í Ölfusá og ræðarinn [Rúnar
Jóhannsson úr Hafnafirði] druknaði.
1984. Maður féll
í ána við Ölfusárbrú og druknaði. [Hilmar
Grétar Hilmarsson]
1986. (Barn féll
í Ölfusá, en annar drengur bjargaði honum).
1989. (Litlu
munaði að bifreið lenti í ánni eftir að hafa ekið á ljósastaur.)
1990. Bifreið var
ekið út í Ölfusá og druknuðu tveir ungir menn [Örn Arnarson frá Selfossi ásamt félaga sínum Þórði M Þórðarsyni].
Tvær ungar konur er í bílnum voru björguðust.
1992 (3ja ára
barn féll í Ölfusá, en var bjargað af íbúa í grendinni)
1996. Kona fannst
látinn í Ölfusá við Kirkjuferju. [Agnes
Eiríksdóttir] Sama ár óð ölvaður maður út í Ölfusá við brúnna, en bjargaði
sér sjálfur á land.
2000. Guðjón Ingi
Magnússon, ungur maður frá Selfossi féll í Ölfusá og druknaði.
2007. (Bíll
hafnaði út í Ölfusá í mikill hálku. Björgunarsveit bjargaði ökumanninum.)
2014. Maður úr
Þorlákshöfn steypti sér í ána af Óseyrarbrú og druknaði. Maður ók bíl sínum í
ána við Ölfusárbrú. Fanst hann heill á húfi daginn eftir.
Þessi skrá er ekki tæmandi yfir alla
þá sem horfið hafa í Ölfusá. Þess hefur ekki altaf verið getið í heimildum, eða
heimildir ekki fundist.
12.10.2014 23:01
Sú var tíðin, 1942
Íbúar Eyrarbakka, Stokkseyrar og Selfoss voru samtals 1.500 talsins. [Á Eyrarbakka voru í byrjun árs 1942, 585
íbúar og á Stokkseyri 478.] Oddvitar þessara sveitarfélaga óskuðu eftir því
sameiginlega að fá afmagn frá Sogsvirkjun, nú þegar í bígerð var að stækka
hana. Framkvæmd þessi átti að kosta um 900 þúsund og var sett á dagskrá. Kaupfélag
Árnesinga opnaði útibú á Eyrarbakka og annað á Stokkseyri
Pólitíkin á Bakkanum:
Hreppsnefndarmaður
handtekinn fyrir blaðaskrif.
Sveitastjórnarkosningar fóru fram 25. janúar 1942. Á kjörskrá voru 395 og
kjörsókn 77%.
Í framboði fyrir Alþýðuflokkinn [Í
bandalagi við K.F.] á Eyrarbakka voru: Vigfús Jónsson, Bjarni Eggertsson,
Gunnar Benediktsson, Jón Guðjónsson, Ólafur Bjarnason og Kristján Guðmundsson.
Hinir þrír fyrst töldu fengu sæti í hreppsnefnd. Sjálfstæðisflokkurinn fékk
einnig þrjá menn kjörna og Framsókn 1 mann sem var Teitur Eyjólfsson, hinn nýji
húsbóndi á Litla-Hrauni, og formaður framsóknarfélagsins. [Begsveinn Sveinsson sem lengi var fremstur í flokki, var nú feldur].
Á Stokkseyri unnu Sjálfstæðismenn meirihluta.
Það bar til tíðinda á fyrsta hreppsnefndarfundinum á Eyrarbakka þann 27.
janúar að kjósa átti oddvita. Til fundarins boðaði Bjarni Eggertsson
aldursforseti þeirra sem kosnir voru, og mælti fyrir oddvitakosningu. Teitur
Eyjólfsson hafði þá nýverið gert bandalag við Sjálfstæðismenn og gerði hann
kröfu um að sýslumaður yrði beðinn um að skipa í oddvitasætið, Sigurð
Kristjánsson kaupmann, en hann var leitogi sjálfstæðismanna. Alþýðuflokkurinn
sem hafði fengið meirihluta greiddra atkvæða héldu fast við sinn keip, enda
ólöglegt talið að hið opinbera hlutaðist til um oddvitakjör, nema ef hreppur
hafi misst fjárhagslegt sjálfstæði. Teitur og sjálfstæðismenn gengu þá
skindilega af fundinum, sem þá varð ekki ályktunarfær. [Hitt var annað mál að kjörnir hreppsnefndarmenn höfðu fæstir næga þekkingu
eða færni til að gegna oddvitaembættinu.] Um kvöldið var Gunnar
Benediktsson hreppsnefndarmaður og leiðtogi kommúnista á Eyrarbakka tekinn
fastur og hann látinn taka út dóm fyrir blaðaskrif um fisksölusamninginn við
breta. Gunnar fékk að sitja í "Tugthúsinu" í 15 daga. [Gunnar var ritstjóri fyrir "Nýtt Dagblað", en áður fyrir "Nýi Tíminn".
Þegar Gunnar losnar gefur hann nokkrum fyrrverandi föngum gott rými í blaðinu
til að skrifa um réttvísina og aðbúnað fanga á Litla-Hrauni. Gunnar sat sem
varamaður á Alþingi um nokkurn tíma árið 1945.] Um haustið ákvað Gunnar að
sækja um inngöngu í Kaupfélagið (Kaupfélag Árnesinga) og er samþykktur af
útibústjóra verslunarinnar hér. [Kaupfélagið
hafði þá um vorið opnað útibú á Bakkanum] Þá brá svo við að Egill kaupfélagsstjóri
í Sigtúnum bannaði honum inngöngu í félagið.
Framsóknarballið var haldið 28. febrúar sem hófst með kaffisamsæti og
kvikmyndasýningu í Fjölni.
Hernaðarbrölt: Bandaríkjaher var að taka við af Breska hernámsliðinu, en breski flugherinn hélt enn um sinn flugvellinum á Kaldaðarnesi og herskálum þar og að Selfossi. Í riti flughersins á Íslandi "The White Falcon" er sjóflugvélum bandamanna heimilt að lenda á Eyrarbakka, Þingvallavatni og Vatnajökli. Fyrir kom að breskar flugvélar komust í neyð hér við ströndina, en Eyrbekkskir sjómenn voru þá ávallt boðnir og búnir að koma þeim til aðstoðar. Verkamenn af Eyrarbakka og Stokkseyri störfuðu allflestir fyrir setuliðið. Setuliðsmenn í Kaldaðarnesi voru aðalega vopnaðir rifflum og vélbyssum. Var æfingasvæði þeirra austur af Kaldaðarnesi og út með Ölfusá. Á Sandskeiði t.d. voru að auki fallbyssur í notkun. Mýrarnar og Ölfusá sunnan Kaldaðarnes var yfirlýst hættusvæði. Setuliðsmönnum var yfirleitt meinaður aðgangur að skemtunum og dansleikjum til að komast hjá árekstrum, en kvennaskortur var alger í herbúðum setuliðsins. Hreppsnefnd Eyrarbakka hét setuliðinu fulla samvinnu íbúanna í þáttöku loftvarnaæfinga. Íbúarnir áttu að slökkva öll ljós í híbýlum sínum þegar æfing fór fram.
Útgerð: Einn Bakkabátur gerði út frá Sandgerði samkvæmt venju.
Slys: Barn varð fyrir bíl er kom ofan af Selfossi. Farþegi í bifreiðinni var læknir sem hafði verið að koma úr vitjun, og gerði hann að sárum drengsins, sem þó lést nokkru síðar af höfuðáverkum. Drengurinn hét Böðvar Bergsson [Ingibergsson] 11 ára, afabarn Böðvars Friðrikssonar í Einarshöfn. Tveir menn druknuðu í Ölfusá, annar um sumarið, setuliðsmaður, en hinn íslendingur sem féll af Ölfusárbrú skömmu fyrir jól.
Eldur var laus í hlöðu og gripahúsi að Litla-Hrauni. Flugmaður breska flughersins var eldsins var og kallaði á slökkvilið flughersins í Kaldaðarnesi sem kom fljótt á staðinn, ásamt slökkvuliði Eyrarbakka. Í sameiningu tókst þeim fljótt að ráða niðurlögum eldsins. [Talið var að geggjaður maður hafi borið eld að húsunum.]
Hjónaefni: Lilja Þórarinsdóttir af Eyrarbakka & Ólafur Guðlaugsson trúlofast. Anna Lúðvíksdóttir af Eyrarbakka & Ólafur Tryggvason frá Víðivöllum. Þórunn Kjartansdóttir af Eyrarbakka & Lárus Blöndal Guðmundsson verslunarstjóri giftast. Steinfríður Matthildur Thomassen & Guðjón Sigfússon af Eyrarbakka. Sigurður Friðriksson skipstjóri gekk að eiga Elínborgu Þ Þórðardóttur frá Rvík.
Gullbrúðkaup áttu Ingibjörg Þorkelssdóttir og Sigurður Þorsteinsson. Þau
bjuggu í Rvík.
Afmæli:
85 ára: Einar Jónsson frá Grund Eyrarb. b.s. Rvík. [f.v. b. á Álfst. Skeiðum.]
80 ára Jóhann Gíslason frá Steinskoti, fiskmatsmaður Rvík.
Einar Jónsson frá
Prestshúsi Eb. b.s. Rvík.
Ragnhildur Sveinsdóttir, á
Þorvaldseyri. b.s. Rvík.
75 ára: Guðrún Gísladóttir frá Einashöfn, b.s. Reykjavík.
70 ára: Elín Pálsdóttir frá Nýjabæ Eyrarbakka.
60 ára: Haraldur Blöndal, er rak um hríð ljósmyndastofu á Bakkanum.
50 ára: Magnús Oddson símstöðvastjóri á Eyrarbakka.
Látnir: Sigurbjörg Hansdóttir (83) frá Sauðahúsum. Maður hennar var Aðalsteinn Jónsson. Eiríkur Gíslason (72) húsasmíðameistari í Gunnarshólma. Hans kona var Guðrún Ásmundsdóttir. Jónína Hannesdóttir (46) frá Sölkutóft, kona Jóhanns Loftssonar. Vigfús Halldórsson (85) frá Litlu-Háeyri. Böðvar Jónatan Ingibergsson (11). Drengur, Foreldrar hans voru Krístín Jónsdóttir og Gísli Jónsson á Kirkjuhvoli. Hallbjörg Ásdís Guðfinnsdóttir og Sesselíu Jónasar á Borg. Jóna Pálsdóttir frá Skúmstöðum. Kristín Jónsdóttir (0) frá Selfossi.
Fjarri heimahögum: Guðmundur Á Vívatsson, (f. á Eb. 1879) póstafgreiðslumaður á Svold N-Dakota, en þangað flutti hann með foreldrum sínum árið1883. Hans Bogöe Thorgrímssen (88) í Grand Forks N-Dakota. [Hans var sonur Guðmundar Thorgrímssen verslunarstjóra á Eyrarbakka. Hans flutti vestur um haf sumarið 1872. Hann átti frumkvæðið að stofnun Hins Evang.-lúterska kirkjufélags íslendinga I Vesturheimi með því að kveðja til undirbúningsfundar að Mountain, N.-Dak., I janúa r 1885. ] Ásta Hallgrímson, (85) [Guðmundsdóttir Thorgrímsen, yngsta barn. Hún var gift Tómasi Hallgrímssyni læknaskólakennara.] Guðmundur S Guðmundsson forstj. Hampiðjunar. Hann var frá Gamla-Hrauni, Þorkellssonar af Mundakoti. Gunnar Hjörleifsson (49), sjómaður á togaranum "Sviða" og lét lífið á hafinu er togarinn fórst. kona hans var Björg Björgúlfsdóttir, einig af Bakkanum. Guðlaug Aronsdóttir (75) frá Merkigarði. Hennar maður var Guðbrandur Guðbrandsson verkamaður. Skúli Gíslason (32) lyfjafræðingur. Hann var sonur sr. Gísla Skúlasonar prests á Eyrarbakka. Hann varð undir breskri herflutningabifreið á leið til vinnu sinnar og lést skömmu síðar. sr. Gísli Skúlason prófastur og prestur á Stóra-Hrauni Eyrarbakka.[ sr. Gísli var vígður til Stokkseyrarprestakalls 2. júlí 1905] Kona hans var Kristín Ísleifsdóttir, ættuð frá Selalæk á Rángárvöllum. Jóhann Friðriksson form. frá Gamla-Hrauni, með línuveiðaranum "Sæborg" frá Hrísey.
Sandkorn: Eyrbekkingurinn Helgi Guðmundsson var varaformaður verkamannafélagsins Dagsbrúnar í Reykjavík. Foreldrar hans voru Guðmundur Felix og Guðný Jónsdóttir. Eyrbekkingurinn Elías Þorsteinsson var forstjóri hraðfrystihúsins Jökuls í Keflavík. Foreldrar hans voru Þorsteinn Þorsteinsson kaupmaður og Margrét Jónsdóttir. Guðmundur Ásbjörnsson frá Brennu sat í bæjarstjórn Reykjavíkur. Eyrbekkingafélagið hélt sinn aðalfund og voru kosnir í stjórn: Formaður, Aron Guðbrandsson, Varaformaður, Lárus Blöndal Guðmundsson. Félagið taldi um 400 manns. Eldspítur varð að spara, þar sem þær hafa verið skamtaðar í verslanir. Á Eyrarbakka kyntist Ásgrímur Jónsson listmálari fjallanna, hafinu í fyrsta sinn. Leikverk Menntaskólans "Spanskflugan" var sýnd hér við góðar undirtektir, eða svo góðar að leikendur urðu að hafa aukasýningu kl 1 um nóttina. Svo hörmulega vildi til áður en leikhópurinn kom hingað austur að einn leikarinn gleimdi gerfiskegginu sínu heima. Var úr því bætt með því að klippa lokk af kvenmannshári og líma fyrir skegg. Magnús Oddson símstöðvastjóri, settur póstafgreiðslumaður á Eyrarbakka. Þingstúka Árnessýslu stofnsett á Eyrarbakka er Kristinn Stefánsson stóð fyrir. Jón Axel Pétursson frá Eyrarbakka er hafnsögumaður í Reykjavík og í framboði fyrir Alþýðuflokkinn þar í bæ. Teiknisýning, fríhendisteikningar iðnema í Iðnskólanum á Eyrarbakka þóttu bera af öðrum iðnskólateikningum. Ólafur Tryggvason hét maður er gerðist aðstoðarlæknir í Eyrarbakkahéraði. U.M.F.E hélt harmonikkuball. Var sérstaklega tekið fram í auglýsingu að dansleikurinn væri "aðeins fyrir Íslendinga". [ss. enskir /amerískir dátar voru ekki á gestalista] Stuttu síðar bauð Kvenfélagið upp á dansleik, án þessara skilyrða. Verkamannafélagið Báran hélt sína árshátíð með dansi og söng. Alfreð Andresson song gamanvísur með undirleik Sigfúsar Haldórssonar og Kling, Kling, kvartettinn söng nokkur lög.
Úr grendinni: Nýbýlið Kumbaravogur verður sumardvalarheimili fyrir börn, en Umdæmisstúka nr.1 keypti. Mörg tundurdufl reka á fjörur í Skaptafellssýslum. Hótel Þrastalundur brann til kaldra kola, en þar höfðu liðsforingjar breska setuliðsins fundið sér hvíldaraðstöðu. Vat þvarr skindilega í Ölfusá og varð hún mjög vatnslítil um stundarsakir þann 11. nóvember. Hafði þetta komið fyrir síðast 1929. Skógræktarfélag Árnesinga kemur upp trjáreití svonefndum Tryggvagarði.
Tíðin: Eitt mesta fárviðri gekk yfir Suðvesturland þann 15. janúar 1942, en skemdir urðu óverulegar, en einn símastaur féll milli Eyrarbakka og Selfoss, annars var tíðin að mestu mild fram í vetrarlok. Með vorinu varð tíðin óstöðug og lægðagangur fyrir sunnan land. Vorspretta var léleg vegna kulda og þurka. Óhagstætt veður um sauðburð. Grasspretta rýr fram í júní. Haustuppskera var rír, afli tregur og heyfengur lítill. Innmatur úr lambi var seldur á 15 kr. þetta haust og þótti dýrt. Rigningasamt í vetrar byrjun og sjaldan gaf á sjó. Hélst vætutíðin fram á veturinn.
Heimild: Alþýðubl. Hagtíðindi, Læknabl. Lögberg, Nýtt Dagblað, Nýi Tíminn, Póst & Símatíðindi, Skólablaðið [Menntaskólans] Tíminn, Tímarit Iðnaðarmanna,Verkamaðurinn, Veðráttan, Vísir, Þjóðviljinn.
08.10.2014 22:23
Gosmistur frá Holuhrauni

09.09.2014 22:57
Sú var tíðin 1941
Í byrjun 1941 töldust íbúar Eyrarbakka 603 og var fjölgun nokkur frá fyrra ári. Merkilegt félag var stofnað á árinu, en það var Eyrbekkingafélagið í Reykjavík sem stóð að margskonar menningarmálum á Eyrarbakka, svo sem Jónsmessuhátíð sem var haldin á Eyrarbakka 28-29 júní og voru sætaferðir frá Reykjavík á þessa fyrstu miðsumarhátíð Eyrbekkinga. Var hátíðinn sett á laugardagskvöldi kl. 19 og stóð til kl. 19 á sunnudagskvöld. Sjúkrasamlag hafði verið stofnað á Eyrarbakka fyrir ári og hafði nú sannað gildi sitt. Hugmyndir voru uppi umstofnun Sjóminjasafns á Eyrarbakka sem Eyrbekkingafélagið hugðist standa að. Ætlunin var að reisa sjóbúð og smíða eftirgerð af áraskipi.
Fyrsta Jónsmessuhátíðin á Eyrarbakka haldin 1941: Fyrir hátíðinni stóð Eyrbekkingafélagið í Reykjavík og "Jónsmessunefndin" á Eyrarbakka. Eina skilyrðið til að fá aðgöngumiða að hátíðinni var að viðkomandi væri Eyrbekkingur í húð og hár. Þáttakan á átíðinni var gífurlega mikil, en 200 "Eyrbekkingar" komu t.d. frá Reykjavík. Lögreglumenn, einig úr Reykjavík sáu til þess að allt færi fram með friði og spekt. Við Vesturbúðina var komið upp stóru hátíðarsviði sem tjaldað var yfir. "Eyrabakkaóðurinn" er samið hafði Maríus Ólafsson, var sunginn af mikilli innlifun og síðan var héraðssöngur Árnesinga kyrjaður, er samið hafði Aron Guðbrandsson, en síðan tók kvartett úr Reykjavík við boltanum og margir fleiri listamenn stigu á stokk. Gjallarhornum, eða hátölurum hafði verið komið fyrir svo víða heyrðist. Dansleikur var þar næst haldinn í Fjölni, stanslaust þar til sól reis á ný. Húsrúm í Fjölni leifði ekki allann fjöldann sem dansleikinn sótti, svo fjöldi fólks dansaði eftir músikkinni á götu úti. Á sunnudag var haldin messa í kirkjunni þar sem predikuðu sr. Gísli Skúlason og Eiríkur Eiríksson.
Vekalýðsmál: Bestu kjarasamningar sem gerðir hafa verið, laun hækkuðu um 80% hjá Bárunni.
Strax um áramótin '40/'41 gerði Vlf. Báran á Eyrarbakka nýjan kjarasamning við Eyrarbakkahrepp [Undirritaður 26.12.1940]. Var þessi verkamannasamningur sá besti sem gerður hafði verið á landinu fram til þessa. Laun hækkuðu úr kr. 1,23 upp í kr. 1,56 ásamt fullri dýrtíðaruppbót sem greidd yrði ársfjórðungslega. [samsvaraði kr. 2.22 á tímann,eða 80% launahækkun, en fram til þessa hafði hæsta kaup á landinu verið greitt á Akureyri kr. 1,50 pr.klst] Kauptaxti þessi gilti jafnframt í bretavinnu í Kaldaðarnesi, en hann var samþykktur af setuliðinu mótbárulaust. Samningur þessi olli m.a. óróa hjá verkalýðsfélögum í Vestmannaeyjum, þar sem venja hefur verið að greiða hærri laun en á Bakkanum. Óróleikinn kom einnig fram hjá mörgum öðrum félögum sem áttu ósamið. Verkfall brast á hjá "Dagsbrún" svo allt hljóp í bál og brand milli atvinnurekenda og verkamanna.[Setuliðið var þá að hefja flugvallargerð í Vatnsmýrinni] Ergelsið og átökin vestan fjalls, urðu til þess að bretarnir komu fram með undirskriftalistalista og báðu verkamenn á Eyrarbakka og Stokkseyri að kvitta undir viljayfirlýsingu um að vinna fyrir laun kr.1,75 á tímann, en enginn verkamaður fékst til að undirrita. Ákváðu bretar þá ótímabundna vinnustöðvun. [Grunur lék á að Vinnuveitendasambandið hafi hlutast til um íhlutun bresku hernámsstjórnarinnar í vinnudeilurnar] Kaupgjald við alla skipavinnu var kr.2,96 á tímann, en hinsvegar fátítt orðið að þessi vinna stæði til boða. Fundur var haldinn í Bárunni 27.oktober. Var þar mótmælt einróma lögfestingarfrumvarpi Eisteins Jónssonar ráðherra um kaupgjald og skorað á Alþingi að fella það. Iðnaðarmannafélag Árnessýslu hélt tvo fundi á árinu, en 60 félagsmenn voru dreifðir um alla sýsluna. Atvinna fyrir iðnaðarmenn var frekar lítil á árinu, og laun voru kr. 1,50 á tíman. Vigfús Jónsson á Eyrarbakka var formaður.
Pólitíkin á Bakkanum: Framsóknarfélagið Eb. hélt sína árlegu kaffidrykkju-árshátíð 11. janúar. Til skemtunar voru ræðuhöld, kvikmyndasýning, Framsóknarvist og dansiball. Um 100 manns sóttu hátíðina.
Sjálfstæðisfélag Eb. hélt sömuleiðis kaffidrykkju-árshátíð þann 25. janúar
með ræðuhöldum, söng og dansiballi. Aðal ræðumaður var Jakop Möller
fjármálaráðherra. Um 130 manns sóttu hátíðina. Héraðsmót flokksins var svo
haldið 6. júlí á Eyrarbakka, og vitanlega hófst mótið með kaffidrykkju. Meðal
ræðumanna var Bjarni Benediktsson borgarstjóri Reykjavíkur. Aðsókn á þetta mót
var þó undir væntingum.
Útgerð: Engir bátar gengu frá Eyrarbakka þessa vertíð, enda fengust ekki sjómenn til starfa. Bretavinnan tók til sín alla menn sem vetlingi gátu valdið. Jón Helgason á Bergi reri þó frá Þorlákshöfn og hét sá bátur "Lambafell" og var 12. tonn. Alls gerðu 9 bátar út frá Þorlákshöfn með samtals 70 manna áhöfn. Jón Helgason var aflahæsti formaðurinn á þessari vertíð, sem var sú 31. hjá honum. Einn Bakkabátur gerði út frá Sandgerði og hét sá bátur "Ægir" og var smíðaður á Eyrarbakka á fyrra ári, og var eigandi hans Jón Guðjónsson o. co. Til lendingarbóta á Eyrarbakka voru veittar kr. 23.000 úr ríkissjóði.
Hernaðarbrölt: Þjóðverjar gera loftárás á Selfoss
Norskt varðskip sem hér var á ferð 18. febrúar og í þjónustu "Bandamanna" sigldi upp á sker og sat þar fast nokkra stund, eða þar til næginlega var fallið að. Hafnsögumaðurinn á Eyrarbakka tók þá við stjórn, og lagði skipinu á öruggnann stað, þar sem hægt var að kanna skemdir á skipinu.
[Bandamenn höfðu nokkur skip við strendur landsins sem unnu við að slæða upp tundurdufl og leggja tundurduflum á vissum svæðum. Norska varðskipið var eitt þeirra.]
Þýsk herflugvél, Heinkell 111 flaug lágt yfir þorpið að Selfossi 9. febrúar 1941, rendi sér yfir brúna og sneri við. Lét hún svo vélbyssuskothríð dynja á brúnni og hermannabröggum sem þar höfðu nýlega verið reistir vestan brúarinnar og særðust tveir hermenn sem hlupu út í sömu andrá. Á hól þar vestan brúar höfðu bretar sett upp vélbyssustæði og hófu þeir þegar skothríð á flugvélina sem hvarf yfir Ingólfsfjall.
[Flugvélina sakaði ekki og hún flaug næst yfir Reykjavík og hrelldi íbúa þar og komst síðan undan. Ummerki sáust á brúarstöplunum eftir árás flugvélarinnar, en þess skal geta að um er að ræða gömlu brúna sem var 50 ára gömul er hér er komið sögu. Þjóðverjum þótti þessi árásarferð 1800 mílna leið vera mikið flugafrek og það þótti bandarísku pressunni líka, því árásin á Selfoss hafði fært átökin um 1000 mílur nær þeim og jafnvel of nálægt, því næðu þjóðverjar Íslandi, þá væri hægðaleikur fyrir þá að gera loftárásir á Bandaríkin.
Svo komu fleiri þýskar flugvélar, og breska
flugsveitin var ávalt of svifasein að taka á móti þeim]
Vinnu við Kaldaðarnesflugvöll og bækistöðvar setuliðsins þar var svo háttað: Bretar höfðu sjálfir með höndum alla yfirstjórn verkefna á svæðinu. Verktakar að framkvæmdum voru Hjögaard & Schultz og svo Gunnar Bjarnason verkfræðingur, hvor með sinn vinnuflokkinn í akkorði. Voru verkamenn í þessum hópum víðsvegar af landinu, Þó allflestir Eyrbekkingar og Stokkseyringar í umboði síns félags, Bárunnar og Bjarma, nema hann Þórður Jónsson verkamaður, sem var búinn að fá nóg af dvölinni á Ingólfsfjalli og kominn í hörku bretavinnu, og þar svikinn um 20 kr. af launum sínum, sem látnar voru renna til verkamannafélagsins Dagsbrún í Reykjavík, og eins var farið um nokkra aðra landsbyggðamenn, frá Keflavík og Húsavík. Þótti honum það hernám verra en hitt. Síðar, eftir mikil læti, fengu verkamennirnir þetta leiðrétt. Túlkar fyrir verkamennina í Kaldaðarnesi voru aðalega Jóhann Ólafson og Gunnar Benediktsson kennari. [Um 150 verkamenn frá Eyrarbakka og Stokkseyri unnu fyrir setuliðið í Kaldaðarnesi]
Slys: Banaslys varð þegar ung stúlka féll af palli vörubifreiðar sem var að flytja allmörg ungmenni af skemtun sem haldin hafði verið á Stokkseyri. Stúlkan hét Kristín Jónsdóttir og var 16 ára. Varð hún undir afturhjóli vörubifreiðarinnar. Piltur sem einnig féll af pallinum meiddist lítilega. [Þetta slys varð kl. hálf þrjú að nóttu, við Hópið á móts við Ós, og lenti vörubifreiðin X-69 þar í lausum vegkanti, með þessum afleiðingum. Foreldrar stúlkunnar voru Sigurjón Kristjánsson frá Grunná í Klumpavík og Helga Jónsdóttir frá Garðbæ á Stokkseyri. Hún bjó þá er þetta gerist, með síðari manni sínum Gesti Sigfússyni og höfðu þau nýlega keypt Frambæ á Eyrarbakka.]
Stórafmæli:
80 ára afmæli átti Ingibjörg Guðmundsdóttir í Gunnarshúsi hér á Eyrarbakka.
75 ára afmæli, átti Jón Jónsson í Steinskoti, en þangað fluttist hann ungur með móður
sinni frá Nikulásarhúsum í Fljótshlíð. Hann réri 50 vertíðir frá Eyrarbakka.
Hann var ljóðelskur og sögumaður góður. Sólveig
Daníelsen Gísladóttir frá Skúmstöðum. Árið 1898 giftist Sólveig dönskum
manni, Carl Andreas Danielsen, en hann fór stuttu síðar í atvinnuleit til
Ástralíu og spurði ekki til hans síðan. Sólveig starfaði sem afgreiðslukona hjá
verslun I.R.B. Lefolii. Jóhann V
Danielsson kaupmaður á Eyrarbakka, hafði þá búið í Rvík síðustu 15 ár.
70 ára: Jón
Adólfsson kaupmaður á Stokkseyri. Hann starfaði áður við verslun á
Eyrarbakka.
50 ára: Guðrún
Jónsdóttir í Kirkjubæ. Eyrbekkingurinn Maríus
Ólafsson skáld og heildsali í Rvík.
Silfurbrúðkaup áttu: Læknishjónin Ásta
Jónsdóttir og Lúðvík Nordal
læknir. Jenný Jónsdóttir og Ólafur Bjarnason á Þorvaldseyri Eb.
Látnir: Sigríður Pálsdóttir (95) frá Merkigarði. Guðleif Árnadóttir (91) frá Akri. Ragnheiður Jónsdóttir (86) frá Einarshöfn. Ingvar Friðriksson (86) beykir frá Garðbæ. Jón Guðmundsson (84) frá Gamla-Hrauni. Sigurður Sigurðsson (83) frá Smiðshúsum. Guðrún Þorgrímsdóttir (82) frá Merkisteini. Ingunn Sigurðardóttir (82) frá Ósi. Sveinn Sveinsson frá Ósi. Jónína Jónsdóttir (76) frá Bjarghúsum.. Guðmundur Jónsson (71) fv. oddviti í Einarshúsi. Hann var fæddur á Hrauni í Ölfusi. Þorleifur Guðmundsson fv. alþingismaður, Ísleifssonar á Stóru-Háeyri. Kona hans var Hannesina Sigurðardóttir frá Akri. Kristín Sigurjónsdóttir (17) frá Bræðraborg. Kristín lést af slysförum.
Fjarri heimahögum: Guðmundur Sigurðsson (62) skipstjóri frá Melbæ Eb. [Sonur Sigurðar Ásmundssonar og Þóru Guðmundsdóttur. Hann var lengi viðriðin Draupnisfélagið] Anna Eiríksdóttir (46) frá Litlu-Háeyri.
SANDKORN: Prestakall Eyrarbakka, Stokkseyrar og Gaulverjabæjar var nú nefnt "Stokkseyrarprestakall", en þrátt fyrir það var messað í hverri einustu kirkju sem finna mátti í Árnessýslu sunnudaginn 24. ágúst 1941. Eftir þetta messu-maraþon barst þessi prestafylking 20 guðslærða manna sem herfylking hingað til Eyrarbakka, og þar héldu hvor sína messuna Eyrbekkingarnir hr. biskup Sigurgeir Sigurðsson og síra Árni Sigurðsson. Tvö kirkjuleg erindi voru flutt um eilíft líf og líf þrátt fyrir dauðann, en hið fyrra erindi þótti afar umdeilt , en eins og allir vita þykja Eyrbekkingar langlífið fólk, en vildu þó ekki allir hanga uppi til eilífðar. Vb. Ægir frá Eyrarbakka tók mótorbátinn "Anna" frá Ólafsfirði í tog, eftir að báturinn varð fyrir vélarbilun í aftaka veðri úti fyrir Reykjanesi. Eyrbekkingafélagið í Rvík kom yfirleitt saman í Oddfellow húsinu. Í Útvarpinu 20. maí hélt Gunnar Benediktsson rithöfundur, erindi um Eyrarbakka. Íþróttanámskeið var haldið hér og sóttu 170 ungmenni námskeiðið. "Sagnir og þjóðhættir" var ný bók sem ritað hafði Oddur Oddson fróðleiksmaður á Eyrarbakka. "Íslenskir sagnaþættir og þjóðsögur" eftir Guðna Jónsson frá Eyrarbakka voru gefnar út. Út kom bókin "Saga Þuríðar formanns" er Eyrbekkingafélagið gaf út.
Gestir: Hið Íslenska náttúrufræðifélag sótti Bakkann heim.
Efnahagur og lífstíll: Smjörlíki var nú notað meira til viðbits en smjör. Áfengi, kaffi og tóbak, eru börn farin að neyta um fermingu. Klæðnaður fólks almennt betri hér en víðast út um land. Kamrar voru enn algengasta salernisaðstaðan, en undantekning að fjós séu notuð til þessara þarfa eins og í sveitum. Barna, unglinga og iðnskóli störfuðu í þorpinu.
Úr grendinni: Hörður Sæmundsson, 2. vélstjóri, frá Stokkseyri, 20 ára féll útbyrðis af vb. "Pilot" frá Ytri-Njarðvík ásamt 5 öðrum er brotsjór reið yfir bátinn. Félag Sjálfstæðisverkamanna á Stokkseyri, "Málfundafélagið Freyr" nær manni í stjórn verkalýðsfélagsins "Bjarma" á Stokkseyri. Formaður "Freys" var Svanur Karlsson. Ísólfur Pálsson frá Stokkseyri, þjóðþekktur maður andaðist á árinu. Tveir snúningsdrengir í Stóru-Sandvik er voru þar að fikta með eld í hlóðum, brendust illa er bensínbrúsi sprakk í höndum þeirra. Breskir hermenn sem voru þar nærri komu til hjálpar og slöktu í þeim. Björgunarsveitin "Tryggvi" var stofnuð [1940] að Selfossi með 65 félögum.
Tíðarfarið: Veturinn e.á. var einmuna hagstæður þetta árið. Vorið fór vel af stað og var hlýtt og kyrt. Sumarmánuðirnir með ágætum kyrrviðri og hlýindi og tæplega 18 stiga hiti að hámarki. Heyskapartíð ágæt, en vætudagar nokkrir. Haustið byrjaði með hlýindum og rigningartíð. Kartöflu uppskera var með eindæmum góð. Veður urðu síðan óstöðug til vetrar og vindasamari er á leið.
Heimild: Alþýðubl. Alþýðumaðurinn, Daily Post, Heimskringla, Morgunbl. Morgun, Tíminn, Útvarpstíðindi, Þjóðviljinn, Ægir,
30.08.2014 23:23
Sú var tíðin, 1940

Fyrstu mánuði ársins var allt með líku sniði á Bakkanum og á árunum á
undan. Íbúum hafði fjölgað lítilega, eða um 22 frá fyrra ári og voru nú 575.
Menn höfðu takmarkaðar áhyggjur af styrjöldinni í Evrópu, nema þá að því er
sneri að aðfluttningi og reynt var að bregðast við hugsanlegri
innflutningsteppu, einkum á eldsneyti til upphitunar. Þann 10 maí, bárust hingað
fyrstu fregnir um að breskur her hefði gengið á land í Reykjavík fyrr um
nóttina. Í útvarpinu ríkti djúp þögn og símasambandslaust var við bæinn, enda
bretarnir búnir að banna útvarpssendingar og símtöl um stundar sakir. Þorpsbúar urðu þess fljótt áskynja að breskir
hermenn væru hingað komnir, því strax þann 10. maí kom hópur hermanna að
Kaldaðarnesi og setti sig þar niður. Þórður Jónsson verkamaður fór þá til fjalla, svona til öryggis. Dvaldi sumarlangt á Ingólfsfjalli, og lét sér nægja súrt skyr og vatn.
Pólitíkin á Bakkanum: Erindreki Sjálfstæðisflokksins Jóhann Hafsteinn ræddi stjórnmálaástandið með félögum sínum á Eyrarbakka og Stokkseyri. Ný stjórn var kjörin í sjálfstæðisflokknum á Eyrarbakka: Jóhann Ólafsson, Kristinn Jónasson og Þorgrímur Gíslason. Til vara: Kristinn Gíslason, Þorkell Ólafsson og Guðlaugur Pálsson. Framsóknarmenn héldu sína þorragleði og var kaffi á öllum borðum. Hermann Jónsson þáverani forsetisráðherra hélt ræðu. Nokkrir stigu á stokk, svo sem Daníel Ágústínusson og Teitur Eyjólfsson. Skuggamyndasýningu og erindi um skógrækt á Íslandi flutti Hákon Bjarnason. Síðan var spiluð Framsóknarvist og dansað og sprellað fram undir morgun. Í stjórn Framsóknarfélagsins sátu: Teitur Eyjólfsson, Jón B Stefánsson og Bersteinn Sveinsson.
Verkalýðsmál: Verkalýðsfélagið "Báran" hélt upp á 35 ára afmæli sitt á árinu. Formaður félagsins var Kristján Guðmundsson. Verkamannalaun hækkuðu um 9% 1. janúar og voru dagvinnulaun hjá Vlf. Bárunni 1,21kr. á tímann. Hjá Bjarma á Stokkseyri 1,09 kr. pr. klst. og í Vestmannaeyjum 1,31 kr. klst. Í apríl hækkaði dagvinnukaup hjá "Bárunni" í kr.1.28 pr. klst og hjá "Bjarma" í kr. 1.16 pr. klst. og í Vestmannaeyjum í kr. 1.39 á tímann. Iðnaðarmannafélag Árnessýslu hélt úti tveggja mánaða iðnskóla á Eyrarbakka, með 8 stunda kennslu hvern virkann dag. Kauptaxti í byggingavinnu var kr. 1,50 á tímann. [Formaður Iðnaðarmannafélagsins var Vigfús Jónsson húsasmiður, ritari Guðmundur Magnússon og gjaldkeri Sigurður Jónsson.]
Kauptaxti í bretavinnu var kr. 1.84 á tímann m.v. 10 tíma vinnu á dag.
Þessi launataxti varð oft deiluefni milli Bárunnar og breska hernámsliðsins,
sem vildi lækka kaupið þegar á leið. Þá var samið um ferðir til og frá vinnu
með opnum bílum.
Atvinna: Í "Húsinu" var vinnustofa á vegum Heimilisiðnaðarfélags Íslands, en þá áttu húsið, hjónin Ragnhildur Pétursdóttir og Halldór Þorsteinsson Rvík. Þrjár stúlkur [Guðrún Jónasdóttir, Ólöf og Helga Þorsteinsdætur] höfðu atvinnu af vefnaði, dúka og teppa.
"Trésmiðjan" átti 10 ára afmæli, en
að henni stóðu Bergsteinn Sveinsson og Vigfús Jónsson. Rafmagnsframboð
rafstöðvarinnar var þó ekki meira en svo að það dugði til að halda einni
trésmíðavél í gangi í einu. [Þá kostaði rafmagn frá rafstöðinni á Eyrarbakka
til iðnaðar 40 au. pr. Kílowattstund]
Landbúnaður var stundaður á 100 ha. ræktuðu landi
ofan þorpsins, þar sem áður voru forarmýrar. Garðrækt var enn vaxandi
atvinnugrein í þorpinu. Til slátrunar á Eyrarbakka voru færðir 716 dilkar og
var meðalfallþungi 12,78 kgr.
Almenna
verkamannavinnu var helst að sækja til Kaupfélags Árnesinga, en verslunin
lét skipa upp mestöllum vörum sínum á Eyrarbakka. Sjósókn var mun minni en
fyrrum og skaffaði aðeins 20 mönnum störf á staðnum, en margir sjómenn sóttu
einnig til Þorlákshafnar nú sem fyr.
Mónám Eyrbekkinga sf. var stofnað fyrir tilstilli "Bárunnar"
og hreppsnefndar og fyrirhugað var að hefja stórfellt mónám og þurka sem
eldsneyti til húshitunar. Félagið átti einnig að standa að innkaupum á öðrum
eldsneytisgjöfum sem þætti henta hverju sinni til húshitunar. Fyrirhugað var að
taka 3 ha af landi Árbæjar í Ölfusi á leigu, en þar var móland mikið. Tæki til "eltimósiðju"
var fyrirtækið að láta smíða í Reykjavík og kostaði hún 10.000 kr.
["Eltimór" er ævaforn
vinnsluaðferð sem felst í því að hnoða móinn, en tiltöluleg nýlunda var
vélvinnsla á mó hérlendis en vélvæddar móvinnslur voru algengar í Svíþjóð og
Rússlandi fyrir stríð. (Þjóðviljinn 203 tbl 1953/ ritið "Íslenskur mór")
Talsverður áhugi var á móvinnslu og brúnkolanámi hérlendis í upphafi
heimstyrjaldarinnar]
Mikið fé rann í stofnkosnað þessa fyrirtækis, en hver félagsmaður lagði til
þess 100 kr. Pantanir á mó fóru þó langt fram úr væntingum og starfaði móvélinn
allann sólarhringinn fyrst um sinn. Rigningartíð háði þó móþurkun þetta sumar og
tafði framkvæmdir.
Bretavinna: Fljótlega eftir að bretar hernámu Ísland,
var farið að huga að flugvallargerð og bækistöðvum í landi Kaldaðarnes við
Ölfusárbakka. Gengu Eyrbekkingar að þeirri vinnu, hver sem þá vinnu vildi taka.
Launin þóttu ágæt, [Dagsbrúnarkaup] þó bretar vildu síðar lækka þau. Vinnan í
Kaldaðarnesi hófst að mestu leiti í byrjun september og störfuðu þar eftir
tökum 40-140 verkamenn af ströndinni. Þótti þessi bretavinna mikið happ fyrir
verkafólk hér um slóðir.
Úr verinu: Í byrjun vertíðar 1940 slitnuðu upp tveir bátar í Þorlákshöfn og gjöreðilögðust. Þessir bátar voru "Freyr" frá Eyrarbakka er átti Jón Helgason og "Svend" frá Stokkseyri, er átti Karl Magnússon. Júlíus Ingvarsson á Eyrarbakka smíðar 16 tonna bát " mb. Ægi" fyrir Jón Guðjónsson ofl.
Slys: Þann 15. maí sökk uppskipunarbátur K.Á. á leið frá Þorlákshöfn til Eyrarbakka; á bátnum voru 2 menn og drukknuðu báðir. [Halldór Magnússon frá Hrauni í Ölfusi á miðjum aldri og Ingvar Þórarinsson í Stígprýði Eyrarbakka, ungur maður. Gamall og lúinn uppskipunarbátur sem "Dúfa" hét og dregin var af mótorbátnum "Hermanni" var hlaðinn saltfiski til verkunar á Eyrarbakka. Skipstjóri á Hermanni var ísleifur Sigurðsson en báturinn var eign KÁ.]
Hernaðarbrölt: Á hernámsdaginn 10. maí 1940 kom hópur breskra hermanna að Kaldaðarnesi og setti sig þar niður. Hófu þeir fljótt ýmsar aðgerðir á Ölfusárbökkum, grófu holur víða á völlum við bakkana næstu 4 daga, og samskonar aðgerð var viðhöfð á Sandskeiði. Þessir staðir urðu síðan bækistöðvar fyrir breska flugherinn og almennt lokuð almenningi. Skotæfingar fóru fram um haustið á skotmark sem sett var niður um 2 km. fyrir sunnann flugvöllinn í Kaldaðarnesi og við Litla-Geysi á Reykjum í Ölfusi var komið upp æfingastöð fyrir riffilskyttur.
Stokkseyringar ráku upp stór augu um hádegisbil sunnudaginn 17. nóvember
1940, þegar þýsk herflugvél merkt með "hakakrossi" birtist þar skyndilega yfir
þorpinu og flaug þrjá hringi lágt umhverfis þorpið og hélt síðan til hafs. Yfir
Eyrarbakka og Kaldaðarnesi var hríðarmugga og fór vélin ekki inn í hana, en
bjart var yfir Stokkseyri þessa stundina. Þetta var í annað sinn sem þýsk
herflugvél sást við sunnanvert landið, en menn höfðu talið að þýskar flugvélar
hefðu ekki flugþol yfir N-Atlantshafið þvert og endilangt. [Í fyrra sinnið, 3. nóv 1940 hafði þýsk njósnaflugvél Heinkel HE-111, flogið
sem leið lá yfir Vestmannaeyjar,
Kaldaðarnes, Sandskeið og vestur yfir Reykjavík þar sem móttökurnar voru
loftvarnarskothríð frá breska setuliðinu.]
SANDKORN: Guðmundur Þorláksson var skipaður skólastjóri Barnaskólans á Eyrarbakka. sr. Gísli Skúlason prestur á Eyrarbakka vígði á Þingvöllum, nýjan grafreit er fyrstur var jarðsettur í Einar Benediktsson skáld. Ungmennafélagið opnar nýja gufubaðstofu (sauna) á Eyrarbakka. Gufubaðstofuna teiknaði Björn Rögnvaldsson húsameistari og var hún tengd samkomuhúsinu. Gufubaðið var opið almenningi tvo daga í viku, en annars notuð í tengslum við íþróttakennslu. Gufubaðið var að mestu kostað af styrktarfé frá ríki, H.S.K, og K.F.E. auk almennra samskota. Útvarpshlustun var orðin almenn á Bakkanum og slík tæki til á mörgum heimilum. Eyrarbakkahreppur vann í hæstarétti mál gegn Fiskiræktar- og veiðifélagi Árnessýslu, sem hugðist taka yfir veiðiréttindi í hreppnum. Daníel Ágústinuson frá Steinskoti gerist leiðarahöfundur á "Tímanum". Eyrbekkingafélag var stofnað í Reykjavík. Stofnendur voru um 80 að tölu og fleyri bættust síðan við. Tilgangur félagsins var að vinna að hagsmuna og -framfaramálum þorpsins í samvinnu við íbúa. Hugmyndir voru uppi um að reisa heyþurkunarstöð (Súgþurkun) samfara því að rafmagn frá Sogsvirkjun yrði leitt niður að strönd. Í Fjölni var sýnd svokölluð "ÍSLANDSKVIKMYND" fyrir troðfullu húsi, en það var Guðlaugur Rosinkranz sem stóð að sýningu myndarinnar á Eyrarbakka og Stokkseyri, sem og í Skaptafellssýslu, en það var í fyrsta sinn sem kvikmynd var sýnd þar um slóðir. [Vík og Kirkjubæjarklaustri.] Ónefndur Eyrbekkingur var svo heppinn að vinna 25 þúsund kr. í Happadrætti Háskólans.
Eyrbekkingafélagið stjórn: Þorleifur Guðmundsson formaður, Ragnar Jónsson varaformaður, Guðmundur Pétursson ritari, Lárus Blöndal Guðmundsson gjaldkeri. Meðstjórnendur voru þeir: Sigrún Gísladóttir, Konráð Gíslason, Aron Guðbrandsson, Ásmundur Guðmundsson, Vilhjálmur S Vilhjálmsson og Ingibjörg Bjarnadóttir.
Stórafmæli:
95 ára, Sigríður Pálsdóttir, er dvalið hefur hjá systurdóttur sinni
Sigurlínu Jónsdóttur og manns hennar Guðmundar Eiríkssonar trésmíðameistara í
Merkigarði.
75 ára, Guðjón Jónsson b. Litlu Háeyri, Hafliðasonar og Þórdísar
Þorsteinsdóttur.
70 ára, Guðbjörg Jónsdóttir frá Ásabergi. Jónína M Þórðardóttir, bjó þá í
Rvík. Málfríður Jónsdóttir frá Laufási
Eyrarbakka.
60 ára: Þórður Jónsson verkamaður. Guðmundur Ásbjörnsson frá Brennu, þá
forseti bæjarstjórnar Reykjavíkur.
50 ára: Kristinn Hróbjartsson bílstjóri, var þá fluttur til Reykjavíkur. Gústava Emilía Hjörtþórsdóttir, verslunarmanns á Eyrarbakka Illugasonar, en hún bjó í Rvík, gift Kristjáni Ó skagfjörð kaupmanni þar.
Gullbrúðkaup: áttu í Vesturheimi Jón Vernharðsson Leifur frá Stokkseyri og
Finnbjörg Finnsdóttir frá Eyrarbakka.
Gestir: Námsmenn í Þjóðmálafræðum á vegum Framsóknarflokksins sóttu Bakkann heim.
U.M.F.E. Sundkennslu starfrækti félagið við héraðssundlaugina í Hveragerði. Sunnudaginn 5. maí var haldið upp á 20 ára afmæli U.M.F.E. komu þá gamlir félagar úr höfuðkaupstaðnum. Gengið var skrúðgöngu undir íslenskum fánum og söng. Lá leiðin frá Barnaskólanum og vestur þorpið endi langt að samkomuhúsinu þar sem fram fór ýmisskonar skemtan í tilefni þessara tímamóta. Þá var félaginu afhent að gjöf, skuggamyndavél. Þá var gert hlé á skemtunninni í 7 ½ klst. Hófst skemtunin svo aftur með skuggamyndasýningu og kvikmyndasýningu, síðan hófst hljóðfærasláttur og dansiball sem stóð til kl. 2 um nóttina.
Látnir: Gunnvör Ólafsdóttir (79) í Frambæ. Jónína K. Magnúsdóttir (78) frá Litlu-Háeyri, dvaldi þá í Reykjavík. Jónína var f. 1861 í Sölkutóft og voru foreldrar hennar Magnús Jónsson og Rannveig Jónsdóttir. Jóreiður Ólafsdóttir (74) frá Hausthúsum. Hjörleifur Hjörleifsson (73) söðlasmiður í Laufási. Einar Guðmundsson (71) harmonikuleikari í Melshúsi. Jónína Guðmundsdóttir (63) frá Einarshöfn.
Eyrbekkingar fjarri: Jórunn Markúsdóttir
(78) í Rvík. Ingunn Guðmundsdóttir (?) Rvík. Friðrika Guðmundsdóttir (77) í
Rvík. Þorbjörg Sigurðardóttir (66) á Selfossi.
Úr grendinni: Á Stokkseyri var gerð tilraun til að nýta fjörugrös og kræðu. Fiskifélagið stóð að. Árni Tómasson hreppstjóri á Stokkseyri gerði tilraunir með aðferð til að lækna mæðuveiki í sauðfé. Tilraunin fólst í því að bræla féð inni með því að brenna baðlyf. Ein kind náði heilsu. Í Þorlákshöfn lét Kaupfélag Árnesinga reisa beinamjölsverksmiðju. Þann 12. júlí 1940 bjargaði björgunarsveitin á Stokkseyri þremur kanadískum hermönnum á flúð í Ölfusá, þar sem mikið straumkast var.[Þessi flúð er við Selfoss og var línubyssa notuð við björgunarstörfin.]
Tíðarfarið: Í enda febrúar 1940 gerði svo mikla snjóa og fárviðri að ekki var fært á milli húsa á Eyrarbakka og Stokkseyri. Elstu menn mundu ekki eftir öðrum eins snjóum hér við ströndina, en skaflar voru mannháir á götum og víða námu skaflar við húsþök. Votviðri var í byrjun maí, en hiti fór hæst í 14.9 °C. Annars viðraði vel um sauðburð. Júní votur og vöxtur hægur. Ágúst var votur framanaf en kartöflugrös féllu síðan í kuldakasti seinni hluta mánaðarins. Í september kom góður þurkakafli og náðust þá hey öll sæmileg. Melfræ þroskuðust seinna en venjulega þetta haust og tíðarfarið óhagstætt til útiverka. Veturinn var að tiltölu hagstæður til áramóta.
Heimild: Alþýðubl. Dagur, Gardur.is, Lögberg,
Morgunbl. Skinfaxi, Sjómannablaðið Víkingur. Tíminn. Tímarit Iðnaðarmanna, Tímarit Verkfræðifélagsins, Veðráttan,
Vísir, Þjóðviljinn, Ægir.
16.08.2014 23:27
Sú var tíðin, 1939
" Vissara að vera edrú þegar heimurinn ferst"
Um þessar mundir var styrjaldarbálið mikla að kvikna í Evrópu með öllum þeim hörmungum sem á eftir fylgdu, en á Bakkanum var allt með kyrrum kjörum og áhyggjur heimamanna af ástandinu voru litlar í fyrstu. Eyrbekkingar, Stokkseyringar og Sandvíkingar biðu eftir rafmagninu frá Sogsvirkjun, en virkjunin var í eigu Reykjavíkurkaupstaðar. Verkfræðilegri hönnun línunar var löngu lokið og áætlað var að framkvæmdir gætu hafist á þessu ári, og nú þegar virtist vera að koma hreyfing á það mál á Alþingi, ógnaði stríðsástandið í Evrópu nauðsynlegum efnisfluttningum til Íslands. Þegar leið á árið fóru áhyggjur manna vaxandi, Rússar voru komnir í stríð við Finnland og þjóðverjar albúnir að sölsa undir sig vesturhluta evrópu og enn meiri dýrtíð yfrvofandi. Stokkseyringar söfnuðu undirskriftum og báðu þess að áfengisversluninni í Reykjavík og Hafnafirði yrði lokað á meðan styrjöldin stæði yfir. Samtals voru 191 stokkseyringur þess sinnis að betra væri að vera edrú í þessu ástandi. Eyrbekkingar ætluðu ekki vera eftirbátar Stokkseyringa frekar en fyrri daginn og skrifuðu 248 kjósendur á Eyrarbakka undir samskonar bænaskjal, Voru það nær allir kjósendur þorpsins, nema presturinn. "já vissara að vera edrú þegar heimurinn ferst" varð einhverjum að orði. Hreppsnefnd Eyrarbakkahrepps sendi svo sérstaka áskorun til Alþingis um að taka fyrir allan innfluttning á áfengi á meðan styrjöld stæði yfir.
Úr verinu:
Fiskimálanefnd veitti styrk til
bátakaupa, Jóni Guðjónssyni og félögum hans fyrir 15 tonna báti. Annars hófu
einungis tveir bátar vetrarvertíð héðan af Bakkanum með 20 mönnum, en í
Þorlákshöfn sem var orðin er hér er komið sögu, stærsta verstöðin austanfjalls
og voru gerðir út þaðan 10 vélbátar og 9 frá Stokkseyri og viðbúnaður því
mikill á þessum stöðum. Tveir bátar frá Stokkseyri, Hersteinn og Hásteinn voru
leigðir til síldveiða fyrir norðurlandi. Brim og straumar hömluðu sjósókn, en
ársafli Bakkabáta voru 57 lestir. Í Þorlákshöfn var byggð ný bryggja 45 m löng.
Maður féll fyrir borð af mótorbátnum "Ingu" frá Stokkseyri þegar ólag reið yfir
og druknaði. Hann hét Magnús Kristjánsson háseti og var aðkomu maður. Annað
ólag hvolfdi "Ingu" og menn fóru í sjóinn, en fengu björgun. Þangi var safnað á
Eyrarbakka fyrir landi Stóra-Hrauns og Stokkseyri til þurkunnar í Hveragerði.
Var þangið flutt á land með fjórum prömmum.
Skemtanir: Álfadans héldu "Brimverjar",
Stokkseyringar þann 12. janúar og Eyrbekkingar 13. janúar. Margt var um
aðkomumenn úr nærsveitum. Sjálfstæðisflokkurinn hélt skemtun í Fjölni 4. febr.
með kaffidrykkju, ræðuhöldum og ættjarðarsöngvum, en hátíðinni lauk með
dansleik. Ræðumenn voru þeir Sigurður Kristjánsson, Jón Jónsson bóndi á Hnausi,
Bjarni Júníusson bóndi á Seli, Ólafur Helgason kaupm. Sigurður Kristjánsson
kaupm, Ólafur Ólafsson kaupm, Selfossi og Jón Sigurðsson á Hjalla í Ölfusi.
Söngmenn voru þeir Pétur og Árni Jónssynir frá Múla ásamt Helga Hallgrímssyni.
Menntaskólanemendur úr Reykjavíkurbæ komu á Bakkann og settu upp leiksýninguna
"Einkaritarinn" eftir Charles Hawtrey. Ólafur Ólafsson kristniboði sýndi í
Fjölni kvikmynd um kristniboðið í Kína. en auk þess hélt hann almenna
kristnisamkomu og barnaguðþjónustu í kirkjunni.
Pólitíkin á Bakkanum: Nýverið hafði verið stofnað Sjálfstæðisfélag á Eyrarbakka fyrir forgöngu Gunnars Thoroddsen og kosin stjórn til bráðabirgða. Ný stjórn var nú kjörin: Jóhann Ólafsson form. Pálína Pálsdóttir ritari og Kristinn Jónsson gjaldkeri.
Verkalýðsmál: Báran mótmælir ríkislögreglunni
Bandalag stéttarfélaga hélt fund á Eyrarbakka og Stokkseyri um vorið og
sóttust eftir því að félögin hér gengju til liðs við BS og segðu sig úr ASÍ, en
Vlf. Bjarmi á Stokkseyri hafnaði því í kosningu þann 1. maí, en málið féll á
jöfnum atkvæðum. Formaður Bjarma var Helgi Sigurðsson. Framkvæmdastjóri
Alþýðusambandsins Óskar Sæmundsson var mættur á staðinn. Lét hann hengja upp
auglýsingu í glugga Landsímahúsins á meðan atkvæðagreiðsla fór fram, en þar
stóð eftirfarandi: " Að gefnu tilefni tilkynnist hér með, að meðlimum sambandsfélaga
Alþýðusambands Íslands er óheimilt að vinna ásamt mönnum, sem eru utan
Alþýðusambands Íslands". Eftirmál urðu allnokkur af þessari hótun og á
það bent að samkvæmt því væri ASÍ félögum óheimilt að starfa með
Dagsbrúnarfélögum. [ Félagslögin voru þó strangt
tiltekið þau sömu hjá öðrum félögum hvað þetta varðaði. ]
Hinn 2. nóvember 1939 var haldinn fjölmennur aðalfundur
í Vlf. "Báran" á Eyrarbakka og þar rætt um erindi Bandalags stéttarfélaga og
borinn upp til atkvæðagreiðslu, tillaga þess efnis að félagið segði sig úr
Alþýðusambandinu og gengi til liðs við BS. Tillagan var felld, en gagntillaga
samþykkt. Þar er tilraunum BS til stofnunar sérstaks landsabands mótmælt og "Telur fundurinn, að stofnun slíks sambands,
sem getið er í nefndu bréfi. mundi einungis leiða til sundrungar innan verka
lýðssamtakanna, þar sem víst er að meginið af þeim félögum, sem eru í
Alþýðusambandinu.verða þar áfram, og samþykkir því fundurinn að félagið standi
áfram sem hingað til innan Alþýðusambandsins og skorar á önnur verkalýðsfélög
að gera hið sama......." [ Bandalag stéttarfélaga
var að hluta til sósialísk hreyfing, en í það gengu 22 félög. Alþýðusambandinu
var hinsvegar í stórum dráttum stýrt frá skrifstofu Alþýðuflokksins.] Þá skoraði Vlf. Báran á sitjandi Alþingi
að breyta lögum um gengisskráningu, svo haga mætti gengi til að vega kaupgjald
upp sem nemur verðbólgu. Annar fundur var haldinn í Vlf. Bárunni á Eyrarbakka
27. nóvember 1939. Fundurinn mótmælti harðlega frumvarpi Hermanns Jónssonar um
fjölgun lögreglumanna. Taldi fundurinn að fjölgun lögreglumanna vera viðbúnaður
yfirstéttarinnar til að berja niður verkalýðsbaráttuna.
Sandkorn: Eyrbekkingurinn Sigurjón Jónsson gerðist skipstjóri á Gísla J Johnsen VE, Nýjum bát í eigu Guðlaugs Brynjúlfssonar frá Vestmannaeyjum. Báturinn var sérstakur að því leiti, að hann var útbúinn raflýsingu og talstöð. Sigurjón ferjaði einnig nýjan bát, "Baldur VE" frá danmörku til eyja og var sá bátur einnig útbúinn talstöð.> Íshúsið á Eyrarbakka var til sölu, en það átti Jón Stefánsson á Hofi. >Barnastúka var stofnuð, og bar heitið "Árroði nr. 112" með 40 félaga. Talsmaður stúkunnar var Guðmundur Þorláksson skólastjóri. Þá var stúkan "Eyrarrósin" endurvakin, en áhugi á bindidismálum var vaxandi um þessar mundir. >Fyrrum beitustrákur og áflogaseggur, sr. Sigurgeir Sigurðsson frá Túnpríði, var á þessu ári vígður biskup yfir Íslandi. Hann var sonur Sigurðar regluboða og Svanhildar Sigurðardóttur. Annar Eyrbekkingur hafði verið prestur í ameríku í áratugi án þess að hingað spyrðist, en það var sr. Hans Thorgrímsen er héðan fór 18 ára. Þá má nefna sr. Bjarna Þórarinsson sem tengdason Eyrarbakka, en hann var giftur Ingibjörgu Einarsdóttur borgara Jónssonar, systir Sigfúsar Einarssonar tónskálds. Ennfremur skal nefna sr. Eirík J Eiríksson er síðar var prestur á Þingvöllum. Svo er rétt að nefna Gunnar Benediktson kennara, en hann var prestlærður. Þá var þjónandi prestur sr. Gísli Skúlason á Stóra-Hrauni, svo því fór fjarri að Eyrbekkingar þyrftu að örvænta um sáluhjálp á þessum tímum. >10 fjölskyldur voru valdar af Eyrarbakka, sem víðar til manneldisrannsókna, er fyrir stóð dr. Skúli Guðjónsson fyrir tilstilli ríkisstjórnarinnar, en hvað sem því leið hafa Eyrbekkingar löngum þótt alveg sérstakt rannsóknarefni. >Frá Gamla-Hrauni hafa einatt komið fræknir skipasmiðir í aldanna rás. Gunnar Marel Jónsson stýrði smíðinni á "Helgi" VE 333 sem byggður var í Vestmannaeyjum fyrir Helga Benediktsson, og var þá stærsta vélskip sem byggt hefur hér á landi til þessa, en það var 33,3m á lengd og 7,3m á breidd og taldist 119 tonn. "Helgi" var 11. skipið sem Gunnar hafði smíðað. Bræðraborg Eyrarbakka var byggt þetta ár.
Sóttu Bakkann heim: Félagar í Skósmíðafélagi Reykjavíkur gerðu sér glaðan dag á Bakkanum.
Látnir: Helga Grímsdóttir (83) í Norðurbæ (Einarshöfn). Guðni Jónsson, (77) frá Hausthúsum, [síðar að Óseyrarnesi]. Guðrún Jóhannsdóttir (74) bónda frá Mundakoti. Hennar maður var Jón Einarsson hreppstjóri, frá Heiði á Síðu en móðir hennar Elín Símonardóttir. Gísli Pétursson læknir (72) hér og veðurathugunarmaður, fyrrum héraðslæknir, en hann var fæddur í Ánanaustum Rvík. Kona hans var Aðalbjörg Jakopsdóttir. Margrét Guðbrandsdóttir (72) frá Bráðræði. Vilhjálmur Ólafsson (72) frá Deild. Ingveldur Eiríksdóttir (69) frá Stíghúsi. Lars Lauritz Andersen Larsen (69) bakarameistari í Gamla-Bakaríinu. Hann var fæddur í Horzens í Danmörku og kom til Íslands á vegum Lefolii. Hann andaðist á sjúkradeild Elliheimilisins Rvík. Kona hans var Kolfinna Þórarinsdóttir. Vilbergur Jóhannsson (40) sjómaður frá Helgafelli. Kona hans var Ragnheiður Ólafsdóttir. Vilbergur var sonur Jóhanns V Daníelssonar kaupmanns.
Eyrbekkingar fjarri: Guðrún Björnsdóttir, (75) ekkja bjó í Reykjavík, en frá Akri Eyrarbakka og jarðsett hér. Guðjón Guðmundsson, maður á sextugsaldri lést af völdum eldsvoða á bænum Kotvogi í Höfnum. Próf. Sigfús Einarsson (62) [borgara] tónskáld af hjartaslagi. Hann var fæddur að Skúmstöðum 1877.
Náttúran: Þurkasumar og sólríki á Bakkanum. Mesta eldingaveður í manna minnum gekk á 24. júlí og stóð í eina og hálfa klukkustund. Mest var þrumuveðrið í Ölfusinu með skýfalli og eldglæringum sem lustu niður hvað eftir annað, en heppilega varð engin fyrir tjóni. Viku áður höfðu kviknað miklir mosaeldar í Eldborgarhrauni í Ölfusi [Umhverfi Raufarholtshelli] og reyk lagt yfir byggðina, ef þannig stóðu vindar. Úrhellið dugði hvergi til að slökkva þessa miklu elda og tilraunir manna til þess dugðu ei heldur, svo eldarnir loguðu samfellt vikum saman, fram til hausts. Landskjálftar fundust á Eyrarbakka og víðar í Flóanum snemma í ágústmánuði og svo um mánuðinn miðjan bærðist aftur jörð, en skaðlaust. Hvað harðast, bæði skiptin í Hveragerði. Katöfluuppskera þótti góð, þrátt fyrir sumarþurka og svo var einig með gulrætur. Gullbrá nemur land á Eyrarbakka, blómið svipar til sóleyjar, gult blóm en með rauðum doppum. [Virðist ekki hafa náð að festa sig í sessi á þessum slóðum til langframa.]
Úr grendinni: Búnaðarfélag Stokkseyrar var 50 ára á þessu ári, en það var stofnað 22. nóvember 1889. Bakaríið á Stokkseyri, eign "Bjarma" brann til kaldra kola, en það var síðasta byggingin sem eftir stóð af svokallaðri "Ingólfstorfu", sem fyrrum varð eldi að bráð. Í húsinu var starfsemi Pöntunarfélags verkamanna á Stokkseyri og Ólafur Þórarinsson rak þar brauðgerð. Mótorbáturinn "Vonin" hélt úti fólksflutningum frá Stokkseyri til Vestmannaeyja. Knarrarósviti var tendraður 31. ágúst þetta ár. Vitinn var þá talin hæsta bygging á landinu, eða 25 m og fyrsti vitinn sem byggður er úr járnbentri steinsteypu. Ljósmagn vitans var mælt 6000 kerti/watt sem var í meðallagi íslenskra vita. Páll Gunnarsson bóndi á Baugstöðum var ráðinn vitavörður, en yfirsmiður var Sigurður Pétursson frá Sauðárkróki.
Heimild: Alþýðubl. Bjarmi, Búfræðingurinn, Morgunbl. Tíminn, Veðráttan, Vísir, Þjóðviljinn, Ægir
09.08.2014 20:10
Verðlaunagarður



20.07.2014 14:31
Særeiðar á ströndinni


22.06.2014 11:49
Jónsmessuhátíðin 2014







05.06.2014 21:42
Sú var tíðin, 1938
Landbúnaður
skilar þorpsbúum arði
Á Bakkanum voru tímarnir breyttir, sjávarútvegurinn svo að segja horfinn og
þess í stað að byggjast upp í Þorlákshöfn og verslunin hefur að mestu flutt sig
að Selfossi. Höfuð máttarstoðir þorpsbúa voru því fallnar. 2/5 hlutar íbúanna
höfðu flutt burt á undangengnum 25 árum, allt fólk á besta aldri. Eftir sátu
barnafjölskyldur og gamalmenni. Þessa þróun hafði nú tekist að stöðva og fólki
tekið að fjölga lítilega á nýjan leik. Ný máttarstoð, "landbúnaðurinn" hafði
dafnað um nokkurn tíma og skilað þorpsbúum arði. Stórfelld kartöflurækt vegur
þar einna þyngst ásamt góðum skilyrðum til sauðfjárræktar, en þar koma til
töluverð landakaup hreppsins og framræsting þeirra. Nýbýlið Sólvangur var
stofnað á 33ha. landi ofan við þorpið og kúabúskapur hafinn þar. Menn voru þó
ekki tilbúnir að gefast upp á fiskveiðum og var farið í það að kalla eftir
fjármagni til hafnarbóta. Var Egill Thorarensen kaupfélagsstjóri kosinn til
þessa leiðangurs. [ Þjóðtrúinn á Eyrarbakka hafði áður fyr talið þann mann
gegna hlutverki "tortímandans" í þessu máli.] Annað helsta baráttumál Eyrverja
um þessar mundir var að fá byggða raflínu frá Sogsvirkjun til Eyrarbakka og
Stokkseyrar. Þá þegar var hafinn undirbúningur að hönnun og útreikningum á
Eyrarbakkalínu frá Ljósafoss orkuverinu þá um haustið.[ Talið var að rafvæðingin mundi bera sig miðað við 150-260W notkun á
mann, en það svarar 3 til 4 ljósaperur á íbúa. Þess skal geta að nú í sumar
(2014) var verið að taka hluta af þessari línu niður]. En nú var
heimstyrjöldin á næstu grösum, svo 8 ár liðu þar til fyrsti staurinn var
reistur.
Stjórnmálin við ströndina
Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur og Kommúnistaflokkurinn á Eyrarbakka
sameinuðust um listaframboð fyrir sveitastjórnarkosningar sem fram fóru 30.
janúar 1938. Var listinn af sumum kallaður "Þjóðfylkingin" sem borinn var fram
af verkalýðsfélaginu Báran, með stuðningi vinstriflokkanna þriggja. Listinn var
þannig skipaður: Bjarni Eggertsson
(A) Bergsteinn Sveinsson (F) Gunnar Benediktsson (K) og Þorvaldur
Sigurðsson formaður Bárunnar (A) í baráttusæti. Vigfús Jónsson (A) Þórarinn
Guðmundsson (F) Jón Tómasson (A) Sigurður Heiðdal (F) og Ólafur Bjarnason
(A). Í hreppsnefnd voru 7 sæti og var Sjálfstæðisflokkur
(B) þar í meirihluta með 6 sæti. Kosningaúrslitin urðu þannig að íhaldið (B)
fékk 154 atkvæði og 3 menn. Sameinaður listi "Bárunnar" (A) 154 atkvæði og 3
menn. Því varð að hafa hlutkesti um úrslitaatkvæðið í hreppsnefnd og hlaut
sjálfstæðisflokkur fjórða manninn. Sjálfstæðismenn í hreppsnefnd voru þeir
Ólafur Helgason kaupmaður, Jóhann Bjarnason útgerðarmaður, Jón Jakopsson bóndi
og Sigurður Kristjánsson kaupmaður.
Á Stokkseyri sameinuðust Framsókn og Kratar um lista, en Kommúnistar fóru fram sér. Sameinaði listin á Stokkseyri var þannig skipaður: Helgi Sigurðsson (A), Sigurgrímur Jónsson (F), Björgvin Sigurðsson (A), Sigurður I Gunnarsson (A) og Nikulás Bjarnason (A). Kosningaúrslit urðu þau að sameinaður listi (A) fékk 98 atkv. og 3 menn. Kommúnistar (B) 31 atkv. og engann mann kjörinn. Sjálfstæðisflokkur (C) 104 atkv. og 4 menn. Bjarna Júníusson, Símon Sturlaugsson, Þorgeir Bjarnason og Ásgeir Eiríksson.
Samband ungra kommúnista (S.U.K.) hélt fjölmennt æskúlýðsmót við Þrastalund, sóttu þangað ungmenni frá Eyrarbakka, Stokkseyri, Reykjavík og Hafnarfirði um hvítasunnu og reistu þar tjaldbúðir.
Tvö sjálfstæðisfélög voru stofnuð, annað á Eyrarbakka [23.10.1938] og í stjórn þess sátu Þorkell Ólafsson, Kristján Gíslason, Guðmundur Jónsson, Þorgrímur Gíslason, og Sigurður Kristjánsson oddviti. Hitt félagið var stofnað í Sandvíkurhreppi [22.10.1938], en fyrsti formaður þess var Sigurður Ó Ólafsson í Höfn. Þá var í undirbúningi stofnun sjálfstæðisfélags á Stokkseyri.
Sósíalistafélag var stofnað skömmu síðar á Eyrarbakka, [20.11.1938] og í stjórn þess sátu: Gunnar Benediktsson, form. Bergur Hallgrímsson, Þórður Jónsson, Vigfús Jónsson og Stefán Víglundsson.
1. maí
haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn í Árnessýslu 1938.
Á fjölmennum fundi verka og sjómannafélagsins Bárunnar voru borin upp
mótmæli við brottvikningu Héðins Valdimarssonar úr Alþýðuflokknum, en
ágreiningur var milli hans og Alþýðusambandsstjórnarinnar í sameiningarmálum.
[Héðinn var þingmaður fyrir Alþýðuflokkinn og átti þátt í að sameina
vinstrimenn.] Í framhaldi samþykkti Báran á Eyrarbakka og Bjarmi á Stokkseyri
vantraust á Alþýðusambandsstjórnina í samfloti með Dagsbrúnarfélögum og fleirum.
Leiddi það til þess að Alþýðuflokkurinn klofnaði.
Á fundi Bárunnar 16. apríl 1938 var samþykkt áskorun um að A.S.Í. beitti
sér fyrir því að afgreiðslu frumvarps á Alþingi um stéttarfélög og vinnudeilur
yrði frestað þar til félögin og sambandið hafi fengið tíma til að kynna sér
frumvarpið og fjalla um það. 1. maí var
haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn í Árnessýslu og var það verkalýðsfélagið
"Bjarmi" sem stóð fyrir hátíðarhöldunum. Fjölmargar ræður voru fluttar og
verkalýðurinn hvattur til einingar. Um kvöldið var svo haldinn dansleikur.
Fundur var haldinn í Bárunni í oktober. Þar var þess krafist samhljóð að
skipulagi Alþýðusambandsins yrði breitt í hreint lýðræðislegt verkalýðssamband,
án tillits til stjórnmálaskoðanna. Á fundinn mættu 82 félagsmenn og var hart
tekist á um frávísunartillögu, en hún kol felld. Þorvaldur Sigurðsson formaður
Bárunnar flutti af Bakkanum um haustið og í desember var haldinn aðalfundur í
félaginu og nýr formaður kosinn. Um formannsembættið tókust á þeir Gunnar
Benediktsson fyrir sósíalista og Kristján Guðmundsson fyrir krata og sigraði
hinn síðarnefndi með 56 atkvæðum gegn 38. Aðrir í stjórn komu allir úr herbúðum
krata, Guðmundur Jónatan Guðmundsson skipstjóri, varaformaður með 52 atkv. Í
meðstjórn Þórarin Guðmundsson verkamaður, Hjörtur Ólafssson kennari og Eyþór
Guðjónsson verkamaður. Í varastjórn sátu Ólafur Ólafsson verkam. Marel
Þórarinsson verkam. og Sigfús Árnason verkam. Um 100 félagsmenn mættu og þótti
fundarsókn vera með eindæmum góð.
Iðnaðarmannafélag Eyrarbakka fékk 800 kr. ríkisstyrk til skólahalds.
Í verinu: Ógæftir háðu sjósókn framan af vertíð Eyrverja. Af Bakkanum gengu aðeins 3 vélbátar, en 9 bátar af Stokkseyri og frá Þorlákshöfn gengu 10 opnar trillur. Afli dágóður þegar gaf á sjó, en fiskur hafði þá oft legið lengi í netum þegar unt var að vitja. Heldur minna aflaðist frá Eyrarbakka [58 lestir] en árið á undan, en meiri afli barst á land á Stokkseyri [260 lestir] og í Þorlákshöfn [194 lestir]. Um 30 manns störfuðu við sjávarútveg frá Eyrarbakka um þessar mundir.
Látnir: Ingigerður Jónsdóttir (84) frá Nýjabæ. Oddur Oddsson (71) gullsmiður, þjóðfræðaritari og símstjóri á Ingólfi Eyrarbakka. [bjó lengi í Regin] Guðmundur Jónsson (71) frá Kaldbak. Þórður Snorrason (60) verslunarmaður frá Káragerði, kona hans var Sigríður Jónsdóttir. Bjarnfinnur Þórarinsson (49) Búðarstíg, sjómaður Bjarnasonar frá Nýjabæ, Eb. Kona hans var Rannveig Jónsdóttir. [Börn þeirra voru Hjalti, Sverrir, síðar skipstjóri og Guðrún (Stella).] Þórarinn Guðmundsson (48) frá Vorhúsum. Árni Bjarnason (27) sjómaður Tjörn.[fórst með Víði VE.] Hrafnhildur Haraldsdóttir (15) Brennu. Sveinbarn Jónsson (0) Smiðshúsum.
Eyrbekkingar fjarri: Sólveig Eiríksdóttir (47) í R.vík Pálssonar. Jón Árnason (84) rennismiður, þá í Keflavík. [vel þekktur fyrir rokkasmíði] Jón Ásbjörnsson (62) verslunarmaður frá Brennu, bjó í Rvík, tók þátt í sveitarstjórnarmálum.
Víðfrægur sægarpur, Jón Sturlaugsson frá Stokkseyri lést þetta ár.
Sandkorn: Sjómannanámskeið á Eyrarbakka hélt Sigurjón P Jónsson skipstjóri. Eyrbekkingurinn Axel Jóhannsson skipstjóri á togaranum "Maris Stella" frá Boston setti aflamet þar vestra. Kvenfélagið á Eyrarbakka mintist hálfrar aldar afmælis síns þann 25. apríl 1938. Vikur hefur verið numinn úr fjörunni sem byggingarefni í hús, en það var Pípuverksmiðjan H/F sem hóf að steypa hús úr Eyrarbakkavikri. Reis fyrsta vikurhúsið í Kleppsholti R.vík. Byrjað var að byggja vitann við Baugstaði, en hann átti upphaflega að rísa á Loftstaðahól.[ http://brim.123.is/blog/2012/07/01/620567/ ] Margir höfuðborgarbúar fengu sér bíltúr með leigubílum út á Eyrarbakka og Stokkseyri um verslunarmannahelgina, en fátítt var um einkabifreiðar á þessum árum. Sigurgeir Sigurðsson regluboða Eiríkssonar verður biskup. Templarar á Eyrarbakka stofnuðu nýja stúku er tók nafn sitt af eldri stúku Eyrbekkinga, "Eyrarrós". Æðstitemplar var Sigurður Kristjánsson kaupmaður og oddviti, en umboðsmaður Gunnar Benediktsson skólastjóri. [ Þeir Gunnar og Sigurður voru samherjar á þessu sviði, en á öðru, harðir pólitískir andstæðingar] Bílaöldin átti 25 ára afmæli á Íslandi, (1913) en fyrst bíllinn kom þó töluvert fyr, en það var bíll Didlev Thomsen. (Thomsen-bíllinn 1905, en honum var ekið í reynsluakstri frá Reykjavík til Eyrarbakka og var bifreiðastjóri í þessari ferð var Tómas Jónsson.) Árnesingum var mörgum í nöp við bílanna og vildu banna þeim allar leiðir. Skipakomur: es. Selfoss kom hér við miðsumars.
Iðnaður: Gólfdúkagerð starfaði hér þennan vetur, þó í smáum stíl. Að framleiðslu þessari stóð Samband Íslenskra heimilisiðnaðarfélaga og voru konur þar í aðalhlutverki. Nokkuð var einig framleitt af treflum og gólfklútum til sölu sem gafst vel.
Sjóslys: Tveir menn frá Eyrarbakka fórust með vélbátnum "Víði" frá Vestmannaeyjum, þann 6. febrúar 1938, þeir Jón Árni Bjarnason háseti frá Tjörn og Halldór V Þorleifsson háseti frá Einkofa, báðir ungir og ókvæntir. Aðrir í áhöfn voru Vestmannaeyingar og fórust þeir allir.
Þann 17. mars 1938 brimaði snögglega við Eyrar, en þá voru allir bátar á sjó. Einn Bakkabátur náði heimalendingu, en hinir tveir komust inn í Þorlákshöfn. Á Stokkseyri náðu þrír bátar lendingu, en þeim fjórða "Ingu" hlekktist á í sundinu er brotsjór reið yfir og tók af stýrishúsið og tvo menn er þar voru og druknuðu þeir báðir. Fimm öðrum skipverjum sem á bátnum voru bjargaði Ingimundur Jónsson frá Strönd. Þeir druknuðu hétu: Guðni Eyjólfsson (29 ára) formaður á "Ingu" og Magnús Karlsson vélstjóri. Fjórir aðrir Stokkseyrarbátar [Fríður, Haukur, Hersteinn og Síssí] hurfu frá og héldu til hafs. Lík Guðna fanst síðan landrekið vestan Stokkseyrar í byrjun maí. [Í ofsaveðri sem gekk yfir um haustið sleit Sísí upp og skemdist mikið, en bátinn átti Guðmundur Böðvarsson. Í sama veðri sleit "Inga" upp, sem var þá á Eyrarbakka, en skemdir urðu litlar.]
Úr grendinni: Í Hveragerði var sett upp þangmjölsverksmiðja og var þanginu ekið þangað frá Eyrarbakka og Stokkseyri og þurkað við hverahita. Skaffaði þetta nokkrum mönnum vinnu, en mjölið var nýtt til fóðurbætis. Bílvegur var ekki kominn til Þorlákshafnar, og ef maður þurfti að komast á sjúkrahús varð að bera sjúklingin 2 ½ klst. leið út að vegi. [Alvarleg slys voru orðin nokkuð tíð hér austanfjalls á þessum árum með tilkomu vélvæðingarinnar, en ekkert sjúkrahús var enn risið í héraðinu og varð að flytja alla sem þess þurftu vestur fyrir fjall.]
Tíðin: Fárviðri gekk yfir landið þann 5. mars og olli víða miklu tjóni í sveitum sunnanlands. Hér á Bakkanum fauk þakið af Barnaskólanum, Veiðafærageymsla Jóns Helgasonar fauk, og reykháfar á nokkrum húsum gáfu sig. Kartöflur voru settar niður á tímabilinu 6. maí til 9. júní. Uppskera var góð þetta árið. Þann 23. og 24. oktober 1938 gerði sunnan ofsaveður. Stórbrim gerði í kjölfarið, sem vant er til í slíkum veðrum. Sjór gekk þá inn um hliðin á sjógarðinum og yfir kartöflugarða þar fyrir innan og út fyrir götu. Þá braut brimið talsverðan hluta sjógarðsins austan Hraunsár, áleiðis til Stokkseyrar. Þann 6. nóvember gerði óvenju mikið ísingaveður sunnanlands og skemdust símalínur víða, svo sem hér á Eyrarbakka og í Ölfusi. 16. desember gerði ofsaveður, en heppilega voru allir bátar komnir á hlunna.
Heimild: Alþýðubl. Bíllinn, Morgunbl. Nýja
Dagblaðið, Nýtt land, Verkamaðurinn, Vesturland, Vísir, Þjóðviljinn.
26.03.2014 22:38
Sú var tíðin, 1937
Í Eyrarbakkahreppi 1937 voru 585 íbúar. Hreppstjóri var Magnús
Oddson stöðvarstjóri, sem og þetta ár gekk að eiga Guðnýju Sigmundsdóttur
símamær. Oddviti var Sigurður Kristjánsson kaupmaður. Um heilsufarið sá Lúðvík
Nordal læknir. Forstjóri á andlega sviðinu var sr. Gísli Skúlason. Andinn yfir
þorpsbúum var frekar daufur þetta árið, því sorglegt sjóslys var skamt frá
þorpinu í vonsku veðri, og án þess að nokkur vissi fyrr en um seinan varð og
engum bjargað.
Sjóslys: Tólf
breskir sjómenn farast.
Enski Togarinn Lock Morar frá Aberdeen fórst þann 31. mars út af
Gamla-Hrauni á Eyrarbakka með 12 manna áhöfn. Hinir látnu voru jarðsungnir á
Eyrarbakka. Hin fyrsti var jarðsunginn 7. apríl og var líkfylgdin allfjölmenn.
Breski fáninn var breiddur yfir kistuna á meðan á athöfninni stóð. Samkomubann
var víð líði, en aflétt um stundarsakir, svo greftrun gæti farið fram. Eitt
líkið rak alla leið til Grindavíkur. Nánar
um þetta sorglega sjóslys: http://brim.123.is/blog/2010/03/31/444333/ Þá druknuðu tveir piltar á kajak við Þorlákshöfn,
er bátnum hvolfdi. Ungu mennirnir voru frá Hafnarfirði. Þá strandaði skonnortan
"Hertha", en hún var með timburfarm. Mikið brim var og suðaustan rok, svo
festar slitnuðu, en menn höfðu verið teknir í land nokkru fyr. Skipið brotnaði
í fjörunni og ónýttist, en ýmislegt dót úr flakinu var selt. [ Hertha var frá
Marstal í danmörku, þrímöstruð skonnorta með 100 hestafla vél, 200 smálestir að
stærð, byggt 1901.]
Kaupfélag Árnesinga átti þrjá trillubáta sem gerðir voru út á Bakkanum,
"Framsókn", "Hermann" og "Jónas Ráðherra". Það óhapp vildi til í stormviðri að
hinn síðastnefndi sökk í höfninni.
Eyrarbakki
hafnarbær fyrir Reykjavík:
Svo bar við um vorið að timburlaust var í höfuðstaðnum, svo hvergi fanst
spíta þó leitað væri í hverjum krók og kima. Á Eyrarbakka voru hinsvegar til
heilu skipsfarmarnir af byggingatimbri sem kaupfélagið flutti inn og brugðu
húsasmiðir í Reykjavík á það eina ráð að senda bílalest eftir timbrinu og
flytja til Reykjavíkur. Einhvern vegin gátu íhaldsmenn fundið það út í sínu
sinni, að þessi skipan mála væri bölvun kommúnismans.
Félagsmál: Stokkseyringar halda veislu.
Í stjórn verkamannafélagsins Bárunnar á Eyrarbakka voru : Þorvaldur
Sigurðsson skólastjóri, formaður. Vigfús Jónsson, ritari og Jón Tómasson,
gjaldkeri. Á Stokkseyri var formaður Bjarma: Björgvin Sigurðsson, en félagið
var nú 33 ára og Stokkseyringum var haldin mikil veisla. Þann 27. oktober var
haldinn fundur í Bárunni, en þar var þess krafist að Alþýðuflokkurinn tæki
þegar upp samvinnu við Kommúnistaflokkinn,
sem leitt gæti til sameiningu þeirra. Í kjaramálum bar hæst áskorun til
Alþýðusambandsþings að segja upp samningi um vegavinnukjörin, sem þóttu léleg.
Félag Iðnaðarmanna í Árnessýslu: Formaður þess var Eiríkur Gíslason
trésmíðameistari á Eyrarbakka og félagsmenn all nokkrir. Iðnfélagið gekk í Landsamband
iðnaðarmanna á árinu.
Fískifélagsdeild var hér, sem bjarni Eggertsson veitti forustu og á
Stokkseyri Jón Sturlaugsson, en þessi félög beittu sér fyrir ýmsum
framfaramálum í sjávarútvegi.
Skóli: Presturinn kom án hempunar, skilin eftir norður í Saurbæ.
Unglingaskóli starfaði nú annan veturinn sinn, en honum veitti forstöðu sr.
Gunnar Benediktson frá Saurbæ. Námsgreinar voru íslenska, reikningur og danska.
Skólahaldi þessu var mjög vel tekið af þorpsbúum og höfðu flestir drengir 14-
17 ára sótt skólann. Um sr. Gunnar var sagt að hempuna hafði hann skilið eftir
norður í Saurbæ, því nóg væri um presta á Bakkanum.
Stjórnmál: Kommúnistar
fengu ekki að hlýða á hina ungu Íhaldsmenn.
Það var kosið til Alþingis þetta ár. Ungliðar "Breiðfylkingingarinnar", boðuðu
til opinbers fundar á Eyrarbakka og Stokkseyri, en fáir mættu. Almennum
borgurum sem mættu til fundarins, en voru ekki hliðhollir Breiðfylkingunni var
vísað á dyr. [ Samtök íhaldsamra þjóðernissinna, eða m.ö.o Nasistaflokkur.]
Skömmu síðar, eða um hvítasunnu hélt Samband ungra Sjálfstæðismanna fund á báðum
stöðum, og var Stokkseyrarfundurinn fjölmennari. Á Eyrarbakkafundinn fengu
Kommúnistar ekki aðgang, [ Fyrir
kommúnista var Gunnar Benediktsson rithöfundur í forsvari, en hann var einig
skólastjóri unglingaskólans.] en fundurinn var engu að síður opinn öðrum flokkum. Ræðumenn á
Eyrarbakka voru Bjarni Benediktsson, Jóhann G. Möller og Guðmundur Benediktsson.
Á Stokkseyri töluðu Kristján Guðlaugsson, Björn Snæbjörnsson og Jóhann
Hafstein. [Framsókn var sigurvegari kosninganna, en Alþýðuflokkur og Bændaflokkurinn
tapa. Aðrir flokkar standa í stað]. Um haustið var stofnað Alþýðuflokksfélag á
Eyrarbakka fyrir tilstilli Jónasar Guðmundssonar, sérlegum erindreka
Alþýðuflokksins. Stofnendur voru 23 verkamenn og sjómenn á Bakkanum. Formaður
var kjörinn Þorvaldur Sigurðssson skólastjóri,
Guðmundur J Jóanatan ritari og Gestur Ólafsson sjómaður, gjaldkeri.
Endurskoðendur voru Vigfús Jónsson og Jón Tómasson. Skömmu síðar var stofnað
Alýþuflokssfélag á Stokkseyri, formaður var kjörinn Björgvin Sigurðsson, Helgi
Sigurðsson ritari, Jón Guðjónsson gjalkeri. Stofnendur voru 33. [Alþýðuflokksfélagið
var stofnað á 33. afmælisdegi "Bjarma" 31. oktober, en það var stofnað 1904, á
sama ári og Báran á Eyrarbakka.]
Látnir: Þorvaldur Magnússon, kona hans var
Ragnhildur Sveinsdóttir. Sigríður Þorleifsdóttir (80) frá Háeyri. Maður hennar
var Guðmundur Ísleifsson kaupmaður, (88) en hann andaðist sama ár. Hann var
einnig víðfrægur formaður. Anna Diðriksdóttir (86) frá Stokkseyri. [Hún var móðir Ólafs Helgasonar í Túnbergi (Ólabúð).
Anna var jörðuð á Stokkseyri.] Guðmundur Einarsson frá Þórðarkoti. [jarðsettur á Stokkseyri.] Ragnhildur
Einarsdóttir (80) frá Inghól. Sigurbjörg Hafliðadóttir (77) frá Litlu-Háeyri. Ingibjörg Gíslína Jónsdóttir
(69) frá Gamla-Hrauni. [Hún var fædd að
Miðhúsum í Sandvíkurhreppi, en var tökubarn hjónanna Guðmundar Þorkelssonar og
Þóru Símonardóttur, að Gamlahrauni. Ingibjörg gekk að eiga Jón Guðmundsson,
formann frá Gamla-Hrauni og áttu þau 17 börn. Þau bjuggu í Vestmannaeyjum.]
Vilborg Sigurðardóttir (69) frá Gamla-Hrauni. [bjó á Stokkseyri og jörðuð þar.] Ólafía Ebenezardóttir (61) að Háeyri. Þórunn
Jónsdóttir [Árnasonar kaupmanns í
Þorlákshöfn] frá Hlíðarenda, en hún dvaldi hér í Gistihúsinu í elli sinni. Þorbjörg
Ólafsdóttir (40) í Garðbæ. Maður hennar var Jón Gíslason. Guðbjörg Sveinsdóttir
(47) frá Eiði-Sandvík. Ingimar Helgi Guðjónsson (7) frá Kaldbak. Dista
Friðriksdóttir (1) frá Brennu. Meybarn (1) frá Sólvangi.
Alexander Stevenson (?) sjómaður á Lock Morar, frá Aberdeen. Charles Milne
(?) sjómaður á Lock Morar, frá Aberdeen. Duncan Lownie (?) sjómaður á Lock
Morar, frá Aberdeen. Frederick Jackman (?) sjómaður á Lock Morar, frá Aberdeen.
George Duthie (?) sjómaður á Lock Morar,
frá Aberdeen. John Connell (?) sjómaður á Lock Morar, frá Aberdeen. John Scott (?) sjómaður
á Lock Morar, frá Aberdeen. Thomas McKay (?) sjómaður á Lock Morar, frá Aberdeen.
Walter E. Barber, (?) sjómaður á Lock
Morar, frá Aberdeen. William Bradley, (?) sjómaður á Lock Morar, frá Aberdeen.
Látnir fjarri. Jón Einarsson, er starfaði á Bakkanum
nokkur ár, við verslun Guðmundar Ísleifssonar, en síðar kaupmaður í
Vestmannaeyjum. Guðmundur Guðmundsson fv. bóksali. Hann bjó þá í Reykjavík.
Samúel Jónsson trésmíðameistari í Reykjavík, en hann lærði trésmíði á Bakkanum
og bjó hér og starfaði í um áratug, um aldamótin 1900, en hann var ættaður
austan af Síðu.
Sandkorn: Steypireiður rak á land.
Áætlanir lágu fyrir um lagningu Sogslínu, til Eyrarbakka og Stokkseyrar.
Enskur togari fórst með allri áhöfn, í skerjagarðinum austur af Eyrarbakka.
Aflabrögð á vetrarvertíð voru sæmileg hér við ströndina. Um 30 Eyrbekkingar
unnu í sjálfboðastarfi með Ungmennafélagi Ölfusinga að byggingu sundlaugar í
Hveragerði. Presturinn flutti af Stóra-Hrauni og í "prestsetrið" á Eyrarbakka,
sem kirkjan hafði nýlega keypt. Mannabein fundust á Hellisheiði, voru
það bein Dagbjartar Gestssonar,
bátasmiðs, er úti varð á Hellisheiði í desember 1921. - Dagbjartur ætlaði frá
Eyrarbakka til Reykjavíkur einn og gangandi. Steypireyður 12 til 13 metra langur
rak á fjörur Eyrarbakka. Við sporð hvalsins hékk 14 metra langur kaðall.
Skipakomur:
"Skeljungur" kom hér með olíu. Tvær danskar skonnortur losuðu fullfermi
af vörum til kaupfélagsins. Þriðja skútan, "Hertha" hlaðin timbri, til K.Á.
strandaði við höfnina.
Af nágrönum: Við Ölfusárbrú er risið talsvert þorp með
öflugu kaupfélagi og fleiri verslunum. Er það af ýmsum nefnt Selfoss. Óþurkatíð
var um allt suðurland og fóðurskorti brá við.
Alþýðubl. Kirkjurit, Morgunbl. Tímarit Iðnaðarmanna, Vísir, Þjóðviljinn