03.04.2023 16:07

Versti vetur í mannaminnum

Ófærð á Eyrarbakka:

 

Nú er liðinn versti vetur í mannaminnum hér um slóðir og frost að fara úr jörðu. Framanaf vetri var tíðin með ágætum, allt þar til 7. desember síðastliðnum að það tók að frysta og nokkuð duglega. Brostin var á kaldasti desember í einhver 100 ár. Var frost oft á bilinu -17 til - 20°C. Fór mest í - 22,8°C. Úrkoma var þó lítil sem engin framanaf en undir 19 dag mánaðarins gerði mikla snjóstorma ófærð og stórskafla svo að ekkert var við ráðið. Þorpið var einangrað um nokkra daga og grafa varð fólk úr sumum húsum. Það þurfti stórvirkar vinnuvélar til að opna götur bæjarins. Ófærð var á þjóðvegum víðast sunnanlands í þessu veðri og aðalleiðir lokaðar. 

Janúar var sá kaldasti á öldinni og nokkuð bætti í snjóinn. Snjór í vetur var þurr púðursnjór og hlóðst mjög á húsþök og harðnaði þar eins og steypa. Mest fór frost í tæpa -21°C. Svo breytti um þann 20 með hlýju lofti að sunnan. Febrúar var umhleypingasamur og úrkoma oft einhver en hvassviðrasamur svo að úr hófi gekk og olli víða vandræðum. Mesta frost var -9°C og mesti hiti 9,6°C. Í mars var tíðarfarið orðið eðlilegt og eins og menn eiga að venjast hér um slóðir. Sólskínsdagar all nokkrir og sólbráð svo snjó tók fljótt upp. Helst urðu tjón á girðingum og trjágróðri í vetrarveðrunum að þessu sinni, en stórfelld tjón engin. Umgangspestir og flensur sóttu mjög fólk heim þennan veturinn og lungnapestir þó sérstaklega. 
 
 
Flettingar í dag: 616
Gestir í dag: 68
Flettingar í gær: 530
Gestir í gær: 80
Samtals flettingar: 155633
Samtals gestir: 18366
Tölur uppfærðar: 9.6.2023 22:19:21