Flokkur: Veðurklúbbur

27.08.2011 23:47

Áhrifa Irene mun gæta sunnanlands

Gert er ráð fyrir að fellibylurinn IRINE sem nú hrellir íbúa á vesturströnd bandaríkjanna muni leggja leið sína norður á bógin eins og kortið hér til hliðar sýnir. Áhrifa hennar fer að gæta hér við land upp undir næstu helgi en mun standa stutt. Irine mun því verða fyrsta haustlægðin með strekkings austanátt víða um sunnanvert landið, einkum við fjöll. Lægðin mun væntanlega draga með sér talsverða úrkomu á suðausturlandið. Á Bakkanum verður að öllum líkindum skaplegasta veður, vart meira en 6 m/s þó hvasst verði í nærliggjandi sveitum.

Irene er nú 1. stigs fellibylur á norðaustuleið með ströndum Carolínu fylkis.

27.08.2011 11:19

Næturfrost á Bakkanum

Hitastig komst undir frostmark liðna nótt samkv. sjálfvirku veðurstöðinni á Eyrarbakka og stóð í um fjórar klukkustundir frá því um kl.3. Mest var frostið -1,6°C um kl. 6, en kl. 8 var orðið frostlaust. Ekki hefur frést af föllnum kartöflugrösum.

11.08.2011 00:17

Helgarspáin

Nú er ljóst að einmuna veðurblíða mun leika við hina Eyrbekksku strönd og gesti Aldamótahátíðar um komandi helgi.

föstudagur: Hægviðri eða létt hafgola, hiti um 14 stig, sólskín.

laugardagur: Hæg norðanátt, hiti 14-16 stig, sólskín.

sunnudagur:  Vaxandi  norðanátt, hiti 12-14 stig, sólskín.

03.08.2011 00:08

Tíðarfarið í júlí

Mánuðurinn hófst með brakandi þurki Sunnanlands  með  hlýindum og var oft á tíðum  um 20 stiga hiti hér á Bakkanum.  Létt hafgola lék við stöndina flesta daga um hádegisbil  og fram til nóns á fyrri hluta mánaðarins. Bændur nýttu sér þurkinn og hvítar rúllur hrönnuðust upp eins og risavaxnar gorkúlur um allan Flóann. Öskufok gerði þann 23. en síðan tók veðurfarið að sveiflast til verri vegar.  Hvassviðri gerði þann 26. en síðan tók við súldarloft og suddi fram til loka.

Nánar: Veðurklúbburinn Andvari.

20.07.2011 23:03

Aðventuflóðið 1977

Sjór á landi 1977 EB.
Það hafði verið spáð stormi eða ofsaveðri við suðurströndina 14 desember 1977 og sjávarstaðan  var síður en svo  hagstæð. Háflóð yrði þennan dag um kl 8 um morguninn þá er veðrið yrði hvað verst og að auki var mesta stórstreymi  síðustu 20 ára deginum áður og því enn afar hásjávað á morgunflóðinu. En vegna reynslu sinnar af stormflóðinu 1975 ákváðu útgerðarmenn á  Bakkanum að fara með alla báta sína úr höfninni og fóru þeir flestir til Þorlákshafnar áður en veðrið brast á. Lægðin sem fór yfir suðurströndina var 955 mb og fylgdi henni fárviðri. Sumstaðar mældist vindhraðinn 119 hnútar eða sem svarar um 61 m/s,  en til samanburðar eru 12 gömul vindstig (fárviðri) ca 35 m/s.

Á stokkseyri töldu menn sig hólpna enda var þar svo til ekkert tjón í flóðinu 1975 þegar einn mesti sjór siðari tíma braut hafnarmannvirki á Eyrarbakka. En um kl. 9 þennan illviðrismorgun 1977 í ofboðslegu brimróti gekk mikill sjór á land á Stokkseyri.  Stokkseyrarbátarnir, Jósep Geir, Vigfús Þórðarson og Hásteinn höfnuðu upp í fjöru og stórskemdust. Á Stokkseyri lá einnig Bakkavíkin frá Eyrarbakka og lagðist hún upp á bryggju og sat þar eftir kjölrétt.  Þetta voru allt 50-60 tonna eikarbátar. Þá stórskemdust sjóvarnargarðar á Stokkseyri þegar sjórinn ruddi þeim sumumstaðar burt á stórum köflum og mikill sjór flaut yfir þorpið, eiðilagði vegi og bar með sér sand og þara.

Á Eyrarbakka var tjónið minna, Sjóvarnargarðurinn  hélt víðast en skörð komu í hann á nokkrum stöðum, einkum  fyrir Skúmstaðarlandi og gekk talsverður sjór þar inn um skörðin og hlið sem á honum voru, en annað tjón var óverulegra, nema þá helst foktjón og brotnar rúður. Í þessu veðri og stórsjó var einnig mikið tjón í Grindavík og víðar meðfram suðurströndinni.

Ekki hafa komið sambærileg sjávarflóð síðan 1990 en eftir það voru reistir nýir og öflugir sjóvarnargarðar fyrir báðum þorpum, og um þessar mundir er verið að ljúka við að tengja þessi miklu mannvirki saman. Verður garðurinn þá nær samfeldur á milli þorpana.

Sjá einnig: Lognflóðið 1916 Stormflóðið 1990 og flóðaannál á Eyrarbakka.

13.07.2011 23:44

Lognið á undan stormflóðinu 1975

Sólborg sokkin
Sunnudaginn 2. nóvember 1975 var skaplegasta veður og blanka logn en þokuloft  mestan hluta dagsins og þegar tók að þykkna frekar  í lofti er á leið átti enginn von á öðru en venjulegri  rigningu. Regnið var drjúgt en ekki bar báru í lónin lengi vel  fram eftir kvöldi. Þeir sem fylgst höfðu með loftvoginni  síðla dags máttu þó sjá að eitthvað óvenjulegt var í aðsigi.  Djúp lægð (952.4 mb.) var að þokast norðaustur yfir vestanvert landið. Líklega mundann hvessa og e.t.v. var uggur í einhverjum vegna stórstreymis síðar um nóttina þó veðurspáin væri ekkert sérstaklega ljót.

Flest ungmenni þorpsins voru saman komin á kvikmyndasýningu sem haldin var í Brimveri. Verið var að sýna Óperuna "Jesus Christ Superstar" en  Þegar kom að atriðinu "Söngur Herodesar" fór rafmagnið af. Skömmu fyrir kl. 22 brast á suðaustan rok án nokkurs fyrirvara.  Á þeim tíma voru vindmælingar ófullkomnar, en miðað við að ljósastarar kubbuðust víðsvegar sundur eins og eldspítur má ætla að vindhraðinn hafi a.m.k verið yfir 30 m/s.

Á þessum tíma voru ljósastaurar úr tré og margir komnir til ára sinna og lágu raflínur í loftinu á milli þeirra. Brotnir staurar og raflínur tepptu götur þorpsins svo ekki var fært akandi né gangandi á vesturbakkanum.  Ungmennunum í  Brimveri var boðið að halda til í húsinu en enginn þáði og héldu krakkarnir til síns heima í smá hópum. Í mesta ævintýrinu lentu þau sem bjuggu á vesturbakkanum, en fyrir þeim var aðeins ein leið opin, en það var meðfram ströndinni og komust flest þá leið við barning mikinn. Einn piltur króaðist þó inni á milli fallandi raflína. Mátti hann bíða þess góða stund að Jóakim rafvirki kæmi og leysti sig úr prísundinni.

Eftir miðnætti lögðust saman öflin þrjú sem ógnuðu fiskiskipaflota Eyrbekkinga hvað mest.  Úthafsaldan sem átti rætur djúpt suður í hafi óx stórum undan rokinu, miðja djúpu lægðarinnar var tiltölulega nærri og dró yfirborð sjávar upp um hálfan metra að auki, Þá var stórstreymt síðla nætur og sjávarborð því hærra sem því nemur, (ca 3m). Má því áætla að ölduþrýstingur, stórstreymi og lágþrýstingur hafi lyft sjávarborðinu upp fyrir 4m. Fram eftir nóttu reyndu menn að binda bátanna traustari böndum, en brátt varð engum manni vært á bryggjunni sem var eins og smá eyja í stórsjónum og mannhæða háar öldur færðu hana á kaf hvað eftir annað. Að endingu fór svo að allir bátar sem í höfn voru gjör eiðilögðust. Sólborg sem var 84 tn stálbátur endasentist upp á hafnargarðinn en seig svo með afturendann á kaf í sjó. Skúli Fógeti 27 tonn og Sleipnir 11 tonn skoluðust yfir hafnargarðinn og mölbrotnuðu. Ekki voru aðrir bátar í höfn þessa nótt, en Bakkaflotinn hafði nú minkað niður í 4 báta.

SalthúsiðBrúin á hafnargarðinum hvarf og var hún aldrei endurbyggð. Þá brotnaði steyptur veggur á salthúsinu við Hraðfrystihúsið og tunnugeymsluskúr sem þar var nærri tókst á loft í heilu lagi og hafnaði inn á bletti hjá Sandpríði, nokkur hundruð metra í burtu. Í veðrinu kom einnig rof í gömlu sjógarðana  og vegur sem lá frá barnaskólanum að Gamla Hrauni sunnan sjógarðs gjöreiðilagðist. Vatnsleiðslur sködduðust og holræsi stífluðust af sandi. Þá komst sjór í kjallara nokkurra húsa og urðu olíukynditæki þeirra óvirk. Í þessu veðri hvarf nærfellt allur sandur úr fjörunni svo berar klappir blöstu við þar sem menn höfðu áður ræktað kartöflur í ára raðir. Talið er að tjónið hafi numið 100 milj. á þávirði.

02.07.2011 12:35

Veðráttan í júní

Júní var ekki sérlega hlýr hjá okkur að þessu sinni og fór hitinn hæst í 16,5 stig en hafgolan dró hitann niður bestu daganna og því lítið um sólböð hjá strandbúum þrátt fyrir allmarga sólardaga. Þar sem hafgolunnar gætti ekki, t.d. á Þingvöllum fór  hitinn í tæp 22 stig. Að jafnaði var 12-14 stig að deginum hér við ströndina. Lægsta hitastig var -3°C í byrjun mánaðarins en nokkrar frostnætur voru á tímabilinu 5-7 júní og dró það máttinn úr gróðurvexti. N.A strekkingur réði oft ríkjum með þurkatíð, en úrkoma í mánuðinum var lítil. Veðráttan í maí og júní hefur einnig dregið úr skordýralífi svo mjög að vart sést fluga hér um slóðir. Grasspretta virðist þó góð og sláttur hafinn á nokkrum bæjum í grend.Hitafar Eyrarbakka í júní 2011

09.06.2011 23:23

Kaldar júnínætur senn á enda

Svanir klakaskelÞað hefur ekki farið framhjá neinum að heimskautaloftslag ríkir á landinu þessi misserin. Grasið sprettur vart og allur gróður í hægagangi, flugur sjást ekki og köngulærnar liggja í dvala. Margar fuglategundir eru í basli með varpið vegna kuldanna. Sumar nætur í byrjun mánaðarins fór hitinn niður fyrir frostmark og allt að -3°C í eitt skipti hér á Bakkanum og sumstaðar meira austan Þjóssár.  Einhver éljagangur var öðru hverju í stað hefðbundinna sumarskúra. Langvarandi vorkuldar koma stöku sinnum þó nú sé orðið langt síðan að það gerðist síðast (1973), en vorkuldinn stendur þá oft fram yfir hvítasunnu. En nú eru veðurspámenn farnir að sjá fyrir endann á kuldaskeiðinu og spá hægt hlýnandi veðri nú um helgina.

25.04.2011 13:48

Páskaveðrið

Það hvessti hressilega um vestanvert landið um það leiti sem páskahelgin gekk í garð. Á Bakkanum gekk á með stormhviðum, en meðalvindur náði sér þó ekki verulega á strik þó allhvast væri um tíma í sunnanáttinni, en meiri fróðleik um páskalægðina má finna hér.
 Framundan er vætusöm vika við ströndina, en svo mætti vorið fara að koma í öllu sínu veldi, vonandi.

03.03.2011 01:10

Góutungl kviknar í dag

Tunglið eða MáninnNýtt góutungl mun kvikna í dag, en þessi síðasti vetrarmánuður er nú um það bil hálfnaður (Góa 20. febr.) Góuþrællinn er 20. mars og einmánuður hefst 21. á Heitdaginn.

Hér er gömul vísa eftir ókunnan höfund um fyrstu mánuði ársins:

Þorri og Góa, grálynd hjú,

gátu son og dóttur eina.

                         Einmánuð sem bætti ei bú

                          og blíða Hörpu að sjá og reyna.

Um góu og einmánuð er sagt " Góður skildi fyrsti dagur góu, annar og þriðji, þá mun einmánuður góður vera". Þessir dagar voru frostlausir með allt að 9 stiga hita en nokkuð blautur sá þriðji.

01.03.2011 00:59

Tiðarfarið

Suðvestanáttin er leiðilegasta vindáttin á Bakkanum, enda stendur hún beint af hafi og hefur hún ráðið að undanförnu með hagli eða slydduéljum og hvössum rokum. En mánuðurinn byrjaði hinsvegar með fannfergi sem stóð þó stutt. Jafnfallin snjór náði allt að 40 cm og mátti Finn á ýtunni hafa sig allan við. Þá bætti í frostið sem komst í - 15°C þann 7. febrúar sem er allmiklu meira frost en fyrir ári og dælur urðu að svellum. Eftir það tók að hlýna og var mestur hiti 8° C þann 20. sem er litlu lægra en 2010. Þrisvar fengum við storma, sem þó ollu engum skakkaföllum. Mesta sólarhrings úrkoma í mánuðinum var 22 mm sem er svipað og í sama mánuði í fyrra. Brim hefur verið nokkuð allan mánuðinn og einna mest síðustu daga. Hefði útræði verið enn við lýði, þá myndu menn tala um gæftarleysið þessa dagana.

13.02.2011 23:45

Gömul veðurmerki

Hér mun getið algengara veðurmerkja og veðurheita sem tíðkuðust á Eyrarbakka og Stokkseyri fyrir aldamótin 1900:

Útræna: Er vestanstæð hafgola og ber mest á henni á heitum dögum að sumri (Sólfarsvindar), dragast þá ský yfir austurfjöllin og nefnast þau "Útrænuský". Útrænan er vægari í smástreymi, en oft köld. Þá má vænta þerris góðan, en áfalls að nóttu þegar lyngt er orðið. Áfall að nóttu var talið boða langvarandi þurk og norðanátt.

Bræla: Hvöss útræna (suðvestannátt). Hvítnar þá í báru ("Það er farið að skjóta fuglsbringum") og skúrir færast yfir Kambana , Fljótshlíð og Þórsmörk. Þá má vænta dembuskúra í neðri Flóa.

Landnyrðingur: (Land-norðanátt) Ef skýjastrók setur til norðurs frá Heklu og Eyjafjallajökli er þurkur í vændum, (kuldaþræsingur). Ef skýjastrókinn leggur til suðurs, þá er úrkomu að vænta.

Austantórur: Oft á haustin í þurrviðri þekja háir hvítir skýjabólstrar austurfjöllin með úrkomu undir Eyjafjöllum og er það kallað "Austantórur", en það er undanfari hellirigningar um allt suðurlands undirlendið með SA átt. Þá er kominn "Hornriði"

Hornriði: Suðaustan strekkingur og rigningartíð.

Fjallasperringur: Stíf norðaustanátt. Ef snjóar í vesturfjöllin á undan austurfjöllunum þá er að vænta mildari veturs.

Stálbellir: Skýjaklakkar með lögun líkt og gosstrókur sem ber við heiðríkju í SV boðar hrakviðri og harðindi. Venjulegir skýjaklakkar út við hafsbrún veit á úrkomu.

Svartaþykkni: Þykk skýjahula. Sjáist hún í austri eða suðaustri, boðar það hláku. Sé "Svartaþykkni" í suðri frá Vestmannaeyjum og að Hlíðartá með andvara af NA og "Hrein fjöll" (Hiðríkja yfir Heklu og norður fyrir til vesturfjalla) var það talið fyrirboði fárvirðis innan fárra stunda.

Bakki: Lágur þokubakki milli Eyjafjallajökuls og Vestmannaeyja fyrri hluta vetrar, boðar brim.

Blikur: Þunn skýjaslæða, (undanfari lægða). Sé blikan með klósiga (ský eins og klær) sem sveigjast saman frá SV til NA boðar það hvassviðri af suðaustri, enda leist mönnum þá ekki á blikuna.

Hafgall: Regnbogalitaður glampi við hafsbrún skömmu fyrir sólarlag, veit á betra veður og þurrk.

Rosabaugur: Bjartur baugur um túngl á vetrum veit á illviðri.


Heimild: Austantórur 1.

11.02.2011 00:38

Búist er við ofsaveðri!

Andvari Veðurstofan varar við ofsaveðri (30 m/s) í nótt. Það er langt síðan að svo kröftug veðurspá hafi borið fyrir augu, en fullt tilefni til að taka mark á því. Þá má til gamans rifja upp illviðraheitin sem notuð voru í "vindstigaskalanum": Hvassviðri 8 vindstig, Stormur 9 vindstig, Rok 10 vindstig, Ofsaveður 11 vindstig og Fárviðri 12 vindstig.

Annars er fjallað meira um væntanlegt illviðri á veðurbloggum, t.d. http://esv.blog.is/blog/esv/ og http://trj.blog.is/blog/trj/ 

15.01.2011 23:59

Veðurmetin 2010

Frá veðurathugunarstöðinni á Eyrarbakka:
Mesti hiti á árinu 2010 var 22°C þann 18.júlí sem jafnframt var heitasti dagur ársinns. (meðalhiti 17,2°) en lægsti hiti var -16.8 °C þann 22. desember sem var kaldasti dagur ársinns (meðalhiti -12.5). Mesta sólarhringsúrkoma á árinu mældist 34 mm 26. desember samkvæmt tölum frá VÍ.
 Stormviðri voru fátíð og veðurlag allt hið besta, ef undan er skilið öskufok sem talsvert bar á fram á sumarmánuði.Mesta frost -16,8°CMesti hiti 22°C34mm úrkoma á sólarhring

30.12.2010 14:02

Árið 2010 það hlýjasta

 Þokubakkar á Hellisheiði.Veðurfar á Suðurlandi var eitt hið hlýjasta sem vitað er um, jafnframt eitt hið þurrasta og snjóléttasta. Ársmeðalloftþrýstingur hefur aldrei mælst jafnhár og nú. Árið var einnig óvenju hægviðrasamt og snjór var með minnsta móti á Suður- og Vesturlandi. Þá var vindur með hægasta móti á árinu, meðaltal allra mannaðra stöðva það lægsta frá 1965. Nánar má lesa um veðurfarið á árinu á vef Veðurstofu Íslands.

Á Bakkanum voru slegin um 16 ný dægurhitamet á árinu.

Flettingar í dag: 456
Gestir í dag: 36
Flettingar í gær: 2887
Gestir í gær: 206
Samtals flettingar: 229729
Samtals gestir: 29881
Tölur uppfærðar: 14.10.2024 04:52:29