Flokkur: Veðurklúbbur

24.04.2010 21:10

Móðan

Móðan mikla
Þessi mynd er tekin nú í kvöld og sýnir glögglega móðuna sem lagðist hér yfir í dag frá eldgosinu í Eyjafjallajökli, eða E15 eins og það fjall heitir nú víða erlendis.

24.04.2010 14:59

Öskumóða yfir Stokkseyri

Öskumóða liggur yfir StokkseyriNokkru meira öskufalls hefur gætt á Eyrarbakka frá í gær og er það vel greinilegt á hvítum diski. Öskumóða er nú þessa stundina út með ströndinni til vesturs og liggur yfir Stokkseyri út til hafs. Vindátt hefur verið hæg og sveiflast úr Austanátt í Suðaustan síðustu 3 klukkustundir. Bjart er yfir á Bakkanum,en móðan hamlar útsýni til hafsins. Hætt er við að móðan berist í meira mæli yfir þorpið.
Á morgun spáir veðurstofan allhvassri austanátt og rigning við suðurströndina, en annars hæg norðaustlæg átt og þurrviðri. Snýst í suðvestanátt í 3 km hæð. Gosaska berst til vesturs frá Eyjafjallajökli, en rigning yfir gossvæði dregur úr fjúki á yfirborðsösku. Öskumistur líklega yfir Suður- og Vesturlandi, þ.m.t. í Reykjavík, en gosaska gæti einnig borist til norðurs. 

 Iceland.pps

23.04.2010 22:21

Merkjanlegt öskufall

Minniháttar öskufalls frá eldstöðinni í Eyjafjallajökli var vart á Eyrarbakka um kvöldmatarleitið. Askan var merkjanleg í örlitlu magni á votum diski. Náði að sverta sérvettu ef strokið var með brúnum. Þá hafa fregnir borist um eitthvert öskufall í Hveragerði, en ekki eru upplýsingar um magn. Einhver aska féll einnig á Rángárvöllum. Öskumistur berst væntanlega á morgun til vesturs og norðvesturs frá eldstöðinni, jafnvel til Reykjavíkur, en ekki í miklum mæli segir í spá veðurstofunar.

22.04.2010 20:02

Öskufall líklegt út með suðurströndinni.

Talið er líklegt að aska geti borist til höfuðborgarsvæðisins.
Ekki er hægt að útiloka öskufall í einhvejum mæli vestur með suðurströndinni næstu daga. Öskufallspá veðurstofunnar má nálgast hér, en búist er við austanáttum fram í næstu viku. Það fer svo eftir magni og gerð  öskumyndunar í eldstöðinni á Eyjafjallajökkli í hversu miklum mæli og hversu langt askan berst út í andrúmsloftið.

22.04.2010 00:41

Sumardagurinn fyrsti

Gleðilegt sumarSumar og vetur frusu saman og veit það á gott sumar. Skömmu eftir miðnætti var hér -5.2°C frost.

Öldum saman var Sumardagurinn fyrsti hinn mesti gleðidagur, Þá voru víðast til snæðings magálar og brauð og  þótti dauft, ef slíkt var eigi á borðum. Þá voru sumargjafir gefnar og fengu þá börnin oft pottkökur í sumargjöf, sem þeim var treint lengi fram eftir vorinu. Annars þótti ei annað sæmandi en að sýna af sér rausn þennan dag og láta af hendi rakna eina sokka, lín í skautafald, traf eða eitthvað þess háttar.
Gleðilegt sumar

21.04.2010 13:45

Síðasti vetrardagur.

Veðurstofan segir miklar líkur  á að sumar og vetur frjósi saman í nótt um allt land. Samkvæmt gamalli þjóðtrú veit á gott sumar ef sumar og vetur frýs saman aðfaranótt sumardagsins fyrsta. Þannig þarf  hiti að fara niður fyrir frostmark aðfararnótt sumardagsins fyrsta til að þetta sé gilt, 0°C duga ekki til. Það var jafnvel álitið að rjóminn ofan á mjólkurtrogunum yrði jafn þykkur og ísskánin á vatninu þessa nótt. Í því skyni settu menn skál eða skel með vatni út um kvöldið og vitjuðu svo eldsnemma morguns.

17.04.2010 18:33

Veðurstofan gerir spá um öskufall

Gríðarlegur öskustrókur berst frá eldstöðinni
Samkvæmt spá veðurstofunnar um öskufall fram á þriðjudag verður það mest suður undan Eyjafjöllum og virðist hættan varðandi öskufall í þéttbýli vera mest í Vestmannaeyjum.
Á veðurathugunarstöðvum er öskufall mælt reglulega og má finna upplýsingar frá veðurathugunarmönnum
hér. Á vef Veðurstofunar má jafnan  fá nýjustu spár um öskufall.

Ekki eru líkur á að aska berist til Eyrarbakka eða nágreni á næstunni m.v. óbreyttar langtíma veðurspár, eftir því sem BÁB. kemst næst, en líkurnar aftur á móti meiri að einhver aska berist í uppsveitirnar síðar í næstu viku ef öskugosið heldur sama dampi og verið hefur, en spáð er breytilegum áttum öðru hvoru í næstu viku.

16.04.2010 20:28

Engin orð fá þessu lýst

Gosstrókurinn sést vel af BakkanumGosið sést orðið vel frá Eyrarbakka og öllum að verða ljóst þvílíkar óskapar hamfarir eru að eiga sér stað, með jökulhlaupum og öskufalli sem berst jafnvel vítt og breitt um heiminn.

Myndirnar hér tala sínu máli.

     
Tröllauknar gosgufur
Aska og gufa mynda óhuggnanlegan mökk
Meira af gosinu

16.04.2010 13:33

Gosmyndir frá NASA

Loftmynd Nasa 14.apríl
Myndin hér að ofan er tekin 14. apríl af toppgosinu í Eyjafjallajökli.
Stærri myndir:http://earthobservatory.nasa.gov/NaturalHazards/view.php?id=43676
NASA loftmynd Fimmvörðuháls

NASA Loftmynd Fimmvörðuháls
Þessar myndir í náttúrulegum litum frá NASA sýna hraunrenslið  og bráðnun ís á Fimmvörðuhálsi 24.mars 2010. Stærri myndir má finna á: http://earthobservatory.nasa.gov/NaturalHazards/view.php?id=43252

15.04.2010 23:48

Öskufall, svo að sporrækt var

Ásólfstaðir 1947Þegar Katla gaus 1918 þá sást bjarminn alla leið frá Akureyri. Öskufall var svo mikið þar sem víðar að sporrækt var á götum. Sveitirnar kringum Kötlu biðu mikið tjón af öskunni. Æsktu bændur þar, að mega flytja hesta sína af landi burt, en ræðismaður Breta í Reykjavík leyfði það ekki. Í Kötlugosinu sem hófst 11. maí 1721 var öskufallinu lýst svo: Þann 12 maí var bjart veður með litlu öskufalli og eins um næstu nótt.

"Þann 13 nær miðjum morgni enn dagmálum sló yfir þvílíku myrkri, að fólk í Skálholts sveitum mundi ei annað þvílíkt, og morgunsöngur í Skálholti var haldin við ljós. Þó gengu aldrei meiri stór brestir heldur en meðan þetta svarta myrkur yfir stóð, sem varaði allt til hádeigis, og ef maður rétti hendina útum dyr eða glugga, þurfti það litla stund að halda henni, áður hún fylltist af ösku".


Ekki ósvipað ástandinu og fyrir austan í dag.


Heimild. Fylkir 1919  Náttúrufræðingurinn 1955

11.04.2010 14:46

Að liðnum vetri

Frá Eyrarbakkavegi við SelfossVeturinn gerði vart við sig í byrjun oktober síðastliðnum þegar fjallahringurinn klæddist hvítum kufli. Fyrsti snjórinn féll svo á Bakkanum 5. oktober og var það enginn smá skamtur, því morgunin eftir mældist 20 cm jafnfallin snjór. Það merkilega var að þessi snjór féll aðeins hér á ströndina og Reykjanesið. Fyrsti vetrarstormurinn kom svo þann 9.

Nóvember var mildur í fyrstu og oft gerðu falleg veður við ströndina. Í byrjun aðventu gerði snjóbyl mikinn með skafrenningi og hófst þannig jólamánuðurinn. Mesta frost vetrarins kom svo  30.desember, en þá mældist -16.6°C . Þann 9. janúar tók svo að hlýna verulega með suðlægum áttum og súld.

Undir lok febrúar gerði mikið fannfergi og þrumuveður, en þær vetrarhörkur stóðu stutt. Mars var í mildara lagi og oft hlýr, en einkenndist annars af "gluggaveðri" með norðan strekkingi, og annars fallegu veðri fram undir páska. Síðan hefur farið smám saman hlýnandi en jafnfarm vindasamt á köflum.

29.03.2010 23:38

Eru Íslendingar illa klæddir

Íslenska lopapeysan gerði Íslendingum mögulegt að lifa af í kulda og vosbúðÍsland er vindasamt land og oft getur verið kalt í veðri þó hitamælirinn sýni annað, en þar koma til áhrif vindkælingar. NýlegaVindkæling á við -20°C var sagt frá manni sem fékk sér göngutúr upp á Fimmvörðuháls til þess að skoða gosið. Hann var illa búinn, klæddur í leðurjakka og strigaskó og lagði þar með líf sitt í hættu án þess að gera sér grein fyrir því. En það þarf ekki hálendi til, því fólk hefur orðið úti jafnvel í byggð. Vindkæling er samspil hitastigs og vindstuðuls sem í grófum dráttum er, að því meiri vindur og því lægra hitastig, því meiri vindkæling. Veðurstofan hefur ekki tekið upp fyrir reglu að gera vinkælingarspá, en þó bar svo við að það var gert í veðurfregnum fyrir skemmstu og því ber að fagna.

Í dag var þannig veðurlag að vindkælingar gætti mjög t.d. á Eyrarbakka sem dæmi, þá var hitinn frá +3 til -6°C og vindur alt að 15 m/s. Þannig var vindkælingin í dag til jafns við frost um15-20° C

05.02.2010 21:38

Víðfem og djúp lægð

Veðurkort Google EartÞessi óvenju djúpa og víðáttumikla lægð hringar sig eins og ormur langt suður í hafi. Í dag var hún 940mb og nærri kyrrstæð, en búist er við að skil frá henni fari yfir S- Bretland.

Til samanburðar var dýpsta lægð sem komið hefur yfir Ísland síðan mælingar hófust mæld 919,7 mb, en það var á Stórhöfða 2. desember 1929. en með síðari leiðréttingu er sú lægð talin hafa verið 923,6 hPa.


02.02.2010 23:04

Þegar Bakkinn hvarf í snjóinn.

Ófærð 1966 [Morgunblaðið]Þann 28. janúar til 2. febrúar 1966 gerði norðan hvassviðri með svarta skafrenningi sem á einni viku færði þorpið á bóla kaf í snjó, en allur snjór frá rótum Ingólfsfjalls sópaððist til strandar og gerði þorpið kolófært. Þá hafði ekki komið annar eins snjór í 30 ár á Bakkann. Mjólkurbíllin komst ekki frá Selfossi fyrr en eftir fjóra daga og þó ekki lengra en að Litla-Hrauni og sat þar fastur í skafli og þangað urðu þorpsbúar að klöngrast eftir mjólkinni.  Sum hús voru með útihurðir sem opnuðust út og lokuðust því inni í húsum sínum og þurfti að grafa fólk út. En það var fleira en mannfólkið sem lenti í hrakningum þessa daga. Á Bakkanum var þá nokkuð stór stofn af frjálsum dúfum sem bæði misstu aðgang að vatni og æti í fannferginu og þegar kuldinn og húngrið sveif að báðust margar þeirra hjálpar þorpsbúa með því að húka við útidyr. Margir hleyptu dúfunum inn til sín þar sem þær nutu góðs yfirlætis þorpsbúa næstu tvær vikur á meðan hretið gekk yfir. Þetta uppátæki Bakkadúfnanna vakti óskipta athygli yngri kynslóðarinnar og tíðar urðu heimsóknir þeirra á dúfnaheimilin. Æ síðan þótti mögum vænt um frjálsa dúfnastofninn og þótti það miður og afar sorglegt þegar honum var útrýmt um og eftir 1985.
Veðurklúbbur

20.12.2009 23:00

Ofsaveðrið 1972

þann 21. desember 1972  brast á með fárviðri sem braut 3 rafmagnsstaura í þorpinu og olli miklu járnfoki af húsum. Ástandið varð eins og eftir loftárás. Vindhraði var talin 16 gömul vindstig. Mundu elstu menn ekki annað eins veður hér. Sömu sögu var að segja af höfuðborgarsvæðinu og víðar. Í veðrinu féll mastur frá Búrfellslínu og varð álverið í Straumsvík rafmagnslaust í nokkra daga.

Veðurklúbburinn Andvari

Flettingar í dag: 357
Gestir í dag: 35
Flettingar í gær: 248
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 220095
Samtals gestir: 28965
Tölur uppfærðar: 4.10.2024 10:46:47