Flokkur: Veðurklúbbur

18.09.2007 08:44

Skolmórautt síki, gruggað upp af gröfu.


Nú í rigningartíðinni hafa hálf uppgrónir skurðir vart haft undan að flytja regnvatnið til sjávar og því ekki úr vegi að stinga niður skóflu. þetta síki sem hér er verið að dýpkva er rétt norðan við Bakkan á svokölluðu "Flóðasvæði" eins og það heitir á skipulagi.

Veðurstofan spáir norðanátt næstu dægrin svo þá byrtir til hér syðra en norðanmenn fá þá blessuðu rigninguna.

13.09.2007 21:15

Rjúkandi brimstrókar.



Það var með glæsilegasta móti brimið í dag þegar hvöss norðanáttin feykti brimlöðrinu á loft og myndaði fallega stróka,en það voru fáir aðrir en heimamenn sem nutu fegurðarinnar á Bakkanum í dag.

Vindrokurnar náðu mest upp í 25 m/s
.

12.09.2007 22:21

Met úrkoma?

Úrkoman sem féll á síðustu 24 klst var 75 mm samkvæmt vef veðurstofunar og telst líklega sólahringsmet fyrir þennan dag mánaðarins. Það næstmesta sem rignt hefur á Bakkanum að því er ég kemst næst var 14. nóv.1961 þegar mældist 100,5 mm á sólarhring en mesta úrkoma var mæld 6.janúar 1947 107,5mm

Á Selfossi flæddi vatn upp úr niðurföllum í kjöllurum þegar ræsi höfðu ekki lengur undan og voru slökkvuliðsmenn við dælurnar. Markaskurðurinn milli hinna fornu hreppa Eyrarbakka og Sandvíkur var svo orðinn barmafullur af vatni undir kvöld.

09.09.2007 22:09

Ágætt haustveður.

Þessi sunnudagur var með ágætum á Bakkanum og brimið gljávraði við ströndina og sólin skein á milli skýjanna. Það var semsagt ágætasta haustveður í dag en á morgun koma skýin  aftur með rok og rigningu segja þeir á veðurstofuni.

Á Bakkanum vex mikil hvönn vestur undir söndum. Hvannabreiðurnar eru eins og skógur á að líta eins og sést hér á myndinni. Ef hvönn væri einhvers virði, ætti hana líklega einhver greifinn.

05.09.2007 09:41

Sumri hallað.


Það má segja að hið sunnlenska sumar sem nú er liðið hafi verið harla óvenjulegt hvað veðráttuna varðar. Mánuðirnir júní til ágúst 2007 voru óvenjuhlýir um allt sunnan- og vestanvert landið og sólin brosti við landsmönnum. Júlí var sá þurrasti síðan 1993 og komst hitinn hæðst í 22,4°C þann 9.júlí á Bakkanum, grasspretta var treg vegna þurkana og víða sviðin jörð. það tók loks að rigna í lok mánaðarins og má segja að ágústmánuður hafi verið í meðallagi. Júní var einig óvenju þur og hlýr og fór hitinn oft upp í 20°C.

Í lok ágústmánaðar urðu næturfrost á Suðurlandi og féll hitinn á Bakkanum amk. tvisvar niður í 2 stiga frost sem kom sér illa fyrir kartöflubændur hér við suðurströndina. Kaldast varð í Árnesi aðfaranótt 28., -4,0 stig.

Samkv. skoðanakönnun Brims þá álíta 93,1% þáttakenda að sumarið hafi verið frábærlega gott, enda var það vel fallið til útiveru.

04.09.2007 14:17

Stormurinn gnauðaði

Það var úrhellis rigning og hvassviðri á ströndinni í nótt og í morgun og fóru einstakar rokur upp í 21m/s á Bakkanum. Laufin rifnuðu af trjánum í stormhviðunum og þyrluðust um allar tryssur. Nú er kólgubrim og særót mikið.

18.08.2007 17:54

Það var frost í nótt!

Milli kl.03:00 og 07:00 í morgun mældist frost á hitamæli veðurstofunar á Eyrarbakka og náði frostið mest -2°C um kl.06:00 í morgun.

Þó eru enn tvær vikur eftir að sumrinu sem hefur verið alveg einstaklega veðursælt á Suðurlandi og þurrviðrasamt. Nú eru hinsvegar rigningar fram undan og gætu varað út næstu viku.

12.08.2007 18:59

Kaldbakur



Kaldbakur heitir fjall nokkurt sem rís hátt norður af Grenivík. Snjófláki er þar austur undan tindinum sem helst þar við allt sumarið og hefur lítið minkað þrátt fyrir gróðurhúsa áhrifin. Á efri myndinni sem er frá því um eða eftir 1950 og þeirri neðri sem er tekin nú í ágúst má sjá að lítill munur er á snjóflákanum. Fyrir neðan snjóflákann má sjá glytta í íshellu sem heimamenn kalla "Kaldbaksjökul" og er líklega eini jökullinn sem stækkar um þessar mundir. Líkleg skýring er sú að þegar bráðnar úr snjóhengjunni í sólinni safnast fyrir klaki í lægð undir skaflinum þegar vatnið frýs aftur.

02.08.2007 15:04

Júlí góður.

Júlí var mjög hlýr um landið sunnan- og vestanvert, hiti var í ríflegu meðallagi. Þetta er jafnframt  þurrasti júlí síðan 1993 á Suðvesturlandi.

Á Bakkanum fór hitinn nokkrum sinnum yfir 20°C en hæsti hiti mánaðarins 22,4°C samkvæmt opinberum hitamæli staðarins var þann 9.júlí en hæsti hiti sem mældist á mannaðri stöð á landinu í mánuðinum var 24,1°C á Hjarðarlandi í Biskupstungum þann 8. Daginn eftir komst hiti þar í 24,6°C á sjálfvirku stöðinni.

Eins og annarstaðar var þurkatíðin óvenjulega mikil og langvinn í Flóanum og smærri tjarnir víðast hvar uppþornaðar.

Nánar um tíðarfarið á vef Veðurstofunar

09.06.2007 21:38

Ískyggilegt veður!

Fimtudagurinn 29.mars árið1883 lögðu menn á sjóinn eins og endranær þegar færi gafst á vetrarvertíðum. Að morgni þessa svala vetrardags var kafalds fjúk en þó hægur norðan kaldi og laust við brim. Staðkunnugir töldu þó að horfurnar væru heldur ískyggilegar. En þrátt fyrir það létu formenn á Bakkanum kalla vermenn sína til skips. Þá var einnig róið í öðrum verstöðvum í nágreninu þennan dag, svo sem Þorlákshöfn,Selvogi og Herdísarvík.

Um kl 11 um morguninn tók hann að hvessa og að lítilli stundu liðinni gerði blindbil,svo varla sást handa skil. Voru þá nær allir formenn rónir héðan af Eyrarbakka öðru sinni. Þó náðu flestir landi eftir kl 2 e.h. Siðasta skipið sem náði landi þennan dag lenti kl 4 e.h. en tvö skip náðu ekki lendingu fyrr en kl 10 að mogni næsta dags.Voru þá mennirnir aðfram komnir af þreitu, kulda og vosbúð en allir á lífi þó sumir væri lítið eitt kalnir. Mennirnir höfðu þá barist gegn veðrinu og snjóbilnum í nær sólarhring sleitulaust þar til veður tók að ganga niður. 

Í Þorlákshöfn náðu allir landi nema tvö skip sem voru talin af þar sem ekkert hafði spurst til þeirra næstu daga á eftir. Formenn þessara skipa voru Ólafur bóndi Jóhannesson frá Dísarstöðum í Flóa og Þorkell Þorkelsson frá Óseyrarnesi báðir miklir efnismenn til sjós og lands.

Ólafur hafði fiskað vel um morguninn (39 í hlut) en hafði síðan róið öðru sinni þann dag. Á skipi Ólafs voru 15 menn að honum meðtöldum en á skipi Þorkells voru mennirnir 14 eða samtals 29 sem saknað var. Veðrið var svo mikið að í landi var ekki stætt og má því leiða að því líkum að vindhraðinn hafi verið vel yfir 25 m/s eða nærri 30m/s auk þess sem snjóbilurinn var það mikill að ekki hafi sést milli húsa.

Frá Herdísarvík hafði frést að eitt skip hafði brotnað þar í lendingu en allir komist af þrátt fyrir veðurhaminn. Í þessu sama veðri varð unglingspiltur úti frá Hróaskeldu í Villingaholti er hann ætlaði til sauðahúsa og einig kona frá Seli í Stokkseyrarhreppi. Því má ætla að töluvert frost hafi verið þennan dag og vindkæling mikil. 

Eyrbekkingar þóttust heppnir að hafa heimt áhafnir sínar úr helju þennan dag, því nokkru áður eða 9.mars fórst skip 10 manna far af Eyrarbakka í miklu brimi þá er þeir voru að koma úr róðri og fóru allir í sjóinn en 5 mönnum tókst að bjarga í land. Þetta var skip Sigurðar Gamalíusonar frá Eyfakoti og fórst hann ásamt fjórum hásetum sínum,allt giftir menn nema einn. Skipið sjálft brotnaði í spón og tapaðist með öllu.

Nokkrum vikum eftir þennan stormasama dag rak flösku á land er kastað hafði verið í sjó frá Vestmannaeyjum og í flöskunni var bréf þar sem tekið var fram að þeim Þorkeli og Ólafi hafi verið bjargað ásamt mönnum sínum um borð í franska skútu  úti á regin hafi og verið settir í land í Vestmannaeyjum. Skip þeirra félaga sem voru nánast ný og smíðuð á Eyrarbakka fundust síðan þann 4 apríl molbrotin á Staðarfjörum við Grindavík.


Vermenn á Eyrarbakka sátu oft við þröngann kost í gamladaga, en þó höfðu þeir sem réru hjá Torfa Sigurðsyni í Norðurbæ nokkur hlunnindi umfram aðra vermenn á Bakkanum. Torfi var formaður á skipi sem Peter Nielsen faktor í Húsinu átti og útvegaði hann vermönnum er réru hjá Torfa brauðið frítt. Aðrir vermenn sáu sér fljótt leik á borði þegar lítið var um brauð og þóttust róa hjá Torfa þegar þeir komu í Vesturbúðina til innkaupa. Svarði þá Nielsen einnat á þessa leið, " Ja först du róer hjá Torfur so skal du ha bröd"

14.05.2007 12:00

Fíflavandinn ógurlegi!

Nú þegar maísólin skín á þessum fallega degi sprettur upp eitt vandamál sem heitir Túnfífill (Taraxacum spp.) Hann er mjög algengur um allt land, bæði í túnum, úthaga og til fjalla,en ekki síður í görðum Eyrbekkinga. Þar er þessi planta ekki velkominn gestur,því hún fjölgar sér ört og fer illa með blettinn. Eftir blómgun(Flugur bera frjókorn frá frævlunum á frævurnar og fræ myndast) lokar fífillinn blómakörfunni um hríð, en opnar hana svo aftur þegar fræin eru fullþroskuð, og heitir þá biðukolla. Hún nýtir þá vindinn til að dreifa sér yfir á næstu lóðir í nágreninu.

Það færist í vöxt að menn hafi ofnæmi fyrir frjókornum þessarar plöntu. Frjókornaofnæmi er eitt algengasta ofnæmið sem kemur fram í nefi og augum. Margir þjást af ítrekuðu kvefi á hverju sumri áður en þeir átta sig á því að um frjókornaofnæmi er að ræða. Eitt helsta einkenni frjókornaofnæmis og það margir finna fyrst fyrir, er kláði í augum. Aðeins örfá frjókorn í loftinu geta framkallað augnkláða. Augun verða rauðsprengd og það rennur úr þeim. Fyrstu einkenni frá nefi eru síendurteknir hnerrar. Önnur einkenni sem miklum óþægindum valda er kláði í nefinu. Versti tíminn er maí og júní þegar loftið er þurt.

Baráttan við þetta illgresi getur verið endalaus,þó til séu ýmis verkfæri og eitur til að stemma stigu við fíflinum, þá er hún er lúmsk og kann fyrir sér ýmsa klæki til að komast af.

Hvenær kemur krían?
Venjulega hefur krían komið á Bakkan á bilinu 14-16 maí svo nú er bara að vera á verði og athuga hver verður fyrstur til að sjá kríuna.Í fyrra kom hún þann 16.

02.05.2007 23:36

Af hitametum og hlýnun jarðar.

Nýliðinn aprílmánuður var með þeim hlýjustu sem sögur fara af hér á landi frá því samfelldar mælingar hófust á ofanverðri 19. öld segja fréttirnar í dag. Veðurstofan segir í veðurfarsyfirliti, að tíðarfar hafi almennt verið hagstætt í mánuðinum en hans verði einkum minnst fyrir tvær óvenjulegar hitabylgjur. Sú fyrri varð um landið austanvert í byrjun mánaðarins og komst hiti þann 3. í 21,2 stig í Neskaupstað. Hiti hefur ekki mælst hærri svo snemma árs. Síðari hitabylgjan gekk yfir mikinn hluta landsins síðustu daga mánaðarins. Landshitamet aprílmánaðar féll þann 29. þegar hiti komst í 23°C á sjálfvirku stöðinni í Ásbyrgi í Öxarfirði og í 21,9°C á mönnuðu stöðinni á Staðarhóli í Aðaldal. Hvoru tveggja er met í sínum stöðvaflokki.
Á síðasta ári fór hitinn á Eyrarbakka í aprílmánuði hæðst í 10°C og var meðalhitinn þá um 2 stig og mesta frost var þá 11 stig en nú var hitinn oftast á bilinu 10 -12°C og mest 14 - 15 stig í lok mánaðarins sem er talsvert stökk frá því í fyrra.

Ástæðan fyrir þessum hitabylgjum er mikill hiti í Evrópu vestanverðri þar sem sömu sögu er að segja og hitamet fallið þar umvörpum. Síðan var það frekar tilviljun að hæð yfir Norðursjó beindi þessu heita lofti inn á landið og þá helst austan og norðanvert.
Svo er spurningin hvort þetta sé aðeins forsmekkurinn af því sem koma skal því breskir veðurfræðingar hafa spáð allt að 8 hitabylgjum í sumar og ekki ólíklegt að enn eigi met eftir að falla áður en þessu sumri líkur. Eflaust má túlka þessa forspá þannig að loftslagshlýnunin sé nú komin á mikið skrið.

Almennt er nú viðurkennt að loftslagshlýnunin sé af manna völdum, en nokkrir danskir vísindamenn vilja halda öðru fram. Þeir eru með þá kenningu að hlýnunin stafi ekki síður af aukinni varmalosun frá sólinni og því sé hlýnunin mun örari en reiknilíkön gefa tilefni til. Það er nefnilega ekkert sem segir að varmalosun sólar sé ætíð sú sama heldur mun líklegra að losunin sveiflist til á löngum tímabilum með samsvarandi veðurfarssveiflum á jörðinni. En væntanlega munu vísindin skera úr um þetta álitamál fyrr eða síðar.

30.04.2007 15:54

Brennandi hitapottur í Evrópu, meiri hiti í vændum!

Meðalhiti aprílmánaðar í bretlandi var 11,1°C sem er 3,4 gráður yfir meðalhita. Ekki hefur orðið heitara á þessum slóðum í 350 ár eða síðan árið 1659. Meðalhitinn í evrópu frá Belgíu til Ítalíu er sömu leiðis 3 gráðum yfir meðallagi.

Breskir veðurfræðingar segja að mikil hætta sé á að í vændum sé svipuð hitabylgja og gekk yfir 2003 og varð 35.000 manns að aldurtila í álfunni.

í Hollandi hafa einnig hitamet fallið og þar hefur ekki komið dropi úr lofti síðan 22 mars sl og var aprílmánuður sá þurrasti í heila öld.

í þýskalandi hefur einnig verið sett nýtt hitamet sem er 12°C yfir eldra meti í apríl. þar hafa sólskinsstundir heldur ekki orðið fleiri síðan árið 1901. Þar í landi er orðið algengt að sjá fólk sem klæðist aðeins sólgleraugum.

Á Ítalíu hefur yfirborð árinnar Pó lækkað um 21 fet vegna þurka og hefur yfirborðið fallið um 80cm á aðeins einni viku.

Veðurfræðingar eru að komast á þá skoðun að þetta hlýindaskeið sem nú er í uppsiglingu jafnist á við hinar hrikalegustu náttúruhamfarir.

04.04.2007 11:03

Það verður Páskahret!

það er nú orðið ljóst að Páskahret verður þetta árið á páskadag og hljóðar spá Veðurstofunar þannig fyrir páskahelgina:

Á föstudaginn langa: Austan 8-13 m/s og slydda eða rigning sunnanlands, en dálítil snjókom síðdegis fyrir norðan. Hiti 1 til 6 stig sunnanlands, en annars vægt frost.
Á laugardag fyrir páska: Suðaustan 10-15 m/s og rigning eða slydda, en snjókoma á Norður- og Austurlandi. Hiti 2 til 7 stig sunnanlands, en nálægt frostmarki fyrir norðan.
Á páskadag: Ákveðin suðvestanátt og skúrir, en hvöss norðaustanátt með snjókomu á Vestfjörðum. Hiti 2 til 7 stig.
Á annas í páskum: Gengur í hvassa norðanátt með snjókomu norðanlands, en léttir til syðra. Kólnandi veður

Þetta verða talsverðar sviftingar þar sem sérstaklega hlýtt hefur verið á norður og austurlandi í byrjun mánaðarins og komst hitinn hæðst þessa fyrstu daga aprílmánaðar í 21,2°C á Neskaupsstað sem er líklega met fyrir mánuðinn.Hiti aðeins einu sinni mælst hærri á þessum árstíma, að sögn Trausta Jónssonar (mbl.is), veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Það var 19 apríl árið 2003 þegar hiti mældist 21,4 stig á Hallormsstað.

Gras er nú tekið að grænka hér sunnanlands og má búast við að hægist um vöxtin þegar það kólnar,en trjágróður er lítið sem ekkert kominn af stað svo engar líkur eru á skemdum þó kólni eitthvað undir frostmark.


 

22.03.2007 10:26

Úrhelli og vindi spáð!

Það er spáð stormi í kvöld og allt að SA 25 m/s og mikilli rigningu. Suðvestan 10-15 og kólnar heldur með skúrum eða éljum seint í nótt, annars var veðrið á Eyrarbakka kl 09:00 VNV 13 m/s Rigning Skyggni 11 km Dálítill sjór . 4,4°C.

Líklegast er að veðrið verði verst á suðvesturlandi og vestfjörðum en skást á norðausturlandi og undir Vatnajökli. Talið er að mesta úrkoman verði á svæðinu milli Þjósár og Seltjarnarnes.

Heitavatnslaust er á Bakkanum vegna viðgerða á stofnæð.

Flettingar í dag: 357
Gestir í dag: 35
Flettingar í gær: 248
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 220095
Samtals gestir: 28965
Tölur uppfærðar: 4.10.2024 10:46:47