21.10.2010 00:13

Fátæktin breiðist út á Íslandi

Í fyrra fengu tæplega 6.000 heimili fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum. Um sex hundruð fjölskyldur treysta á matargjafir frá Fjölskylduhjálp og um 4000 manns sækja aðstoðar til hjálparstofnunar kirkjunar í hverjum mánuði. Á bak við þessar tölur er einnig fjöldi íslenskra barna sem alast nú upp við krappari kjör en foreldrar þess gerðu. Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 29% frá árinu 2008 og hefur því kaupmáttur launa rýrnað að sama skapi. Eignabruni og kaupmáttarskerðing íslenskra heimila er enn hamslaus. Um 13.000 manns eru skráðir atvinnulausir nú um stundir og er þá ótalið dulið atvinnuleysi, þ.e þeir sem eiga ekki lengur rétt á bótum samkvæmt reglum Atvinnuleysistryggingarsjóðs. Þá hafa þúsundir íslendinga leitað hælis erlendis, sem annars væru atvinnulausir. Árið 1997 sagði Jóhanna Sigurðardóttir núverandi forsætisráðherra að fátækt á Íslandi væri þjóðarskömm og ennfremur "Fátækt á Íslandi er heimatilbúinn vandi. Fyrst og fremst vegna óréttlátrar tekjuskiptingar og rangra leikreglna í samfélaginu, sem hægt væri að breyta ef vilji væri til þess[.1] ". Nú er tíminn kominn, en hvar eru þá efndirnar? Það er ljóst að stjórnvöld eru stopp og jafnvel afturábak í velferðamálum og er það miður, þar sem velferðarmál hafa skipað stóran sess í orði hjá þeim stjórnmálaöflum sem sitja við völd. Það er mikilvægt að Verkalýðshreifingin sem og önnur áhrifasamtök í landinu verði ekki líka stopp og taki nú höndum saman um að útrýma fátækt þegar í stað. Það verður best gert með því að laun verkafólks verði hækkuð verulega, jafnvel það mikið að laun einnar fyrirvinnu dugi til að framfleyta meðalfjölskyldu. Það er nefnilega ekki nóg að tala um vandann, heldur þarf líka að ákveða lausn vandans, því þessi vandi felst ekki síst í of lágum launum verkafólks og ber verkalýðshreifingin þar sjálf mestu ábyrgð á. Í annan stað að ríki og sveitarfélög leggi til handbært fé og stofni til atvinnurekstrar í útfluttningsgreinum til styrkingar atvinnulífinu fremur en óarðbærar framkvæmdir eins og hingað til hefur tíðkast.

Flettingar í dag: 72
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 2887
Gestir í gær: 206
Samtals flettingar: 229345
Samtals gestir: 29867
Tölur uppfærðar: 14.10.2024 03:06:42