Flokkur: Spaug
18.02.2010 23:35
Búðargletta
Karl einn er Jón hét, þótti bæði auðtrúa og fljótfær og höfðu gárungarnir gaman af að glettast við hann af þeim sökum. Eitt sinn er Jón var staddur á Eyrarbakka í kaupstaðarferð, vatt sér að honum kunningi hans og spurði með alvöruþrungnum ákafa, hvort hann (Jón) hafi heyrt um hvalrekann. Nei, Jón hafði ekkert heyrt, og hóf þegar að spyrja kunningjann í þaula um þennan merkisatburð, en hinn ansaði engu. Loks þagnaði Jón. Þá sagði hinn með mestu hægð: "Ja, ég hefi nú reyndar ekki heyrt það heldur."
Spaug
Þennan dag: 1973 12 Vestmannaeyjafjölskyldur setjast hér að eftir að gos hófst í Eyjum.
10.02.2010 22:15
Glettur
Bergur í Kálfhaga var oft fljótur til svars og gamansamur í orðum. Hann varð maður gamall, en eltist vel. Eitt sinn er hann var kominn á efri ár, hitti hann kunningjakonu
sína, Pálínu Pálsdóttur frá Eyrarbakka, og sagði hún þá við hann: "En hvað Þú ert alltaf fallegur, Bergur minn, þó að þú eldist." Hann svaraði samstundis: "Það er von, væna mín. - Þetta er af svo miklu að taka."Spaug
28.01.2010 23:30
Búðargletta
Jónína hét kona ein á Bakkanum og lét ekki eftir sér að brúka munn þegar svo bar við. Einhverju sinni er hún var að vinna við uppskipun gerðist það óhapp að hún hrasaði á sleypri bryggjunni og lennti á flöskubrotum með munninn og skarst all mikið.
Þegar þetta óhapp barst í tal við búðarborðið í Vesturbúðinni varð manninum hennar þetta að orði: " Jú, munnurinn á henni Nínu, sá fékk nú heldur betur á kjaftinn"
J
Þennan dag:1966 Þorpið varð ófært vegna fannfergis.
27.01.2010 22:27
Búðargletta
Metingur var milli tveggja karla í Hraunshverfi á Eyrarbakka um það hvor þeirra væri ríkari.
Eitt sinn þegar þetta barst á tal í Vesturbúðinni var öðrum karlinum þetta að orði " Það er þó alltaf munur á að þegar Jón hrekkur uppaf, þá fær strákurinn hans allt, en ég á allt eftir minn dag" J
16.01.2010 14:50
Glettur
Maður nokkur úr Flóanum kom í vesturbúðina á Eyrarbakka og sagði: "Góðan daginn og komið þér sælir, Nielsen. Nú er nokkuð komið fyrir: Nú er pápi dauður og ég ætlaði að biðja yður að láta okkur fá út í reikninginn okkar sína ögnina af hverju - kaffi, sykri, kaffirót og svo á kútinn". "Ja, ég skal nú gá að", svaraði Nielsen. "Það er ekki að gá að því- hann er dauður", sagði maðurinn.
15.01.2010 22:46
Glettur
Vigfús bóndi Ófeigsson í Framnesi á Skeiðum, vildi vera reifur í kaupstaðarferðum eins og mörgum hinna gömlu bænda hætti til. En með því að hann var maður sparsamur, gat hann ekki dulið sig þess, að brennivínið dró út aura.
Nú var það, að hann var að kaupa sér brennivín hjá Einari borgara á Eyrarbakka og þótti verðið nokkuð hátt. "Það veit ég, að guð getur grátið yfir því, hvað brennivínið er dýrt hér", varð honum að orði. "Og ekki held ég, að hann gráti yfir því", svaraði Einar borgari og' glotti við tönn. "Svo mikið er vist", sagði Vigfús, "að ekki hlær hann að því".
Tíminn 19.tbl.1964
13.01.2010 21:30
Glettur
Sveinn silkivefari átti heima á Eyrarbakka. Ekki var hann í tölu ríkismanna, en var öðrum mönnum fremri við vefstólínn. Sveinn tók til sín stúlku úr átthögum sínum, Hvolhreppi í Rangárvallasýslu, og leið ekki á löngu, áður en hann hafði gert henni barn. Hreppsnefndinni leist ekki á þetta háttalag, og gerði hún silkivefaranum heimsókn. Sveinn vissi upp á sig skömmina og þótist þurfa að bera í bætifláka fyrir sig og stúlkuna:
"Fyrst lét ég hana sofa í beddanum", sagði hann, "og henni leiddist það, vesalingum. Þá lét ég hana sofa hælfætis, en þar kunni hún ekki við sig. Þá lét ég hana sofa uppi í til en þá gat ég ekki að mér gert."
Heimild: Tíminn 1.tbl 1964
Þennan dag:1975 Aftaka veður.
12.01.2010 22:18
Glettur
Magnús Magnússon í Laufási veiddi sumarið 1963 furðulax í net sitt í Ölfusárósum. Laxinn var hængur og vóg 1250 gr. og var 40 cm. á lengd. Furðulaxinn var sendur veiðimálastofnun til ransóknar. Mönnu þótti það einkennilegt að fiskurinn hafði laxa haus og laxa sporð, en búkurinn væri annarar tegundar.
[Líklega var Gulllax hér á ferð]Á þessum degi: 1913 Lognflóðið. Sjógarðar brotna.
11.01.2010 22:54
Glettur
Einar Ingimundarson umboðsmaður í Kaldaðarnesi var nokkuð vínhneigður og þótti fullhressilegur í tali, þegar hann var ölvaður. Lét hann þá stundum meira yfir sínu en efni stóðu til. Eitt sinn var Einar í Eyrarbakkabúð um miðsumarleyti og vildi fá vöru í reikning sinn, en Nielsen verslunarstjóri færðist undan og bar því við að uppgjör stæði fyrir dyrum.
Þá mælti Einar: "Ég er umboðsmaður og hef yfir mönnum að segja, og þegar ég býð einum að fara, þá fer hann, og öðrum að koma, þá kemur hann, og ef ég fæ hér ekki það, sem ég þarf, sleppi ég af ykkur hendinni. Þið getið farið á hausinn fyrir mér, og réttast væri, að ég ræki fimmtíu naut suður á morgun".
Þennan dag: 1993 Ófært í þorpinu vegna snjóa.
10.01.2010 21:47
Glettur
Ari í Stöðlakoti á Eyrarbakka hlýddi eitt sinn á, er menn ræddu um kvensemi. Vildi hann leggja orð í belg og segir: "Ja, kvenskur er ég, en kvenskari er þó konan mín"
Jón Magnússon átti heima í Mundakoti á Eyrarbakka. Bústýra hans hét Guðbjörg Jónsdóttir. Jón sló ekki hendinni á móti áfengi, en Guðbjörgu var mjög á móti skapi, að hann drykki. Svo var það á páskadagsmorgun, að Jón fékk sér allríflega hressingu og var hann alldrukkinn orðinn þegar um hádegi. Sló þá í brýnu með þeim Guðbjörgu. Eftir nokkurt hnotabit mælti Jón: "Það er ekki annað eins drægsli á hnettinum og þú". Guðbjörg svaraði: "Þú útvaldir þér þó þessa faldaeyju".
Þennan dag: 1967 flæddi inn úr sjógarðshliðum í stórveltubrimi. 2000 Ofsaveður og stórsjór gekk á land. Miklir sjávarskaðar á Stokkseyri og Grindavík.
17.10.2009 22:12
Galdrakarlinn Ögmundur
Margrét Teitsdóttir (d.1933) frá Hólmsbæ á Eyrarbakka (Systir Magnúsar hagyrðings á Stokkseyri) var merk kona og kunni frá mörgu að segja, t.d. hafði Brynjólfur Jónsson frá Minnanúpi skráð söguna um Galdra-Ögmund eftir henni en hún var birt í þjóðsagnaritinu Huld. Galdra-Ögmundur var Sighvatsson og bjó á Loftstöðum í Flóa. Sagan segir að Tyrknest skip hafi komið upp að ströndinni um miðja 17. öld. Flúðu þá allir frá Loftstöðum nema Ögmundur sem þá var kominn nokkuð við aldur og sagði að sér væri sama þótt Tyrkirnir dræpu sig. En þá gerðist það að hvessti af norðan og skip Tyrkjanna hraktist á haf út. Já máttur Galdra-Ögmundar var mikill og ekki væri það ónýtt ef Ögmundur okkar tíma léki það eftir gagnvart óvættum nútímans.
08.10.2008 11:34
Engin kreppa á Eyrarbakka.
Á Bakkanum gengur lífið sinn vanagang í kyrð og ró. Ekki þurfum við að óttast bankahrun því hér er engin banki. Bankinn fór héðan árið 2001 til þess að taka þátt í Matador í útlöndum og nú er spilið tapað eins og alþjóð veit. Við þurfum heldur ekki að óttast vöruskort í kaupfélaginu, því kaupfélagið fór í leiðangur árið 2002 og hefur ekki sést hér síðan. Ekki þurfum við að óttast atvinnuleysi í plássinu því hér hefur enga atvinnu verið að hafa síðan iðnaður og sjávarútvegur lagðist af árið 2006. Það voru engin rússnesk lán tekin til að bjarga hreppssjóðnum því hreppurinn hefur ekki verið til síðan árið 1998.
Við erum þrátt fyrir þetta bjartsýn og horfum fram á veginn því héðan liggur leiðin bara upp.
29.12.2007 23:10
þannig var 2007
Í janúar var tíðin mild og skíðaiðkan varð næstum úrelt sport á landi ísa og margir hugðust gefa sjóminjasafninu skíði sín og stunda bara golf héðan í frá, en svo rættist úr, því þann 10.janúar tók að snjóa og snjóa og snjóa og kaldir vindar blésu um lönd og láð og á endanum fór allt á bólakaf í snjó og gekk svo fram á Bóndadag. Svo kom Þorraþýða og þá héldu 80 börn úr barnaskólanum á Bakkanum heim til sín í mótmælaskyni vegna meints sleifarlags bæjaryfirvalda við framkvæmdir á skólalóð elsta barnaskóla Íslands. Þá var vor í lofti á Bakkanum."Ekkert vor í Árborg" sagði þá bæjarstýran á Selfossi.
Í febrúar urðu snemmkomnar leysingar til þess að fjaran fylltist af ísruðningi úr Ölfusá. Þetta gerist árlega, en oftast þó í mars mánuði. Í þýðunni hófu Bakkamenn að byggja ný hús, bæta og breyta eins og aðrir landsmenn. Þá fór mb. Álaborgin til Vestmannaeyja og kom ekki aftur því síðasta fiskverkunarhúsið lokaði og seldi bátinn og kvótann með. "Lífið er ekki lengur saltfiskur" sagði Jói. Það voru fleiri sem lögðu upp laupana þennan mánuðinn. Á meðan febrúarsólin bakaði húsveggina á Bakkanum hætti Jón Bjarni með sjoppuna sína og Íslandspóstur fór líka sama dag. "Kreppa" sagði einhver. (Þorpsbúar senda nú bréf með vinum og vandamönnum!)
Í mars komu fyrstu farfuglarnir. það voru nokkrar hungraðar rituskjátur sem settust að í fjörunni. Veðrið var milt í fyrstu svo að nokkrir vorlaukar rugluðust eins og landsmenn og tóku að springa út of snemma, því dag einn kom skyndilega fimbulvetur svona upp úr þurru. Svo skiptust á stormar og stillur. Unnarsdætur létu dansinn duna við mararbakkann sem aldrei fyrr og þeyttu stórgrýti og smásteinum undan faldi sínum upp í fjörukambinn. Um það leiti opnuðu bræðurnir frá Merkisteini nýja verslun á Eyrarbakka og skömmu síðar kom Tjaldurinn og Lóan sem slapp við að kveða burt snjóinn að þessu sinni.
Páskahretið kom ekki eins og menn áttu von á og var aprílmánuður í mildari kantinum. Bakkamönnum dreymdi um endurbyggingu Vesturbúðarinnar eins og höfuðborgarbúum sem dreymir um músikkhöll, þessa þýðu aprílnætur. "Hér er verk að vinna" sagði Mangi. Sumar og vetur frusu svo saman og Harpa gekk í garð með sinureyk.
Strax í maí fór að hitna í kolunum og hvert hitametið á fætur öðru var slegið víða um land. Í hafinu skorti Sandsíli en krían kom samt og túnfíflar gægðust upp úr grasflötinni. Hátíðin Vorskipið kemur var haldin með glæsibrag."Hvar er vorskipið?" spurði aðkomumaður einn langt að kominn, en svo kom hret. Það snjóaði í fjöll og niður á láglendi eins og feigðarboði. Um Hvítasunnu andaði enn köldu, en um síðir birti upp öll él og svo tók að hlýna heldur betur og undir lok mánaðarins var ríflega 17 stiga hiti á Bakkanum.
Í byrjun júní fór að rigna með sunnanáttum og brimið hjó klappirnar. Svo kom sólin og þurkaði upp engjar, tjarnir og tún. Bakkamenn héldu sína árlegu Jónsmessuhátíð í blíðskaparveðri í fjöruni og undu glaðir við sitt, enda oft séð það svartara. Bjarni hélt ræðu og blés mönnum eld í brjóst. Þá urðu menn varir við hlýnun loftslagsins þegar hitastigið tók að rjúka upp í 20°C hvað eftir annað síðustu dagana í júní.
Sólin vermdi Bakkann í júli, en stöku þrumuskúrir brustu á eins og í heitum og fjarlægum löndum. Þurkurinn hélst við allann mánuðinn með hita allt að 22°C. Verulega hægði á grasvexti og svörð tók að brenna. Bændur svitnuðu!
Ágústmánuður byrjaði með sama sniði, þurr og hlýr, svo elstu menn kunnu ekki frá að segja öðru eins, en svo kom næturfrost kartöflubændum að óvörum. Undir lokin kom svo rigningin og rokið í öllu sínu veldi og krían hélt suður án ungviðis eina ferðina enn.
Í byrjun september fóru stormar að gera vart við sig með rigningartíð og leiðindarveðri sem hélst út mánuðinn. Úrkomumetin voru víða slegin á meðan Bakkamenn tóku upp karöflurnar sínar þetta haustið. "Þetta er bara smælki" sagði Gvendur á Sandi. "Kreppa" sagði einhver.
Áfram ringdi í oktober og stormar feyktu laufum af trjánum á meðan Selfoss hristist í jarðskjálftum. Selfyssingunum tókst að stöðva jarðskjálftana um stund með því að syngja Selfosslagið í sífellu undir stjórn sýslumannsins í lúðrasveitarbúningnum. Svo kom fyrsti vetrardagur með svala í lofti og daginn eftir féll fyrsti snjórinn á Bakkann.
Nóvember byrjaði með stormi og Flóinn skalf í jarðskjálftahrinu og Selfosslagið tók að glymja á ný í útvarpinu. Rigningartíðin hélt áfram og mánuðurinn leið út eins og hann byrjaði.
Desember var einnig óvenju stormasamur með ofsaveðri á köflum og tóku Ægisdætur að skvettast á land og róta upp í fjörunni svo sumum stóð vart á sama. "Nei" sagði siglingamálastjóri þegar hann var beðinn um lengri sjóvarnargarð. "Kreppa" sagði einhver. Svo komu jólin með bílfarma af gjafapappír og þá fór að snjóa og veður urðu köld fram til áramóta. Árinu lýkur svo með hvelli. þ.e. asahláku, grenjandi rigningu og kolvitlausu veðri að sögn.
21.06.2007 12:16
Hvalreki mikil búbót fyrir Stokkseyringa?
Áður fyrr var hvalreki mikil búbót fyrir þá sem höfðu aðgang að slíkum reka,en happafengur af þessu tagi var hinsvegar tiltölulega sjaldgæfur þegar hvalveiðar voru með mestum blóma, en á síðustu árum hefur orðið vart hvalreka í vaxandi mæli, bæði sunnan lands og norðan.
Nú til dags er hvalreki hið mesta óhapp því landeiganda er gert að sjá um að fjarlægja og urða skepnuna, en ef til vill gætu Stokkseyringar gert sér mat úr þessum búrhval sem rak þar á land á dögunum. Úr hvalspikinu gætu þeir unnið lýsi og tappað á flöskur, selt það svo aðkomumönnum sem heilsusamlegan töfradrykk (Stokkseyrar elíxer). Kjötið gætu þeir reykt og saltað og selt japönskum ferðamönnum eða lagt í súr og notað í desert á næsta þorrablóti. Grindina væri síðan hægt að stilla upp á væntanlegu skrímslasafni á Stokkseyri enda voru hvalir taldir til sjóskrímsla í fyrndinni.