Flokkur: Dagbókin
27.10.2009 23:09
Frostmetið 1970 og úrkomumet 2006
24.10.2009 22:10
Hundafárið mikla
Þennan dag 1966 geysar hundafár hér í þorpinu og hafði þá ekki gerst síðan 1941. Daginn eftir kom lögreglan á Selfossi ásamt Jóni Guðbrandssyni héraðsdýralækni og voru allir hundar Eyrbekkinga 20 að tölu aflífaðir. Um helmingur hundanna hafði þá tekið pestina. Hundafár er mjög alvarlegur sjúkdómur sem smitast hratt á meðal óbólusettra hunda.
Það gerðist einnig þennan dag
1969. að trilla Matta Ólsen sökk við bryggju í ofsabrimi. Þá slitnaði upp mb. Bjarni Ólafsson á Stokkseyri. 2007 Jarðskjálftar skóku Selfoss
20.10.2009 21:18
Varð óvart ríkur
Bóndi einn á Eyrarbakka, Vigfús Halldórsson í Simbakoti, fann 15. marz 1890 peninga í leynihólfi í gafli á gamalli kistu, er hann átti og var að rífa sundur; voru það alls 79 spesíus, 42 ríkisdalir, 1 fírskildingur og 1 túskildingur; voru peningarnir alls 6 pd. að þyngd; elzta spesían var mótuð 1787, hin yngsta 1840, yngsti ríkisdalurinn var mótaður 1842, fírskildingurinn 1836 og túskildingurinn 1654. Kom það síðar upp, að kistan bafði verið í eigu Hafliða Kolbeinssonar, þess er viðriðinn var Kambsmálið á öndverðri þessari öld og mundi hann hafa fólgið fje þetta.
(ísaf. 1890, XVII, nr. 28 og 31-32).
15.10.2009 20:21
Bólstaður hverfur
Þessa daganna er verið að brjóta niður enn eitt jarðskjálftahúsið sem eyðilagðist í Suðurlandsskjálftanum 2008. Nú er það Bólstaður sem lokið hefur sínu hlutverki. Það er rétt eins og önnur slík byggt úr holsteini á 6.áratug síðustu aldar. Bólstaður er 6. íbúðarhúsið á Eyrarbakka sem hlýtur þessi dapurlegu örlög.
Þennan dag:1969 Frímerkjafélag UMFE stofnað.
14.10.2009 22:39
Þennan dag 1975
Veiðafærahús HE brann. Þar voru geymd veiðafæri margra báta, m.a. öll humartroll Hraðfrystistöðvarinnar auk einnar 3 tn. trillu. Veiðafærageimslan var annarsvegar í gömlu trésmiðjunni og sambyggðum 300 fermetra bragga sem lengi var skreiðarskemma. Eldsins varð vart laust eftir miðnætti og urðu bæði húsin fljótlega alelda. Slökkvilið Eyrarbakka barðist við eldinn með hjálp slökkvuliðsins á Stokkseyri til kl 7 um morguninn. Húsinn brunnu bæði til grunna og nam tjónið miljónum á þávirði. Eldsupptök voru ókunn.
08.10.2009 22:12
Stormur í aðsígi
Blési vindur ákaft af hafi, var það til forna kallað Stormur, en táknaði síðan vindhraða frá 8-9 vindstig nú vindhraða yfir 20 m/s. Einhverntíman töldu menn að titrandi stjörnur boðuðu storm, Nú tala menn um að það sé stormur í kortunum og svo er nú loftvogin eða barometerinn tekinn að falla, en á hana treystu skipstjórar fyrri tíma til að vara við stormi.
Samkvæmt þessu ætti ekki að verða neitt aftakaveður hjá okkur á morgun, en öllu verra á höfuðborgarsvæðinu og á fjallinu. Ráðlegast að halda sig innan græna svæðisins.
Á þessum degi: 1966. Borað eftir köldu vatni í Kaldaðarnesi. 1996 Stórbrim
03.10.2009 17:58
Fjöllin klæðast hvítu.
Fallegur dagur, bjartur og fjöllin skarta hvítum kufli.
þennann dag: 1968 Heybruni mikill á Litla-Hrauni þegar hlaða sem þar var brann.1976 var mesti hiti fyrir þennan dag 14°C, en mesta frost 1986 -7,3°C
02.10.2009 12:44
Slyddurigning
Veðrið í dag er heldur leiðinlegt með kalsarigningu og fremur svalt en vindur skaplegur. Í morgun hafði snjóað í fjöllinn. Á Selfossi var krapasnjór og slydda. Nú er spáð norðanátt með kvöldinu og kólnandi veðri en stormurinn sem spáð var með suðurströndinni nær sennilega ekki á Bakkann.
Úrkoma kl.09 mældist 35mm.
Þennan dag: 1958 mældist mesti hiti sem mælst hefur hér í oktober 15.1°C
07.09.2009 13:00
Veðrið á Google Eart
Google Eart er ágætis tæki fyrir veðuráhugamenn. þar má til að mynda sjá skýjafar í rauntíma, fellibyli og hitabeltisstorma. Úrkomuradar er víða um heim, Hitastig ásamt helstu veðurupplýsingum og veðurspá í flestum borgum og bæjum, jarðskjálfta síðustu vikna, mánaða og ára og ýmis annan fróðleik má finna þar.
Hér er hægt að hlaða niður http://earth.google.com/
Þennan dag:1983 Bakkavík fórst á Bússusundi. 1 komst af 2 fórust.
03.09.2009 23:20
Húm og myrkur hefja sig
Það er komið haust og Máninn veður í skýjum. Í húminu kólnar og fuglasöngur hljóðnar en ljósin vaka. Á þessum degi 1988 var Óseyrarbrú vígð, en hún styttir okkur leiðina yfir heiðina.
01.09.2009 20:57
Símtal til Reykjavíkur
Þennan dag 1909 Var í fyrsta sinn talað í síma milli Eyrarbakka og Reykjavíkur.1988 Var óskaplegt brim í kjölfar fellibylsins Helenar. Þessi dagur var heitastur 17°C árið 2006, en kaldastur -0,6 árið 1976. Mesta úrkoma var á þessum degi 1972 39.4 mm.
Í dag var annars fallegt veður,hægviðrasamt og sléttur sjór.
21.07.2009 11:22
Höfn horfið
Húsið Höfn í Einarshafnarhverfi var rifið nú í vikunni og er það fimmta jarðskjálftahúsið í þorpinu sem hlýtur þau örlög. Húsið var steinhús frá 5. áratug 20.aldar.
01.06.2009 23:55
Hvar var Skúmstaðakirkjugarður?
Maður að nafni "Einar Herjólfsson var stunginn í hel með knífi á Uppstigningardag í kirkjugarðinum á Skúmstöðum árið 1412" segir í Nýannál. Var sá maður talinn vera norskur kaupmaður af sagnaritara, en fræðimenn sumir telja að hann hafi verið íslenskur og stundað kaupskap á Eyrarbakka þá er hann var veginn. Sá sami Einar Herjólfsson var líkast til frægari fyrir að hafa borið svartadauða* til landsins með skipi sínu haustið 1402 er hann sigldi því frá Englandi til Hvalfjarðar, heldur en fyrir þá sögn að hafa fallið fyrir morðingja hendi á Eyrarbakka. En 200 árum seinna getur sr. Jón Egilsson biskupsritari í Hrepphólum um guðshús á Skúmstöðum í tíð Ögmundar Pálssonar Skálholtsbiskups (1521-1541) " Þar var kapella nokkuð stór, hvar inni var bæði sungið og messað og þar sér enn merki til hennar, lítið hólkorn til austurs undan húsunum þar í sandinum. Svo sem af veggnum eða gaflhlaðinni"
Hvar mun þessi kirkjugarður og guðshús hafa verið? Sigurður Andersen heitinn taldi að hér væri átt við Gónhól og að þar muni Skúmur sá er byggði Skúmstaði hafa verið grafinn á sínum tíma. Hann bendir á að bannhelgi hafi hvílt á hólnum frá ómuna tíð. En einnig að Garðbæjarnafnið kunni að vera tilkomið vegna eldri sambærilegra nafna, en elstu heimildir nefna byggðina þar "í Garðinum" og "hjá Garðinum" Þá var bæjarnafnið Gvendarkot á Garði til í upphafi 19.aldar. Taldi Sigurður það vísa til kirkjugarðs á þessum slóðum auk örnefnisins Garðskletta sunnan við Gónhól. Sigurður taldi hinsvegar að Gónhólsnafnið hafi komið til sögunnar í lok 18. aldar, en þá eins og síðar bjuggu hafnsögumenn verslunarinnar í Garðbæ og því sjálfsagt tíðgengið á hólinn að líta yfir (góna á) hafið og gæta að skipakomum.
Það má færa rök fyrir því að ekki sé um annan hól að ræða því Skúmstaðarland er eða var rennislétt grund fyrir utan Gónhól og hæðina þar sem Skúmstaðabæirnir stóðu. Árið 1906 eða þar um bil grófu þeir Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi og P.Níelsen verslunarstjóri í hólnum og komu niður á eldstæði, en hættu greftrinum við svo búið. Gónhóll verður því hulinn á bak við tjald tímans enn um sinn.
Nokkrum spurningu er þó ósvarað. Hvað var Einar Herjólfsson að gera í Skúmstaðarkirkjugarði og hversvegna var hann derpinn þar og hver var valdur að dauða hans? Ef til vill liggur svarið í augum uppi, eða öllu heldur við getum giskað á að þennan Uppstigningardag árið 1412 var verið að messa í Skúmstaðarkapellu og Einar hafi verið með skip sitt á Eyrarbakka á sama tíma og því gengið til messunar ásamt öðrum mektarmönnum. Einhver sem átti harma að hefna e.t.v. vegna pestarinnar miklu hafi þekkt þar manninn sem bar pestina til landsins. Þegar Einar gekk út að messu lokinni hafi hann mætt banamanni sínum.
*Talið er að um 40.000 manns hafi látist úr pestinni hér á landi sem var skæð bráðsmitandi lungnaflensa og margt um lík svartadauða sem geisaði í evrópu hálfri öld áður.
Heimild: ritsafn Sig. Andersen
03.05.2009 20:30
Humarbærinn- humarævintírið mikla
Hraðfrystihús var byggt hér árið 1943. það tók við afla bátanna til verkunar og kom sér upp aðstöðu til söltunar, skreiðaverkunar og lifrarbræðslu. Árið 1954 voru síðan hafnar tilraunir til humarveiða frá Eyrarbakka og voru upphafsmenn þess aðalega Sigurður Guðjónsson skipstjóri frá Litlu Háeyri sem tók á leigu Ófeig II og Vigfús Jónsson oddviti og framkvæmdastjóri HE. Vigfús lét m.a. kanna markaði erlendis fyrir humarinn og var bandaríkjamarkaður heppilegastur í þessu tilliti.
Hugmyndir um humarveiðar vöknuðu hérlendis árið 1939 og lét þá fiskimálanefnd ásamt Sölusambandi íslenskra fiskframleiðenda (SÍF) kanna möguleg humarmið hér við land, en íslenskir togarar höfðu þá oft fengið svokallaðann leturhumar í trollin einkum suður af Reykjanesi og við Vestmannaeyjar, en í skólabókum þess tíma var leturhumar ekki talin til nytjadýra. Fram til ársins 1954 var hraðfrystihúsið í Höfnum lengst af eitt um humarvinnslu hérlendis.
Um sumarið 1954 hófu tveir bátar frá Eyrarbakka humarveiðar á Selvogsbanka og austur af Stokkseyri með ágætum árangri og fljótlega bættist þriðji báturinn við humarveiðiflotann. Í framhaldi þessa góða árangurs hófu Stokkseyringar og Þorlákshafnarbúar veiðar á humri. Þetta varð til þess að nýr atvinnuvegur þróaðist á Eyrarbakka og á Stokkseyri næstu ár. 50 til 60 skólabörn víða að fengu vinnu við humarvinnsluna á Eyrarbakka þá þrjá mánuði sem humarvertíðin stóð og annað eins á Stokkseyri. Humarmjöl var síðan framleitt úr úrganginum og þótti verðmætt í fóður. Þó humarveiðar og vinnsla séu nú aflögð á Bakkanum má enn fá ljúfenga humarmáltíð á Rauða húsinu á Eyrarbakka og á veitingastaðnum Við fjöruborðið á Stokkseyri.
03.03.2009 23:35
Tvö hús jöfnuð við jörðu í dag
Tvö sjálftahús voru jöfnuð við jörðu í dag með stórvirkum vinnuvélum. Það eru húsin Smáravellir sem hér sést á efri myndinni og Mundakot II, neðri mynd. Þá eru fjögur hús horfinn af Bakkanum og þykir Eyrbekkingum það sorgleg sjón að sjá á eftir þessum reisulegum húsum.
Eins og áður hefur komið fram hér á síðunni, þá voru öll þau hús sem þegar er búið að brjóta niður byggð úr holsteini, en það er hleðslusteinn úr vikurblöndu. Sá byggingarmáti var mjög til siðs á sjötta áratug síðustu aldar. Allnokkur hús voru þannig byggð á Eyrarbakka sem og víðar.
Enn eru einhver hús sem bíða sömu örlaga og sjónarsviptir verður af. En sem betur fer eru Eyrbekkingar ekki af baki dottnir og byggja ný falleg og reisuleg hús sem falla vel við gamla þorpið.