Flokkur: Dagbókin

12.03.2021 22:07

Leikskóli í nær hálfa öld.

Þann 17. mars 1975 var gerð tilraun til að reka dagvistun á Eyrarbakka yfir vertíðina. Það var tvísetinn leikskóli, fyrir og eftir hádegi. Áhugi fyrir þessu hafði verið í umræðunni um nokkurt skeið hjá sveitarstjórn, verkalýðsfélaginu Bárunni, kvenfélaginu og stjórn Hraðfrystistöðvar Eyrarbakka, sem kallaði eftir vinnuafli húsmæðra.
Aðstaða fékkst í húsi sem Ungmennafélag Eyrarbakka og vmf Báran áttu saman og hét Brimver og festist það nafn við leikskólinn.
Þær Gyðríður Sigurðardóttir og Auður Hjálmarsdóttir, voru ráðnar til að stýra leikskólanum sem hefur starfað óslitið síðan. Árið 1982 var húsnæðið endurnýjað með því að kaupa fokhelt einingahús frá SG-hús sem sjálfboðaliðar og feður luku við að einangra og klæða innan. Húsnæðið var síðan stækkað og endurbætt árið 1995.

Heimild: mbl.is tímarit.is 

18.02.2021 22:43

Vatnsveitan

Frá fornu fari hafði vatnið verið sótt brunna sem voru margir á Bakkanum og flestar útbúnar brunnvindum. Gerð var tilraun til að bora eftir vatni í við þorpið en það var djúpt á því og þegar farið var að dæla kom flótt mýrarauða með því og vatnið því ónothæft. Ein slík hola var boruð við Frystihúsið og notuð þar til hreppurinn gekst fyrir vatnsöflun úr Kaldaðarnesi 1967. Þar er jarðvatnsstaðan há og fékkst sæmilegt neysluvatn sem dælt var 6 km leið í vatnstank sem byggður var í Hjalladæl. Vatnsveitan var tekin í notkun þann 18. febrúar 1968. Árið 1977 gerði Orkustofnun könnun á vatnsöflun fyrir Eyrarbakka, en athuganir sýndu að leirkennt efni barst með neysluvatninu sem talið að eigi uppruna úr Ölfusá. Úr þessu fékkst þó ekki bætt að sinni. Ástand vatnsöflunar á Stokkseyri var síst betra. Eftir sameiningu sveitarfélaganna í Árborg var farið að huga að þessum málum á ný fyrir bæði þorpinn og árið 2006 var lögð ný vatnsleiðsla frá Selfossi til Eyrarbakka og Stokkseyar. En vatnið er sótt í vatnslyndir í Ingólfsfjalli 14 km leið frá Eyrarbakka og 17 km frá Stokkseyri. Árið 2017 var síðan byggð dælustöð við vegamótin til þorpanna og hefur vatnsöflun verið í góðu horfi síðan. Nokkrar nýjar vatnslyndir hafa verið virkjaðar við Ingólfsfjall á þessu árabili enda ört vaxandi byggð á svæðinu.

16.02.2021 22:54

Sjógarðurinn á Bakkanum


Eitt af merkustu mannvirkjum fyrri alda er sjógarðurinn á Eyrarbakka. Elsti hluti hans er frá árinu 1800, en árið áður (1799) gekk svokallað 'Stóraflód' yfir þorpið og olli miklu tjóni. Þá var farið að huga að vörnum gegn árgangi sjávar með því að byggja garð hlaðinn úr grjóti. Fyrst framan við verslunarhúsin þar sem þau stóðu og síðan framan við kaupmanns-Húsið. Stöðugt var unnið að garðhleðslunni og endurbótum á henni næstu 110 árin, en þá náði sjógarðurinn frá Ölfusárósum og austur fyrir Stokkseyri. Síðan höfðu stórflóð rofið skörð í garðinn hér og þar, t.d. í flóðunum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Endurbygging nýrra sjóvarnargarða hefst síða 1990 eftir stormflóðið. Þeim var síðan að fullu lokið við árið 1997. Efnið er tekið úr hrauni ofan þorpsins ásamt stórgrýti sem flutt er ofan úr Grímsnesi og hlaðið upp sjávarmegin við eldri sjógarðinn. Einnig var talsvert magn af grjóti fengið frá Hrauni í Ölfusi. Þannig á þetta mannvirki um 200 ára gamla sögu sem vel mætti gera betri skil með ýmsum hætti. Verktakar við uppbyggingu nýja sjógarðsins voru Sveinbjörn Runólfsson og Ístak. 

03.01.2021 22:28

Skipakomur 1884 - 1885


Árið 1884 komu 12 kaupskip til Eyrarbakka.
6 skip frá danmörku. 5 frá bretlandi og 1 frá noregi.
Á árinu 1885 komu 13 kaupskip.
Til Lefolii-verslunar 7 skip. Til Einars borgara komu 4 og 2 til Muus kaupmanns.
Aðallega var flutt inn korn, kaffi, timbur, tjara, sement og járnvara. En einnig ýmsar bænda og heimilisvörur. Út var flutt ull og gærur, skreið og saltfiskur tólg, kjöt og lax. Eitthvað var líka um hrossaútfluttninga á þessum árum sem og áður fyrr, til brúkunar í enskum kolanámum.

01.01.2021 22:03

Jarðakaupin


Stefna Eyarbakkahrepps í jarðakaupamálum hófust upp úr aldamótunum 1900. Fyrst voru keyptar jarðir í Sandvíkurhreppi, Flóagaflstorfan sem voru 1/10 hluti úr Sandvíkurhreppi og voru jarðirnar að fullu eign Eyarbakkahrepps 1. janúar 1947. Síðan voru keyptar jarðirnar Óseyrarnes og Gamla-Hraun. Árið 1959 voru svo keyptar jarðirnar sem þorpið stendur á. Einarshöfn, Skúmstaðir og Stóra-Háeyri með öllum hjáleigum. Eigendur þessara jarða voru verslunin Lefolii, Þorleifsson Kolbeinssonar og Guðmundar Ísleifssonar á Háeyri. 

31.12.2020 21:00

Íbúafjöldi á Eyrarbakka

Skráður íbúafjöldi var mestur á Bakkanum árin  1918-1920. Þá bjuggu hér 950 til 1000 manns. Þar af bjuggu í Hraunshverfi um 100 manns, flest í torfbæjum. Í stærri húsum á Bakkanum sem þá voru flest nýbyggð, bjuggu 2 - 3 fjölskyldur saman og oft barnmargar. Síðan tók íbúum að fækka og Hraunshverfi og torfbæirnir lögðust í eyði. Stórverslunin lagðist af og með því hurfu störf fjölda fólks. Frá þeim tíma hefur íbúatalan verið nokkuð stöðug milli 5 og 600 manns. Árið 2019 voru 558 íbúar á Eyrarbakka.
Í dag búa ríflega 10.000 manns í Árborg, sameinuðu sveitarfélagi.

23.12.2020 23:02

Frystihúsið


Á þorláksmessu 1943 var tekin fyrsta skóflustungan að Hraðfrystistöð Eyrarbakka. Húsið var reist á félagslegum grundvelli eins og svo margt annað á Bakkanum. Aðeins fjórum mánuðum síðar var húsið tekið í notkun

17.12.2020 22:04

Barnaskólinn


17. desember 1850: Fyrsti undirbúningsfundur að stofnun barnaskóla á Eyrarbakka var haldinn á Stokkseyri.
12. janúar 1851: Annar undirbúningsfundur haldin og þá kosið í nefndir og ákveðið að skólinn starfaði fyrir bæði þorpinn.
25. október 1852: Skólinn settur í fyrsta sinn.
Skólahúsið á Eyrarbakka var byggt með fjáröflun almennings en á Stokkseyri var aðstaða tekin á leigu.
1880 Nýtt skólahús er byggt á vesturbakkanum. Þá voru hugmyndir um stofnun gagfræðaskóla sem náði þó ekki að verða að veruleika.
1897 Eyrarbakkahreppur stofnaður, skólinn klofnar í tvo skóla.
1913 Nýtt skólahús er byggt austast í þorpinu.
1952 Byggt er við skólahúsið. Skólinn 100 ára.
1973 Fyrsta útistofan sett niður.
1981 Byggt við skólahúsið. Skólinn 129 ára.
1987 Tvær nýjar útistofur settar niður.
1996 Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri sameinast á ný. Skólinn 144 ára.
2007 Tvær nýjar útistofur settar niður.
2008 Nýtt skólahús byggt á Stokkseyri eftir langvarandi deilur um staðsetningu.
2014 Byggt við skólahúsið lítil útbygging.
2018 skólalóðin endurnýjuð. Skólinn 166 ára.

01.12.2020 23:31

Þjóðþekktir Eyrbekkingar

Vilhjálmur S Vilhjálmsson rithöfundur.
Ragnar Jónsson í Smára.
Sigurjón Ólafsson myndhöggvari.
Sigurgeir Sigurðsson biskup.
Þorleifur Guðmundsson alþingismaður.
Sigurður Ó Ólafsson alþingismaður.
Peter Níelssen frumkvöðull og verslunarstjóri.
Guðmundur Thorgrímssen verslunarstjóri.
Guðmunda Nielsen kaupmaður.
Guðlaugur Pálsson kaupmaður.
Sigurður Guðjónsson skipstjóri á Kveldúlfstogaranum Egill Skallagrímssonar RE.
Sigurður Jónsson flugmaður (Siggi flug) fæddur á Bakkanum.
sr. Eiríkur J Eiríksson þjóðgarðsvörður.
Sigurður Eiríksson regluboði.
Jón Ingi Sigurmundsson listmálari.
Sigfús Einarsson tónskáld.
Guðmundur Daníelsson rithöfundur.
Hallgrímur Helgason tónskáld.
Haukur Guðlaugsson söngmálastjóri.
Valgeir Guðjónsson tónskáld.


Eflaust eiga margir fleiri heima í þessari upptalningu þó ekki sé getið hér.

08.09.2020 22:03

Landbúnaðurinn


Landbúnaðurinn hafði verið frá fornu fari í höndum landeigenda og hjáleigubænda, en með landakaupum hreppsins um og eftir 1900 gáfust þurrabúðamönnum færi á að koma sér upp fáeinum skepnum, kartöflu og kálgörðum. Skömmu fyrir heimstyrjöldina síðari voru í þorpinu 197 kýr, 136 hross og 1.550 kindur. Helmingur af tekjum þorpsbúar fékkst af landbúnaðinum. Kartöflurækt varð síðar stunduð af tiltölulega fáum aðilum en jafnframt stórum framleiðendum. Um og eftir aldamótin 2000 fækkaði þessum framleiðendum ört svo að nú er svo komið að kartöfluframleiðsla má heita horfin úr þorpinu. Hrossa og sauðfjárrækt eru enn stundaðar á Bakkanum og eru það nær engöngu frístundabændur sem standa undir þeirri ræktun. Hænsnahald hefur tíðkast á Eyrarbakka allt frá landnámi. Eftir síðar heimstyrjöld og framundir 1970 var nær engöngu ítalskur hænsnastofn við lýði en hin síðari ár hafa ræktendur tekið upp íslenska hænsnastofna í auknum mæli. Ekki er óalgengt að fólk haldi fáeinar hænur í bakgörðum sínum, en fyrir einhverjum misserum var hanahald bannað í þorpinu og sakna sumir galsins en aðrir ekki. Önnur alífuglarækt hefur af og til verið stunduð, en í litlum mæli þó.

12.08.2020 22:49

Æskulýðsmál á Eyrarbakka

Forystumenn í þessum málaflokki á Bakkanum voru þessir helst: Jens Sigurðsson kennari bróðir Jóns forseta, Magnús Helgason, Jón Pálsson, Pétur Guðmundsson oddviti, Aðalsteinn Sigmundsson stofnandi skátafélagsins Birkibeinar 1921 og stofnandi UMFE 1925, Ingimar Jóhannesson, Vigfús Jónsson oddviti, Ársæll Þórðarsson, sr. Valgeir Ástráðsson stofnandi Æskulýðsfélags Eyrarbakka 1973 og marga fleiri mætti nefna.

Skátafélagið Birkibeinar var endurvakið 1989 af nokkrum konum og starfaði nokkur ár. Þá hefur björgunarsveitin Björg ætíð haldið úti ungliðastarfi. Knattspyrnufélagið Ægir var stofnað með Stokkseyringum og Ölfusingum 1987 undir formennsku Magnúsar Skúlasonar Eyrarbakka. Stokkseyringar slitu sig úr félaginu ári síðar. Eftir sameiningu Eyrarbakka við Árborg er félagið nánast einvörðungu skipað Ölfusingum.

22.03.2020 01:00

Í skugga kórónuveiru

Um það leiti sem landsmenn voru að kveðja jólahátíðina og búa sig undir langan og harðan vetur á hinu komandi ári 2020, barst sú fregn um netheima að í Whuhanborg í Kína hefði uppgötvast ný og áður óþekkt veira af kórónastofni sem átti upptök sín á markaði með villtar dýraafurðir þar í borg. Óvætturinn reyndist bráð smitandi og barst um eins og eldur í sinu um gervallt Hubei hérað og varð öldruðum og veikum skjótt að aldurtila. Engin bóluefni eða lyf voru til gegn þessari veiru. Kínversk stjórnvöld voru sein að átta sig á alvarleika málsins, en hófu þó gríðarlegt stríð við veiruna um síðir og urðu vel ágengt, en því miður of seint fyrir heimsbyggðina. Veiran hafði stungið sér niður í nálægum löndum, eitt og eitt tilfelli hér og hvar. Tilfellum fjölgaði smátt og smátt, en sumstaðar náði hún sér mjög á strik einkum í Íran og síðan á Ítalíu, Spáni og víðar.

 

Norður Ítalía er mjög þekkt fyrir textíliðnað sinn en einnig fyrir ferðamennsku skíðaiðkenda. Þannig háttaði til að eignarhald á mörgum af þessum textílverksmiðjum eru í höndum Kínverja og verkamennirnir koma flestir frá Wuhan og héruðunum þar í kring. Beint flug var frá Wuhan til norður Ítalíu og þannig barst vírusinn þangað og breiddist út á eldingshraða, einkum vegna samskiptaháttu íbúana þar. Það var því ekki að sökum að spyrja að vírusinn stingi sér niður á skíðahótelunum sem er vinsæll dvalarstaður evrópskra skíðaiðkenda. Ítalir voru seinir til aðgerða, það var eins og þeir tryðu því ekki að "Wuhan" var að raungerast hjá þeim og það var ekki fyrr en í óefni var komið að norðurhéruðunum var lokað og síðan allri Ítalíu og útgöngubann sett á, en þá blasti hryllingurinn þegar við og fólk deyjandi hundruðum saman. Stjórnvöld í evrópu voru líka sein til viðbragða, og voru heldur ekki að trúa því að þetta væri í raun að gerast með þessum skelfilega hætti. Nokkuð sem hefur ekki gerst meðal nokkura liðinna kynslóða. Brátt fóru lönd að loka landamærum sínum og reið Danmörk fyrst á vaðið með stórtækum aðgerðum og að síðustu Evrópusambandið í heild sinni. Þá voru Bandaríkin þegar búin að skella í lás og þóttu íslenskum stjórnvöldum það súrt í broti.

 

Nokkru fyr gekk allt  sinn vana gang á Íslandi og landinn var á ferð og flugi og gerði víðreist ofar skýjum á vélflugum sínum til sólríkari landa, eins og íslendingurinn er orðinn hvað vanastur, þrátt fyrir að segjast stundum vera með "flugviskubit" svona til að friða blessuðu samviskuna gagnvart loftslagsmálum, en meinar auðvitað ekki neitt með því.

 Á norður Ítalíu var staddur nokkur hópur skíðaáhugamanna, einkum úr mennta og heilbrigðisgeiranum. Margir myndu kanski ætla þessum stéttum að hafa vaðið fyrir neðan sig öðru fólki fremur, en eins og íslendingum er tamast þegar á þá sækir ferðahugur, að skilja vitið eftir heima en þess í stað að trysta hópsálinni fyrir för. Með þessum forvörðum íslensks samfélags smuglaði óvætturinn sér til vors lands. Viðbragðsteymi Íslenskra stjórnvalda brugðust þegar við með aðgerðum stig af stigi eftir því sem faraldurinn náði meiri fótfestu í landinu og lýstu fljótlega yfir neyðarástandi. Það er mál flestra manna að vel sé að verkinu staðið, en þó er ljóður á að ekki mátti styggja ferðamennsku að einu né neinu leiti í þessum aðgerðum, enda treystu landsmenn betur á ferðamannin en lóuna til að kveða burt snjóinn og leiðindin. Það var þó sjálfhætt því ferðamaðurinn hvarf hraðar af landi brott en frostrósir undan sólu, en einhverjar spurnir hafa þó verið af blessaðri lóunni þrátt fyrir hjarnavetur.

 

Í dag er veikin sem kölluð er Covid-19 af alþjóða heilbrigðisstofnuninni (WHO) að breiða úr sér hægt og bítandi og róðurinn þyngist stöðugt hjá heilbrigðisstofnunum. Á fimta hundrað veikir þegar þetta er ritað og yfir 5.000 í sóttkví. Þeir sem geta vinna heima en aðrir við ýmsar skipulagðar takmarkanir, einkum í skólum og stofnunum. og enn eru boðaðar hertari aðgerðir. Ríkisstjórnin hefur lagt fram björgunarpakka fyrir fyrirtæki og starfsmenn þeirra, þó sitt sýnist hverjum eins og von er og vísa.

En þá hingað heim og að kjarna málsins. Á suðurlandi er mesta útbreiðsla smits fyrir utan sjálft höfuðborgarsvæðið, samtals 34 smitaðir og 210 í sóttkví. Ákveðin stígandi er að komast í útbreiðslu veikinar. Eina ráðið til að kveða þessa óværu niður er að setja á algert útgöngubann í tvær vikur hið minnsta ef nógu snemma er gripið til þess og setja á ferðatakmarkanir til og frá landinu. Þannig má hlífa fjölda manns við að taka veikina með ófyrirsjánlegum afleiðingum. Þetta er eina aðferðin sem dugar eins og er og mörg ríki að taka upp, en þó virðist það ekki gert fyrr en í algert óefni er komið í mörgum tilvikum.

 

Það er nær öruggt að við næðum að kveða vírusinn niður með þessum hætti, en síðan yrði að fara ofur varlega þegar opnað verður á ferðalög að nýju og garentera að veiran komist ekki aftur inn í landið. Ef evrópa sem og öll önnur lönd væru samtaka í þessu yrði hættan að mestu liðin hjá í sumarbyrjun.

15.08.2019 21:53

Laxveiðar í Ölfusá

Laxanet voru lögð í Öfusá í fyrsta sinn 1807, þó er vitað um skipulagðar laxveiðar í Ölfusá um og eftir árið 1777. Sandvíkurbændur svo sem bændur að Fossi hafa líklega stundað laxveiðar í ánni einna lengst, en í Ölfusárósum fyrir landi Eyrarbakkahrepps stundaði Magnús Magnússon í Laufási og fleiri Eyrbekkingar umfangsmiklar laxveiðar í net um og eftir miðja 20. öld. 
Veiðifélag Árnessýslu var stofnað (1918-1937) og var þá meðalveiðin á vatnasvæði árinnar um 4000 laxar. Laxveiðin hefur verið misjöfn frá ári til árs. Sumarið 1932 veiddust á svæðinu skv. skýrslum 8639 laxar, en 1935 aðeins 2544 laxar, Á fyrstu árum sínum lét veiðifélagið veiða í net á Selfossi og Helli og varð veiðin þessi:
 1938: 1393 laxar 
 1939: 2887 laxar 
 1940: 4219 laxar 
Sterkar líkur eru til þess, að stofn sá, sem gekk í vatnahverfið 1940 hafi verið enn stærri en sá, er var á ferðinni 1932. Þá var veiðin 1515 löxum meiri á Selfossi og Helli. 
Á fyrstu árunum lét stjórn Veiðifélags Árnessýslu vinna að útrýmingu sels í neðsta hluta Ölfusár, þar sem hann hélt sig sig jafnan á þeim tímum, og selveiðin hafði oft verið um 200 kópar að vorinu. Var þá selveiðijörðum við Ölfusá greiddar 1.500 kr á ári í svokallaðar skaðabætur. Verð á selskinnum var þá reindar margfallt hærra.

Stangveiðar voru stundaðar á mörgum stöðum í vatnahverfi árinnar þá sem nú og netaveiði jafnframt mikil alla 20. öldina. Það er alkunn staðreynd, að áhrifa veðráttu og vatns gætir mjög á veiðarnar og má segja sem svo að veiðin sé í réttu hlutfalli við vatnsmagn árinnar hverju sinni.

Þegar Sogið var virkjað urðu umtalsverðar vatnstruflanir í Soginu af völdum raforkuveranna vegna vatnsbreytinga, sérstaklega á veturna, er stór hrygningar- og uppeldissvæði þornuðu og botnfrusu og við það fórst jafnan mikið af hrognum og seiðum.

Heimild: Mbl.23.06.64 Magnús Magnússon.

08.08.2019 21:44

Sandkorn úr sögunni

*     Mynd frá ÁrborgFjallkóngur á Eyrarbakka 1929-1938 var Jakop Jónsson í Einarshöfn (Jakopsbæ) sem er eitt af elstu steinhúsunum sem byggð voru á Eyrarbakka og er rækilega merkt honum á framhliðinni, en þar stendur stórum stöfum "Jakop Jónsson 1913."


07.08.2019 23:54

Sandkorn úr sögunni

*   

Elsti hreppsjóðurinn á  Eyrum var Þorleifsgjafasjóður. Gjöf Þorleifs ríka til Stokkseyrarhrepps 16. 2. 1861. Þorleifur Kolbeinsson á Stóru-Háeyri var einn ríkasti íslendingurinn á sinni tíð.

Flettingar í dag: 345
Gestir í dag: 31
Flettingar í gær: 248
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 220083
Samtals gestir: 28961
Tölur uppfærðar: 4.10.2024 10:22:53