Flokkur: Dagbókin

24.02.2010 23:21

Skírnarvatnið sótt í brunn á Eyrarbakka

Pálína og Sigurður sækja vatn í brunninn. (mynd morgunbl.1970)Þegar Árni Ricther ferjubóndi á hinni amerísku Washingtoneyju í Michiganvatni tók í notkun nýja ferju árið 1970 var skírnarvatnið sótt í gamlann brunninn við Nýjabæ á Eyrarbakka. Ferjan fékk svo nafn með rentu, nefnilega Eyrarbakki(mynd). Það voru þau Sigurður Magnússon frá Loftleiðum og Pálína Pálsdóttir í Hraungerði sem sáu um að sækja vatnið í brunninn góða, en sú sem fékk þann heiður að skíra ferjuna þessu góða nafni var fyrsta barnið sem fæddist á eyjunni "Amma Geirþrúður" fædd 1874. Árni ferjubóndi á ættir að rekja til Eyrarbakka, en saga íslendingabyggðarinnar á Washingtoneyju hófst á Eyrarbakka um 1865.

Vesturfarar

Heimild: Morgunbl.149/167 tbl 1970, Washington Island Ferry Line. http://www.boatinfoworld.com/registration.asp?vn=205842 http://www.inl.is/eggjaskur.htm
 
Þennan dag: 1980 Eldingaveður og stórhagl (0,7mmØ)

13.01.2010 21:30

Glettur

Sveinn silkivefari átti heima á Eyrarbakka. Ekki var hann í tölu ríkismanna, en var öðrum mönnum fremri við vefstólínn. Sveinn tók til sín stúlku úr átthögum sínum, Hvolhreppi í Rangárvallasýslu, og leið ekki á löngu, áður en hann hafði gert henni barn. Hreppsnefndinni leist ekki á þetta háttalag, og gerði hún silkivefaranum heimsókn. Sveinn vissi upp á sig skömmina og þótist þurfa að bera í bætifláka fyrir sig og stúlkuna:

"Fyrst lét ég hana sofa í beddanum", sagði hann, "og henni leiddist það, vesalingum. Þá lét ég hana sofa hælfætis, en þar kunni hún ekki við sig. Þá lét ég hana sofa uppi í til en þá gat ég ekki að mér gert."

Heimild: Tíminn 1.tbl 1964

Þennan dag:1975 Aftaka veður.

12.01.2010 22:18

Glettur

Furðulaxinn í ÖlfusárósiMagnús Magnússon í Laufási veiddi sumarið 1963 furðulax í net sitt í Ölfusárósum. Laxinn var hængur og vóg 1250 gr. og var 40 cm. á lengd. Furðulaxinn var sendur veiðimálastofnun til ransóknar. Mönnu þótti það einkennilegt að fiskurinn hafði laxa haus og laxa sporð, en búkurinn væri annarar tegundar.

[Líklega var Gulllax hér á ferð]

Á þessum degi: 1913 Lognflóðið. Sjógarðar brotna.

11.01.2010 22:54

Glettur

Einar Ingimundarson umboðsmaður í Kaldaðarnesi var nokkuð vínhneigður og þótti fullhressilegur í tali, þegar hann var ölvaður. Lét hann þá stundum meira yfir sínu en efni stóðu til. Eitt sinn var Einar í Eyrarbakkabúð um miðsumarleyti og vildi fá vöru í reikning sinn, en Nielsen verslunarstjóri færðist undan og bar því við að uppgjör stæði fyrir dyrum.

Þá mælti Einar: "Ég er umboðsmaður og hef yfir mönnum að segja, og þegar ég býð einum að fara, þá fer hann, og öðrum að koma, þá kemur hann, og ef ég fæ hér ekki það, sem ég þarf, sleppi ég af ykkur hendinni. Þið getið farið á hausinn fyrir mér, og réttast væri, að ég ræki fimmtíu naut suður á morgun".

Þennan dag: 1993 Ófært í þorpinu vegna snjóa.

10.01.2010 21:47

Glettur

Ari í Stöðlakoti á Eyrarbakka hlýddi eitt sinn á, er menn ræddu um kvensemi. Vildi hann leggja orð í belg og segir: "Ja, kvenskur er ég, en kvenskari er þó konan mín" emoticon

Jón Magnússon átti heima í Mundakoti á Eyrarbakka. Bústýra hans hét Guðbjörg Jónsdóttir. Jón sló ekki hendinni á móti áfengi, en Guðbjörgu var mjög á móti skapi, að hann drykki.  Svo var það á páskadagsmorgun, að Jón fékk sér allríflega hressingu og  var hann alldrukkinn orðinn þegar um hádegi. Sló þá í brýnu með þeim Guðbjörgu. Eftir nokkurt hnotabit mælti Jón: "Það er ekki annað eins drægsli á  hnettinum og þú". Guðbjörg svaraði: "Þú útvaldir þér þó þessa faldaeyju".emoticon

Þennan dag:  1967 flæddi inn úr sjógarðshliðum í stórveltubrimi. 2000 Ofsaveður og stórsjór gekk á land. Miklir sjávarskaðar á Stokkseyri og Grindavík.  

09.01.2010 14:18

Hlýindi

Ísrek og brim á BakkanumSamfelldum frostakafla frá því fyrir jól er nú lokið og kominn 6 stiga hiti með suðlægum áttum og súld. Jörð er nú alauð og brimið svarrar útifyrir. Kuldaboli leikur hinsvegar enn um norðurlönd og var t.d. -40,5°C í norður Noregi á dögunum og hefur aldrei áður mælst þvílíkt frost á þeim slóðum.

Mesti hiti sem mælst hefur á Eyrarbakka á þessum degi var 7,8°C 1973. Hlýjasti janúardagur var þann 12. 1985 þegar mældist 8,5°C.

Á þessum degi: 1799 Aldamótaflóðið mikla eða Básendaflóðið svokallaða. 1990 Stormflóðið, en þá gekk mikill sjór inn á suðurströndina í kjölfar ofsaveðurs sem þá gekk yfir landið og urðu þorpin Eyrarbakki og Stokkseyri verst úti í þessum hamförum veðurofsans þegar ein dýpsta lægð sem mælst hefur á síðustu áratugum rann upp að suðurströndinni. Þá má geta þess að á háflóði 10 janúar árið 2000 gekk mikið sjóveður yfir á Eyrarbakka og Stokkseyri.

06.01.2010 23:00

Vesturfarar

Myndin er búin til.Í kreppum fyrri tíma héldu margir íslendingar út í atvinnuleit rétt eins og um þessar mundir.

Saga Íslendingabyggðarinnar á Washingtoneyju í Michigan vatni USA  hófst á Eyrarbakka um 1865. Þá er á Eyrarbakka kaupmaðurinn Guðmundur Thorgrímsen og í þjónustu hans dani nokkur, William Wickman að nafni. Guðmundur studdi Wickman til ferðar vestur um haf til að kynnast landkostum. Wickman fer til Wisconsin og af einhverjum ókunnum ástæðum lendir hann á Washingtoneyju. Þar bjuggu þá aðallega Indíánar og nokkrar danskar og norskar fjölskyldur.

Mikil fiskveiði var þá í Michiganvatni og mun Wickman hafa skrifað um það heim til Eyrarbakka. Aldrei sneri hann aftur til íslands en ílentist á Washingtotieyju og bjó þar til dauðadags.

Árið 1870 flytjast svo fjórir einhleypingar frá Eyrarbakka til Washingtoneyjar og næstu ár þar á eftir er straumur íslendinga um Milwaukee til eyjarinnar m.a.14 frá Eyrarbakka 1872. Svo margir íslendingar fluttust á þessar slóðir á þeim árum að  níu árum eftir að Wickman fór vestur um haf, héldu íslendingar samkomu í Milwaukee til að fagna 1000 ára afmæli íslandsbyggðar árið 1874 og voru þar saman komnir um 200 manns.

Meðal þeirra Eyrbekkinga sem fóru til Washingtoneyju voru Teitur Teitsson, hafnsögumaður og faðir hans Teitur Helgason, Ólafur Hannesson, sonur Hannesar Sigurðssonar og konu hans Guðrúnar Jónsdóttur á Litlu-háeyri. Björn Verharðsson, Sigurður Sigurðsson, Magnús Jónsson, Bárður Nikulásson og Þorgeir Einarsson.

Heimild: http://www.vesturfarinn.is/iwashisl.html Þjóðviljinn 219.tbl.1961

Þennan dag: 1966 komu hingað 20 færeyingar til að manna Bakkabátana.

11.12.2009 23:35

Dægurmet slegið

Í dag komst hitinn í 9,3°C og sló út 8,4°metinu frá 1978 fyrir þennan dag. Þessi dagur hefur hinsvegar orðið kaldastur -17,2° árið 1969 en kaldasti desemberdagur var sá 13. 1964 með -19,8°C.
 Þennann dag 1999 kom mesti snjór sem þá hafði sést í áratugi. En snjóþungt var einnig um þetta leiti árið 1972.

Í dag hefur verið hvasst, rigningasamt og allmikið brim.

09.12.2009 23:16

þrjátíu ár frá endurvígslu Eyrarbakkakirkju

Hin 123 ára Eyrarbakkakirkja eftir endurbæturþennan dag 1979 var Eyrarbakkakirkja endurvígð eftir gagngerar endurbætur. Kirkjan var upphaflega vígð í desember 1890 eða fyrir 119 árum. Hún var teiknuð af Jóhanni Fr. Jónssyni og hófst bygging hennar árið 1886 og var yfirsmiður hennar Jón Þórhallson snikkari.( Jón sigldi síðan vestur um haf.) Bygging Eyrarbakkakirkju var að mestu kostuð af gjafafé og samskotum. Áður höfðu Eyrbekkingar átt sókn í Stokkseyrarkirkju.

Í dag var talsvert brim á Bakkanum. Dagsmet 7.7 °C frá 1987 var jafnað í nótt leið.

01.12.2009 12:02

Skafrenningur

SkafrenningurNokkurn skafrenning gerði í þorpinu í nótt og voru flestar götur orðnar þungfærar í morgunsárið. Búast má við áframhaldandi skafrenningi fram eftir morgundeginum og líklegt að heldur bæti í, meðan einhver snjór er eftir á mýrunum.

Á þessum degi 1993  var U.M.F.E. endurreist.

28.11.2009 00:21

Frost í sólarhring

Síðasti sólahringur var sá fyrsti í vetur með samfeldu frosti í 24 tíma. Mesta frost í nóvember var þann 26. árið 1978 -17.9°C. Þennan dag 1965 var óvenju mikill snjór og ófærð í þorpinu.

23.11.2009 00:07

Öld frá opnun símstöðvar.

Tvö símstöðvarhús hlið við hliðÞegar vorskipanna var von, þá var þegar farið að skyggnast eftir þeim, en það var undir byr komið hve lengi þurfti að stunda þá iðju. En það var nú til nokkurs að vinna því að sá sem fyrstur sá skipið fékk að launum brennivínsstaup í Vesturbúðinni. Með skipunum bárust Eyrbekkingum fyrstu fréttirnar utan úr heimi, en þetta átti eftir að breytast með tilkomu símans.

Símstöð var opnuð hér á Eyrarbakka 1. september 1909 og var þá í fyrsta sinn talað í síma milli Eyrarbakka og Reykjavíkur og þann 8. september var hún opnuð til almennra afnota. Fyrsti símstöðvastjórinn var Oddur Oddsson gullsmiður í Reginn og ritstjóri fréttablaðsins Suðurlands. Hann var maður óvenju vel gefinn, fjölfróður og hagur mjög til allra hluta. Kona hans var Helga Magnúsdóttir frá Vatnsdal í Fljótshlíð og féll það í hennar hendur að hafa daglega vörslu símans. Hún þótti lipur og greiðvikin og þjónustaði viðskiptavini jafnan meira en skyldan bauð. Þau þjónuðu hér í 39 ár, en þá tók við Magnús sonur þeirra og sá um hana til ársins 1947, er hann fluttist héðan. þá tók við stöðinni Jórunn dóttir þeirra hjóna og veitti hún stöðinni forstöðu í 20 ár. Þannig hafði sama fjölskyldan veitt símstöðinni Sigurður Andersenforstöðu í hart nær 58 ár. Árið 1967 tók Sigurður Andersen við Símstöðinni og ári síðar tók sjálvirki síminn til starfa en eflaust muna margir eftir gráa Ericson símanum sem kom í stað sveifarsíma með rafhlöðum. Sigurður veitti símstöðinni forstöðu til ársins 1997 en nokkru síðar var afgreiðslan lögð niður, en sjálvirka stöðin er enn í notkun. 

Heimild; Að hluta Pálína Pálsdóttir Mbl.1968

Símtal til Reykjavíkur ()
Sigurður Andersen

06.11.2009 00:40

Brimið 1972

Þennan dag 1972 var ofsabrim og sjór flæddi inn um sjógarðshlið. Þennan dag 1995 var heitasti dagur í nóvember 10,7°C

03.11.2009 21:25

Stórtjón í höfninni

Stórtjón varð í höfninni í miklum sjógangi og illviðri þennan dag árið 1975.  þrír bátar eiðilögðust, brotnuðu eða sukku. Sjógarðar brustu og flæddi í kjallara húsa. Salthús HE hrundi næstum til grunna er sjór braut niður vegg. Hér má sjá myndir frá þessum atburði sem birtust daginn eftir í Tímanum.
Sólborgin hálf sokkin-mynd Tíminn
Salthúsið-mynd Tíminn
Börnin í sandinum-mynd Tíminn
Skipasmíðar
Básendaflóðið (9.1.2006 12:04:09)
Ískyggilegt veður! (11.6.2007 15:47:15)

31.10.2009 16:23

Mildur oktober

Mánuðurinn var yfir höfuð mildur þetta árið. Það hvítnaði í fjöll í byrjun mánaðarins, svo féll fyrsti snjórinn hér þann 5. Þá gerði storm þann 9 þ.m. og var vindur mestur um 21m/s, þó voru hviður all öflugar en tjón lítilsháttar. Vætusamt nokkuð og hlýindi töluverð er leið á. Þann 29. var dægurmet í hita og einnig þann 30. en þá fór hitinn hæst í 11.5°C, Eldra met 10°C var frá 1991. Metið fyrir daginn í dag 10,6 er einnig frá árinu 1991 og stendur enn. Árið 1996 var mikill snjór í þorpinu um þessi mánaðarmót og allt kol ófært. Nú sést enginn snjór í nálægum fjöllum.

Flettingar í dag: 326
Gestir í dag: 33
Flettingar í gær: 2887
Gestir í gær: 206
Samtals flettingar: 229599
Samtals gestir: 29878
Tölur uppfærðar: 14.10.2024 04:31:26