Flokkur: Veðrið
09.06.2011 23:23
Kaldar júnínætur senn á enda
Það hefur ekki farið framhjá neinum að heimskautaloftslag ríkir á landinu þessi misserin. Grasið sprettur vart og allur gróður í hægagangi, flugur sjást ekki og köngulærnar liggja í dvala. Margar fuglategundir eru í basli með varpið vegna kuldanna. Sumar nætur í byrjun mánaðarins fór hitinn niður fyrir frostmark og allt að -3°C í eitt skipti hér á Bakkanum og sumstaðar meira austan Þjóssár. Einhver éljagangur var öðru hverju í stað hefðbundinna sumarskúra. Langvarandi vorkuldar koma stöku sinnum þó nú sé orðið langt síðan að það gerðist síðast (1973), en vorkuldinn stendur þá oft fram yfir hvítasunnu. En nú eru veðurspámenn farnir að sjá fyrir endann á kuldaskeiðinu og spá hægt hlýnandi veðri nú um helgina.
31.05.2011 22:02
Þannig var tíðin
Bakkabúar tóku á móti vorinu þann 1. maí þó snjór væri yfir öllu vestan fjalla. Vonir um skjótan sumarhita lá í loftinu þegar kvikasilfrið í hitamælinum teygði sig yfir 15 stigin og þann 7. var 17 stigum náð og hélst sú landsins besta tíð um stundarsakir og gróðurinn hélt af stað í sigurferð upp úr sverðinum. Þurrviðrið sem lék um Flóann fékk bændur á bestu bæjum til að leggjast á kné og biðja almættið um hressilega rigningu. Eitthvað hafði þó veðurguðum þótt frekleg bónin og í stað vætu sendu þeir landsmönnum kaldar kveðjur og naprar nætur, svo og jafnvel frost. Til að bæta gráu ofan á svart mátti Flóinn ekki skarta sínum fagra fjallahring um nokkra hríð fyrir öskumóðu austan úr Grímskötlum, en um síðir var loftið hreinsað með norðaustan fjúkanda og á fjallstoppum glitti í nýfallna mjöll. Blessuðum gróðrinum var þó meira um nepjuna en öskumorinn og virðist nú helst bíða átekta, þar til hin kalda krumla almættisins sleppir sínu kverkataki. Nú er komið suðaustan kalsarigning en vonir um tveggjastafa hitatölur ættu að fara batnandi með hverjum deginum úr þessu.
03.05.2011 12:00
Vorið komið
Vorið er loksins komið í öllu sínu veldi og tveggjastafa hitatölur farnar að sjást á sunnlenskum hitamælum. Mistrið sem byrgði mönnum fjallasýn í gær er nærri horfið og sólin baðar bláan hafflötinn. Ekki er víst að nokkur vilji rifja upp tíðarfarið í síðasta mánuði, en apríl var vinda og úrkomusamur í Flóanum en þó hlýr. Stormar og hvassviðri gerðu mönnum lífið leitt í páskavikunni og lítt viðraði til útiveru það sem eftir lifði mánaðarins. Brim voru alltíð í apríl, en nú hefur sjóinn lægt að sinni. Næstu daga má búast við yfir 10 stiga hita yfir hádaginn, en sólarlitlu veðri með minniháttar gróðraskúrum, en hægviðrasömu. Mun þetta veðurlag vara vel fram í næstu viku.
01.04.2011 00:36
Svalur mars liðinn
Mánuðurinn var vetrarlegur á Bakkanum og kaldur lengst af. Frost komst í -15,4°C og jafnfallinn snjór náði 25 cm í fyrri hluta mánaðarins og hvarf ekki að fullu fyrr en langt var liðið á mánuðinn. Mesta úrkoma var 25 mm þann 3. mars og einungis fáir dagar sem engin úrkoma mældist. Vindur var yfirleitt vestan eða norðlægur og brim allmikið í mánuðinum. Það má heita að vorið hafi komið þann 27. í kjölfar síðustu frostnæturinnar og fór hitinn hæst í 8,4°C, en hæsta hitagildi í mars á þessari öld var 10,5°C árið 2005. Mánuðurinn núna var hinsvegar mun kaldari en í fyrra og úrkomusamari.
01.03.2011 00:59
Tiðarfarið
Suðvestanáttin er leiðilegasta vindáttin á Bakkanum, enda stendur hún beint af hafi og hefur hún ráðið að undanförnu með hagli eða slydduéljum og hvössum rokum. En mánuðurinn byrjaði hinsvegar með fannfergi sem stóð þó stutt. Jafnfallin snjór náði allt að 40 cm og mátti Finn á ýtunni hafa sig allan við. Þá bætti í frostið sem komst í - 15°C þann 7. febrúar sem er allmiklu meira frost en fyrir ári og dælur urðu að svellum. Eftir það tók að hlýna og var mestur hiti 8° C þann 20. sem er litlu lægra en 2010. Þrisvar fengum við storma, sem þó ollu engum skakkaföllum. Mesta sólarhrings úrkoma í mánuðinum var 22 mm sem er svipað og í sama mánuði í fyrra. Brim hefur verið nokkuð allan mánuðinn og einna mest síðustu daga. Hefði útræði verið enn við lýði, þá myndu menn tala um gæftarleysið þessa dagana.
12.02.2011 23:48
Þrumu Þór
Það var engu líkara en Þór gamli hafi rekið hamarinn sinn hastarlega í á ferð sinni um Suðurland nú í kvöld. Eldingu laust niður eihverstaðar í grendinni og á eftir fylgdi svo öflug þruma að rúður skulfu í húsum og stóðu þessar drunur yfir um allnokkur andartök og urðu heimilisdýr óróleg á meðan ósköpin dundu yfir og eins er víst að mannfólkið hafi ekki staðið á sama.
11.02.2011 23:26
"Illviðrið" gert upp
Ekki verður sagt að mikið hafi látið af veðrinu á Bakkanum á meðan meint ofsaveður gekk yfir sumstaðar. Mesti vindhraði var 22 m/s og mátti heita stormur frá því laust eftir miðnætti til miðmorguns. Mestu hviður náðu þó upp undir 30 m/s. Það voru þá helst Stórhöfði, Búrfell, Tindafjöll og e.t.v. Miðdalsheiði sem gátu státað af "Ofsaveðri" á svæðinu hér sunnan jökla.
04.02.2011 23:48
Vetrarlegt
31.01.2011 23:11
Mildur janúar
Þurrviðri var framanaf og nokkuð frost mældist fyrri hluta mánaðarins, mest -10,7°C þann 6. Síðari hlutinn var mildur, en ekkert frost mældist eftir 19. Fór hitinn hæst í 8°C þann 21. Síðari hlutinn var einnig nokkuð vætusamur. Allhvasst var af norðri þann 3-4. og stormur á þrettándanum (7.) með talsverðum vindhviðum, en yfirleitt gola eða blástur og stöku sinnum kaldi. Brim hefur verið alla daga frá 19. Engan snjó festi í mánuðinum.
11.01.2011 23:26
Þurkatíð
Fyrstu 11 dagar þessa árs hafa verið al þurrir og allar líkur á að þeir verði þó ekki fleiri en 12, að sinni, því spáð er dálítilli úrkomu á fimmtudaginn. Ekki hafa komið svo margir þurrir dagar í röð í janúarmánuði á Eyrarbakka síðan 1998. En lengsta samfellda þurkatíð í janúar var 13 dagar 1980 og 13 dagar 1959 og er þá talið frá árinu 1957. Norðlægar áttir hafa verið ríkjandi það sem af er mánuðinum.
07.01.2011 23:47
Hassviðrið
þrettándinn fór víðast hvar út um þúfur enda bálhvasst um allt land og í morgun var kominn á norðan stormur. Hvassast var á Bakkanum um kl. 9 í morgun 21 m/s, en stakar stormhviður gengu á alla nóttina allt að 25- 29 m/s. Annarstaðar á landinu var yfirleitt hvassara, en mesti vindur mældist á Bláfeldi 38.6 m/s. Mikil vindkæling var í gærkvöldi enda talsvert frost. Þannig jafnaðist vindkælingin á við 30 stiga frost um tíma.
04.01.2011 18:02
Bálhvasst og kalt
30.12.2010 14:02
Árið 2010 það hlýjasta
Veðurfar á Suðurlandi var eitt hið hlýjasta sem vitað er um, jafnframt eitt hið þurrasta og snjóléttasta. Ársmeðalloftþrýstingur hefur aldrei mælst jafnhár og nú. Árið var einnig óvenju hægviðrasamt og snjór var með minnsta móti á Suður- og Vesturlandi. Þá var vindur með hægasta móti á árinu, meðaltal allra mannaðra stöðva það lægsta frá 1965. Nánar má lesa um veðurfarið á árinu á vef Veðurstofu Íslands.
Á Bakkanum voru slegin um 16 ný dægurhitamet á árinu.
26.12.2010 23:38
Vatnsveður
Töluvert hefur ringt síðasta sólarhringinn og er vatnselgur víða á túnum og lautum. Frá miðnætti hafa fallið 39.6 mm, en mest var úrkoman um kl. 10 í morgun og var þá allur snjór farinn. Hlýindi mikil fyldu þessu vatnsveðri á bilinu 7-8°C. Þá hefur verið strekkings vindur og talsvert brim.
22.12.2010 23:47
kaldur dagur
Í dag var nístings kuldi, enda var lágmarkshiti á Eyrarbakka -17.9 °C um hádegið og fáir á ferli. Ef einhverjum þykir það kalt, þá var kaldast á landinu í Möðrudal - 28.1°C í dag.