Flokkur: Veðrið

01.06.2012 22:35

Tíðarfarið í maí 2012

Maímánuður var fremur svalur hér við SV-ströndina framanaf og oft næturfrost sem var mest -7,4°C þann 10. Mánuðurinn var í þurrasta lagi og engin teljandi úrkoma, nema lítilsháttar þann 12. Allhvast var þann 14. en annars yfirleitt stinningsgola fyrrihluta mánaðarins og gola síðari hlutann. Heldur hlýnaði þann 21. þegar hitinn fór yfir 17 stig, en næstu dagana var heldur svalara. Síðustu 3 dagarnir voru þó álíka hlýir. Loftvog stóð jafnan fremur hátt allan mánuðinn, 1000 til 1025 mb.

Heimild: Veðurklúbburinn Andvari

05.03.2012 23:06

Tíðin í febrúar

Tjaldurfebrúar var frekar mildur, öfugt við desember og janúar var mánuðurinn afar snjóléttur. Yfirleitt hiti fyrir ofan frostmark og var hann mest um 8 stig. Nokkuð hvass á köflum og voru mestu hviður 27,5 m/s . Stöðugar vestanáttir voru einkennandi fyrri hluta mánaðarins, en óvenjulega mildir vindar og var víða hlýtt inn til landsins. Síðari hluti febrúar einkenndist einkum af umhleypingum. Skúraveðri og éljum. En nú í marsbyrjun sást til farfugla, svo sem tjaldsins og einhver heyrði í lóu, svo nú hlýtur vorið að vera á næsta leiti.

01.02.2012 01:29

Rysjóttur janúar

Hann byrjaði með 13 stiga frosti en dró svo hratt úr og hlýnaði með umhleypingum. Mikla hálku gerði er hlánaði en klakinn var víðast hvar lengi að fara. Snjór vetrarins hvarf þó með öllu við ströndina um sinn. Síðan tók við rysjótt tíð. Þann 10. brast á mikið éljaveður og var mesta hviða um 28 m/s. Umhleypingarnar héldu áfram næstu daga. Þann 18. gerði snjóstorm með hviðum um 26 m/s. Einnig snjóaði töluvert þann 20. og þann 22. gerði snjóstorm á nýjan leik með allmiklum skafrenningi. Töluverð snjókoma var einnig þann 24. og næstu daga með skafrenningi, en síðan kom asahláka í kjölfarið út mánuðinn svo alautt var orðið síðasta dag mánaðarins.

01.01.2012 14:05

Tíðarfarið í desember 2011

Tíðarfarið hefur verið afleitt hér við suðvesturströndina vegna fannfergis og hagaleysis. Þann 28. nóvember hófust fyrstu vetrarhörkurnar með snjókomu og frostum. Örfáir þýðudagar hafa komið í desember, en ekki nægt til að snjó tæki alfarið upp. Snjóruðningstæki hafa verið í önnum nær hvern dag mánaðarins.  Mánuðurinn hófst með tæplega 16 stiga frosti og var svo talsvert frost næstu daga með snjókomu og skafrenningi. Þann 7. desember fór frostið niður í -19°C og daginn eftir mældist -20 stiga frost á Eyrarbakka. Þann 10. til 13. desember fór hitastigið aðeins uppfyrir frostmark í fyrsta sinn í mánuðinum en þó snjóaði áfram og kólnaði á ný en eftir miðjan mánuðinn urðu dálitlar umhleypingar og gerði rigningu um vetrarsólstöður 21-22. en tók þó ekku upp snjóinn. Ein dýpsta lægð síðari ára kom yfir ströndina á aðfangadag 948.4 Hpa með illviðri víða um land og gekk svo á með hvössum éljum á jóladag. Þann 29. féll talsverður snjór eða 25 cm, síðan dálitlar umhleypingar fram til áramóta.

Mestu snjóavetrar hér á landi á síðari tímum: 1909, 1918, 1920, 1931,1949,1952,1968,1979,1982,1990,1995.

30.11.2011 23:04

Tíðarfarið á Bakkanum í nóvember

Mánuðurinn var yfirleitt hlýr en vindasamt á köflum. Hitinn var lengi framan af um 10°C. þann 7. gekk á með skruggum og hvassviðri. Hvasst var næstu daga, súldar og brimasamt. Þann 11. gekk yfir ströndina mikið haglveður með þrumum og vöknuðu margir við ósköpin. Næstu dagar einkenndust af hlýndum en fór síðan hægt kólnandi og fjöllin gránuðu smám saman. Á nýju tungli þann 24. féll fyrsti snjór vetrarins hér við ströndina og gekk svo upp í frosthörkur næstu daga og meiri snjó. Mest var frostið -10 stig aðfararnótt 26. og að kveldi 30. en 11 cm jafnfallinn snjór var þann 28.

08.11.2011 20:29

Skruggur og skýfall

36 mmHvassviðrið í gær hófst með þrumum og eldingum og mikilli rigningu um hádegisbil, en þá snerist vindur úr NA til SA áttar og bætti stöðugt í. Hús á Selfossi nötruðu og skulfu undan þrumunum, en hávaðinn frá skruggunum var geigvænlegur. Þá hlýnaði hratt frá 4 gráðum upp í 10 gráður á örfáum klukkutímum. Lægst stóð loftvog í 986.4 mb. um miðnætti, en þá var líka hvassast hér við ströndina 16 m/s og tæplega 24 m/s í hviðum. Mun hvassara var austan Þjórsár og inn til landsins sem og í öðrum landshlutum. Á síðasta sólarhring var úrkoma á Eyrarbakka um 36 mm.

02.11.2011 21:45

Tíðarfarið á Bakkanum í oktober.


Veðrið á Bakkanum þennan mánuð hefur einkennst af NA -SA lægum áttum, næturfrost nokkur en fátítt yfir daginn. Hæsta hitastig í mánuðinum var 12,3°C þann 3. en mest fór frostið í -2.2°C þann 7. Mesta úrkoma á sólarhring voru 16mm annan dag mánaðarins. Enginn snjór féll á láglendi í mánuðinum. Stormur var þann 8. meðalvindur 22 m/s og mest  29 m/s í hviðum. Þá gerði suðaustan hvassviðri þann 12. Þann 17 gerði norðan hvassviðri. Þrumuveður gerði þann 14. með stormhviðum, 23,5 m/s  Sérstakt góðviðri gerði þann 10 og á fyrsta vetrardegi þann 22.

08.10.2011 20:11

Það brimar við bölklett

Það brast á SA stormur um stund snemma í morgun þegar meðalvindhraði fór í 22 m/s, versta vinhviðan var 28.7 m/s á veðurathugunarstöðinni. Mikil rigning fylgdi veðrinu, en kl. 9 í morgun voru mældir 14 mm og nú hafa 9 mm bæst við í dag. Nú er strekkingsvindur og hefur færst til suðvestanáttar með brimgangi.

18.09.2011 21:46

Hvass sunnudagur

24 m/sÍ dag hefur hvassviðri staðið yfir og hafa mestu hviður farið í 24 m/s hér við ströndina. Lítil úrkoma hefur verið með lægðinni sem á uppruna sinn að rekja til hitabeltisstormsins "Maríu". Stórhöfði sjálfvirk stöð var með mesta vind á landinu 28,3 m/s.

01.09.2011 22:49

Tíðarfarið á Bakkanum í ágúst

LitlahraunÁgústmánuður var hægviðrasamur þurr, sólríkur og hlýr á Bakkanum líkt og í fyrra. Heitustu dagar voru 6. ágúst með 19 stiga hita og 17. ágúst með 18 stiga hita, en oftast var hámarkshitastig 15-17°C.  Næturfrost varð aðfararnótt 27. ágúst, en kartöflugrös sluppu að mestu við skemdir. Úrkoma var helst síðustu daga mánaðarins, en þann 31. hafði sólarhringsúrkoma mælst 16mm.

28.08.2011 23:12

Fregnir af ferðum Irenar

Spá um ferðir Irenu
Irene er nú 975 mb. hitabeltisstormur (POST-TROPICAL CYCLONE ) og veikist, en að sama skapi breiðir stormurinn sig yfir stærra svæði. Vindhraði er um 24 m/s. Stormurinn mun fara yfir Kanada í nótt og á morgun.  Stormurinn mun síðan taka stefnu á Íslands strendur og munu áhrifa Irenu fara að gæta víðsvegar um land á fimtudag með austan strekkingi. Gert er ráð fyrir að stormurinn muni síðan þrengja sér inn á Grænlandssund með vindhraða um 21m/s. Hinsvegar bendir allt til þess að besta veðrið verði á Bakkanum á meðan íslandsheimsókn Irene stendur, en að öllum líkindum mun brima talsvert hér við ströndina í kjölfarið.

27.08.2011 23:47

Áhrifa Irene mun gæta sunnanlands

Gert er ráð fyrir að fellibylurinn IRINE sem nú hrellir íbúa á vesturströnd bandaríkjanna muni leggja leið sína norður á bógin eins og kortið hér til hliðar sýnir. Áhrifa hennar fer að gæta hér við land upp undir næstu helgi en mun standa stutt. Irine mun því verða fyrsta haustlægðin með strekkings austanátt víða um sunnanvert landið, einkum við fjöll. Lægðin mun væntanlega draga með sér talsverða úrkomu á suðausturlandið. Á Bakkanum verður að öllum líkindum skaplegasta veður, vart meira en 6 m/s þó hvasst verði í nærliggjandi sveitum.

Irene er nú 1. stigs fellibylur á norðaustuleið með ströndum Carolínu fylkis.

27.08.2011 11:19

Næturfrost á Bakkanum

Hitastig komst undir frostmark liðna nótt samkv. sjálfvirku veðurstöðinni á Eyrarbakka og stóð í um fjórar klukkustundir frá því um kl.3. Mest var frostið -1,6°C um kl. 6, en kl. 8 var orðið frostlaust. Ekki hefur frést af föllnum kartöflugrösum.

03.08.2011 00:08

Tíðarfarið í júlí

Mánuðurinn hófst með brakandi þurki Sunnanlands  með  hlýindum og var oft á tíðum  um 20 stiga hiti hér á Bakkanum.  Létt hafgola lék við stöndina flesta daga um hádegisbil  og fram til nóns á fyrri hluta mánaðarins. Bændur nýttu sér þurkinn og hvítar rúllur hrönnuðust upp eins og risavaxnar gorkúlur um allan Flóann. Öskufok gerði þann 23. en síðan tók veðurfarið að sveiflast til verri vegar.  Hvassviðri gerði þann 26. en síðan tók við súldarloft og suddi fram til loka.

Nánar: Veðurklúbburinn Andvari.

02.07.2011 12:35

Veðráttan í júní

Júní var ekki sérlega hlýr hjá okkur að þessu sinni og fór hitinn hæst í 16,5 stig en hafgolan dró hitann niður bestu daganna og því lítið um sólböð hjá strandbúum þrátt fyrir allmarga sólardaga. Þar sem hafgolunnar gætti ekki, t.d. á Þingvöllum fór  hitinn í tæp 22 stig. Að jafnaði var 12-14 stig að deginum hér við ströndina. Lægsta hitastig var -3°C í byrjun mánaðarins en nokkrar frostnætur voru á tímabilinu 5-7 júní og dró það máttinn úr gróðurvexti. N.A strekkingur réði oft ríkjum með þurkatíð, en úrkoma í mánuðinum var lítil. Veðráttan í maí og júní hefur einnig dregið úr skordýralífi svo mjög að vart sést fluga hér um slóðir. Grasspretta virðist þó góð og sláttur hafinn á nokkrum bæjum í grend.Hitafar Eyrarbakka í júní 2011

Flettingar í dag: 346
Gestir í dag: 55
Flettingar í gær: 2159
Gestir í gær: 262
Samtals flettingar: 262795
Samtals gestir: 33944
Tölur uppfærðar: 22.11.2024 07:04:57