Færslur: 2010 Janúar

12.01.2010 22:18

Glettur

Furðulaxinn í ÖlfusárósiMagnús Magnússon í Laufási veiddi sumarið 1963 furðulax í net sitt í Ölfusárósum. Laxinn var hængur og vóg 1250 gr. og var 40 cm. á lengd. Furðulaxinn var sendur veiðimálastofnun til ransóknar. Mönnu þótti það einkennilegt að fiskurinn hafði laxa haus og laxa sporð, en búkurinn væri annarar tegundar.

[Líklega var Gulllax hér á ferð]

Á þessum degi: 1913 Lognflóðið. Sjógarðar brotna.

11.01.2010 22:54

Glettur

Einar Ingimundarson umboðsmaður í Kaldaðarnesi var nokkuð vínhneigður og þótti fullhressilegur í tali, þegar hann var ölvaður. Lét hann þá stundum meira yfir sínu en efni stóðu til. Eitt sinn var Einar í Eyrarbakkabúð um miðsumarleyti og vildi fá vöru í reikning sinn, en Nielsen verslunarstjóri færðist undan og bar því við að uppgjör stæði fyrir dyrum.

Þá mælti Einar: "Ég er umboðsmaður og hef yfir mönnum að segja, og þegar ég býð einum að fara, þá fer hann, og öðrum að koma, þá kemur hann, og ef ég fæ hér ekki það, sem ég þarf, sleppi ég af ykkur hendinni. Þið getið farið á hausinn fyrir mér, og réttast væri, að ég ræki fimmtíu naut suður á morgun".

Þennan dag: 1993 Ófært í þorpinu vegna snjóa.

10.01.2010 21:47

Glettur

Ari í Stöðlakoti á Eyrarbakka hlýddi eitt sinn á, er menn ræddu um kvensemi. Vildi hann leggja orð í belg og segir: "Ja, kvenskur er ég, en kvenskari er þó konan mín" emoticon

Jón Magnússon átti heima í Mundakoti á Eyrarbakka. Bústýra hans hét Guðbjörg Jónsdóttir. Jón sló ekki hendinni á móti áfengi, en Guðbjörgu var mjög á móti skapi, að hann drykki.  Svo var það á páskadagsmorgun, að Jón fékk sér allríflega hressingu og  var hann alldrukkinn orðinn þegar um hádegi. Sló þá í brýnu með þeim Guðbjörgu. Eftir nokkurt hnotabit mælti Jón: "Það er ekki annað eins drægsli á  hnettinum og þú". Guðbjörg svaraði: "Þú útvaldir þér þó þessa faldaeyju".emoticon

Þennan dag:  1967 flæddi inn úr sjógarðshliðum í stórveltubrimi. 2000 Ofsaveður og stórsjór gekk á land. Miklir sjávarskaðar á Stokkseyri og Grindavík.  

09.01.2010 23:52

Vandræðabarnið Icesave

Icesave - reikningarnir voru netreikningar sem Landsbankinn stofnaði í Bretlandi og Hollandi. Heildarupphæð innistæðna á reikningunum nam jafnvirði rúmlega 1.200 milljarða króna.

Nú þegar Icesave samningurinn er kominn í hendur almennings til úrskurðar, verður vart undan því vikist að taka þetta vandræðabarn skoðunar og gaumgæfa kosti þess og galla, en einkum þó gallana, því samningurinn inniheldur enga kosti fyrir íslendinga.  Forsögu málsins þekkja allir núlifandi landsmenn og því ástæðulaust að fara nánar út þá dapurlegu sálma.

Samningurinn er óvenjulegur að því leiti að þriðja aðila, þ.e. íslenska ríkinu og þar með íslenskum skattgreiðendum fyrir hönd Tryggingasjóðs innistæðueigenda, gert að ábyrgjast greiðslur fyrir tjón breskra og hollenskra fjármagnseigenda sem áttu innistæður á svokkölluðum Icesave reikningum í þessum löndum þegar einkabankarnir hrundu í fjármálakreppunni haustið 2008, burtséð frá sökudólgum í málinu.

Samningurinn er stórhættulegur fyrir íslendinga m.a. fyrir það að óljóst er hvað fæst fyrir eignir Landsbankanns og hvað íslenska ríkið þarf því að standa straum af.

Fyrir breta og hollendinga er samningurinn gulltryggður og morandi í öryggisákvæðum fyrir þeirra hönd, en engar slíkar eru að finna fyrir íslendinga, nema þá helst 16.gr.

Í samningnum er engin vægðarákvæði gagnvart utanaðkomandi atvikum sem geta haft veruleg áhrif á mögulega gjaldeyrisöflun í framtíðinni og greiðslugetu þjóðarbúsins, svo sem [a] Styrjöld í viðskiptalandi eða á hafsvæðum umhverfis landið. [b] Langvarandi verkföll í helstu viðskiptaríkjum eða hér heima. [c] Stórfeldar nátturuhmfarir í viðskiptalöndum eða á Íslandi. [d] Annað hrun á fjármálamarkaði. [e] Aflabrestur.

Í gr. 16 er það í höndum breta eða hollendinga að fallast á fund þegar breytingar verða á aðstæðum til hins verra og AGS metur að svo sé.

Það mætti halda að það eina sem okkar samningamenn hafi sagt við viðsemjendur okkar væri eitt orð "yes"

Án vægðarákvæða og fundarskildu samningsaðila, væri afar óskynsamlegt að samþykkja þennan nauðasamning. Framtíðin er óskrifað blað og ekki viturlegt að treysta einungis á guð og lukkuna.

09.01.2010 14:18

Hlýindi

Ísrek og brim á BakkanumSamfelldum frostakafla frá því fyrir jól er nú lokið og kominn 6 stiga hiti með suðlægum áttum og súld. Jörð er nú alauð og brimið svarrar útifyrir. Kuldaboli leikur hinsvegar enn um norðurlönd og var t.d. -40,5°C í norður Noregi á dögunum og hefur aldrei áður mælst þvílíkt frost á þeim slóðum.

Mesti hiti sem mælst hefur á Eyrarbakka á þessum degi var 7,8°C 1973. Hlýjasti janúardagur var þann 12. 1985 þegar mældist 8,5°C.

Á þessum degi: 1799 Aldamótaflóðið mikla eða Básendaflóðið svokallaða. 1990 Stormflóðið, en þá gekk mikill sjór inn á suðurströndina í kjölfar ofsaveðurs sem þá gekk yfir landið og urðu þorpin Eyrarbakki og Stokkseyri verst úti í þessum hamförum veðurofsans þegar ein dýpsta lægð sem mælst hefur á síðustu áratugum rann upp að suðurströndinni. Þá má geta þess að á háflóði 10 janúar árið 2000 gekk mikið sjóveður yfir á Eyrarbakka og Stokkseyri.

06.01.2010 23:00

Vesturfarar

Myndin er búin til.Í kreppum fyrri tíma héldu margir íslendingar út í atvinnuleit rétt eins og um þessar mundir.

Saga Íslendingabyggðarinnar á Washingtoneyju í Michigan vatni USA  hófst á Eyrarbakka um 1865. Þá er á Eyrarbakka kaupmaðurinn Guðmundur Thorgrímsen og í þjónustu hans dani nokkur, William Wickman að nafni. Guðmundur studdi Wickman til ferðar vestur um haf til að kynnast landkostum. Wickman fer til Wisconsin og af einhverjum ókunnum ástæðum lendir hann á Washingtoneyju. Þar bjuggu þá aðallega Indíánar og nokkrar danskar og norskar fjölskyldur.

Mikil fiskveiði var þá í Michiganvatni og mun Wickman hafa skrifað um það heim til Eyrarbakka. Aldrei sneri hann aftur til íslands en ílentist á Washingtotieyju og bjó þar til dauðadags.

Árið 1870 flytjast svo fjórir einhleypingar frá Eyrarbakka til Washingtoneyjar og næstu ár þar á eftir er straumur íslendinga um Milwaukee til eyjarinnar m.a.14 frá Eyrarbakka 1872. Svo margir íslendingar fluttust á þessar slóðir á þeim árum að  níu árum eftir að Wickman fór vestur um haf, héldu íslendingar samkomu í Milwaukee til að fagna 1000 ára afmæli íslandsbyggðar árið 1874 og voru þar saman komnir um 200 manns.

Meðal þeirra Eyrbekkinga sem fóru til Washingtoneyju voru Teitur Teitsson, hafnsögumaður og faðir hans Teitur Helgason, Ólafur Hannesson, sonur Hannesar Sigurðssonar og konu hans Guðrúnar Jónsdóttur á Litlu-háeyri. Björn Verharðsson, Sigurður Sigurðsson, Magnús Jónsson, Bárður Nikulásson og Þorgeir Einarsson.

Heimild: http://www.vesturfarinn.is/iwashisl.html Þjóðviljinn 219.tbl.1961

Þennan dag: 1966 komu hingað 20 færeyingar til að manna Bakkabátana.

04.01.2010 22:36

Skúta í hrakningum

Þýska skútan VikingAð kvöldi þjóðhátíðardagsins 17. júní 1961 urðu menn á Eyrarbakka þess varir að skúta nokkur var að hrekjast upp í skerjagarðinn. Áhöfn skútunnar skaut upp neyðarblysum og virtust mönnum líklegast að hún myndi stranda. Skipverjar skútunnar töldu að þeir gætu siglt inn til hafnar á Eyrarbakka, en var alls ókunnugt um siglingaleiðina auk þess sem ekki var mögulegt fyrir hana að leggjast við bryggju. Skipstjórarnir Sigurður Guðmundsson og Sigurður Guðjónsson fóru út á fiskibátnum Birninum ásamt nokkrum öðrum til móts viðÁhöfnin á Viking fá A-Berlín skútuna og lóðsuðu hana til Þorlákshafnar þar sem hafnarskilyrði voru betri. Skútan var á leið til Reykjavíkur en varð að snúa við út af Reykjanesi vegna veðurs.

Hér var um að ræða 15 lesta þýska skútu búna hjálparmótor. Hún var frá Austur Berlín og bar nafnið Viking. Áhöfnin var að æfa sig undir kappsiglingu á Atlantshafi, en þetta fólk 6 karlar og ein kona voru meðlimir siglingaklúbbs í A Berlín. Leið þeirra lá þaðan til Hamborgar og síðan Færeyjar og lentu þau síðan í hrakningum í brimgarðinum vegna óhagstæðra vinda. Skútan komst síðan til Reykjavíkur 24 júní. Þetta var í fyrsta skipti sem skútunni var lagt á Atlantshaf.

Heimild: Alþýðubl.136-139 tbl. og Morgunbl.135.tbl

Þennan dag: 1965 var mikil ófærð í þorpinu vegna snjóa.

02.01.2010 23:47

Kuldakast

Veðurstofan spáir miklum kulda á þriðjudaginn, eða allt að -16°C hér við stöndina og allt að -19°C í uppsveitum. Hugsanlegt er að dagsmet falli fyrir þriðjudaginn 5. janúar, en þann dag hefur mælst hér mesta frost -16,1°C árið 1993. Ekki er von að hlýna fari í veðri fyrr um næstu helgi. Mesta frost á Eyrarbakka í janúar var þann 30. árið 1971 þegar mældist -19,7 °C
Veðursíða

Þennan dag:1966 K.Á yfirtekur matvörubúð Hraðfrystihússins.

01.01.2010 15:08

Gamla árið kvatt


Við brennuna....

safnast saman....

blásið í sönglúðra....

"Árið er liðið í aldanna skaut"....

Glæður ársins 2009 brenna út.
Flettingar í dag: 639
Gestir í dag: 71
Flettingar í gær: 530
Gestir í gær: 80
Samtals flettingar: 155656
Samtals gestir: 18369
Tölur uppfærðar: 9.6.2023 22:40:29