Flokkur: Fréttir
15.12.2012 18:06
Ný götulýsing
28.10.2012 21:41
Sú var tíðin, 1911
Á þessu ári 1911 var verslun í hvað mestum blóma á Bakkanum og samkeppnin afar hörð, en þrátt fyrir það þótti verslunin vera arðbærustu og gróðvænlegustu fyrirtækin. Þær stóru verslanir sem kepptu um hituna voru, Einarshafnarverslun, Kaupfélagið Hekla, Ingólfsverslunin á Háeyri og Stokkseyri. Þá var verslun að vaxa við Ölfusárbrú, fyrir tilstuðlan "Brúarfélagsins" svokallaða. Um mitt sumar var byrgðastaðan orðin slæm og matvöru farið að skorta í búðunum. Þá var haframjölið vinsæla upp urið og ekki annað að gera en bíða og vona að haustskipin kæmu með fyrra fallinu. Harðar deilur urðu um hvort væri hyggilegra að leggja járnbraut til Reykjavíkur, eða byggja höfn í Þorlákshöfn. Franskir verkfræðingar komu um sumarið til að kanna hugsanlegt hafnarstæði ásamt fyrverandi ræðismanni Frakka, hr. Jean Paul Brillouin sem var tilbúinn til að koma með franskt fjármagn í hafnargerðina. Unnið var að símalagningu héðan af Bakkanum til Kaldaðarness. Áhöld til þess komu með strandferðaskipinu Perwie. Oddur Oddsson símstjóri í Reginn sá um það verk og var símalínan opnuð 26. ágúst 1911. Símalínan var lögð heim að Sandvík til Guðmundar hreppstjóra, og síðan frá Hraungerði upp að Kíðjabergi. Mannaferðir voru miklar á Bakkanum yfir sumarið, flestir á ferð ofan úr sveitum í verslunarerindum. Til halastjörnu sást á austurhimni frá 20. oktober og fram á vetur 3-4 stundir í senn. Atvinnuleysi gerði vart við sig þegar kom fram á veturinn og samgöngur spiltust. Þá dofnaði yfir þorpslífinu og lítið við að vera. Verslunin sem nú var vel byrg auglýsti jólaútsölur og staðgreiðsluafslætti. Íbúafjöldi á Eyrarbakka var 750 manns árið 1911 og hafði þá fækkað um 13 frá fyrra ári. Fóru flestir til Reykjavíkur.
Skipakomur og skipaferðir: "Perwie" kom hér að sundinu snemma vors, var þá ekki fært út sökum brims, hélt hún þá nær tafarlaust til Stokkseyrar og lá þar um nóttina, Í birtingu var orðið sjólaust, og beið hún þá ekki boðanna heldur hypjaði sig á braut hið snarasta, voru Stokkseyringar þá albúnir að fara út í skipið og sækja vörur sínar, en til þess kom ekki, Perwie var farin þegar fært var orðið, sumir sögðu jafnvel að hún væri farin til "helvítis". Vöruskip Einarshafnarverslunar, Vonin og Svend , komu bæði í byrjun maí og gátu þau komist hér að vandræðalaust. Kong Helge kom við hér um miðjan maí sem og Stokkseyri og skilaði af sér vörum og pósti. Aukaskip frá sameinaða gufuskipafélaginu hafnaði sig hér með vörur til Brúarinnar (Selfossi), Heklu og Einarshafnar. Timburskip til Ingólfsverslunar hafnaði sig hér einnig og annað timburskip til Ingólfs gekk á Stokkseyri. Faxaflóabáturinn Ingólfur kom hér við miðsumars og Perwie við sumarlok og sótti ull til Ingólfsverslunar. Um haustið snemma kom vöruskip Þorleifs kaupm. á Háeyri, Guðmundssonar dekkhlaðið varningi alskonar. Vonin, skip Einarshafnarverslunar kom svo 22. september eftir langa útivist.
Franskt saltflutningsskip,
seglskipið Babette frá Paimpol strandaði á Fljótafjöru, í Meðallandi í marsbyrjun,
en mikill floti franskra fiskiskipa var að veiðum við sunnanvert landið þá um
veturinn og víða upp í landsteinum, innan um net heimamanna. Þilskipið Friða,
bjargaði 6 skipshöfnum í Grindavík.
Íþróttir:
Nýjársdagurinn byrjaði með því að 5 ungir Eyrbekkingar
þreyttu kappsund frá Einarshafnarbryggjunni, um 25 faðma. Varð þar skarpastur
Ingvar Loftsson, synti hann leið þessa á 57 sek. og fékk að launum blekbyttu úr
slípuðum kristalli. Hinir sem tóku þátt í sundinu voru: Ásgrímur Guðjónsson,
Gísli Jóhannsson, Valgeir Jónsson og Jón Tómasson. Piltar þessir höfðu engrar sundkenslu
notið, en lærðu að synda af egin ramleik. Í sjósund fóru þeir daglega þá um veturinn.
J.D. Níelsen verslunarstjóri þjálfaði leikfimiflokk sinn af kappi þennan vetur
og hélt leikfimisýningar í Fjölni við góðan róm. Lítið varð hinsvegar úr
sumarmótinu á Þjórsártúni sökum óveðurs. Skotfélagið hélt æfingar úti við og
dró að sér forvitna áhorfendur. Félag þetta var aðallega stofnað í því skyni að
vekja áhuga á íþróttum, sérstaklega skotflmi. Stofnfélagar voru 20.
Fólkið:
Dbr. Brynjólfur Jónsson sagnaritari frá Minnanúpi sem
dvalið hefur löngum á Bakkanum, kom til heilsu aftur, eftir slysfarir á fyrra
ári. Geir Guðmundsson frá Háeyri kom til landsins, en hann bjó á Sjálandi og
giftist þarlendri konu Marie Olsen. Stundaði hann hér jarðyrkju um sumarið
ásamt Sjálenskum unglingi, Age Jensen er með honum kom. Geir seldi líka margskonar
jarðyrkjuverkfæri til kartöfluræktunar, tæki, tól og vélar alskonar fyrir
jarðyrkju. Simon Dalaskáld var hér á ferð að selja bækur sínar. Hann var
förumaður frá Skagafirði, þó ekki umrenningur heldur einskonar skemmtikraftur
sem ferðaðist um og stytti fólki stundir. Kjartan Guðmundsson ljósmyndari frá
Hörgsholti opnaði hér á Eyrarbakka ljósmyndastofu. Bjarni Þorkellsson
skipasmiður dvaldi hér við skipasmíði, hafði hann byggt vandaðan vélbát fyrir Þorleif
Guðmundsson frá Háeyri. Var það fyrsti vélbáturinn sem smíðaður var á
Eyrarbakka. Uppskipunarbát smíðaði hann einnig þetta sumar, og a.m.k. tvö
róðraskip þá um veturinn, en Bjarni hafði á sinni tíð smíðað yfir 500 báta og
skip. Verksmiðjueigandi einn, C. H. Thordarson, frá Chicago, (Uppfinningamaður
ættaður úr Hrútaflrði) hafði hér nokkra daga dvöl ásamt konu og syni, en konan
var systir Ingvars Friðrikssonar, beykis á E.b. Hér voru líka á ferð tveir
Rússar sem tóku að sér að brýna hnífa fyrir fólk, og var mörgum starsýnt á.
Þeir föluðust líka eftir litlum mótorbát til kaups, en enginn vildi þeim selja
og héldu þeir þá til Stokkseyrar. Bjarni Eggertsson héðan af Eyrarbakka var við
silungsveiði í Skúmsstaðavötnum í Landeyjum og þóttist veiða vel. Sigurður
Eiriksson regluboði var hér á ferð í vetrarbyrjun að heimsækja
Goodtemplarastúkur og endurvakti stúkuna "Nýársdagurinn". Bjarni Vigfússon frá
Lambastöðum var hér á Bakkanum um veturinn við smíðar. Meðal annars smiðaði
hann skiði úr ask, sem þóttu vel vönduð. Skíðin voru smíðuð eftir norskri gerð
og fylgdu tábönd eftir sama sniði. Það mun hafa þótt nýstárlegt hér syðra, að
gera skíðasmíði að atvinnu sinni. Páll Grímsson, verslunarmaður á Eyrarbakka keypti
Nes í Selvogi ásamt jörðinni "Gata" í sama hreppi, af Gísla bónda Einarssyni er
þar bjó.
Stórafmæli: Jórunn Þorgilsdóttir
í Hólmsbæ hér á Bakkanum varð áttræð, en hún þótti merkiskona og sömu leiðis Gestur
Ormsson í Einarshöfn.
Andlát: Helga Gamalíelsdóttir í Þórðarkoti, andaðist 85 ára að
aldri. Jóhann Jónsson á Stóru Háeyri, rúmlega 70 ára að aldri. Guðrún Einarsdóttir,
gömul kona á Eyrarbakka. Steinunn Pétursdóttir, kennara á Eyrarbakka, 10 ára að
aldri, hafði sumardvöl í Fljótshlíð og lést þar af lungnabólgu. Kristín
Jónsdóttir í Norðurkoti, háöldruð. Hún hafði lengi búið ein í kofa sínum og
þótti einkennileg um margt. Helgi Þorsteinsson, á Gamlahrauni, varð bráðkvaddur
59. ára að aldri. Guðni Jónsson, verslunarm. hér af Eyrarb. Var lengi við Lefoliisverslun
hér áður, en hafði flutti til Rvíkur árið 1910. Sigríður Lára, yngsta barn Guðmundar
Guðmundssonar kaupfélagsstjóra, ekki árs gömu.
Menning: Leikfélagið á Eyrarbakka setti upp nokkur verk. Helstu
leikarar voru Solveig Daníelsen, Jón Helgason prentari Karl H. Bjarnarson
prentari, Pálína Pálsdóttir og Guðmunda Guðmundsdóttir. Ungmennafélag Eyrarbakka
hélt upp á 3ja ára afmæli sitt með skemtisamkomu, sem haldin var í Fjölni. Sá
ljóður var á menningu þorpsins sem og annara þéttbýlisstaða við sjávarsíðuna að
götubörnum var gjarnt á að atast í fólki, einkum drykjumönnum með skrílslátum
og að viðhöfðum óæskilegum munnsöfnuði í þeirra garð sér til skemtunar. Seint
gekk að uppræta þessa menningarvörtu á samfélaginu. Lestrarfélagið hélt áfram
að lána út bækur og var mikið í það sótt. U.M.F.E. stóð fyrir alþýþufræðslu,
þar hélt Einar E. Sæmundsen skógfræðingur fyrirlestur um skógrækt og heimilisprýði,
"Trjáreitur við hvert einasta heimili á landinu", kvað hann ætti að vera heróp
ungmennafélaganna, en áhugi fyrir skógrækt hér reyndist dræmur.
Fiskveiðar, landbúnaður og atvinna: Þorskanet voru nú orðin almenn
veiðarfæri á opnum skipum sunnanlands, en veiðar á færi eða lóðir á undanhaldi.
Steyptir netasteinar sem var uppfinning Ísólfs Pálssonar á Stokkseyri gerðu
veiðarnar meðfærilegri. Afli var tregur framan af vetrarvertíð og sjaldan gaf á
sjó, en þegar leið fram í júní fiskaðist ágætlega en svo dró úr er á leið
sumarið og vildu Eyrbekkingar kenna um erlendum trollurum sem krökkt var af. Lítið
róið að haustinu og afli tegur þó róið væri. Bændur girtu lönd sín í auknum
mæli, en slíkt nær óþekkt nokkrum árum fyr. Óðalsbóndi Guðmundur Ísleifsson á
Stóru-Háeyri vélvæddi sinn búskap að nokkru er hann tók í notkun hestdráttar
rakstrarvél og arfareytingarvél, fyrstur bænda hér við ströndina, fyrir átti
hann hestdráttar sláttuvél. Um sláttinn var fátt fólk heima við, enda lágu
margir í tjöldum við engjaheyskap. Heyfengur virtist ætla að verða góður þetta
árið, en síðsumars brast á með vætutíð, en hey öll náðust þó með haustþurkinum.
kartöflu-uppskera var í meðallagi þetta haustið. Bakkabúar nokkrir fóru um sumarið
austur í silfurbergsnámuna sem starfrækt var í Helgustaðafjalli við Reyðarfjörð.
Unnu þar 10 saman alls og létu vel yflr árangrinum. Einn stein fundu þeir 100
pund, [50 kg] sem mun hafa verið seldur afarverði sökum stærðar og fegurðar, en
dýrt þótti þeim að lifa þar eystra því matvara var þeim seld háu verði.
Tíðarfarið: Framanaf var tíðin rosasöm með frosthörkum. Stundum var
allt að -16°C í febrúar. Sjógangur oft mikill. Afspyrnurok gerði af landsuðri
3. mars, og gekk sjór mjög á land. Á Stokkseyri rak upp mótorbát
Ingólfsversunar á Háeyri, brotnaði hann nokkuð, og í sama veðri fauk bátur frá
Óseyrarnesi og brotnaði i spón, sömuleiðis tveir róðrarbátar úr
Gaulveijarbæjarhreppi. Um páska var allt að 12 stiga frost. Kuldar og rosar
voru í maímánuði, vorið var mjög vætusamt framanaf og kalt, en þurviðri og
dálitlir hitar í júní og byrjun júlí, en frá 7. og framyfir miðjan júlí voru
miklar rigningar. Eftir miðjan júlí gerði þurviðri og fádæmamikinn kulda og hnekti
það mjög mikið gróðri. Dag einn hvíttnaði í vesturfjöllin þó hásumar væri. Svo kom
ágúst með hina indælustu sumarbliðu svo að hver dagurinn var öðrum betri -hitar
og stillur. Með höfuðdegi lagðist í rigningar og sunnanáttir fram á haust, þá
þornaði á ný. Lítilega snjóaði i oktober, en annars ýmist froststillur, þoka og
súld. Fyrstu snjóar komu í byrjun nóvember en síðan umhleypingar.
Heimild: Suðurland 1911
13.08.2012 18:41
Aldamótahátíð 2012
20.07.2012 00:32
Svíar mynda á Bakkanum
20.07.2012 00:13
Gangstéttaframkvæmdir
15.10.2011 20:51
Björgun
Þyrla Landhelgisgæslunar TF-Líf tók þátt í björgunaræfingu með Björgunarsveitinni Björg á Eyrarbakka í dag, þar sem æft var með leitarhunda og sigmann.(Mynd t.v.: Linda Ásdísardóttir)
Hér eru nokkrar gamlar myndir þar sem þyrlur Gæslunar hafa komið við sögu á æfingum og björgunum með björgunarsveitinni á Eyrarbakka.
Æft með TF-Sif snemma á 8. áratugnum.
TF-Gná yfir Eyrarbakka eftir Suðurlandsskjálftan 2008.
TF-Gró við björgunarstörf í brimgarðinum á Eyrarbakka 1983 ásamt björgunarsveitarmönnum. Saga þyrlanna er í stuttu máli þannig:
Fyrsta þyrlan sem skráð var hér á landi var smávél af gerðinni Bell-47. Hún var skrásett 10. júní 1949, en skilað aftur til Bandaríkjanna í september sama ár. Nr.2 var einnig Bell-47. Það var TF-EIR sem var i eigu Slysavarnafélags Íslands og Landhelgisgæslunnar. Hún var skrasett 30. apríl 1965. TF-EIR brotlenti á Rjúpnafelli 29. september 1971 og gjöreyðiiegðist. Nr. 3 var TF-GNÁ, stór Sikorsky þyrla i eigu Landhelgisgæslunnar. Hún var skrásett 21. febrúar 1972. TF-GNÁ eyðilagðist i nauðlendingu á Skálafelli 3. október 1975 eftir að drifkassi í stéli brotnaði. nr.4 var TF-HUG sem var af gerðinni BeIl-47 og í eigu Landhelgisgæslunnar. Hún var skrásett 29. mars 1973. Þessi þyrla skemmdist í nauðlendingu, eftir hreyfilbilun í grennd við Kópavogshæli, 13. febrúar 1977. Nr.5 var TF-MUN. Hún var einnig af gerðinni Bell-47 í eigu Landhelgisgæslunnar. Hún skemmdist í nauðlendingu, vegna hreyfilbilunar, i grennd við Vogastapa árið 1975. Nr. 6 var TF-GRO. Hún var af gerðinni Hughes 369 og í eigu Landhelgisgæslunnar. Hún var skráð hér á landi 7. apríl 1976. Þessi þyrla flaug á loftlínu, við Búrfellsvirkjun, og eyðilagðist, 17. nóvember 1980. Nr.7 var TF-Rán tekin í notkun 1980, en hún fórst í Jökulfjörðum 1983.
Heimild: DV 1981 og Wikipedia
20.09.2011 22:00
Gangstéttir og götuljós
Í kvöld var fundað á Eyrarbakka um endurnýjun gangstétta og götuljósa. Af því tilefni er gaman að rifja upp hugleiðingar Eyrbekkings árið 1910:
Hugleiðing á Bakkanum "er gerast kvöldin dimm og löng",
Sólin er að setjast. - Rökkurskuggainir eru þegar byrjaðir að teygja út armana. - Syrtir að í lofti. Mér er sem eg heyri dyn mikinn, sem af vængjataki. - Það er nóttin. Það fer um míg hrollur, eg flýti mér heim. - Eg kemst ekkert áfram, einlægur árekstur, hamingjan góða! Hvar eru götuljósin? spyr eg sjálfan mig og ætla að fara að blessa yflr bæjarstjórnina, en þá man ég það að hún er engin til hérna á Bakkanum, já, það var nú verra gamanið. Hver á þá að kveikja? Hreppsnefndin sagði einhver. Já, það hlýtur þá vist að vera hún, já, guð blessi hreppsnefndina, segi eg, hún veit hvað hún hefir að gera. - En það verður ekki kveikt á engu, maður lifandi, - onei, nei, fyrst að enginn vill taka sig fram um að nota vindinn, já það var líka satt, hann hefði ekki annað að gera en kveikja á kvöldin, nægur tími til fyrir hann, að sækja í sig veðrið í útsynningnum allan daginn og kveikja svo á kvöldin. - Hefir nokkur farið fram á það við hann "herra Storm", að hann gerði eitthvað til gagns, nei nei blessaður, - en hann á þó ef til vill, eða gæti átt rafurmagn í pokahorninu ef látið væri við hann beislið? Já, ekki vil eg nú bíða eftir þvi, og heldur fara í hreppsnefndina og eg læt ekki sitja við orðin tóm, og sest undir gluggana hjá henni og syng hana í svefn, geri henni galdra og risti henni rúnir, ef hún fer ekki að hugsa fyrir götuljósum áður en eg verð búinn að mola í mér hauskúpuna og skaðskemma nefið á náunganum. Mér er annars full alvara, eg ætla að biðja blessaða hreppsnefndina ósköp vel, að gleyma ekki þeim fáu, sem eru Ijóssins börn, en láta hitt ruslið sjá um sig sjálft - og hugsa fyrir götuljósum áður en mesta skammdegismyrkrið skellur á. Já, því má hún ekki gleyma.
Frá fundinum er það skemmst frá að segja að fundurinn samþykkti að fresta fyrirhuguðum framkvæmdum við endurbyggingu fallina gangstétta á Eyrarbakka, en útboð stóð fyrir dyrum.
Heimild: Óþekktur Eyrbekkingur.
17.08.2011 22:53
Heyskap lokið
Heyskap á Bakkanum er almennt lokið í sumar og öll nýtanleg tún hafa verið hirt. Kalt vor og miklir þurkar í sumar háðu grassprettu og heyfengur því minni nú en oft áður.
30.07.2011 23:32
Aftur verslað í Laugabúð
Verzlun Guðlaugs Pálssonar "Laugabúð" á Eyrarbakka var opnuð formlega 25. júní sl. Þar fæst gamaldags sælgæti, póst- og gjafakort með myndefni frá Eyrarbakka, ýmis gjafavara með skírskotun til þorpsins, bækur tengdar svæðinu, handunnar sápur, ullarvara frá RÍSL og fleira. Í þessu húsi rak hinn landsþekkti kaupmaður Guðlaugur Pálsson verslun sína frá árinu 1919 til 1993, en gælunafn verslunarinnar var "Laugabúð". Núverandi rekstraraðili er Kirkjustræti ehf, sem vísar til eldri nafngiftar á Búðarstíg.
Upplýsingar um verslunina má finna á http://www.facebook.com/#!/Laugabud
Um verzlun Guðlaugs Pálssonar.
19.07.2011 23:41
Framkvæmdir við sjóvarnargarð
Nýlega hófust framkvæmdir við lengingu sjóvarnargarðsins á Eyrarbakka. Garðurinn sem nú er verið að byggja er 170 m kafli austan barnaskólans. Verkinu á að vera lokið 15. ágúst n.k.
22.05.2011 18:29
Öskumystur
Kunnugleg sjón eða hvað? Svona var oft útlits síðasta sumar þegar gaus í Eyjafjallajökli, en svona var umhorfs síðdegis í dag undir öskuskýji frá Grímsvatnagosinu sem hófst í gær. Ef eitthvað er þá er þessi aska verri undir tönn, en sú sem reið yfir fyrir réttu ári.
Svona er skyggnið þessa stundina, en hér er horft frá þjóðveginum upp að Óseyri.
30.04.2011 17:29
Matjurtagarðar í útleigu
Sveitarfélagið Árborg ætlar í sumar að lána út garðlönd til íbúa. Garðlöndin eru staðsett vestan við Eyrarbakka, sunnanmegin þar sem skilyrði til ræktunar eru best. Hægt verður að leigja mismunandi stærðir allt frá 10 m² upp í 50 m². Umhverfisdeild Árborgar mun sjá um allan undirbúning fyrir ræktunina..
Umsóknareyðublöð eru á heimasíðu sveitarfélagsins arborg.is/umsóknir undir Garðyrkjudeild og í afgreiðslunni í Ráðhúsinu, Austurvegi 2, Selfossi, fram til 15. maí nk.
11.04.2011 22:36
Borað eftir sjónum
Verið er að bora eftir sjó á Bakkanum, en það er nýsköpunarfyrirtækið Sæbýli sem er þessa dagana að setja upp þróunarsetur fyrir starfsemi sína á Eyrarbakka þar sem framtíðar heimili þess verður. Fyrirtækið er að standsetja sæbjúgnaeldisver um þessar mundir og mun selja þurrkuð sæbjúgu á kínverskan markað. Fyrirtækið byggir á grunni 20 ára þekkingarsöfnunar á sæeyrnaeldi og hefur þróað sjálfbært eldiskerfi (SustainCycle ) fyrir botnlæg sjávardýr eins og japönsk sæbjúgu, sæeyru eða ígulker.
Heimild:Iðnaðarráðuneytið
22.01.2011 23:23
Sandhöfn
Þetta er ekki Landeyjarhöfn (Sem sumir kalla "Sandeyjahöfn") heldur höfnin á Eyrarbakka, en þar er vart lengur von á skipakomu. Höfnin var aflögð snemma á 9. áratugnum og er nú óðum að fyllast af sandi. Sandburður hefur ætíð verið mikill með suðurströndinni og var það tal gamalla manna að ef byggja ætti sandlausa höfn á Suðurlandi, þá yrði hún að byggjast úti á sjó með brú í land.
17.12.2010 00:35
Brimver opnar jólagluggann
Börnin í Brimveri opnuðu jóladagatalsgluggann sinn í vikunni. Það var mikið gaman og komu sveinkar frá gamla tímanum og nýja tímanum til að aðstoða þau við opnunina,síðan var öllum boðið í skreyttar piparkökur og sukkulaði.
http://brimver.arborg.is/