Flokkur: Fólkið.
04.01.2011 00:21
Bakkakonur-Ingileif
Ingileif Eyjólfsdóttir f. 15.10. 1885 kom á Bakkann árið 1907 er hún gerðist bústýra hjá Ágústínusi vagnstjóra (Kallaður Ágúst) Daníelssyni í Steinskoti sem þá var hjáleiga frá Háeyri í tíð Guðmundar Ísleifssonar. Þau giftust síðar. Hún segir svo frá flóðinu mikla 1925:
Í febrúar 1925 gerði feykilega hafátt og varð svo mikið flóð að sjórinn gekk óbrotinn inn í Hópið og upp á glugga í Steinskoti og allt í kríngum bæinn. Það braut á bænum eins og skeri í hafinu, og svo mikið var sædrifið að ekki sást til barnaskólanns. Stórgrýtið úr sjógarðinum dreifðist um öll tún og girðingar eiðilögðust. Símastaur sem lá suður í kampi flaut upp í hraun. Um þetta orti einn drengur í barnaskólanum vísu sem er svona:
Nú er dapurt drengjum hjá,
dimmt að vaka sjónum á.
Nú er hríðin næsta dimm
1925.
Heimild: Guðmundur Daníelsson- Þjóð í önn 1965
02.01.2011 17:16
Bakkakonur-Eugenia
Eugenia Jakobína Nielsen var fædd 2 nóv. 1850, kona P. Nielsen's verslunarstjóra Lefooli-versl unarinnar á Eyrarbakka og mikill skörungur. Hún var dóttir Guðmundar Thorgrímsen og Sylvíu konu hans. Eugenia beitti sér mög fyrir bættu menningar- og félagsstarfi á Eyrarbakka. Hún var ein af stofnendum Kvenfélags Eyrarbakka og formaður þess um 25 ára skeið. Kvenfélagið er eitt elsta kvenfélag hér á landi. Hún hafði einnig sérstakan áhuga á að sjúkrahús yrðir byggt fyrir Sunnlendinga.
Hér er lítil saga sem Eguenia sagði stundum samferðamönnum sínum:
Þá er Eugenia, dóttir Thorgrímsens verslunarstjóra á Eyrarbakka, var barn að aldri, datt hún einu sinni ofan úr stiga niður á gólf. Hún meiddist samt ekkert. Tík, sem foreldrar hennar áttu, lá undir stiganum og lenti barnið á henni. Tíkin lærhrotnaði af högginu, sem hún fékk, er barnið datt á hana. Var tíkin síðan hölt alla æfi. Varð samt gömul. Þá er hún var orðin lasburða af elli, var það eitt kvöld, að Thorgrimsen sagði við konu sína: "Tíkin er ekki fær um að lifa lengur. Það má til með að fara að lóga henni". Frúin sagðist vilja, að hún fengi að lifa meðan hún gæti, þar eð hún hefði orðið barninu þeirra til lífs og liðið svo mikið fyrir það. Tíkin hafði legið undir stól á meðan og var ekki tekið eflir henni. Nú kom hún alt í einu fram, skreið að hnjám frúarinnar, og lagði trýnið í kjöltu hennar með álakanlegum blíðulátum og þakklætið skein úr augum hennar. Það var auðséð, að hún hafði skilið samtalið. - Hún fékk að lifa á méðan hún gat.
Heimild: Brynjúlfur Jónsson- Dýravinurinn 14.tbl.1911
Sjá einnig Guðmanda Nielsen-Guðmundubúð
27.12.2010 22:45
Kirkjukórinn 1950
Fremst frá vinstri: Anna Ámundardóttir,Guðlaug Brynjólfsdóttir, Kjartan Jóhannesson þjálfari, Kristinn Jónasson organisti, Jóhanna Hallgrímsdóttir, Þuríður Helgadóttir. 2. röð. Guðrún Bjarnfinnsdóttir, Guðlaug Böðvarsdóttir, Kristín Ottósdóttir, Sigurbjörg Guðmundsdóttir, Guðrún Jónsdóttir, Bjarndís Guðjónsdóttir. 3. röð: Helgi Vigfússon, Vigfús Jónsson, Guðmundur Ebenezersson, Guðmundur Daníelsson, Guðjón Guðjónsson, Egill Þorsteinsson, Nikulás Torfason. Efst: Sigurjón Valdimarsson, Eyþór Guðjónsson, Þorbjörn Guðmundsson, Halldór Guðmundsson, Ólafur Guðmundsson.
Heimild: Staðir og stefnumót-Guðm.Dan.
16.12.2010 00:12
Bjargvættir
Magnús Magnússon (Hús-Magnús) var meðal mestu sjósóknara og aflamanna á Eyrarbakka og fór mikið orð af því, hversu mikill snillingur hann væri við brimsundin. Um eða eftir 1880 byrjaði Magnús formennsku sína, þá ungur að árum. Vertíðina 1883 lenti hann með skipshöfn sína í útilegu í mannskaðaveðri því, sem þá skall snögglega yfir þann 29. mars og villtust tvær skiþshafnir þá í svartnættisbyl í fjörunum framundan Gamla-Hrauni. Þá var 15-16 stiga frost, ofsarok og svartnætti af byl, en ládauður sjór. Þarna höfðust þessar tvær skipshafnir við í fullan sólarhring. Voru sumir mennimir illa útleiknir, og sumir lágu á eftir um lengri tíma í kali. Hin skipshöfnin sem fyrir þessu varð, var skipshöfn Magnúsar Ingvarssonar, sem lengi var merkur formaður á Eyrarbakka. Þessa vertíð, snemma í marsmánuði, drukknaði einn af aflasælustu formönnum, er þá voru á Eyrarbakka, Sigurður Gamalíelsson frá Eyfakoti og fjórir hásetar með honum, en fimm eða sex bjargaði Magnús Ingvarsson. Þetta sjóslys mun hafa orðið á Einarshafnarsundi, nálægt stórstraumsfjöru.
Árið 1891 varð Jón Jónsson "frá Fit" fyrir slysi á "Rifsósnum" og missti þrjá háseta sína,
en honum sjálfum og 6-7 öðrum bjargaði Magnús Magnússon. 1894 drukknuðu þrír menn af skipshöfn Eiríks Ámasonar frá Þórðarkoti, en honum og 6-7 öðrum bjargaði einnig Magnús Magnússon, og eftir þessa síðari björgun fékk hann heiðursviðurkenningu, sem voru 9 verðlaunapeningar, og skipshöfn hans einhverja litla þóknun. Þetta slys varð á Einarshafnarsundi.
Árið 1886 fórst öll skipshöfn Sæmundar Bárðarsonar, 14 alls. Þetta slys varð út af Rifsós og gerðist með svo sviplegum hætti, að björgun var ómöguleg. Rúmri viku eftir að Magnús bjargaði Eiríki Árnasyni og meiri hlutanum af skipshöfn hans, drukknaði Páll Andrésson formaður frá Nýjabæ og einn háseta hans, einnig á Einarshafnarsundi. Skipshöfninni bjargaði að öðru leyti Guðmundur Steinsson skipasmiður í Einarshöfn, og mun hann hafa fengið einhverja viðurkenningu eins og Magnús Magnússon.
Magnús varð frægur fyrir björgunina af hinum tveim skipum með svo stuttu millibili, eins og að framan greinir samtals 16 mönnum. Þegar Guðmundur Ísleifsson kom að Einarshafnarsundi, spurði hann Ólaf Gíslason, er lá við sundið er hann kom þar meðan stóð á björgun skipshafnar Eiríks, "Hver mun hafa bjargað"- Ólafur svaraði "það hefur víst verið Hús-Magnús eins og vant er". Einn af hásetum Eiríks sem bjargaðist, var fastur í skipinu og flæktur í fiskilóðum. Þegar öllum öðrum sem ekki hafði tekið út og horfið í sjónum sem fyllt hafði skipið, hafði verið bjargað, beið Magnús þar til lag kom og stýrt að skipi Eiríks, er var fullt af sjó, fengið öruggum manni stýrið, en stokkið sjálfur upp í með hníf og skorið með miklu snarræði sundur lóðirnar er héldu manninum föstum og bjargaði honum svo yfir í skip sitt.
Talið er að Hús-Magnús hafi bjargað um 30 sjómönnum á ferli sínum.
Heimild: Sigurður Þorsteinsson í Sjómannablaðinu Víkingi 1.tbl.1950
Hús-Magnús ()
28.11.2010 23:43
Ýkjusögur þorsteins í Simbakoti
Þorsteinn í Simbakoti á Eyrarbakka (d. 1864) var lengi formaður í Þorlákshöfn. Hann hafði gaman að því að segja sögur af sér og þótti þá stundum heldur ýkinn. Ein sagan var þessi: "Einu sinni var ég að koma úr Skaftholtsréttum og var einn á ferð. En það hefur löngum þótt reimt á henni Murneyri. Þegar ég kom þangað, mætti ég manni og spurði hver þar færi. En það var steinhljóð, en hann tók ofan höfuðið og hristi framan í mig lungun" (ísl.sagnaþættir og þjóðsögur III).
Önnur:- Þegar Þorsteinn var vinnumaður á Bjólu bjó ekkja á næsta bæ, sem átti ferhyrndan hrút, er var svo mikill að enginn teysti sér til að skera hann. Bauðst Þorsteinn að lokum til þess og fékk höfuð hans í skurðarlaun. Dugði ullin af höfðinu í þrenna sjóvettlinga.
Ein önnur:- Þegar Jörundur hundadagakonungur var hér á landi kom eitt sinn skip að leita að honum. Voru þá æpt heróp um allan Eyrarbakka til þess að setja fram lóðsskipið. Þegar Þorsteinn kom út í skipið sá hann blámann bundinn þar í lestinni. Var hann svo stór og eftir því munnurinn, að þrjá menn þurfti til þess að moka grjónagrautnum upp í hann með skóflu.
(Sagnagrunnur 2.0 beta)
13.11.2010 01:39
Við hafið
Maríus Ólafsson söðlasmiðs, fæddist á Eyrarbakka. Hann var verslunarmaður í Reykjavík og ágætt vísnaskáld. Maríus Ólafsson gekk til liðs við templara með því að gerast félagi í stúkunni Einingunni 1944.Eftirfarandi vísur samdi hann um sína heimaslóð og eflaust geta margir tekið undir.
"Við hafið ég átti í æsku
minn æfintýraheim,
og síðan er sál mín alltaf
sameinuð töfrum þeim."
Svo er það vísa Maríusar um brimið:
Við hafið er hugur vor bundinn.
Við heyrum í þögninni sjávarins nið.
Við horfum á brimið, er brýtur við sundin,
og brotsjói ólgandi verja þau hlið.
Er bátarnir grípa hin geigvænu lög,
vér greipar kreppum við áranna slög.
Þá samdi Maríus kvæði í tilefni
Jónsmessuhátíðar Eyrbekkinga
Hve fagnandi opnum við æskunnar dyr,
í angandi hásumar gliti,
er draumurinn rætist, sem dreymdi okkur fyr,
í daglegum önnum og striti;
að hlusta á niðinn, sem hafaldan ber,
og hittast að nýju á ströndinni hér.
Að heilsa ykkur vinir, sem haldið hér vörð,
og hopuðu aldrei úr spori,
og önnuðust hér vora elskuðu jörð,
sem upp rís á sérhverju vori.
Þið sandinum hafið í sáðlendur breytt,
og sigrandi vonunum leiðina greitt.
Og félag vort þráir að leggja ykkur lið,
og leiðina á milli okkar brúa.
Þótt veröldin skjálfi í vopnanna klið,
að vináttu skulum við hlúa,
og takast í hendur og treysta þau bönd,
sem tvinnaði æskan á þessari strönd.
(Kvæði þetta var sungið á skemmtun, sem Eyrbekkingafélagið hélt á Eyrarbakka 26. og 27. júní 1943).
06.11.2010 22:29
Eyjólfur sterki á Litla-Hrauni.
Eyjólfur hét maður, er uppi var um miðja 18. öld. (1729) Hann bjó á Litla- Hrauni í Stokkseyrarhreppi er þá hét. Hann var orðlagður fyrir afl og hreysti, og þar að auki var hann glímukappi mikill. Kaupmaðurinn, sem þá var á Eyrarbakka, átti eitt sinn tal við skipherrann á skipi sínu um íslendinga. Gerði skipherra lítið úr íslendingum, og sagðist skyldu koma með þann mann frá útlöndum, sem enginn íslendingur stæði fyrir, en kaupmaður sem hélt íslendingum fram, sagðist skyldu koma með þann íslending, sem enginn útlendingur bæri af. Þeir veðjuðu um þetta. Sumarið eftir kom skipherra með blámann, vígalegan og tröllslegan. Kaupmaður fekk Eyjólf til að glíma við hann. Var Eyjólfur þó tregur til, því að hann var við aldur, og bjóst þar við vægðarlausum viðskiptum. Áður en hann gekk til glímunnar, sívafði hann sig með snæri um kropp og útlimi undir ytri klæðunum. Gat blámaður því hvergi klipið hann til meiðsla. Lengi gerði Eyjólfur ekki annað en að verjast, og þóttist fullreyndur, en blámaðurinn ólmaðist hvað af tók. Loks kom Eyjólfur þó bragði á blámann og feldi hann. Lét hann þá kné fylgja kviði og þjarmaði svo að bringuspölum blámannsins, að blóð gekk af munni hans. Voru þeir þá skildir að, og blámaðurinn leiddur fram á skip. Eyjólfur var þó aldrei samur eftir viðureignina. Sagt er að kaupmaður hafi gefið Eyjólfi veðféð og meira til fyrir þennan sigur. Gekk þessi gíma undir nafninu "Veðmálaglíman".
Sögu þessa skráði Brynjúlfur frá Minna-Núpi eftir munmælasögu og birti í ritinu Huld I, en Brynjúlfur var Eyrbekkingum af góðu kunnur. Saga þessi er afar lík sögunni um þjóðsagnapersónuna Jón Sterka frá Eyrarbakka í ritum Jóns Árnasonar. En að auki eru til margar ýkjusögur um þessa glímu og stundum eignuð öðrum þjóðsagna hetjum. En þessi saga um glímu Eyjólfs er sennilega raunsönnust, en auk þess var Eyjólfur söguleg persóna.
Hann var sonur Símonar i Simbakoti á Eyrarbakka (f. 1681) Björnssonar á Háeyri (f. 1649) Jónssonar. Frá Eyjólfi er komin fjölmenn ætt sem of langt mál er að telja upp hér. En Grímur Gíslason frá Óseyrarnesi var fjórði maður frá Eyjólfi og voru þeir Brynjúlfur samtíða menn.
Heimild: Guðni Jónsson/Fálkinn 22.01.1938
03.08.2010 23:19
Þurrabúðarlíf
Þurrabúðir eða Tómthús voru þau hreysi nefnd er hrófluð voru upp af grjóti og torfi við sjávarsíðuna á 19. öld. Á Eyrarbakka voru slík húsakynni mýmörg. Þurrabúðarmenn réðu húsum sínum, höfðu litla lóð til afnota, unnu hjá öðrum til sjós og lands. Áttu kanski litla garðholu og einhverjar hænur og kanski nokkra sauði. Hvað leiddi til þess að fólk yfirgaf sveitina og settist að í þessum hrófla tildrum? Hér er saga eins þeirra:
Þórarinn Jónsson snikkarasonur frá Hátúnum í Landbroti er 12 ára árið 1865 og við fylgjum honum úr hlaði þar sem forfeður hans hafa búið frá því snemma á 17. öld. Hann fer í vist á Ásgarði sem er bær í sömu sveit og vex þar úr grasi. Um fermingu er hann orðinn smali á Maríubakka og 15 ára er hann ráðinn vinnumaður að Hólmi. Síðan flakkar hann í vinnumensku á milli ýmsra bæja í Landbroti og Síðu næstu árin. Hann er orðinn þrítugur þegar hann nær sér í konu. Árið 1883 gekk hann að eiga Rannveigu Sigurðardóttur fædd á Kálfafelli V-Skaftafellsýslu, en ólst upp hjá vandamönnum á Hörgslandi. Er hér var komið 24.ára vinnukona, í Mörtungu. Faðir hennar var Sigurður Magnússon bóndi í Hruna á Brunasandi, en hann var áður vinnumaður hjá Jóni Sigurðssyni á Kálfafelli. Sigurður lést úr lungnabólgu þegar Rannveig var barn að aldri.
Hjónakornin yfirgefa sveitina með sinn litla heimanmund (Rannveig fékk 1000 ríkisdali í föðurarf, sem gengu til fósturforeldra hennar og sá ei neitt af þeim síðan.) og halda vestur yfir sanda, fljót og græna velli. Þau láta loks staðar numið á Haugi í Gaulverjabæjarhreppi en þar gerist Þórarinn bóndi í fyrstu en síðan í Garðhúsum í sömu sveit 1895. Þórarinn er orðinn tveggja barna faðir og ræður sig til sjós á Stokkseyri, hjá formanninum Jóni Guðmundssyni frá Gamla-Hrauni. Fjölskyldan unga dvelur um skamma hríð að Stjörnusteinum. Árið 1901 kaupir Þórarinn Grímsstaði á Eyrarbakka sem er þurrabúð, þröng og lítil, steinninn ber, moldargólf og ein hlóð við annan vegginn . En það fylgir þeim svo sem ekki mikið hafurtask, því veraldlegar eigur þeirra komast vel í eina kistu. Í þessu tildri búa þau í tæp 10 ár, elda sinn mat á hlóðunum sem jafnframt voru notaðar til upphitunar yfir veturinn.
Þórarinn stundar sjóinn af elju yfir vertíðirnar en um heyannir er hann sláttumaður hjá Stóra-Hrauns bóndanum og sóknarpresti. Rannveig stundar hin hefðbundnu heimilisstörf, barnauppeldi, prjón og aðra handavinnu ásamt öðrum tilfallandi viðvikum hér og þar. Árið 1910 kaupir Þórarinn aðra þurrabúð sem hét Vegamót og byggir þar lítinn bæ á tóftinni sem rúmar eitt sæmilegt herbergi, eldhús og dálítið fordyri. Undir var kjallari þar sem áður var gólf Þurrabúðarinnar. Í stað hlóðanna var nú kominn forláta kolaeldavél og sá hún einnig um uphitun húsnæðisins.
Skömmu eftir Jónsmessuna þetta ár söfnuðust menn við sjávarborðið þar sem sjávarbændurnir stóðu við báta sína samkvæmt gamalli hefð. Það var að falla út og gera stórstraumsfjöru. Hæðstu skerin voru kominn upp og menn drifu sig þá í bátana, því nú skyldi haldið til sölvatekju. Fram eftir morgni var fólk að tínast út á skerin eftir því sem fjaraði betur út. Allir máttu afla sér sölva þangað sem vætt var, en aðeins sjávarbændur máttu nýta sker sem róa þyrfti út í. Sumir voru með kuta eða hníf en aðrir berar hendur og slitu upp sölina og settu í laupa, sem síðan var losað úr í hrúgur efst á skerinu eða borið beint í bátana og róið með í land þar sem breitt var úr sölinni á bökkunum og hún hreinsuð og þurkuð í sólinni yfir daginn. Um kvöldið var sölin tekinn samann og sjávarbændur komu sölinni fyrir í sölvakofa þar sem hún var förguð undir striga og torfi, en almenningi nægði að koma sínum hluta fyrir í tunnu og grjót borið á til að pressa sölina. Eftir nokkrar vikur var sölin orðin hneit, kominn á hana hvít sykurhúð og þótti hið mesta sælgæti.
Eftir sölvatekjuna sem staðið hafði í þrjá daga fór Þórarinn í skelfjöru með öðrum körlum. Uppskeran stóð í tvo daga um lokastrauminn og sjór ládauður. Farið var alveg út á ystu sker við brimgarðinn og grafið eftir öðuskel með stangarjárnsbút er sleginn hafði verið spaði á annan endann og kallað skeljajárn.Menn pikkuðu oft margar skeljar upp úr sömu holunni þar sem þær voru í hrúgum. Skelin var síðan borin í land og dreift í innlónin þar sem straumur var og sjór hitnaði ekki í sólinni. Þarna var svo hægt að ganga að henni vísri þegar á þurfti að halda til beytu á haustin og vorin.
Er færi gafst var líka farið í grasa fjöru rétt fyrir sláttinn, þar sem tíndir voru grænþörungar sem síðan voru látnir útvatnast en þar á eftir pressaðir niður í tunnu. Sumum þótti þetta gott saxað út á skyr.
Enn á ný fór Þórarinn í sláttinn hjá landeigeigandanum að Stóra-Hrauni sem var prestsetur í þá daga. Voru þá slegin tún og engjar, hagarnir voru notaðir undir kýr en sauðfé oftast beitt á fjöruna. Fyrir sláttinn var greitt með varningi, lambi, smjöri og tólg. Heima fyrir áttu allir smá garðholu sem í voru ræktaðar kál og kartöflur, Þessu var sinnt eftir tökum yfir sumarið en sjómennskan var þó aðal starf Þórarins, og það sem mest gaf úr býtum.
Einhverju sinni þegar verið var að grafa áveituna á engjunum fyrir ofan þorpið og Þórarinn ráðist þar til vinnu eins og margir menn í þorpinu um þær mundir. Þórarinn gengur því upp á mýri og kemur þar að sem tveir menn hafa staðið við skurðgröft að undanförnu. Hann stendur dágóða stund og lýtur yfir verkið en verður svo að orði "Þetta er nú ljótasti skurður sem ég hef nokkru sinni séð".
Þórarin var sterkur og hraustur. Einhverju sinni var hann fenginn til að flytja tvo hveitisekki austur á Stokkseyri, (um 6 km) en þar var þá orðið hveitilaust. Voru nú bornir á hann hveitisekkirnir, sinn á hvora öxlina og gekk hann svo af stað frá verslunarhúsunum á Eyrarbakka. Er Þórarinn kemur að Hraunsá er hann nokkuð tekinn að lýjast en hættir þó ekki á að taka af sér sekkina til að hvílast, vitandi það að óvíst væri að hann kæmi þeim á axlirnar aftur. Heldur hann því áfram það sem eftir var og kemur móður og másandi inn í þorpið og hendir af sér sekkjunum við búðina og segir "Étið nú helvítin mjölið og berið mig svo heim"
Þurrabúðarmenn Lestarferðir út á Eyrar. Róið til fiskjar um aldamótin 1900 Vegamót
01.05.2010 13:10
Andrés stóð í eldhríðinni
Andrés Jónsson fæddist 1896 á Litlu Háeyri (eldri bær) Í uppvexti hans fór lítið fyrir sjálfseignarmönnum í þorpinu. Þorleifur ríki á Háeyri átti hálfann Bakkann sem svo erfði tengda sonur hans Guðmundur Ísleifsson. Íbúar þorpsins voru um 900 og mikil gróska í atvinnulífinu sem byggðist fyrst og fremst á sjónum en í annan stað á verslun. Róðrar voru stundaðir á allt að 30 opnum bátum og skapaðist mikið og fjörugt verbúðarlíf í kring um sjómennskuna. Margir höfðu einhverjar grasnytjar og áttu dálítið af skepnum og höfðu af því talsverðan styrk. Þegar vélbátar og vegir komu til sögunnar fór smám saman að halla undan fæti. Verslunin hvarf smám saman og aðstaða fyrir vélbátaútgerð var enginn. Á kreppuárunum var orðin mikil neyð í þorpinu sem varð til þess að menn hölluðu sér meira að búskap sem ugglaust forðaði mörgum frá beinum sulti. Búskapur fór svo að dragast saman upp úr 1950 þegar fiskvinnsla og frystihús komst á skrið samfara bættum hafnarskilyrðum, en erfiðleikarnir héldu áfram og Eyrbekkingar voru ekki komnir fyllilega upp úr öldudalnum þegar útgerð og fiskvinnsla hvarf á braut.
Andrés í Smiðshúsum eins og hann var kallaður, lifði og starfaði í þessu umhverfi, lengst af í sjómennsku en jafnframt með nokkurn búskap eins og tíðkaðist hjá mörgum á kreppuárunum og síðar. Hann gekk í Verkamannafélagið Báruna 14 ára og átti síðar eftir að vera oft í stjórnum og formennsku fyrir félagið. Verkalýðsbaráttan var erfið, oft hörð og óvægin á köflum. Þar var gjarnan tekist hart á, jafnt innan búðar sem utan þar sem pólitískar skoðanir léku stórt hlutverk. Á þeim tíma var verkalýðsfélagið ómissandi baráttuvettvangur og um leið mikill félagsmálaskóli. Þegar félagið var upp á sitt besta fór það í raun með völdin í þorpinu og átti sína menn í hreppsnefnd. Þegar gömlu mennirnir sem stóðu í eldhríðinni hurfu af vettvangi fór afl félagsins þverrandi.
-
Tímarnir höfðu breyst, næg vinna var fyrir alla og velmegun ríkti, líka hjá verkafólki því baráttan hafði skilað árangri til fólksins og áhugi á verkalýðsmálum hvarf um leið eins og dögg fyrir sólu. Andrés og aðrir gamlir leiðtogar verkalýðsins töluðu fyrir því að valdið yrði fært í ríkara mæli til fólksins, en sú draumsýn virðist seint ætla að rætast. Þegar ítökum verkalýðsfélaganna sleppti náðu bankarnir taki á almenningi og gerðu að skuldaþrælum og því meir sem kaupmáttur dalaði í verðbólgubáli liðinna áratuga var það bætt með lánum í alskyns myndum svo að jafnvel fyrsti peningur sem ungt fólk sá var lánspeningur frá bankanum. Fólk þorði ekki lengur að berjast til þrautar af ótta við að skuldir sínar hjá bankanum yrðu gjaldfelldar. Svo þegar bankarnir hrundu og bankamafían fór í felur með restina af góssinu situr verkafólk þrátt fyrir það enn fastar í hlekkjum sínum en áður og enginn virðist fær um eða hafa viljan til að losa það. Fyrir verkafólkið virðist bara eitt að gera, að grafa upp gömlu stríðsöxina.
02.04.2010 10:32
Siggi flug
ÞANN 14. NÓVEMBER 1928 settist átján ára gamall Eyrbekkingur, Sigurður Jónsson að nafni, upp í skólaflugvél á flugvellinum við Boblingen, skammt frá Stuttgart í Þýzkalandi. Vart mun þennan unga mann þá hafa grunað, að þessi atburður ætti eftir að verða upphaf að gagngerðri byltingu á samgönguháttum heima á íslandi, en ljóst mun honum hafa verið að sín kynni að bíða ævintýralegur ferill, sem fyrsta atvinnuflugmanns heima á íslandi. Hann var fæddur á Eyrarbakka 18.2. 1910 (d.1986)sonur Jóns Sigurðssonar verslunarfulltrúa hjá Lefolii verslun og Karenar Frímannsdóttur frá Lunnansholti í Landsveit. Sigurður var af svokallaðri Tugthúsætt, en afi hans var fyrsti fangavörður við fangahúsið á Skólavörðustíg. Sigurður starfaði sem flugmaður hjá Flugfélagi Íslands og handhafi atvinnuflugmannsskirteinis nr.1. Árið 1942 varð Sigurður fyrir afdrífaríku flugslysi þegar vél hans brotlenti á Reykjavíkurflugvelli. Árið 1956 var hann skipaður framkvæmdastjóri loftferðaeftirlits ríkisins. Hann var sæmdur fálkaorðunni 1960. Sigurður var auk þess listhneigður og málaði myndir sér til dægrastittingar og hélt á þeim sýningar í Reykjavík. Hersteinn Pálsson gaf út æfiminningar Sigurðar 1969.
09.03.2010 00:34
Guðmundubúð
Á árunum eftir aldamótin 1900 voru allmargar verslanir á Eyrarbakka, svo sem Verslunin Einarshöfn, Verslunin Hekla, Verslun Andrésar Jónssonar frá Móhúsum ofl. Um 1920 stofnaði Guðmunda Nielsen (1885-1936) verslun í nýbyggðu steinhúsi er hún lét sjálf reisa og húsinu var gefið nafnið Mikligarður. Hún hugðist fara í samkeppni við risan á markaðnum, kaupfélagið Heklu sem þá nýverið hafði tekið yfir verslunina Einarshöfn, hina fornu Lefolii verslun. Verslun Guðmundu lifði aðeins í tvö ár, en þá varð hún gjaldþrota. Eyrarbakkahreppur eignast húsið á stríðsárunum. Fyrir tilstuðlan hreppsins setti Hampiðjan á stofn netagerð í Miklagarði árið 1942 en síðan hófst þar framleiðsla á einangrunarplasti. Eftir að Plastiðjan hf var seld í burtu stóð húsið autt um tíma. Mikligarður komst aftur í eigu Eyrarbakkahrepps eftir að hreppurinn og pönnuverksmiðjan Alpan hf. höfðu makaskipti á eignum. Við sameiningu sveitarfélaganna færðist Mikligarður til Árborgar. Þar á bæ stóð hugur til að rífa bygginguna, en sem betur fer voru til menn sem töluðu um varðveislugildi þess út frá sögulegu sjónarhorni svo sem Lýður Pálsson safnvörður. Þá varð úr að hlutafélagið Búðarstígur 4 ehf eignast húsið árið 2005 með því skilyrði að gera það upp og hefur Rauða Húsið haft þar aðsetur síðan.
Guðmunda var einstök hæfileikakona á sinni tíð, safnaði m.a. nótum og uppskriftum, samdi ljóð og gaf út matreiðslubók. þá æfði hún talkór líklega þann fyrsta á Íslandi, sem talaði kvæði í stað söngs. Hún var organisti Eyrarbakkakirkju til fjölda ára. Eftir að verslun hennar varð gjaldþrota hóf hún að reka Hótel í Tryggvaskála við Ölfusá. því næst flutti Guðmunda til Reykjavíkur og stofnaði heimabakarí að Tjarnargötu 3. Guðmunda var afkomandi faktoranna í Húsinu.
Heimild: Morgunbl. 173 tbl 1928 36.tbl.1986 C2 1989 98 tbl.1999 http://husid.com/i-deiglunni/
Þennan dag:1685, Góuþrælsveðrið, teinæringur fórst á Eyrarbakka með 9 mönnum.
04.03.2010 23:32
Ólabúð
Árið 1920 setur Ólafur Helgason upp verslun í Túnbergi á Eyrarbakka en húsið var byggt af Eiríki Gíslasyni smið í Gunnarshólma 1914. Ólafur var fæddur 21. júlí 1888 að Tóftum í Stokkseyrarhreppi (d. 19.9. 1980). Hann fluttist til Eyrarbakka 1912 og réðist þá í þjónustu kaupfélagsins Ingólfs, en því veitti forstöðu Jóhann V. Daníelsson, síðar tengdafaðir Ólafs, en árið 1914 kvæntist hann Lovísu dóttur hans. Ólafur var meðal fyrstu manna í þorpinu sem eignuðust bíl og meðfram kaupmennskunni var Ólafur nokkurskonar leigubílstjóri á árunum 1919 1932 og ók farþegum út um sveitir eða flutti lækni og sýslumann erinda sinna um héraðið. Síðar var Ólafur oddviti Eyrarbakkahrepps og þar eftir hreppstjóri um áratuga skeið. Með versluninni hafði hann útsölu fyrir Olíuverzlun Íslands og voru dælurnar við götuna framan við búðina. Samkeppni í verslun var hörð á Bakkanum enda kepptu enn þrjár verslanir um hilli þorpsbúa, en það var auk Ólabúðar, Verslun Guðlaugs Pálssonar og Kaupfélag Árnesinga. Árið 1966 ákvað Ólafur að auglýsa verslunina til sölu og setjast sjálfur í helgan stein.
Árið 1971 setur kaupmaður úr Reykjavík upp lampa og gjafavöruverslun í Túnbergi og var hún í rekstri nokkur ár.
Frá 1. febr 1989 og fram til 1990 ráku hjónin Hjálmar Gunnarsson og Guðrún Melsteð verslun í Túnbergi undir sínu gamla nafni Ólabúð. Árið 2006 keypti svo þekktur listamaður Túnberg en ekki er þar lengur verslun.
Heimild: Mbl. 223 tbl 1990 44 tbl 1989 Alþbl. 157 tbl.1963 161 tbl 1958
02.03.2010 00:39
Verzlun Guðlaugs Pálssonar
Þann 4. desember 1917 fékk Guðlaugur Pálsson (f. Á Blönduósi 1896) leyfi til að reka verslun á Eyrarbakka. Áður en Guðlaugur hóf rekstur eigin verslunar hafði hann unnið við verslunarstörf í tvö ár hjá Sigurði Guðmundssyni kaupmanni á Eyrarbakka, en þá bauðst honum að kaupa verslunina. Fyrstu tvö árin rak Guðlaugur verslun sína í Kirkjuhúsi sem er skammt vestan við verslunarhúsið sem kent er við hann (Laugabúð),en leiguna fyrir Kirkjuhús greiddi Guðlaugur með póstferðum á Selfoss og til Stokkseyrar tvisvar í mánuði á vetrum og fjórum sinnum á sumrin. Árið 1919 keypti Guðlaugur Sjónarhól, þar sem hann rak verslun sína allt til síðasta dags. Í upphafi var verslun hans nær eingöngu vöruskipptaverslun, þar sem íbúar nærsveitanna lögðu inn kartöflur, ull ofl sem hann svo kom í verð í Reykjavík. Á síðari tímum var Laugabúð helsta aðdráttarafl ferðamanna á Eyrarbakka, enda búðin nánast óbreytt frá fyrstu tíð og ekki þótti það síður athyglisvert sú hátta kaupmannsins að nota ekki reiknivélar, heldu voru öll verð lögð saman í hugarreikningi með aðstoð blýants og kartonpappírs. Guðlaugur andaðist 1993, en í lifanda lífi var hann þjóðkunnur og handhafi fálkaorðu fyrir að helga sig verslunarstörfum nær alla sína starfsæfi, sem spannaði 76 ár fyrir framan búðarborðið. Kona hans var Ingibjörg Jónsdóttir frá Garðhúsum(d.1984) Búðarborðið er til sýnis í Húsinu, en búðin stendur á sínum stað. Fyrir nokkrum árum lét Magnús K Hannesson gera húsið upp í sinni upprunalegu mynd. Í búðarglugga kaupmannsins má nú oft sjá ýmislegt bregða fyrir frá fornu fari.
Heimild Morgunbl. 167 tbl 1978 versl.blað 62 tbl 1983 267 tbl 1987
Á þessum degi:1976 Hafrún ÁR 28 ferst út af Reykjanesi með 8 mönnum. Skipið var stálskip smíðað í Þýskalandi 1957. 1987 Vinna hefst við Óseyrarbrú.
24.02.2010 23:21
Skírnarvatnið sótt í brunn á Eyrarbakka
Þegar Árni Ricther ferjubóndi á hinni amerísku Washingtoneyju í Michiganvatni tók í notkun nýja ferju árið 1970 var skírnarvatnið sótt í gamlann brunninn við Nýjabæ á Eyrarbakka. Ferjan fékk svo nafn með rentu, nefnilega Eyrarbakki(mynd). Það voru þau Sigurður Magnússon frá Loftleiðum og Pálína Pálsdóttir í Hraungerði sem sáu um að sækja vatnið í brunninn góða, en sú sem fékk þann heiður að skíra ferjuna þessu góða nafni var fyrsta barnið sem fæddist á eyjunni "Amma Geirþrúður" fædd 1874. Árni ferjubóndi á ættir að rekja til Eyrarbakka, en saga íslendingabyggðarinnar á Washingtoneyju hófst á Eyrarbakka um 1865.
Heimild: Morgunbl.149/167 tbl 1970, Washington Island Ferry Line. http://www.boatinfoworld.com/registration.asp?vn=205842 http://www.inl.is/eggjaskur.htm
Þennan dag: 1980 Eldingaveður og stórhagl (0,7mmØ)