04.03.2010 23:32

Ólabúð

Ólafur Helgason kaupmaðurÁrið 1920 setur Ólafur Helgason upp verslun í Túnbergi á Eyrarbakka en húsið var byggt af Eiríki Gíslasyni smið í Gunnarshólma 1914. Ólafur var fæddur 21. júlí 1888 að Tóftum í Stokkseyrarhreppi (d. 19.9. 1980). Hann fluttist til Eyrarbakka 1912 og réðist þá í þjónustu kaupfélagsins Ingólfs, en því veitti forstöðu Jóhann V. Daníelsson, síðar tengdafaðir Ólafs, en árið 1914 kvæntist hann Lovísu dóttur hans. Ólafur var meðal fyrstu manna í þorpinu sem eignuðust bíl og meðfram kaupmennskunni var Ólafur nokkurskonar leigubílstjóri á árunum 1919 1932 og ók farþegum út um sveitir eða flutti lækni og sýslumann erinda sinna um héraðið. Síðar var Ólafur oddviti Eyrarbakkahrepps og þar eftir hreppstjóri um áratuga skeið. Með versluninni hafði hann útsölu fyrir Olíuverzlun Íslands og voru dælurnar við götuna framan við búðina. Samkeppni í verslun var hörð á Bakkanum enda kepptu enn þrjár verslanir um hilli þorpsbúa, en það var auk Ólabúðar, Verslun Guðlaugs Pálssonar og Kaupfélag Árnesinga. Árið 1966 ákvað Ólafur að auglýsa verslunina til sölu og setjast sjálfur í helgan stein.

Árið 1971 setur kaupmaður úr Reykjavík upp lampa og gjafavöruverslun í Túnbergi og var hún í rekstri nokkur ár.

Frá 1. febr 1989 og fram til 1990 ráku hjónin Hjálmar Gunnarsson og Guðrún Melsteð verslun í Túnbergi undir sínu gamla nafni Ólabúð. Árið 2006 keypti svo þekktur listamaður Túnberg en ekki er þar lengur verslun.
Ólabúð annað hús frá hægri

Heimild: Mbl. 223 tbl 1990 44 tbl 1989 Alþbl. 157 tbl.1963 161 tbl 1958

 

Flettingar í dag: 322
Gestir í dag: 59
Flettingar í gær: 755
Gestir í gær: 76
Samtals flettingar: 156094
Samtals gestir: 18433
Tölur uppfærðar: 10.6.2023 12:33:07