07.02.2010 23:58

Hús-Magnús

Sölkutóft, húsið var rifið fyrir löngu.Hús- Magnús var frægur formaður á Bakkanum fyrir aldamótin 1900. Hann var ættaður úr Sölkutóft og fékk viðurnefnið af því að hann var lengi vinnumaður í Húsinu og síðar formaður á skipum dönsku verslunarinnar. Hann var afburða formaður og hugrakkur með eindæmum. Hann kom mörgum sjómanninum til bjargar á ögurstund þegar skip þeirra urðu fyrir áföllum í brimgarðinum og vílaði hann sér ekki við að æða út á móti þeim á skipi sínu fram í bandvitlausan brimgarðinn. Eitt sinn runnu þó tvær grímur á Hús-Magnús:
Jón í Mundakoti og Loftur í Sölkutóft [þá ungir menn] voru hásetar hjá Hús-Manga er hann bjargaði áhöfn Jóns frá Fit þegar skipi hans hlektist á og það fyllti á Rifsósi. Þeir Jón og Loftur voru þeir einu af hásetum Hús-Manga sem eitthvað höfðust að en hinum féllust hendur. Loftur fór um borð í marandi skipið til að skera einn hásetann úr lóðinni sem hann var flæktur í. Meðan á því stóð nálgaðist ólag mikið og skipaði Hús-Mangi að skilja þá eftir og róa til lands en Jón í Mundakoti þreif þá í báða mennina og vippaði þeim eins og ullarballa um borð í skip Hús-Manga og björguðust þeir þannig.

Heimild:SA/ Eyrarbakki - Saga og Atburðir

Flettingar í dag: 74
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 70
Gestir í gær: 27
Samtals flettingar: 219564
Samtals gestir: 28925
Tölur uppfærðar: 3.10.2024 17:57:52