Flokkur: Grúsk

19.06.2012 22:47

Þorlákshöfn, aldargömul veiðistöð

Staðurinn er kenndur við Þorlák helga biskup Þórhallsonar í Skálholti en áður hafði þessi staður verið nefndur Elliðahöfn. Þrautalending Eyrbekkinga, Stokkseyringa og Loftstaðarmanna var fyrrum í Þorlákshöfn þegar hafnir lokuðust vegna brims. Lefolii verslun hafði þar einnig einhverja aðstöðu fyrr á tímum. Einhver útvegur hefur verið frá Þorlákshöfn í gegn um aldirnar [sbr. 1706 Skipstapi frá Elliðahöfn með 13 mönnum.] en regluleg útgerð þaðan hófst þegar Jón Árnason kaupmaður og útvegsmaður hóf búskap í Þorlákshöfn  árið 1862 og keypti  jörðina  sama ár, fyrir 500  kr.  Jón Árnason  andaðist í  nóvember 1912 og bjó  þar  stórbúi til  dauðadags, og ekkja  hans til fardaga  árið 1914;  Jón Árnason seldi Þorleifi  Guðmundssyni frá Háeyri á Eyrarbakka, jörðina árið 1910, fyrir 32 þúsund kr. Árið 1913, seldi Þorleifur "Hlutafélaginu Þorlákshöfn"  jörðina, en "bjó"  þar frá  fardögum 1914, til fardaga 1928. Þá  voru  orðnir  eigendur Þorlákshafnar, þeir Magnús Sigurðsson  bankastjóri, Halldór Þorsteinsson skipstj. o. fl. en eftir 1928, hafði  maður nefndur Guðmundur Jónsson  búið  þar, en þegar  talað er um ábúð  jarðarinnar frá 1911, er aðeins átt við grasnyt  hennar, því frá þvi ári, nutu eigendur þess arðs, er hún gaf af sér, sem fiskiver. Verstöðin fór þá smám saman að draga til sín fólk frá Eyrarbakka, Stokkseyri, Ölfusi og vestan úr Selvogi sem hafði þar viðveru í sjóbúðum um vertíðarnar.

Þegar Þorleifur Guðmundsson keypti jörðina, munu hafa róið  þaðan 14  áraskip, 10 og 12 róin, en  róðraskipin urðu flest árið 1916 eða 29 skip, en  úr því fór  þeim  smá fækkandi,  þar til ekki  var  orðinn eftir  nema 1 bátur sem gekk  þaðan til fiskveiða. Það var síðan eftir að Kaupfélag Árnesinga keypti jörðina 1937 að útgerð fór aftur vaxandi frá Þorlákshöfn en fólksfjölgun og þorpsmyndun fór þó hægt af stað. [1951 voru 14 manns með lögheimili í Þorlákshöfn] Trillubátaútgerð hófst  þar fyrst  árið 1928 og úr því var farið að gera  lendingarbætur, fyrir rikisfé, með tillagi frá Arnessýslu.

Árið 1912, voru helstu formenn í Þorlákshöfn, þeir Guðfinnur Þórarinsson, frá Eyri á Eyrarbakka, bræðurnir Páll Grímsson, og Bjarni Grímsson frá Óseyrarnesi, síðar fiskimatsmaður i Reykjavik. Fyrir höfnina var á sínum tíma hlaðinn mikill sjógarður sem  Jón Árnason lét  hlaða um 1880, stóð Ásbjörn Ásbjörnsson frá Brennu á Eyrarbakka fyrir hleðslunni. Hann var afarmenni að  burðum og  hleðslumaður ágætur.  Garðurinn var  hlaðinn á mörgum  árum, aðallega í  landlegum á vertiðum.

Vorið 1919,  sendi verkfræðingur N.P. Kirk, (f. 7.5.1882 d. 16.10.1919) fullkomna áætlun um hafnargerð í Þorlákshöfn, til  stjórnarráðs  íslands, og var þar gert ráð fyrir 2 hafnargörðum, 850 og 500 metra  löngum og 250 metra  langri bryggju með  bryggjuhaus.  Í  athugasemdum  sínum frá 1919, kemst Kirk, verkfræðingur svo að  orði: "Hversu nauðsynlegt sé að hafa stór steypubjörg garðinum til  verndar, sést vel af því, að á ferð minni  þar, mældi ég tvo  steina; var annar 9 smálestir að þyngd, en  hinn 40 smálestir, og hafði  brimið kastað  hinum fyrnefnda 25 metra og lyft honum 3 metra, en  hinum hafði það kastað 15 metra og lyft  honum 1,25 metra. Sýnir þetta best afl  sjávarins, á þessum stað". Síðar var byggð góð höfn í Þorlákshöfn og voru hugmyndir Kirks trúlega hafðar að leiðarljósi. Vorið 1933 hófst vinna við steinsteypta bryggju og  henni  haldið áfram  næstu sumur og var sú bryggja 74 m löng þegar gerð hennar lauk. Sumarið 1935, var  steyptur  brimvarnargarður,  sunnanverðu við  Norðurvör og við  hann bætt  nokkrum  metrum, 1936. Var sá garður 92 m. langur. Til að hlífa landi móti  austri fyrir sjávargangi, var fyrrum  hlaðinn öflugur  sjógarður úr stórgrýti sem áður er getið.  Hann var um  150 metrar á lengd, fláði  hann  inn lítið eitt (c. 20°) og þótti mikið  mannvirki, hlaðinn á  þeim  tímum, þegar aðeins var um að  ræða handaflið eitt. Samtímis og  byrjað var á  bryggjunni  var farið að  endurbæta  sjógarðinn,  þar sem  hann  var genginn  úr skorðum og sementslag steypt utan á, þannig, að á c. 50  metrum var hann  sléttur sem fjöl, á 3 m. hárri hleðslunni sem enn stóð óhögguð. Árið 1949 var hlutafélagið Meitillinn H/F stofnaður og óx þá hagur Þorlákshafnar jafnt og þétt.

Heimildir: Ægir 1936. /olfus.is/ Wikipedia/ http://www.ismennt.is/not/siggud/heimabaer/upphaf.htm http://eyrbekkingur.blogspot.com/2011/03/sjoslys-i-rorum-vi-eyrarbakka.html

24.04.2012 23:13

Veiðafæramerki í Eyrarbakkaverstöð 1926

ÖðlingurSýsluliturinn var rauður. Á neti: ca. hálfhringur á miðri kúlu, en á lóð: á miðjum taumi. En merki hvers báts voru samsvarandi hálfhringur  í mismunandi litum og voru þau staðsett á lóð, milli önguls og sýslumerkis, en á netum voru þau höfð á botni kúlunnar. Litirnir voru þessir:

Mb. "Sæfari", Guðfinns Þórarinssonar hafði grænt merki.

- Halkion, Vilbergs Jóhannssonar var með ljósblátt merki.

- Freyja, Jóhanns E. Bjarnasonar hafði hvítt meki.

- Framtíðin, Kristinns Vigfússonar hafði gult merki.

- Öldungur, Jóns Bjarnasonar var með svart merki.

- Öðlingur, Árna Helgasonar var með brúnt merki.

- Olga, Jóns Gíslasonar hafði grátt merki.

- Trausti, Jóhanns B. Loftssonar var með hvítt og blátt.

- Freyr, Jóns Helgasonar hafði grænt og gult merki.

Heimild: Ægir 1926- Guðmundur Ísleifsson.

18.02.2012 23:37

Undir árum

"Þuríður Einarsdóttir hét á Strandakirkju. Hún var mörg ár formaður í brimhöfnum (á Eyrarbakka, Stokkseyri og Þorlákshöfn) á stórskipum og bát, þar til hún var fult sextug; fiskaði bæði og fórst vel".
-----------------
Bjarni bóndi Jónsson í Garðbæ á Eyrarbakka gaf Strandakirkju 1813 hökul "saminn af list" "með silfurskildi" og á letrað: "haf i minni á krossi Krist".

-----------------
Þeir frændur Sigurður Ísleifsson trésmiður á Eyrarbakka og Þorleifur  á Garði Guðmundsson Ísleifssonar á Háeyri áttu saman mótorbátinn "Höfrungur" sem gerður var út frá Þorlákshöfn 1914 og var þá nýr, en veigalítll súðbyrtur með trekvartommu furuborðum. Í óveðri sem gekk yfir aðfararnótt 27. ágúst 1914 sökk vélbáturinn, en 30 ára gamall feyskinn uppskipunarbátur frá Vesturbúð sem hafði verið festur við mótorbátinn hélst á floti. Daginn eftir skaut "Höfrungi" upp úr kafinu en þá var vélin gengin úr bátnum. (Þorleifur Guðmundsson var þingmaður Árnesinga um skeið fyrir Framsóknarflokkinn.)
--------------------------

Engjavegurinn varð bílfær 1928 fyrir tilstilli Bjarna Eggertsssonar.

--------------------------
Flugvélaplágan 1944 "Við höfum átt því að venjast um alllangt skeið, að ungir flugvélaglannar leiki sér hérna yfir þorpinu í silfurfuglum sínum og eru þeir svo nærgöngulir að þeir strjúkast við húsaþökin eða yfir höfðum okkar, þar sem við erum að vinna í görðum og á túnum., Hér er bersýnilega um algeran leik að ræða hjá hinum ungu flugmönnum en enga nauðsyn og skiljum við ekki í öðru en að herstjórnin myndi banna þetta ef hún vissi um þetta gráa gaman flugmannanna." < "Við hérna þökkum þér fyrir bréfið um daginn um flugvélapláguna. En því miður hefur þetta ekki borið árangur. Flugvélarnar hendast hérna fram og aftur yfir reykháfunum og stríða okkur og egna ,til reiði eftir öllum kúnstarinnar reglum. Það virðíst sannarlega svo að það þurfi önnur og bitmeiri vopn en penna til að kenna þessum herrum."

---------------
Eyrbekkingurinn, Tómas Vigfússon, formaður fyrir verslunarstjóra P. Nielsen, dró þorsk á vertíðinni 1907, sem vóg 72 pund óslægður (144 kg.). Hausinn var 12 '/2 pnd., hrognin 9 pd., lifrin 5,'/2 pd. og fiskurinnflattur og dálklaus 37 pd
----------------
Lomber, "9 matadora" í laufi, keypti fyrv. verslunarstjóri P. Nielsen eitt kvöld (7.des.1923). Var það í sjötta sinn síðan í ársbyrjun 1912, að slíkt fyrirbrigði kom fyrir við hans spilaborð, og í annað sinn, sem hann fékk þá sjálfur. Á undangengnum 12 árum mun hann hafa spilað nálægt 160000 spil.
----------------



 

24.11.2011 22:47

Viðurnefni fyrr og nú

Það hefur löngum tíðkast hér við ströndina sem og víðar að gefa mönnum viðurnefni og eða gælunöfn og jafnvel stundum uppnefni. Sumir eru kenndir við húsin, starfið, mæður, maka eða önnur einkenni. Þannig voru menn þekktir sem t.d. Siggi-skó, Jón-kaldi, Jón-halti, Gunnsi í Gistihúsinu, Sæmi á Sandi, Kalli á Borg, Bjadda á Sæfelli, Tóta Kristins, Inga Lalla, Reinsi Bö, o.s.fr.v. Til forna þótti mikil upphefð í viðurnefnum eins og alkunna er, t.d. Skalla-Grímur, Eiríkur-rauði o.s.frv. En allt frá þjóðveldisöld hafa nafngiftir af þessum toga verið bannaðar samkvæmt Íslenskum lögum. Um það mál segir svo í Grágás: "Ef maður gefur manni nafn annað en hann eigi áður, og varðar það fjörbaugsgarð,(3 ára útlegð) ef hinn vill reiðast við.

Á héraðsþingi sem haldið var á Stokkseyri 19. júní  1704 kom upp slíkt mál. Þannig hafði sr. Halldór Torfason verið kallaður Brúsi, en kona hans Þuríður Sæmundsdóttir, kölluð Lúpa; lögréttumaðurinn Jón Gíslason nefndur Harðhaus; lögréttumaðurinn Brynjólfur Hannesson kallaður Stúfur; Kvinna Jóns Guðmundssonar í Hólum, Guðný Sigurðardóttir, Langatrjóna; Þorlákur Bergsson á Hrauni Snarkjaftur; Helga Benediktsdóttir á Hrauni Ígrá; Jón Guðmundsson á Skipum Rosi; hans kvinna, Ingiríður Magnúsdóttir, Svingla; hans sonur, Hafliði, Stóri-Blesi; hans sonur annar, Páll, Minnavíti; Sigurður Bergsson á Hrauni Merarson; kona lögréttumannsins Þorsteins Eyjólfssonar, Svanhildur Sigurðardóttir, Lóðabytta; kvinna Þorláks Bergssonar á Hrauni, Guðný Þórðardóttir, Langvía; kvinna Sigurðar Jónssonar í Einarshöfn, Ingunn Brynjólfsdóttir,Ígrá.

Þeir sem voru kallaðir fyrir þingið vegna þessara uppnefna voru: Gísli Pálsson umferðardrengur í  Stokkseyrarhreppi  19 ára, Ófeigur Jónsson í Skúmsstaðahverfi, Kári Jónsson í Einarshöfn, Brandur Sveinsson í Skúmsstaðahverfi, (Jón Eyjólfsson í Stokkseyrarhverfi, var fjarverandi) og Ormur Þórðarson í Traðarholti, en þeir neituðu að hafa fundið upp þessi viðurnefni. En fyrrnefndur Gísli Pálsson sagðist hafa heyrt úti á Eyrarbakka í nálægð kaupmannanna beggja, Páls Christianssonar Birck og Rasmusar Hanssonar Munch, ásamt velbyrðugs herra amtmannsins fullmegtugs, Seigr Pauls Beyer, framsagt hafa eftir þeirra spurn og eftirleitni, að yfirkaupmaðurinn Páll Christiansson hefði verið kallaður Ólöfarstreðill, en undirkaupmaðurinn Rasmus Munch Halldórustreðill. Frambar þá Gísli opinberlega, að haustið áður, 1703, þá Eyrarbakkaskip hafi verið afsiglt, hafi Kári Jónsson, Ófeigur Jónsson, Brandur Sveinsson og hann sjálfur verið allir til samans við stofugluggann á Skúmsstöðum, og sagðist  hann þá heyrt hafa, að þeir hafi þar um hönd haft nafnagiftur nokkrar af þeim, sem hér eru nefndar.

Einginn hlaut dóm svo vitað sé en tilkallaðir látnir sverja eiðstaf fyrir utan Gísla Pálsson sem þótti ekki eiðtækur sökum óknittasögu.
Heimild: Blanda 1944/Guðni Jónsson

21.11.2011 23:25

Sundtrén

Sundtrén eða sundvörðurnar á Eyrarbakka eru gömul leiðarmerki  fyrir sjófarendur inn sundin, sem einkum eru tvö. Einarshafnarsund og Bússusund. Á Einarshafnarsundi voru miðin þannig 1917:

1. Sundtré (mið þessi eru næstum mitt á milli Eyrarbakka og Óseyrarness).
2. Eystri varðan (vörðurnar standa nær sjónum en tréð).

Þvermið:

3. Barnaskólahúsið (austasta húsið í þorpinu).
4. Þríhyrningur (fjall sem flestir þekkja í Rangárvallasýslu).
5. Kirkjuturninn.
6. Einarshafnar-verslunarhús.

Þegar að sundinu er komið að utan má ekki fara grynra, ef brim er, en að merkin 3 og 4 beri saman og sömuleiðis 1 og 2 og eiga þau að bera austan til við Ingólfsfjall, þeim merkjum á að halda ef inn er farið, þangað til merkið 5 gengur inn í síðasta hornið á Einarshafnar- verslunarhúsum, og er þá komið inn úr sundinu, þá er haldið austur lónið og er stefnan sem næst á mitt þorpið, en ef lágsjávað er, segja skerin til. Dýpið i sundinu um stórstraumsfjöru er 1,7 metir þar sem grynst er.

Á Bússusundi voru miðin þannig 1917:
1. Sundtré (sama sundtré og á Einarshafnarsundi).
2. Vestri varðan.

Þvermerki:

3. Skálafell.
4. Tanginn vestan við Ölfusá.
5. Tré með þrihyrnu og veit eitt hornið upp skamt fyrir austan Einarshafnar verslunarhús.
6. Tré með þríhyrnu og veit einn flöturinn upp. Það tré er skamt austar en 5 og er nokkuð hærra.

Þegar að sundinu er komið að utan, má ekki fara grynra, ef brim er, en merkin 3 og 4 beri saman og sömaleiðis merkin 1 og 2, og þeim merkjum er haldið ef inn er farið þangað til merkin 5 og 6 bera saman og þeim merkjum, nefnilega 5 og 6, á að halda austur fyrir Einarshafnarsundmerki (þómá vera heldur innan við merkin), úr því er haldin sama leið og af Einarshafnarsundi. Dýpið í Bússu um stórstraumsfjöru er 2,8 metir þar sem grynst er.

1923 voru sett ljósker (50W perur) á sundtrén rauð  á Bússu -vörður og græn á Innri -hafnartrén, en engin ljós voru höfð á Einarshafnarsundtrjám þar sem sjaldan var farið um það á mótorbátum

02.10.2011 20:54

Tvær teikningar

Teikning: Halldór Pétursson
Halldór Pétursson teiknari gerði þessa teikningu eftir gamalli mynd, en hér má sjá verslun Guðlaugs Pálssonar og aðrar byggingar í grend. Atvik myndarinnar gerist á óljósum tíma, en Guðlaugur hóf verslun 1917. Á myndinni eru raflínur, frekar en símalínur s.br.lampinn ofan við dyrnar, en raflínurnar komu um 1920.
Teikning eftir Sigurð Jónsson (Sigga flug)
Þessi teikning er af Húsinu á Eyrarbakka, en hana gerði Sigurður Jónsson flugmaður. (Siggi flug var fæddur á Eyrarbakka) Takið eftir ljósastaunum til vinstri við Assisdenthúsið.

10.07.2011 23:07

Sandkorn úr sögu þorpsins

Gata á Eyrarbakka      Elsti hreppsjóðurinn á  Eyrum var Þorleifsgjafasjóður. Gjöf Þorleifs ríka til Stokkseyrarhrepps 16. 2. 1861.

      Fjallkóngur á Eyrarbakka 1929-1938 var Jakop Jónsson í Einarshöfn.

      Grímur í Nesi lét setja skipafestar í lónið "Blöndu" á Stokkseyri.

      Árið 1765 var fiskur í fyrsta sinn saltaður til útflutnings á Eyrarbakka.

      Árið 1898 komu lóð í stað handfæra.

      Niels Lambertsen verslunarstjóri á Eyrarbakka gerði tilraunir með þorskanet um aldamótin 1800.

      Laxanet voru lögð í Öfusá í fyrsta sinn 1807.

      Páll Grímsson á Óseyrarnesi og Gisli Gíslason silfursmiður í Þorlákshöfn gerðu tilraunir með hnísunet á vertíðinni 1903.

Áraskip      Ábyrgðasjóður opinna áraskipa var stofnaður á Eyrarbakka 1884.

      Sjómannaskóli  Árnessýslu var stofnaður  1890. (tók til starfa 1893)

      Sjómannasjóður Árnessýslu var stofnaður 1888.

      Fiskimjölsverksmiðja var stofnsett 1952 og hóf störf ári síðar. Hún var í eigu hraðfrystihúsa  á Eyrarbakka og Stokkseyri.

      Plastiðjan HF hóf starfsemi 1957.

      Flest komu skip til Eyrarbakka 1927 og voru 18 talsins. Síðustu skipakomur voru árið 1939.

      Af skipi er sökk við Eyjar 1350 rak kistu á Eyrarbakka. Í henni var skrúður biskups og brent silfur.

      Vertíðir á Eyrarbakka byrjuðu á kindilmessu, 2. febrúar og enduðu á Hallvarðsmessu, 15. mai.

      Árið 1743 rak 2.160 fiska á fjörur Eyrbekkinga.

      Eyrbekkingar áttu skógarhögg á Gnúpverjaafrétti.

      Gamli Hraunsárskurður var grafinn 1909.

      Árið 1918 áttu Eyrbekkingar 93 kýr, 1.151 sauðkind og 283 hross.

      Selveiðar í Ölfusá voru fyrst stundaðar á 13. öld.

      Sveinn Sveinsson í Haustshúsum var fyrstur til að nýta þara til áburðar. Það var árið 1901.

      Árið 1718 voru tveir kálgarðar á Eyrarbakka.

Nýjasta barnaskólahúsið á Eyrarbakka er aldargamalt og enn í notkun.*      Þinghús Eyrbekkinga (Árnesþings) var reist norðvestan Háeyrar 1852 og var jafnframt fyrsta skólahúsið  og rúmaði 30 börn. Húsið var nýtt undir kennslu á vetrum  til 1874. Þá flutti skólinn í "Kræsishúsið" á Skúmstöðum (Byggt af Hinrik O. J. Kreiser verslunarþjóni, en hann fór til Vesturheims  1871). Árið 1880 var það rifið vegna fúa og nýtt og stærra hús byggt í staðinn og var það notað til 1913. (Húsið stendur næst austan við Gamla Bakaríið.)

      Fyrsti heimiliskennarinn á Eyrarbakka var Árni Þórarinsson og kenndi hann kaupmannsbörnum 1767-1769.

      Tóvinna er elsta iðngrein sem stunduð var á Bakkanum.

      Mestu kreppu og hallærisár voru á Bakkanum 1868, 1870 og 1873.

      Milli Ölfusár og þjórsár er 6 tíma gangur en klukkustund milli Eyrarbakka og Stokkseyrar.

      Búðir norskar kaupmanna stóðu í landi Einarshafnar frá árinu 1316. Um aldamótin 1500 var byggt þar stórt geymsluhús og baðstofa úr timbri. Stóð það á hnéháum stöplum.

      Barkskipið "Eos" frá Hafnafirði strandaði á Eyrarbakka í janúar 1920. Enskur togari bjargaði áhöfninni.

      Mikinn hafís rak að landi 12. febrúar 1881 og skóf allt þang af skerjunum. Gerði þá góðar sölvatekjur um sumarið.

Gamla Bakaríið      Fyrsti bakarinn á Eyrarbakka var N.C. Bach.

      Sá sem var fyrstur til að sjá Bakkaskip koma út við sjóndeildarhring nefndist "sjónvætti" og átti hann vísa 1 spesíu í verðlaun frá hafnsögumanni.

      Cristiansen skipstjóri á Bakkaskipinu  Anne Loiese fann upp "sveifluakkerið" en það kom í veg fyrir að skip slitnuðu upp.

      Lóðsflaggið var hvítt með rauðri fimm arma stjörnu í miðju og dregið upp við komu skips. Þá var "dannebro" dreginn upp þegar skip hafði lagt við festar.

      Bær einn á Eyrarbakka sneri framhlið til vesturs og þótti þar kalsamt í útrænunni. Nefndist bærinn "Nepja" en bærinn fékk síðar veglegra nafn og nefndur "Seffir" eftir Bakkaskipinu "Zephyr" er þýðir "vestan blær".

      Ásgrímur gamli Eyjólfsson sat daglangt við kornrennuna í Vesturbúð og smíðaði hrífur og ljái í hjáverkum.

      Daglaunamenn í Vesturbúð er unnu úti fengu í kaupbæti eina skonroksköku og kvartpela af brennivíni.

      Á Bakkanum nefndust ávísanir "Bevís".

Vinsælt að taka myndir í garðinum  við Húsið      Oline hét kona Andreas Lefolii  (sonur I.R.B. Lefolii) og tók hún ljósmyndir á Bakkanum. Í fylgd með þeim var Möller gamla en hún tók nokkur steypumót af íslenskum hestum.

      I.R.B. Lefolii gaf stundaklukkuna sem var á vesturhlið Kirkjunnar þar til í fyrra, er hún var tekin niður.

      Vegurinn Bárðarbrú var gerð um 1880 en Nesbrú um 1890.

      Brú var byggð yfir Hraunsá 1876.

      Bygging sjógarðsins kemur fyrst til umræðu 1785 og nokkrum árum síðar er hlaðinn skans við búðirnar en hann hvarf í flóðinu 1799.

      Markaskurðurinn var grafinn 1885-1887.

      Hraunsskurðurinn var grafinn um 1908 (4,5km)

      Kjálkaskurðurinn var grafinn 1922-1928.

      Holræsið mikla var grafið 1929.

      Litlahraunsholræsið var grafið 1933.

Himildir: Samtíningur ó.t.g.

06.07.2011 23:32

Hreppstjórarnir sögðu allir af sér.

Verslunarhúsin á EyrarbakkaSvo bar við á manntalsþinginu 1768 að allir fimm hreppstjórar hreppsins (Eyrarbakka og Stokkseyrar er þá hét Stokkseyrarhreppur) sögðu af sér embætti. Liðinn vetur  hafði verið mörgum erfiður og fátækt var landlæg í hreppnum. Um helmingur íbúa lifði naumlega á styrkjum og gjöfum en hinn helmingurinn skrimti upp á krít hjá versluninni þennan hallæris vetur. Hreppstjórarnir höfðu þá farið fram á það við Jens Lassen kaupmann á Eyrarbakka (Fyrsti vetursetukaupmaðurinn) að verslunin lánaði fátækum matvörur fram til vors. Sýslumaður í Árnessýslu var þá Brynjólfur Sigurðsson og góður kunningi Lassens. Brást hann illa við og ávítaði ítrekað hreppstjórnina fyrir heimtufrekju og sakaði þá um óhlýðni við yfirvöld og kóng. Meðal þeirra hreppstjóra sem sögðu af sér embætti voru þeir Jón Ketilsson í Nesi (hrstj. 1761-1768), en hann var endurkjörinn 1773. Jón Jónsson á Háeyri (hrstj. 1761-1768), Þóður Gunnarsson á Hrauni (hrstj. 1763-1768). Bjarni Magnússon hafnsögumaður frá Litlu-Háeyri var hreppstjóri þetta ár.

Fram til 21. júlí 1808 voru jafnan fimm hreppstjórar í hreppnum og voru þeir kosnir af bændum, en nú var þeim fækkað í tvo með konungsúrskurði og sjálfstæði hreppsins afnumið. Hreppurinn lagður undir umboðsstjórn konungs og kosningar afnumdar. Hreppstjórarnir voru þá skipaðir af Amtmanni eftir tillögu sýslumanns. Fyrstu hreppstjórarnir í Stokkseyrarhreppi hinum forna til að sverja þannig konungi hollustu voru þeir Jón Einarsson á Baugsstöðum og Jón Þórðarsson í Móhúsum.

Heimild m.a. Saga Stokkseyrar.

11.06.2011 00:28

Eyravegur eða Eyrarvegur?

Eyrar eða eyra- vegur?Eitthvað hafa menn verið að velta vöngum yfir því á Selfossi hvort sé réttara að tala um Eyrar-veg eða Eyra-veg.

Elstu heimildir um Eyrarveg  eru  líklega frá 1937 en þar minnist Tíminn (27.tbl.1937) á lagningu Eyrarvegar í umfjöllun um sunnlenska vegi.  Um og eftir 1956 er jafnan talað um Eyraveg á Selfossi í dagblöðum. Í aðalskipulagi Árborgar 2005 heitir vegurinn Eyra-vegur en í auglýsingu þar um er einnig talað um Eyrar-veg. "Deiliskipulag lóðanna Eyrarvegur 11-13 á Selfossi.
Í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997, með síðari breytingum hefur bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar samþykkt þann 20. október 2005 tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðanna 11-13 við Eyrarveg á Selfossi
"

Í símaskránni búa Selfyssingar við Eyraveg en mörg fyrirtæki kenna sig við Eyrarveg á heimasíðum sínum.  Á gúggul eru 106.000 atriði þar sem vegurinn er kenndur  "Eyrarvegur Selfossi" en 32.500 atriði með "Eyravegur Selfossi".

Upphaflega var vegurinn nefndur "Fluttningabrautin að Ölfusárbrú" þegar hann var lagður um 1900. Síðar var farið að tala um Eyrarbakkaveg enda liggur vegurinn niður á Eyrar-bakka. Þegar Selfossbyggð færðist vestur fyrir brú töluðu Selfyssingar jafnan um "Eyraveg" en í orðanna hljóðan var Selfyssingum einnig tamt að tala um "Austuveg" í stað Austurveg og Eyra-bakka í stað Eyrar-bakka, þeir fóru ekki í Kaup-félagið heldur kau-félagið og bíllinn fór á ver-stæði en ekki á verk-stæði.

Nafnið Eyrar-vegur þekkist víða svo sem á Akureyri, en líkast til er aðeins einn vegur á landinu nefndur Eyra-vegur.

01.06.2011 20:05

Aðdragandi upphafs byggðar á Eyrarbakka

Frá NoregiÞeir fóstbræður Ingólfur Arnarson og Leifur Hróðmarsson (Hjör-Leifur), þá ungir menn í Noregi,  fóru í hernað með sonum Atla jarls hins mjóva af Gaulum. Synir hans hétu Hásteinn, Hersteinn og Hólmsteinn og voru þeir vígdjarfir og fór þeim ætíð vel í hernaði.  Er þeir félagar komu heim eftir velheppnaða herför um norskar sveitir ákváðu þeir að herja á ný næsta sumar. Um veturinn gerðu fóstbræður veislu handa þeim jarlsonum. Þar strengdi Hólmsteinn heit um að hann skyldi eiga Helgu systir Ingólfs, eða enga konu ella. Menn létu sér fátt um finnast, nema Leifi sem roðnaði við, enda bar hann sjálfur hug til Helgu. Þegar þeir skildu að borðum um síðir var fátt um kveðjur milli Leifs og Hólmsteins.

Næsta vor bjuggust þeir fóstbræður Ingólfur og Leifur til hernaðarins og héldu til móts við þá jarlsyni  Herstein og Hólmstein sem fyrr var ákveðið og hittust þeir við Hísargafl. Sló þá þegar í brýnu milli Leifs og Hólmsteins og liðsmanna þeirra. Er barist höfðu um hríð kom Ölmóður gamli Hörða-Kárason er var frændi Leifs og hélt hann þeim Ingólfi liðveislu. Féll þá Hólmsteinn, en Hersteinn flúði við svo búið. Fóstbræður héldu þá í hernaðinn sem fyrr var ætlað.

Um veturinn fór Hersteinn, að þeim fóstbræðrum ásamt mönnum sínum og hugðust drepa þá. Leifi hafði borist njósn af ferð þeirra og gerði hann honum fyrirsát. Varð þá háð orrusta mikil og féll þar Hersteinn. Eftir það dreif að þeim fóstbræðrum vinir þeirra úr Firðafylki. Voru menn þá sendir á fund Atla jarls og Hásteins til að bjóða sættir. Náðust sættir um að þeir fóstbræður gjaldi eignir sínar til þeirra feðga. Varð það til þess að að þeir Ingólfur og Leifur hugðust flytja búferlum til eyjar  í norðurhöfum er þeir höfðu fregnað af og nefndist "Ísland".

Liðu nú tímar þá er Haraldur gullskeggur konungur í Sogni og mágur Atla jarls hins mjóva gaf barnabarni sínu Haraldi unga nafn sitt og ríki. Haraldur ungi var sonur Þóru dóttur gullskeggs og Hálfdáns svarta konungs í Upplöndum. Þá er Haraldur ungi er andaður bar ríkið undir Hálfdán svarta, en hann setti þá Atla jarl hinn mjóva yfir það. Þá er Þóra lést fékk Hálfdán Ragnhildi dóttur Sigurðar-hjartar fyrir konu og var sonur þeirra Haraldur hárfagri.

Enn líða tímar þar til Haraldur hárfagri mægist við Hákon jarl Grjótgarðsson og leggur undir sig Noreg. Fékk þá Hákon valdstjórn yfir Siganfylki í trássi við Atla jarl hins mjóva. Drógu þá báðir jarlarnir til liðssöfnunar og þreyttu kappi um völdin. Á Stafanesvogi á Fjöllum mættust herir þeirra í mikinn bardaga. Féll þar Hákon jarl en Atli jarl hinn mjóvi særðist til ólífis. Hásteinn hélt þá ríkinu um sinn, en þar kom að Haraldur dró mikið lið móti honum.  Hásteinn hörfaði undan herjum Haraldar og lét búa skip sitt skjótt til utanfarar. Var það ráð Hásteins að sigla til Íslands og tók hann land er hann nefndi Stokkseyri , en landnám hans náði milli Ölfusár og Rauðár. Hásteinn átti þá að konu Þóru Ölvisdóttur og tvö börn, Ölvir og Atla. Hallsteinn var mágur Hásteins og lét hann brátt búa skip sitt fólki og fénaði til Íslands. Hásteinn gaf honum þá af landnámi sínu frá Hraunsá að Ölfusá, nefnt Eyrarbakki. Kona Hallsteins var Sóveig hin fagra og bjuggu þau í Framnesi.  [Sonur þeirra var Þorsteinn, faðir Arngríms, er veginn var að fauskagrefti, hans son Þorbjörn á Framnesi. ].Framnesbæinn þurfti að flytja ítrekað undan sjávargangi, en síðasta bæjarstæði Framnesinga  nefnist Gamla-Hraun.


Heimild: Saga Stokkseyrar.

25.05.2011 22:19

Bifreiðastjórar og bílavegir

Það þóttu stótíðindi þegar árekstur varð við Litla-Hraun á 6. áratugnum.Fyrstu vegir frá  Eyrarbakka voru gerðir fyrir hestvagna svo hægarar yrði um heyflutninga ofan að engjum. "Álfstétt" heitir vegspotti á Eyrarbakka og  sagður einn elsti vegur í Árnessýslu. "Bárðarbrú" sem þó er ekki "brú" í nútíma merkingu, heldur upphaflega púkkaður mjór vegur yfir móa og mýrlendi er lá áður milli kirkju og Húsins upp á engjalöndin vestur undan Sólvang, en þennan veg  gerði Bárður Nikulásson um 1880 og á svipuðum tíma var "Nesbrú" byggð, en það var hlaðin göngubrú á leiðinni frá Óseyrarnesi upp mýrarnar, er lá alla leið upp í Kaldaðarneshverfi. Hluti Háeyrarvegar var lagður á svipuðum tíma, en fyrir því stóð Guðmundur Ísleifsson á Háeyri.  Lagning Eyrarbakkavegar frá Ölfusárbrú hófst 1898 undir stjórn Erlends Zakaríassonar, en þá voru hestvagnar að verða helsta flutningatækið. Sumarið 1913 komu fyrstu bílarnir akandi þennan veg frá Reykjavík, en það voru Ford-blæjubílar og lítt áræðanlegir til brúks. Fyrstu bifreiðastjórar á Eyrarbakka sem héldu uppi samgöngum til Reykjavíkur voru 1918: Einar Jónsson í Túni,  Magnús Oddson í Regin og Steingrímur Gunnarsson á strönd. Áttu þeir saman einn bíl frá landssjóði og óku til skiptis með póst og farþega.  Árið 1923 var Bifreiðastöð Eyrarbakka stofnuð, en að henni stóðu Ólafur Helgason kaupmaður, Sigurður Óli Ólafsson, Einar Einarsson á Grund (Stokkseyri), Steingrímur Gunnarsson, Jón Magnússon kaupmaður (Stk) og Kristinn Grímsson á Strönd. Bifreiðastöð Eyrarbakka var lögð niður 1925 þegar bifreiðastöð Steindórs fékk sérleyfi milli Eyrarbakka og Reykjavíkur.  Á árunum 1930-1940 voru Eyrbekkingarnir Baldur og Guðmundur Sigurðssynir bífreiðastjórar hjá Steindóri  (Steindór Einarsson).

12.05.2011 23:16

Pósthirðingin

Pat to Gimli: Póstferðin frá Eyrarbakka til Gimli í Canada.Pósthirðing var á Eyrarbakka um 1880, en hún heyrði undir póststofuna í Hraungerði í Flóa. Póstafgreiðsla var síðan sett á Eyrartbakka 1912. Hún var staðsett í Kirkjuhúsi 1925, en þá var póstmeistari  Sigurður Guðmundsson bóksali. Sparisjóður Árnessýslu var til húsa á sama stað. Þann 1. maí 1942 var póstur og sími sameinaður á Eyrarbakka og stuttu síðar á Stokkseyri.  Símstöð var  frá 1909 og var Oddur Oddson gullsmiður fyrsti símstöðvastjórinn.  Á tímum landpóstsins komu þeir að sjálfsögðu við á Bakkanum og blésu í lúður sinn þegar þeir nálguðust Vesturbúð. Flestir voru þeir viðfrægir og sumir sérstakir. Einn Eyrbekkingur var landpóstur en hann hét Klemenz og var sonur Þorsteins bónda á Stóra-Hrauni Péturssonar, en móðir hans var Ingunn Klemenzdóttir skipasmiðs í Einarshöfn.  Klemmi-póstur varð úti 1791 í Jórugili í Grafningi.  Fljótlega eftir að Póstur og Sími var seldur frá ríkinu um síðustu aldamót var símstöðin í Mörk lögð niður, en póstafgreiðsla var til skams tíma í versluninni Ásinum sem nú heitir Vesturbúð. Þótt hinn hefðbundni póstur berist enn fljótt og vel inn um bréfalúgurnar, þá ferðast hinn sannkallaði hraðpóstur með ljóshraða um nælonlínur. Hver skildi nú hafa trúað því á tímum landpóstanna?

07.05.2011 12:05

Öldin teit

Húsið
Undir lok 18. aldar, þá er fyrrum stýrimaður, Niels Lambertsen var orðinn kaupmaður á Eyrarbakka voru hjá honum tveir búðarsveinar, þeir Sveinn Sívertsen og Sigurður stútent Sívertsen (Magnússon).  Christine var kona Lambertsens, er jafnan var kölluð "Stína" af heimamönnum. Sonur þeirra var Lambertsen yngri, er síðar var með verslunina. Skip hans "Charlotte Sopie" kom hvert sumar og venjulega fór Lambertsen  með skipinu aftur til Kaupmannahafnar að hausti. Skildi hann konu sína þá eftir á Bakkanum til að gæta eigna sinna.

Eitt sumarið kom Lambertsen ekki með skipinu og var sagður liggja fyrir dauða sínum í Kaupmannahöfn. Stína hafði átt vingott með Sveini þá er Lambertsen var utan og sagðist nú  vilja lofast honum ef svo færi að hún yrði ekkja. Brátt varð Stína ólétt og var ráð þeirra að leyna þessu og fá barninu sýndarforeldra. Sigurður stútent var með í ráðabruggi þessu og leituðu þau til Einars snikkara Hannessonar á Skúmstöðum, sem hafnaði þeirra málaleitan. Þvínæst var leitað til Snorra bónda Gizurarsonar á Hólum í Flóa og konu hans Katrínar Eiríksdóttur og tókust með þeim samningar.

Þegar  barnið var fætt fóru þau Stína og Sigurður ríðandi að Hólum og skildu barnið þar eftir hjá þeim hjónum. Elín i Gaulverjabæ var þá ljósmóðir í sveitinni og var hún kölluð til. Hafði hún barnið heim með sér samkvæmt venju hennar, en áður en barnið komst aftur að Hólum hafði málið komist upp. Dag nokkurn hafði Eiríkur snikkari komið í búðina til Sigurðar Sívertsen og orðið missáttur  um viðskipti sín við hann. Búðin var þá full af fólki er Eiríkur lét málið uppiskátt í bráðræði sínu.

Þegar svo var komið varð að ráði að Sigurður stútent  gengist við barninu, en það var drengur nefndur Páll. Drengurinn fékk strax viðurnefnið "Kúts-Páll". Það hafði æxslast þannig að ráð Sigurðar til að koma barninu óséðu að Hólum var að setja það í vatnskút og reið hann með það á söðli íklæddur kvennmansklæðum en Stína reið á eftir. Er þau fóru framhjá Brattholti mættu þau bónda þar Hákoni Þorgrímssyni og heyrðist honum barnsgrátur koma úr kútnum, en til að verða ekki að aðhlátursefni um allar sveitir, sagði hann ekkert um ferðamenn þessa og barnsgrátinn úr vatnskútnum fyrr en málin höfðu komist í hámæli.

Varð þessi saga mörgum að yrkisefni og er til a.m.k.  ein vísa svohljóðandi:

Öldin teit það frétti fróð,

fyrr það vissi enginn,

að bóndakona og faktors fljóð,

fætt hafa sama drenginn.

 

Kúts-Páll settist að í Gullbringusýslu og átti marga afkomendur.

Heimild: Saga Þuríðar formanns.

05.05.2011 18:29

Aftökustaðir til forna

Stokkseyri um aldamótin 1900Gimli, fyrrum samkomuhús og síðan bókasafn  á Stokkseyri var á sínum tíma (1921) byggt á sögufrægum stað. Þar var lægð nokkur er nefndist "Þingdalur". Þar voru haldin þing Stokkseyrarhrepps hins forna undir berum himni fram á 18. Öld. Síðar var byggt þar þinghús og þar var dæmt í málum manna og skorið úr deiluefnum, en þá tilheyrðu bæði þorpin, Eyrarbakki og Stokkseyri sama hreppnum.  Aftökustaðir voru fyrir framan svonefnda "Gálgakletta" og er annar fram að Eystri-Rauðárhól í Stokkseyrarfjöru. Einhverju sinni hafði stráklingur verið að leika hengingu af óvitaskap sínum og snaran herpst að hálsi hans og var hann dauður er að var komið.

Annar samnefndur klettur er í Hraunsfjöru, skamt vestan Gamla-Hrauns.  Sagt er að þar hafi tveir afbrotamenn verið hengdir fyrr á öldum og síðan  grafnir uppi á sjávarbakkanum. Ekki fara aðrar sögur af aftökum í hreppnum. Eini þekkti dauðadómurinn sem kveðinn hefur verið upp í þinghúsi hreppsins var yfir "Barna-Arndísi" 1771 en Lögþingsrétturinn breytti honum í fjögra ára hegningavinnu í Kaupmannahöfn.  Við "Gálgaklett" er einnig lítil vatnsuppspretta sem til forna var nýtt til vatnsöflunar.

Þingstaðurinn var lagður niður árið 1812 og flutt að sameinuðu þingi Flóamanna í Hróarsholti. Stokkseyrarþing var svo sett  á Eyrarbakka árið 1850, og hélst til 1898 er hreppnum var skipt,  en ekki er mér kunnugt um stað.

Heimild: Saga Stokkseyrar.

03.04.2011 00:29

Skankaveldi

Svo var fyrirtæki nefnt er stýrði Jón Geirmundsson í Norðurkoti á Eyrarbakka. Jón keypti aflóga húðjálka til slátrunar fyrir lítið sem ekkert og seldi síðan af þeim kjötið, en reyktar hrossalappirnar seldi hann fátækum fyrir slikk. Kölluðu gárungarnir því fyrirtæki þetta "Skankaveldi", en af þessu efnaðist hann nokkuð. Jón hafði reikning í Eyrarbakkaverslun er hann tók út á ýmsan búðarvarning og seldi svo dýrar á vetrum þegar vöruskortur gerði vart við sig eins og aðrir smáhönlarar þess tíma. Sumt af því sem var til sölu í "Skankaveldi" var talið illa fengið, en Jón var kenndur við þjófafélag nokkurt er í voru Snorri Geirmundsson lausamaður og Páll Hafliðason tómthúsmaður á Skúmstöðum, en þeir voru grunaðir um að sækja sér varning í verslunina að næturlagi.

Fyrri kona Jóns hét Halla dóttir Jóns-lána. Hún þótti forkunnar fríð og efnileg. Gerði hún sér gjarnan dælt við Sigurð stúdent Sívertsen er þá var við Eyrarbakkaverslun, en þó í mesta sakleysi. Jón var hinsvegar afbrigðissamur mjög og er hann gallt líku líkt með Gróu Jónsdóttur vinnukonu á Skúmstöðum leiddi það til óléttu. Það var til þess að Halla gekk frá honum og fór til Sigurðar stúdents sem hún giftist síðar. Jóni varð svo um þennan eftirmála að hann lokaði sig inni, bar grjót fyrir hurð og kveikti í kotinu. Menn sáu reykinn stíga upp, en komust eigi inn fyrr en Eiríkur Sverrisson kom á staðinn. Hann var tveggja manna maki að afli og hljóp hann á hurðina sem brotnaði í spón. Tókst þá að bjarga Jóni er nær var andaður og lá hann lengi á eftir. Um þennan atburð var ort vísa:


Heiftin geisar hart um torg,

herðir kölski ganginn.

Skankaveldis brunnin borg,

buðlung hennar fanginn.


Jón fór næst að Stóra-Hrauni árið 1823 og bjó þar í eitt ár, en fór síðan að Stéttum í Hraunshverfi. Hann kvæntist þar Kristínu Hannesdóttur frá Litla-Hrauni. Þá gekk hann í flokk Kambránsmanna sem frægt var og dæmdur til æfilangrar refsivistar eftir þann atburð, en brotamennirnir fengu sakaruppgjöf 1844 að Sigurði Gottsveinssyni undanskildum, en hann var líflátinn fyrir að drepa fangavörð. Jón var ættaður frá Götu á Stokkseyri.
Heimild: Saga Þuríðar formanns.

Flettingar í dag: 5193
Gestir í dag: 277
Flettingar í gær: 6952
Gestir í gær: 162
Samtals flettingar: 448695
Samtals gestir: 46252
Tölur uppfærðar: 23.5.2025 22:00:32