Flokkur: Sjóslys

02.05.2021 23:19

Skipskaðar við ströndina á skútuöld


Þekktir skipskaðar á Eyrarbakka og nágrenni 1879 - 1902

1879 þann 3. maí slitnaði seglskipið Elba frá Fredericia í Danmörku 108,48 tn upp í höfninni á Eyrarbakka þegar skipsfestar slitnuðu vegna veðurs, hafróts og strauma frá Ölfusá. Skipshöfnin fór sjálf í land á fjöru. Veður var á suðvestan.

1882 þann 16. apríl kl.7 árd. Strandaði seglfiskiskipið Dunker-que frá Dunkerque í Frakklandi 133,33 tn á skerjunum fyrir framan Eyrarbakka vegna aðgæsluleysis. Skipshöfninni var bjargað á bátum úr landi. Veður var á norðaustan.

1883 þann 18. júlí strandaði seglskipið Sylphiden frá Reykjavík við innsiglinguna á Eyrarbakka vegna óvenju mikils straums sem bar skipið af leið og hafnaði á skeri. Skipshöfnin bjargaðist á skipsbátnum. Veður var með  suðvestanátt.

1883 þann 12. september sleit seglskipið Active frá Stavanger í  Noregi 118, 68 tn skipsfestar í höfninni á Eyrarbakka í suðaustan roki og brimi og rak á land og brotnaði á klöppunum. Skipshöfnin var í landi. Veður gekk á með stormi og hafróti, skipið var þó rígbundið. Þessi skipalega var heldur austar en hinar og var lögð niður í kjölfarið.

1883 þann  12. september kl. 4 árd. rak seglskipið Anna Louise 109, 93 tn frá Fanö fyrir akkerum upp í þorlákshöfn. Skipið kom til Eyrarbakka  frá Liverpool. Skipshöfnin bjargaðist á skipsbátnum. Veður var á suðaustan.

1892 þann 24. júní ml. 3 árd. fórst seglskipið Johanne frá Mandal í Noregi 63,50 tn á leið frá Eyrarbakka til Vestmannaeyja. Skipið lét ekki að stjórn í vendingu og rak á land í sunnanátt og hafnaði á skeri framundan Rauðárhólum í Stokkseyrarhverfi. Skipshöfnin var flutt í land á bátum úr landi.

1895 þann 27. apríl kl.6 árd. strandaði seglskipið Kamp frá Mandal í Noregi í Stokkseyrarhöfn þegar bólfesting slitnaði þegar verið var að leggja skipinu og rak skipið á skerin. Skipshöfnin bjargaðist á skipsbátnum. Veður var með suðvestanátt.

1895 þann 3. maí snemma morguns rak seglskipið Kepler frá Helsingborg 81,51tn á akkerum upp í þorlákshöfn. Skipið var að koma frá Kaupmannahöfn. Skipshöfnin var bjargað á bátum úr landi. Veður var á suðaustan.

1896 þann 16.ágúst strandaði seglskipið Allina frá Mandal í Noregi þegar hafnfestur slitnuðu þar sem skipið lá í Stokkseyrarhöfn og rak skipið á skerin. Skipshöfnin bjargaðist á skipsbátnum. Veður var á suðaustan.

1896 þann 23. október kl. 10 árd. var seglskipinu Andreas 172,76 tn frá Mandal í Noregi siglt upp í fjöru faramundan Strandakirkju í Selvogi vegna leka á leiðinni til Reykjavíkur. Skipshöfninni  var bjargað á bátum úr landi. Veður að norðan.

1898 þann 15. apríl kl. 9 árd. Seglfiskiskipinu Isabella frá Dunkerque Frakklandi 122,33 tn var siglt á land við Stokkseyri vegna leka eftir að skipið hafði rekist á skipsflak við Vestmannaeyjar. Skipshöfninni var bjargað á bátum úr landi. Vindur var af norðvestan.

1900 þann 11. apríl kl. 4 síðdegis strandaði seglskipið Kamp 80,68 tn frá Mandal í Noregi á Þykkvabæjarfjöru á leið frá Leith til Stokkseyri. Veður var  suðvestanátt.

1902 þann 24. mars kl.2:30 árd. strandaði seglfiskiskipið Skrúður 84 tn frá Dýrafirði á skeri undan bænum Vogsósum. Skipshöfnin gekk á land með fjöru. Veður með norðan stórhríð.
---
Heimild: Landhagskýrslur 1905

08.11.2015 22:20

Skip Þorleifs ferst

Þorleifur Kolbeinsson kaupmaður á Háeyri átti skip, sexæring eins og flest þau skip sem gerð voru út á Eyrarbakka á þessari tíð. Þessi skip voru á ýmsan hátt hentugri hér við ströndina en hinir stóru tólfæringar sem hér einig þekktust. Sexæringarnir voru léttari til uppdráttar í sandinn eftir veiðiferð og léttari til róðrar. Það þurfti aðeins 7 menn í áhöfn, eða helmingi færri en á tólfæring. Sexæringarnir voru notaðir allt árið þegar veður var gott og sjór stiltur. Helstu ókostirnir voru þó þeir að þessi skip vörðust ekki eins vel sjó og tólfæringarnir þegar eitthvað gerði að veðri.

Á skipi Þorleifs var formaður Magnús Ingvarsson, en hann byrjaði ungur formennsku á Eyrarbakka og var formaður fram á elliár. Var hann með fremstu formönnum á Bakkanum, aflasæll, aðgætinin og vaskur í öllum verkum.

Skömmu fyrir skírdag á vetrarvertíðinni 1870 sendi Þorleifur formann sinn, Magnús Ingvarsson til Reykjavíkur að versla nokkuð smáræði til útgerðarinnar, öngla og þessháttar og aukinheldur eitt og annað sem búðinni vanhagaði um [kaffi og sykur eða brennivínskút að einhverjir töldu, en Guðni Jónsson sagnfræðingur frá Gamla-Hrauni dró það þó vínkaupin í efa.]. Á meðan Magnús var í þessum erindum vestur fyrir fjall var háseti nokkur, Sveinn Arason í Simbakoti settur formaður. Sveinn var þó óvanur skipstjórn en þótti djarfur og áræðinn og því líklega vel til þess fallinn að taka við stjórn að mati Þorleifs. Á meðan á útilegunni stóð hafði brim tekið sig upp en Sveinn lagði á sundið, þrátt fyrir brimhroðann.  Það hefur ef til vill vakað fyrir Sveini að sanna sig sem formanns, ekki bara fyrir Þorleifi heldur og öðrum formönnum á Bakkanum og ekki síst Magnúsi, um að hann væri enginn veifiskati og full klár að sigla brimsundin. Svo óheppilega vildi þó til að skipinu hlekktist illa á í brimgarðinum og fórst það með allri áhöfn, en þeir voru auk Sveins, Ólafur Björgólfsson (46) Sölkutóft, Jón Árnason (18) frá Þórðarkoti, Oddur Snorrason (48) í Einkofa, Sigmundur Teitsson (31) Litlu-Háeyri og Jón Guðmundsson (59) Litlu-Háeyri. Önnur Bakkaskip leituðu þrautalendingar í Þorlákshöfn þennan dag. Að öllum líkindum hafði áhöfn Sveins misst undan árum í brimhroðanum og skipið fallið flatt og hvolft.

Þorleifur var þó ekki af baki dottinn, því strax eftir páskana útvegaði hann annað skip handa Magnúsi Ingvarssyni og nýja áhöfn.

 [Árið 1888 lenti Magnús Ingvarsson með skipshöfn sína í hrakningum ásamt skipshöfn Hús-Magnúsar í 15 stiga frosti og kolvitlausu veðri og svartabyl í heilan sólarhring. Þeir náðu síðan landi allir, en kalnir sumir.( http://brim.123.is/blog/2007/06/09/117577/ )- Oddur Snorrason, alnafni hans og sjómaður frá Sölkutóft druknaði einig hér í lendingu hálfri öld síðar. Sigmundur Teitsson, sennilega afkomandi Teits Helgasonar lóðs í Einarshöfn/ f. 1786 í Simbakoti. Sonur hans Teitur Teitsson hafnsögumaður fór til vesturheims 1873. Margir þeirra er fórust voru fjölskyldufeður og voru börn þeirra mörg seld í fóstur á misgóð heimili, eða boðin lægstbjóðanda, eins og Þórður Jónsson greinahöfundur kemst að orði. Þegar þetta gerðist var síðari kona Þorleifs, Elín Þorsteinsdóttir nýlega dáinn og Þorleifur sjálfur liðlega 72 ára og tekin að reskjast, en yngsta barn hans "Kolbeinn" þá rétt orðinn eins árs. Hjá Þorleifi var ekki ein báran stök, þetta árið "þá er ein bára rís, er önnur vís" sagði hann. Nú hafði hann misst konu sína og skipshöfn alla ásamt skipi. 7ær dóu og besti hestur hans um þetta leiti. Einhverjir vildu kenna Þorleifi um slys þetta þó vart væri með fullri sanngirni, því sjósókn frá þessari brimströnd var ætið áhættusöm og það vissu í raun allir. Þorleifur var einn af stofnendum barnaskólans á Eyrarbakka og lagði til hans hús, jarðeign og talsvert fé. Hann studdi einig fátæk börn til skólagöngu. Þorleifur dó 1882]

 -Sjóhrakningasögur af Bakkanum http://brim.123.is/blog/cat/5349/

Heimild: Tímarit/ Blanda 8b. 1944-Tvö sendibréf frá Þorleifi til  bróðurdóttur hans, Sigríðar Hafliðadóttur húsfreyju í Hjörsey á Mýrum.. Sjómannabl. Víkingur 1950.  Alþ.bl. 1937-Jólablað (Þórður Jónsson). Vefur: http://mattikristjana.blog.is/blog/mattikristjana/

23.05.2013 20:52

Skýrsla um björgun við Stokkseyri

"Sunnudaginn 8. april 1923 var mb. Svanur frá Stokkseyri i fiskiróðri og  flaggaði nauðsflaggi; sást það úr landi, var þá nálægt hádegi, og allir aðrir komnir i land er á sjó fóru um morguninn. Eftir nokkurn tíma varð Þórarinn Guðmundsson formaður á "mb.Frið" til búinn Svan til hjálpar, en hann krafðist þess að annar bátur kæmi með sér til hjálpar; fór ég undirritaður (Guðm. Karl Guðmundsson frá Gamla-Hrauni) þá með honum á mb. Baldur. Náðum við fljótt í Svan; hafði vél hans stansað og drógum við hann inn að Stokkseyrarsundi, en lengra var eigi mögulegt að koma tveim bátum við til að draga Svan. Vindur var snarpur á suðaustan og allmikið brim. Slepti nú Svanur dráttartaug Baldurs, en Friður bjóst til að draga Svan inn sundið, en ég til að bíða fyrir utan brimgarðinn á meðan. Þá er Friður er kominn með Svan nálægt hálfa leið inn sundið slitnar dráttartaugin milli bátanna. Friður gat ómögulega snúið við vegna þrengsla,rak þvi Svanur hjálparlaus fyrir straum og vindi þvert af leið, vestur í brimgarðinn; gáfu þá skipverjar af Svan neyðarmerki; brá ég þá strax við og fór með fylsta hraða af stað, en þar ég var staddur nokkuð út á þegar Svanur slitnaði aftan úr Frið, hafði Svan rekið all-langt af leið, og var kominn svo langt vestur í brimgarðinn, að ég taldi hina mestu hættu að hálgast hann; þó réði ég af að reyna það, vék af leiðinni, og þrátt fyrir að brotsjóir féllu bæði dýpra og grynnra, tókst mér að komast svo nærri Svan, að auðið varð að kasta til hans dráttartaug, og síðan að draga hann inn á rétta leið til lands. Það mátti sannarlega heldur ekki seinna vera að i Svan næðist, þar um geta borið bæði skipverjar beggja bátanna, og alkunnir formenn og aðrir, sem úr landi voru áhorfendur. En guði sé lof að mér og skipverjum mínum tókst að koma Svan og skipshöfn hans heilum á húfi til lands, jafn illa og áhorfðist". Að þessi skýrsla sé sannleikanum samkvæm er ég fús til að staðfesta hvenær sem þurfa þykir.

Stokkseyri 10. mars 1923.

Guðmundur Karl Guðmundsson.

Ægir 1908

11.09.2012 20:12

A. Therkelsens Minde

Á Eyrarbakka strandaði 3. september 1875 danskt kaupskip (Skonnorta) við innsiglinguna í höfnina. Það var hlaðið salti og korni, og fór megnið af því í sjóinn, en menn komust allir af. Skipið hét A. Therkelsens Minde, og var 81 tonn að stærð, skipstjóri þess hét Laurentzen, danskur maður, en skipið var gert út af Lefolii kaupmanni. Botninn fór alveg undan skipinu, og var rekaldið selt á uppboði.

Heimild: Ísafold 1875

Haustskipin komu venjulega síðla í ágústmánuði og voru að öllu jöfnu farin áður en veður versnuðu þegar leið á september. Nokkur kaupskip fórust á Eyrarbakka á skútuöldinni þegar óvanaleg stórbrim gerði að vori eða hausti og skipin slitnuðu upp af festingum sínum, en sjaldan var mannskaði af þessum völdum, þar sem áhafnir kaupskipana héldu að mestu til í landi á meðan legið var á höfninni og hlé var á löndun eða útskipun.

Flokkur: Sjóslys

"Resolution"- strandið ()

Briggskipið "Anna et Christense" ()

22.08.2012 23:21

Dáðadrengir

SkallagrímurAð morgni 13.apríl 1926 reru 17 bátar af Eyrarbakka og Stokkseyri. Þegar á daginn leið gerði  landsynningsrok og brim svo mikið, að aðeins nokkrir bátar gátu  lent heima, (aðeins 5 bátar náðu höfn á Stokkseyri og 4 á Eyrarbakka) en hinir urðu að láta  fyrirberast úti á rúmsjó. Þegar heimamönnum þótti sýnt, að bátarnir gátu ekki náð landi var símað til stjórnarráðsins og það beðið að hlutast til um það, að varðskipið Fylla og önnur skip, sem til næðist væru beðin að koma bátunum til hjálpar. Var þá strax sent skeyti til allra skipa á þessu svæði og þau beðin að líta eftir bátunum. Strax um kvöldið voru fimm íslenskir togarar komnir á vettvang til hjálpar, þeir Skallagrímur, Belgaum, Hannes ráðherra, Earl Kitchener og Gyllir. Tók Gyllir einn bátinn "Trausta" og dróg hann til Reykjavíkur, en Skallagrímur bjargaði áhöfninni af "Öðlingi", bát frá Eyrarbakka (ÁR 148 vélbátur Árna Helgasonar í Akri). Liðaðist hann sundur og sökk, (skipsflakið rak á land við Grindavík) en skipverjar komu með Skallagrími til Reykjavíkur. Belgaum, Hannes ráðherra og Earl Kitchener fylgdu hinum 7 bátunum, sem eftir voru til Vestmannaeyja.

Sveinn Árnason fyrrum nágranni minn í Nýjabæ minntist eitt sinn á þennan atburð, en hann mun þá hafa verið 13 ára er faðir hans var með Öðling. Eftir barning allan daginn berandi ótta og kvíða í brjósti á lítilli bátskel í aftaka veðri handan við brimgarðinn, varð það þeim mikill léttir þegar þeir sáu togarann Skallagrím sér við hlið. En þó höfðu þeir aldrei orðið eins hissa og þakklátir þegar þeir þekktu manninn sem rétti fram höndina og kippti þeim um borð, en það reindist vera nágranni þeirra feðga, Sigurður Guðjónsson frá Litlu-Háeyri sem þá var háseti á Skallagrími, en átti síðar eftir að stýra því skipi farsællega öll heimstyrjaldarárin. Við annað tækifæri átti þessi frækni togaraskipstjóri eftir að fylgja þeim feðgum fyrir Reykjanesið, en þeir höfðu þá keypt bát frá Akranesi og lentu í miklum barningi á hemleið.

Heimild: Aldan 1926  

Mynd-Skallagrímur RE:http://www.mikes-place.connectfree.co.uk/icegal/skallagrimur.html

Eldri frásögn Brimið á Bakkanum: Hrakningar á miðunum

27.06.2012 22:22

Fórust með "Víði"

Frá Vestmannaeyjahöfn, LóðsinnSunnudagsmorguninn 6.  f ebr. 1938  reru  flestir bátar úr Eyjum. Um  k l. 10  skall á  versta  veður og rofaði  ekki til  fyrr en kl. hálf fjögur e.h. Í þessu veðri fórst " Víðir" úr  Vestmannaeyjum,  með 5  manna  áhöfn.  Skipverjar  voru  allir  ungir  menn og  ókvæntir, en meðal þeirra voru tveir Eyrbekkingar.

Formaðurinn var Gunnar Guðjónsson úr Vestmannaeyjum. Vélstjóri var bróðir  hans, Gísli Guðjónsson. Móðir þeirra, Halla  Guðmundsdóttir,  hafði þá misst fjóra syni  sína í  sjóinn. Hásetar á  " Víði"  voru Jón Markússon  úr  Eyjum. Jón  Árni  Bjarnason frá  Tjörn á  Eyrarbakka og Hallur  Þorleifsson frá  Eyrarbakka.

Ægir 1938. Mynd frá höfninni í Vestmannaeyjum.

21.06.2012 22:43

Ófarir "Ingu"

Björgunarsveitin á Stokkseyri við æfingar

Á vetrarvertíð 1938 vildi  það  slys  til í  lendingunni á  Stokkseyri, að ólag  reið á  bátinn  "Ingu", er  hún  var  að  fara  inn  sundið, og  lenti  það á stýrishúsinu og  braut  það og  tók út  tvo  menn, er  þar  voru, og  drukknuðu  þeir  báðir. Mennirnir  voru: Guðni Eyjólfsson frá Björgvin á Stokkseyri,  formaður  bátsins, og vélamaðurinn Magnús Karlsson, báðir ungir menn og ókvæntir.

Fjórir bátar frá  Stokkseyri, sem áttu eftir að lenda, hættu við lendingu,er skipverjar sáu ófarir Ingu, og héldu til hafs. Bátar þessir náðu síðar heilir í höfn.

Heimild: Ægir 1938 Mynd/Stokkseyrarbryggja: Sjómannadagsblaðið 1982

17.06.2012 01:35

Áhöfnin á Kútter Nolsoy

Tvær Færeyskar skútur, sem voru að veiðum hér við land, fórust í stormi 7. mars 1934 með samtals 43 mönnum. Voru það skúturnar "Neptun" frá Vestmanhavn og " Nolsoy" frá Þórshöfn og var talið að þær hafi rekist saman. Þann 31. maí það ár rak lík hjá Stóra-Hrauni á Eyrarbakka og var talið að það hafi verið af matsveininum á  kútter "Nolsoy". Likið var óþekkjanlegt er  það fannst, en trúlofunarhringur, sem af tilviljun hafði tollað á fingri  hins  látna,  var  sendur til Færeyja og þektist. Hin látni hét Bernhard Henriksen og var frá Sandvági í Færeyjum. Hinn 21. maí 1936 kom minnisvarði með m/s. "Dronning Alexandrine", sem Færeyingar sendu og láta átti á leiði hans, en líkið var  jarðsett i  Eyrarbakkakirkjugarði og var vandað til  jarðarfararinnar eins og kostur var á. Með "Nolsoy" fórust alls 20 menn, bræður margir og feðgar, og eru nöfn  þeirra  allra  rituð á steininn, og eftirfarandi  erindi á  undirstöðu  hans:

Mugu  enn við sorg vit siga

kærum  vinum  her farval.

Góðandagin gleðiliga

tó í himli ljóða skal.

Auk Færeyinga, átti  þáverandi sendiherra Dana, Fontenay og  consul Jens Zimsen,  sinn þátt í að minnismerkinu yrði hingað komið, og  annaði  Zimsen bæði flutning  austur og sá  um, að því var komið fyrir á gröf  Bernhards Henriksens og var gengið frá því í  Eyrarbakkakirkjugarði þann 3.  júní 1936.

Auk Bernhards fórust með kútter Nolsoy: J. Henriksen, H.D. Hansen, V. Hansen, E. Hansen, M.Hansen, A.  Danberg, J. Olsen, M. Petersen, P. Poulsen, J.P. Petersen, M. Johansen, H. Leidesgaard, U.A. Johansen, M. Poulsen, J.G. Petersen, O.J. Jakopsen.

Heimild: Morgunbl.138 tbl 1934. Brot úr sögu Mykinesar http://heima.olivant.fo/~mykines/mykkrofo.htm Ægir 1936. Gömul færeysk skip: http://www.gomul-skip.dk/56256461?i=46539116 

15.05.2012 22:22

Skýrsla um sjóslys á Eyrarbakka 1898

Þann 19. ágúst 1898 vildi svo til, að skip lá, fyrir utan Einarshafnarsund, sem var á leið í land, úr gufubátnum "Reykjavik". Þoka var, lágsjávað og brim, álitu þvi þeir sem í landi voru, að skipið sem úti fyrir lá, þyrfti 2 menn til viðbótar til að geta lent, svo afráðið var að senda skip út, með 11 mönnum, til hjálpar, og færu því þessir 2 menn [yfir], sem álitið var að skipið hefði vantað.

Þetta var gjört, og fór Jón Sigurðsson (formaður) af Eyrarbakka út með skipið. Skipinu gekk vel út úr sundinu, og lét hann 2 menn af þessum 11 í skipið, sem úti fyrir lá. Þegar það var gjört tók hann 3 bagga af harðfiski úr skipinu, sem hann lét mennina í, til að rýma til í því, því i þvi var töluvert af ýmsum munum, sem órýmindi gjörðu; að því búnu sneri áðurnefndur formaður Jón Sigurðsson frá skipinu, og með samráði við hásetana lagði hann á sundið aftur og komst tafarlaust inn i það mitt, þangað til alt í einu kom stór brimsjór, sem hvolfdi skipinu á augnabliki; strax komust 2 mennirnir á kjöl, en þá hvoldi því strax upp í loft, og komust þá þessir tveir menn, sem á kjöl komust, upp i það; smátt og smátt komust svo 7 alls upp í það, hinir 2 af þessum 9 mönnum, sem voru á skipinu, komust aldrei í skipið, annar hélt sér á sundi, en straumur bar hann frá skipinu, þar til að hann sökk, ,hinn sást aldrei frá því fyrst að skipinu hvolfdi.

Menn voru allir í landi, og skip ekki við hendina, nema vestur á skipalegunni lá hlaðinn áttæringur af salti, sem búið var að ferma úr saltskipi frá Lefolis- verslun, sem á höfninni Iá. Þegar sást úr landi, að skipinu hvolfdi, brá ég undirritaður Jónas Einarsson (form.) á Eyrarbakka, fljótt við, ásamt nokkrum mönnum sem við hendina voru, og hlupum sem við gátum niður í fjöruborð og að kletti neðst við sjóinn, þar sem fyrnefndur áttræðingur lá fullur af saltinu; við ruddum úr honum saltinu, og með sama á stað og vestur að sundi; voru þá komnir 2 bátar að sundinu, annar frá gufubátnum "Oddur" og hinn frá skipinu Thor.

Christensen skipstjóri af "Oddi" var á öðrum bátnum með háseta sinum, en stýrimaður og háseti af Thor á hinum. Bátarnir treystu sér ekki að leggja á sundið, til að gjöra björgunartilraun, því jafnt og þétt gekk fallandi brimsjór yfir það; ég lagði þó tafarlaust á sundið, og komst með illan leik út að skipinu, var það þá á réttum kili þversum í sundinu og mennirnir 7 í þvi. Gerðum við þá strax tilrunir að bjarga, og gekk það vel, því einmitt þá var sjórinn að miklu leyti kyrr. Björguðum við því að heita á samri stund þessum 7 mönnum, sem í skipinu voru; voru þeir þá nær dauða en lífi áður en við höfðum flutt þá í land. Var þeim veitt hin besta aðhlynning, sem mögulegt var að hafa, með læknisráði, enda eru þeir nú búnir að fá heilsu, utan einn af þeim, sem dó nokkru síðar. -

Að þessi skýrsla sé svo rétt að öllu, sem hægt er, vottum vér undirritaðir upp á æru og samvisku.

Eyrarbakka 1898. (Undirskriftir vanta).

Þetta er bókað í sýslubókum Árnessýslu 1898.

Formaðuraður fyrir þessari björgun var það Jónas Einarsson i Garðhúsum á Eyrarbakka; druknaði hann á "Sæfaranum" (Framtíðin), sem fórst utast á Bússusundi 5. apríl 1927. Einn af þeim, sem best gengu fram við björgunina, var Jóhann Gíslason frá Steinskoti á Eyrarbakka, síðar fiskimatsmaður í Reykjavik, og einn af þeim, sem var bjargað var Þorsteinn Þorsteinsson síðar kaupmaður í Keflavík.

Heimild: Ægir 1908

28.04.2012 23:54

Átta menn drukna

Brimið á BakkanumSnemma dags 5. april 1927 fóru allir bátar á Eyrarbakka að vitja um net sín. En vegna roks og brims gátu þeir ekki vitjað um nema sumt af netunum, og lögðu því snemma til lands aftur. Klukkan að ganga tvö e.h. sama dag voru allir bátar komnir, að undanteknum þremur. Einn þeirra var "Framtiðin"*.

Kom hún um kl. 13:30 upp að brimgarðinum og lagði strax inn á sundið. En það var allt einn hvítfyssandi brotsjór, bæði af hafsjó og stormöldu. Og er báturinn var kominn nokkuð inn á sundið skall yfir hann svo hár og mikill brotsjór, að hann bar ekki undan, og sást báturinn ekki framar - sökk á svipstundu. Á bátnum voru 8 menn. Nöfn þeirra voru : Guðfinnur Þórarinsson, formaður, kvongaður, tveggja barna faðir. Páll Guðmundsson, Leifseyri, kvongaður, margra barna faðir. Víglundur Jónsson, Björgum, giftur, átti eitt barn [* 2 börn]. Sigurður Þórarinsson, Vegamótum, ógiftur. Kristinn Sigurðsson, Túni, ungur maður ógiftur, 20 ára. Jónas Einarsson, Garðhúsum, aldraður maður, átti uppkomin börn. Gísli Björnsson, Litlu-Háeyri, ógiftur. Ingimar Jónsson, Sandvik, var hjá foreldrum sínum. Allir þesir menn voru af Eyrarbakka.

*Guðfinnur hafði þá nýlega keypt bátinn af Kristni Vigfússyni er þá hét "Framtíðin" en Guðfinnur breytti nafninu í "Sæfara", en svo hét einnig fyrri bátur Guðfinns.

* sjá athugasemd hér að neðan.


Nánar um þennan atburð má lesa hér>: http://brim.123.is/page/1205/ 

Heimild: Ægir 1927.

07.04.2012 00:25

"EOS" strandið

http://loregame.wikia.com/wiki/Naval_UnitsÍ janúar 1920 rak mannlaust skip inn fyrir brimgarðinn á Eyrarbakka og brotnaði í spón. Það var barkskipið "EOS" frá Hafnafirði og hafði áhöfnin yfirgefið skipið skömmu áður. Skipið fór frá Hafnarfirði 19. janúar og var förinni heitið til Svíþjóðar. Dró mótorskipið "Venus" það úr höfn og skildi við það um tveim tímum síðar. Barkskipið komst síðan klakklaust fyrir Reykjanes. En aðfaranótt 21. janúar um kl. 2 gerði svo mikið aftakaveður [Af suðaustri], að ekki varð við neitt ráðið. Mistu þeir þá stjórn á skipinu og virtist svo um tíma, sem skipinu væri mikil hætta búin. Tóku þá seglin að rifna, hvert af öðru, og reiðar gengu úr lagi. Seint um nóttina fór veðrinu heldur að slota og var þá farið að aðgæta, hvort leki hefði hefði komið að skipinu, og kom þá í ljós, að talsverður sjór var kominn í það. Vildu skipsmenn þá reyna að dæla, en dælurnar voru i ólagi, og vinddæla, sem mest var treyst á, hafði öll brotnað í veðrinu, svo að ekki var viðlit að gera við hana. Fleiri bilanir komu og í ljós og með því að enginn tiltök voru að gera við alt það í rúmsjó, sem bilað hafði, þá var siglt af stað, þegar stjórn náðist á skipinu og lensað austur, því að Vestmannaeyjar voru nú einasta höfnin, sem tök var að ná.

Í birtingu um miðjan morgun sáu þeir Vestmannaeyjar fyrir stafni og var þá veður tekið að hægja. Settu þeir upp öll segl, sem þeir gátu og stýrðu til eyja, en síðdegis lygndi og voru þeir þá skamt N.V. af Eyjum. En brátt fór að hvessa af suðaustri og var þá slegið undan. Undir kvöld reyndu þeir að vekja eftirtekt á sér með neyðarmerkjum (blysum), en enginn tók eftir því. Um kl. 8 var komið suðaustan rok og sigldu þeir þá undan' [á lensi vestur með landi], en brátt herti veðrið svo mjög, að segl þau, sem eftir voru, fóru í tuskur og fylgdi þessu veðri stjórsjór, þrumur og eldingar. Einni eldingu sló niður í skipið nálægt skipstjóra og tveim öðrum, en engan þeirra sakaði til muna, og má merkilegt heita.

Alt í einu datt í dúnalogn litla stund, en fór svo að hvessa af suðvestri. Var þá skipinu haldið upp að vindi. Um kl. 3 um nóttina var kominn álandsstormur, og rak skipið til lands, og voru þá gefin neyðarmerki seinni part næturinnar. Um kl. 6 árdegis kom enski botnvörpungurinn Mary A. Johnson (skipstjóri Nielsen) þeim til hjálpar og fylgdi þeim þar til bjart var orðið. Ekki treystist hann til að draga skipið til hafnar, en bauðst til að fara til Eyja og reyna að ná í björgunarskipið, en með því að skipið átti þá svo skamt til lands, sá hann, að enginn tími væri til þess og vildi að skipshöfnin yfirgæfi "Eos". Var þá ekki annað ráð vænna fyrir höndum og skaut hann út björgunarbáti til þeirra, (því að skipsbátur "Eos" hafði laskast), og gengu skipverjar af "Eos" allir í hann. Var það þó ekki auðsótt, því að sjór var mikill, en Englendingar heltu olíu i sjóinn og gerðu sér alt far um að hjálpa sem best. Sumum skipverja tókst að hafa nokkuð af fötum sínum með sér, en aðrir mistu alt, sem þeir höfðu meðferðis. Þetta mun hafa verið um hádegi á fimtudag og var svo beðið hjá barkinum, ef vera mætti, að honum yrði bjargað, en um kl. 4 var hann kominn upp í brimgarðinn við Eyrarbakka, og var þá haldið til Reykjavíkur. Skipstjóri á "Eos" var Davíð Gíslason. "Eos" var 456 smálestir að stærð (nettó). Eigendur h.f. Eos (þ. e. Jóhannes Reykdal, Guðm. Kr. Guðmundsson, Lárus Fjeldsted og Ásmundur í Hábæ).

Heimild: Ægir 1920. Austurland 1920. Alþ.bl.1920.

23.03.2011 00:20

Sjaldan vísar ormur á veiðistað

Það brimar við bölmóðsklettÞann 28. maí 1881 var tungl ný útsprungið og hádegisfjara. Sjómenn fóru í maðkasand að venju, en áttu þó ekki von á miklu því leiran var svo til uppurin. En þó brá svo við að þessu sinni að maðkurinn óð uppi og aflaðist meira en þörf var á til róðursins, en það voru tvö skip og einn bátur sem réru þennan dag. Það var trú manna og reynsla að ef "maðkur óð uppi" þá gaf sjaldan með hann svo að gagni yrði og sú varð reyndin í þetta sinn.

Sjór var lágdauður og lygn en loft í drunga. Lóðirnar voru beittar í skyndi og haldið út á miðin. Er tími kom til að draga inn lóðirnar var sjór farinn að ókyrrast allmikið og flest brimkenni gerðu vart við sig. Drjúg undiralda, sog og straumiður strektu lóðirnar. Purpuralitar marglyttur flæktust um árablöðin og sjór allur rauðflekkóttur eins og blóðvöllur víkinga. Straumfallið jókst svo ört að skipin bar af leið meðan dregið var inn, en varla kvikindi var á nokkrum öngli. Skipin leituðu lands svo fljótt sem verða mátti, því brátt myndu öll sund lokast. Tvö skip komust inn áfallalaust en þriðji báturinn (fjögramanna far) barst á með fimm mönnum og skolaði tveim bakborðsræðurum í brimgarðinn með árum og ræðum án nokkurar vonar um björgun. Torfi hét maður og var Jónsson, réri hann við annan mann á stjórnborðið og tók nú til sinna ráða. Skaust sem elding á bakborð með ár sína og réri við hné sér á bert borðið og komust þeir þannig heilir inn úr brimgarðinum.


Heimild: Austantórur.

(Í öðrum heimildum er þessi bátur sagður frá Stokkseyri og má vel vera að saga þessi sé þaðan upprunalega)

19.03.2011 23:48

"Jafnt og helvíti í hellunefið"

Sunnlenskt áraskipJens bóndi Haagensson í Ranakoti á Stokkseyri var kappsamur háseti og réri hjá Jóni stromp á vertíðum. Skömmu fyrir miðnætti hinn 24. febrúar 1812 vakti hann upp formann sinn og vildi ólmur fara til sjós. Jón strompur lét til leiðast og með kappi smöluðu þeir mannafla á skipið. Þegar Jón ríki í Móhúsum varð þess var að nafni hans ætlaði í róður, tók hann til við að kalla menn undir árar síns skips og voru þar á meðal sækonurnar Þuríður Einarsdóttir á Stéttum (síðar formaður) og Ingibjörg Jónsdóttir á Stokkseyri. Þegar skipin voru komin austur á Baugstaðamið versnaði veðrið og sjór varð ófær um sundin úti fyrir báðum þorpunum. Þá var tekið til bragðs að kappróa til Þorlákshafnar, en þar var venjulega þrautalending ef skip lokuðust úti vegna brims. Skip Jóns stromps fór fyrir og er komið var til Þorlákshafnar sló skipi hans upp á klettinn "Sýslu" og fylltist af sjó. Jón Gamalielsson (Faðir Gunnars í Nesi) var á skipi Jóns í Móhúsum og sat í stafni og lóðsaði fyrir Jóni. Þá er hann sá hvernig fór fyrir hinum kallaði hann til hans. "Jafnt og helvíti í hellunefið" og sló kreptum hnefa í byrðinginn. Var þetta síðan haft að orðatiltæki um það, ef eitthvað þyrfti að forðast.
 
(Af skipi Jóns stromps tókst með hjálp manna úr þorlákshöfn að bjarga 7 mönnum en 6 fórust.)

Heimild: Saga Stokkseyrar.

17.03.2011 01:10

Ægir níu menn í nauðir jók

Þegar skip Sigurðar Grímssonar á Borg fórst á Músasundi (Stokkseyri) 25. mars 1891 komust sex menn á kjöl. Þennan dag var brim mikið, útnorðan hávaða rok og frost. (Ekki var róið á Bakkanum þennan dag.) Oft var tvíróið á miðinn og var Sigurður í seinni róðri ásamt fjórum öðrum Stokkseyrarbátum þrátt fyrir tvísýnar veðurhorfur. Skipi Sigurðar hafði hvolft á sundinu og sáu formenn hinna skipana hvar sex menn af þeim 9 sem um borð voru komust á kjölinn. Tveir formenn höfðu farið á undan Sigurði og kölluðust þeir á um hvað gera skyldi en treystust eigi til að reyna björgun og héldu til lands. Það sama gerðu hinir sem á eftir komu, og smám saman hurfu mennirnir af kilinum einn af öðrum.

Formennirnir gáfu þá skýringu að hásetar þeirra hefðu verið orðnir of þrekaðir og kaldir eftir barninginn inn sundið móti veðrinu, en auk þess þótti þeim of mikill háski að hætta mönnum og skipum svo nærri skerjum þeim sem skip Sigurðar hraktist á. Formennirnir fengu hinsvegar miklar átölur fyrir hugleysið. Eftir þennan atburð létu Stokkseyringar aldrei saka sig um hugleysi, og hviku aldrei frá að reyna björgun við erfiðar aðstæður. Jón Sturlaugsson formaður (síðar lóðs) var atkvæðamesti bjargvættur Stokkseyringa.

15.apríl 1898 bjargaði Jón Sturlaugsson áhöfn frönsku fiskiskútunnar "Ísabellu" (Isallai) ásamt öðrum formönnum. Þann 4.12. 1899 bjargaði hann 3 mönnum af báti Þorkells Magnússonar í Eystri-Móhúsum. 14.03.1906 bjargaði Jón 12 manna áhöfn breska togarans "Destimona" sem strandaði austan við Stokkseyri. 02.04.1908 bjargaði hann einum manni af skipi Ingvars Karelssonar í Hvíld, er skip hans fórst við Stokkseyri. 19.03.1913 bjargaði Jón 12 manna áhöfn Guðmundar Hannessonar í Tungu, en hann réri frá Loftstöðum. 16.apríl 1913 bjargaði hann 13 mönnum af róðraskipi frá Þorlákshöfn um borð í vélbát sinn og sigldi með þá til Eyrarbakka. 14.02.1919 bjargaði hann 8 manna áhöfn af vélarvana báti djúpt undan Stokkseyri og tók þá til Þorlákshafnar. Samtals bjargaði Jón Sturlaugsson 73 sjómönnum og þar af 37 íslenskum. Hann vann síðar að stofnun björgunarsveitarinnar "Dröfn" á Stokkseyri sem stofnsett var 22. desember 1928. (Sveitin var sameinuð björgunarfélagi Árborgar fyrir fáum árum).

Heimild: Saga Stokkseyrar

15.03.2011 01:19

Barningur og björgun við "Þyril"

Oft getur brimað án fyrirvara á BakkanumLaugardaginn 12 apríl 1890 réru 7 skip af Eyrarbakka. Brim var mikið er leið á daginn og versnandi sjór. Skip Sigurðar Gíslasonar og Magnúsar í Sölkutóft Magnússonar (Hús-Mánga) lögðu fyrst á sundið og komust þau heilu og höldnu. Jón Jónsson frá Fit (trésmiður í Garðbæ og formaður) lagði þá á sund það sem Rifsós heitir, en áður enn hann komst innfyrir tóku sig upp sjóir hver eftir annan fast aftan við skut og féllu inn í það svo skipið fyllti, en hann var þá við sker það sem "Þyrill" kallast. Nokkrir skipverjar skoluðust útbyrðis en þeim tókst að synda að því og hanga á byrðingnum. Jón sat undir stýri og hélt skipinu í stefnu þar til hjálp barst.

 Skip Magnúsar (Magnús var formaður fyrir róðraskipi Lefolii verslunar) hafði stuttu áður verið komið inn úr sundinu, en þegar skipverjar sáu hvað hafði borið við hjá Jóni, sneri Magnús skipi sínu til móts við hann og tókst með snarræði og mikilli dirfsku í beljandi brimgarðinum að bjarga 8 mönnum af skipi Jóns, en ekkert sást þá til tveggja manna af þeim sem fallið höfðu úrbyrðis (Guðmundur Árnason Rauðnefsstöðum og Jónas Einarsson skottumaður (Lausamaður)). Annað skip (sennilega skip Sigurðar Gíslasonar) lagði frá landi til að leita þeirra sem saknað var, en mennirnir fundust ekki. Einn skipverja sem bjargað var um borð í skip Magnúsar reyndist illa haldinn (Eiríkur gullsmiður Arinbjarnarsson) og lét þá Magnús róa allt hvað af tók til lands, en þá var maðurinn andaður. Lifgunartilraunir voru gerðar eftir ráðum P.Nielsens verslunarstjóra og Guðmundar Ísleifssonar kaupmanns, en án árangurs. Síðar um daginn sótti Magnús skip Jóns og dró til lands. Einnig fannst farviður skipsins (ílát undir beitu, lóð ofl.) að mestu. Hin skipin fjögur sem réru þennan dag, hleyptu til þorlákshafnar og lentu þar kl.7 um kvöldið.

Bjargvætturinn Hús-Magnús,

Heimild: Saga Stokkseyrar

Flettingar í dag: 678
Gestir í dag: 187
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 260968
Samtals gestir: 33814
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 20:18:00