17.03.2011 01:10

Ægir níu menn í nauðir jók

Þegar skip Sigurðar Grímssonar á Borg fórst á Músasundi (Stokkseyri) 25. mars 1891 komust sex menn á kjöl. Þennan dag var brim mikið, útnorðan hávaða rok og frost. (Ekki var róið á Bakkanum þennan dag.) Oft var tvíróið á miðinn og var Sigurður í seinni róðri ásamt fjórum öðrum Stokkseyrarbátum þrátt fyrir tvísýnar veðurhorfur. Skipi Sigurðar hafði hvolft á sundinu og sáu formenn hinna skipana hvar sex menn af þeim 9 sem um borð voru komust á kjölinn. Tveir formenn höfðu farið á undan Sigurði og kölluðust þeir á um hvað gera skyldi en treystust eigi til að reyna björgun og héldu til lands. Það sama gerðu hinir sem á eftir komu, og smám saman hurfu mennirnir af kilinum einn af öðrum.

Formennirnir gáfu þá skýringu að hásetar þeirra hefðu verið orðnir of þrekaðir og kaldir eftir barninginn inn sundið móti veðrinu, en auk þess þótti þeim of mikill háski að hætta mönnum og skipum svo nærri skerjum þeim sem skip Sigurðar hraktist á. Formennirnir fengu hinsvegar miklar átölur fyrir hugleysið. Eftir þennan atburð létu Stokkseyringar aldrei saka sig um hugleysi, og hviku aldrei frá að reyna björgun við erfiðar aðstæður. Jón Sturlaugsson formaður (síðar lóðs) var atkvæðamesti bjargvættur Stokkseyringa.

15.apríl 1898 bjargaði Jón Sturlaugsson áhöfn frönsku fiskiskútunnar "Ísabellu" (Isallai) ásamt öðrum formönnum. Þann 4.12. 1899 bjargaði hann 3 mönnum af báti Þorkells Magnússonar í Eystri-Móhúsum. 14.03.1906 bjargaði Jón 12 manna áhöfn breska togarans "Destimona" sem strandaði austan við Stokkseyri. 02.04.1908 bjargaði hann einum manni af skipi Ingvars Karelssonar í Hvíld, er skip hans fórst við Stokkseyri. 19.03.1913 bjargaði Jón 12 manna áhöfn Guðmundar Hannessonar í Tungu, en hann réri frá Loftstöðum. 16.apríl 1913 bjargaði hann 13 mönnum af róðraskipi frá Þorlákshöfn um borð í vélbát sinn og sigldi með þá til Eyrarbakka. 14.02.1919 bjargaði hann 8 manna áhöfn af vélarvana báti djúpt undan Stokkseyri og tók þá til Þorlákshafnar. Samtals bjargaði Jón Sturlaugsson 73 sjómönnum og þar af 37 íslenskum. Hann vann síðar að stofnun björgunarsveitarinnar "Dröfn" á Stokkseyri sem stofnsett var 22. desember 1928. (Sveitin var sameinuð björgunarfélagi Árborgar fyrir fáum árum).

Heimild: Saga Stokkseyrar

Flettingar í dag: 135
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 2887
Gestir í gær: 206
Samtals flettingar: 229408
Samtals gestir: 29867
Tölur uppfærðar: 14.10.2024 03:49:09