19.03.2011 23:48

"Jafnt og helvíti í hellunefið"

Sunnlenskt áraskipJens bóndi Haagensson í Ranakoti á Stokkseyri var kappsamur háseti og réri hjá Jóni stromp á vertíðum. Skömmu fyrir miðnætti hinn 24. febrúar 1812 vakti hann upp formann sinn og vildi ólmur fara til sjós. Jón strompur lét til leiðast og með kappi smöluðu þeir mannafla á skipið. Þegar Jón ríki í Móhúsum varð þess var að nafni hans ætlaði í róður, tók hann til við að kalla menn undir árar síns skips og voru þar á meðal sækonurnar Þuríður Einarsdóttir á Stéttum (síðar formaður) og Ingibjörg Jónsdóttir á Stokkseyri. Þegar skipin voru komin austur á Baugstaðamið versnaði veðrið og sjór varð ófær um sundin úti fyrir báðum þorpunum. Þá var tekið til bragðs að kappróa til Þorlákshafnar, en þar var venjulega þrautalending ef skip lokuðust úti vegna brims. Skip Jóns stromps fór fyrir og er komið var til Þorlákshafnar sló skipi hans upp á klettinn "Sýslu" og fylltist af sjó. Jón Gamalielsson (Faðir Gunnars í Nesi) var á skipi Jóns í Móhúsum og sat í stafni og lóðsaði fyrir Jóni. Þá er hann sá hvernig fór fyrir hinum kallaði hann til hans. "Jafnt og helvíti í hellunefið" og sló kreptum hnefa í byrðinginn. Var þetta síðan haft að orðatiltæki um það, ef eitthvað þyrfti að forðast.
 
(Af skipi Jóns stromps tókst með hjálp manna úr þorlákshöfn að bjarga 7 mönnum en 6 fórust.)

Heimild: Saga Stokkseyrar.

Flettingar í dag: 208
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 70
Gestir í gær: 27
Samtals flettingar: 219698
Samtals gestir: 28926
Tölur uppfærðar: 3.10.2024 19:45:27