Flokkur: Umræðan.
09.01.2010 23:52
Vandræðabarnið Icesave
Icesave - reikningarnir voru netreikningar sem Landsbankinn stofnaði í Bretlandi og Hollandi. Heildarupphæð innistæðna á reikningunum nam jafnvirði rúmlega 1.200 milljarða króna.
Nú þegar Icesave samningurinn er kominn í hendur almennings til úrskurðar, verður vart undan því vikist að taka þetta vandræðabarn skoðunar og gaumgæfa kosti þess og galla, en einkum þó gallana, því samningurinn inniheldur enga kosti fyrir íslendinga. Forsögu málsins þekkja allir núlifandi landsmenn og því ástæðulaust að fara nánar út þá dapurlegu sálma.
Samningurinn er óvenjulegur að því leiti að þriðja aðila, þ.e. íslenska ríkinu og þar með íslenskum skattgreiðendum fyrir hönd Tryggingasjóðs innistæðueigenda, gert að ábyrgjast greiðslur fyrir tjón breskra og hollenskra fjármagnseigenda sem áttu innistæður á svokkölluðum Icesave reikningum í þessum löndum þegar einkabankarnir hrundu í fjármálakreppunni haustið 2008, burtséð frá sökudólgum í málinu.
Samningurinn er stórhættulegur fyrir íslendinga m.a. fyrir það að óljóst er hvað fæst fyrir eignir Landsbankanns og hvað íslenska ríkið þarf því að standa straum af.
Fyrir breta og hollendinga er samningurinn gulltryggður og morandi í öryggisákvæðum fyrir þeirra hönd, en engar slíkar eru að finna fyrir íslendinga, nema þá helst 16.gr.
Í samningnum er engin vægðarákvæði gagnvart utanaðkomandi atvikum sem geta haft veruleg áhrif á mögulega gjaldeyrisöflun í framtíðinni og greiðslugetu þjóðarbúsins, svo sem [a] Styrjöld í viðskiptalandi eða á hafsvæðum umhverfis landið. [b] Langvarandi verkföll í helstu viðskiptaríkjum eða hér heima. [c] Stórfeldar nátturuhmfarir í viðskiptalöndum eða á Íslandi. [d] Annað hrun á fjármálamarkaði. [e] Aflabrestur.
Í gr. 16 er það í höndum breta eða hollendinga að fallast á fund þegar breytingar verða á aðstæðum til hins verra og AGS metur að svo sé.
Það mætti halda að það eina sem okkar samningamenn hafi sagt við viðsemjendur okkar væri eitt orð "yes"
Án vægðarákvæða og fundarskildu samningsaðila, væri afar óskynsamlegt að samþykkja þennan nauðasamning. Framtíðin er óskrifað blað og ekki viturlegt að treysta einungis á guð og lukkuna.
14.03.2009 16:01
Aftur til fortíðar
Það eru nú all mörg ár síðan útgerð var og hét á Bakkanum og enn lengra síðan bændur á Suðurlandi hættu að sækja verslun sína á Eyrarbakka. Uppvaxandi kynslóð þekkir því aðeins þetta gamla verslunar og fiskveiðiþorp af frásögn. En það er einmitt sú mikla saga sem er verðmætur menningararfur til næstu kynslóða. Þessa sögu er hvergi hægt að endurskapa nema hér á Eyrarbakka og gera hana þannig enn verðmætari.
Það yrði örugglega stórkostleg upplifun fyrir bæði innlenda sem erlenda ferðamenn, er þeir gengu um götur þorpsinns og findu angan af ilmandi engjaheyi þar sem sett yrði upp eftirliking engjaheyskapar með heysátum og lítilli tjaldborg, hrífum og ljáum og heyvögnum. Þá gætu kindur og kýr verið á beit og sett svip sinn á þorpið eins og forðum daga.
Fiskihjallar og árabátar myndu bera fyrir augu ferðamannsins og minnir hann á langa sögu fiskveiða frá Eyrarbakka. Þá kæmi hann að iðandi markaðstorginu þar sem bændur og handverksmenn væru með vörur sínar á boðstólnum og þar með endulífga forna verslunarhætti þar sem menn gætu prangað dálítið um verðið.
Að endurskapa sögu þorpsins er stórt tækifæri fyrir ferðaþjónustuaðila og menntastofnanir til að gera íslenskri menningararfleið hærra undir höfði en áður hefur tíðkast.
11.03.2009 23:23
Eyrbekkingar líklegir til að krefjast sambandsslita við Árborg
Til stendur að breyta afgreiðslutíma þjónustuskrifstofu Árborgar á Eyrarbakka að því er fram kemur í Sunnlenska fréttablaðinu í dag. Þannig verður skrifstofan lokuð yfir sumarmánuðina, en frá 1. september verður einungis opið einn dag í viku. Samliða mun eitt ársstarf færast frá Eyrarbakka til Selfoss. Það er mat manna að með þessu sé bæjarstjórn Árborgar að svíkja samning sem gerður var við stofnun sveitarfélagsins Árborgar um að það yrði þjónustuskrifstofa í öllum byggðarlögunum.
Þorvaldur Guðmundsson formaður bæjarstjórnar segir m.a. í samtali við Sunnlenska fréttablaðið að verið sé að hagræða í rekstri og bendir á að skrifstofunni á Stokkseyri hafi verið lokað fyrir mörgum árum.
Mikill urgur er í Bakkamönnum vegna þessarar ákvörðunar og hafa heyrst háværar raddir um sambandsslit, en fordæmi eru fyrir slíku, þegar Eyrbekkingar klufu sig frá Stokkseyrarhreppi árið 1897 og stofnuðu Eyrarbakkahrepp.
Hinsvegar er það ótrúlegt markmið sveitarfélags að færa þjónustuna frá fólkinu í stað þess að að vera þeim sem næst og styðja við það á þessum umbrotatímum. Sveitastjórnarmenn sem hafa aðra hugsun en þá að vera íbúunum bakhjarl,skjól og skjöldur ættu umsvifalaust að segja af sér!
Það einkennilega er að bæjarstjórn Árborgar er sjálf að berjast við ríkið gegn sömu rökum og formaður bæjarstjórnar notar hér (Hagræðinu í rekstri) til að koma í veg fyrir skerta þjónustu á fæðingardeild HSU. Að nota þessa sömu rökleysu gegn Eyrbekkingum er því í hæsta máta skammarleg fyrir formann bæjarstjórnar.
09.03.2009 12:39
Framtíðarsýn Eyrbekkinga byggir á ferðaþjónustu.
Á íbúafundi sem haldinn var í Gónhól sl. Laugardag kom fram sterkur vilji til að byggja upp ferðaþjónustutengdann atvinnuveg. Hið gamla 19.aldar söguþorp er sú umgjörð sem er aðlaðandi fyrir ferðamenn auk ósnortinnar náttúru í nágreni þorpsinns. Hinn sérstæði skerjagarður, brimið og fjölskrúðugt fuglalíf ásamt einstaklega fallegri götumynd með gömlum húsum til beggja hliða er það aðdráttarafl sem unnt er að virkja ásamt minjasöfnunum og hinni miklu sögu og listsköpun sem byggðinni tengist. Rauða húsið og Gallery Gónhóll hafa nú þegar skapað sér traustan sess á Eyrarbakka sem hluti af þeirri upplifun sem ferðamenn njóta í þessu sérstæða þorpi.
Til þess að styðja við þessa uppbyggingu og nýsköpun í atvinnumálum sveitarfélagsins þarf bæjarstjórn Árborgar að tryggja greiðan aðgang að opinberri þjónustu og upplýsingum fyrir heimamenn,sumardvalargesti og ferðafólk. Þá er nauðsynlegt að hefja þá göngustígagerð sem lofuð hafði verið fyrir síðustu kosningar nú þegar á þessu vori. Bæta þarf aðstöðu fyrir húsbílafólk á tjaldstæði og koma fyrir snyrtiaðstöðu á fleiri stöðum ásamt bekkjum og borðum. Til lengri tíma þarf að huga að holræsamálum svo hægt sé að nýta ávaxta fjörunnar og gera hana aðlaðandi.
Þá liggja tækifæri einkaaðila í að koma upp gistiaðstöðu, fræðslu og menningarsetrum í tengslum við söfnin, strandmenninguna og fuglafriðlandið. Þá eru hugmyndir uppi um að halda festival á komandi sumri sem byggir á að færa þorpið í búning þess tíma þegar þorpið var höfuðstaður menningar og viðskipta. Tækifærin liggja víða og vonir manna standa til þess að unnt verði að byggja upp gömlu vesturbúðirnar og bryggjurnar. Þá gætu klappaveiðar skapað sérstöðu sem aðdráttarafl fyrir stangveiðimenn, en slíkar veiðar voru talsvert stundaðar á árunum áður.
Það er ljóst að mikill hugur býr í Eyrbekkingum sem láta nú engann bilbug á sér finna þrátt fyrir kreppu og þrengingar í efnahagslífinu, enda hafa Bakkamenn marga fjöruna sopið í þeim efnum.
18.12.2008 14:44
Heilbrigðisstofnun vill loka!
Heilbrigðisstofnun hyggst loka heilsugæsluselum á Eyrarbakka og Stokkseyri frá og með 1. janúar n.k. vegna þess hversu aðsókn er dræm.
Getur verið að Eyrbekkingar og Stokkseyringar séu heilsuhraustari en almennt gerist?
Það mætti þá líka lækka skattana okkar ef við fáum ekki að njóta sjálfsagðrar þjónustu þegar á þarf að halda á borð við aðra þéttbýliskjarna.
11.10.2008 23:19
Þjóðin eignast Ísland aftur
Nú þegar kardínálar bankanna og aðrir útrásarvíkingar eru flúnir land eftir að hafa ekki bara selt ömmu sína, heldur og mömmu sína, börn og barnabörn í áralanga skuldafjötra, þá hefur þjóðin í þessu alsherjar hruni þó eignast landið sitt aftur og við getum vissulega óskað okkur til hamingju með það. En þjóðin þarf líka að eignast fiskimiðin á ný til að tryggja framfærslu sína þrátt fyrir ógnvænlegar skuldir þjóðarbúsins. Ekki er lengur boðlegt að fiskurinn í sjónum sé í höndum fárra útvalinna einkaaðila því nú er of mikið í húfi.
Við getum nú byrjað upp á nýtt rétt eins og við gerðum þann 17. júní árið 1944 þegar við tókum okkar fyrstu skref sem fullvalda þjóð. Þá var haldin mikil hátíð á Eyrarbakka. Þennan dag var Eyrabakki ekki lengur undir dönskum fána því hinn Íslenski bláhvíti fáni hafði verið dreginn að húni í fyrsta sinn. Ísland hafði nú hlotið sjálfstæði á ný. Hvarvetna blöktu fánar í þorpinu, hús og garðar víða skreyttir blómum. Samkomusalurinn í Fjölni allur vafin blómafléttum og lyngsveigum.
Dagskráin hófst með skrúðgöngu kl.1.30 eh. Gengið var frá barnaskólanum til kirkju. fremst gengu fánaberar, stúlka á íslenskum búningi og piltur í búningi með íslensku fánalitunum. Næst gekk yngsta kynslóðin allt niður í 3 ára börn. Kynslóðin sem erfa skildi landið og verja sjálfstæði hennar alla sína æfidaga. Öll héldu þau á fánum, og voru hvítklædd með bláum skrautböndum. Þannig voru nálæga 50 börn búinn litum okkar frjálsu þjóðar og litum okkar Eyrarbekkinga. Síðan komu eldri börn og unglingar og svo fullorðnir. Alls tóku 400 manns þátt í skrúðgöngunni eða 2/3 íbúa þorpsins.
Kirkjan okkar var skreytt á hinn virðulegasta hátt með íslenskum blómum en þar messaði sr. Árelíus Níelsson fyrir fullu húsi sem lauk með því að kirkjukórinn söng íslenska þjóðsönginn. Úr kirkju var gengið á samkomusvæði Bakkamanna, en þar hafði verið gert hið fegursta skrauthlið með yfirskriftinni "Ísland lýðveldi 17.júní 1944" Þar hófst skemtun með ávarpi Ólafs Helgasonar oddvita. Ræður héldu Kjartan Ólafsson form. UMFE og Sigurður Kristjánsson kaupmaður og kirkjukórinn söng ættjarðarljóð undir stjórn Kristins Jónassonar organista.
Síðdegis var svo dagskránni framhaldið í Samkomuhúsinu Fjölni, en þar flutti fjallkonan ávarp í ljóðum sem ort voru í tilefni dagsins. Síðan komu fram sögupersónur í búningum síns tíma. Fyrstur var Þorgeir ljósvetningagoði, þá Snorri Sturluson, svo Jón biskup Vidalín o.s.fr. Lásu þeir upp viðeigandi kafla úr egin ritum. Þætti þessum lauk með upplestri sr. Árelíusar úr Fjallræðunni og nýrri bók um og eftir Jón Sigurðsson forseta hins nýstofnaða lýðveldis. Lúðvík Nordal læknir fór með hátíðarljóð sem hann hafði sjálfur samið í tilefni dagsins. Að endingu söng kirkjukórinn "Ó guðs vors lands"
Margt annað var til skemmtunar gert, t.d. skrautsýning sem nefndist "Jónsmessunóttin" en það var ung stúlka íklædd búningi áþekk brúðarslæðum, skreyttum lifandi blómum sem fór með þetta atriði. Hún studdist við blómaskreyttan sprota, en á meðan hún sveif um sviðið í ljósaskrúði, var flutt hið draumfagra kvæði Jóhannesar úr Kötlum: Jónsmessunótt, en það er einmitt sú nótt sem Eyrbekkingar hafa haldið hvað hátíðlegastan, bæði fyrr og síðar.
Nú höfðu Eyrbekkingar sem og aðrir landsmenn eignast nýjan hátíðisdag, þjóðhátíðardaginn 17.júní. Á þessi merku tímamót var rækilega minnt í búðarglugga Sigurðar Kristjánssonar kaupmanns, en þar hafði hann sett upp myndasýningu þar sem saga stjórnarfars á Íslandi var rakin með hinn bláhvíta fána í bakgrunni.
Þó okkar kynslóð hafi klúðrað málunum þá megi næsta kynslóð vonandi vera frelsinu jafn fegin og glöð og sú sem gekk undir bláhvíta fánanum niður Búðarstiginn á 17.júní 1944.
En fyrst þarf almenningur að taka til og skipta um mennina í brúnni sem áttu að vaka yfir velferð þjóðarinnar, en þess í stað flut þetta lið sofandi að feigðar ósi. Þeir vöknuðu ekki upp við vondan draum, nei þeir vöknuðu upp við ömurlegan veruleika. Veruleika sem ekki verður afmáður úr Íslandsögunni.
Nú er það í vorum höndum að gera það sem gera þarf. Að byrja upp á nýtt af miklum þrótti í betra landi vonandi og reynslunni ríkari. Svo lengi sem Íslenski fáninn fær að blakta á björtum himni verður hinn almenni borgari að halda vöku sinni.
01.10.2008 13:34
Seint mun hrafninn hvítur verða.
Krummi er kominn og með krúnki sínu boðar hann til vetrar og segir að brátt muni snjóa í heiði. Nátthrafnar íslands krúnka sig líka saman fjarri kastljósi fjölmiðlanna og reyna að bjarga útrásinni sem virðist vera farinn í hundana. Fyrsta frostnóttin liðin og blessuð sólin skín hér á Bakkann og blessar mannana börn sem ekki þurfa að fóðra hunda sína á verðbréfum. Bæði veður og efnahagsspár gera ráð fyrir að það andi köldu enn um sinn og einkum um nætur. Á meðan situr krummi hátt og bíður síns hrútshaus og gæru skinns.
18.09.2008 22:39
Loksins hraðahindrun á Túngötu
Nú eru hafnar framkvæmdir við gerð hraðahindrunar við Túngötu á Eyrarbakka en rúmt ár er síðan íbúar við götuna afhentu sveitarfélaginu undirskriftalista þar sem óskað var eftir að gerðar yrðu a.m.k. tvær hraðahindranir á götunni. Sveitarstjórn Árborgar brást vel við og lofaði að koma þessu verki af stað svo fljótt sem verða má. Viðbragðsflýtir framkvæmdaraðila hefur hinsvegar orðið ansi langur. Ef við hugsum okkur að brekkusnígill sem ferðast á 1mm hraða á sekúntu hafi lagt af stað frá Selfossi til Eyrarbakka á sama tíma og sveitarstjórnin samþykkti framkvæmdina og ekki unt sér hvíldar alla leið, þá hafi snígillinn komist á Bakkann eftir fjóra mánuði en framkvæmdaraðilinn þurfti hinsvegar 12 mánuði til að komast á Bakkann. Þó má segja að betra sé seint en aldrei
09.03.2008 01:00
Landbrot við Eyrarbakka
Umhverfisnefnd Árborgar hefur samþykkt að kannað verði landbrot og ástand sjóvarnargarða við Eyrarbakka og við Ölfusárósa.Svæðið verði mælt upp með GPS staðsetningartæki svo hægt verði að vakta það í framtíðinni.
Umhverfisnefnd fari í vettvangsferð með þeim heimamönnum sem þekkja til sögu og staðhátta. Í framhaldi af því mun umhverfisnefnd ákvarða frekari aðgerðir og úrbætur í samráði við bæjarráð, framkvæmda-og veitustjórn og aðra sem kunna skil á slíkum málum, segir á vef Árborgar.
- Þarna er greinilega gott má á ferðinni sem "Brimið á Bakkanum" tekur undir. Brim og stórsjóir hafa verið óvenju miklir og kröftugir í allan vetur og hefur stórsjór í a.m.k. tvígang pusast yfir sjóvarnargarðinn og rutt ofan af honum torfi og smásteinum og því ljóst að garðurinn hefur mátt þola mikinn ágáng frá hafinu. Það þarf líkla að hugsa til þess hvort ekki sé þörf á að hækka garðinn um svo sem 1 metra til að tryggja öryggi strandarinnar til fullnustu.
06.02.2008 20:32
Kuldatíð á norðurhveli.
Eins og sjá má af þessu snjó og ískorti frá NOAA frá 5.febr.sl.þá ríkir heimskautavetur um allt norðurhvelið, ef frá er talin ríki vesturevrópu. Mesturhluti Skandinavíu er þakinn snjó og meginhluti allrar Asíu,enda hafa fregnir borist um mikinn kulda og snó í Kína. Ísmyndun á norðurhveli er áþekk og á sama tíma í fyrra en þó ívið minni eins og sjá má á kortinu hér að neðan frá því í janúar 2007.
12.12.2007 21:25
Bombulægð á leiðinni?
Veðurfræðingar eru nú að gera úr því skóna að lægðin sú sem er í þann mund að taka völdin hér og sú sem á eftir kemur séu af þeirri gerðini að nú sé betra að passa sig, því að lægðin sé hratt dýpkandi og geti farið niður í 940 mb. Lægðarmiðjan er þessa stundina skammt vestur af Reykjanesi og um það bil að læsa í okkur klónum svo betra er að vera nú viðbúnari en síðast og fergja nú laust byggingarefni og annað sem getur fokið út í buskan.
11.09.2007 11:04
Hvað eitt síns tíma bíður
það er bjart yfir Bakkanum í dag en þó einhver svali í lofti sem veit á haustið, en í gær blés byrlega í lofti á meðan menn funduðu um skipulagsmál frystihúsreitsins og margur maðurinn steig þar í pontu og pexaði um húsagerðalist.