Flokkur: Umhverfi

30.04.2016 21:12

Þuríðarstígur


Stígurinn milli Eyrarbakka og Stokkseyrar er nú svo til fullgerður, en aðeins á eftir að malbika yfirborðið. Það hefur verið efst á óskalista margra Eyrbekkinga og Stokkseyringa um árabil að gerður yrði göngustígur milli þorpanna og er sá draumur nú að rætast. Fyrsta skóflustungan af þessum 4 km. langa stíg var tekin föstudaginn 7. september 2012 og var heildarkosnaður með malbiki áætlaður um 75 milj. kr. Borgarverk sá um gerð stígsins og eru íbúar þorpsins þegar farnir að nýta hann til útiveru, en stígurinn liggur m.a. um hinar fornu byggðir Hraunshverfis, er þaðan hin viðfræga sjókona Þuríður formaður bjó og fleyri sögulegar persónur. Þetta er líka hin forna leið til kirkju er Eyrbekkingar áttu kirkjusókn til Stokkseyrar og nokkurn vegin sú leið er austanmenn sóttu til Eyrarbakkaverslunar. Er Eyrbekkingum og Stokkseyringum óskað hér til hamingju með stíg þennann og sveitarfélaginu Árborg þökkuð framkvæmdin.

30.04.2016 20:49

Hallskots-skógur

Í Hallskoti er fallegur trjálundur sem Skógræktarfélag Eyrarbakka hefur tekið í fóstur og áformar þar allmikið ræktunarstarf á næstu árum og er undirbúningur þess þegar hafinn. Þarna er upplagður staður fyrir unga sem aldna til að næra andann og njóta kyrrðarinnar. Hallskot er syðstur þeirra bæja er eitt sinn stóðu í Flóagaflshverfi og dregur líklega nafn sitt af Halli þeim er þar fyrstur byggði og sést þar enn móta fyrir bæjarstæðinu. Þar var brunnur góður sem aldrei þraut og nutu nágranar jafnan góðs af. Jón Sigurðsson í Steinsbæ og síðari kona hans Ingunn Óskarsdóttir hófu umfangsmikla trjárækt í Hallskoti fyrir allmörgum árum og mun það upphafið að þessum skógarlundi í Hallskoti. Ýmsir hafa styrkt skógræktarfélag Eyrarbakka til góðra verka og stendur til að koma upp salernisaðstöðu svo fólk geti dvalið í skóginum og notið umhverfisins daglangt.

30.04.2016 20:45

Hraunprýði


"Hraunprýði" heitir þessi staður, oft nefnt "Kría" eftir listaverkinu sem þar er. Land þetta gaf Guðrún Jóhannsdóttir frá Mundakoti til skógræktar. Ungmennafélag Eyrarbakka hafði svo forgöngu um að girða það, og planta þar fyrstu trjáplöntunum 24. maí 1952 segir á vef Eyrarbakki.is. Nú eru 64 ár síðan og trén orðin allhá. Fallegur, en viðkvæmur mosi prýðir hraunhrjúft landið. þó er varasamt að fara um því víða leynast gjótur. "Krían" er því miður farinn að tapa fjöðrunum og mættu eigendur verksins sýna því og minningu Eyrbekkinganna Ragnars Jónssonar frá Mundakoti (Ragnars í Smára er gaf íslenskri alþýðu listasafn sitt) og listamannsins Sigurjóni Ólafssyni viðeigandi sóma og láta fara fram viðgerð.

30.04.2016 20:27

Sandgræðslan

Árið 1911 var hafist handa við uppgræðslu sanda vestan við Eyrarbakka. Það svæði gekk síðan undir nafninu "Sandgræðslan". Uppgræðsla sandanna fór upphaflega þannig fram að hlaðnir voru lágir grjótgarðar (Sjá mynd) í hæfilega reiti til að stöðva hreyfingu sandsins. Síðar tók Landgræðsla ríkisins við að sá melgresi á sandanna sem eru í dag uppgrónir melgresishólar.  Melgrasfræjum var  sáð á árunum milli 1920-1930, en það var búnaðarfélagið sem stóð m.a. að því. Sigurmundur Guðjónsson frá Einarshöfn (d.1985) var einn ötulasti sáðmaður sandanna hér um slóðir. Þegar sandarnir tóku að gróa hófst þar umfangsmikil kartöflurækt sem stóð í miklum blóma fram yfir 1980, en í dag eru þar aðeins fáeinir garðar enn í notkun. Ágætis tjaldsvæði hefur verið búið til austast í Sandgræðslunni sem er oftast  vel nýtt yfir sumartímann.

08.04.2015 23:16

Draumsýn á Eyrarbakka

Opinn kynningarfundur var haldinn að Stað um tillögu að deiliskipulagi miðsvæðis á Eyrarbakka. Höfundar deiliskipulagstillögunar frá Landform kynntu tillöguna og svöruðu fyrirspurnum. Almennt þótti tillagan góð og henni fagnað, en margir þóttust þó sjá fram á að verða komnir í það neðra áður en þessi draumsýn yrði að veruleika.  Margt manna var á fundinum og nokkur umræða skapaðist um nýjan miðbæ á Selfossi, þar sem fyrirhugað er að reisa gerfi- sögualdarþorp í Eyrarbakkastíl og þótti sumum þar vegið að gamla Bakkanum, sem oftlega hefur þurft að sjá á eftir perlum sínum flutta upp að Ölfusárbrú. Var bæjarstjórn  Árborgar nokkuð gagnrýnd fyrir skoðanaleysi um það hvernig "miðbær" þjónaði íbúum sveitarfélagsins best. Óttuðust menn að fyrirhugað  gerfialdarþorp á Selfossi yrði þess valdandi að kippa undirstöðunum undan ferðaþjónustu við ströndina sem hefur verið að byggjast upp á umliðnum árum.

08.10.2014 22:23

Gosmistur frá Holuhrauni

Gosmistur frá Holuhrauni lagðist yfir Flóamenn í dag. Áfram er spáð mengun á þessu svæði.

17.07.2013 23:10

Eyrarbakki og náttúran

Fjölbreytt náttúran á Bakkanum er ferðamönnum hvatning til að staldra við og njóta umhverfisins. Þetta kort ætti að hjálpa til að finna áhugaverða staði til að munda myndavélina, en húsin, fjaran, víðáttumikil náttúra og fjöllin í kring hafa einmitt svo skemtilega myndrænt yfirbragð.

02.09.2012 20:10

Fallegustu garðarnir á Eyrarbakka 2012

Ekkert hefur frést af vali fallegasta garðsins á Eyrarbakka þetta sumarið, en nú er komið haust svo varla verður af því að fallegasti garðurinn verði heiðraður af bæjarfélaginu okkar þetta sumarið. En hér eru myndir af nokkrum fallegum görðum á Eyrarbakka þar sem hver eigandi um sig á heiður skilið.

Túngata 30

Eyrargata 36

Túngata 1

Háeyrarvellir 28

Búðarstígur 14a

Búðarstígur 1

15.06.2012 22:12

Búðarstígur

Götumynd af Eyrarbakka
Gömul götumynd af Eyrarbakka, Búðarstígur í byrjun 7. áratugsins. Fremst er hús Jóns Valgeirs Ólafssonar, þá kirkjan og handan götunnar er Götuhús hið eldra og þá næst Stíghús.

Mynd: Vilborg Benediktsdóttir.

25.02.2012 17:56

Kennileiti í Eyrarbakkafjörum

 Stækka

Original/Upprunanlegt kort af Eyrarbakka. Á þetta gamla kort af Eyrarbakka, hef ég bætt nokkrum örnefnum á helstu kennileiti í Eyrarbakkafjöru og umhverfis þorpið. Vilji menn hinsvegar fræðast frekar um hin fjölmörgu örnefni sem varðveist hafa á Eyrarbakka og nágreni þorpsins, er rétt að vekja athyggli á vandaðri umfjöllun Nafnfræðafélagsins í samantekt Ingu Láru Baldvinsdóttur og Magnúsar Karels Hannessonar sem finna má hér.  Lýsingar fjölmargra örnefna í Eyrarbakkahreppi má nálgast á Eyrarbakki.is

12.10.2011 21:05

Horfinn tími, Eyrarbakki 1982

Mynd: Sjómannadagsblaðið 1982
Mynd: Sjómannadagsblaðið 1982
Efri mynd: Húsið "Vegamót" framan við Skjaldbreið.
Neðri mynd: Tekið af veginum sem lá út á höfn.
Heimild: Sjómannadagsblaðið 1982.

28.09.2011 22:41

Gamla gatan

Mynd: L.mbl. Sigurður Guðjónsson
Mynd. L.mbl. Sigurður GuðjónssonGamla gatan 1977. Hér má sjá að búið er að malbika austurbakkann, en malarvegurinn gamli og holurnar og pollarnir eru enn á vesturbakkanum. Á austurbakkanum eru járnstaurarnir komnir, en tréstararnir eru enn á vesturbakkanum og raflínurnar í loftinu. Malbikið endar austan við Skjaldbreið. Ekki var búið að leggja gangstéttir þegar hér er komið sögu, en voru byggðar í áföngum næstu árin á eftir. Þannig eru flestar gangstéttir á Bakkanum orðnar þrítugar og úr sér gengnar. Mikið hefur verið rætt um það meðal fólks hér í þorpinu að löngu sé orðið tímabært að endurnýja gamlar stéttar ásamt ljósastaurum sem komnir eru fram yfir leyfilegan notkunartíma. Hafði nokkru fé verið lofað af bæjaryfirvöldum á þessu ári til endurbóta 1. áfanga  við austurbakkann, en nokkrir aðilar óskuðu eftir að þeim áfanga yrði frestað.

10.12.2010 00:14

Siglingar um sundin

Sundin á Eyrarbakka eru einkum þrjú. Þ.e. "Rifsós" sem er austast (Mundakotsvarða). það var oft ófært þegar lágsjávað var, og einhver alda úti fyrir. Næst er sund fyrir vestan þorpið, sem nefnist "Einarshafnarsund" og  oft var notað sem þrautalending á Eyrarbakka, en þar urðu eigi að síður sjóslys, þegar mjög lágsjávað var, eða undir og um stórstraumsfjöru. Þar fyrir vestan er sund er heitir "Bússa" eða "Bússusund", (Sundvörðurnar vestast) en var lítið notað fyrir fiskibáta, nema ef sérstaklega stóð á ládeyðu, því ef brim var, gekk hafaldan að nokkru leyti á það flatt eða yfir það, en þetta sund er einna dýpst og breiðast, og stefna þess þannig, að aldan gekk yfir það. Það var notað til innsiglingar verslunarskipana (Skonnorturnar voru kallaðar "Bússur") meðan þau komu til Eyrarbakka, og aldrei nema að brimlaus sjór væri. Eftir að vélbátaútgerð hófst var það notað í meira mæli og urðu þar stundum skæð sjóslys.

Heimild: Sigurður Þorsteinsson í Sjómannablaðinu Víkingi 1.tbl.1950

23.11.2010 23:00

Hrímfagurt eftir frostþokuna



í gærkvöld og nótt gerði töluverða hrímþoku, svo að um tíma sást vart á milli húsa. Í morgun voru tré og runnar og hvaðeina klætt hrími sem færði svolítin jólablæ yfir þorpið, þar til sólin náði að bræða þetta listaverk náttúrunnar að mestu.

Flettingar í dag: 1780
Gestir í dag: 255
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 262070
Samtals gestir: 33882
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 21:42:12