Flokkur: Sögur
20.09.2011 22:00
Gangstéttir og götuljós
Í kvöld var fundað á Eyrarbakka um endurnýjun gangstétta og götuljósa. Af því tilefni er gaman að rifja upp hugleiðingar Eyrbekkings árið 1910:
Hugleiðing á Bakkanum "er gerast kvöldin dimm og löng",
Sólin er að setjast. - Rökkurskuggainir eru þegar byrjaðir að teygja út armana. - Syrtir að í lofti. Mér er sem eg heyri dyn mikinn, sem af vængjataki. - Það er nóttin. Það fer um míg hrollur, eg flýti mér heim. - Eg kemst ekkert áfram, einlægur árekstur, hamingjan góða! Hvar eru götuljósin? spyr eg sjálfan mig og ætla að fara að blessa yflr bæjarstjórnina, en þá man ég það að hún er engin til hérna á Bakkanum, já, það var nú verra gamanið. Hver á þá að kveikja? Hreppsnefndin sagði einhver. Já, það hlýtur þá vist að vera hún, já, guð blessi hreppsnefndina, segi eg, hún veit hvað hún hefir að gera. - En það verður ekki kveikt á engu, maður lifandi, - onei, nei, fyrst að enginn vill taka sig fram um að nota vindinn, já það var líka satt, hann hefði ekki annað að gera en kveikja á kvöldin, nægur tími til fyrir hann, að sækja í sig veðrið í útsynningnum allan daginn og kveikja svo á kvöldin. - Hefir nokkur farið fram á það við hann "herra Storm", að hann gerði eitthvað til gagns, nei nei blessaður, - en hann á þó ef til vill, eða gæti átt rafurmagn í pokahorninu ef látið væri við hann beislið? Já, ekki vil eg nú bíða eftir þvi, og heldur fara í hreppsnefndina og eg læt ekki sitja við orðin tóm, og sest undir gluggana hjá henni og syng hana í svefn, geri henni galdra og risti henni rúnir, ef hún fer ekki að hugsa fyrir götuljósum áður en eg verð búinn að mola í mér hauskúpuna og skaðskemma nefið á náunganum. Mér er annars full alvara, eg ætla að biðja blessaða hreppsnefndina ósköp vel, að gleyma ekki þeim fáu, sem eru Ijóssins börn, en láta hitt ruslið sjá um sig sjálft - og hugsa fyrir götuljósum áður en mesta skammdegismyrkrið skellur á. Já, því má hún ekki gleyma.
Frá fundinum er það skemmst frá að segja að fundurinn samþykkti að fresta fyrirhuguðum framkvæmdum við endurbyggingu fallina gangstétta á Eyrarbakka, en útboð stóð fyrir dyrum.
Heimild: Óþekktur Eyrbekkingur.
06.11.2010 22:29
Eyjólfur sterki á Litla-Hrauni.
Eyjólfur hét maður, er uppi var um miðja 18. öld. (1729) Hann bjó á Litla- Hrauni í Stokkseyrarhreppi er þá hét. Hann var orðlagður fyrir afl og hreysti, og þar að auki var hann glímukappi mikill. Kaupmaðurinn, sem þá var á Eyrarbakka, átti eitt sinn tal við skipherrann á skipi sínu um íslendinga. Gerði skipherra lítið úr íslendingum, og sagðist skyldu koma með þann mann frá útlöndum, sem enginn íslendingur stæði fyrir, en kaupmaður sem hélt íslendingum fram, sagðist skyldu koma með þann íslending, sem enginn útlendingur bæri af. Þeir veðjuðu um þetta. Sumarið eftir kom skipherra með blámann, vígalegan og tröllslegan. Kaupmaður fekk Eyjólf til að glíma við hann. Var Eyjólfur þó tregur til, því að hann var við aldur, og bjóst þar við vægðarlausum viðskiptum. Áður en hann gekk til glímunnar, sívafði hann sig með snæri um kropp og útlimi undir ytri klæðunum. Gat blámaður því hvergi klipið hann til meiðsla. Lengi gerði Eyjólfur ekki annað en að verjast, og þóttist fullreyndur, en blámaðurinn ólmaðist hvað af tók. Loks kom Eyjólfur þó bragði á blámann og feldi hann. Lét hann þá kné fylgja kviði og þjarmaði svo að bringuspölum blámannsins, að blóð gekk af munni hans. Voru þeir þá skildir að, og blámaðurinn leiddur fram á skip. Eyjólfur var þó aldrei samur eftir viðureignina. Sagt er að kaupmaður hafi gefið Eyjólfi veðféð og meira til fyrir þennan sigur. Gekk þessi gíma undir nafninu "Veðmálaglíman".
Sögu þessa skráði Brynjúlfur frá Minna-Núpi eftir munmælasögu og birti í ritinu Huld I, en Brynjúlfur var Eyrbekkingum af góðu kunnur. Saga þessi er afar lík sögunni um þjóðsagnapersónuna Jón Sterka frá Eyrarbakka í ritum Jóns Árnasonar. En að auki eru til margar ýkjusögur um þessa glímu og stundum eignuð öðrum þjóðsagna hetjum. En þessi saga um glímu Eyjólfs er sennilega raunsönnust, en auk þess var Eyjólfur söguleg persóna.
Hann var sonur Símonar i Simbakoti á Eyrarbakka (f. 1681) Björnssonar á Háeyri (f. 1649) Jónssonar. Frá Eyjólfi er komin fjölmenn ætt sem of langt mál er að telja upp hér. En Grímur Gíslason frá Óseyrarnesi var fjórði maður frá Eyjólfi og voru þeir Brynjúlfur samtíða menn.
Heimild: Guðni Jónsson/Fálkinn 22.01.1938
09.02.2010 22:38
Kambsránið 1827
Rán það sem svo er nefnt var framið að Kambi í Árnessýslu aðfararnótt 9.dags febrúar árið 1827. Þá nótt komu þeir ránsmenn Sigurður Gottsveinsson, Jón Geirmundsson, Jón Kolbeinsson og bróðir hans Hafliði að Kambi. Voru þeir skinnklæddir og höfðu strigatuskur og dulur fyrir höfðum sér og fyrir andlitum, til þess að gera sig torkennilega. Foringi þeirra Sigurður Gottsveinsson var útbúinn með langt og oddhvast saxi, sér til varnar og móttstöðu ef á þyrfti að halda.
Þeir komu að bænum um miðnætti í hinu mesta illviðri og brutust inn í bæinn. Fólk allt, Hjörtur bóndi Jónsson, vinnukonur hans tvær og barn 6 ára gamalt voru í fasta svefni. Ránsmenn gengu að rekkjum og gripu heimafólk nakið og færðu niður á gólf og bundu á höndum og fótum. Síðan dysjuðu þeir það allt á gólfinu undir reiðingi, sængurfötum, kvarnastokki, kistu og öðru þvílíku sem þeir náðu að þrífa til í myrkrinu.
Þá tóku þeir til við ránið, brutu upp kistu og kistil sem peningar Hjartar voru geymdir í, en ógnuðu honum á meðan, og kváðust mundu skera hann á háls ef hann segði ekki til peninga sinna. Þá er þeir höfðu rænt meira en 1.000 dala virði í peningum og að auki ýmsum öðrum munum er þeir töldu sig hafa not fyrir, hurfu þeir á braut og skildu fólkið eftir bundið á gólfinu. Foringi þeirra Kambránsmanna vildi leggja eld að húsinu við brottför þeirra en meðreiðarsveinar hans löttu til þess og varð því ekki úr því illvirki.
Þjófafélag þetta hafði ástundað mörg eignarrán á ýmsum stöðum í Árnessýslu, m.a. úr Eyrarbakkaverslun, þar til að upp um þá komst fyrir tilstilli hinnar skarpskyggnu konu Þuríðar formanns á Stokkseyri.
Þennan dag:1913 Aftaka veður og sjógangur, sjógarðar brotna.1972 Loðnufrysting hefst hér.
07.02.2010 23:58
Hús-Magnús
Hús- Magnús var frægur formaður á Bakkanum fyrir aldamótin 1900. Hann var ættaður úr Sölkutóft og fékk viðurnefnið af því að hann var lengi vinnumaður í Húsinu og síðar formaður á skipum dönsku verslunarinnar. Hann var afburða formaður og hugrakkur með eindæmum. Hann kom mörgum sjómanninum til bjargar á ögurstund þegar skip þeirra urðu fyrir áföllum í brimgarðinum og vílaði hann sér ekki við að æða út á móti þeim á skipi sínu fram í bandvitlausan brimgarðinn. Eitt sinn runnu þó tvær grímur á Hús-Magnús:
Jón í Mundakoti og Loftur í Sölkutóft [þá ungir menn] voru hásetar hjá Hús-Manga er hann bjargaði áhöfn Jóns frá Fit þegar skipi hans hlektist á og það fyllti á Rifsósi. Þeir Jón og Loftur voru þeir einu af hásetum Hús-Manga sem eitthvað höfðust að en hinum féllust hendur. Loftur fór um borð í marandi skipið til að skera einn hásetann úr lóðinni sem hann var flæktur í. Meðan á því stóð nálgaðist ólag mikið og skipaði Hús-Mangi að skilja þá eftir og róa til lands en Jón í Mundakoti þreif þá í báða mennina og vippaði þeim eins og ullarballa um borð í skip Hús-Manga og björguðust þeir þannig.
Heimild:SA/ Eyrarbakki - Saga og Atburðir
22.01.2010 16:54
Húsbrot og rupl í Rauðubúð
Vorið 1649 kom hér á Eyrarbakka skip eitt og þótti það ekkert óvenjulegt á þeirri tíð, enda skipakomu jafnan vænst með vorinu. Frá skipinu réru til lands 8 eða 9 strákar og sögðu mönnum að þeir ættu að sækja skreið. Við svo búið tóku þeir til hendinni og brutu upp glergluggana í danska húsinu (Rauðubúðum) og tóku helminginn af skreiðinni og fluttu til skips.
Matthias Söfrensson umboðsmaður á Bessastöðum hafði spurnir af þessum fréttum og sendi menn út á Eyrarbakka sem náðu að handsama þrjá af þessum strákum, en hinir piltarnir dvöldu á skipinu og vörðust þar yfirvaldinu um allnokkra hríð, en að lokum fór svo að yfirvaldið náði þeim öllum og tók skipið í sína vörslu.
Piltarnir voru síðan í gæslu böðulsins á Bessastöðum meðan mál þeirra voru í rannsókn. Foringi piltanna hét Marteinn. Honum tókst að losa sig úr járnum og strjúka frá Bessastaðaböðlinum og hélt norður fyrir jökul, þar sem hann komst um borð í enska duggu. Ekki fylgir sögunni hvað um hina varð, en giska má að þeir hafi ekki orðið langlífir.
Byggt á heimild: Fálkinn 16.tbl.1960 -Sjávarborgin. googleboks
12.12.2009 22:03
Barist við brimið
Það er bjartur og fagur vetrarmorgun á Eyrarbakka skömmu fyrir aldamótin 1900 og sjómennirnir ganga rösklega til skipa sinna. Veðurglöggir formenn leggja eyrarð við sandinn og hlusta efir dynum og dynkjum hafsins. Hin margvíslegu sjávarhljóð virðast boða gott veður þennan dag. Það er asi á piltunum, enda hefur verið fiskisæld á miðunum undanfarna daga.
Páll Andrésson formaður frá Nýjabæ og fleiri formenn af Bakkanum reru teinæringum sínum út af svo kölluðum Hafnarslóðum og dvöldust þar fram eftir degi. Seinni hluta dags bregður til hafáttar og eftir skamma stund er komið snarvitlaust hríðarveður með vaxandi sjávargangi. Teinæringurinn brýst í gegnum hafrótið og ekki sér áralengdina gegnum hríðarmugguna og fjallháar öldurnar kasta þessari bátskel eins og korktappa.
Einn hásetanna er Jón Ásgrímsson, þá rösklega þrítugur og harðreyndur sjómaður eftir margar vertíðir. Hann situr undir einni árinni, þriðji maður til hlés og hver vöðvi og hver sin er spennt til hins ítrasta í sameiginlegu átaki þessa lífróðurs. Þeir ná sundinu og marhvítur brimskaflinn gín við sjónum þegar þeir undirbúa síðasta sprettinn til lands. Allt í einu rís brotsjór fyrir aftan skipið og þeir hverfa í hvítfyssandi flauminn.
Jón hélt enn fast um árinna þegar honum var bjargað ásamt skipsfélögum sínum um borð í annan teinæring sem var undir formennsku Guðmundar Steinssonar. Ekkert sást til Páls Andressonar og annars félaga þeirra og voru þeir brátt taldir af.
Þrjátíu ár líða í tímans ólgu sjó og vélbátar hafa leyst teinæringanna af. Dag einn stendur sextugur öldungur við gluggann sinn og hugar að veðrinu og hann hefur rokið upp í hafátt og undirspilið eru þungar drunur Eyrabakkabrimsins. Fólk tekur að safnast saman í vestasta sjógarðshliðinu og öldungurinn slæst í ört stækkandi hópinn. Jón Ásgrímsson hómopati horfir á litlu ljósdepplanna á mótorbátunum þegar þeir birtast hver af öðrum úti á Bússusundi. Öldungurinn þekkir einn bátinn öðrum fremur því einn af sjómönnunum er einkasonur hans Víglundur að nafni og 30 ára gamall. Allt í einu rís sjór undir hekkið og bátnum hvolfir og hverfur í sortan með manni og mús á þeim sömu slóðum og hann sjálfur barðist við klær brimsins með eina ár að vopni á öld teinæringanna.
Þau voru lengi í minnum höfð, þau orð sem öldungurinn lét falla á þessari stundu. "Þá er Villi minn farinn og mér ber að ganga heim og huga að konu hans og börnum"
Þessi bátur var Sæfari (áður Framtíðin) og var eigandi hans Sigurjón Jónsson á Litlu- Háeyri og Guðfinnur mágur hans. Báturinn fórst 5. apríl 1927. Jón Ásgrímsson hómopati var fæddur á Stærribæ í Grímsnesi og átti hann 21 systkini. Hann flutti síðar með foreldrum sínum að Gljúfri í Ölfusi og þá næst til Eyrarbakka, en Jón varð hvað manna elstur.
Heimild: Þjóðviljinn 122 tbl.
http://fiskimann.blogspot.com/2004/09/sjslysi-bssu-1927.html
Sjóslysið á Bússu 1927
Skipasmíðar
07.12.2009 20:39
Barna-Arndís
Árið 1771, þegar tugthúsið við Arnarhól (Nú stjórnarráðið) átti að heita fullgert bættist þar nýr fangi í hópinn, það var kona um tvítugt. Hún hét Arndís Jónsdóttir og var dæmd í tugthúsið fyrir þrjár barneignir með giftum mönnum. Arndís var ættuð frá Eyrarbakka og höfðu mál hennar vakið allmikið dómastapp, fyrst rekinn í útlegð úr Skaftafellssýslu eftir tvær barneignir þar og síðan dauðadóm á Stokkseyrarþíngi að lokinni þriðju barneign.
En þeim héraðsdómi var af lögþíngisréttinum breytt í fjögurra ára tugthúsvist. Þann 17. desember 1772 ól Arndís Jónsdóttir barn í tugthúsinu og lýsti föður að því samfánga sinn, Flæking nokkurn Arnes Pálsson að nafni og gekkst hann fúslega við faðerninu.
Enn líður hátt á annað ár og 8. ágúst 1774 ól Arndís enn barn og lýsti Arnes föður að, en nú þrætti Arnes. Er þess ekki getið að rekist hafi verið í því frekar og svo undarlega var haldið á málum sem þessum í þá daga, miðað við aðra harðneskju í sakamálum, að slík brot innan veggja tugthússins breyttu eingu um hegningu fanganna.
Árið 1775 lauk vist Arndísar í fangelsinu. Það skipti líka eingum togum að er hún var komin þaðan og setst að hjá foreldrum sínum á Eyrarbakka, ól hún þá sitt sjötta barn er hún hafði aflað sér í tugthúsinu og í það skiptið með vermanni sem reri suður með sjó.
Hófust nú enn réttarsóknir og nýjar barneignir, tvær í viðbót og Arndís dæmd á spunahús í Kaupmannahöfn.Ekkjumaður einn drenglyndur kom í veg fyrir þau ósköp með því að óska þess að mega kvænast Arndísi og úrskurðaði konungur að hún skyldi þar fyrir leyst frá hegningu. Maður þessi dó reyndar áður en af giftingunni varð, en Arndís giftist samt innan skamms.
Var þá málaferlum öllum varðandi barneignir hennar loksins lokið. Sakamál Arndísar Jónsdóttur er einstakt dæmi úr réttarfari þessa tímabils. Um mál hennar var fjallað af þremur sýslumönnum, lögréttu með lögmann í broddi fylkingar, af landfógeta, stiftamtmanni og dómsmálastjórninni í Kaupmannahöfn og loks af konungi sjálfum.
Hvílík fylking virðulegra embættisherra á eftir einni konu! Og allt vegna þess, að
hún vildi ekki láta sér skiljast, hve syndsamlegt það var að dómi samtíðarinnar að hlýða kalli náttúrunnar og tók ein á sig sökina, skrifaði próf. Guðni Jónsson um þetta mál.
Heimild: Úr grein Þorsteins Jónssonar frá Hamri í Tímanum 37.tbl 1962
25.11.2009 21:45
Svaðilför á Jóni Krók
Þrír ungir menn kvöddu dyra á húsi einu á Eyrarbakka kl 5 aðfaranótt mánudagsins 11 oktober 1965. Þegar húsráðandi kom til dyra spurðu þeir hann hvar á landinu þeir væru staddir. Piltarnir sem voru allir úr Vestmannaeyjum höfðu komist í hann krappann í brimgarðinum á vélarvana bát sínum og hrakist upp í fjörusandinn í þoku og svarta myrkri. Þeir höfðu lagt upp á sunnudagsmorgni frá Vestmannaeyjum á litlum bát og ætlað út í Surtsey. Á leiðinni skall á svarta þoka svo þeir viltust af leið, enda voru engin siglingatæki um borð í kænunni, eða nokkuð annað til að gera vart við sig. Síðar um daginn bilaði vélin í bátnum og tók þá að reka undan vindum og straumi.
Á sunnudagskvöldinu var gerð mikil leit að þeim frá Vestmannaeyjum. Björgunarsveitir gengu fjörur og allur síldveiðiflotinn í eyjum tók þátt í leitinni. Bátarnir sigldu vítt og breitt umhverfis eyjarnar í niða þoku og lýstu upp fjörurnar með ljóskösturum. Lóðsinn fór út í Surtsey en urðu þar einskins varir og líklegt að menn hafi verið farnir að óttast um afdrif piltanna.
Báturinn sem piltarnir voru á var frambyggður álbátur og hét Jón Krókur. Eigandi hans var Páll Helgason sem fyrstur sté á land á Syrtlingi, en eyjan kom upp í gosi þetta sama ár en hvarf síðan í hafið um það leiti sem þessi saga gerist. Þessa ferð fór Páll á Jóni Krók. -Þegar piltarnir þrír þeir Kristján Laxfoss, Gretar Skaftason og Helgi Leifsson voru komnir inn á Eyrarbakkabaug var talsverður sjór og ekkert skyggni. Þeir gátu ekkert aðhafst þegar þeir ráku inn í brimgarðinn en gátu skýlt sér með segldúk, en það var þeim til happs að háflóð var og skolaði þeim alla leið upp í sand óskaddaðir. Strax og þeir voru komnir í hús á Bakkanum voru þeir háttaðir upp í rúm og veitt hin besta aðhlynning. Daginn eftir fóru skipbrotsmennirnir með Herjólfi til Eyja og hafa eflaust fengið þar góðar móttökur.
Heimild:Alþýðubl.1965 229tbl ofl.
Bátsnafnið er líklega í höfuðið á Jóni Krók Þorleifssyni d. 1229. Prestur í Gufudal.
10.05.2009 21:15
Fiskhaldari biskups
Klemens Jónsson hét bóndi er bjó í Einarshöfn á Eyrarbakka. Hann var bæði skipasmiður og formaður á egin skipi, en auk þess hafði hann umsjón með fiski Skálholtsbiskups á Eyrarbakka. Þann 7.júli 1728 lagði Jón Árnason biskup (1722-1743) fyrir Klemens að hann sýni kaupmanninum á Eyrarbakka gamlann fisk sem biskup átti og velja eitthvað úr honum ef hann vilji. Þar næst skuli hann láta Norðlendinga þá er beðið höfðu um fisk, hvern um sig hafa það er hann hafi þeim ávísað og það af þeim fiski sem kaupmaður vildi ekki, en væri þó sæmilegur fyrir íslenska. Þar á eftir mátti Klemens að selja öðrum á 5 hesta fyrir 20 álnir hvert hundrað fiska. En það af fiskinum sem maltur væri orðinn eða það lélegur að ekki gengi út á þessu verði, vildi biskup eiga sjálfur til heimabrúks og handa flökkulýðnum er gerði sig heimankomna að Skálholti dag hvern. Jón var með stjórnsamari biskupum landsins en gerði ekki betur en að halda í horfinu um fjárhag stólsins og var hann þó fjárgæslu- og reglumaður. Það kann að vera skýringin á því að hann valdi sér lélegasta fiskinn. Áður hafði Jón verið skólameistari á Hólum og er það líklega ástæðan fyrir því að honum þótti vænna um norðanmenn en aðra.
Heimild: m.a.(Saga Eyrarbakka) Lesb.Morgunbl.22.tbl.1959
26.04.2009 23:20
Hrakningar á miðunum
Að morgni þriðjudagsins 13 apríl 1926 var stórsteymt en afbragðs sjóveður og sást ekki bára á víðáttumiklum haffletinum þegar skipstjórar af Eyrarbakka og Stokkseyri komust á ról og gáðu til veðurs. Því var ákveðið að róa út á miðin enda afla von og lögðu 11 vélbátar út frá Stokkseyri en 7 frá Eyrarbakka. Meðal þeirra var Öðlingur vélbátur Árna Helgasonar í Akri. Þegar leið á hádegi brast hann á með þvílíkum sunnan stormi og sjógangi að þess voru fá dæmi hér um slóðir. Var nú öllum bátum stefnt til lands en aðeins 5 bátar náðu höfn á Stokkseyri og 4 á Eyrarbakka. Hinir 9 sem eftir voru lokuðust úti sökum brims og hröktust undan veðrinu sem stöðugt fór versnandi.
Þegar mönnum í landi þótti útséð með að bátarnir næðu höfn, var símað til Reykjavíkur og aðstoðar óskað. Var þegar brugðist við og þau skip sem til náðist látin vita og ekki leið á löngu, þar til 5 til 10 togarar voru komnir á vettvang og björguðu þeir áhöfnum tveggja báta frá Eyrarbakka og höfðu þá í togi. Meðal þessara togara var Skallagrímur RE, en hann hafði bjargað skipshöfninni af Öðlingi en báturinn sjálfur brotnaði og sökk. Um nóttina lágu togararnir fyrir flestum bátunum, en tveggja báta var þó enn saknað. Annar þeirra komst til Vestmannaeyja næsta morgun og hinn til Reykjavíkur. Stokkseyrarbátarnir komust svo síðar um daginn til Vestmannaeyja í fylgd með togurunum og varð enginn mannskaði af þessum hrakningum.
Heimild: Alþýðublaðið , 86. tölublað, Veðráttan apr.1926
19.04.2009 00:19
Ekki er ein báran stök
Vélbáturinn Guðbjörg ÁR 25 (áður GK 220) var 57 lesta eikarbátur smíðaður í Hafnarfirði 1946 og var eign Sigurðar Guðmundssonar á Eyrarbakka. Veturinn 1965 rak hvert óhappið annað á skipastól Eyrbekkinga. Í byrjun árs strandaði Jón Helgason og gjör eiðilagðist. Hann endaði þjónustu sína sem áramótabrenna. Hann hét áður Maggý VE111 43.tn smíðaður 1944. Eigandi Jóns Helgasonar var Eyrar hf. Skipstjóri Erlingur Ævar Jónsson. Skömmu síðar kom eldur upp í vélbátnum Öðlingi þar sem hann stóð í slippnum og skemdist hann töluvert. Þá komst fjörumaðkur í Emmuna og var hún dreginn í slipp þar sem hún dagaði uppi. Í febrúar þennan vetur strandaði svo Guðbjörgin skömmu eftir að henni var rennt úr slippnum. Þennan vetur voru aðeins fjórir bátar gerðir út frá Bakkanum og hofði nú illa þegar allt leit út fyrir að aðeins einn yrði sjófær.
18.03.2009 21:22
Tóta gamla Gests í Garðbæ
Þórunn Gestsdóttir var fædd 17.mars 1872 að Króki í Meðallandi. Foreldrar hennar voru Gestur Þorsteinsson (Sverrissonar) og Guðrún Pétursdóttir frá Hrútafelli undir Austur Eyjafjöllum. Þórunn ólst upp hjá ömmu sinni og nöfnu Þórunni Jónsdóttur á Kirkjubæjarklaustri. Árið 1883 á 11. ári Þórunnar flutti hún búferlum með ömmu sinni úr V-Skaftafellssýslu og að Valdastöðum í Kaldaðarneshverfi til Olgeirs sonar síns, en Olgeir flutti ári síðar út í Selvog og fór þá gamla konan aftur að basla við búskap.
Þarna var Þórunn hjá ömmu sinni ásamt mállausum föðurbróðir sínum þangað til kaldaðarneskotin (Valdastaðir, Lambastaðir og Móakot) voru sameinuð í eina jörð og Kaldaðarnes (Kallaðarnes) gert að stórbýli af Sigurði sýslumanni Ólafssyni.
Á vetrum fór föðurbróðir Þórunnar til sjáróðra á Eyrarbakka en nöfnunar tvær gengdu húsverkunum á Valdastöðum. Bústofninn var 30 kindur, 3 kýr og 6 hross. Það gat komið fyrir á vetrum að Ölfusá gerði óskunda þegar hún flæddi yfir bakka sína með jakaburði og skildi tún eftir í sárum full af sandi og grjóti. Ölfusá átti það líka til að flæða inn í fjárhúsin án þess að nokkrum vörnum yrði við komið og verða skepnum þar að fjörtjóni.
Þegar amma Þórunnar hætti búskap fóru þau öll til vinnu hjá sýslumanninum og voru þar til gamla konan dó. Næstu fimm árin eftir lát ömmu sinnar var Þórunn vinnukona á Valdastöðum, en þaðan fór hún svo til Eyrarbakka og gerðist lausakona. Þá fór hún í kaupavinnu á sumrin og var lengst af á Bjóluhjáleigu. Á vetrum var hún oftast hjá Jóni Árnasyni kaupmanni í Þorlákshöfn og kyntist hún þar tilvonandi manni sínum, Ólafi í Garðbæ á Eyrarbakka, en hann var þá sendisveinn Guðlaugs Pálssonar kaupmanns á Eyrarbakka. Ólafur var maður stór, þrekinn, prúðmenni, hæglátur og góðgjarn í tali, en Þórunn aftur fjörug og hláturmild. Árin 1902 til 1903 vann Þórunn í eldhúsinu hjá frú Guðmundu Nilsen í Húsinu og lærði þar matreiðslu. Þórunn og Ólafur eignuðust tvær dætur, Ragnheiði og Karen en hún dó um tvítugt.
Þórunn fékk vinnu við verslunina á Eyrarbakka en féll ekki við að troða ull í poka allt sumarið. Hún var vön á sumrin við að vinna úti í hinni lifandi náttúru við grös og skepnur. Hún braut heilan um það hvernig hún gæti eignast kind, bara eitt lítið lamb. Og svo kom að því að hún keypti lamb. En Ólafi leist ekki á þetta framtak og sagði: "Tja, hvað ætlar þú nú að gera við þetta?
Þórunn dró af kaupinu sínu 4 krónur og fyrir það fékk hún fallega svarta gimbur. Þetta gerði hún á hverju ári þar til hún hafði eignast 7 kindur. Kindunum fjölgaði og hún hætti að troða ull í poka og fór að heyja á engjunum handa kindunum sínum. Þegar fyrra stríðið skall á þá sagði Ólafur" Tja, nú er gott að þurfa ekki að kaupa kjöt"
Þórunn hafði rétt á engjastykki í Straumnesi, en tjald sitt hafði hún á Stakkhól og dvaldi þar 6 vikur á sumri og heyjaði 100 til 114 hesta af stör. Á engjunum heyjuðu flestir Eyrbekkingar og lágu þar við yfir sláttin en komu aðeins heim um helgar. Allir hjálpuðust að við heybindingar og flutning niður á Bakka.
Þórunn ann kindunum sínum af lífi og sál. Á vorin vaknaði hún snemma morguns til að fara út á mýri, til þess að líta eftir blessuðum kindunum,og lét ekki aftra sér þó oft væri þar kalsamt og blautt. Engu skipti hvort var dagur eða nótt þegar kindurnar voru annars vegar. Stundum var henni ekki svefnsamt fyrir áhyggjum af litlu lömbunum og dreif hún sig þá út á mýri um miðjar nætur. En svo kom mæðuveikin og varð Þórunn að fella sínar 30 kindur vegna þess. En Tóta ætlar ekki að troða ull, og því tók hún það til bragðs að kaupa kú sem *Búkolla hét og eina kvígu og nokkrar hænur, auk þess sem hún ræktaði kartöflur og gulrætur. Lifði hún á þessu eftir að Ólafur hennar féll frá og var hún enn að þó kominn væri á tíræðis aldur. Eflaust muna margir Eyrbekkingar enn þann dag í dag eftir henni Tótu Gests. Þórunn dó 19. júní 1967 þá 95 ára gömul.
Heimild: Morgunblaðið 63.tbl.1952
*Kýrin hét "Gulrót" og hana keypti Þórunn af Lýð Pálssyni í Litlu Sandvík fyrir gulrætur sbr. blogg Lýðs yngri.
05.02.2009 23:36
Þyrnirós
þessi frétt birtist í Ísafold 11 nóvember 1899
Ung stúlka á Eyrarbakka, vinnu-
kona hjá héraðslækninum þar, var
fyrir nokkrum dögum búin að sofa á
aðra viku samfleytt, og tókst ekki að
vekja hana, hverra ráða sem i var
leitað.
18.01.2009 22:36
Hafnardeilan
Lefolii hafði verið einráð um verslun á Eyrarbakka allt þar til árið 1860 að framtaksamur bóndi nokkur Einar Jónsson að nafni fékk sér borgarabréf sem kallað var og byrjaði dálitla verslun í smáum stíl. Af þessu hlaut Einar viðurnefni sitt og var eftileiðis nefndur Einar borgari. Hann stundaði ekki innflutning eins og Lefolli verslun og aðrir kaupmenn heldur keypti hann vörur sínar í Reykjavík á næri sama búðarverði og þar og flutti þær austur yfir fjall á hestbökum og seldi svo með nokkurri álagningu.
Árið 1870 kom ungur Skaftfellingur til sjóróðra á Eyrarbakka, Guðmundur Ísleifsson að nafni og fjórum árum síðar var hann orðinn formaður á einu af þeim sex róðraskipum sem gengu þá á Eyrarbakka. Margir tóku Guðmund sér til eftirbreytni og jókst sjávarútvegur mjög á Bakkanum. (1891 gengu 30 teinæringar af Eyrarbakka og voru venjulega 13 menn á hverju skipi.) Fólki fjölgaði að sama skapi og þrefaldaðist íbúatalan á fáum árum.
Guðmundur fór um þessar mundir að huga að verslunarrekstri og árið 1886 hóf hann innflutning á vörum frá útlöndum ásamt Einari borgara. Það sem stóð þeim félögum fyrir þrifum í þessu efni var að Lefolii átti allar tiltækar akkerisfestar í Eyrarbakkahöfn og bannaði keppinautum sínum aðgang að þeim.
Þeir félagar Guðmundur og Einar sáu sig því tilneydda að leggja sínar egin festar í höfnina vestan við festar Lefolii verslunar eftir að beiðni þeirra um leigu á festum var hafnað af Lefolii. Þeir hófu þetta verk 31.janúar 1888 í trássi við bann Lefolii. En svo háttaði til að Lefolli verslun átti land það og skerin þar sem Guðmundi og Einari þótti hentugast að leggja festar sínar.
Þann 7. febrúar fékk Lefolii sýslumann Árnesinga til að lýsa banni réttarins á áframhaldandi framkvæmdir félaganna. Til að fá þetta bann staðfest þurfti Lefolii að höfða mál og var það dæmt í héraði 8.ágúst 1888. Féll héraðsdómur svo að bannið var fellt úr gildi. Þann 25. febrúar 1889 staðfesti yfirdómurinn í Reykjavík héraðsdóminn (Einn dómari var á móti L.E.Sveinbjörnsson)
Lefolii skaut máli sínu til hæstaréttar í Kaupmannahöfn og var dæmt í málinu veturinn 1890 og var þeim kaupmönnum Guðmundi og Einari bannað að halda áfram að leggja festar sínar.
Þetta mál fór brátt úr því að vera einkamál þeirra Lefoliis, Guðmundar og Einars í það að verða eitt brýnasta hagsmuna og velferðarmál Sunnlendinga og landsins alls í þeirri viðleitni að auka samkeppni og frelsi í viðskiptum.
Heimild: Lögberg (júli 1891)
11.12.2008 21:12
Olaf Rye
Skonnortan Olaf Rye var í eigu Eyrarbakkaverslunar og var hið vandaðast og besta skip og taldist með stærri skipum er hingað komu. Í oktober 1859 átti það að losa stóran kornfarm og aðrar nauðsynjar á Eyrarbakka. Skipið komst þó ekki inn í höfnina, líklega vegna brims og var því siglt til Hafnafjarðar, en þar átti Leofolii einnig verslun Levinsens. Þegar skipið hafði verið losað þessum varningi, þá var það lestað salti sem átti að sigla með til Njarðvíkur. Þegar til Njarðvíkur kom lenti skipið í norðan fárviðri og fórst. Hafnfyrðingum skorti hinsvegar ekki kornvöru þennan veturinn, en aðra sögu er að segja veturinn 1861.
Þann 1.oktober 1861 strandaði stórt verslunarskip sem legið hafði á ytrilegunni á Eyrarbakka. Lokið var við uppskipun þegar atburðurinn gerðist. Skipið hafði flutt 900 tunnur af matvælum auk annars varnings til Eyrarbakkaverslunar. Skipið átti síðan að halda til Hafnafjarðar með 150 tunnur af matvælum til verslunar Levinsens en þar var þá orðið kornlaust, sem og í Reykjavík. Á Bakkanum hafði skipið auk þess verið lestað 70 skipspundum af saltfiski og fáeinum sekkjum af ull þegar það slitnaði upp af ytrilegunni sem jafnan hefur verið talin ótraust, en annað var ekki í boði þar sem á innri legunni lá jaktskip sem verið var að lesta nautakjöti til útflutnings, en það var nýmæli hér á landi, sem verslunarstjóri Thorgrímssen stóð fyrir. Skipið brotnaði í spón og sökk að hluta. Allir menn björguðust, en þetta var 4 vöruskipið sem ferst á Eyrarbakka frá árinu 1846.
Heimild. Þjóðólfur og Íslendingur 1859 og 1861.