Flokkur: Fólkið.

15.07.2012 22:37

Brynjólfur Guðjónsson

Brynjólfur GuðjónssonBrynjólfur [Sonur Guðjóns Jónssonar bónda og formanns á Litlu-Háeyri (1865-1945), og Jóhönnu Jónsdóttur frá Minna-Núpi (1879-1957)] var fæddur að Litlu-Háeyri á Eyrarbakka 19. nóvember 1915 og bróðir Sigurðar Guðjónssonar á Litlu-Háeyri er lengi var þjóðkunnur skipstjóri á Kveldúlfstogaranum Skallagrími. Brynjólfur var kornungur, er hann réðist á togara. Fyrst fór hann á Þórólf, til Kolbeins föðurbróður síns, en er Sigurður bróðir hans varð skipstjóri á Skallagrimi árið 1936, réðist hann þangað og var þar æ síðan. Brynjólfur átti hlut í litlum bát á Eyrarbakka, Hafsteinn ÁR-201 sem róið var á í frístundum og var hann formaður fyrir honum. Brynjólfur, kvæntist 1945 Fanneyju Hannesdóttur og áttu þau eitt barn. Togarinn Skallagrímur, fór í eina af sínum hefðbundnu veiðiferðum sumarið 1946. Í þessari ferð var komið við á Patreksfirði og var settur þar í land maður er fengið hafði blóðeitrun, en skipið hélt svo áfram og byrjaði að toga út af Önundarfirði. Laugardagsmorguninn 6. júlí var Skallagrimur að veiðum undan Barða. Um hálf ellefu leytið festist varpan skyndilega í botni og rifu vírarnir upp síðupollann stjórnborðsmegin. Fjórir háseta, er við vinnu voru á þilfari, urðu fyrir vírunum og stórslösuðust, en Brynjólfur var einn þeirra. Reynt var að hjúkra þeim, svo sem kostur var á um borð. Jafnskjótt og pollinn hafði losnað var höggvið á vírana og stefnt með fullri ferð til Flateyrar og var komið þangað rétt fyrir hádegi. Um það bil, er skipið var að koma i höfn, andaðist Brynjólfur, en hann hafði aldrei komist til meðvitundar frá því hann slasaðist, en annar hinna slösuðu háseta lést einnig skömmu síðar.

Heimild: Ægir 1946, Þjóðólfur 1946  http://www.facebook.com/notes/b .. Útgerð og bátar frá Eyrarbakka

24.03.2012 22:02

HÁEYRARDRÁPA

Guðmundur Ísleifsson á HáeyriVeturinn 1910 var umræða manna á meðal um að danskur skipstjóri hefði  fengið heiðurspening úr gulli frá konunginum fyrir það, að bjarga tveimur strákhvolpum upp úr sjónum inni á höfn hér við land, en Guðmundur gamli á Háeyri - hann fengi ekki neitt fyrir sín afreksverk. þá var þetta kveðið:



 

Guðmundur heitir

garpurinn frægi

úti á gamla

Eyrar-bakka.

Ef hans er kuggur

kyrr í lægi,

þorir enginn

við Unnir makka.

 

Guðmundar eru' ei

gelur viltar:

Á miðjum degi

dimmir á Bakka..

Kallar hann þá:

"Komið, piltar,

verið fljótir

í verstakka".

 

Segl hann þenur

og sjónhending

hleypir þráðbeina

til Þorlákshafnar.

Þar er í stormum

þrauta-lending,

víkin aðdjúp

og varir jafnar.

 

Vaskra formanna

foringi er hann,

þeirra er ýta

frá Eyrar-bakka.

Eins og höfðingi

af þeim ber hann.

Fjölmargir honum

fjör sitt þakka.

 

Segir hann hvast

við sveina horska:

"Við förum eigi

færi að greiða;

í dag á ekki

að draga þorska;

nú skal á mið

til mannveiða".

 

Formenn tuttugu

fara á eftir,

eins og svani

ungar fylgja,

hreppa lendingu

hart að kreptir.

Sleppifeng

varð fár-bylgja

 

Helblind eru sker

og hár hver boði

úti fyrir

Eyrar-bakka.

Þegar sjó brimar

er búinn voði,

ef lagt er fleyi

leið skakka.

 

Teinæringinn

út hann setur.

Byrstast hvítar

brúnir á Ægi.

Guðmundur öllum

öðrum betur

kann í sundum

að sæta lagi.

 

Ef þið komið

á Eyrar-bakka,

kvikur er enn

í karli dreyri.

En leitið ekki

um lága slakka.

Hetjan býr

á Há-eyri.

 

Það var á vetrarvertíð

einni,

árdagur fagur

og útlitsgóður;

vermönnum þótti

venju seinni

Guðmundur til,

að greiða róður.

 

Skamt fyrir utan

sker og boða

tuttugu ferjur

fljóta' á bárum,

ætla sjer búinn

beinan voða,

fáráðar, líkt og

fuglar í sárum.

 

Manna er hann

mestur á velli,

herði-breiður

og brúna-þungur,

kominn langt

á leið til elli,

sifelt þó

í sinni ungur.

 

Hann í allar

áttir starir,

snýr svo breiðu

baki að sandi:

"Einráðir skuluð

um ykkar farir,

en jeg mun í dag

drolla í Iandi"

 

En þegar gamla

garpinn sjá þeir

renna skeið

úr skerja-greipum,

kviknar hugur,

krafta fá þeir,

óhræddir fyrir

öðru en sneypum.

 

Engin hlýtur hann

heiðurs-merkin,

en færið karli

kvæði þetta.

Veit jeg að fyrir

frægðar-verkin

honum mun Saga

sæmdir rjetta.

 

Hjala vermenn:

"Ei var hann bleyða,

en nú er gengið

garpi hraustum".

Bjart var loft

og ládeyða.

Skipin, tuttugu,

skriðu' úr naustum.

 

Aldrei gerast

orðmargar

hetju-ræður,

en hnífi jafnar:

"Við Eyrar er boði,

sem bleyðum fargar,

stefnum því

til Þorlákshafnar".

 

Góður var fengur

Guðmundar,

er fleyin úr voða

færði að sandi.

Skal því honum

til skapa-stundar

hróður vís

á voru landi.

            Gestur.


Guðmundur Ísleifsson í sjóklæðumGuðmundur ísleifsson á Háeyri var fæddur 17. janúar 1850 á Suður-Götum í Mýrdal og ólst upp í fátækt. Hann réðist ungur vinnumaður til Guðmundar Thorgrimsens á Eyrarbakka. Skömmu síðar fór hann að Háeyri og kvæntist þar Sigríði dóttur Þorleifs heitins ríka. Guðmund'ur byrjaði snemma formensku og umbreylti þá bátaútvegi og sjómensku á Eyrarbakka. Sjálfur var hann ágætis formaður og fiskisæll og gengu mikiar sögur héðan af sjósókn hans og formensku fyr á árum, en fæstar þó ratað á blað. Kaupmaður var Guðmundur um eitt skeið; varð verslun hans gjaldþrota. Konungsverðlaun hlaut hann eitt sinn og tvívegis verðlaun úr Ræktunarsjóði. Að Háeyri gerði hann mjög miklar jarðabætur, girt, grafið skurði og aukið matjurtagarða.

Heimild: Tímaritið Óðinn 8. árgangur 1912-1913, 6. tölublað, Blaðsíða 44.

31.01.2012 21:35

"Musik In The Air"

Björgúlfur GunnarssonBjörgúlfur Gunnarsson (1924-2007) fæddist á Eyrarbakka og ólst upp hjá afa sínum og ömmu í Akbraut, Andreu Pálsdóttur og Þorbirni Hjartarsyni.  Faðir hans fórst með togaranum Sviða hinn 2. des. 1941. Eftir að Björgúlfur lauk námi í Loftskeytaskólanum árið 1948 vann hann í fjarskiptastöðinni í Gufunesi um 7 ára skeið. Öðlaðist hann þar m. a. mikla reynslu í fjarskiptum við flugvélar í Atlantshafsflugi. Um tveggja og hálfs árs skeið starfaði hann hjá Upplýsingaþjónustu Bandaríkjanna við móttöku morse-fréttasendinga. Björgúlfur þótti afar fær loftskeytamaður. Þegar hann sendi mors þá var "music in the air" eins og loftskeytamenn sögðu stundum.  Árið 1958 hóf hann störf fyrir S.Þ  hjá  fjarskiptaþjónustunni í Ísrael, en á þessum tímum höfðu Sameinuðu þjóðirnar öflugar gæslusveitir á þessum slóðum. Þá var honum einnig falið það verkefni að Akbrautsetja upp fjarskiptastöð í Kongó í Afríku. Árið 1964 hóf hann starf sem loftskeytamaður hjá ísraelska flugfélaginu El Al og lauk hann starfsæfi sinni hjá því félagi. Björgúlfur giftist þarlendri konu.

Heimild: http://mbl.is/greinasafn/grein/1182082/  Tímarit.is/Morgunbl.23.sep.1958. http://www.trkoed.dk/Familien/stor_familie/html/fam/fam13945.html  
---------

Gunnar HjörleifssonGunnar Hjörleifsson (1892-1941) fæddist við hafsins nið hér á Eyrarbakka. Hann Togarinn "Sviði"kvæntist árið 1920 Björgu Björgúlfsdóttur, einnig frá Eyrarbakka. Árið 1922 réðist Gunnar á togarann "Baldur" og var á honum til 1928, en það ár fór hann á Sviða GK 7 frá Hafnafirði og var óslitið á honum til síðustu ferðarinnar. "Sviði" fórst í aftaka veðri úti fyrir snæfellsnesi 2.desember 1941 og með honum 25 sjómenn. Togarinn var þá á heimleið eftir veiðar úti fyrir Vestfjörðum. Sviði" var 328 tonn brúttó. Bygður í Skotlandi 1918.

 

Heimild: timarit.is/morgunbl.7.des.1941/Alþýðubl.9.jul.1942. http://solir.blog.is/blog/solir/entry/1208890/ Wikipedia.


 

29.01.2012 21:24

Kolbeinn kafteinn

Kolbeinn SigurðssonKolbeinn Sigurðsson (1892-1974) átti að baki langan skipstjóraferil. Hann byrjaði sjómennsku um fermingaraldur, fyrst á áraskipunum, svo á skútu og síðan á togurum mestan hluta ævi sinnar. Kolbeinn var Eyrbekkingur að ætt, og að honum stóðu ættir héðan. Móðir hans var Viktoría Þorkelsdóttir frá Óseyrarnesi, og faðir Sigurður Jónsson frá Litlu- Háeyri. Þau bjuggu á Akri á Eyrarbakka. Sigurður var formaður á Eyrarbakka og Þorlákshöfn meðan honum entist aldur, en lést á besta aldri, um fertugt. Systkini Kolbeins voru Jón, sem lengi var skipstjóri á bv. Hilmi, Hannesína, Þórdís og Ólafur.

Uppvaxtarár Kolbeins framanaf liðu á svipaðan hátt og jafnaldra hans, við leiki í fjöru og flæðarmáli, bíðandi með óþreyju eftir því, að sér yrði trúað fyrir því, að beita, eða ynna af hendi störf svipaðs eðlis. Og að því kom, að slík störf tóku við, þar til farið var að róa fyrir hálfum hlut fyrst og síðan fyrir fullum, sem var eftirsótt takmark allra hraustra stráka á þeim árum. Nokkrar vertíðir reri hann svo á Eyrarbakka og Þorlákshöfn. Leiðin lá síðan í kjölfar bróður síns Jóns, á skúturnar, eins og áður er að vikið hér í annari grein. Kolbeinn  lét sér fátt í augum vaxa, enda mjög eftirsóttur á þau skip. Kolbeinn lauk prófi frá stýrimannaskólanum í Reykjavík 1914. Gerðist hann brátt stýrimaður á togurum, og síðan skipstjóri á togurum Duusfélagsins Ásu og Ólafi. Þar næst á skipum Kveldúlfs, Þórólfi [Þórólfur kom 1920, smíðaður í Englandi, seldur til niðurrifs 1950. Gott happaskip.]í mörg ár og síðast Agli Skallagrímssyni, þegar það skip kom nýtt  og var á því þar til hann hætti skipstjórn. [Egill Skallagrímsson, var smíðaður 1915, en Bretar notuðu hann í stríðinu, og þótti herskár eins og nafni hans forðum. Kom til íslands 1919. Seldur til Svíþjóðar um 1950 og hét þá Drangey.]

Togarinn Þórólfur var mikið aflaskip.Kolbeinn var í fremstu röð sem aflamaður, hvort heldur var um að ræða botnvörpuveiðar, eða síldveiðar. Stundaði starfið af kappi, en þó með forsjá, bæði á friðartímum sem á stríðstímum, í báðum heimsstyrjöldunum. Hann var einn af skipshöfn Bb. Njarðar þegar hann var skotinn í kaf  við England [1918] en mannbjörg varð. "Njörður" var eitt af happaskipum íslendinga á sinni tíð, og þótti mikil eftirsjá að honum úr íslenska flotanum. Njörður var frá Fleetwood (áður Velia). Sökkt af kafbáti 1918.


Kolbeinn átti Ingileifu Gísladóttur frá Reykjavík 1926. Þau eignuðust fjögur börn: Sigurð, Gísla, Viktoríu og Kolbein Inga.

Heimild: Tímarit.is, Sigurður Guðjónsson /Sjómannabl. Víkingur 2.tbl.1974 og 6-7 tbl.1962. Skeggi 2.tbl.1918.

29.01.2012 17:37

Jón á Hilmi

Jón Sigurðsson frá Akri.Jón Sigurðsson skipstjóri á Hilmi RE 240 var Eyrbekkingur að ætt, og að honum stóðu ættir héðan. Móðir hans var Viktoría Þorkellsdóttir frá Óseyrarnesi, og faðir hans Sigurður Jónsson frá Litlu-Háeyri. Þau bjuggu á Akri á Eyrarbakka. Börn þeirra voru Jón, Kolbeinn, Hannesína og Ólafur. Sigurður var formaður á Eyrarbakka og Þorlákshöfn, meðan honum entist aldur, en lést á besta aldri, rúmlega fertugur. Fyrstu uppvaxtarár Jóns munu hafa verið svipuð og annarra drengja á þeim árum, hugur þeirra og athafnir voru bundnar við sjóinn og sjávarnytjar. Fyrstu störf og sjóferðir voru bundnar við fjöruna og reynt að verða að gagni, með því að fara í sölvafjöru eða þangfjöru, með þeim fullorðnu, því þá voru fjörugögnin liður í því, sem afla þurfti til líf sframfæris. Um fermingaraldur öðluðust þeir þann vegsauka, að verða beitingadrengir, uppá hálfan hlut. Venjulega fylgdu þeir fjórir hverju skipi, meðan lóðin var aðalveiðarfæri áraskipanna. Á árunum báðumegin við síðustu aldamótin 1900var oftast nógur fiskur þegar á sjóinn varð komist. Var því oft róið oftar en einusinni á dag, fór það að sjálfsögðu eftir veðri og sjó. Urðu þá beitustrákarnir að hafa beitta línu tilbúna, þegar að var komið. Beitukofi tilheyrði hverju skipi og í þeim var beitt, en heldur var það kaldsamt verk, í frosthörkum, en þó heldur skárra í þeim, sem niðurgrafnir voru. En um það tjóaði ekki að fást, beitan varð að komast á önglana og línan að vera tilbúin í næsta róður. Menn börðu sér þá til hita, þegar fingurnir voru orðnir loppnir, en ekki var kvartað, það þótti lítilmannlegt, og ekki vænlegt til þess, að verða hlutgengur í skiprúm, sem fullgildur háseti, en til þess stóð hugur drengja á þessum aldri.

Ungur fór hann á skúturnar við Faxaflóa á sumrinu, þó kom fljótt að því, að hann var á þeim allt Hilmir RE 240úthaldið, enda eftirsóttur og lipurmenni, og sjómaður í fremstu röð. Jón var stýrimaður á skútu eftir að hafa lokið prófi í þeim fræðum. En um það leyti var botnvarpan að halda innreið sína í sjávarútveginn, og með henni var brotið blað í atvinnuháttum þjóðarinnar. Skúturnar voru lagðar niður og sú veiðiaðferð, sem við þær voru bundnar. Í þeirra stað komu togararnir, með sína miklu möguleika. Jóni fór, sem mörgum ungum og áhugasömum mönnum, sem hlýddu kalli tímans og framfaranna, og flutti sig yfir á þá, og varð brátt stýrimaður á ýmsum þeirra, svo sem Belgaum, Draupni og Apríl. Skipstjóri varð hann fyrst á B.v. Surprise, þeim fyrri með því nafni. Síðan tók hann við skipstjórn á B.v. Hilmi, og var meðeigandi að því skipi og stýrði því langt árabil og fram yfir heimsstyrjöldina síðari. Þá var skipið selt til innlendra aðila, (hét þá Kópanes RE 240 ) sem seldu það svo nokkru síðar til Færeyja [til Rituvikar Trawlers í Færeyjum og hét þá Skoraklettur VN 25.Örlög togarans urðu þau að hann strandaði við Færingehavn á vestur Grænlandi 15 maí 1955 og var rifinn á strandstað.]. Hilmir RE var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby Englandi árið 1913 hét þá T.R.Ferens H 1027. Hilmir var gufuknúinn og 307 tn. að stærð.

Jón kvæntist 1914 Jónínu Jónsdóttur frá Helluvaði á Rangárvöllum. Börn þeirra voru Viktoría, Elín og Sigurður.

Heimild: Sigurður Guðjónsson/Sjómannablaðið Víkingur 4.tbl.1973 og http://krusi.123.is/blog/record/400831/

01.12.2011 23:24

Þórdís ljósmóðir

Þórdís SímonardóttirÞórdís Símonardóttir (f.22.09.1853. að Kvikstöðum í Borgarfirði. d. 4.6.1933) nam ung ljósmóðurstörf hjá Þorbjörgu Sveinsdóttur (systur Benedikts Sveinssonar, alþingism.) Átján ára hafði hún lokið námi, og fluttist þá útlærð ljósmóðir í Biskupstungur og gegndi þar starfi í 8 ár. Síðan var hún skipuð ljósmóðir á Eyrarbakka, Þar sem hún gengdi ljósmóðurstörfum til dauðadags. Tómthúsfólk, sem flest átti við þröng kjör að búa, áttu fylgi Þórdísar í öllu, sem til góðs mátti vera, hún studdi við réttindabaráttu og menningu þessa fólks og tók virkan þátt í félagsmálum, verkalýðs og kvenréttindabaráttu og áfengisvörnum. Síðustu árin kenndi hún börnum að lesa, en það var lengi til siðs á Bakkanum að eldri kvenfélagskonur tækju að sér lestrarkennslu 6-7 ára barna.

Þórdís giftist Bergsteini Jónssyni, söðlasmið, árið 1890, en hann dó ungur. Seinni maður Þórdísar var Jóhannes Sveinsson, úrsmiður, en þau skildu samvistir. Eignuðust þau eina dóttur, Ágústu Jóhannesdóttur er lengi bjó í Brennu og kenndi hún einnig mörgum börnum að lesa á sínum efri árum.

Heimild: Hlín 1954

29.10.2011 23:04

"Best verður að fara til Brasilíu"

Þetta var viðkvæði á Eyrarbakka fyrir hart nær 150 árum en það átti þó eftir að breytast.

Maður er nefndur "William Wickmann, danskur að ætt. Hafði hann dvalið um 10 ár á Íslandi sem Washington Island Town Governmentverslunarþjónn, fyrst í Reykjavík og síðan í Hafnarfirði og á Eyrarbakka. Um haustið 1865 fór hann af íslandi áleiðis til Bandaríkjanna, og lenti hann í Milwaukee í Wisconsin-ríki. Hann átti þar ættingja, sem hann fór að vitja. "Wickmann þessi skrifaðist á við fyrrum húsbónda sinn, Guðmund. Tlhorgrimsen á Eyrarbakka  og lét hann í bréfum sínum vel yfir stöðu sinni i hinum nýja heimi. Hrósaði mjög landkostum, og meðal annars áleit hann að fiskurinn i Michigan-vatninu væri stór og óþrjótandi gullkista, sem ýmsar þjóðir ysu úr, og að Islendingar mundu hafa sama rétt og aðrir að seilast ofan í kistuna og fá sinn hlut. Vera kann nú, að Wickmann hafi séð björtu hliðina á sínu nýja heimkynni, og eins og ungum mönnum oft er hætt við, ekki gáð að skuggahliðinni, og þessvegna lofað landið, ef til vill um of. En bréf Williams til Guðmundar Thorgrímssens á Eyrarbakka varð öðrum hvatning til að feta í fótspor hans.

Árið 1870, þann 12. dag maímánaðar, fóru af Eyrarbakka þrír ungir menn til Vesturheims, voru þeir: Jón Gíslason (f.12.12.1849 í Kálfholti í Holtasveit) búðarsveinn við Lefolii-verslun, Guðmundur Guðmundsson (f .8.7.1840 á Litla-Hrauni) formaður á Eyrarbakka og Árni Guðmundsson ( fæddur að Gamlahliði á Álftanesi 24. október 1845.), vinnumaður hjá G. Thorgrímssen  en Jón Einarsson bættist við hópinn í Reykjavík. Hinn fyrst nefndi var forsprakkinn, og lánaði hann hinum tveimur síðast nefndu fé til fararinnar, en Guðmundur fór upp á sínar eigin spítur. Jón hafði tekið arf eftir föður sinn, sem hann hafði óskertan, svo hann stóð betur að vigi en flestir aðrir i þessari byggð til að fara af landi burt, og kom arfurinn honum nú að góðu haldi, og einnig þeim sem slógust í förina með honum.

Jón GíslasonHinn 12. maí lögðu þeir félagar á stað frá Eyrarbakka landveg til Reykjavíkur, og eftir fárra daga dvöl í höfuðborginni tóku þeir sér far með póstskipinu "Díana" til Kaupmannahafnar. Á meðan þeir stóðu við í Reykjavik, reyndu ýmsir að telja þá af að leggja út í þessa glæfraför. Einn var meira að segja fullvissaður um, að ef hann færi vestur, yrði hann étinn upp með húð og hári, en ef ske kynni að hann ekki lenti þar sem mannæturnar héldu til, yrði hann gerður að þræli-svertingja líkast til? En þeir  félagar héldu sinu striki og töku sér far með ,,Diönu", eins og áður er sagt, til höfuðstaðar Danmerkur. Skipið kom við í Færeyjum og Shetlandseyjum, og að endingu lagðist það við festar í Kaupmannahöfn. Þeir félagar stóðu þar við í 4 daga, og notuðu tímann til að hitta ýmsa landa sína þar og skoða hið markverðasta í þeirri fögru borg. Hinn 3. júni lögðu þeir á stað með gufuskipinu "Pacific" til Hull, og eftir að þar var lent, fóru þeir með járnbraut tíl Liverpool. Frá Liverpool fóru þeir á Allanlínu- skipinu "Austrian". Þeir fengu harða og langa útivist-sífelda storma af austri, og var sjógangurinn gríðarlegur, farþegar og farangur kastaðist til og frá í skipinu; tóku þá Eyrbekkingarnir það ráð, að skorða sig milli bekkja niður í skipinu og spiluðu  Vist  dag eftir dag sér til dægrastyttingar. Þeir lentu í Quebec 18. eða 19. júní. Þaðan fóru þeir áleiðis til Milwaukee, en höfðu svo miklar tafir á leiðinni, eins og títt er með vörulestum Guðmundur(freight trains) að þeir komu ekki til Milwaukee fyrr en þann 27. s. mán. Farbréf fyrir hvern kostaði 94 ríkisdali ríkismyntar frá Kaupmannahöfn til Milwaukee. Dvöldu þeir um tíma í Milwatrkee, en Jón fór um haustið til Washington Island og keypti þar land í félagi við William Wickmann, sem áður er getið. Létu þeir félagar þá höggva skóg á landi sínu, og bygðu-útskipunar bryggju o.fl.  Árið 1873 skiptu þeir eignum sínum, og fékk þá Jón mest af landinu, með húsum, en Wickmann bryggjuna, ásamt nokkrum ekrum af landinu. Jón giftist 1877 Ágústu dóttir Einars kaupmanns Bjarnasonar í Reykjavík. Jón setti upp verslun á Vashingtoneyju um það leiti.

Guðmundur var formaður á Bakkanum frá því hann var 19 ára gamall þangað til hann fór af landi burt vorið 1870. Hann réði sig til fiskimanna frá Milwaukee sumarlangt, en fór um haustið til Washington Island og stundaði þaðan fiskveiðar. Hann kvæntist 1875, Guðrúnu Ingvarsdóttir frá Mundakoti.

Móðir Guðmundar "Málfríður Kolbeinsdóttir" var hagyrt og hefur varðveist ein vísa eftir hana, sem er svo hljóðandi.

Gísli, Þórður, Guðmundur,

Geir, Jón, Þorsteinn, Mangi,

Jóhannes, Stefán, Hróbjartur,

jafnt þar sjást á gangi,

 

Úr Stokkseyrar ýta vör

einhver fæst til bollinn,

allir þeir á einum knör,

út á Danapollinn."

                      MK

 

(Danapollur var í Stokkseyrarlending)

Árni GuðmundssonÁrni fór 18 ára gamall austur á Eyrarbakka; gerðist vinnumaður hjá G. Thorgrimsen og var hjá honum í 4 ár. Fór síðan til Reykjavíkur, og lærði þar trésmíði hjá Jóhannesi Jónssyni snikkara. Fór hann að því búnu aftur austur á Eyrarbakka, til Thorgrimsens, og var þar vinnumaður og búðarmaður þangað tiil um vorið 1870, að hann fór með þeim félögum til Ameríku. Var hann að fiskiveiðum um sumarið með félaga sínum Guðmundi Guðmundssyni, og fór það haust til Washington eyju. Árið 1880 flutti hann sig til Andabon County í lowa, og var þar i 2 ár við smíðar. Kom aftur til eyjarinnar, og dvaldi þar síðan en giftist ekki.

Jón (f.ca 1850) var um nokkur ár vinnumaöur og meðreiðarmaður dr. Hjaltalíns (var hann því stundum kallaður Jón Hjaltalín). Eftir að hann fór vestur, stundaði hann flskiveiðar, fyrst í Milwaukee og svo á Washington eynni.

Næstu árin fóru margir Íslendingar vestur til Washingtoneyjar og voru allmargir Eyrbekkingar á  meðal þeirra:

1872. Fóru 14 manns af Eyrarbakka; af þeim lentu flestir á eynni. Þrjár persónur af þeim voru þar enn árið 1900: Olafur Hannesson, sonur Hannesar Sigurðssonar og konuhans Guðrúnar Jónsdóttur á Litluháeyri á Eyrarbakka; Árni Guðraundsen, sonur Þórðar kameráðs Guðmundsen, sem lengi var sýslumaður í Arnessýslu, og konu hans Jóhönnu A. Knudsen; og Guðrún Ingvarsdóttir, sem giftist Guðm Guðmundssyni, eins og áður er getið. Hinir aðrir, sem lentu þar úr þessum hóp. voru: séra Hans Thorgrimsen; Dr. Arnabjarni Sveinbjörnsson; Þovkell Árnason frá Eiði á Seltjarnarnesi; og Olafuv Guðmundsson, frá Arnarbæli, en þeir fóru þaðan aftur eftir lengri eða skemri dvöl.

1873. Teitur Teitsson, hafnsögumaður af Eyrarbakka; var faðir hans TeiturHelgason, einnig búsettur á Eyrarbakka. Hann fór þaðan alfarinn 1887, og flutti til Manitoba.

1881. Björn Vernharðsson, ættaður af Eyrarbakka. Fór frá Íslandi til Milwaukee 1873; var þar þar til hann kom til Washingtoneyjar. Hann varr föðurbróðii Björns kaupmanns Kristjánssonar í Reykjavík. Sagðist Björn vera kominn í beinan ættlegg í móðurætt af Þangbrandi biskupi, en í föðurættaf Agli Skallagrímssyni.

1884, Hannes Jónsson af Eyrarbakka, sonur Jóns Jónssonar á Skúmstöðum i Rangárv.sýslu, og konu hans Ragnhildar Vernharðsdóttur. Sigurður Sigurðsson af Eyrarbakka, ættaður frá Skammadal í Mýrdal.

1885. Þórður læknir Guðmundsson, bróðir Árna, sem áður er nefndur -Kom 13. ágúst það ár. Hann dó snögglega 29. janúar 1899.

 

1886. Magnús Jónsson Þórhallasonar, af Eyrarbakka, en móðir Magnúsar var Þórunn Gísladóttir frá Gröf í V.Skaftafelssýslu.

1887. Jón Þorhallason, tiésmiður, faðir Magnúsar. af Eyrarbakka. Jón er ættaður frá Mörk á Síðu, sonur Þórhalls Runólfssonar, sem lengi bjó þar. Bárður Nikulásson, Bárðarsonar Jónssonar, af Eyrarbakka, ættaður úr Skaftártungu: var móðir hans Sigríður Sigurðardóttir, frá Hvammi, Arnasonar frá Hrísnesi.

 

1888. Þorgeir Einarsson, ættaður af Eyrarbakka. Kom til Milwaukee 1873, en dvaldi i Racine og Walworth Counties í 15 ár. Faðir hans, Einar Vigfússon fór með honum. (Sigurður Jónsson, Arnasonar Magnússonar Beinteinssonar, ættaður úr Þorlákshöfn. Móðir hans var Þórunn Sigurðardöttir frá Skúmstöðum í Landeyjum, og voru því foreldrar hans bræðrabörn. Kom til Minneapolis frá Kaupmannahöfn 1885).

 

Heimild: Almanak Ólafs  S. Thorgeirssonar 1900. http://brim.123.is/blog/record/425257/  http://brim.123.is/blog/2010/02/24/436646/

20.10.2011 20:53

Horfinn tími, leikvöllur fjörunnar

Brynjar- Hafsteinn-Sigurður-Atli-Finn.
Veiðimenn-Þekkið þið þá? (Myndina tók Stefán Nikulásson 1972)

KR-ingar? (Myndina tók Stefán Nikulásson 1972)
Sigríður-Kristbjörg
Stúlkur-skilaboð í sandinn. (Myndina tók Árni Johnssen 1971)

Barnapíur ( Myndina tók Katrín B Vilhjálmsdóttir 1962)

08.10.2011 22:23

Grímstaðir, bær á Eyrarbakka

Grímsstaðir EB. Mynd. Lesb. morg. 1976.Grímsstaðir var rifið seint á 7. áratug síðustu aldar og var þá ein síðasta bæjartóftin frá fyrri tíð, en þegar þessi mynd var tekin 1976 var torfbærinn löngu fallinn en yngra bæjarhús uppistandandi. Einn þekktasti búandinn á Grímstöðum var Toggi í Réttinni.

25.09.2011 21:33

Örebak gamle Faktorbolig


Húsið og skáldkonan:
 Hún hét Thit Jensen, systir Johannesar V. Jensens, hins mikla Danaskálds. Hún hafði verið unnusta Íslensks námsmanns i Kaupmannahöfn, en síðar slitnaði með þeim, en hún kom hingað á eftir honum og dvaldi tvö sumur I "Húsinu" á Eyrarbakka, 1904 og 1905. Þá orti hún um "Húsið" á Bakkanum, "örebak gamle Faktorbolig", og ibúa þess:

Gamle Specier i et gammelt Gemme, 
Skabe, Gulve fuld af dulgte Lemme,
en mystisk Mand sig engang hængte,
underlige Ting i Mængde.
Glimtvís vejrer man Tragedier,
brudstykvis af Livs-Komedier
- ingen ved, hvordan de endte.
Det er li'som man kan höre
Poesien sive fra Panel og Döre,
sagte Sange om den eminente
Gæstfridhed, som her er givet
- samt om mange underlige Ting i Livet 

Í ljóðinu talar hún um hina fornu hluti
sem leynast í gömlum geymslum. Um
skápa og gólf með huldum hirslum og
dularfullan mann sem sig eitt sinn
hengdi. Um gnótt undarlegra hluta.
Fegurð í harmleiknum sem brýst upp
í skoplegar hliðar lífsins og endalokin
sem engin þekkir. Það er bara eins og
 maður geti heyrt ljóðin seitla frá
veggjum  og dyrunum með stórkostlegum
söng tileinkað gesti hússins, sem
og hinum undarlegu  kynjum lífsins
 


Thit Jensen (Maria Kirstine Dorothea Jensen 1876-1957)  var fædd á heimili dýralæknis í Farso og var elsta barn í 12 manna systkynahóp. Sem ung stúlka var hún kölluð "Himmerlands skønhed" (himnesk fegurð). Um aldamótin 1900 flutti hún til Kaupmannahafnar til að skrifa um vandamál sinnar tíðar og gaf hún út mörg rit t.d. um kvenréttindamál, en auk þess hélt hún fyrirlestra. Einhverju sinni kallaði einn áheyrandinn og vitnaði í söguna um Adam og Evu og eplið, "og þar með olli kona fyrstu syndinni", en Thit svaraði um hæl, "Má vera, en þegar Adam hafði barnaði Evu, kom fyrsti kjáninn í heiminn". Thit Jensen fékk margar viðurkenningar fyrir skrif sín um ævina. Hún var gift 1912-1918 málaranum Gustav Fenger

Heimild: Tíminn 06.02.72- Wikipedia.

06.07.2011 23:32

Hreppstjórarnir sögðu allir af sér.

Verslunarhúsin á EyrarbakkaSvo bar við á manntalsþinginu 1768 að allir fimm hreppstjórar hreppsins (Eyrarbakka og Stokkseyrar er þá hét Stokkseyrarhreppur) sögðu af sér embætti. Liðinn vetur  hafði verið mörgum erfiður og fátækt var landlæg í hreppnum. Um helmingur íbúa lifði naumlega á styrkjum og gjöfum en hinn helmingurinn skrimti upp á krít hjá versluninni þennan hallæris vetur. Hreppstjórarnir höfðu þá farið fram á það við Jens Lassen kaupmann á Eyrarbakka (Fyrsti vetursetukaupmaðurinn) að verslunin lánaði fátækum matvörur fram til vors. Sýslumaður í Árnessýslu var þá Brynjólfur Sigurðsson og góður kunningi Lassens. Brást hann illa við og ávítaði ítrekað hreppstjórnina fyrir heimtufrekju og sakaði þá um óhlýðni við yfirvöld og kóng. Meðal þeirra hreppstjóra sem sögðu af sér embætti voru þeir Jón Ketilsson í Nesi (hrstj. 1761-1768), en hann var endurkjörinn 1773. Jón Jónsson á Háeyri (hrstj. 1761-1768), Þóður Gunnarsson á Hrauni (hrstj. 1763-1768). Bjarni Magnússon hafnsögumaður frá Litlu-Háeyri var hreppstjóri þetta ár.

Fram til 21. júlí 1808 voru jafnan fimm hreppstjórar í hreppnum og voru þeir kosnir af bændum, en nú var þeim fækkað í tvo með konungsúrskurði og sjálfstæði hreppsins afnumið. Hreppurinn lagður undir umboðsstjórn konungs og kosningar afnumdar. Hreppstjórarnir voru þá skipaðir af Amtmanni eftir tillögu sýslumanns. Fyrstu hreppstjórarnir í Stokkseyrarhreppi hinum forna til að sverja þannig konungi hollustu voru þeir Jón Einarsson á Baugsstöðum og Jón Þórðarsson í Móhúsum.

Heimild m.a. Saga Stokkseyrar.

17.06.2011 17:16

Tómthúsfólk á 18 öld

Þurrabúðir við LitluháeyriÁrið 1703 voru 652 íbúar á Eyrarbakka og Stokkseyri sem þá var einn hreppur. Þar af voru bændur og hjáleigumenn 70 talsins, en ómagar og þurfalingar 156. Þannig voru hlutfallslega margir á sveitastyrk fram eftir öldinni. Tómthúsfólk, eða Þurrabúðarmenn var  sá hópur landlausra húsmanna kallaður sem áttu lítið annað en hróflatildrið sem það hlóð úr grjóti og torfi með leyfi landeigenda og lifði mestmegnis af sveitastyrknum, ölmusu og öðru því sem til féll af úr hendi þeirra efnameiri.

Árið 1756 bjuggu í Skúmstaðahverfi Ólafur Jónsson tómthúsmaður við heilsulasna konu og kröpp kjör. Þar bjó einnig Aldís Þorkellsdóttir við tómthús og eitt barn. Margrét Oddsdóttir tómthúskona var þá háöldruð og bjó ásamt vanfæri dóttur í tómthúsi. Jón Brandsson var einnig tómthúsmaður í Skúmstaðahverfi, ásamt konu og tveim börnum. Tómthúsmenn í Háeyrarhverfi voru á þessum tíma, þau Erlendur Þórðarsson með konu og tvö börn. Jón Ólafsson var sagður stór og sterkur, en hann bjó  þar í tómthúsi ásamt konu sinni og tveim börnum. Þorsteinn Einarsson var þá áttræður og bjó í tómthúsi með konu sinni og bróðurbarni hennar. Í Hraunshverfi bjuggu við tómthús, Jón Jónsson smiður kona hans og fjögur börn. Jón dauði svokallaður bjó þar í tómthúsi með konu og tvö börn. Þá voru þeir Bauga-Guðmundur og Páll Hafliðason taldir letingjar mestir hér um slóðir. Síðasti tómthúsmaðurinn á Bakknanum var Berþór Jónsson (1875-1952) eða Bergur dáti eins og hann var kallaður, en hann bjó að Grímsstöðum.

Heimild: Saga Stokkseyrar

12.05.2011 23:16

Pósthirðingin

Pat to Gimli: Póstferðin frá Eyrarbakka til Gimli í Canada.Pósthirðing var á Eyrarbakka um 1880, en hún heyrði undir póststofuna í Hraungerði í Flóa. Póstafgreiðsla var síðan sett á Eyrartbakka 1912. Hún var staðsett í Kirkjuhúsi 1925, en þá var póstmeistari  Sigurður Guðmundsson bóksali. Sparisjóður Árnessýslu var til húsa á sama stað. Þann 1. maí 1942 var póstur og sími sameinaður á Eyrarbakka og stuttu síðar á Stokkseyri.  Símstöð var  frá 1909 og var Oddur Oddson gullsmiður fyrsti símstöðvastjórinn.  Á tímum landpóstsins komu þeir að sjálfsögðu við á Bakkanum og blésu í lúður sinn þegar þeir nálguðust Vesturbúð. Flestir voru þeir viðfrægir og sumir sérstakir. Einn Eyrbekkingur var landpóstur en hann hét Klemenz og var sonur Þorsteins bónda á Stóra-Hrauni Péturssonar, en móðir hans var Ingunn Klemenzdóttir skipasmiðs í Einarshöfn.  Klemmi-póstur varð úti 1791 í Jórugili í Grafningi.  Fljótlega eftir að Póstur og Sími var seldur frá ríkinu um síðustu aldamót var símstöðin í Mörk lögð niður, en póstafgreiðsla var til skams tíma í versluninni Ásinum sem nú heitir Vesturbúð. Þótt hinn hefðbundni póstur berist enn fljótt og vel inn um bréfalúgurnar, þá ferðast hinn sannkallaði hraðpóstur með ljóshraða um nælonlínur. Hver skildi nú hafa trúað því á tímum landpóstanna?

07.05.2011 12:05

Öldin teit

Húsið
Undir lok 18. aldar, þá er fyrrum stýrimaður, Niels Lambertsen var orðinn kaupmaður á Eyrarbakka voru hjá honum tveir búðarsveinar, þeir Sveinn Sívertsen og Sigurður stútent Sívertsen (Magnússon).  Christine var kona Lambertsens, er jafnan var kölluð "Stína" af heimamönnum. Sonur þeirra var Lambertsen yngri, er síðar var með verslunina. Skip hans "Charlotte Sopie" kom hvert sumar og venjulega fór Lambertsen  með skipinu aftur til Kaupmannahafnar að hausti. Skildi hann konu sína þá eftir á Bakkanum til að gæta eigna sinna.

Eitt sumarið kom Lambertsen ekki með skipinu og var sagður liggja fyrir dauða sínum í Kaupmannahöfn. Stína hafði átt vingott með Sveini þá er Lambertsen var utan og sagðist nú  vilja lofast honum ef svo færi að hún yrði ekkja. Brátt varð Stína ólétt og var ráð þeirra að leyna þessu og fá barninu sýndarforeldra. Sigurður stútent var með í ráðabruggi þessu og leituðu þau til Einars snikkara Hannessonar á Skúmstöðum, sem hafnaði þeirra málaleitan. Þvínæst var leitað til Snorra bónda Gizurarsonar á Hólum í Flóa og konu hans Katrínar Eiríksdóttur og tókust með þeim samningar.

Þegar  barnið var fætt fóru þau Stína og Sigurður ríðandi að Hólum og skildu barnið þar eftir hjá þeim hjónum. Elín i Gaulverjabæ var þá ljósmóðir í sveitinni og var hún kölluð til. Hafði hún barnið heim með sér samkvæmt venju hennar, en áður en barnið komst aftur að Hólum hafði málið komist upp. Dag nokkurn hafði Eiríkur snikkari komið í búðina til Sigurðar Sívertsen og orðið missáttur  um viðskipti sín við hann. Búðin var þá full af fólki er Eiríkur lét málið uppiskátt í bráðræði sínu.

Þegar svo var komið varð að ráði að Sigurður stútent  gengist við barninu, en það var drengur nefndur Páll. Drengurinn fékk strax viðurnefnið "Kúts-Páll". Það hafði æxslast þannig að ráð Sigurðar til að koma barninu óséðu að Hólum var að setja það í vatnskút og reið hann með það á söðli íklæddur kvennmansklæðum en Stína reið á eftir. Er þau fóru framhjá Brattholti mættu þau bónda þar Hákoni Þorgrímssyni og heyrðist honum barnsgrátur koma úr kútnum, en til að verða ekki að aðhlátursefni um allar sveitir, sagði hann ekkert um ferðamenn þessa og barnsgrátinn úr vatnskútnum fyrr en málin höfðu komist í hámæli.

Varð þessi saga mörgum að yrkisefni og er til a.m.k.  ein vísa svohljóðandi:

Öldin teit það frétti fróð,

fyrr það vissi enginn,

að bóndakona og faktors fljóð,

fætt hafa sama drenginn.

 

Kúts-Páll settist að í Gullbringusýslu og átti marga afkomendur.

Heimild: Saga Þuríðar formanns.

Flettingar í dag: 678
Gestir í dag: 187
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 260968
Samtals gestir: 33814
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 20:18:00