Flokkur: Veðrið

23.11.2006 10:02

Haustuppgjör!

þeir sem hafa áhuga á að spá í gróðurhúsaáhrifin geta rýnt í þessar tölur sem fengnar eru frá Tu Tiempo.net um meðaltals gildi aftur til ársinns 1982 á Eyrarbakka. Tu Tiempo.net er veðursíða sem gefur upp veðurfarsgildi víðsvegar um heiminn.

 

Meðalhitinn á Eyrarbakka í september síðasliðinn var 10,6°C sem er nokkru hærra meðaltal en í júní og þarf að fara aftur til ársinns 1996 til að sjá sambærilegan meðalhita í septembermánuði. Í oktober var meðalhitinn 4,4°C sem er í meðallagi, en árið 1985 var meðalhiti í oktober hæðstur eða 6,7°C  á því 24ára tímabili sem mælingin nær til. Árin 1997  2001 og 2003 var oktober hlýrri en nú. Meðalhitinn árin 1991, 1993, 1996, 2000, 2002 og 2004 voru á svipuðu róli og í ár. Nóvember virðist hinnsvegar stefna í að vera yfir meðallagi.

 

Sjá töflu.

20.11.2006 15:19

Vin á Snælandi

Nú er landið nánast orðið alhvítt nema helst í Árnes og Rángárþíngi þar sem varla hefur fallið snjókorn. Veðurstofan spáir köldu veðri alla vikuna og snjókomu eða éljum sunnan og vestantil á miðvikudag og þá er spurning hvort úti verði um þessa vin í Snælandi

19.11.2006 22:20

Að morgni skal mey lofa, en að kvöldi veðrið.

Maðurinn sagði "Það er alltaf gott veður á Bakkanum" það eru orð að sönnu því blessunarlega fengum við ekki snjóinn sem kaffærði höfuðborgarbúa í morgunsárið þegar lægð þann 19.11 skaust suður með landi. Strekkings vindur ýfði þó hár á höfði Eyrbekkinga sem röltu um götur á ilskóm og stuttermabol. 


Áfram er spáð góðu veðri á Bakkanum.

18.11.2006 09:54

Undir hjálmi Frosta.

Nóttin var svöl um allt land og mælar sýna mestann kulda þessa vetrar. -13°C á Bakkanum en Blönduósbúar hafa vinningin með -15°C  Landsmetið var hinns vegar sett á Þingvöllum, en þar náði frostið upp í -18°C.

Nú er sólin orðin lágt á lofti og dagsbirtan dvínar með hverjum deginum og mun senn hverfa þeim sjónum sem nyrstu annesin byggja.

Á morgun byrjar svo ballið á nýjan leik með stormi og snjókomu frá leiðindar lægð sem er að gera sig klára vestur í hafi.

.

17.11.2006 10:07

Gaddur grúfir yfir landi.

Vaxandi frost er nú á landinu um leið og norðanáttina lægir í bili. Mesta frostið á landinu þessa stundina er á Hveravöllum -16°C en á Eyrarbakka og Blönduósi var frostið nokkurn vegin það sama kl 07:00 í morgun eða rúmar -8°C

 

Bakkamenn hafa það sem af er vetri búið við þann munað að þurfa ekki að moka snjó, en nú gæti þetta breyst, því veðurstofan spáir snjókomu með suðurströndinni um helgina.

 

16.11.2006 08:55

Frost á Fróni

Ekkert lát virðist á kuldakastinu og norðan bálinu sem hefur nætt um norðurhjarann að undanförnu og enn er veðurstofan að vara við stormi. Nokkurnveginn jafn kalt á Blönduósi, Egilstöðum og Eyrarbakka eða rúmlega -7°C. Seint í gærkvöldi fór meðalvindhraðinn í 17m/s og tæplega 30m/s í hviðum. Þessu veldur kröpp lægð fyrir austan land.

Í þessu veðri er vindkælingin á við þrátíu stiga frost og hætta á að menn geti ofkælst.

13.11.2006 11:08

Veðrin stríð og storma gjall.

Í dag.

Lægð 121106 er nú fyrir austan land og veldur miklu óveðri á Snæfellsnesi,Vestfjörðum og heiðum uppi og stórhríð víða norðanlands. L 121106 er í raun tvær samvaxnar. Önnur lægð er við Grænland  sem kemur við sögu í kvöld og fær hún kennitöluna L 131106 en hún mun þá vera afgerandi í veðurstýringunni yfir landinu á meðan hún þokast suður á bóginn. L121106 mun þá vera kominn upp að Noregsströndum. Skil frá þessum lægðum munu stýra norðanáttinni yfir landið næstu daga.

 

Eitthvað tjón varð á vegavinnutækjum á Höfn í Hornafyrði af völdum L 091106 en þá fór vindhraðinn upp í 40m/s í Hvalnesskriðum að því mbl. greinir frá.

 

Lægðagengið!

 

11.11.2006 17:25

Lægð 121106!

í dag

Í dag var skaplegt veður á Bakkanum en hitinn rétt um frostmark að deginum. Svo er bara að taka á móti næsu lægð með kennitöluna 121106 en hún er þó ekki líkleg til stórræða! En hinsvegar mun fylgja henni norðan garri fram í næstu viku.

Framvinda L 121106

 

10.11.2006 21:04

Kólgubrim

Freyðandi haf í höfninni á Eyrarbakka.

Í kjölfar óveðursinns brast á mikið brim. Mynd frá ölfusárósum í dag.

10.11.2006 08:50

Lægð 09.11.06

 

Óveðrið gekk yfir landið í nótt og fór minna fyrir veðrinu en ætla mátti af veðurspám þó lægðin væri ansi kröpp. Loftvog komst lægst á Bakkanum um kl.02:00 en þá féll loftvogin niður undir 966.2 mb.  Meðalvindur komst hæst í 19.1 m/s kl. 03:00.  Vindhviður fóru upp í 27m/s undir morgun

 

 

09.11.2006 22:02

Nóvemberstormur!

Eins og sjá má á þessu spákorti dönsku veðurstofunnar verður lægðamiðjan yfir Reykjanesi um miðnætti og mun færast hratt norður. Loftvog er hrað fallandi, komin niður fyrir 990 mb. Spáð er allt að 10-12 metra ölduhæð við suðurströndina á morgun. Ekki er útlit fyrir sjávarflóðum í kjölfar veðursinns þar sem ekki er stórstreymt þessa dagana. Háflóð verður kl 09:00 í fyrramálið og gert er ráð fyrir 3,18 metra sjávarhæð og talsverðu brimi.

 

Staðan kl.22:00

09.11.2006 12:49

Perfect storm!

Nú ber senn til tíðinda því "súberlægð" er að nálgast landið og má því búast við kolvitlausu veðri um allt land í kvöld og nótt. Veðurstofa Íslands spáir mikilli úrkomu á suðurlandi.

 

Í kjölfarið munum við fá stormlægðir á færibandi fram í næstu viku eða sem sagt umhleypingar!

08.11.2006 08:53

Allt orðið hvítt!

Í morgun var kominn um 2cm jafnfallinn snjór á Bakkann. Þessi fyrsti snjór vetrarinns er nokkuð seinna á ferðinni en í meðalári. Samkvæmt veðurspám mun þessi snjór stoppa stutt við, því spáð er rigningu með morgundeginum.

07.11.2006 16:40

El Nino að vakna!

Á u.þ.b. 10 ára fresti eiga sér stað miklar loftlagssveiflur undan ströndum Perú sem kallast EL Níno. Ástæður þessara breytinga eru enn þá ekki að fullu þekktar en afleiðingin er að hlýr sjór kemur í stað kalda Perú- eða Humboltsstaumsins (La-Nina). Mikið rignir í eyðimörkum strandlengju Suður Ameríku og þurrkar ríkja á suðurhásléttunum.  El Nino fyrirbærið veldur þó veðrabrygðum um allan heim og það gerðist síðast árið 1997-1998. Nú eru allar líkur á að El-Nínó sé að rumska.

Vísindamenn við alþjóða veðurstofuna NOAA búast við að svo verði snemma á næsta ári,en sjórinn undan ströndum Perú hefur verið að hitna frá því í september.

06.11.2006 14:39

Stormasöm helgi.

Talsvert hvassviðri af suðaustan og síðar suðvestan gekk yfir landið um helgina með mikilli úrkomu. Á Eyrarbakka komst vindhraðinn yfir 30 m/s eða 12 vindstig að kvöldi 4 nóvember sem telst vera fárviðri. Loftþrýstingur féll stöðugt allann laugardaginn og var kominn niður fyrir 985 mb seint um kvöldið. Fárviðrið gekk hratt yfir og um miðjan sunnudag var komið skaplegt veður. Stórstreymt var en ekki er mér kunnugt um tjón af völdum veðursinns. Veðrið var einna verst á vestanverðu landinu, einkum á Snæfellsnesi.

Flettingar í dag: 346
Gestir í dag: 55
Flettingar í gær: 2159
Gestir í gær: 262
Samtals flettingar: 262795
Samtals gestir: 33944
Tölur uppfærðar: 22.11.2024 07:04:57