Flokkur: Veðrið
05.06.2007 21:00
Voldugt brim.
Það er mikilfenglegt að sjá brimið þessa dagana og einkum núna þegar rokinu og regninu hefur slotað og sólin tekin að skína í bili.
Eftir brimstiga P,Nielsens þá hefur brimið verið í 4 -5 stigum síðan síðdegis á sunnudag og telst það vera nokkuð óvenjulegt. Meðaltalið fyrir Júni er 1 dagur með svo miklu brimi.
Á síðasta sólarhring mældi veðurstofan 20 mm úrkomu á Bakkanum sem telst nokkuð. Sólahringsgsúrkomumet fyrir 5 júní var hinsvegar sett árið 1969 en þá mældist 30,5 mm, (frá kl.9 til 9 )vel blautur dagur það.
"Stormur" heitir þessi vísa eftir Björn Pétursson Sléttu, Fljótum. f.1867 - d.1953
Griðum hafnar hrannar rót
heiftum safnar brýnum.
Stríðir hrafninn húna mót
honum nafna sínum
Þakka svo Pétri Stefánssyni fyrir þessar brim og veðurvísur sem hann sendi mér eftir afa sinn og læt þær fljúga hér inn þegar á við.
04.06.2007 13:04
Súld og suddi
Þeir eru heppnir sem eiga regnkápur og ullarhosur og geta því verið úti.
það hefur nefnilega verið úrkomusamt á suðvesturhorninu síðasta sólarhringinn með strekkings vindi af suðaustri og lítur út fyrir að svo verði áfram næstu daga.
Ástæðan er þessi mikla lægð suðvestur af landinu og hæðirnar tvær sem loka fyrir leið hennar austur á bóginn. Þannig á lægðin ekki aðra möguleika en að blása úr sér þar sem hún er niður komin.
Ástandið á því eftir að batna þegar eftir miðja vikuna,en hitastig breytist þó lítið ef marka má veðurstöðina Falling.rain.com
Lægðin hefur valdið töluverðu sjávarróti með tilkomumiklu 3-4 stigs brimi á Bakkanum samkv. brimskala P.Nielsens fyrrum faktors í Húsinu á Eyrarbakka og veðurathugunarmanns dönsku veðurstofunar á sínum tíma.
Veðurspáin fyrir Sjómannadaginn hér fyrir neðan fór nú heldur betur í vaskinn, þar sem vel hvessti síðdegis með helli rigningu og hitastigið féll niður fyrir 10°C.
Nýliðinn maímánuður var fremur kaldur á landinu að sögn Veðurstofunnar. Mjög hlýtt var um land allt fyrstu daga mánaðarins og einnig um mikinn hluta landsins síðustu dagana. Einkum var kalt á tímabilunum 4 til 11. og 19. til 27. og snjóaði þá sums staðar.
Á Bakkanum var hlýjasti dagurinn 31.maí en þá náði hitinn hámarki í 17,7°C en kaldast var þann 21. þegar hitinn féll undir 4°C og var sumstaðar í 0°C í næsta nágreni. Annars var hitastigið oftast um 10°C
Yfirlit Veðurstofunar umTíðarfarið í maí
31.05.2007 17:12
Enn eitt met.
Þessi heiti loftmassi á rætur að rekja til A-Evrópu, aðalega suður Svíþjóðar og Póllands
Local veðurspá fyrir sjómannadaginn á Eyrarbakka: (Með fyrirvara um að hún gæti hæglega farið í vaskinn)
Suð austanátt og 5 m/s skýjað og dálítil rigning fyrripart dags en þornar upp e.h.. Hiti 10-12°C
30.05.2007 21:23
Nýtt met.
Það fór eins og veðurfræðingar höfðu spáð fyrir "Heitur dagur í dag"!
Í dag var nefnilega hið allrabesta veður og komst hitinn hæðst í 17°C á Bakkanum um kl 16 sem er nýtt met yfir hæsta mælda hita fyrir daginn 30.maí hér á nafla alheimsinns.
Eldra metið fyrir þennan dag mánaðarinns á Eyrarbakka var sett árið 2002 en það var 16,5°C
Það vantar þó tæpar 3° á að slá við mánaðarmetinu fyrir maí sem sett var þann 5.maí 1988 en þá fór hitinn hæðst í 19,8°C
26.05.2007 17:51
Veðurstofan með nýja síðu!!
Þar má sjá veðrið í myndrænu formi auk ýmissa veðurupplýsinga. Auðvelt er fyrir alla að spá í veðrið fram og aftur. Hér getið þið séð veðrið fyrir Suðurland.
25.05.2007 14:24
Kuldaboli sleikir landsmenn.
Neðra kortið gildir fyrir Hvítasunnudag kl.12 en það efra gildir kl.12 í dag og á því má sjá kuldatúngu þá sem sleikt hefur landsmenn að undanförnu. Smámsaman tekur þó að hlýna eftir helgi og má þá vænta að hægt verði að setja niður kartöflur víðast hvar á landinu.Á Hvítasunnudag verður hlýjast á suðvesturhorninu og gæti hitinn skriðið yfir 10° um miðjan daginn.Úrkomulaust verður á Bakkanum a.m.k fram á miðvikudag í næstu viku ef fjarlægustu spár ganga eftir.
Kortin eru frá Meteoblue.
21.05.2007 09:47
Skelfilegt hretviðri.
Fjöllin voru hvít í morgun og kuldi í lofti.Á Eyrarbakka var 4° hiti kl 8 í morgun en aðeins 1°C, slydda og krapi á vegum tæpum þrem kílómetrum fyrir ofan þorpið. Á Hellisheiði var 0°C og á Hveravöllum var 1 stiga frost.
Þetta kalda loft er upprunnið ofan úr háloftunum yfir Grænlandsjökli og berst með öflugri lægð sem ruddist yfir jökulinn í gær og er nú stödd á Grænlandssundi.
Í fyrravor 22 apríl var einnig kalt í veðri en þó ekki snjór eins og nú.en í byrjun maí mánaðar í fyrra komst hitinn hæðst í 20°C ,en það sem er af þessum mánuði nú hefur hitinn vart farið hærra en 12°C á Eyrarbakka og finnst mörgum vorið nú vera kalt.
Sterkt og víðáttumikið háþrýstisvæði yfir Azoreyjum spilar stóra rullu í þessu veðurfari hér á norðurslóðum þessa dagana.
Vorskipsleiðangur fékk gott veður!
Það var margt um manninn á Bakkanum um helgina enda var veðrið gott,bæði föstudag og laugardag en dálítið ringdi síðdegis á sunnudeginum og má segja að veðurspá Brimsins hafi gengið nákvæmlega eftir.
Fjölbreytt dagskrá með handverki, söng og sýningum á gömlum ljósmyndum og handverki auk markaðstorgs og veitingum stóð fólki til boða á hátíðinni. Á Rauða naflanum héldu Swing bræður uppi fjörinu og krambúð var í verslun Guðlaugs Pálssonar og markaðstog var sett upp á Bakkahlöðum (Frystihúsi).Einnig var mikið um að vera á Stokkseyri þar sem hluti hátíðarinnar fór fram. Það er mál manna að vel hafi tekist til og ljóst að saga þorpanna eru þeirra helstu menningarverðmæti sem sjálfsagt er að virkja með þessum hætti sem Friðrik Erlingsson hefur haft forgöngu fyrir.
17.05.2007 00:09
Hvernig viðrar á vorskipið?
Á föstudaginn hefst vorhátíðn "Vorskipið kemur"á Eyrarbakka og Stokkseyri þar sem glæsileg dagskrá er í boði og þorpin taka á sig mynd 19.aldar. En hvernig viðrar á Stokkseyrarbakka um hátíðina? Eftir að hafa vafrað yfir nokkrar veðuspásíður er þetta niðurstaðan.
Föstudagur (Freysdag)18.maí: Rigningu sem spáð er aðfaranótt föstudags,styttir upp um hádegi, en þó nokkuð skýjað verður yfir daginn en tekur svo að létta til undir kvöld. Hæg NA átt og hiti um 10 - 12 °C að deginum en gengur síða í norðanátt og bætir í vind.
Laugardagur: Léttskýjað að morgni en þykknar upp yfir daginn en helst til þurt. NNV blástur og hiti um 10°C yfir daginn.
Sunnudagur: Kólnar nokkuð aðfaranótt sunnudags, jafnvel að frostmarki en hiti um og yfir 8°C að deginum.Færist í SA og Sunnan átt með rigningu síðdegis.
Þess má geta að vöruskipin komu ávalt inn á leguna þegar háflóð var og á föstudaginn er háflóð kl:19
Dagskrá hátíðarinnar er viðamikil og að mörgu leiti frumleg og líklegt að gestir hátíðarinnar hverfi aftur í tíman og upplifi lifandi stað og stund um aldamótin 1900
Dagskrána má nálgast á www.eyrarbakki.is
06.05.2007 22:25
Skuldahalar fjúka út í veður og vind!
Nú er sumaraið komið! Það má marka af því að verstöðvarnar á Eyrarbakka eru óðum að tæmast af ófáum hjólýsum og öðrum skuldahölum sem Eyrbekkingar hafa geymt fyrir höfuðborgarbúa og annað ferðaglatt fólk yfir veturinn.
Um leið og sólin gægist fram úr skýjunum fyllast þjóðvegirnir af þessum hvítu flykkjum aftan í fjallajeppum malbiksfólksins, öðrum ökumönnum til mikillar armæðu. En fyrr en varir kemur vindhviða eins og oft er hér á Fróni og allur húsakosturinn þeytist út fyrir veg. Þannig fóru margir skuldahalar fyrir lítið síðasta sumar og nú heyrum við í fréttum (www.mbl.is ) að fyrstu hjólhýsin á þessu sumri sem er rétt að byrja hafi orðið íslenskri veðráttu að bráð. Það er ljóst að Íslendingar þurfa að hafa vel fyrir snobbinu!
02.05.2007 23:36
Af hitametum og hlýnun jarðar.
Nýliðinn aprílmánuður var með þeim hlýjustu sem sögur fara af hér á landi frá því samfelldar mælingar hófust á ofanverðri 19. öld segja fréttirnar í dag. Veðurstofan segir í veðurfarsyfirliti, að tíðarfar hafi almennt verið hagstætt í mánuðinum en hans verði einkum minnst fyrir tvær óvenjulegar hitabylgjur. Sú fyrri varð um landið austanvert í byrjun mánaðarins og komst hiti þann 3. í 21,2 stig í Neskaupstað. Hiti hefur ekki mælst hærri svo snemma árs. Síðari hitabylgjan gekk yfir mikinn hluta landsins síðustu daga mánaðarins. Landshitamet aprílmánaðar féll þann 29. þegar hiti komst í 23°C á sjálfvirku stöðinni í Ásbyrgi í Öxarfirði og í 21,9°C á mönnuðu stöðinni á Staðarhóli í Aðaldal. Hvoru tveggja er met í sínum stöðvaflokki.
Á síðasta ári fór hitinn á Eyrarbakka í aprílmánuði hæðst í 10°C og var meðalhitinn þá um 2 stig og mesta frost var þá 11 stig en nú var hitinn oftast á bilinu 10 -12°C og mest 14 - 15 stig í lok mánaðarins sem er talsvert stökk frá því í fyrra.
Ástæðan fyrir þessum hitabylgjum er mikill hiti í Evrópu vestanverðri þar sem sömu sögu er að segja og hitamet fallið þar umvörpum. Síðan var það frekar tilviljun að hæð yfir Norðursjó beindi þessu heita lofti inn á landið og þá helst austan og norðanvert.
Svo er spurningin hvort þetta sé aðeins forsmekkurinn af því sem koma skal því breskir veðurfræðingar hafa spáð allt að 8 hitabylgjum í sumar og ekki ólíklegt að enn eigi met eftir að falla áður en þessu sumri líkur. Eflaust má túlka þessa forspá þannig að loftslagshlýnunin sé nú komin á mikið skrið.
Almennt er nú viðurkennt að loftslagshlýnunin sé af manna völdum, en nokkrir danskir vísindamenn vilja halda öðru fram. Þeir eru með þá kenningu að hlýnunin stafi ekki síður af aukinni varmalosun frá sólinni og því sé hlýnunin mun örari en reiknilíkön gefa tilefni til. Það er nefnilega ekkert sem segir að varmalosun sólar sé ætíð sú sama heldur mun líklegra að losunin sveiflist til á löngum tímabilum með samsvarandi veðurfarssveiflum á jörðinni. En væntanlega munu vísindin skera úr um þetta álitamál fyrr eða síðar.
30.04.2007 15:54
Brennandi hitapottur í Evrópu, meiri hiti í vændum!
Meðalhiti aprílmánaðar í bretlandi var 11,1°C sem er 3,4 gráður yfir meðalhita. Ekki hefur orðið heitara á þessum slóðum í 350 ár eða síðan árið 1659. Meðalhitinn í evrópu frá Belgíu til Ítalíu er sömu leiðis 3 gráðum yfir meðallagi.
Breskir veðurfræðingar segja að mikil hætta sé á að í vændum sé svipuð hitabylgja og gekk yfir 2003 og varð 35.000 manns að aldurtila í álfunni.
í Hollandi hafa einnig hitamet fallið og þar hefur ekki komið dropi úr lofti síðan 22 mars sl og var aprílmánuður sá þurrasti í heila öld.
í þýskalandi hefur einnig verið sett nýtt hitamet sem er 12°C yfir eldra meti í apríl. þar hafa sólskinsstundir heldur ekki orðið fleiri síðan árið 1901. Þar í landi er orðið algengt að sjá fólk sem klæðist aðeins sólgleraugum.
Á Ítalíu hefur yfirborð árinnar Pó lækkað um 21 fet vegna þurka og hefur yfirborðið fallið um 80cm á aðeins einni viku.
Veðurfræðingar eru að komast á þá skoðun að þetta hlýindaskeið sem nú er í uppsiglingu jafnist á við hinar hrikalegustu náttúruhamfarir.
20.04.2007 00:27
Spáð í sumarið.
Það fraus um allt land aðfararnótt Sumardagsinns fyrsta og var frostið frá -1 til -10°C. Á Eyrarbakka fór frostið hæðst í -6,6°C milli 4 og 5 um nóttina og vonandi veit það á gott sumar. Sumardagurinn fyrsti var bjartur og fagur á Bakkanum en fremur kallt framan af degi. Síðdegis var hitinn kominn í 7 °C og var það heitasta mælingin á landinu í dag.
Framundan er hinsvegar vætutíð og má búast við að svo verði meðan hæðir liggja yfir meginlandi Evrópu og beina regnlægðum á norðurslóðir, en vonandi fáum við sterka hæð yfir Grænland innan tíðar sem gæti forðað okkur frá rigningasumri.
Breskir veðurfræðingar hafa hinsvegar verið að spá allt að 8 hitabylgjum í V-evrópu og gera ráð fyrir að mörg eldri hitamet verði slegin á Bretlandseyjum á komandi sumri,en það táknar að það verði oftar hæðasvæði yfir Evrópu en venjulega og veldur því að úrkomusvæði munu fremur leggja leið sína norður á bóginn. Þannig má gera úr því skóna að sumarið á Íslandi verði nokkuð áþekkt síðasta sumri.
18.04.2007 12:55
Síðasti vetrardagur og þjóðtrúin.
Sú þjóðtrú lifir enn þann dag í dag að það viti á gott sumar ef sumar og vetur frjósa saman, það er að frost sé aðfaranótt sumardagsins fyrsta. Á sumardaginn fyrsta verða kærkomin tímamót á Íslandi. Veturinn er liðinn og við tekur sumar með björtum nóttum og vonandi yl og hlýju. Á sumardaginn fyrsta hefst harpa, fyrsti mánuður sumars, en í gamla daga hétu sumarmánuðurnir harpa, skerpla, sólmánuður, heyannir, tvímánuður og haustmánuður. Sumardagurinn fyrsti er líka kallaður yngismeyjadagur. Stelpurnar eiga þennan dag að renna hýru auga til piltanna og reyna að vekja athygli þeirra á sér.
Nú eru talsverðar líkur á að vetur og sumar frjósi saman og þá er bara að sjá hvort sumarið verði samkvæmt þjóðtrúnni. Svo óska ég brimvinum gleðilegs sumars og takk fyrir allar heimsóknirnar á síðuna í vetur!
08.04.2007 23:06
Um Hrafnahret.
Lítið fór nú fyrir páskahreti því sem spáð var,en þó er ekki úti öll nótt enn um smá hret á glugga. Áður fyrr var almennt álitið, að hrakviðri fylgdi oft sumarmálum. Það var oft nefnt sumarmálahret, eða hrafnahret Var því trúað, að tíð myndi batna, er slíkt hret var um garð gengið. Sagt er að hrafninn verpi 9 nóttum fyrir sumar og verði þá oft hret um þetta leiti og því nefnt Hrafnahret. En nú er eimitt 9 nætur til sumars og nú er spáð slyddu í mesta lagi hér syðra en snjókomu noðan til á landinu. Ein vísa er til um Hrafnahret og hljóðar svo:
Gat ei þolað hrafnahret
héðan flýði úr Bólu.
Um blindan svola brátt ég get.
Brenndi stolið sauðaket.
Höfundur:
Stefán Tómasson læknir á Egilsá f.1806 - d.1864
04.04.2007 11:03
Það verður Páskahret!
það er nú orðið ljóst að Páskahret verður þetta árið á páskadag og hljóðar spá Veðurstofunar þannig fyrir páskahelgina:
Á föstudaginn langa: Austan 8-13 m/s og slydda eða rigning sunnanlands, en dálítil snjókom síðdegis fyrir norðan. Hiti 1 til 6 stig sunnanlands, en annars vægt frost.
Á laugardag fyrir páska: Suðaustan 10-15 m/s og rigning eða slydda, en snjókoma á Norður- og Austurlandi. Hiti 2 til 7 stig sunnanlands, en nálægt frostmarki fyrir norðan.
Á páskadag: Ákveðin suðvestanátt og skúrir, en hvöss norðaustanátt með snjókomu á Vestfjörðum. Hiti 2 til 7 stig.
Á annas í páskum: Gengur í hvassa norðanátt með snjókomu norðanlands, en léttir til syðra. Kólnandi veður
Þetta verða talsverðar sviftingar þar sem sérstaklega hlýtt hefur verið á norður og austurlandi í byrjun mánaðarins og komst hitinn hæðst þessa fyrstu daga aprílmánaðar í 21,2°C á Neskaupsstað sem er líklega met fyrir mánuðinn.Hiti aðeins einu sinni mælst hærri á þessum árstíma, að sögn Trausta Jónssonar (mbl.is), veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Það var 19 apríl árið 2003 þegar hiti mældist 21,4 stig á Hallormsstað.
Gras er nú tekið að grænka hér sunnanlands og má búast við að hægist um vöxtin þegar það kólnar,en trjágróður er lítið sem ekkert kominn af stað svo engar líkur eru á skemdum þó kólni eitthvað undir frostmark.