Flokkur: Grúsk

18.03.2010 22:05

M/b Hjálparinn - framhald

HjálparinnÞað vildi svo til á fyrstu árum vélbátanna að fiskurinn færðist mjög vestur á bóginn frá veiðistöðvum austanfjalls, svo ekki var fisk að fá fyrr en á miðum Þorlákshafnarmanna. Var það illmögulegt fyrir Eyrbekkinga og Stokkseyringa að eltast við hann vestur í Háaleitisforir og vestur undir Selvog og alveg útilokað fyrir áraskipin. Aðeins þeir vélbátar sem komnir voru til sögunnar höfðu aðstöðu til þess að elta fiskigönguna. Þegar fram á vertíðina kom, var gripið til þess ráðs, að láta mótorbátana draga árabátana vestur í Hafnarsjó. Þetta gafst vel, þegar tíð var góð, en þó var ýmislegt sem erfiðleikum olli. Það kom því til kasta Hjálparans að draga áraskipin vestur í sjó. Hann var venjulega með tvö og stundum þrjú skip í togi og lónaði hjá þeim meðan þau drógu net sín og athöfnuðu sig á miðunum. Þetta verkefni hafði hann í nokkrar vertíðir, en fór svo þverrandi eftir því sem vélabátum fjölgaði, og svo kom að því að engin áraskip voru eftir til að draga, því vélvæðingin varð algjör á fáum árum. Nokkur seglbúnaður var hafður á öllum vélbátum fyrsta kastið. Hjálparinn hafði upphaflega stórsegl og aftursegl, stagfokku og klýfir. Menn þurftu oft að grípa til þeirra, þótt það færi minnkandi er stundir liðu og vélar urðu fullkomnari. Hjálparinn gengdi líka mikilvægu hlutverki í samgöngum milli lands og Eyja, en hann gat tekið allt að 14 farþega í ferð.

Hjálparinn eftir breytinguVerslun Lefoliis, var seld 1919 kaupfélaginu Heklu, sem um nokkur ár hafði líka starfað á Eyrarbakka. Hún fékk sér stærri bát, sem henta þótti betur til þessarra flutninga. Hjálparinn var nokkru áður seldur til Vestmannaeyja þar sem honum var breytt í fiskibát. Á hann var sett stýrishús og aftursiglan tekin niður. Þá fékk hann stærri vél. Eigendur þar voru Lárus Halldórsson á Velli, að hálfu, Guðmundur Gíslason Vilborgarstöðum, að einum fjórða, og Bryngeir Torfason Búastöðum, frá Söndu á Stokkseyri, að fjórða parti. Bryngeir var formaður á bátnum fimm fyrstu árin, sem hann gekk frá Eyjum og fiskaði vel. Ýmsir fleiri voru formenn á honum. Sá sem lengst var með hann var Þórður Þórðarson á Sléttabóli, alls átta vertíðir samfleytt. Frá Eyjum var báturinn seldur til Djúpavogs. Ekki er vitað hver varð eigandi hans þar, né heldur hve lengi hann var þar, en nokkru síðar barst hann til Færeyja, en þar fennir yfir sporin.
Hjálparinn ()

Heimild: Skeggi 51 tbl. 1918 Sjómannablaðið Víkingur 2.tbl.1980- Sigurður Guðjónsson Litlu Háeyri.

16.03.2010 23:43

Hjálparinn

Dráttarbáturinn Hjálparinn EyrarbakkaHinum óar útá sjó,

ýtir Jóhann djarfur nóg,

aflakló um ýsumó

aldrei þó hann bresti ró.

Hafs um leiðir Hjálparinn

hraður skeiðar vélknúinn.

Hrannir freyða um hástokkinn,

hvín í reiða stormurinn.

M/b Hjálparinn var 13,20 tonn, byggður á Borgmundarhólmi og seldur, þá nýr árið1907 til Lefolii verslunar á Eyrarbakka. Vélin var af gerðinni Alfa 16-20 hestafla lágþrýstivél. Hlutverk hans var að vera lóðsbátur og til aðstoðar kaupskipunum sem þurftu að athafna sig á Einarshöfn. Þar að auki var Hjálparinn hafður til flutninga til næstu verstöðva svo sem  með salt og annan varning til Vestmannaeyja og Grindavíkur. Áður höfðu tveir gufubátar gengt þessu starfi. Annar var M/S Njáll, en hann slitnaði af legufærum sínum í sunnan fárviðri og rak á land, en þó án þess að brotna og náðist hann á flot vorið eftir. Á undan Njáli var gufuvélbáturinn Oddur við þessi störf til fjölda ára, en hann rak á land í Grindavík árið 1904. Þar var hann að losa vörur frá Eyrarbakka, en átti að því loknu að halda til Reykjavíkur og hafa þar vetursetu.

Verkafólk á Eyrarbakka með sekki úr vöruskipunumÞó Hjálparinn væri minni en fyrirrennarar hans og vélarafl takmarkað, þá reyndist hann furðu vel. Í hjáverkum átti Hjálparinn að stunda fiskveiðar í þorskanet, sem þá voru svo til ný af nálinni, en þegar fram liðu stundir var lítið úr fiskveiðum sökum anna. Á haustinn var Hjálparinn tekinn upp í Skúmstaðalendingu, en þar hafði verið komið fyrir dráttarbraut og gangspili og dráttarbáturinn látinn standa þar inn af sjógaðshliði fram á næstu vertíð.

Þeir sem sigldu Hjálparanum heim frá Borgmundarhólmi þann 18. maí 1907 voru: Sigurjón P Jónsson skipstjóri frá Skúmstöðum, Friðrik Bjarnason og  Vilhelm Jakop Andeas Olsen, vélamaður frá Fredrikshavn og komu þeir til Eyrarbakka 13.júní og unnu þeir á skipinu það árið, en síðasta kaupskip héðan þá um haustið var skonnortan "Svend".

Næsta ár var formaður á Hjálparanum, Jón Sigurðsson í Túni (Síðar Melshúsi) og vélstjóri var Brynjólfur Vigfússon í Mekisteini, en til skams tíma var Jóhann Bjarnason í Einarshöfn með bátinn og eru formannsvísur hans hér að ofan kveðnar á vertíð 1914. Af öðru tilefni kvað Magnús Teitsson þessa vísu:

VerslunarhúsinHjálparinn um fiskafrón

flytur drengi ósjúka.

Buddunum hann Brennu-Jón

biður upp að ljúka.

Tilefnið var að ferjutollur var rukkaður af farþegum með Hjálparanum til og frá Þorlákshöfn og sá um það Jón Ásbjörnsson í Brennu. Tollinum var síðan skilað til ferjubóndans í Óseyrarnesi. Þegar styrjöldin skall á 1914-1916 voru siglingar frá útlöndum aðeins heimilar á ákveðnar tollhafnir og var ákveðið að Reykjavík yrði tollhöfn fyrir Suðurland og lögðust þá Eyrarbakkasiglingar af. Hjálparinn var of lítill til að sinna strandsiglingum með vörur frá Reykjavík og var hann því seldur til Vestmannaeyja til fiskiveiða. Í stríðslok höfðu þau stakkaskipti orðið að Reykjavík hafði alfarið tekið við því hlutverki sem Eyrarbakki hafði áður sem höfuðstaður verslunar og menningar og þess skamt að bíða að saga Eyrarbakkaverslunar tæki enda.

Meira: Brimbarinn

Heimild: Sjómannablaðið Víkingur 2.tbl.1980- Sigurður Guðjónsson Litlu Háeyri.
Þennan dag:1764 Konungsveiting: Þorleifur Nikulásson á Eyrarbakka sótti um til konungs að verða vicelögmaður. 1972 Flæddi inn úr sjógarðshliðum. 1986 100 ára afmælisminning Guðmundu Nílsen í kirkjunni. 1987 Vetur gengur í garð.

05.11.2009 22:19

Barnaleikir

Börn að leikVorið 1961 gerði  Brynjólfur Brynjólfsson ljósmyndari Tímans sér ferð út á Bakka og tók meðal annars þessa skemtilegu mynd af nokkrum strákum við leik með skútu eins og altítt var meðal pilta í þá daga og væntanlega urðu þeir allir sjóarar. Myndin er fremur óskýr og erfitt að greina hvaða piltar eru á myndinni, en gamann væri ef einhver kannaðist við þá.

Það voru til allmörg skipslíkön á þessum árum sem notuð voru á þennan hátt og fróðlegt væri að vita hvort einhver þeirra séu enn til í fórum manna.
 

31.10.2009 21:38

Þangvinnslan

Þangskurður á EyrarbakkaSumarið 1960 hófu Eyrbekkingar að vinna þang af fullum krafti. Óskar Sveinbjörnsson forstjóri Korkiðjunnar í Reykjavík, og Plastiðjunnar HFá Eyrarbakka tók að sér vinnsluna til að byrja með. Höfðu 15 manns atvinnu af þangskurðinum, þar af 4 menn við mölun í beinamjölsverksmiðjunni og tveir bílstjórar sem óku þanginu úr fjöru. Afraksturinn gat orðið 10,5 tonn af þangi á dag, en til þangskurðarinns voru notaðar sveðjur og þanginu fleytt í net. Þangskurðamennirnir höfðu til umráða eina trillu og minni róðrabát. Úr hverju tonni mátti vinna rúm 200 kg af þangmjöli sem selt var á erlendan markað. Mjölgerðin fór fram yfir sumartímann á meðan lítið hráefni barst frá fiskvinnsluhúsunum. Búið var til sérstakt fyrirtæki um þangmjölsframleiðsluna, Þörungur H.F. en aldrei kom þó til þess að byggð yrði sérsök þangvinnsluverksmiðja á Eyrarbakka, en fyrir mörgum árum hófst þangvinnsla á Reykhólum í Breiðafirði og starfar sú verksmiðja enn. Ströndin við Eyrarbakka og Stokkseyri eru einhverjar mestu þangfjörur í evrópu og hefur sú auðlind staðið ónýtt í hálfa öld.


Þörungaeldsneyti ()
Fjörugögn.
Gvendargrös ()

Þann 9. ágúst 1961 brann mjölverksmiðjan til kaldra kola.

21.10.2009 23:56

Saga BES er löng

Jakopína kennari og nemendurÞegar Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri var settur í fyrsta

sinn fyrir 150 árum var Ísland fátækasta land í Evrópu sagði forseti Íslands eitt sinn þegar hann heimsótti börnin í BES. Nú eru árin að verða 157 síðan fyrsta skólahúsið var reist, en saga BES er þannig í hnotskurn:

1850 Undirbúningsfundur á Stokkseyri.

1851 Fjölmennur framhaldsfundur.

1852 Skólahús reist á Eyrarbakka; timburhús með íbúð fyrir kennara á lofti. Hús fyrir skólahald leigt á Stokkseyri.

1852 Hinn 25. október er skólinn settur í fyrsta sinn.

1868 Kennsla felld niður vegna örbirgðar fólks.

1874 Makaskipti á húsum. Skólinn fer í svonefnt Kræsishús til 1880.

1875 Skólinn fær 200 kr. styrk úr landsjóði.

1878 Sjálfstæður skóli settur á Stokkseyri.

1880 Stærra skólahús reist á grunni Kræsishúss á Eyrarbakka.

1885 Skólahús byggt á Stokkseyri; "Götuskóli".

1887 Sveitarstjórn tekur að sér umráð yfir fjármálum skólans.

1907 Fræðslulög sett; skólaskylda frá 10 ára aldri.

1909 Skólaskyldan á E. og S. leiðir af sér fjölgun nemenda.

1909: Skólahús byggt í túni Eystri-Móhúsa á Stokkseyri.

1913 Byggt skólahús á Eyrarbakka sem stendur enn.

1926 Handavinna verður fastur liður í kennslu. Áður höfðu konur kennt hana kauplaust.

1936 Ný fræðslulög; skólaskylda frá 7 ára aldri.

1943 Unglingaskóli Stokkseyrar starfar til 1949. Hann er einkaskóli.

Starfaði einnig 1933-1935.

1950 Kennsla hafin í nýju skólahúsi á Stokkseyri. Er enn í notkun.

1951 Skólarnir eignast kvikmyndavélar á árinu 1951 til 1960.

1965 Skólinn á Stokkseyri eignast nýja Husqvarna-saumavél og átta

notaða hefilbekki. Síðar voru gefnar fleiri vélar af Kvenfélagi og Foreldrafélagi, sem stofnað var 1975.

1973 Vestmannaeyingar flytja á svæðið vegna gossins í Heimaey.

Nemendum fjölgar.

1973 Byrjað að kenna 6 ára börnum og leyfi fengið fyrir kennslu 9. bekkjar.

1980 Skólarnir eignast ljósrita, og fljótlega myndvarpa.

1982 Byggt við skólahúsið á Eyrarbakka.

1989 Tvær tölvur keyptar til skólans á Stokkeyri.

1990 Skólaskylda 6 ára barna. Skólaskyldan verður 10 ár.

1993 Einsetning skóla á Stokkseyri.

1994 Tölvuútskrift einkunna.

1994 Íþróttahús Stokkseyrar og Eyrarbakka vígt.

1996 Skólarnir sameinaðir undir nafninu Barnaskólinn á Eyrarbakka

og Stokkseyri.

1998 Sameining sveitarfélaga í Árborg.

1999 Skólinn verður þróunarskóli í upplýsingatækni.

Heimild: Theodór Guðjónsson, skólastjóri á

Stokkseyri 1971-1997 Morgunblaðið 2002.


2008-2009 Nýr barnaskóli byggður á Stokkseyri, en ákveðið hafði verið árið 2006 að byggja upp húnsæði fyrir skólahald á báðum stöðum með aðstöðu fyrir 6. til 10. bekk á Eyrarbakka (1. áfangi) og aðstöðu fyrir 1. til 5. bekk á Stokkseyri (2. áfangi). Áætlað er að bjóða 1. áfanga verksins út í lok árs 2006 og 2. áfanga í lok árs 2008. Þessum áföngum var síðar snúið við og byrjað á Stokkseyri eftir töluverða seinkun á áætluninni þó það skipti ekki höfuð máli.

Hugmyndum um eina skólabyggingu á milli Eyrarbakka og Stokkseyrar var  á sínum tíma ýtt út af borðinu af einhverjum undarlegum ástæðum, en hefði augljóslega komið sér betur nú, því trúlega verður að byggja skólann hér fyrir samskotafé ef marka má áherslur sveitarfélagsins Árborgar í uppbyggingarmálum.

14.10.2009 22:39

Þennan dag 1975

Aðins útveggirnir stóðu eftir brunannVeiðafærahús HE brann. Þar voru geymd veiðafæri margra báta, m.a. öll humartroll Hraðfrystistöðvarinnar auk einnar 3 tn. trillu. Veiðafærageimslan var annarsvegar í gömlu trésmiðjunni og sambyggðum 300 fermetra bragga sem lengi var skreiðarskemma. Eldsins varð vart laust eftir miðnætti og urðu bæði húsin fljótlega alelda. Slökkvilið Eyrarbakka barðist við eldinn með hjálp slökkvuliðsins á Stokkseyri til kl 7 um morguninn. Húsinn brunnu bæði til grunna og nam tjónið miljónum á þávirði. Eldsupptök voru ókunn.
þannig leit skemman út

02.06.2009 23:44

Vísitölufjölskyldan 1920-1930

EyrarbakkiÁrin 1920-30 átti hin venjulega fjölskylda á Eyrarbakka, Stokkseyri og Sandvíkurhreppi 2-3 kýr, nokkrar kindur og áburðarhesta. Frá febrúar og fram í miðjan maí reri heimilisfaðirinn á árabát til fiskjar frá þorpunum eða verstöðvunum Loftstöðum og Þorlákshöfn austan og verstan við þorpin. Á sumrin var amlað við egin heyskap, unnið við uppskipun eða farið í kaupavinnu upp um sveitir. Sum árin kom föst vinna, eins og þegar áveituframkvæmdirnar miklu stóðu yfir í Flóanum. Þegar vetur gekk að og frost komu var lítið um vinnu, en þá var smábúskapurinn sú líftrygging sem dugði. Þar fyrir utan sátu ýmsir embættismenn svæðisins á Eyrarbakka. Presturinn (sr. Gísli Skúlason) sat í Hraunshverfi, en á Eyrarbakka var héraðslæknirinn ( Gísli Pétursson), lyfsalinn og sýslumaðurinn (Magnús Gíslason). Aðrir ríkisstarfsmenn á Bakkanum voru sýsluskrifari, vegaverkstjóri, póstafgreiðslumaður, símaverkstjóri (Magnús Oddson) og verkstjóri hjá Sandgræðslu ríkisins. Á Bakkanum bjuggu einnig meginþorri iðnaðarmanna, en það voru 6 trésmiðir, bakari (Lars Andersen), steinsmiður, beykir, skósmiður, úrsmiður, gullsmiður, rokkadreiari og ullarragari. Þá eru hér 4 kaupmenn og einn sem skráir sig útgerðarmann og formann.

 

Svo geta menn spáð í það hvernig hin venjulega vísitölufjölskilda lítur út á Bakkanum í dag.

 

Heimild: Páll Lýðsson- ritið "Úr bretavinnu til betra lífs"-Athugun á lifsháttarbreytingu í vesturhluta Flóa 1930-1945

01.06.2009 23:55

Hvar var Skúmstaðakirkjugarður?

Staðið á Gónhól, Garðbær fremst t.v.Maður að nafni "Einar Herjólfsson var stunginn í hel með knífi á Uppstigningardag í kirkjugarðinum á Skúmstöðum árið 1412" segir í Nýannál. Var sá maður talinn vera norskur kaupmaður af sagnaritara, en fræðimenn sumir telja að hann hafi verið íslenskur og stundað kaupskap á Eyrarbakka þá er hann var veginn. Sá sami Einar Herjólfsson var líkast til frægari fyrir að hafa borið svartadauða* til landsins með skipi sínu haustið 1402 er hann sigldi því frá Englandi til Hvalfjarðar, heldur en fyrir þá sögn að hafa fallið fyrir morðingja hendi á Eyrarbakka. En 200 árum seinna getur sr. Jón Egilsson biskupsritari í Hrepphólum um guðshús á Skúmstöðum í tíð Ögmundar Pálssonar Skálholtsbiskups (1521-1541) " Þar var kapella nokkuð stór, hvar inni var bæði sungið og messað og þar sér enn merki til hennar, lítið hólkorn til austurs undan húsunum þar í sandinum. Svo sem af veggnum eða gaflhlaðinni"

 

Hvar mun þessi kirkjugarður og guðshús hafa verið? Sigurður Andersen heitinn taldi að hér væri átt við Gónhól og að þar muni Skúmur sá er byggði Skúmstaði hafa verið grafinn á sínum tíma. Hann bendir á að bannhelgi hafi hvílt á hólnum frá ómuna tíð. En einnig að Garðbæjarnafnið kunni að vera tilkomið vegna eldri sambærilegra nafna, en elstu heimildir nefna byggðina þar "í Garðinum" og "hjá Garðinum" Þá var bæjarnafnið Gvendarkot á Garði til í upphafi 19.aldar. Taldi Sigurður það vísa til kirkjugarðs á þessum slóðum auk örnefnisins Garðskletta sunnan við Gónhól. Sigurður taldi hinsvegar að Gónhólsnafnið hafi komið til sögunnar í lok 18. aldar, en þá eins og síðar bjuggu hafnsögumenn verslunarinnar í Garðbæ og því sjálfsagt tíðgengið á hólinn að líta yfir (góna á) hafið og gæta að skipakomum.

 

Það má færa rök fyrir því að ekki sé um annan hól að ræða því Skúmstaðarland er eða var rennislétt grund fyrir utan Gónhól og hæðina þar sem Skúmstaðabæirnir stóðu. Árið 1906 eða þar um bil grófu þeir Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi og P.Níelsen verslunarstjóri í hólnum og komu niður á eldstæði, en hættu greftrinum við svo búið. Gónhóll verður því hulinn á bak við tjald tímans enn um sinn.

 

Nokkrum spurningu er þó ósvarað. Hvað var Einar Herjólfsson að gera í Skúmstaðarkirkjugarði og hversvegna var hann derpinn þar og hver var valdur að dauða hans? Ef til vill liggur svarið í augum uppi, eða öllu heldur við getum giskað á að þennan Uppstigningardag árið 1412 var verið að messa í Skúmstaðarkapellu og Einar hafi verið með skip sitt á Eyrarbakka  á sama tíma og því gengið til messunar ásamt öðrum mektarmönnum. Einhver sem átti harma að hefna e.t.v. vegna pestarinnar miklu hafi þekkt þar manninn sem bar pestina til landsins. Þegar Einar gekk út að messu lokinni hafi hann mætt banamanni sínum.

 

 

*Talið er að um 40.000 manns hafi látist úr pestinni hér á landi sem var skæð bráðsmitandi lungnaflensa og margt um lík svartadauða sem geisaði í evrópu hálfri öld áður.

Heimild: ritsafn Sig. Andersen

29.03.2009 21:42

Frá Eyrarbakka út í vog

Götumynd Eyrarbakki 1964
Hef bætt við nokkrum gömlum myndum í albúmið, en það eru úrklippur úr gömlum blöðum, einkum Alþýðublaðinu, en þessi mynd birtist þar 1964 og höfundur hennar er Georg Oddson ljósm. á sama blaði. Hún sýnir aðalgötuna í vestur og er tekin við Nýjabæ. Takið eftir bensíndælunum við Ólabúð og konunnni sem gengur eftir miðri götunni. Það voru nefnilega engar gangstéttir í þá daga.
Albúm

18.01.2009 22:36

Hafnardeilan

EinarshöfnLefolii hafði verið einráð um verslun á Eyrarbakka allt þar til árið 1860 að framtaksamur bóndi nokkur Einar Jónsson að nafni fékk sér borgarabréf sem kallað var og byrjaði dálitla verslun í smáum stíl. Af þessu hlaut Einar viðurnefni sitt og var eftileiðis nefndur Einar borgari. Hann stundaði ekki innflutning eins og Lefolli verslun og aðrir kaupmenn heldur keypti hann vörur sínar í Reykjavík á næri sama búðarverði og þar og flutti þær austur yfir fjall á hestbökum og seldi svo með nokkurri álagningu.

Árið 1870 kom ungur Skaftfellingur til sjóróðra á Eyrarbakka, Guðmundur Ísleifsson að nafni og fjórum árum síðar var hann orðinn formaður á einu af þeim sex róðraskipum sem gengu þá á Eyrarbakka. Margir tóku Guðmund sér til eftirbreytni og jókst sjávarútvegur mjög á Bakkanum. (1891 gengu 30 teinæringar af Eyrarbakka og voru venjulega 13 menn á hverju skipi.) Fólki fjölgaði að sama skapi og þrefaldaðist íbúatalan á fáum árum.

Guðmundur fór um þessar mundir að huga að verslunarrekstri og árið 1886 hóf hann innflutning á vörum frá útlöndum ásamt Einari borgara. Það sem stóð þeim félögum fyrir þrifum í þessu efni var að Lefolii átti allar tiltækar akkerisfestar í Eyrarbakkahöfn og bannaði keppinautum sínum aðgang að þeim.

Þeir félagar Guðmundur og Einar sáu sig því tilneydda að leggja sínar egin festar í höfnina vestan við festar Lefolii verslunar eftir að beiðni þeirra um leigu á festum var hafnað af Lefolii. Þeir hófu þetta verk 31.janúar 1888 í trássi við bann Lefolii. En svo háttaði til að Lefolli verslun átti land það og skerin þar sem Guðmundi og Einari þótti hentugast að leggja festar sínar.

Þann 7. febrúar fékk Lefolii sýslumann Árnesinga til að lýsa banni réttarins á áframhaldandi framkvæmdir félaganna. Til að fá þetta bann staðfest þurfti Lefolii að höfða mál og var það dæmt í héraði 8.ágúst 1888. Féll héraðsdómur svo að bannið var fellt úr gildi. Þann 25. febrúar 1889 staðfesti yfirdómurinn í Reykjavík héraðsdóminn (Einn dómari var á móti L.E.Sveinbjörnsson)

Lefolii skaut máli sínu til hæstaréttar í Kaupmannahöfn og var dæmt í málinu veturinn 1890 og var þeim kaupmönnum Guðmundi og Einari bannað að halda áfram að leggja festar sínar.

Þetta mál fór brátt úr því að vera einkamál þeirra Lefoliis, Guðmundar og Einars í það að verða eitt brýnasta hagsmuna og velferðarmál Sunnlendinga og landsins alls í þeirri viðleitni að auka samkeppni og frelsi í viðskiptum.

Heimild: Lögberg (júli 1891)

11.01.2009 21:27

Bræðrafélagið Eyrarrós

Bindindisfélagið Eyrarrós var stofnað árið 1885 af Bjarna Pálssyni organista frá Götu, en formaður þess var Sigurður Eiríksson-regluboði. Félag þetta náði allmiklum viðgangi þar til vorið 1886 að hugmyndir urðu um að gera það að Good-Temlarastúku en félagsmenn voru þá orðnir um hundrað talsins. Þessar hugmyndir hlutu ekki góðan róm meðal flestra félagsmanna, enda fór það svo að þorri þeirra gekk úr bindindi. Það urðu því aðeins fáeinir sem gengu í nýstofnaða Good-Temlara-Reglu. Haustið 1886 voru aðeins 17 meðlimir eftir í Bræðrafélaginu, en félagið náði þó að rétta úr kútnum og árið 1887 höfðu félagsmönnum fjölgað og taldi félagið þá 80 meðlimi.

 

Þá um haustið byggði félagið samkomuhús sem var 12 álnir að lengd og 8 álnir að breidd og 4 álnir til lofts. Þrír gluggar voru á húsinu og var það allt járnklætt og kostaði það fullfrágengið 800 kr. Hús þetta gekk svo lengi undir nafninu Bræðrafélagshús og var fyrsta félagsheimili Eyrbekkinga.

Heimild:Íslenski good-templar 01.10.1987
 

06.01.2009 23:55

Gvendargrös

Chondrus Crispus Seaweed - source www.algaebase.orgGvendargras (Chondrus crispus) er sæjurt sem talsvert var höfð til matar fyrr á öldum og kom þessi jurt næst á eftir söl að vinsældum. Jurtin líkist fjallagrösum sem kölluð voru "Klóung". Sala á Gvendargrasi var einungis stunduð á Eyrarbakka en hún vex líka við Vestmannaeyjar og var talsvert nýtt af eyjarskeggjum. Þessi grös voru fyrst þurkuð og síðan látin í tunnur og selt þannig. Kostaði hver fjórðungur úr tunnu 5 fiska. Gvendargras gefur hinsvegar ekki hneitu (sykurhúð) eins og sölin. Gvendargrösin voru svo soðin í þykkan límkendan graut sem er síðan lagður í vatn og útbleyttur. Grauturinn var síðan soðin í mjólk með dálitlu mjöli eða bygggrjónum og borðaður með rjóma og þótti góður.

 

Heimild: Íslendingur 1862

16.12.2008 21:49

Vinir í raun

Sjómenn á Eyrarbakka og Stokkseyri þurftu stundum að hleypa út í Þorlákshöfn fyrr á öldum, en þar var þrautalending ef skip lokuðust úti vegna brima. Þann 16.mars árið 1861 leit út fyrir bærilegt sjóveður. Réru þá þau þrjú skip sem gengu frá Eyrarbakka þessa vertíð og flest skip frá Stokkseyri. Þegar skipin voru nýkomin í sátur, hleypti snögglega í svo þvílíkt ofsabrim að skipunum var ómögulegt að ná lendingu, fyrir utan tvö frá Stokkseyri. Fimtán skip sem sátu á miðunum máttu nú hleypa út í Þorlákshöfn í lítt færum sjó, en náðu þó öll happasælli lendingu og aðeins ein ár brotnaði.

 

Vertíðarmenn í Þorlákshöfn brugðust skjótt við að vanda og óðu í sjóinn svo langt sem stætt var til að taka á móti skipunum og hjálpa þeim í lendingu. Skipin voru síðan flutt landveg þá strax um kvöldið og daginn eftir. Skipin voru dregin á ísum, sem þá lágu yfir allt. Margir Þorlákshafnarbúar fylgdu skipunum áleiðis og léttu undir á langri leið til Eyrarbakka og Stokkseyrar.

 

Heimild: Þjóðólfur 29-30 tbl.13.árg.

10.12.2008 21:06

Waldemar

Dæmigerð aldamóta skonnortaKaupskip eitt nefnt Waldemar 70 lestir að stærð strandaði á skeri utan við höfnina í innsiglingunni á Eyrarbakka 14. september árið 1855. Um borð í skipinu voru m.a. um 800 tunnur af matvæum sem skipa átti upp í Eyrarbakkaverslun. Skipið brotnaði í spón áður en tókst að bjarga farminum. Flestar tunnurnar hurfu í hafið en annað ónýttist. Það sem síðar náðist að bjarga úr skipsflakinu var selt á uppboði. Skipsskrokkurinn seldist á 270 ríkisdali, korntunnan á 2 rd, en sykur, kaffi, brennivín og fleyra seldist ærnu verði.

Heimild: Norðri 3.árg. 22.tbl. 1855   

02.12.2008 20:53

Þurrabúðarmenn

Efnahagur þurrabúðarmanna á Eyrarbakka á 18.öld grundvallaðist af fiskveiðum ásamt tilfallandi verkamannavinnu. Fiskveiðarnar voru stundaðar á opnum árabátum og voru tímabundin uppbót á sauðfjárbúskapinn. Bátar og lendingar voru í eigu útvegsbænda og kaupmanna, en vinnuaflið voru vinnumenn leiguliðar. og þurrabúðarmenn. Á þessum tíma var búseta flestra á Bakkanum bundin við vetrarvertíðina, en á sumrin fóru flestir burt í atvinnuleit. Atvinna var af skornum skamti og urðu menn að snapast hingað og þangað eftir kaupavinnu.

 

Verslunin veitti nokkrum hópi vinnu við afermingu vöruskipana og nokkur hópur kvenna og barna hafði vinnu við saltfiskverkun. Karlmenn leituðu stundum alla leið til Reykjavíkur eftir plássi á þilskipum (Kútterum). Á milli vertíða ríkti þó iðulega nokkurt atvinnuleysi meðal þurrabúðarmanna, einkum á haustin og var því eginlega tekið sem sjálfsögðum hlut. Þó fengu alltaf einhverjir að starfa við undirbúning þorskvertíðar með því að dytta að manvirkjum, endurnýja veiðarfæri og áhöld.

 

Skreið var oft gjalmiðill þurrabúðarmanna. Það leiddi til þess að þurrabúðarmenn þurftu oft að versla upp á krít og hélst sá siður meðal almennings á Bakkanum langt eftir 20.öldinni. Í byrjun aldarinnar fór efnahagur þurrabúðarmanna að batna, einkum eftir að fyrstu vélabátarnir komu til sögunar eftir 1904 og aukin landbúnaður. Timburhús komu þá í stað moldarkofanna. Um þetta leiti kom sjómanna og verkamannafélagið Báran til sögunar sem hagsmunasamtök sem styrkti stöðu þeirra gagnvart kaupmönnum og útgerðarmönnum. Félagið kom síðar inn sem sterkur pólitískur þáttakandi í þróun þorpsins.

 

Það sem vó einna þyngst í bættum hag þurrabúðarmanna var þegar Eyrarbakkahreppur keypti land stuttu eftir aldamótin 1900 og bútaði í skika og lagði þeim til leigu. Þurrabúðarmönnum gafst þá tækifæri að koma sér upp smá bústofni og nýttust nú margir moldarkofarnir sem fjárhús eða hlöður. Samtímis tóku þeir að rækta kartöflur með stuðningi verkamannafélagsinns Bárunnar sem reindist þurrabúðarmönnum sterkur bakhjarl.

 

Árið 1900 voru fjölskyldur verkamanna á Eyrarbakka um 75% af heildarfjölda íbúanna, en afgangurinn að mestu fjölskyldur landeigenda og vel stæðra útvegsmanna og kaupmanna, en þau tilheyrðu efri stétt samfélagsins. Danskir verslunarmenn við Lefolii verslun höfðu einnig djúp áhrif á þróun þorpsins, einkum hvað varðar menningu,listir og heilsugæslu og studdu oft dyggilega við hvert framfaraspor á þeim grundvelli. Þessi blanda skóp  samhelt samfélag þar sem allir litu á sig sem eina heild  þ.e.Eyrbekkinga. (Oft nefndir Bakkamenn af nærsveitungum.) Þó átti þorpið til að skiptast á köflum, annarsvegar í Austurbakka þ.e. land Háeyrar og svo hinsvegar í Vesturbakka í landi Skúmstaða, sem var í eigu verslunarinnar. Oft var rígur milli þessara landeigenda vegna deilna sem komu upp varðandi forgang að höfninni. Þá skiptust íbúarnir ósjálfrátt í tvær fylkingar, þ.e. Asturbekkinga og Vesturbekkinga. Þessi rígur hélst langt fram eftir 20 öldinni, meira þó í gamni en alvöru.

Heimild: m.a. Árbók hins íslenska fornleifafélags 1985.

Flettingar í dag: 2108
Gestir í dag: 189
Flettingar í gær: 489
Gestir í gær: 178
Samtals flettingar: 266435
Samtals gestir: 34326
Tölur uppfærðar: 24.11.2024 10:49:47