Flokkur: Sögur
14.11.2007 16:05
Bergþór risi og stafurinn góði.
Í Bláfelli í Biskupstungnaafrétti bjó eitt sinn bergrisi eða jötun sem Bergþór hét og er hann sá sem getið er í Ármannssögu og glímdi við Orm Stórólfsson en þar segir frá leikum, sem fóru fram á Hofmannaflöt, þegar helstu tröll landsins hittust þar. Bergþór átti járnsleginn staf mikinn þeirri náttúru gæddum að með honum mátti hola fjöll.
Sú er sögn manna að Bergþór hafi eitt sinn farið í kaupstað suður á Eyrarbakka og keypt þar korntunnu og lagt hana á bak sér og borið hana norður í Bláfell og aðeins hvílt sig tvisvar á leiðinni til þess að fá sér að drekka. Í fyrra sinnið hjá Kolsholtshelli í Flóa og er sagt að hann hafi klappað þar með staf sínum í jörð sem lék þá á skjálfi og hellir myndaðist undir. Í síðara sinnið hvíldi hann sig þar sem er Bergstaðir í Biskupstungum og klappaði með staf sínum svo að ker myndaðist þar í jörðu. þá mælti Bergþór svo fyrir að aldrei mundu vatn og sýra geta þar blandast saman og lagði þau álög að verða muni kúgildisskaði verði kerið egi notað.
Enn er Bergþór á ferð og nú um Hellisheiði þvera og endilanga með stafinn sinn góða og rekur hann níður hvarvetna svo af verða ker er ná niður undir súðir vítis, þaðan sem gufustrókar stíga til himins í þursa líki. það yrði vissulega kúgildisskaði fyrir þjóðina verði þessi orka ekki nýtt, en ekki eru allir samála um þann kost, því gallalaust er það ekki. Af Bergþóri nútímans leggur nefnilega mikinn og kæfandi óþef sem ökumenn um Hellisheiði verða varir við ef vindátt hagar þannig. Þessum óþef valda uppleyst brennisteinsefni svo sem SO2 sem er brennisteinsvetni. Önnur mengun sem kemur af jarðvarmavirkjunum eins og þeim sem nú rísa á Hellisheiði er t.d. arsenikmengun í fljótandi formi. Óvarlegt er að haga málum þannig á 21. öldinni að skaðleg efini berist óhindrað út um borg og bý.
________________________________________________________
Kerið í þjóðsöguni var notað til geyma sýru (mysu), og varð að passa að vatn kæmist ekki í kerið og blandaðist við sýruna því þá fraus hún. Ekki má vanrækja að setja sýru í kerið því þá verða einhver óhöpp. Það hefur aðeins gerst þrisvar sinnum á síðustu árum. Í öll skiptin hefur bóndinn á Bergstöðum misst eitthvað af búfé sínu.
Í gamla daga var vinsælt að blanda mysu saman við vatn, og varð þá til svaladrykkur sem kallaðist sýra og þótti bara góður, en annars var mysan notuð til að geima matvæli og kallaðist það súrmatur.
Sagt var að hrigurinn úr staf Bergþórs hafi verið settur á kirkjuhurðina í Haukdal eftir hans dag.
Heimild:Þjóðólfur 33.árg 1881. Heimskringla.no
Aðra sögu af Bergþóri risa má finna á http://www.nat.is/Kirkjur/Kirkjur%20SL%20haukadalskirkja.htm
09.06.2007 21:38
Ískyggilegt veður!
Fimtudagurinn 29.mars árið1883 lögðu menn á sjóinn eins og endranær þegar færi gafst á vetrarvertíðum. Að morgni þessa svala vetrardags var kafalds fjúk en þó hægur norðan kaldi og laust við brim. Staðkunnugir töldu þó að horfurnar væru heldur ískyggilegar. En þrátt fyrir það létu formenn á Bakkanum kalla vermenn sína til skips. Þá var einnig róið í öðrum verstöðvum í nágreninu þennan dag, svo sem Þorlákshöfn,Selvogi og Herdísarvík.
Um kl 11 um morguninn tók hann að hvessa og að lítilli stundu liðinni gerði blindbil,svo varla sást handa skil. Voru þá nær allir formenn rónir héðan af Eyrarbakka öðru sinni. Þó náðu flestir landi eftir kl 2 e.h. Siðasta skipið sem náði landi þennan dag lenti kl 4 e.h. en tvö skip náðu ekki lendingu fyrr en kl 10 að mogni næsta dags.Voru þá mennirnir aðfram komnir af þreitu, kulda og vosbúð en allir á lífi þó sumir væri lítið eitt kalnir. Mennirnir höfðu þá barist gegn veðrinu og snjóbilnum í nær sólarhring sleitulaust þar til veður tók að ganga niður.
Í Þorlákshöfn náðu allir landi nema tvö skip sem voru talin af þar sem ekkert hafði spurst til þeirra næstu daga á eftir. Formenn þessara skipa voru Ólafur bóndi Jóhannesson frá Dísarstöðum í Flóa og Þorkell Þorkelsson frá Óseyrarnesi báðir miklir efnismenn til sjós og lands.
Ólafur hafði fiskað vel um morguninn (39 í hlut) en hafði síðan róið öðru sinni þann dag. Á skipi Ólafs voru 15 menn að honum meðtöldum en á skipi Þorkells voru mennirnir 14 eða samtals 29 sem saknað var. Veðrið var svo mikið að í landi var ekki stætt og má því leiða að því líkum að vindhraðinn hafi verið vel yfir 25 m/s eða nærri 30m/s auk þess sem snjóbilurinn var það mikill að ekki hafi sést milli húsa.
Frá Herdísarvík hafði frést að eitt skip hafði brotnað þar í lendingu en allir komist af þrátt fyrir veðurhaminn. Í þessu sama veðri varð unglingspiltur úti frá Hróaskeldu í Villingaholti er hann ætlaði til sauðahúsa og einig kona frá Seli í Stokkseyrarhreppi. Því má ætla að töluvert frost hafi verið þennan dag og vindkæling mikil.
Eyrbekkingar þóttust heppnir að hafa heimt áhafnir sínar úr helju þennan dag, því nokkru áður eða 9.mars fórst skip 10 manna far af Eyrarbakka í miklu brimi þá er þeir voru að koma úr róðri og fóru allir í sjóinn en 5 mönnum tókst að bjarga í land. Þetta var skip Sigurðar Gamalíusonar frá Eyfakoti og fórst hann ásamt fjórum hásetum sínum,allt giftir menn nema einn. Skipið sjálft brotnaði í spón og tapaðist með öllu.
Nokkrum vikum eftir þennan stormasama dag rak flösku á land er kastað hafði verið í sjó frá Vestmannaeyjum og í flöskunni var bréf þar sem tekið var fram að þeim Þorkeli og Ólafi hafi verið bjargað ásamt mönnum sínum um borð í franska skútu úti á regin hafi og verið settir í land í Vestmannaeyjum. Skip þeirra félaga sem voru nánast ný og smíðuð á Eyrarbakka fundust síðan þann 4 apríl molbrotin á Staðarfjörum við Grindavík.
Vermenn á Eyrarbakka sátu oft við þröngann kost í gamladaga, en þó höfðu þeir sem réru hjá Torfa Sigurðsyni í Norðurbæ nokkur hlunnindi umfram aðra vermenn á Bakkanum. Torfi var formaður á skipi sem Peter Nielsen faktor í Húsinu átti og útvegaði hann vermönnum er réru hjá Torfa brauðið frítt. Aðrir vermenn sáu sér fljótt leik á borði þegar lítið var um brauð og þóttust róa hjá Torfa þegar þeir komu í Vesturbúðina til innkaupa. Svarði þá Nielsen einnat á þessa leið, " Ja först du róer hjá Torfur so skal du ha bröd"
08.12.2006 11:57
Þá kom stormsveipur á Bakkann.
Það var í fréttum á dögunum að stormsveipur eða skýstrokkur hafi valdið talsverðu tjóni í London. Þetta fyrirbæri er ekki algengt á þessum slóðum en er þó árlegt veðrabrygði einhverstaðar á Bretlandseyjum. Árið 1950 var skýstrokkur 2 mönnum að bana á suður Englandi. Þetta fyrirbæri er þó mun algengara á sléttum norður Ameríku og geta orðið gríðar öflugir og valdið skelfilegu tjóni. Saga sem ég heyrði fyrir magt lögu segir frá skýstrokk, en að vísu ekki ýkja stór, sem kom á Eyrarbakka einhverntíman fyrir miðja síðustu öld. Það var þannig að þrír menn voru staddir í sjógarðshliði við Vesturbúðirnar þegar skýstrokkurinn kom austur með fjörunni og sogaði upp mikið af sandi og var kolsvartur ásýndum. Mennirnir í hliðinu höfðu aldrei séð því líkt áður og töldu sjálfan djöfulinn vera þar á ferð, tveir mannana ákváðu að forða sér í skindingu en þriðji maðurinn sagðist ekki óttast djöfulinn. Þega skýstrokkurinn var kominn á móts við sjógarðshliðið breytti hann skindilega um stefnu og æddi upp um hliðið og tók þar með sér manninn sem þar stóð og lyfti honum upp frá jörðu. Maðurinn snerist þar í ótal hringi í lausu lofti þá ca. 50 metra sem skýstrokkurinn dró hann áður en fyrirbærið sleppti af honum taki. Maðurinn sem í þessu lenti varð aldrei samur eftir og átti aldrei síðan eftir að mæla nokkurt orð af vörum eftir þessa reynslu.