Flokkur: Bátar

24.03.2010 22:51

Gufubáturinn s/s Njáll

Eftir að Eyrarbakkaverslun missti strandferðabátin Odd upp í Grindavíkurfjöru 1904 var þegar hafist handa við að útvega nýjan gufubát og árið eftir var keyptur bátur frá Leith í Skotlandi og fékk hann nafnið Njáll. Hann var 21.47 lestir nettó, eða nokkru stærri en Oddur og með gufuvél. Njáll kom í fyrsta sinn til Eyrarbakka 30. apríl 1905 og hóf fljótlega að vinna sömu störf og Oddur, þ.e.a. sinna strandsiglingum og aðstoða kaupskipin á Eyrarbakka. Hann sleit frá legufærum sínum ( Miðlegan svokölluð) á Eyrarbakkahöfn 13. sept. 1906 í suðaustan stórviðri og hafróti. Svo flóðhátt var, að hann barst yfir öll sker án þess að koma við, og kom heill upp í sand með fulla lestina af rúgmjöli, sem hann hafði komið með frá Reykjavík daginn áður og var því öllu skipað á land. Aðrir bátar skemdust mikið á Eyrarbakka í þessu veðri. 13 opin skip kvað hafa brotnað þar auk skútu sem var með vörur til Ólafs Árnasonar kaupmanns á Stokkseyri. Næsta vor náðist Njáll á flot, en ekki varð meira úr strandferðum hans, en í staðinn var keyptur mótorbátur, sem hét "Hjálpari".

Skipstjórinn á Njáli var danskur, og þótti að mörgu leyti góður drengur og prúðmenni, en vínhneigður um of. Stýrimaðurinn var Sigurjón P. Jónsson, duglegur og góður drengur fæddur og uppalinn á Eyrarbakka, en hafði verið í siglingum erlendis, og lokið þar stýrimannsprófi. (Sigurjón var síðar vel þekktur, sem skipstjóri á flóabátnum "Ingólfi"). Á skipinu var, auk skipstjóra og stýrimanns, 10 manna áhöfn: 4 Danir og 6 Eyrbekkingar, meðal þeirra Jón Sigurðsson síðar hafnsögumaður, og Jóhann Guðmundsson frá Gamlahrauni og Sigurður Þorsteinsson frá Flóagafli.
 
Heimild: Ingólfur 4.tbl 1906  Ísafold , 59. tbl. 1906  Sjómannablaðið Vikingur (Sigurður Guðjónsson Litlu Háeyri.) Á sjó og landi- Tímagreinar eftir Sigurður Þorsteinsson.

21.03.2010 00:42

Bakka-Oddur

Einarshöfn Eyrarbakka
Strandferðabátar Lefolii verslunar voru í þessari röð: "Skjöldur" gufubátur í notkun um og eftir 1884. "Den Lille"  frá 1889 og var skipstjóri á honum Bjarni Elíasson. "Oddur" gufubátur um og eftir 1895 og var dani
Theilland Hansen að nafni skipstjóri á Oddi. "Njáll" einig gufubátur í notkun frá 1905 og til ársins 1906 er hann strandaði á Eyrarbakka. "Hjálparinn" vélbátur tekinn í notkun 1907 og var skipstjóri lengst af Jón Sigurðsson í Túni. Þessir bátar sigldu á flestar nálægar hafnir, svo sem  til Þorlákshafnar, Grindavíkur, Hafnarfjarðar, Keflavíkur, Þórshafnar, Sandgerði og Reykjavíkur venjulega einu sinni í mánuði yfir sumarið. Þess utan var siglt til Stokkseyrar, Landeyjar (Hallgeirseyjar), Vestmannaeyja, Þorlákshafnar, Selvogs og Grindavíkur þegar svo bar undir. Stundum var siglt undir Eyjafjallasand (Holltsvör) Víkur í Mýrdal, Loftstaða, Gaðs, Hafnarleirs og jafnvel til Borgarness. Voru ferðir þessar eftir samningi við Sýslunefndir og jafnan auglýstar í dagblöðum. Ferðir þessar hafa örugglega skipt miklu máli fyrir veglausar byggðir Suðurlands á sínum tíma.

Gufubátnum Oddi á

ég mun héðan flakka,

þegar kæri knörrinn sá

kemur frá Eyrarbakka.

(Jón Þórðarson Fljótshlíðarskáld)

Oddur LBHCOddur var 35-40 tonn að stærð. Hann var talinn ágætis sjóskip og vel gerður að lagi. Skipstjóri á Oddi var danskur maður, Theilland Hansen, sömuleiðis vélstjórinn. Hásetar voru fjórir, allt íslendingar. Helsta verkefni bátsins var að aðstoða seglskipin sem athöfnuðu sig á Einarshöfn. Ferðalög með Oddi þóttu spennandi fyrir almenning sem gáfu sig oft til vinnu við uppskipun á salti út á verstöðvarnar. Eitt af mörgum verkefnum bátsins var að sækja skreið og herta þorskhausa til umboðsmanns verslunarinnar í Grindavík. Lefolii átti hús í Grindavík sem kallað var "Anleggshús" sem var vörugeymsla þar, en auk þess flutti báturinn salt og matvæli til vertíðarmanna. Í þessa ferð fór Oddur venjulega um lokin (Vertíðarlok 11. maí) og svo aftur á haustin. Með Oddi fóru einnig vertíðarmenn austan úr Árnessýslu. Í síðustu strandferð sinni haustið (9. nóvember) 1904 var Oddur á leið til Hafnafjarðar með viðkomu í Grindavík, en um þá ferð ritaði sr. Gísli Brynjólfsson frá Járngerðarstöðum í sjómannablaðið Víking:
 

"Veður var gott þegar báturinn kom, en þegar hann var nýlagstur gerði suðaustan rok og svo vondan sjó að báðar akkeriskeðjurnar slitnuðu. Var þá ekki að sökum að spyrja. Odd rak á land. En svo happalega vildi til, að hann komst yfir alla fjöru og lenti uppí kampi lítið brotinn og allir mennirnir komust í land óhraktir. En svo fór, að sjórinn braut hann að nokkru. Var hann svo rifinn og fluttur um borð í þýzka skonnortu, sem "Minna" hét, sem var að taka annað brotajárn til útflutnings. En nú tókst svo illa til, að nokkru eftir að Oddur var allur kominn þar í lest sem brotajárn, að aftur gerði versta veður. Þá sleit "Minnu upp og rak hana á land, einmitt í lendingunni í Járngerðarstaðahverfi. Varð þá Odddur strand í annað sinn. Og enn var hann fluttur út ásamt því skipi, sem áður hafði hann í lest sinni. Svo að ekki verður annað sagt en að örlög Bakka-Odds hafi orðið allsöguleg áður en lauk".

Heimild: Sjómannablaðið Vikingur 6.tbl.1972 sr.Gísli Brynjólfsson. -10.tbl 1972 Sigurður Guðjónsson Litlu Háeyri. Þjóðólfur 22.tbl. 1895

18.03.2010 22:05

M/b Hjálparinn - framhald

HjálparinnÞað vildi svo til á fyrstu árum vélbátanna að fiskurinn færðist mjög vestur á bóginn frá veiðistöðvum austanfjalls, svo ekki var fisk að fá fyrr en á miðum Þorlákshafnarmanna. Var það illmögulegt fyrir Eyrbekkinga og Stokkseyringa að eltast við hann vestur í Háaleitisforir og vestur undir Selvog og alveg útilokað fyrir áraskipin. Aðeins þeir vélbátar sem komnir voru til sögunnar höfðu aðstöðu til þess að elta fiskigönguna. Þegar fram á vertíðina kom, var gripið til þess ráðs, að láta mótorbátana draga árabátana vestur í Hafnarsjó. Þetta gafst vel, þegar tíð var góð, en þó var ýmislegt sem erfiðleikum olli. Það kom því til kasta Hjálparans að draga áraskipin vestur í sjó. Hann var venjulega með tvö og stundum þrjú skip í togi og lónaði hjá þeim meðan þau drógu net sín og athöfnuðu sig á miðunum. Þetta verkefni hafði hann í nokkrar vertíðir, en fór svo þverrandi eftir því sem vélabátum fjölgaði, og svo kom að því að engin áraskip voru eftir til að draga, því vélvæðingin varð algjör á fáum árum. Nokkur seglbúnaður var hafður á öllum vélbátum fyrsta kastið. Hjálparinn hafði upphaflega stórsegl og aftursegl, stagfokku og klýfir. Menn þurftu oft að grípa til þeirra, þótt það færi minnkandi er stundir liðu og vélar urðu fullkomnari. Hjálparinn gengdi líka mikilvægu hlutverki í samgöngum milli lands og Eyja, en hann gat tekið allt að 14 farþega í ferð.

Hjálparinn eftir breytinguVerslun Lefoliis, var seld 1919 kaupfélaginu Heklu, sem um nokkur ár hafði líka starfað á Eyrarbakka. Hún fékk sér stærri bát, sem henta þótti betur til þessarra flutninga. Hjálparinn var nokkru áður seldur til Vestmannaeyja þar sem honum var breytt í fiskibát. Á hann var sett stýrishús og aftursiglan tekin niður. Þá fékk hann stærri vél. Eigendur þar voru Lárus Halldórsson á Velli, að hálfu, Guðmundur Gíslason Vilborgarstöðum, að einum fjórða, og Bryngeir Torfason Búastöðum, frá Söndu á Stokkseyri, að fjórða parti. Bryngeir var formaður á bátnum fimm fyrstu árin, sem hann gekk frá Eyjum og fiskaði vel. Ýmsir fleiri voru formenn á honum. Sá sem lengst var með hann var Þórður Þórðarson á Sléttabóli, alls átta vertíðir samfleytt. Frá Eyjum var báturinn seldur til Djúpavogs. Ekki er vitað hver varð eigandi hans þar, né heldur hve lengi hann var þar, en nokkru síðar barst hann til Færeyja, en þar fennir yfir sporin.
Hjálparinn ()

Heimild: Skeggi 51 tbl. 1918 Sjómannablaðið Víkingur 2.tbl.1980- Sigurður Guðjónsson Litlu Háeyri.

16.03.2010 23:43

Hjálparinn

Dráttarbáturinn Hjálparinn EyrarbakkaHinum óar útá sjó,

ýtir Jóhann djarfur nóg,

aflakló um ýsumó

aldrei þó hann bresti ró.

Hafs um leiðir Hjálparinn

hraður skeiðar vélknúinn.

Hrannir freyða um hástokkinn,

hvín í reiða stormurinn.

M/b Hjálparinn var 13,20 tonn, byggður á Borgmundarhólmi og seldur, þá nýr árið1907 til Lefolii verslunar á Eyrarbakka. Vélin var af gerðinni Alfa 16-20 hestafla lágþrýstivél. Hlutverk hans var að vera lóðsbátur og til aðstoðar kaupskipunum sem þurftu að athafna sig á Einarshöfn. Þar að auki var Hjálparinn hafður til flutninga til næstu verstöðva svo sem  með salt og annan varning til Vestmannaeyja og Grindavíkur. Áður höfðu tveir gufubátar gengt þessu starfi. Annar var M/S Njáll, en hann slitnaði af legufærum sínum í sunnan fárviðri og rak á land, en þó án þess að brotna og náðist hann á flot vorið eftir. Á undan Njáli var gufuvélbáturinn Oddur við þessi störf til fjölda ára, en hann rak á land í Grindavík árið 1904. Þar var hann að losa vörur frá Eyrarbakka, en átti að því loknu að halda til Reykjavíkur og hafa þar vetursetu.

Verkafólk á Eyrarbakka með sekki úr vöruskipunumÞó Hjálparinn væri minni en fyrirrennarar hans og vélarafl takmarkað, þá reyndist hann furðu vel. Í hjáverkum átti Hjálparinn að stunda fiskveiðar í þorskanet, sem þá voru svo til ný af nálinni, en þegar fram liðu stundir var lítið úr fiskveiðum sökum anna. Á haustinn var Hjálparinn tekinn upp í Skúmstaðalendingu, en þar hafði verið komið fyrir dráttarbraut og gangspili og dráttarbáturinn látinn standa þar inn af sjógaðshliði fram á næstu vertíð.

Þeir sem sigldu Hjálparanum heim frá Borgmundarhólmi þann 18. maí 1907 voru: Sigurjón P Jónsson skipstjóri frá Skúmstöðum, Friðrik Bjarnason og  Vilhelm Jakop Andeas Olsen, vélamaður frá Fredrikshavn og komu þeir til Eyrarbakka 13.júní og unnu þeir á skipinu það árið, en síðasta kaupskip héðan þá um haustið var skonnortan "Svend".

Næsta ár var formaður á Hjálparanum, Jón Sigurðsson í Túni (Síðar Melshúsi) og vélstjóri var Brynjólfur Vigfússon í Mekisteini, en til skams tíma var Jóhann Bjarnason í Einarshöfn með bátinn og eru formannsvísur hans hér að ofan kveðnar á vertíð 1914. Af öðru tilefni kvað Magnús Teitsson þessa vísu:

VerslunarhúsinHjálparinn um fiskafrón

flytur drengi ósjúka.

Buddunum hann Brennu-Jón

biður upp að ljúka.

Tilefnið var að ferjutollur var rukkaður af farþegum með Hjálparanum til og frá Þorlákshöfn og sá um það Jón Ásbjörnsson í Brennu. Tollinum var síðan skilað til ferjubóndans í Óseyrarnesi. Þegar styrjöldin skall á 1914-1916 voru siglingar frá útlöndum aðeins heimilar á ákveðnar tollhafnir og var ákveðið að Reykjavík yrði tollhöfn fyrir Suðurland og lögðust þá Eyrarbakkasiglingar af. Hjálparinn var of lítill til að sinna strandsiglingum með vörur frá Reykjavík og var hann því seldur til Vestmannaeyja til fiskiveiða. Í stríðslok höfðu þau stakkaskipti orðið að Reykjavík hafði alfarið tekið við því hlutverki sem Eyrarbakki hafði áður sem höfuðstaður verslunar og menningar og þess skamt að bíða að saga Eyrarbakkaverslunar tæki enda.

Meira: Brimbarinn

Heimild: Sjómannablaðið Víkingur 2.tbl.1980- Sigurður Guðjónsson Litlu Háeyri.
Þennan dag:1764 Konungsveiting: Þorleifur Nikulásson á Eyrarbakka sótti um til konungs að verða vicelögmaður. 1972 Flæddi inn úr sjógarðshliðum. 1986 100 ára afmælisminning Guðmundu Nílsen í kirkjunni. 1987 Vetur gengur í garð.

04.01.2010 22:36

Skúta í hrakningum

Þýska skútan VikingAð kvöldi þjóðhátíðardagsins 17. júní 1961 urðu menn á Eyrarbakka þess varir að skúta nokkur var að hrekjast upp í skerjagarðinn. Áhöfn skútunnar skaut upp neyðarblysum og virtust mönnum líklegast að hún myndi stranda. Skipverjar skútunnar töldu að þeir gætu siglt inn til hafnar á Eyrarbakka, en var alls ókunnugt um siglingaleiðina auk þess sem ekki var mögulegt fyrir hana að leggjast við bryggju. Skipstjórarnir Sigurður Guðmundsson og Sigurður Guðjónsson fóru út á fiskibátnum Birninum ásamt nokkrum öðrum til móts viðÁhöfnin á Viking fá A-Berlín skútuna og lóðsuðu hana til Þorlákshafnar þar sem hafnarskilyrði voru betri. Skútan var á leið til Reykjavíkur en varð að snúa við út af Reykjanesi vegna veðurs.

Hér var um að ræða 15 lesta þýska skútu búna hjálparmótor. Hún var frá Austur Berlín og bar nafnið Viking. Áhöfnin var að æfa sig undir kappsiglingu á Atlantshafi, en þetta fólk 6 karlar og ein kona voru meðlimir siglingaklúbbs í A Berlín. Leið þeirra lá þaðan til Hamborgar og síðan Færeyjar og lentu þau síðan í hrakningum í brimgarðinum vegna óhagstæðra vinda. Skútan komst síðan til Reykjavíkur 24 júní. Þetta var í fyrsta skipti sem skútunni var lagt á Atlantshaf.

Heimild: Alþýðubl.136-139 tbl. og Morgunbl.135.tbl

Þennan dag: 1965 var mikil ófærð í þorpinu vegna snjóa.

11.12.2008 21:12

Olaf Rye

Tilbúin myndSkonnortan Olaf Rye var í eigu Eyrarbakkaverslunar og var hið vandaðast og besta skip og taldist með stærri skipum er hingað komu. Í oktober 1859 átti það að losa stóran kornfarm og aðrar nauðsynjar á Eyrarbakka. Skipið komst þó ekki inn í höfnina, líklega vegna brims og var því siglt til Hafnafjarðar, en þar átti Leofolii einnig verslun Levinsens. Þegar skipið hafði verið losað þessum varningi, þá var það lestað salti sem átti að sigla með til Njarðvíkur. Þegar til Njarðvíkur kom lenti skipið í norðan fárviðri og fórst. Hafnfyrðingum skorti hinsvegar ekki kornvöru þennan veturinn, en aðra sögu er að segja veturinn 1861.

Þann 1.oktober 1861 strandaði stórt verslunarskip        sem legið hafði á ytrilegunni á Eyrarbakka. Lokið var við uppskipun þegar atburðurinn gerðist. Skipið hafði flutt 900 tunnur af matvælum auk annars varnings til Eyrarbakkaverslunar. Skipið átti síðan að halda til Hafnafjarðar með 150 tunnur af matvælum til verslunar Levinsens en þar var þá orðið kornlaust, sem og í Reykjavík. Á Bakkanum hafði skipið auk þess verið lestað 70 skipspundum af saltfiski og fáeinum sekkjum af ull þegar það slitnaði upp af ytrilegunni sem jafnan hefur verið talin ótraust, en annað var ekki í boði þar sem á innri legunni lá jaktskip sem verið var að lesta nautakjöti til útflutnings, en það var nýmæli hér á landi, sem verslunarstjóri Thorgrímssen stóð fyrir. Skipið brotnaði í spón og sökk að hluta. Allir menn björguðust, en þetta var 4 vöruskipið sem ferst á Eyrarbakka frá árinu 1846.

Heimild. Þjóðólfur og Íslendingur 1859 og 1861.

10.12.2008 21:06

Waldemar

Dæmigerð aldamóta skonnortaKaupskip eitt nefnt Waldemar 70 lestir að stærð strandaði á skeri utan við höfnina í innsiglingunni á Eyrarbakka 14. september árið 1855. Um borð í skipinu voru m.a. um 800 tunnur af matvæum sem skipa átti upp í Eyrarbakkaverslun. Skipið brotnaði í spón áður en tókst að bjarga farminum. Flestar tunnurnar hurfu í hafið en annað ónýttist. Það sem síðar náðist að bjarga úr skipsflakinu var selt á uppboði. Skipsskrokkurinn seldist á 270 ríkisdali, korntunnan á 2 rd, en sykur, kaffi, brennivín og fleyra seldist ærnu verði.

Heimild: Norðri 3.árg. 22.tbl. 1855   

09.05.2008 10:42

Á strandstað.


Fjalar ÁR 22 á Strandstað við höfnina í febrúar 1969 ,vélin drap á sér því fór sem fór. Engan mann sakaði. Fjalar var 49 tonna eikarbátur smíðaður í Svíþjóð 1955
Mynd: Ólafur Ragnarsson.

12.03.2008 20:35

Bátar í fjöru


þessi bátur ber einkennisstafina ÁR 24 -sjá comment Jóhann Þorkelsson ÁR 24-

(Stundum kom það fyrir að bátar slitnuðu upp eða strönduðu í fjörunni. Sumum tókst að bjarga en aðrir enduðu ævi sína í fjöruborðinu eins og  t.d. Jón Helgason  sem var að koma úr slipnum og strandaði á leið á leguna.)


Fjalar hét þessi bátur og strandaði hann skamt frá landi vestan hafnarinnar í febrúar 1969. (Vélin hafði bilað á ögurstund og því fór sem fór). Áhöfninni var bjargað í land af björgunarsveitinni Björg og var notuð til þess björgunarlína og "stóll". Nokrir létu sig þó reka í land á gúmmítuðru enda var veður gott. Þegar fjaraði undan komu í ljós nokkrar skemdir og var því ákveðið að draga skipið upp í fjöru og gera við það þar eins og sést á myndinni. Fjalar var svo sjósettur á ný á sjómannadaginn og tókst sú aðgerð giftusamlega. Báturinn var settur á tvo 20 hjóla vagna sem hengdir voru á tvo öfluga trukka, sem einnig nutu dyggrar aðstoðar jarðýtu. Síðan var ekið með bátinn út í sjó og þess beðið að félli að þar til sjálft hafið  lyfti skipinu af vögnunum.

Flettingar í dag: 2163
Gestir í dag: 191
Flettingar í gær: 489
Gestir í gær: 178
Samtals flettingar: 266490
Samtals gestir: 34328
Tölur uppfærðar: 24.11.2024 11:10:52