Flokkur: Fréttir

01.09.2019 22:42

Fornleifar á Eyrarbakka

Búðir norskra kaupmanna stóðu í landi Einarshafnar frá árinu 1316. á svipuðum slóðum og Sundvörðurnar nú og kölluðust "Rauðubúðir" manna á meðal. Nokkrum áratugum síðar leggst Ísland undir danskt konungsvald (1380). Um aldamótin 1500 var byggt þar stórt geymsluhús og baðstofa úr timbri. Stóð það á hnéháum stöplum. Öld síðar hófst einokunarverslunin á Íslandi. [https://is.wikipedia.org/wiki/Einokunarverslunin ]Einarshöfn fór illa í stóraflóði 1653 og voru bæir og verslunarhús flutt á Skúmstaðahorn. Hús þau hétu síðan Vesturbúðir. Síðan sumarið 2017 hefur verið grafið þar eftir fornminjum og nú síðast í sumar. Þau hús sem þar stóðu síðast voru byggð á árunum 1750 til 1892. Húsin komust síðar í eigu kaupfélags Árnessinga og voru rifin 1959 og var efnið flutt til Þorlákshafna, þar sem kaupfélagið byggði fiskverkunarhús úr efniviðnum, sem síðar brann.

Sjá: Húsbrot og rupl í Rauðubúð

Sjá: Haust

Sjá: Í minningu Vesturbúðanna

21.06.2015 17:07

Jónsmessuhátíðin, miðsumarhátíð Eyrbekkinga

Jónsmessuhátíðin á Eyrarbakka, sú 16. í röðinni var haldinn á laugardaginn. Hefur að mestu sami hópur staðið að hátíðinni allt frá upphafi. Dagskráin var fjölbreytt að vanda og fór fram víða í þorpinu, sem var allt skreytt í bak og fyrir, hvert hverfi með sínum lit. Stemmingin náði hámarki við Jónsmessubálið í blíðskaparveðri, eins og verið hefur alla tíð frá þeirri stund sem bálið er tendrað. Bakkabandið hélt uppi miklu fjöri og spilaði fjölmörg kunn alþýðulög auk þess sem frumflutt var nýtt "Eyrarbakkalag" þeirra félaga. Hátíðinni lauk síðan með stórdansleik í gamla Frystihúsinu. Hátíðin fór vel fram í alla staði og aðsókn góð.


07.06.2015 22:39

Sjómannadagurinn

Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur á Bakkanum sem víðar í sjávarbyggðum. Dagskráin hófst með dorgveiði við bryggjuna, Þá kom þyrla Gæslunnar í heimsókn. Sjómannamessa var í kirkjunni og sjómannadagskaffi var í boði á Stað. Þar voru einnig vígð brimflöggin sem nýlega voru sett upp við Sjógarðshliðið og ný tæki björgunarsveitarinnar hlutu einig vígsluathöfn á svæðinu. Þá var siglt um höfnina á hraðbátum björgunarsveitarinnar og er myndin hér að ofan tekin af nýjasta hraðbátnum þjóta með sjómenn framtíðarinnar um sundin blá.

26.05.2015 23:01

Flaggað frá

Nýlega var endurreist sundvarða með brimflöggum við sjógarðshliðið á Vesturbúðarhól. Að þessu verkefni stóðu Sigeir Ingólfsson Staðarhaldari, sölvabóndi og lóðs ásamt alþýðuvinum. Þegar Vesturbúðin var rifin 1950 var brimflaggið er hafði haft sitt aðsetur á stafni húsins sett þarna niður. Árið 1960 brotnaði varðan í vitlausu veðri og fór aldrei upp aftur, fyr en nú 55 árum síðar. Síðasti flaggvörður var Kristinn Gunnarsson.

15.03.2015 12:54

Stormar og brim

Veturin hefur verið stormasamur og brælugjarn. Hér er brimið í hámarki eftir síðasta storminn á laugardagsmorgun. Um kl. 10 náði óveðrið hámarki á Bakkanum með vindhraða sem mældist mest 26 m/s og hviður um 38 m/s. Óverulegt tjón varð af veðrinu.

09.08.2014 20:10

Verðlaunagarður

Garðurinn að Hlíðskjálf Eyrarbakka fékk Umhvefisverðlaun sem fegursti garðurinn í Árborg.  Framkvæmdastjóri Árborgar Ásta Stefánsdóttir afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn sem fram fór í stóra tjaldinu á hátíðinni "Sumar á Selfossi" í dag. Garðurinn var opnaður almenningi til sýnis, en þar var einig keramiksýning í tilefni Aldamótahátíðar á Eyrarbakka sem fram fór sama dag. Listakonan Ása Lísbet afhjúpaði leirskúlptúrinn "Fjörulalla" sem þykir hafa nokkuð erotíska tilvitnun. Blíðu veður var á Bakkanum, og mikill fjöldi fólks sótti garðinn heim sem og aðra viðburði Aldamótahátíðarinnar. Haft var á orði að þessi garður væri best varðveitta leyndarmál á Eyrarbakka og e.t.v. einn af leyndardómum Suðurlands. Eigendur Garðsins eru Ása Lísbet Björgvinsdóttir  sem hér er á myndinni og Óðinn Andersen.

Hluti garðsins við Hlíðskjálf.

Skúlptúrverkið "Fjörulalli".

16.09.2013 23:43

Umsáturs ástand

Það má heita að Vesturbakkinn sé undir hernámi þessa daganna. Þó ekki eginlegum her, heldur afturgöngum úr síðari heimstyrjöld sem hafa tekið sér hér bólfestu og berjast nú á banaspjótum við ýmsa uppvakninga. Hin borgaralega lögregla reynir að stemma stigu við þessum óvættum, en fær litlu áorkað, því draugarnir hafa tekið skriðdreka frá sjóminjasafninu trausta taki og valta hér yfir lögguna. Þá er vonandi að þessi draugagangur verði ekki til þess að vekja upp Móra og aðra illvíga drauga. Íbúar götunnar eiga stundum erfitt með að komast leiðar sinnar sökum reimleikanna en njóta þess í stað einhverrar skemtunar af þessu óvenjulega draugastríði.

13.09.2013 15:44

Afturgöngur á Eyrarbakka

Nú standa yfir tökur á kvikmyndinni "Dauður Snjór" (Död sno) sem fjallar um uppvakninga þýskra og rússneskra stríðsárahermanna og eins og sjá má er skriðdreki mættur á svæðið. Undirbúningur fyrir tökur hefur staðið yfir í nokkrar vikur á Garðstúninu.

Þýskar afturgöngur tilbúnar í aksjón.

04.09.2013 19:55

Ingólfur kemur á Eyrarbakka

Húsið "Ingólfur" eitt elsta hús Selfyssinga var flutt til Eyrarbakka í dag. Þó ekki til fastrar búsetu, heldur sem leikmunur í kvikmynd sem verið er að undirbúa tökur á hér á Bakkanum. Ingólfur sómir sér vel hér innan um sína líka, gömlu húsin.


Eins og sjá má er Garðstúnið að verða svolítið þorpslegt.

29.08.2013 00:34

Skólinn lagfærður

Nýtt þakjárn og andyriri byggt við Barnaskólann á Eyrarbakka, en skólinn var settur í síðustu viku.

26.08.2013 22:27

Framkvæmdir við Eyrargötu

Í sumar hefur verið unnið að undirbúningi fyrir nýja gangstétt við Eyrargötu vestan Háeyrarvegar. Hefur sú vinna verið með hléum og mörgum þótt hægt ganga, en nú virðist kominn einhver skriður á verkið, búið að setja niður nýja ljósastaura og langur lagnaskurður hefur verið grafinn og brýr byggðar fyrir hvert hús. Vonandi lýkur verkinu fyrir veturinn.

23.08.2013 17:03

Leikmynd að fæðast

Eins og sjá má er komið heilt hús á Kaupmannstúnið, en það er hluti af leikmynd vegna norsku kvikmyndarinnar "Död snö 2" og væntanlega mun skriðdreki mæta á svæðið þegar tökur hefjast á næstu dögum. Miklar sprengingar og gauragangur munu að sjálfsögðu fylgja, enda um stríðsmynd að ræða og margir drepnir, en bara í þykjustunni.

12.08.2013 11:14

Söguskilti

Skilti með ljósmyndum var nýverið sett upp við Stað á Eyrarbakka og segir þar frá hafnargerð og útgerð á árunum áður. Skiltið var vígt í tengslum við Aldamótahátíðina sem fór fram um liðna helgi. Margt var um að vera á Bakkanum enda viðburðir af ýmsu tagi jafnan á þessari bæjarhátíð sem nú var haldin í fimta sinn.

22.07.2013 20:15

Stríðsmynd tekin upp á Eyrarbakka

Ef öll tilskilin leyfi fást verður Eyrarbakki sögusvið kvikmyndar sem gerist í síðari heimstyrjöldinni. Atburðirnir eiga að gerast í Noregi en hagkvæmara þykir að taka upp meginefni myndarinnar hér á landi. Það er Sagafilm sem stendur að undirbúningi fyrirtækisins með norskum kvikmyndagerðarmönnum sem munu reisa hér allmikið kvikmyndasvið stríðsáranna, og m.a. mun alvöru skriðdreki leika stórt hlutverk á Bakkanum. Áætlað er að tökur muni hefjast í síðari hluta ágúst og standa fram í september. Þess er skemst að minnast að fyrir ári var tekin hér upp að stórum hluta sænsk kvikmynd, en fyrsta kvikmyndaskotið þar sem Eyrarbakki kom við sögu sem sviðsmynd var í íslensku kvikmyndinni Brekkukotsannál á 7. áratugnum. Þorpið og umhverfi þess þykir búa yfir eftirsóknarverðu og jafnvel dularfullu myndrænu sviði, svo hver veit nema "Hollywood" norðursins leynist hér.

04.07.2013 21:06

Bardús á Bakkanum

Aðstöðuhús við tjaldsvæði
Aðstöðuhús rís við Tjaldsvæðið, en björgunarsveitin hefur haft umsjón með því síðustu ár.
Sjógarðsstígur
Göngustíg hafa ungmennin í sumarvinnunni á Eyrarbakka útbúið á Sjógarðinn á milli menningarsetranna "Gónhóls" og "Staðs", en á þeim síðari er Geiri-Staðarhaldari byrjaður á rampi með útsýnispalli uppi á garðinum.
Eyrargata
Gangstéttarlagning sveitarfélagsins er komin af stað á ný þar sem frá var horfið síðasta haust.
Flettingar í dag: 2274
Gestir í dag: 196
Flettingar í gær: 489
Gestir í gær: 178
Samtals flettingar: 266601
Samtals gestir: 34333
Tölur uppfærðar: 24.11.2024 13:06:26